Hæstiréttur íslands
Mál nr. 219/2005
Lykilorð
- Akstur sviptur ökurétti
|
|
Fimmtudaginn 17. nóvember 2005. |
|
Nr. 219/2005. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn Valentínusi Guðmundi Baldvinssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Akstur án ökuréttar.
V var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. V átti talsverðan sakarferil að baki. Var umrætt brot hans framið eftir að hann var dæmdur fyrir sams konar brot auk minni háttar umferðarlagabrota með dómi héraðsdóms 14. október 2004, sem staðfestur var um sakfellingu hans með dómi Hæstaréttar 3. mars 2005, þar sem V var dæmdur í sex mánaða fangelsi. Var refsing V í málinu hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 17. maí 2005 að ósk ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu ákærða.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.
Brot ákærða er framið eftir að hann var dæmdur fyrir sams konar brot auk minni háttar umferðarlagabrota með dómi Héraðsdóms Reykjaness 14. október 2004, sem staðfestur var um sakfellingu ákærða með dómi Hæstaréttar 3. mars 2005 í máli nr. 445/2004. Með honum var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Valentínusar Guðmundar Baldvinssonar.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 249.000 krónur, sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, á báðum dómstigum.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2005.
Mál þetta var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 31. janúar 2005, á hendur Valentínusi Guðmundi Baldvinssyni, kt. 160360-5699, Njálsgötu 86, Reykjavík, „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni MR-627, miðvikudaginn 5. janúar 2005, sviptur ökurétti frá Bíldshöfða í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn á Bergþórugötu.
Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Ákærði hefur játað brot sín fyrir dóminum. Er játning hans í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brot sín, en þau er í ákæru réttilega færð til refsiákvæða.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði á ákærði talsverðan sakarferil að baki. Hann hlaut fyrst dóm 6. apríl 1981 30 daga varðhald, skilorðbundið í tvö ár fyrir nytjastuld og ölvunarakstur. Hann er dæmdur fyrir umferðarlagabrot, m.a. akstur án ökuréttar, 17. febrúar 1994. Hinn 2. júní 1994 var ákærði í Hæstarétti dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir akstur án ökuréttar og ölvun við akstur auk brota gegn áfengislögum og sviptur ökurétti ævilangt frá 28. janúar s.á. Hinn 31. október 1997 hlaut hann tveggja mánaða fangelsi fyrir akstur án ökuréttar. Næst var hann dæmdur fyrir slíkt brot 19. apríl 1999 í fjögurra mánaða fangelsi. Loks var hann dæmdur í Hæstarétti 14. september 2000 til fimm mánaða fangelsisvistar fyrir ölvunar- og sviptingarakstur og áréttuð var ævilöng svipting ökuréttar. Aftur var ákærði dæmdur fyrir umferðarlagabrot, m.a. sviptingarakstur, þann 14. október 2004 og var hann þá dæmdur í 6 mánaða fangelsi og til greiðslu 20.000 króna sektar. Þeim dómi var áfrýjað og gekk dómur Hæstaréttar Íslands í málinu 3. mars sl. þar sem ákærði var dæmdur í 5 mánaða fangelsi fyrir brot sín.
Að þessu virtu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 50.000 krónur.
Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Valentínus Guðmundsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda sins, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 50.000 krónur.