Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-270
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Þinglýsing
- Kyrrsetning
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 20. desember 2018 leita Gárungarnir ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 7. sama mánaðar í málinu nr. 747/2018: Gárungarnir ehf. gegn tollstjóra, á grundvelli 6. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Tollstjóri leggst gegn beiðninni.
Ágreiningur aðila lýtur að lögmæti þinglýsingar á kyrrsetningu sem tollstjóri fékk gerða í tiltekinni fasteign til tryggingar fjárkröfu á hendur nafngreindum manni. Leyfisbeiðandi byggir á því að hann hafi verið þinglýstur eigandi fasteignarinnar þegar endurrit af kyrrsetningargerðinni var móttekið til þinglýsingar, en ekki gerðarþolinn, og krefst því að þinglýsingin verði felld úr gildi og gerðin afmáð úr þinglýsingabók. Í máli sem rekið var samhliða máli þessu í héraði og fyrir Landsrétti, sbr. og umsókn um kæruleyfi nr. 2018-271, var komist að þeirri niðurstöðu að þinglýst eignarheimild leyfisbeiðanda að fasteigninni hafi verið andstæð lögum. Með vísan til þeirrar niðurstöðu höfnuðu héraðsdómur og Landsréttur kröfu leyfisbeiðanda í máli þessu. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi og að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni. Þá vísar hann til þess að málið varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að kæruefnið hafi fordæmisgildi svo einhverju nemi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu greinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.