Hæstiréttur íslands
Mál nr. 385/2013
Lykilorð
- Líkamsárás
|
|
Fimmtudaginn 5. desember 2013. |
|
Nr. 385/2013. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Líkamsárás.
X var ákærður fyrir húsbrot, eignaspjöll og tilraun til manndráps með því að hafa ruðst í heimildarleysi inn á heimili A og veist þar að honum með margvíslegu ofbeldi og að atlögunni lokinni farið um húsnæði A og hent niður ýmsu lauslegu sem við það skemmdist eða ónýttist. Hefði A við atlöguna hlotið heilablæðingu, nefbrot á tveimur stöðum, brot á vanga- og kinnkjálkabeinum, mikið mar á andliti og augum, mörg sár á andliti, sár aftan á baki, mar á baki og brjóstkassa og tvö rifbeinsbrot. X játaði að hafa brotist inn hjá A og að hafa gengið í skrokk á honum en neitaði að hafa ætlað að valda honum bana. Héraðsdómur taldi að gegn neitun X væri ekki sannað að hann hefði á verknaðarstundu haft ásetning til að bana A eða að honum hefði hlotið að vera ljóst að bani kynni að hljótast af atlögunni. Á hinn bóginn væri komin fram sönnun um að X hefði gerst sekur um alvarlega og sérstaklega hættulega líkamsárás og var háttsemi hans því felld undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá vísaði héraðsdómur til þess að þegar málið var höfðað hefði ekki legið fyrir kæra eða refsikrafa af hálfu A vegna húsbrots og eignarspjalla. Hefðu því skilyrði brostið til saksóknar fyrir brot gegn 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Taldi héraðsdómur refsingu X hæfilega ákveðna fangelsi í 3 ár og 6 mánuði. Fyrir Hæstarétti féll ákæruvaldið frá kröfu sinni um að X yrði sakfelldur fyrir húsbrot, og eignaspjöll, enda hafði niðurstaða héraðsdóms um frávísun þessara ákæruþátta ekki verið kærð sérstaklega til Hæstaréttar, sbr. 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að X hefði gerst sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás samkvæmt 2 .mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Að teknu tilliti til 60. gr., 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga og m.a. með vísan til þess að árás X hefði verið fólskuleg og sérstaklega hrottaleg og framin í hefndarhug vegna gamalla ætlaðra brota A var refsing hans ákveðin fangelsi í 4 ár og 6 mánuði. Þá var X gert að greiða A skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. maí 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess nú krafist að hann verði sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst þess að brot hans verði fellt undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, refsing hans verði milduð og einkaréttarkrafa lækkuð.
A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 3.669.716 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. febrúar 2012 til 22. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að héraðsdómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu sína.
Með ákæru í máli þessu var ákærði meðal annars sakaður um húsbrot samkvæmt 231. gr. almennra hegningarlaga og eignaspjöll eftir 1. mgr. 257. gr. sömu laga. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti féll ákæruvaldið frá kröfu sinni í greinargerð um sakfellingu fyrir brot gegn framangreindum hegningarlagaákvæðum, enda hafði niðurstaða héraðsdóms um frávísun þessara ákæruþátta ekki verið kærð sérstaklega til Hæstaréttar, sbr. 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Árás ákærða á brotaþola, sem fram fór á heimili þess síðarnefnda honum að óvörum, var fólskuleg og sérstaklega hrottaleg og framin í hefndarhug vegna áratugagamalla ætlaðra brota brotaþola. Áverkar hans af völdum atlögu ákærða voru meðal annars blæðing inn á heila með bjúgmyndun, brot á vanga- og kinnkjálkabeinum, nefbrot, rifbeinsbrot og versnandi heyrn, en auk þess er brotaþoli haldinn verulegum kvíða og mun hafa þurft að yfirgefa heimili sitt af þeim sökum fyrr en ætlað var. Ber nú að taka upp hina níu mánaða skilorðsbundnu refsingu, sem ákærði hlaut með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2012 fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, sem hann framdi í félagi við annan mann. Við ákvörðun refsingar hans verður auk 60. gr og 78. gr. almennra hegningarlaga einnig vísað til 77. gr. sömu laga. Í niðurstöðu héraðsdóms er það meðal annars virt ákærða til refsilækkunar að hann hafi fallist á að greiða „nokkrar bætur“. Ákærði hefur enn engar bætur greitt og getur ætlun hans í þessu efni ekki komið honum til mildunar refsingar. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í fjögur ár og sex mánuði, en til frádráttar komi gæsluvarðhald hans frá 17. til 22. febrúar 2012.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og skaðabætur skulu vera óröskuð um annað en vexti en um þá fer eins og greinir í dómsorði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í fjögur ár og sex mánuði, en frá refsingunni dregst gæsluvarðhald hans frá 17. til 22. febrúar 2012.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði A 1.327.969 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. febrúar 2012 til 22. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 700.633 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Huldu Rósar Rúriksdóttur hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. apríl 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 22. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 29. október 2012, á X, kt. [...], [...];
„fyrir húsbrot, eignarspjöll og tilraun til manndráps, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 10. febrúar 2012, ruðst í heimildarleysi inn á heimili A að [...] á [...], með því að kasta stórum steini í gegnum rúðu vestan megin í húsinu og fara þannig inn í stofu hússins. Þar veittist ákærði með ofbeldi að A, sló og sparkaði í höfuð og búk A, traðkaði á höfði hans, barði hann ítrekað með 15,5 kg þungum stól með fimmarma fæti í líkama og höfuð og sló hann ítrekað í höfuð og andlit með munnhörpu. Að atlögunni lokinni fór ákærði um húsnæðið og henti niður örbylgjuofni, brauðrist, kaffikönnum og ýmsu lauslegu sem við það skemmdist eða ónýttist. Þá henti hann niður byssuskáp sem féll á kommóðu sem brotnaði.
Við atlöguna hlaut A heilablæðingu, nefbrot á tveimur stöðum, brot á vanga- og kinnkjálkabeinum, mikið mar á andliti og augum, mörg sár á andliti, sár aftan á baki, mar á baki og brjóstkassa og tvö rifbeinsbrot hægra megin.
Telst þetta varða við 231. gr., 1. mgr. 257. gr. og 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum kr. 3.669.717 með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. febrúar 2012, til þess er mánuður er liðinn frá því bótakrafan var kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“
I.
Við málflutning áréttaði sækjandi gerðar kröfur og vísaði m.a. til þess að verknaðarlýsing ákæru væri byggð á frumrannsókn lögreglu, þ. á m. vettvangsskoðun, en einnig á tæknirannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og læknisvottorðum. Sækjandi andmælti frávísunarkröfu skipaðs verjanda við aðalmeðferð málsins að því er varðaði húsbrot og eignaspjöll ákærða.
Um málskostnað var af hálfu sækjandans vísað til framlagðs yfirlits, samtals að fjárhæð 99.630 krónur, en að auki vísaði hann til útgjalda sem fallið hefðu til vegna ferðakostnaðar vitnis við aðalmeðferð málsins, 58.750 krónur.
Skipaður réttargæslumaður brotaþola, Sigmundur Guðmundsson héraðsdóms-lögmaður, áréttaði við málflutning efni einkaréttarkröfu og vísaði m.a. til greinargerðar, dagsettrar 7. maí 2012. Hann krafðist hækkunar kröfunnar vegna útlagðs kostnaðar brotaþola, sbr. framlögð vottorð frá Heilsugæslustöðinni á Akureyri, Heilbrigðisstofnun [...] og Sjúkrahúsinu á Akureyri, samtals að fjárhæð 6.996 krónur (500+4.650+1.806 kr.). Að auki krafðist hann hækkunar vegna þjáningabóta brotaþola, sem hann kvað 211.380 krónur í stað 136.584 króna. Var því endanleg fjárkrafa brotaþola 3.751.468 krónur. Réttargæslumaðurinn krafðist að auki hæfilegrar þóknunar vegna starfa sinna og vísaði til tímaskýrslu.
Við þingfestingu málsins viðurkenndi ákærði sakargiftir, að því leyti að hann játaði að hafa veist með ofbeldi að brotaþola á heimili hans að [...] á [...] um miðnættið þann 11. febrúar 2012. Ákærði játaði enn fremur að hafa ruðst í heimildarleysi inn á heimilið og að hafa valdið þar eignaspjöllum.
Fyrir dómi játaði ákærði verknaðarlýsingu ákæru rétta að nokkru. Hann játaði þannig að hafa slegið brotaþola í höfuð og búk, en neitaði að öðru leyti sakargiftum og þar á meðal að hann hefði með athæfi sínu gerst sekur um tilraun til manndráps.
Skipaður verjandi ákærða, Bjarni Hauksson hæstaréttarlögmaður, krafðist við flutning, að ákærða yrði gerð eins væg refsing og lög leyfa, og að gæsluvarðhaldsvist hans yrði að fullu dregin frá dæmdri refsingu. Við flutning andmælti verjandinn því að háttsemi ákærða varðaði við 211. gr., sbr. 20. gr., hegningarlaganna nr. 19, 1940, en vísaði í þess stað til ákvæða 218. gr. sömu laga.
Verjandinn byggði m.a. á því við flutning, að verknaðarlýsing ákæru styddist ekki nægjanlega við gögn, þ. á m. um að ákærði hefði sparkað í brotaþola, traðkað á höfði hans eða barið hann með áhöldum, og krafðist sýknu af þeirri háttsemi. Verjandinn krafðist enn fremur að þeim hluta ákærunnar er lyti að húsbroti og eignaspjöllum yrði vísað frá dómi þar sem málshöfðunarskilyrðum 2. mgr. 242. gr. og 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 væri eigi fullnægt.
Verjandinn vísaði til þess við flutning að ákærði hefði fyrir dómi viðurkennt bótaskyldu sína gagnvart brotaþola. Hann krafðist hins vegar verulegrar lækkunar bótakröfunnar og þá sérstaklega að því er varðaði miska. Þá andmælti hann hækkun kröfunnar undir rekstri málsins, en krafðist einnig frávísunar á liðum er vörðuðu eignaspjöll og húsbrot og vísaði m.a. til þess að þeir byggðust á óstaðfestri matsgerð, en ákærða hefði ekki verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við gerð hennar. Að auki vísaði verjandinn til vanreifunar. Til vara krafðist hann þess að einstakir liðir kröfunnar yrðu lækkaðir.
Verjandinn krafðist þess að lokum að allur sakarkostnaðar yrði greiddur úr ríkissjóði og þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun hans.
II.
1. Með framburði ákærða við meðferð málsins, skýrslum vitna og rannsóknargögnum lögreglu er upplýst að ákærði, X, fluttist í heimabyggð stórfjölskyldu sinnar á [...], ásamt sambýliskonu sinni, í ársbyrjun 2012. Er atvik gerðust var hann búsettur á heimili móðurömmu sinnar í kauptúninu.
Fyrir liggur að föstudagskvöldið 10. febrúar 2012 fór ákærði ásamt ömmu sinni og móður í heimsókn til nágrannakonu, en nokkru áður hafði hann hafið neyslu á áfengum bjór. Verður ráðið að á milli kl. 22:00 og 23:00 hafi ákærði fylgt ömmu sinni spölkorn til síns heima, og að eftir það hafi hann haldið áfram drykkju sinni einsamall. Er nálgaðist miðnættið ákvað ákærði, að sögn, að fara í heimsókn til móður sinnar og gekk hann því út af heimilinu og síðan stuttan spöl í átt að heimili hennar, en snérist þá hugur og afréð að fara að heimili brotaþola, en hann bjó einn að [...], rétt um 60 metra frá heimili ákærða.
Ákærði og brotaþoli eru tengdir fjölskylduböndum, en móðir ákærða er bróðurdóttir brotaþola. Eins og síðar verður vikið að hefur ákærði sagt að ákvörðun hans um að fara til brotaþola hafi verið skyndihugdetta, en að rót hennar hafi mátt rekja til ætlaðra misgjörða brotaþola gagnvart móður hans er hún var á barnsaldri. Hefur ákærði staðhæft að vegna þess hafi hann haft horn í síðu brotaþola um árabil.
Við alla meðferð málsins hefur ákærði játað að hafa ruðst í heimildarleysi inn á heimili brotaþola umrædda nótt, með því að kasta steini í gegnum rúðu á húsi hans og að hafa í framhaldi af því veist með ofbeldi að honum, en einnig að hafa valdið þar eignaspjöllum.
Ágreiningslaust er að er ákærði var á heimili brotaþola hringdi hann til móður sinnar, vitnisins B, en hún var þá á heimili sínu við [...]. Í símtalinu skýrði ákærði frá því að hann hefði gengið í skrokk á brotaþola. Móðir hans brást við með því að hringja í vitnið C, sem þá fór með hraði að heimili brotaþola, sem var myrkvað. Vitnið hringdi í framhaldi af því í Neyðarlínuna og óskaði eftir aðstoð.
