Hæstiréttur íslands

Mál nr. 364/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 14. júní 2011.

Nr. 364/2011.

A

(Sveinn Guðmundsson hrl.)

gegn

B

(enginn)

Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans gegn B var vísað frá dómi með vísan til þess að dómkröfur hans væru óskýrar og í andstöðu við d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og málatilbúnaðar hans í andstöðu við e. lið 1. mgr. sömu greinar. Í málinu gerði A þá kröfu að viðurkenndur yrði eignarréttur hans að tiltekinni fasteign og ógilt yrði kaupsamningur/afsal sem einhliða hefði verið gefið út til B og afmáð úr þingbók sýslumannsins á S. Taldi Hæstiréttur að af orðalagi kröfunnar yrði ekki ráðið að hvaða skjali krafan beindist auk þess sem hvorki væri ljóst við hvað væri átt með orðinu ”þingbók” né kæmi fram hvert væri efnislegt innihald kröfunnar um að afmá skjalið úr þeirri bók. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úskurðar, var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem mun hafa borist Héraðsdómi Suðurlands 1. júní 2011 og barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. maí 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og „kröfur hans fyrir héraðsdómi verði teknar til greina.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Framangreind heimild til að skjóta máli þessu til Hæstaréttar er bundin við niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að vísa málinu frá dómi. Í málinu verða því ekki gerðar kröfur um efnisþátt málsins.

Í stefnu til héraðsdóms gerir sóknaraðili meðal annars kröfu um að „ógilt verði kaupsamningur/afsal einhliða gefið út til handa stefnda og það verði afmáð úr þingbók sýslumannsins á Selfossi.“ Af orðalagi kröfunnar verður ekki ráðið að hvaða skjali krafan beinist, auk þess sem hvorki er ljóst hvað átt er við með orðinu „þingbók“ né kemur fram hvert sé efnislegt innihald kröfunnar um að afmá skjalið úr bók þessari.

Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. maí 2011.

Mál þetta var þingfest þann 16. febrúar 2011 og dómtekið þann 6. apríl sl. Málið er höfðað með stefnu birtri þann 27. janúar 2011. Stefnandi er A, kt. [...], til heimilis á Hjúkrunarheimilinu á [...], [...], en skipaður lögráðamaður hans, C, kt. [...], [...], [...], höfðar málið fyrir hans hönd. Stefndi er B, kt. [...], til heimilis að [...], [...].

Stefnandi gerir þær kröfur að með dómi verði eignaréttur stefnanda viðurkenndur að fasteigninni nr. [...] að [...] í [...] með fasteignanúmerið [...], [...] og [...] og ógilt verði kaupsamningur/afsal einhliða gefið út til handa stefnda og það verði afmáð úr þingbók sýslumannsins á Selfossi.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti, en málskostnaðarreikningur verði lagður fram við aðalflutning málsins ef til komi.

Í stefnu lýsir stefnandi málsatvikum svo að stefnandi hafi búið í fasteign sinni [...], [...] allt frá árinu [...] en hafi greinst með [...] á níunda áratug síðustu aldar. Hann hafi samhliða búsetu sinni að [...] jafnframt legið inni á stofnunum af og til og verið úrskurðaður öryrki vegna veikinda sinna. Í dag búi stefnandi á Hjúkrunarheimilinu á [...] í [...] og þyki nokkuð ljóst að hann muni ekki snúa aftur til baka á heimili sitt í [...]. Stefnandi hafi verið sviptur fjárræði ótímabundið með úrskurði þann 14. nóvember 2008, en sjálfræði til 12 mánaða frá uppkvaðningu úrskurðarins. Í dag fari systir stefnanda, C, með fjárræði stefnanda.

Að öðru leyti er málsatvikum lýst svo í stefnu að ættingjar stefnanda hafi fyrir tilviljun komist að því að gefið hafi verið út einhliða afsal vegna fasteignarinnar að [...], [...], dagsett 16. september 2008, til handa stefnda B, án þess að sérstakt endurgjald hafi komið til úr hans hendi til stefnanda. Stefndi hafi veitt fasteignasalanum D umboð til að undirrita ofangreint afsal og þar með öll skjöl sem þurfa þótti, þ.m. t. öll lánaskjöl. Þá hafi ættingjar stefnanda kært meint auðgunarbrot skv. XXVI kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 248. gr. og 253. gr. laganna, til sýslumannsins á Selfossi og hafi kærunni verið þinglýst á eignina [...]. Lögmaður stefnanda hafi haft samband við stefnda og gert honum grein fyrir stöðu mála og jafnframt nauðsyn þess að hann myndi að eigin frumkvæði óska eftir aflýsingu á afsalinu úr þingbókum sýslumannsins á Selfossi. Síðan hafi verið ákveðið að selja eignina og gengið að kauptilboði að fjárhæð kr. 10.000.000. Aldrei hafi þó orðið af endanlegum frágangi sölunnar þar sem afsal til handa stefnda hafi verið því til fyrirstöðu að hægt væri að ganga frá kaupum og sölu á eigninni. Kveður stefnandi fyrir liggja að kaupsamningur um eignina hafi ónýst vegna aðgerðarleysis stefnda og áskilur stefnandi sér allan rétt til skaðabóta, þegar ljóst verður hvert endanlegt tjón hans geti orðið vegna alls þessa.