2. Samkvæmt frumskýrslu D lögregluvarðstjóra barst honum tilkynning frá fjarskiptamiðstöð lögreglu aðfaranótt 11. febrúar 2012, kl. 00:11, þess efnis að slagsmál ættu sér stað á heimili brotaþola og að óskað væri eftir skjótri aðstoð. Brást varðstjórinn þegar við og fór á lögreglubifreið á vettvang. Hitti hann þar fyrir, við norðurgafl íbúðarhússins, brotaþola, ákærða og vitnið C. Segir í lögregluskýrslunni að ákærði hafi í þrígang á vettvangi greint frá því að hann hefði brotist inn til brotaþola og barið hann í klessu.
Í frumskýrslunni er tekið fram að ákærði hafi sýnilega verið undir áfengisáhrifum og nokkuð æstur, en ekki borið sjáanleg merki um að hann væri undir áhrifum ólöglegra fíkniefna. Í skýrslunni segir að ákærði hafi haft orð á því við varðstjórann að hann ætti að vita hvers vegna hann hefði ráðist að brotaþola með greindum hætti. Tekið er fram að með þessum orðum hafi ákærði vísað til áratuga gamalla ætlaðra kynferðisbrota brotaþola á nokkrum barnungum stúlkum, en að ein þeirra hafi verið móðir ákærða.
Í frumskýrslu varðstjórans er fyrstu aðgerðum hans á vettvangi lýst, þ. á m. að hann hafi fyrirskipað ákærða og vitninu C að bíða átekta á meðan hann kannaði aðstæður innandyra. Í framhaldi af því er aðstæðum nánar lýst þannig, að hýbýli brotaþola hafi verið án rafmagns og hafi varðstjórinn af þeim sökum leitað þar með vasaljósi og jafnframt kallað til brotaþola, en án árangurs. Segir frá því að hann hafi loks fundið brotaþola þar sem hann lá á gólfinu í norðurhorni stofunnar, í blóði sínu, að hluta ofan á brotnu og blóðugu hringlaga eldhúsborði. Segir frá því að brotaþoli hafi augljóslega verið mjög óttasleginn, en þess er og getið að hann heyri mjög illa, og hafi verið án heyrnartækja sinna. Í skýrslunni segir að við nánari skoðun hafi komið í ljós að brotaþoli var alblóðugur í andliti, og hafi mikið blóð verið í hári hans og fatnaði. Þá er því lýst að blóð hafi lekið úr nefi brotaþola, en einnig úr mörgum skurðum, m.a. á vinstri vanga og á báðum augabrúnum, en að auki hafi nokkrir skurðir verið á enni hans og höfði. Staðhæft er að engin áfengislykt hafi verið af vitum brotaþola.
Í frumskýrslunni kemur fram að varðstjórinn hafi m.a. tekið ljósmyndir af brotaþola á vettvangi, en síðar um nóttina kannað vettvanginn frekar, og í framhaldi af því gert viðeigandi ráðstafanir vegna rannsóknarhagsmuna.
Samkvæmt gögnum hringdi lögregluvarðstjórinn í neyðarlínuna, kl. 00:16, og óskaði eftir tafarlausri aðstoð læknis og sjúkrabifreiðar. Segir að fjórum mínútum síðar hafi E heilsugæslulæknir komið á vettvang og skömmu síðar sjúkraflutningamenn, er hafi flutt brotaþola á heilsugæslustöðina í kauptúninu til frekari skoðunar og aðhlynningar. Samkvæmt gögnum var brotaþoli síðar um nóttina fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun [...] á [...], en síðan á Sjúkrahúsið á Akureyri.
Í nefndri frumskýrslu segir að ákærði hafi verið handtekinn á vettvangi kl. 00:28 og færður á lögreglustöð, þar sem lagt hafi verið hald á buxur hans og skó, sem hafi verið blóðug. Tekið er fram að ákærði hafi verið með opið sár á þykkhendi vinstri handar. Fram kemur að tekið hafi verið af ákærða öndunarsýni með SD-2 áfengismæli, er hafi sýnt 1,15. Þá segir frá því að á lögreglustöðinni hafi verið teknar ljósmyndir af ákærða, en að hann hafi í framhaldi af því verið færður í fangaklefa.
Samkvæmt gögnum leitaði lögregluvarðstjórinn eftir liðsinni lögreglu í nágrannabyggðum, en án árangurs. Segir í frumskýrslu hans að er útséð var um að hann fengi aðstoð hafi hann afráðið að taka formlega skýrslu af ákærða, en áður hafi hann tekið af honum öndunarsýni með fyrrgreindum áfengismæli, kl. 06:50, er þá hafi sýnt 0,15. Yfirheyrsla ákærða hófst kl. 07:00, en að henni lokinni var honum ekið til síns heima.
Frekari rannsókn málsins var framkvæmd af rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri, en rannsóknarlögreglumenn fóru á [...] að morgni sunnudagsins 12. febrúar 2012. Var þá brotavettvangur rannsakaður frekar, en að auki var ákærði yfirheyrður.
Ákærði var handtekinn á ný þann 16. febrúar s.á. og úrskurðaður í gæsluvarðhald 17. s.m., en í framhaldi af því var hann yfirheyrður ítrekað um kæruefnið, að viðstöddum tilnefndum verjanda. Skýrslurnar voru teknar upp með hljóði og mynd. Ákærði var leystur úr haldi lögreglu 22. febrúar. Hann var að lokum yfirheyrður um kæruefnið þann 27. febrúar að viðstöddum verjanda sínum.
3. Í frumskýrslu D, lögregluvarðstjóra, er vettvangi í hýbýlum brotaþola aðfaranótt 11. febrúar 2012 nánar lýst, en einnig eru meðfylgjandi ljósmyndir. Í skýrslunni segir m.a.:
„Vettvangurinn var mjög illa útlítandi. Gluggi að stærð 135 x 93 með tvöföldu gleri sem snýr til vesturs í stofunni var brotinn. Gluggi þessi er hægra megin við aðaldyrainngang hússins. Í stofunni var mikið um glerbrot á gólfinu úr brotna glugganum, ljósakróna með glerkúplum brotin og ýmsir smærri hlutir brotnir og lágu á gólfinu. Eldhúsborðið lá brotið á hvolfi í norðvesturhorni stofunnar og örbylgjuofn þar hjá og náði fram í dyragættina í eldhúsið. Einnig voru þarna tveir stólar á hvolfi og sessur úr þeim. Á nokkru svæði þar sem A lá var talsvert mikið blóð í gólfteppinu og tveimur stólsessum. Einnig var nokkuð stór blóðblettur á hægri gluggageretti og gardínu þar hjá fyrir brotna glugganum. Talsverðar blóðstrokur voru á rafmagnsþilofni sem er neðan við brotna gluggann og blóð þarna á veggjum og hurð fyrir stofunni sem er á norðurvegg og skilur á milli stofu og eldhús. Þriggja arma ljósakróna í lofti stofunnar með glerkúplum var brotin og greinileg ákoma á henni og blóð og blóðferill í lofti og á norðurvegg stofunnar. Leður hægindastóll var verulega blóðugur og brotinn og lá á hvolfi á stofugólfinu. Á setu í tausófastól var nokkuð stór blóðblettur og einnig blóð þar í kring. Framan á nokkuð stórum hátalara sem var hægra megin við dyrnar í stofunni var mikið blóð. Á stofugólfi var stór grjóthnullungur, (ca. 5 kg) og annar minni uppi á borði hægra megin við hurðina séð frá stofunni. Logandi kerti var á borði við norðurvegg í stofunni. Nokkrar Víking 330 ml. tómar bjórdósir voru i suðvesturhorni stofunnar og ein Egils sterkur 500 ml tóm bjórdós á stofugólfinu. Vettvangur þarna í stofunni bar það með sér að mikil átök hafi átt sér stað og að þarna hafi aðalatburðarrásin átt sér stað.
Eldhúsið bar það með sér að þar hafi átök átt sér stað eða skemmdarverk unnið, þar sem ýmiss eldhúsbúnaður lá á gólfinu og brotinn meira og minna og var brauðristin í eldhúsvaskinum og örbylgjuofninn kominn inn í stofu.
Í holi austan við eldhúsið og austast í húsinu, bar vettvangur það með sér að þarna hafi átök átt sér stað eða skemmdarverk unnið á húsmunum. Á gólfinu lágu byssuskápur ofaná stórri mynd og gamalt stórt útvarpsviðtæki. Kommóða við vesturvegg brotin að ofan og frystiskápur færst úr stað um ca 1-1.5 metra og aftengst. Efst og fremst hægra megin og efst á vinstri hlið að aftan voru blóðblettir. Einnig var blóðblettur neðarlega á vegg í norðurhorni holsins. Inn af holinu í suðaustur hluta hússins er svefnherbergi A. Ekki var að sjá að nein átök hafi átt sér stað þar og rúmið umbúið með rúmteppi sem bendir eindregið til þess að A hafi ekki verið búinn að taka á sig náðir og einnig vegna þess að kertaljós var logandi í stofunni og þá var hann alklæddur þegar ég kom á vettvang.“
Rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri rannsakaði eins og áður sagði brotavettvang nánar þann 12. febrúar 2012, og voru þá m.a. teknar ljósmyndir. Valur Magnússon rannsóknarlögreglumaður ritaði skýrslu um rannsóknina. Segir í skýrslunni að dregnar hafi verið ályktanir um ætlaða atburðarás af sýnilegum ummerkjum, en einnig af yfirheyrsluskýrslum ákærða að morgni 11. febrúar og þann 12. febrúar.
Í upphafsorðum vettvangsskýrslunnar segir að [...] sé lítið gamalt einbýlishús, ca 40 m² að stærð, með risi. Segir frá því að vestan við húsið sé sólpallur, en þar við hafi verið raðað fjörugrjóti. Staðhæft er að ákærði hafi brotið sér leið inn í húsið um stofugluggann og er ályktað að rafmagnið hafi slegið út vegna atgangs ákærða þar innandyra. Fram kemur að útihurð í forstofu hafi verið læst.
Í skýrslunni er hýbýlum brotþola ítarlega lýst, og er m.a. ályktað að þar hafi verið snyrtilegt innandyra fyrir atgang ákærða. Um forstofuna segir að hún hafi verið snyrtileg og er ályktað að þar hafi ekki verið neinn atgangur umrædda nótt. Á hinn bóginn segir að á gangi þar innan við hafi ummerki verið eftir ákærða og er nefnt að örbylgjuofn hafi legið á gólfinu, en einnig tvær kaffikönnur og brauðrist. Segir að blóð úr ákærða hafi fundist á nefndum tækjum. Því er lýst að í herbergi inn af ganginum hafi byssuskáp verið hent til, en við það hafi hann hafnað á kommóðu og hún brotnað að ofanverðu. Að auki hafi stórri innrammaðri mynd verið hent af vegg í herberginu, tvær gamlar luktir brotnar og frystiskáp svipt til. Tekið er fram að blóð úr ákærða hafi fundist á frystiskápnum, en auk þess hafi blóðslettur verið í herberginu. Í skýrslunni er stofu í hýbýlum brotaþola lýst þannig:
„Stofan er vettvangur líkamsárásarinnar. Stofan er 12,5 fm að stærð. Hún er í suðvesturhorni hússins. Tveir gluggar eru á stofunni, að sunnan og að vestan. Gengið er í stofuna úr ganginum sem liggur í gegnum húsið. Árásaraðilinn hafði brotið sér leið inn í stofuna um vesturgluggann. Það gerði hann með því að kasta 5 kg fjörugrjóti í gegnum glerið og gerði hann það af svo miklu afli að grjótið fannst við öndverðan vegg í stofunni. Grjótið hefur verið á eða við sólpallinn. Vesturglugginn er 135 x 93 cm að stærð, hæð í gluggakistu af sólpallinum er 90 cm. Glerið er 4 mm og tvöfalt. Í stofunni var hringlaga eldhúsborð og lá það á hvolfi á gólfinu við gluggann og fæturnir brotnir af. Við þetta borð fannst árásarþolinn er D varðstjóri kom á vettvang.
Leðurstóll var einnig á hvolfi við gluggann og voru fætur hans skemmdir, mjög mikið blóð var á leðurstólnum, sérstaklega á setunni og þar var einnig hár úr brotaþola. Á fæti stólsins sem gengur niður úr honum, eru fjórir armar með hjólum. Tvö hjólin voru brotin af og á öðrum arminum var hár sem talið er vera úr brotaþola. Blóð er einnig þar á. Annað hjólið fannst á gólfinu við suðurgluggann, á bak við stól sem þar er en hitt hjólið var undir sófaborði við rúmið vestan í herberginu. Líklegt má telja að þessu stóll hafi verið notaður sem barefli í þessari árás.
Töluvert blóð var í setu stólsins við suðurgluggann, töluvert blóð var í setunni á þeim stól. Rúm var við austurvegg herbergisins og var það ósnert að sjá. Við norðurvegginn var skenkur sem á var sjónvarp og við hliðina á skenknum, í áttina að dyrunum, var lítið borð og svo tréhátalari á milli borðsins og dyranna. Þriggja arma loftljós var í miðju loftinu. Ýmiskonar húsmunir, ljós, lampar og ýmsir gamlir munir, voru á rúi og stúi í stofunni, bæði brotnir og skemmdir. Þá var loftsljósið brotið þrátt fyrir að það hékk uppi ennþá. Mjög mikið af glerbrotum úr rúðunni voru á gólfinu, bæði undir glugganum og framan við innganginn í stofuna og í raun út um hana alla. Mjög mikið blóð var á gólfinu við eldhúsborðið og á því einnig, þar var einnig munnharpa sem var mjög blóðug og hárug og bendir það til þess að annað hvort hafi árásarþolinn verið barinn með henni eða hún orðið undir þegar hann var barinn niður og sparkaður á gólfinu. Blóðlifrar voru á hátalaranum við dyrnar og á gólfinu þar í kring.
Við yfirheyrslu af árásaraðilanum kom fram að hann braut rúðuna með því að kasta steininum í gegnum hana, þá hreinsaði hann glerið úr glugganum áður en hann fór inn í íbúðina en hann hitti árásarþolann í stofunni og réðst þegar á hann, barði hann niður og sparkaði í hann þar sem hann lá á gólfinu. Eftir það fór hann um íbúðina til að valda frekari skemmdum á henni. Árásaraðilinn skar sig á höndum þegar hann fór innum gluggann og voru blóðslettur eftir hann í loftinu og á norðurveggnum í stofunni.“
Með nefndri skýrslu eru ljósmyndir sem rannsóknarlögreglumaður tók á vettvangi, en einnig eru á meðal gagna myndir af brotaþola. Í myndatexta er að nokkru áréttaðar áðurraktar ályktanir um ætlaða atburðarás, m.a. með hliðsjón af ummerkjum, læknisvottorðum og öðrum gögnum. Er m.a. bent á að blóðkám og blóðslettur hafi verið á veggjum, leðurstól, munnhörpu og ljósakrónu í stofu. Nánar segir í texta að á setu leðurstólsins og á hjólum hafi verið blóð, en að auki hafi tvö hjólanna og plast þar við verið brotin af. Er ályktað að stóllinn hafi verið notaður sem barefli gegn brotaþola, en einnig munnharpan. Í því sambandi er bent á að á baki og vinstra kinnbeini brotaþola hafi verið tiltekin för og er sagt að með samanburðarrannsókn, sem sýnd er á sviðsettum myndum, séu líkindi fyrir því þau séu eftir hjól leðurstólsins. Einnig er vísað til þess að hár af brotaþola hafi fundist í setu leðurstólsins og á einu hjóla hans.
Í texta sem fylgir myndum af munnhörpu segir að hún hafi fundist á gólfinu við hlið brotaþola í stofunni.
Í texta sem fylgir myndum sem teknar voru af brotaþola á Heilsugæslustöðinni á [...] aðfaranótt 11. febrúar 2012 er ályktað að sár á andliti hans séu eftir glerbrot, fyrir utan fyrrgreindan áverka ofarlega á vinstra kinnbeini/gagnauga.
Í texta sem fylgir myndum af baki brotaþola er ályktað að þeir áverkar sem þar sjáist hafi komið er ákærði traðkaði og sparkað í hann.
Í texta sem fylgir myndum sem teknar voru af ákærða á lögreglustöðinni á [...] segir að sjá megi skurðáverka á höndum hans, og í texta sem fylgir myndum sem teknar voru af fatnaði hans segir að þar megi sjá blóð á skálmum og skóm, sérstaklega af hægra fæti.
Við frumrannsókn lögreglu voru vitni yfirheyrð, þ. á m. fyrrnefnd vitni, C, og B, móðir ákærða, en einnig F, amma ákærða, G nágrannakona, H, I og loks J.
4. Gögn málins voru í framhaldi af lýstum rannsóknaraðgerðum send ríkissaksóknara.
Með bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 5. júlí 2012, var lagt fyrir lögreglu að rannsaka málið frekar, þ. á m. fatnað og skó ákærða, fatnað brotaþola, húsbúnað og muni á heimili brotaþola, en einnig að gerð yrði DNA-rannsókn á blóð- og hársýnum af ákærða og brotaþola. Annaðist tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hluta rannsóknarinnar, en að auki var leitað liðsinnis Statens kriminalteknisk laboratorium. Lauk rannsókninni í september 2012.
Í skýrslu tæknideildar er greint frá rannsókn á fatnaði ákærða, þ. á m. á sýnum úr rauðleitum blettum sem á þeim fundust, en við rannsóknina var notað sérhæft blóðpróf til DNA-greiningar. Samsvarandi sýni voru tekin úr fatnaði brotaþola. Þá voru sýnin tekin af munnhörpu, en vísað er til þess að á öðrum enda hennar hafi verið 1,7 cm langt brot, í plastkanti. Auk þess voru rannsökuð hár, sem fundust á brotavettvangi, m.a. á leðurstól, en talið var að þau væru úr brotaþola, en ekki ákærða þar sem hann var stuttklipptur er atvik gerðust. Í niðurstöðukafla í skýrslu tæknideildarinnar er vísað til rannsóknar hinnar sænsku rannsóknarstofnunar, en þar segir:
„Í máli þessu voru send til rannsóknar níu sýni, sem varðveitt höfðu verið við rannsókn á fatnaði grunaðs svo og á gögnum, haldlögðum á vettvangi. Átta sýnanna voru stroksýni af ætluðu blóði í fatnaði grunaðs og af munnhörpu, haldlagðri á vettvangi, en níunda sýnið var umslag með hárum, sem varðveitt höfðu verið af stólfæti og setu á vettvangi.
Við frumrannsókn gáfu stroksýnin svörun við blóðprófi. Sýnin voru þá rannsökuð áfram og þau greind með DNA greiningartækni, og reyndust tvö sýnanna, merkt 364927-1 og 364927-3, ekki innihalda mennskt DNA sem nothæft væri til samanburðar.
Önnur sýni innihéldu DNA og var DNA snið þeirra ákvarðað. Niðurstöður þeirra greininga leiddu í ljós að DNA snið sýna, sem merkt voru364926-1 (hægri skór, utanverður sóli), 364927-4 (hægri skálm, blettur H, bakhlið), 365059-1 (munnharpa, hlið A) og 365059-2 (munnharpa, hlið B), höfðu öll sama DNA sniðið og var það snið eins og DNA snið brotaþola, A.
DNA snið, sem ákvarðað var í sýni merktu 364927-2 (Hægri skálm, vasi, blettur F, framhlið), var ólíkt samanburðarsýni brotaþola og verður því ekki rakið til hans. Þar sem ekki voru send til rannsóknar samanburðarsýni frá fleiri einstaklingum var þetta snið merkt „Óþekkt I“.
Greining á sýni merktu 364927-1 (Vinstri skálm, blettur E, framhlið) leiddi í ljós að í sýninu var blanda DNA sniða frá a.m.k. tveim einstaklingum. Eitt snið var í meirihluta í sýninu, og var það snið eins og snið það sem ákvarðað var í sýni 364927-2 og merkt var „Óþekkt I“. Það DNA snið sem var í minnihluta í sýninu, var eins og DNA snið brotaþola, A.
Frumrannsókn á hárum, sem send voru, leiddi í ljós að á þeim var lítilræði af blóði, en greining á því gaf ekki niðurstöður. Þrjú háranna reyndust nothæf til DNA greiningar og voru þau rannsökuð áfram og greind. Niðurstöður þeirra greininga leiddu í ljós að öll þrjú hárin höfðu sama DNA snið, og var það snið eins og DNA snið brotaþola, A.
Miðað við þá tækni og aðferðafræði sem rannsóknarstofa SKL notar, má ganga út frá því um áreiðanleika niðurstöðunnar, að líkurnar á að finna samskonar snið frá óskyldum einstaklingi eru ávallt minni en 1:1.000.000.000. Unnt er að reikna líkurnar í hverju máli fyrir sig ef þurfa þykir.“
5. Í málinu liggja fyrir læknisvottorð Shreekrishna Datye, skurðlæknis og forstöðulæknis handlæknisdeildar Sjúkrahússins á Akureyri, dagsett 16. febrúar og 16. mars 2012. Í vottorðunum er lýst áverkum brotaþola og læknismeðferð. Er í fyrra vottorðinu vísað til aðgerða E, heilsugæslulæknis á [...], en eins og fyrr var rakið var hann kvaddur á brotavettvang skömmu eftir miðnættið þann 11. febrúar 2012. Greint er frá því að við komu læknisins á heimili brotaþola hafi hann setið í stól, verið alblóðugur í andliti og léttblæðandi, en að ekki hafi sést í augu hans vegna mars og bólgu. Segir að þegar hafi legið fyrir að brotaþoli hafði orðið fyrir líkamsárás og vegna ástands hans hafi verið afráðið að flytja hann á Heilbrigðisstofnunina á [...], en á þeirri leið hafi hann kastað upp blóðlituðum vökva. Fram kemur að eftir skoðun vakthafandi læknis á [...], kl. 04:15, hafi verið afráðið að flytja brotaþola á Sjúkrahúsið á Akureyri, og hafi hann komið á bráðamóttöku þar kl. 08:20. Í síðara vottorðinu segir að umrædda nótt hafi brotaþola verið gefið verkjastillandi og róandi lyf, en einnig er það nefnt að brotaþoli hafi frá barnsaldri verið heyrnarskertur vegna slyss og hafi af þeim sökum lítið samband náðst við hann í fyrstu, en staðhæft er að heyrnartæki hans hafi eyðilagst í árásinni. Um ástand og meðferð brotaþola á Sjúkrahúsinu á Akureyri segir nánar í vottorðinu:
„Lífsmörk við komu: Blóðþrýstingur 100/62, púls 100/mín., öndunartíði 17 og súrefnismettun 93% án súrefnis. Meðvitundarstigið var 12 miðað við Glasgow Coma Scale en 15 er hæsta sig þar.
Skoðun: Hann var með blæðingu í kringum bæði augu eða talsvert mikið mar og augnlok voru bæði mjög áberandi og bólgin og bjúgur á enni og þroti í andliti. Þroti vinstra megin á efri vörn og sár í andliti sem var búið að sauma áður á [...]. Vinstra megin í andliti var stór sáraflipi framan við eyrað og á vinstri augabrún og nánast eftir allri augabrúninni. Í hægri augabrún var einnig lítið sár. Tvö þríarma sár voru á enni vinstra megin. Stutt sár þvert yfir nef sem var svolítið skakkt.
Hann hreyfði alla útlimi. Hægra megin á brjóstkassa var mar fyrir ofan rifbein VI og VII. Aftan á baki var o-laga sár og einnig mar á baki á þremur stöðum.
Kviður var mjúkur og eymslalaus.
Rannsóknir: Samkvæmt blóðprufum var hemoglobulin 105 sem var lækkað en annars voru flestar aðrar prufur innan eðlilegra marka eða a.m.k. ekkert sem var tengt árásinni. Etanól mældist neikvætt.
Röntgenrannsókn: Fengin var tölvusneiðmynd af höfði sem sýndi heilablæðingu u.þ.b. 13 x 12 mm kringum fremra blað vinstra megin. Einnig sást nefbrot á tveimur stöðum. Einnig brot á lacrimal beini vinstra megin og fremri aftari vegg í maxillar sinusum eða andlitsbeinum. Grunur um sprungu í sinus spenoidalis og sprungu í hægra kinnbeini.
Meðferð: Fékk verkjalyf og síðan var hann lagður inn á gjörgæsludeildina til framhaldsmeðferðar. Fljótlega eftir komu var tekin tölvusneiðmynd af brjóstkassa sem sýndi rifbrot á tveimur stöðum á rifi nr. VI og VII hægra megin.
Síðasta tölvusneiðmynd af höfði var tekin þann 22.02. sem sýndi minnkandi merki um þessa heilablæðingu og svolítill bjúgur ennþá sem var að ganga til baka.