Kveður stefnandi málið sæta lögreglurannsókn. Þá hafi þess verið sérstaklega óskað við rannsókn lögreglu að skoðað yrði hverjir hafi komið að málinu og hvernig þeir tengist því. Kveður stefnandi liggja fyrir að einn aðili hins opinbera máls hafi haft stefnanda að féþúfu til margra ára og nemi fjárhæðin allt að 10 milljónum króna.

Ítrekar stefnandi að fyrir liggi í málinu að ekkert endurgjald hafi skilað sér til stefnanda vegna hinna meintu kaupa og afsals á eigninni til handa stefnda. Þá komi fram í framlögðum tölvupósti stefnda, sbr. dskj. 11, að um sé að ræða einhverskonar skuldauppgjör og viðskipti þriðja aðila, sem séu algjörlega óskyld og óviðkomandi stefnanda. Hafi stefnda mátt, miðað við málavaxtalýsingu, vera vel ljóst að stefnandi hafi verið beittur misneytingu og blekkingu og hafi hann því í framhaldi skapað sér ábyrgð gagnvart stefnanda í þessu máli.

Þá bendir stefnandi á að hinum meinta samningi í formi afsals til handa stefnda megi víkja til hliðar þar sem það verði að teljast ósanngjarnt miðað við málsatvik að bera hann fyrir sig og þar að auki sé hann andstæður góðri viðskiptavenju eins og stefndi lýsi því sjálfur í áðurnefndum framlögðum tölvupósti, en þar lýsi stefndi aðdraganda viðskiptanna, þar sem skjalagerð, endurgjald og allur frágangur sé stefnanda mjög í óhag og að stefnda hefði mátt vera ljóst að viðskiptin væru á allan hátt mjög óeðlileg.

Þá hafi stefnda mátt vera ljóst að löggerningur sá sem stefndi telji sig hafa í hendi hafi verið fenginn með ólögmætum hætti, sbr. meginreglur sem fram komi í III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þá sérstaklega 31. 33. og 36. gr. sömu laga.

Niðurstaða.  

Við þingfestingu málsins þann 16. febrúar sl. var mætt af hálfu stefnda og málinu frestað   til 16. mars sl. til framlagningar greinargerðar. Þann dag var mætt af hálfu stefnda og málinu frestað til 6. apríl sl. Þann dag féll þingsókn niður af hálfu stefnda og ber því samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem er samrýmanlegt framkomnum gögnum, nema gallar séu á málinu sem varða frávísun þess án kröfu.

Stefnandi krefst þess að með dómi verði viðurkenndur eignaréttur stefnanda að fasteigninni nr. [...] að [...] í [...] með fasteignanúmerið [...], [...] og [...] og ógilt verði kaupsamningur/afsal einhliða gefið út til handa stefnda og það verði afmáð úr þingbók sýslumannsins á Selfossi. Í gögnum málsins liggur frammi veðbókarvottorð fyrir áðurnefnda fasteign og kemur þar fram að fasteignanúmer eignarinnar er [...]. Hvorki í því skjali né öðrum framlögðum skjölum málsins er  getið um fasteignanúmerin [...] og [...] sem vísað er til í kröfugerð stefnanda og er kröfugerðin að þessu leyti óljós og misvísandi. Þá er krafa stefnanda um að ógilt verði kaupsamningur/afsal einhliða gefið út til handa stefnda, eins og segir orðrétt í dómkröfum stefnanda, óljós og án nægilegrar tilgreiningar. Dómkröfur stefnanda eru óskýrar að þessu leyti og í andstöðu við ákvæði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  

Þar að auki eru í stefnu óglögg skil milli fullyrðinga stefnanda um þau atvik sem hann telur veita sér umkrafða hagsmuni og frásagnar af atvikum sem að öðru leyti er þörf að greina frá vegna samhengis líkt og kveðið er á um í e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vísað er til málsatvika, sem þó ekki hefur verið fyllilega lýst, í rökstuðningi fyrir því að löggerningur hafi verið fenginn með ólögmætum hætti og verulega skortir að öðru leyti á rökstuðning fyrir málsástæðu þessari, en í málinu er sérstaklega byggt á III. kafla nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 31., 33. og 36. grein laganna. Málatilbúnaður stefnanda uppfyllir því ekki skilyrði e. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að vísa máli þessu frá dómi án kröfu.

Málskostnaður úrskurðast ekki.

Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning úrskurðar þessa dregist.

Ragnheiður Thorlacius, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.

Málskostnaður úrskurðast ekki.