Meðferð og gangur: Hann fékk stuðningsmeðferð á gjörgæsludeildinni fyrstu dagana. Síðan var hann fluttur yfir á handlækningadeildina. Háls-, nef- og eyrnalæknirinn lagaði nefbrot hans þann 23.02.2012. Í legunni hér komu ekki fram neinir aðrir innri áverkar. Hann var svolítið valtur á fótum og hrasaði tvisvar sinnum að nóttu til án þess að fá slæma áverka. Þann 24.02. var talið óhætt að hann flyttist á [...] til nánari endurhæfingar þar sem hann er nær sínum heimaslóðum. Eftirlit eftir þörfum hjá okkur.
Nánar um áverka hans þá var alvarlegasti áverki blæðing í heila sem var á takmörkuðu svæði og fór að lagast. Hann var einnig með brot á vanga- og kinnkjálkabeinum sem þurftu ekki sérstaka meðferð og ættu að gróa með tímanum að mati háls-, nef- og eyrnalækna. Nefbrot hans var lagfært af háls-, nef- og eyrnalækni. Hann hafði mikið mar í andliti sem var einnig að ganga hægt og rólega til baka. Hann var einnig með mar í báðum augum en að mati augnlæknis átti það einnig að lagast með tímanum og voru engir varanlegir áverkar þar. Hann var einnig með yfirborðsleg sár á mörgum stöðum í andliti sem voru saumuð og greru. Hann hafði tvö rifbrot hægra megin, VI og VII rif en slík gróa yfirleitt alltaf vel á 3-4 vikum.“
Í læknisvottorði Ingibjargar Hinriksdóttur, sérfræðings í háls-, nef- og eyrnalækningum og heyrnarfræðum, sem dagsett er 18. janúar 2013, en það var ritað að beiðni skipaðs réttargæslumanns, segir að brotaþoli hafi verið skoðaður 10. júlí 2012 á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Vísað er til eldri heyrnarmælinga brotaþola frá 27. maí 2004, en einnig til mælingar sem gerð var eftir þá árás sem hann varð fyrir þann 2. mars 2012. Er staðhæft að við samanburð mælinganna hafi komið í ljós að heyrn brotaþola á hægra eyra hafi versnað um 10-20 dB, á þeim tíðnum sem hann hafi enn heyrnarleifar á. Tekið er fram að þessi minnkun á heyrn geri svo illa heyrandi manni allar aðstæður erfiðari og verri og geti hann m.a. ekki nýtt heyrnartæki eins vel og áður. Hann sé því mun verr staddur hvað heyrn varðar og samskipti en áður hafði verið. Fram kemur að brotaþoli hafi fengið ný og sterkari heyrnartæki 10. júlí 2012. Í niðurlagi vottorðsins segir að skert skammtímaminni og mikil þreyta geti leitt til þess að brotaþoli eigi erfiðara með að nýta sér þær heyrnarleifar sem hann hafi og sé miðað við áverkasögu hans megi telja líklegt að þeir áverkar sem hann hlaut í febrúar 2012 eigi þátt í því að heyrn hans versnaði.
Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu, sem dagsett er 31. október 2012, var haft samband við brotaþola nefnda dag til að fá afstöðu hans um kæru vegna ætlaðs húsbrots og skemmdarverka ákærða, en einnig vegna bótakröfu. Um afstöðu brotaþola er skráð: ,,Hann kvaðst ætla að leggja fram kæru vegna húsbrots og skemmdarverka svo og að leggja fram bótakröfu vegna þeirra. Hans afstaða hafi alltaf verið óbreytt hvað þetta varðar og er það enn daginn í dag.“
III.
Ákærði var, eins og áður er rakið, handtekinn skömmu eftir miðnættið þann 11. febrúar 2012, þar sem hann var fyrir utan íbúðarhús brotaþola. Hann var fyrst yfirheyrður um kæruefnið á lögreglustöðinni á [...] kl. 07:00 þá um morguninn, en eftir það var hann í þrígang yfirheyrður af rannsóknarlögreglumönnum, 12., 17. og 27. febrúar það ár. Að auki gaf ákærði skýrslur fyrir dómi. Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða við rannsókn og meðferð málsins.
Við skýrslutöku hjá lögregluvarðstjóra að morgni 11. febrúar 2012 skýrði ákærði frá því að hann hefði hafið áfengisneyslu um kl. 18:00 kvöldið áður. Kvaðst hann hafa drukkið nokkra áfenga bjóra og fundið fyrir miklum áfengisáhrifum og myndi því óljóst eftir atburðum kvöldsins. Ákærði kvaðst þó minnast þess að umrætt kvöld hefði hann ákveðið að fara til afabróður síns, brotaþola, í þeim tilgangi að eiga við hann orð vegna gamalla mála. Þar um vísaði ákærði til frásagna um að brotaþoli hefði misnotað móður hans kynferðislega, en einnig systur hennar og frænkur. Ákærði bar að vegna þessara ætluðu brota hefði hann allt frá barnsaldri fundið fyrir mikilli reiði í garð brotaþola og staðhæfði að sú tilfinning hefði ráðið för hans þetta kvöld. Ákærði sagði að í raun hefði það þó verið um skyndihugdettu að ræða, en hann kvaðst hafa knúið dyra á heimili brotaþola, án árangurs, en í framhaldi af því tekið upp tvo grjóthnullunga á sólpallinum við húsið og með þeim brotið rúðuna í glugganum til hliðar við innganginn. Eftir það kvaðst hann hafa farið inn um gluggann og þannig komist inn í stofuna. Um gjörðir sínar eftir þetta kvaðst ákærði ekkert geta sagt vegna minnisleysis og staðhæfði að það næsta sem hann myndi væri það er lögregluvarðstjóri var kominn á vettvang, en þá hafi hann verið fyrir utan hús brotaþola ásamt vitninu C.
Við skýrslutöku rannsóknarlögreglu 12. febrúar 2012, sem tekin var eftir að ákærði hafi ráðfært sig við tilnefndan verjanda sinn, skýrði ákærði frá því að hann hefði hafið áfengisdrykkjuna á heimili móður sinnar, en síðar um kvöldið farið ásamt henni og ömmu sinni í heimsókn til nágrannakonu. Kvað hann þau hafa átt þar góða stund. Að aflokinni heimsókninni kvaðst ákærði hafa fylgt ömmu sinni til síns heima, en þar á heimilinu hefði hann haldið áfram áfengisdrykkjunni. Hann kvaðst hafa fundið vel til áfengisáhrifa og vísaði til þess að hann hefði er atvik gerðust ekki drukkið áfengi mjög lengi. Kvaðst ákærði ætla að hann hefði allt þetta kvöld drukkið um níu hálfs lítra sterka bjóra. Ákærði kvaðst um síðir hafa afráðið að fara á heimili móður sinnar og því farið út, en þá hafi skyndilega „smollið eitthvað í hausnum á honum“. Vísaði ákærði til þess að er þarna var komið sögu hefði hann ákveðið að fara til brotaþola og eiga við hann orð og m.a. inna hann eftir ástæðum þess að hann hefði á árum áður misnotað börn kynferðislega, og þ. á m. móður hans.
Ákærði greindi frá því að hann hefði fyrst heyrt af hinum ætluðu brotum brotaþola er hann var mjög ungur að árum og staðhæfði að móður hans og systrum hennar hefði liðið mjög illa vegna brotanna. Ákærði bar að hin ætluðu brot brotaþola hefðu ekki verið til umræðu umrætt kvöld.
Við yfirheyrsluna kvaðst ákærði minnast þess að er hann kom að húsi brotaþola hefði hann bankað á útihurðina, en síðan tekið upp grjót og hent því í gegnum rúðu við aðalinnganginn. Ákærði staðhæfði að eftir þetta gæti hann lítt greint frá gjörðum sínum vegna minnisleysis, en áréttaði að er atvik gerðust hefði hann verið mjög reiður vegna hinna ætluðu brota brotaþola. Ákærði kvaðst þó minnast þess að hann hefði þurft að hreinsa gler úr glugganum til þess að komast inn í hýbýli brotaþola, og af þeim sökum hefði hann skorið sig á úlnliðum beggja handa. Ákærði kvaðst minnast þess að eftir að hann var kominn inn í húsið hefði brotaþoli komið á móti honum og lýsti hann atburðarásinni þannig: „Þá kemur hann (brotaþoli), og ég sparka í hann og kýli hann, og þá snappar í hausnum á mér enn þá meir og eitthvað black out.“ Ákærði áréttaði þennan framburð síðar í yfirheyrslunni, þ.e. að hann hefði sparkað í brotaþola og kýlt hann, bæði í andlit og búk. Þá kvaðst hann minnast þess að hafa rústað einhverju í íbúðinni. Ítrekað aðspurður kvaðst ákærði ekki geta sagt til um það nákvæmlega hvar hann hefði kýlt brotaþola né hve oft, en staðhæfði að árás hans gegn brotaþola hefði aðeins farið fram í stofunni.
Af hálfu rannsakenda var ákærða bent á það við yfirheyrsluna, að við handtöku hefði fundist blóð og dökk hár á skóm hans, sams konar og væru á höfði brotaþola. Svaraði ákærði því til að hann minntist þess að hafa kýlt og sparkað í brotaþola, en hann gæti ekki sagt til um hvar á líkamann ákomur hans hefðu komið eða hve oft hann hefði beitt þeim. Ákærði kvaðst því ekki geta sagt til um hvort hann hefði sparkað í höfuð brotaþola. Aðspurður af rannsakendum um þann framburð, í upphafi yfirheyrslunnar, að hann hefði rústað húsmunum í húsakynnum brotaþola svaraði ákærði því til að hann gæti í raun ekkert sagt til um það þar sem hann gæti ekki lýst gjörðum sínum eftir að hann réðist á brotaþola í stofunni. Í því sambandi áréttaði ákærði að er atvik gerðust hefði hann verið mjög reiður. Ákærði sagði að sú tilfinning hefði búið með honum í mörg ár gagnvart brotaþola, en að hún hefði blossað upp þetta kvöld. Kvaðst ákærði ætla að hann hefði farið „í black out“ eftir að hann kom í híbýli brotaþola. Þá kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa hringt til móður sinnar og í raun kvaðst hann fyrst hafa komist til sjálfs sín eftir að hann var kominn út úr húsinu og hitti fyrir vitnið C. Við lok yfirheyrslunnar lýsti ákærði yfir iðran vegna gjörða sinna og sagði að þær hefðu ekki verið til góðs, hvorki fyrir hann eða fjölskyldu hans.
Við yfirheyrslu rannsóknarlögreglu 17. febrúar 2012, sem fram fór að viðstöddum tilnefndum verjanda, ítrekaði ákærði fyrri framburð sinn í öllum meginatriðum. Við yfirheyrsluna neitaði ákærði því aðspurður, að það hefði verið ætlan hans að bana brotaþola.
Við yfirheyrslu lögreglu 27. febrúar 2012, sem fram fór að viðstöddum tilnefndum verjanda, áréttaði ákærði í meginatriðum fyrri framburð, m.a. um gjörðir sínar fyrri hluta föstudagskvöldsins 10. febrúar, en um atvik við og í híbýlum brotaþola lýsti hann yfir nær algjöru minnisleysi. Ákærði kvaðst þannig í raun ekkert minnast viðskiptanna við brotþola og þ. á m. ekki hvort hann hefði hitt hann fyrir í stofunni, en sagði að það gæti vel verið að hann hefði sparkað í og kýlt brotaþola. Við yfirheyrsluna voru ákærða sýndar myndir af vettvangi, þ. á m. af leðurstól og munnhörpu, en einnig myndir af áverkum brotaþola. Ákærði svaraði því til að hann gæti ekkert sagt til um hvort hann hefði notað stólinn eða munnhörpuna sem barefli gegn brotaþola. Þá voru ákærða sýndar myndir af skóm og buxum sem hann hafði íklæðst er hann var handtekinn, en hann treysti sér ekki til að tjá sig um þau ummerki sem þar var að sjá, en áréttaði fyrri framburð sinn. Og aðspurður kvaðst hann ekki minnast gjörða sinna eftir árásina á brotaþola og af þeim sökum treysti hann sér ekki til að segja til um þær skemmdir sem voru á innanstokksmunum á heimilinu. Ákærði kvaðst heldur ekki minnast símtals við móður sína, en kannaðist við að hafa hitt vitnin C og J fyrir utan hús brotaþola, en treysti sér ekki til að lýsa samræðum þeirra.
Við yfirheyrsluna áréttaði ákærði fyrri orðræðu um að hann hefði haft spurnir af því, er hann var barn að aldri, að brotaþoli hefði misnotað móður hans kynferðislega. Hann sagði að móðir hans hefði aldrei lýst því nákvæmlega hvað brotaþoli hefði gert henni og ekki kvaðst hann hafa heyrt lýsingar annarra kvenna í ætt hans á ætluðum brotum hans. Ákærði bar að hann hefði í raun aldrei umgengist brotaþola og því ekki rætt málefnið við hann.
Fyrir dómi og við aðalmeðferð málsins játaði ákærði sakarefni ákæru, að því leyti að hann viðurkenndi skýlaust að hafa ruðst í heimildarleysi inn á heimili brotaþola og að hafa valdið þar eignaspjöllum. Ákærði játaði enn fremur að hafa veist með ofbeldi að brotaþola, en neitaði sakargiftum að því er varðaði tilraun til manndráps.
Fyrir dómi lýsti ákærði atvikum máls að kvöldi 10. febrúar 2012 með líkum hætti og hann hafði áður gert hjá lögreglu, þ. á m. um áfengisdrykkju, viðveru með móður og ömmu og heimsókn þeirra til nágrannakonu. Þá áréttaði ákærði orðræðu sína um ætluð brot brotaþola, m.a. gagnvart móður hans og að þau hefði haft mikil áhrif alla æsku hans. Sagði ákærði að vegna þess hefði búið með honum mikil reiði gagnvart brotaþola, og sagði: „Ég hataði þennan mann. Það er ekkert leyndarmál; Ég hataði hann af öllu mínu hjarta“. Þá kvaðst ákærði ekki véfengja að hann hefði einhvern tímann haft uppi hótunarorð gagnvart brotaþola, en þó aldrei við hann sjálfan. Hann staðhæfði að slík orð hefðu verið meiningarlaus af hans hálfu og eftir atvikum sögð á fylleríi á unglingsárum.
Fyrir dómi áréttaði ákærði frásögn sína hjá lögreglu, að hann hefði umrætt kvöld verið á leiðinni fótgangandi að heimili móður sinnar þegar hann hefði skyndilega fengið þá hugdettu að hitta brotaþola að máli. Hann kvaðst ekki geta skýrt þennan viðsnúning sinn, en sagði: „Ég ætlaði að láta hann biðjast afsökunar og berja hann. Biðjast afsökunar á því sem hann var búinn að gera fjölskyldu minni og berja hann, en ekki drepa hann, það ætlaði ég ekki að gera.“ „Ég get ekki útskýrt mikið hvað ég var að hugsa, ef ég hefði verið að hugsa eitthvað af viti þá náttúrulega hefði ég aldrei farið þangað.“
Ákærði staðhæfði að er atvik gerðust hefði hann ekki verið ofurölvi, en í mjög þungu skapi og ætlaði að það væri í raun ástæða þess að hann myndi óljóst eftir gjörðum sínum og sagði: „Ég hef áður misst minnið í bræði sko það er svokallað æðiskast ég náttúrulega vissi hvað ég var að gera sko, gekk kannski aðeins of langt, en ég stoppaði þó áður en það gekk of langt.“
Ákærði staðhæfði að ætlan hans í greint sinn hefði ekki verið að bana brotaþola, enda hefði hann gert sér grein fyrir afleiðingum slíks verknaðar fyrir sig og fjölskyldu sína.
Fyrir dómi lýst ákærði aðkomu sinni að húsi brotaþola með líkum hætti og hann hafði áður gert og kannaðist við að hann hefði skorið sig illa á hendi er hann fór inn um gluggann, en vísaði jafnframt til minnisleysis um gjörðir sínar. Ákærði áréttaði að er atvik gerðust hefði hann nær ekkert þekkt brotaþola og m.a. ekki haft vitneskju um að hann væri heyrnarskertur. Kvaðst ákærði helst minnast þess að brotaþoli hefði spurt hann hvað gengi á, en treysti sér ekki til að segja hvenær í atburðarásinni orðin féllu. Um árásina gegn brotaþola sagði ákærði: „Eins og ég er búinn að segja áður, kýlt hann og sparkað í hann, nei, já kýlt hann í höfuðið, kýlt hann í búk. En ég sparkaði ekki í hann.“ „Þegar ég sé að hann er búinn að fá nóg af barsmíðum, þá vildi ég hætta áður en hann slasaðist eitthvað meira, og hringdi síðan í mömmu. Datt í hug að athuga hvort hann vildi biðja hana afsökunar á einhverju sem hann hefði gert og um leið vissi ég að hún myndi stoppa þetta sem var í gangi.“ „... það kom ákveðinn tímapunktur þar sem ég hélt að það væri ekki ráðlegt að ganga lengra, út af því að ég vildi ekki drepa hann. Og ef maður heldur stöðugum barsmíðum áfram í klukkutíma eða eitthvað þá er alveg öruggt að einhver deyr. Þannig að það er betra að stoppa áður en, áður en einhver deyr.“ Aðspurður kvaðst ákærði ætla að er hann hringdi í móður sína hefði brotaþoli legið á gólfinu; „Ég held það, alla vega lét ég símann upp við eyrað á honum og hringdi í mömmu, hann vildi ekki neitt tjá sig um þetta alla vega ... um þessar barnanauðganir sínar í gegnum tíðina.“
Ákærði áréttaði að hann hefði um síðir áttað sig á því að hann hefði gengið of langt gagnvart brotaþola, en án þess að hann hefði á þeirri stundu gert sér grein fyrir því hversu alvarleg meiðsli hans voru.
Nánar aðspurður og eftir að honum höfðu verið sýndar fyrrnefndar ljósmyndir lögreglu kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa notað tól gegn brotaþola og þá ekki stól eða munnhörpu, en kvaðst þó ekki geta útilokað það og ekki heldur að hann hefði sparkað í brotaþola. Um lok atlögunnar gagnavart brotaþola áréttaði ákærði fyrri orð og sagði: „Ég sé að hann er bara búinn að fá nóg af barsmíðum og ég ætla ekki að ganga of langt af því að sjálfsögðu vil ég ekki drepa hann.“ „Ég vildi lemja hann.“ Ákærði vísaði til þess að hann hefði í raun haft alla stjórn á atburðarásinni. Hann hefði því getað gengið lengra hefði hann haft vilja til þess og vísaði jafnframt til þess að eftir að atgangi hans gagnvart brotaþola var lokið hefði hann gengið berserksgang og m.a. hent til munum í bræði.
Fyrir dómi vefengdi ákærði ekki að þeir áverkar sem brotaþoli bar eftir ársásina væru af hans völdum, en áréttaði að hann gæti ekki sagt til um hvernig þeir voru nákvæmlega til komnir, en að hann gæti heldur ekki útilokað neitt í þeim efnum.
Fyrir dómi var ákærða kynntur áðurrakinn framburður hans hjá lögreglu. þ. á m. að auk þess að kýla í brotaþola hefði hann sparkað í hann. Ákærði svaraði því til að ef hann hefði sagt þetta við yfirheyrslur lögreglu hefði hann ekki verið að segja ósatt.
Aðspurður treysti ákærði sér ekki til að segja til um hversu langur tími leið frá því hann hringdi í móður sína þar til vitnið C kom á vettvang. Hann kvaðst hins vegar minnast þess að er C kallaði til hans hefði hann enn verið í húsi brotaþola. Ákærði kvaðst hafa hlýtt boði vitnisins um að koma út og sagði að þar hefðu þeir beðið saman eftir lögreglu. Ákærði kannaðist við að hafa reiðst vitninu, en sagði að það hefði verið sökum þess að vitnið hefði sakað hann ranglega um að vera undir áhrifum fíkniefna.
Brotaþoli, A, fæddur 1941, var fyrst yfirheyrður af lögreglu þann 1. mars 2012, að viðstöddum tilnefndum réttargæslumanni, en fram kemur í gögnum að það hafi ekki verið unnt fyrr vegna áverka og ástands hans. Við yfirheyrsluna lýsti brotaþoli yfir algjöru minnisleysi um atvik máls að kvöldi 10. og aðfaranótt 11. febrúar. Hann kvaðst ekkert muna eftir árásinni eða hvað hann hefði verið að gera fyrir hana og ekki heldur þegar lögreglan kom á vettvang. Brotaþoli lýsti húsakynnum sínum að nokkru, en hann kvaðst hafa búið þar einn í um áratug. Hann skýrði frá því að hringlaga borð hefði verið undir glugganum við vesturvegg stofunnar og að þar við hefði verið eldhússtóll. Hann kvað leðurstól hafa verið sunnan við eldhúsborðið.
Við yfirheyrsluna kvaðst brotaþoli þekkja til ákærða og vísaði til þess að hann væri sonur B, sem væri bróðurdóttir hans. Hann kvaðst þó aldrei hafa haft nein samskipti við ákærða og enn fremur lítið verið í samskiptum við móður hans frá því að hún var barn.
Við yfirheyrsluna lýsti brotaþoli líðan sinni eftir árás ákærða þannig að hann hefði verið með verki víða í líkamanum, en að auki miður sín andlega. Og vegna árásarinnar kvaðst hann ekki hafa í hyggju að flytja að nýju í hús sitt að [...], en lýsti áformum um að flytja á dvalarheimili aldraðra í kauptúninu.
Fyrir dómi áréttaði brotaþoli að hann hefði engar minningar um árás ákærða. Þá kvaðst hann engar skýringar geta gefið á athæfi hans og var frásögn hans að öðru leyti í samræmi við þá skýrslu sem hann hafði gefið hjá lögreglu. Hann kvaðst m.a. engin samskipti hafa haft við ákærða eða fjölskyldu hans, en hafði ekki eiginlegar skýringar á því.
Fyrir dómi kvaðst brotaþoli hafa komist til sjálfs sín á Sjúkrahúsinu á Akureyri, en fyrst almennilega náð áttum eftir að hann hafði verið fluttur á Heilbrigðisstofnun [...]. Brotaþoli bar að hann hefði ekki náð fullri heilsu eftir árás ákærða og staðhæfði að minni hans hefði versnað, en einnig andleg líðan. Auk þess kvaðst hann vera óstöðugri á fótunum en áður. Vegna þessa kvaðst hann hafa þegið aðstoð lækna og tekið inn kvíðalyf, m.a. vegna svefnerfiðleika. Og eftir árás ákærða kvaðst hann ekki hafa treyst sér til að halda áfram búsetu sinni á heimili sínu, en hann hefði fengið vist á dvalarheimili aldraðra í kauptúninu.
Brotaþoli skýrði frá því að hann hefði nær alla ævi verið heyrnarlaus á öðru eyranu, en ætlaði að eftir árásina hefði heyrn hans versnað á hinu eyranu, en að úr því hefði þó ekki endanlega verið skorið með heyrnarmælingu.
Brotaþoli kvaðst aðspurður ekki kannast við þann áburð sem ákærði hefur haldið fram, þ.e. að hann hefði misnotað móður hans kynferðislega er hún var barn að aldri. Hann kvaðst ekki minnast þess.
Verður nú vikið að framburði vitna við meðferð málsins.
Vitnið B, fædd [...], móðir ákærða, kom fyrir dóminn og lýsti atvikum að kveldi föstudagsins 10. febrúar 2012 með líkum hætti og ákærði hér að framan. Vitnið kvaðst, eftir heimsókn þeirra til vinafólks, hafa farið til síns heima um kl. 23:00 og bar að um líkt leyti hefði ákærði fylgt ömmu sinni heim. Vitnið kvaðst hafa gengið til náða eftir að hafa horft á sjónvarp um stund, en síðan vaknað við símhringingu. Í lögregluskýrslu, sem tekin var þann 17. febrúar 2012, er haft eftir vitninu, að það hefði í fyrstu ekki þekkt röddina í símanum þar eð hún hafi verið svo dimm og torkennileg, en þá hefði viðmælandinn sagt: „Þetta er X, ég er með A, viltu að ég láti hann biðjast afsökunar“. Fyrir dómi staðfesti vitnið þessi orð sín og bar að það hefði verið líkt því sem ákærði hefði verið með kökk í hálsinum. Vitnið bar að ákærði hefði í símtalinu jafnframt sagt efnislega: „Ég er með hann hérna, viltu tala við hann, ég er með hann hérna í símanum“. Vitnið kvaðst hafa innt ákærða eftir því við hvern hann ætti og bar að hann hefði þá svarað efnislega þannig: ,,A... ég fór bara inn og lét hann aðeins finna fyrir því. Gæti náttúrulega ekkert gert, ekki eins og hann gerði við þig en ... ég lamdi hann, ég lamdi í hann og mig minnir að hann hafi sagt að, ég gaf honum á kjaftinn, og hvort hann hafi sagst hafa sparkað einu sinni í hann þegar hann lá, og tekið upp einhvern stól og grýtt honum í gólfið, já og hent borðinu ... hann sagði bara, mamma ég er búinn að hefna, þú veist ...“
Vitnið staðhæfði að í símtalinu hefði ákærði boðið því að ræða við brotaþola. Vitnið kvaðst hafa hafnað því og fyrirskipað ákærða að hætta athæfi sínu. Vitnið sagði að símtalið hefði varað í um hálfa mínútu, en það kvaðst hafa ályktað að ákærði væri rólegur og yfirvegaður. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt í brotaþola á meðan á símtalinu stóð og ekki önnur bakgrunnshljóð, en það kvað ákærða hafa haft orð á því að hann væri búinn að brjóta stól í hýbýlum brotaþola svo og glugga og gera þar annan usla og í því sambandi sagt: „Ég er búinn að hefna þín“ eða „Ég er búinn að taka hann í gegn“.
Vitnið bar að vegna símtalsins hefði það farið í mikið uppnám, en eftir að því lauk kvaðst það hafa hringt í vitnið C og beðið hann um að hraða sér á vettvang. Kvaðst vitnið á þeirri stundu helst hafa óttast að brotaþoli myndi skjóta ákærða og vísaði til þess að það hefði haft vitneskju um að hann væri með skotvopn á heimili sínu og hefði verið ofbeldisfullur á árum áður.
Fyrir dómi staðhæfði vitnið, að er það var á barnsaldri hefði það mátt þola grófa og ítrekaða kynferðislega misnotkun af hálfu brotaþola, en hann sé föðurbróðir þess. Að auki hefði hann brotið gegn öðrum stúlkum, en þær hafi verið henni nákomnar. Vitnið bar að þessi brot brotaþola hefðu aldrei verið kærð til lögreglu, aðeins verið tilkynnt skólastjóra á sínum tíma.
Vitnið kvaðst hafa flust úr heimabyggð sinni 15 ára og eftir það um margra ára skeið átt heimili utanhéraðs, fyrir utan fáeina mánuði er það fæddi ákærða. Vitnið kvaðst hafa flust að nýju í kauptúnið á árinu 2003. Vitnið staðhæfði að hin ætluðu brot brotaþola hefðu gegnum tíðina haft mjög alvarleg áhrif á sálarlíf þess. Það var ætlan vitnisins að ákærði hefði haft spurnir af brotum brotaþola er hann var á barnsaldri, en um síðir verið fullkunnugt um þau. Vitnið kvaðst þó aldrei hafa lýst athæfinu með nákvæmni fyrir honum, en ætlaði að vegna þess hefði hann borið mjög þungan hug til brotaþola.
Vitnið C, fæddur [...], kom fyrir dóm og kvaðst hafa verið genginn til náða rétt um miðnættið þann 11. febrúar 2012 er móðir ákærða, vitnið B, hringdi í heimilissímann og tjáði honum að ákærði hefði hringt í sig og tilkynnt að hann væri heima hjá brotaþola og eitthvað hefði gengið þar á. Vegna þessa kvaðst vitnið hafa hraðað för sinni og ætlaði að það hefði verið komið á vettvang um fjórum mínútum eftir símtalið, enda um stutta vegalengd að ræða. Vitnið kvaðst strax hafa farið á sólpall við hús brotaþola og þá séð hvar stór rúða var brotin í stofuglugganum, en þá jafnframt séð hvar ákærði stóð þar rétt innan við. Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt að kveikt var á kerti innan dyra, en síðar komist að því að gleröryggi hafði sprungið í húsinu. Vitnið kvaðst hafa kíkt inn um gluggann og þá séð hvar brotaþoli lá á stofugólfinu, en einnig veitt því eftirtekt að mikið blóð var þar á vettvangi. Vitnið kvaðst hafa kallað til brotaþola, en hann ekki svarað eða sýnt nein viðbrögð. Vegna þessarar aðkomu kvaðst vitnið hafa ætlað að brotaþoli væri andaður. Vitnið kvaðst hafa beðið ákærða að koma út fyrir og bar að hann hefði hlýtt því, en komið út um útidyrnar. Í beinu framhaldi af því kvaðst vitnið hafa hringt á Neyðarlínuna og óskað eftir aðstoð lögreglu, en síðan beðið átekta ásamt ákærða við húshornið í um tíu mínútur uns D lögregluvarðstjóri kom á vettvang. Í millitíðinni kvað það nágrannakonuna J hafa komið á vettvang.
Vitnið áréttaði að fyrst eftir að það kom á vettvang hefði það ályktað að ákærði hefði lokið ætlunarverki sínu. Nefndi vitnið í því sambandi þau orð ákærða að það ætti að hafa vitneskju um hvað brotaþoli hefði áður gert móður hans og jafnframt að brotaþoli hefði átt þetta fyllilega skilið. Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt er ákærði var komin út úr húsi brotaþola að hann var með bjórflösku í hendi, en bar að hann hefði þó haft á orði að hann væri ekki að drekka. Vegna þessa kvaðst vitnið hafa sagt við ákærða að hann hlyti að vera á einhverjum öðrum efnum þar eð enginn heilvita maður gerði slíka hluti og jafnframt haft uppi ásakanir um að ákærði væri dópisti. Vitnið bar að vegna þessara orða hefðu þeir farið að rífast og minntist þess að ákærði hefði í þeirri orðræðu sagt að hann ætti fljótlega von á dómi vegna líkamsárásar. Vitnið bar að ákærði hefði ekki verið áberandi ölvaður, en þrástagast á því að það ætti að vita hvað brotaþoli hefði gert móður hans er hún var barn að aldri. Vitnið kvaðst hafa sett þessi orð ákærða í samhengi við sögusagnir í kauptúninu um ætluð kynferðisbrot brotaþola gegn móður ákærða er hún var ung að árum. Nánar aðspurt kvaðst vitnið hafa lagt þá merkingu í orð ákærða að hann hefði verið að hefna sín á brotaþola. Vitnið bar að ákærði hefði aldrei sagt að ætlan hans hefði verið að drepa brotaþola. Vitnið kvaðst ásamt ákærða hafa beðið eftir lögreglu utan dyra í um tíu mínútur, en eftir það kvaðst það hafa aðstoðað D lögregluvarðstjóra að færa ákærða á lögreglustöð. Vitnið kvaðst hafa þekkt til brotaþola fyrir þennan atburð og staðhæfði að heimili hans hefði a.m.k. fyrr á árum verið mjög snyrtilegt.
Vitnið J, fædd [...], kom fyrir dóminn og bar að það hefði verið utan dyra við heimili sitt rétt eftir miðnættið þann 11. febrúar 2012. Kvaðst vitnið við þessar aðstæður hafa heyrt mikil öskur frá hýbýlum brotaþola og af þeim sökum hraðað sér á vettvang, en þá séð hvar ákærði og C voru þar fyrir utan, en jafnframt heyrt að D lögregluvarðstjóri var innandyra. Vitnið kvaðst strax hafa áttað sig á því að ákærði hefði ráðist að brotaþola. Vitnið sagði að ákærði hefði verið í miklu uppnámi og verið að rífast við C. Vitnið bar að ákærði hefði m.a. haft orð á kynferðislegri misnotkun brotaþola gagnvart móður hans, en það kvaðst hafa sett þau orð hans í samhengi við almannaróm um að slík brot hefðu átt sér stað á árum áður.
Vitnið I, fæddur [...], kom fyrir dóm og greindi frá atviki er átti sér stað á heimili þess árið 2008. Vitnið staðhæfði að lögregla hefði þá haft afskipti af ákærða vegna ölvunar og átaka við aðra gesti. Vitnið bar að áður en lögreglan kom á vettvang hefði tal gesta m.a. varðað málefni brotaþola, og bar að ákærði hefði sagt að hann myndi drepa hann einn daginn. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið þessi orð ákærða alvarlega enda litið á þau sem raus ölvaðs manns.
Vitnið H, fæddur [...], kom fyrir dóm og skýrði frá því að það hefði hlýtt á orð ákærða er þeir voru um fermingu þess efnis að hann hefði vilja til að heimsækja brotaþola og gera honum ýmsa illa hluti. Vitnið kvaðst ekki hafa litið á þessi orð sem hótanir ákærða í garð brotaþola, en þó sett þau í samhengi við almannaróm í kauptúninu um ætlað refsivert athæfi brotaþola gagnvart móður hans. Vitnið kannaðist enn fremur við atvik frá árinu 2008, er nokkur umræða hefði farið fram um barnaníðinga í hófi á heimili vitnisins I. Vitnið bar að nokkur atgangur hefði orðið eftir þetta, en sagði að hann hefði verið ótengdur umræðuefninu. Vitnið kannaðist ekki við að ákærði hefði verið með hótunarorð í garð brotaþola, en bar að hann hefði verið handtekinn af lögreglu vegna ólátanna.
Vitnið E heimilislæknir kvaðst hafa verið kvatt að heimili brotaþola laust eftir miðnættið þann 11. febrúar 2012. Vitnið sagði að við komu hefði verið rafmagnslaust í húsinu en að götulýsing hefði lýst húsakynnin upp. Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið með meðvitund, en verið órólegur og sýnilega stokkbólginn í andliti og alblóðugur. Eftir að brotaþoli hafi verið fluttur á Heilsugæslustöðina kvaðst vitnið hafa gert að sjö andlitssárum hans og saumað, en þau hefðu náð inn úr húðinni. Því hefði ekki einungis verið um skrámur að ræða. Vitnið kvaðst hafa þekkt brotaþola fyrir, en litlu sambandi náð við hann. Vitnið sagði að brotaþoli væri mjög heyrnardaufur, en staðhæfði að það hefði haft fregnir um að heyrnartæki hans hefðu glatast í árásinni. Vitnið áréttaði að brotaþoli hefði verið með fullri meðvitund, en greinilega eitthvað ruglaður. Vitnið kvaðst hafa metið það svo að brotaþoli hefði klárlega orðið fyrir hættulegri árás og m.a. fengið þung högg á höfuðið. Nánar aðspurt kvaðst vitnið ætla að brotaþoli hefði bæði fengið högg með hnefa og áhaldi og vísaði þar um til tveggja sára á enni er hefðu verið þríarma. Vitnið kvaðst síðar hafa haft spurnir af því að brotaþoli hefði auk beinbrota fengið heilablæðingu. Vitnið bar að eftir um klukkustundar aðhlynningu á heilsugæslustöðinni hefði brotaþoli verið fluttur á Heilbrigðisstofnun [...] á [...].
Nánar aðspurt um hýbýli brotaþola umrædda nótt bar vitnið að þar hefði allt verið brotið innan dyra og af þeim sökum kvaðst það hafa ályktað að árásarmaðurinn, þ.e. ákærði, hefði verið í geðrofsástandi. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða umrædda nótt, en þekkt til hans og haft vitneskju um að hann hefði átt við geðræna erfiðleika að stríða: „mér finnst það líklegt miðað við sögu, þá hefur þetta verið uppsöfnuð bræði ...“
Vitnið sagði að brotaþoli hefði gróið vel sára sinna, en bar að helstu afleiðingar árásarinnar hefðu verið að hann væri haldinn mikilli kvíðaröskun, en af þeim sökum hefði hann ekki treyst sér til að halda áfram búsetu í húsi sínu. Hann hefði því selt hús sitt og flust á öldrunarheimili kauptúnsins.
Vitnið Theódór Gunnar Sigurðsson, skurð- og æðaskurðlæknir, kom fyrir dóminn og staðfesti efni áðurrakins læknisvottorðs frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, frá 16. mars 2012. Vitnið kvaðst hafa verið á vakt er brotaþoli kom með sjúkrabifreið frá Heilbrigðisstofnun [...], en það kvaðst hafa sinnt honum fyrstu þrjá dagana á sjúkrahúsinu. Vitnið sagði að meginástæðan fyrir því að brotaþoli var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri hefðu verið höfuðáverkar hans og vísaði til þess að við rannsókn hefði komið í ljós fersk heilablæðing, en það hefði verið alvarlegasti áverkinn. Lét vitnið það álit í ljós að heilablæðingin hefði verið afleiðing högga sem brotaþoli hefði orðið fyrir á andlit eða höfuð. Vitnið sagði að heilablæðingin hefði verið 13x12 mm, en bar að einnig hefði komið fram bjúgur. Vegna þessara áverka hefði verið tekin ákvörðun um að vista brotaþola á gjörgæsludeild sjúkrahússins í nokkra sólarhringa. Vitnið sagði að brotaþoli hefði fyrstu dagana verið dálítið ruglaður og var það ætlan þess að þau höfuðhögg sem hann varð fyrir í árásinni hefðu verið helsta ástæða þess. Vitnið hafði þó þann fyrirvara á að það hefði ekki þekkt brotaþola fyrir. Vitnið lét það álit í ljós að heilaáverki brotaþola hefði verið heldur meiri en sést hefði á myndum, en áréttaði að blæðingin hefði verið mjög lítil.
Vitnið sagði að höfuðáverkar brotaþola hefðu í raun getað verið lífshættulegir og þá sérstaklega ef heilablæðingin og heilabjúgurinn hefði aukist. Vitnið sagði að í raun hefðu engin merki komið fram um aukinn þrýsting í höfði brotaþola eftir innlögnina og bar að áverkamerkin hefðu gengið til baka. Vitnið sagði að þróun slíkra höfuðáverka væri m.a. háð aldri sjúklings og gætu þeir orðið lífshættulegir, en í versta falli leitt til dauða.
Nánar aðspurt kvaðst vitnið ekki geta sagt til um hvernig þríarma sár á höfði brotaþola voru tilkomin, en ætlaði, m.a. með hliðsjón af lýsingu í sjúkraskrá frá [...], að um skurðsár hafi verið að ræða og þá helst eftir einhvers konar egg, hugsanlega glerbrot, en það hafi ekki lagt sérstakt mat á það. Vitnið staðhæfði að miðað við þá heildaráverka sem brotaþoli var með við komu hefði hann örugglega hlotið mörg högg á líkama sinn. Vitnið treysti sér ekki til að segja til um hvort einvörðungu hefði verið um hnefahögg að ræða eða hvort barefli hefði komið þar við sögu. Aðspurður um hringlaga áverka á baki og kinn brotaþola og hvort þeir áverkar gætu verið eftir hjól af stól kvaðst vitnið ekki treysta sér til að fullyrða um það, en að ekki væri hægt að útiloka slíkt. Vitnið staðhæfði á hinn bóginn að ekki væri vafi á því að brotaþoli hefði orðið fyrir verulega þungum höggum. Vitnið lét að lokum það álit í ljós að þrátt fyrir lýsta áverka hefði brotaþoli í raun aldrei verið í lífshættu.
Shreekrishna Datye, skurðlæknir og yfirlæknir á Sjúkrahúsinu á Akureyri, kom fyrir dóminn og staðfesti áðurrakið læknisvottorð frá 16. mars 2012, en einnig bráðabirgðavottorð frá 14. febrúar á sama ári. Vitnið bar að samkvæmt sjúkraskrá Heilbrigðisstofnunar [...] hefði brotaþoli við flutning á Sjúkrahúsið á Akureyri kastað upp blóði, en af þeim sökum hafi verið ályktað að hann hefði fengið blæðingu í nefkoki eða í koki. Vitnið kvaðst hafa annast brotaþola fljótlega eftir að hann kom á sjúkrahúsið. Vitnið kvað helstu sýnilegu áverka hans hafa verið talsvert mar og bólgur í kringum bæði augun og þá þannig að ekki hafi verið hægt að skoða þau í fyrstu. Þá hefði hann verið með nokkra skurði í andliti sem þegar var búið að sauma. Vitnið sagði að við myndatökur hefðu aðrir áverkar komið í ljós, þ. á m. nefbrot og fleiri andlitsbrot, en einnig rifbrot hægra megin. Þá hefði blóðgildi brotaþola verið lágt eða um 25% lægra en eðlilegt gat talist. Vitnið sagði að við tölvusneiðmyndatöku hefði alvarlegasti áverki brotaþola komið í ljós, þ.e. heilablæðing vinstra megin fyrir ofan auga og gagnauga, 13x12 mm, en að auki hefði komið fram heilabjúgur. Vitnið skýrði frá því að fyrstu dagana á sjúkrahúsinu hefði brotaþoli verið nokkuð ruglaður, en auk þess hefði verið erfitt að ná sambandi við hann vegna heyrnarleysis. Vísaði vitnið til þess að upplýsingar hefðu verið um að heyrnartæki brotaþola hefðu eyðilagst í þeirri árás sem hann varð fyrir. Vitnið bar að brotaþoli hefði verið hafður á gjörgæslu vegna heilablæðingarinnar, en þar hefði verið fylgst með bata hans, m.a. með endurteknum tölvusneiðmyndatökum. Vitnið kvað heilabjúg brotaþola hafa aukist á tímabili en síðan minnkað og hefði ástand brotaþola farið batnandi eftir það.
Nánar aðspurt um áverka brotaþola kvaðst vitnið ekki hafa séð með eigin augum þríarma sár á enni hans og áréttaði að við komu hans á sjúkrahúsið hefði að nokkru verið búið gera að sárum og umbúðir verið yfir. Vitnið sagði að slík sár væru yfirleitt ekki afleiðing skurðáverka heldur kæmu þau fram þegar húðin springi undan höggi, t.d. hnefahöggi, vegna sparks eða eftir áhald. Um tilkomu annarra áverka taldi vitnið líklegt að brotaþoli hefði orðið fyrir fleiri en einu þungu höggi eða þá þannig að hann hefði skollið í vegg eða fallið með andlitið á gólf. Þá staðhæfði vitnið að til þess að tárabein og ennisholubein brotni þurfi a.m.k. eitt þungt högg. Um tilkomu hringlaga sára á vinstri hluta andlits brotaþola treysti læknirinn sér ekki til að segja um og þ. á m. ekki hvort þau gætu verið eftir hjól af skrifborðsstól, en ætlaði að við beitingu slíks áhalds hefði verið líklegra að nefbeinin hefðu brotnað á fleiri stöðum en raunin varð. Vitnið ætlaði að heilablæðing brotaþola hefði komið til af öðru höggi en því höggi sem orsakaði nefbeinsbrot hans. Vitnið sagði að heilablæðingin hefði þó reynst lítil og hefði brotaþoli því ekki verið í bráðri lífshættu. Þá hefði heilabjúgurinn ekki verið lífshættulegur. Vitnið bar að þrátt fyrir að brotaþoli hefði ekki komist undir læknishendur vegna lýstra áverka hefði hann lifað af, en vegna lýsts ástands hefði verið talið nauðsynlegt að fylgjast með honum í um tólf daga. Og þar sem heilsa hans hefði lagast með tímanum hefði hann verið útskrifaður af Sjúkrahúsinu á Akureyri þann 24. febrúar 2012, en í framhaldi af því verið sendur til endurhæfingar í heimabyggð, á Heilbrigðisstofnun [...]. Það var ætlan vitnisins að brotaþoli hefði jafnað sig ágætlega með tímanum, en ætlaði að lítils háttar minnisleysi gæti verið afleiðingar árásarinnar, en að auki gætu persónuleikabreytingar hjá honum komið fram.
D lögregluvarðstjóri kom fyrir dóminn og staðfesti frumskýrslu lögreglu og önnur rannsóknargögn, þ. á m. ljósmyndir. Vitnið lýsti upphafsaðgerðum sínum um miðnættið 11. febrúar 2012 eins og rakið er í nefndum gögnum og bar að ákærði hefði í fyrstu verið nokkuð æstur, en ætlaði að það hefði verið vegna ágreinings sem upp hefði komið milli hans og vitnisins C. Vitnið sagði að ákærði hefði virst nokkuð ölvaður, en þó áttaður á stund og stað. Vitnið sagði að ákærði hefði í þrígang haft orð á því að hann hefði tekið brotaþola í gegn og barið hann í klessu, en jafnframt sagt að vitnið ætti að vita hvers vegna hann hefði ráðist á brotaþola. Kvaðst vitnið hafa ályktað að með þessum orðum væri ákærði að vísa til almannaróms í kauptúninu, um áratuga gamalt mál, sem varðaði móður hans. Vitnið kvaðst eftir þessi fyrstu orðaskipti við ákærða hafa litast um í húsakynnum brotaþola, og verið með vasaljós þar eð þar hefði verið rafmagnslaust og ætlaði að það hefði orsakast af því að ljósakrónan í stofunni hafði verið rústuð. Vitnið kvaðst hafa séð brotaþola þar sem hann lá á glerbrotum á gólfinu í norðvesturhorni stofunnar. Vitnið kvað brotaþola hafi verið mjög illa áttaðan og skelkaðan, og hafi hann reynt að reisa sig við. Vitnið kvaðst hafa þekkt til hýbýla brotaþola fyrir þennan atburð og bar að þau hefðu verið snyrtileg, en að heimilið hefði verið í rúst umrædda nótt. Vegna þessa kvaðst vitnið hafa ályktað að árás ákærða hefði verið mjög heiftúðug og hörð.
Valur Magnússon rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sýna um vettvang á heimili brotaþola, en einnig ljósmyndir sem hann tók á vettvangi og af brotaþola á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Vitnið vísaði til áratuga reynslu af rannsóknum brotamála, en það kvaðst hafa dregið ályktanir af ummerkjum á vettvangi um árás ákærða og þar á meðal að hún hefði verið hröð og ofsafengin. Vísaði vitnið til þess að árás ákærða hefði hafist með því að hann hefði kastað 5 kg steini í gegnum rúðu í glugga á stofu í hýbýlum brotaþola, en við það hefðu glerbrot dreifst um allt rýmið í stofunni. Vitnið sagði að við nánari athugun hefðu ummerki eftir ákærða verið í nær öllu húsinu en það kvaðst þó hafa ályktað af ummerkjunum að aðalatgangurinn hefði átt sér stað í stofunni. Vitnið lýsti nánar rannsókn sinni á vettvangi og var það í samræmi við áðurrakin gögn. Vitnið staðfesti þannig að leðurstóll í stofunni hefði verið brotinn og þá þannig að tvö smelluhjól hefðu verið farin af, en að auki hefði fundist á honum blóðkám og hár. Vitnið sagði að við rannsókn málsins hefði það sérstaklega verið kannað hvort leðurstólnum hefði verið beitt gegn brotaþola og áréttaði að þar til grundvallar hefðu verið tiltekin för í áverkum þeim sem hann bar á vinstra gagnauga eða kinn og á baki. Vitnið sagði að við samanburð greindra áverka við hjól leðurstólsins hefði verið talið líklegt að brotaþoli hefði fengið hluta áverka sinna þannig að hann hefði verið sleginn með stólnum og hjólin þá brotnað undan honum. Vitnið staðfesti að á brotavettvangi hefði fundist munnharpa og að hún hefði verið blóðug, en að auki hefði verið á henni hár. Vegna þessa hefðu rannsakendur ályktað að munnharpan hefði verið notuð sem barefli gegn brotaþola. Þá kvaðst vitnið hafa ályktað af blóðslettum og blóðferlum á veggjum stofunnar, að munum eða áhöldum hefði verið sveiflað til í atgangi ákærða og nefndi í því sambandi helst fyrrnefndan stól og munnhörpu. Vitnið vísaði til áralangrar reynslu við rannsóknir líkamsárásarmála, en það kvaðst þó ekki hafa eiginlega sérfræðiþekkingu á blóðferlarannsóknum.
Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur við tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti áðurraktar skýrslur um rannsókn á fatnaði brotaþola, en einnig á öðrum þeim munum sem haldlögð voru á vettvangi, svo og um þau lífsýni sem greind voru með DNA-rannsókn á sænsku rannsóknarstofunni. Vitnið staðfesti m.a. að á sýnum sem tekin voru af hægri skó og af bakhlið hægri skálmar á buxum ákærða, en einnig á framhlið þeirrar vinstri, hefðu verið blóðsýni úr brotaþola. Sagði vitnið að af þessum ummerkjum hefði verið talið að minni blóðblettirnir á buxunum væru slettur sem hefðu komið eftir högg, en að útlitið á stærri blettunum hefði frekar bent til þess að um kám væri að ræða. Vitnið áréttaði í því sambandi að sýni sem tekin voru af efri hluta hægri skálmarinnar hefðu samræmst því að þar væri um blóð úr brotaþola að ræða. Vitnið sagði að á skófatnaði ákærða, þ.e. á utanverðum sólum, hefði verið mikið um rauðleitt kám og bletti, en þó mun meira á hægri skónum, en að auki hefði hár verið fast í káminu, en sagði að það hefði ekki verið skoðað nánar. Vitnið sagði að erfitt hefði verið að álykta um atburðarásina af greindum verksummerkjum, en sagði að ef brotaþoli hefði verið mjög blóðugur á vettvangi þá gæti kámið á skónum samræmst því að sparkað hafi verið í hann, og ætlaði að það væri líklegasta skýringin.
Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt um hvort það brot sem var á þeirri munnhörpu sem fannst á vettvangi hefði verið nýlegt eða gamalt, en staðfesti að mikið blóðkám hefði verið á báðum hliðum hennar, en einnig litlir blettir. Vitnið sagði að af þessu hefði helst verið ályktað að munnharpan hefði ekki legið einhvers staðar og þannig fengið á sig slettur. Vitnið benti á að ákærði hefði verið blóðugur á báðum höndum og því gæti verið að munnharpan hefði verið tekin upp með blóðugum höndum, en að ekki væri hægt að útiloka að hún hafi verið notuð sem barefli.
Vitnið sagði að þau hársýni sem tekin voru til rannsóknar, merkt A til E, hefðu verið með rauðleitu kámi, sem hefði bent til þess að þau hafi verið rifin úr hársverði. Vitnið vísaði til þess að samkvæmt DNA-greiningu hefðu hárin verið úr brotaþola.
IV.
Í máli þessu er ákærða, X, m.a. gefin að sök húsbrot og eignaspjöll með því að hafa umrætt kvöld ruðst í heimildarleysi inn á heimili brotaþola, A, sem fæddur er 1941, með því að kasta steini í gegnum rúðu og skemma síðan og ónýta lausafjármuni þar innandyra, eins og nánar er lýst í ákæru. Þá er ákærða gefið að sök að hafa veist að brotaþola í hýbýlum hans með ofbeldi, m.a. með höggum, spörkum og barsmíðum, eins og nánar er lýst í ákæru, og með því valda þeim afleiðingum sem þar er lýst, og að hafa með þessum hætti gerst sekur um tilraun til manndráps.
Við alla meðferð málsins hefur ákærði játað að hafa brotist með lýstum hætti inn í hýbýli brotaþola. Ákærði hefur sagt að verknaðinn hafi hann framið í bræði og undir áhrifum áfengis, en jafnframt fullyrt að tilgangur hans hafi verið að leita hefnda vegna ætlaðra alvarlegra misgjörða brotaþola gagnvart móður hans er hún var barn að aldri. Ákærði hefur og skýlaust játað að hafa gengið í skrokk á brotaþola með barsmíðum, en neitað því alfarið að ætlan hans hafi verið að bana brotaþola.
Ákærði hefur fyrir dómi, líkt og við ítrekaðar yfirheyrslur lögreglu, játað að hafa slegið brotaþola í höfuð og búk.
Við lögregluyfirheyrslur játaði ákærði að hafa sparkað í búk brotaþola. Hann dró þessa játningu til baka fyrir dómi og vísaði til minnisleysis um gjörðir sínar eftir að hann hafði ruðst með framangreindum hætti inn í hýbýli brotaþola. Ákærði kvaðst þannig ekki minnast þess að hafa sparkað í brotaþola. Þá kannaðist hann ekki við að hafa beitt þeim áhöldum sem lýst er í ákæru í atlögu sinni gegn brotaþola.
Fyrir liggur að er atvik máls gerðust bjó brotaþoli einn á heimili sínu. Hann hefur fyrir dómi, líkt og við rannsókn lögreglu, lýst algjöru minnisleysi um gjörðir ákærða og um atvik máls.
Ágreiningslaust er að brotaþoli hlaut mikla áverka vegna atlögu ákærða, m.a. alvarlega höfuðáverka, brot á andlitsbeinum, mar, bólgur og sár, en einnig heilablæðingu. Að auki hlaut brotaþoli brot á tveimur rifbeinum og sár og mar á baki. Alvarlegasti áverki brotaþola var nefnd heilablæðing, en hún var á takmörkuðu svæði. Það er álit lækna, sem að mati dómsins hefur stoð í rannsóknargögnum lögreglu, að brotaþoli hafi hlotið áverka sína af völdum fleiri en einnar ákomu, og að þær hafi verið þungar. Verður þetta lagt til grundvallar við úrlausn málsins.
Af rannsóknargögnum lögreglu verður ráðið að aðal atgangur ákærða gagnvart brotaþola hafi átt sér stað í lítilli stofu í hýbýlum hans, en þar voru skýr verksummerki, m.a. mikið af blóði og blóðkámi. Samkvæmt vætti lækna missti brotaþoli talsvert blóð vegna áverka sinna. Óumdeilt er að eftir atgang ákærða var nær allt úr lagi gengið á heimili brotaþola.
Við lögreglurannsókn fór fram rannsókn á vettvangi, og var m.a. gerð sérstök rannsókn á leðurstól og munnhörpu, en einnig á hárum og haldlögðum fatnaði ákærða. Fyrir dómi hafa lögreglumenn staðfest rannsóknarskýrslur sínar, en þar á meðal eru vettvangsskýrslur og ljósmyndir, en einnig skýrslur um tækni- og DNA-rannsókn. Það var niðurstaða rannsakenda að í atgangi ákærða hefðu tvö hjól á fyrrgreindum leðurstól brotnað af. Það var einnig niðurstaða rannsakenda að tiltekin för í áverkum á vinstra gagnauga og á baki brotaþola gætu samrýmst því að hann hefði verið sleginn með leðurstólnum. Að áliti dómsins hafa þessar ályktanir m.a. stoð í framlögðum ljósmyndum og vætti Theódórs Gunnars Sigurðssonar, skurð- og æðaskurðlæknis. Verður hún því lögð til grundvallar.
Að ofangreindu virtu og þrátt fyrir að ekki sé unnt að segja til með vissu um nákvæma framvindu atgangs ákærða gegn brotaþola, m.a. vegna minnisglapa hans, er það niðurstaða dómsins að árás ákærða hafi verið heiftúðug og hrottafengin. Verður samkvæmt framangreindu fallist á með ákæruvaldi að brotaþoli hafi hlotið alvarlegasta áverka sína með barsmíðum, m.a. er fyrrgreindum leðurstól var beitt gegn honum. Þá er að áliti dómsins nægjanlega sannað að hnefa- og fótaspörk ákærða í höfuð og búk brotþola hafi einnig átt þátt í þeim áverkum sem lýst er í staðfestum læknisvottorðum. Óvarlegt þykir hins vegar að telja nægjanlega sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi beinlínis traðkað á höfði brotaþola eða slegið hann í andlitið með munnhörpu, sem fannst á vettvangi.
Að virtum gögnum og framburði ákærða verður að áliti dómsins að leggja til grundvallar í málinu, að eftir að ákærði hafði gengið í skrokk á brotaþola með lýstum hætti hafi hann átt stutt símtal við móður sína, vitnið B, en efni þess er áður rakið. Og þegar þetta er virt, ásamt öðrum gögnum, þ. á m. frásögn ákærða og vætti vitnanna C og D lögregluvarðstjóra, er fyrstir komu á vettvang, svo og því að áverkar brotaþola reyndust í raun ekki lífshættulegir, er að áliti dómsins varhugavert að telja sannað, gegn neitun ákærða, sbr. ákvæði 108. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, að hann hafi á verknaðarstundu haft ásetning til að bana brotaþola eða að honum hafi hlotið að vera ljóst að bani kynni að hljótast af atlögunni. Ber því að sýkna ákærða af því, að hann hafi með háttsemi sinni gerst sekur um tilraun til manndráps, sbr. 211. gr., sbr. 20 gr., hegningarlaganna. Á hinn bóginn þykir lögmæt sönnun framkomin um að ákærði hafi gerst sekur um alvarlega og sérstaklega hættulega líkamsársás. Varðar háttsemi ákærða því við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Er mál þetta var höfðað af hálfu ákæruvalds, hinn 29. október 2012, lá ekki fyrir kæra eða refsikrafa af hálfu brotaþola vegna húsbrots og eignarspjalla. Verður því fallist á með ákærða að skilyrði hafi brostið til saksóknar fyrir brot gegn 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. m.a. dómafordæmi Hæstaréttar Íslands í málum nr. 440/1992 og 441/2007.
V.
Ákærði, sem er 24 ára, hefur samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins áður sætt refsingum. Hann gekkst þrívegis, á árunum 2008 og 2010, undir sáttargjörðir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, en með þeim var honum gert að greiða sektir til ríkissjóðs vegna brota gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf og vegna fíkniefnaaksturs. Þá var ákærði með dómi þann 15. febrúar 2012 dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir alvarlega líkamsárás, en þar af voru níu mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára. Loks var ákærða með sáttargjörð sýslumannsins á Húsavík, 16. maí 2012, gert að greiða sekt til ríkissjóðs vegna fíkniefnaaksturs og var hann þá jafnframt sviptur ökurétti í tvö ár.
Brot það sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir var framið um miðnættið 11. febrúar 2012, þ.e. fyrir uppkvaðningu þess dóms sem kveðinn var upp yfir honum þann 15. febrúar, en einnig fyrir sáttargjörðina frá 16. maí það ár. Ber af þeim sökum að ákvarða ákærða hegningarauka í samræmi við ákvæði 60. gr., sbr. 78. gr., almennra hegningarlaga.
Við ákvörðun refsingar verður að áliti dómsins m.a. að líta til þess, að árás ákærða gagnvart brotaþola var heiftúðug, hrottafengin og stórhættuleg. Þá verður að líta til þess að ákærði framdi verknaðinn að næturlagi, á heimili brotaþola og í hefndartilgangi. Verða öll þessi atriði metin refsingu ákærða til þyngingar, sbr. m.a. 1., 2., 3., 6. og 7 tl. 1. mgr. 70 gr. hegningarlaganna. Til málsbóta horfir, sbr. 5. tl. 1. mgr. 70. gr. sömu laga, að ákærði hefur samkvæmt framlögðum vottorðum eftir verknaðinn m.a. leitað sér sálfræðiaðstoðar og farið í ávana- og fíkniefnameðferð. Fyrir dómi lýsti hann jafnframt yfir iðran og féllst á að greiða nokkrar bætur til brotaþola.
Að öllu þessu gættu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Eigi þykir fært að skilorðsbinda refsinguna, en til frádráttar henni skal koma gæsluvarðhaldsvist ákærða á tímabilinu frá 17. til 22. febrúar 2012.
Skipaður réttargæslumaður brotaþola, Sigmundur Guðmundsson héraðsdóms-lögmaður, hefur fyrir hans hönd krafist skaðabóta eins og lýst er í ákæru. Krafan er dagsett 7. maí 2012, en hún var birt ákærða 22. nóvember sama ár. Endanleg krafa brotaþola, að fjárhæð 3.751.468 krónur, var lögð fram við meðferð málsins fyrir dóm. Var hún þá rökstudd frekar, m.a. með nýjum gögnum og reikningum. Að auki var þá krafist hæfilegrar málflutningsþóknunar. Um lagarök er vísað til 1. gr., 3. gr. og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993. Krafan sundurliðast þannig:
a) miskabætur 3.000.000 kr.
b) þjáningabætur með rúmlegu 60.380 kr.
c) þjáningabætur án rúmlegu 211.380 kr.
d) sjúkrakostnaður 298.687 kr.
e) Tjón skv. matsgerð og gerð hennar 181.011 kr.
Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir hættulega líkamsárás gagnvart brotaþola og ber hann bótaábyrgð samkvæmt almennri sakarreglu skaðabótaréttar á tjóni hans.
Eins og áður er rakið hefur ákærði samþykkt bótaskyldu, en andmælt bótakröfunni sem of hárri, en einnig hefur hann vísað til vanreifunar kröfunnar. Við flutning andmælti hann enn fremur hækkun kröfunnar eftir höfðun málsins svo og einstökum liðum hennar, þar á meðal þeim sem byggjast á matsgjörð, sem hann segir að sé óstaðfest.
Með hliðsjón af ofangreinum andmælum ákærða, en einnig 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91, 1991, er ekki unnt að fallast á fyrrgreinda hækkun bótakröfu brotaþola. Þá þykir í ljósi andmælanna verða að vísa þeim bótaliðum kröfunnar frá dómi, sem byggjast á matsgerð, en fyrir liggur að ákærði átti þess ekki kost að koma að athugasemdum sínum við gerð hennar.
Að mati dómsins ber að ofangreindu virtu að fallast á sundurliðaða og rökstudda skaðabótakröfu brotaþola vegna sjúkrakostnaðar og vegna kaupa hans á heyrnartæki, samtals að fjárhæð 291.741 króna. Einnig verður fallist á kröfu brotaþola um þjáningabætur að því er varðar rúmlegu, sbr. m.a. vætti lækna þar um, samtals að fjárhæð 36.228 krónur. Krafa um þjáningabætur án rúmlegu þykir að virtum andmælum ákærða ekki nægjanlega rökstudd og er þeim hluta hennar vísað frá dómi. Brotaþoli þykir eiga rétt á miskabótum vegna háttsemi ákærða. Með hliðsjón af alvarleika hennar og þeim afleiðingum sem af henni hlaust, sbr. m.a. vætti lækna fyrir dómi, þykja miskabæturnar hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna. Um vexti fer sem í dómsorði greinir.
Í ljósi málsúrslita verður ákærði dæmdur til að greiða ¾ hluta sakarkostnaðar, en ¼ hluti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar segir í dómsorði.
Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88, 2008 áður en boðað var til uppkvaðningar dómsins.
Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingunni skal koma gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 17. til 22. febrúar 2012.
Ákærði greiði A 1.327.969 krónur í miska- og skaðabætur með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 11. febrúar til 22. nóvember 2012, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Sakarkostnaður að fjárhæð 1.513.780 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 978.900 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti og vegna ferðakostnaðar hans, að fjárhæð 30.730 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sigmundar Guðmundssonar héraðsdóms-lögmanns, 376.500 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist að ¾ hlutum af ákærða, en ¼ hluta úr ríkissjóði.