Hæstiréttur íslands

Mál nr. 173/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Útburður


Miðvikudaginn 11

 

Miðvikudaginn 11. apríl 2007.

Nr. 173/2007.

Immobilia ehf.

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

gegn

Trésmiðju Snorra Hjaltasonar hf.

(Kristján Þorbergsson hrl.)

 

Kærumál. Aðför. Útburður.

T hf. krafðist þess að I ehf. yrði með beinni aðfarargerð borið út úr tiltekinn fasteign í Reykjavík. Í úrskurði héraðsdóms var fallist á að T hf. hefði verið heimilt að rifta kaupsamningi aðila vegna verulegra vanefnda I ehf. á að standa skil á lokagreiðslum samkvæmt honum. Ekki var talið að heimild T hf. til riftunar samningsins og að krefjast umráða yfir fasteigninni væri háð því að uppgjör færi fram milli samningsaðila. Var því fallist á að gerðin færi fram. Úrskurðurinn var staðfestur með vísan til forsendna hans. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 19. mars 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2007, þar sem heimilað var að sóknaraðili yrði borinn út úr fasteigninni nr. 1 við Ármúla í Reykjavík, ásamt öllu því sem félaginu tilheyri. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að hann verði borinn út og honum dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili reisir frávísunarkröfu sína á því að kæra sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði c. liðar 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem í kæru hans til Hæstaréttar séu ekki tilgreindar neinar ástæður fyrir henni. Í kæru sóknaraðila eru ekki raktar ástæður fyrir henni, svo sem boðið er í ákvæði því sem varnaraðili vísar til, en hins vegar boðað að greinargerð verði send Hæstarétti samkvæmt 149. gr. laga nr. 91/1991. Áður en til þess kæmi að sóknaraðili sendi réttinum greinargerð sína hafði vararaðili skilað greinargerð sinni með kröfu um frávísun frá Hæstarétti. Sóknaraðili skilaði síðan greinargerð 30. mars síðastliðinn eða innan viku frá því er kærumálgögn bárust réttinum. Ástæður hans fyrir því að hann telur að hafna skuli kröfu varnaraðila um útburð eru þar raktar. Samkvæmt 2. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991 eru því ekki efni til þess að vísa málinu frá Hæstarétti, enda þótt kæra sóknaraðila hafi ekki verið í réttu formi.

Með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms verður hann staðfestur.

Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað, svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                                  Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Immobilia ehf., greiði varnaraðila, Trésmiðju Snorra Hjaltasonar hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2007.

Með beiðni móttekinni 13. desember 2006 hefur gerðarbeiðandi, Trésmiðja Snorra Hjaltasonar hf., Kirkjustétt 4, Reykjavík, krafist dómsúrskurðar um að gerðar­þoli, Immobilia ehf., Ármúla 1, Reykjavík, verði með beinni aðfarargerð borinn, ásamt öllu sem félaginu tilheyrir, út úr fasteigninni nr. 1 við Ármúla í Reykjavík, land­númer 103510, matsnúmer FMR 201-2653, 201-2654 og 201-2655, með beinni að­farargerð. Jafnframt krefst gerðarbeiðandi þess að gerðarþola verði gert að veita gerðar­beiðanda full eignarumráð sömu eignarhluta. Þá er krafist málskostnaðar auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Gerðarþoli krefst þess að kröfum gerðarbeiðanda verði hafnað. Þá krefst gerðar­þoli málskostnaðar.

I.

Málavextir eru þeir að með kaupsamningi dagsettum 3. júní 2005 keypti gerðar­þoli fasteignina að Ármúla nr. 1 af gerðarbeiðanda og var kaupverðið  ákveðið kr. 300.000.000,-. Fram kemur í kaupsamningnum að við undirritun hans skyldi kaupandi greiða kr. 220.000.000,- með andvirði veðskuldabréfs gegn skilyrtu veðleyfi í eign­inni. Þá skyldi greiða kr. 80.000.000,- þann 1. febrúar 2006. Á móti skyldi seljandi sjá til þess að aflétta strax áhvílandi veðskuldum samkvæmt tveimur tryggingabréfum að fjár­hæð kr. 225.000.000 annars vegar og 20.000.000 hins vegar. Á eigninni skyldi hvíla áfram tryggingabréf frá seljanda að fjárhæð kr. 60.000.000,-, sem skyldi aflétta fyrir eða við lokagreiðslu. Þá kemur fram í kaupsamningi áskilnaður um staðfestingu frá Sparisjóði Hafnarfjarðar á því að greiðsla að fjárhæð kr. 80.000.000,- yrði greidd á réttum tíma.

Þann 9. júní 2005 var gerður viðauki við kaupsamninginn þar sem sjálf­skuld­ar­ábyrgð Rendita ehf., fyrirtækis í eigu gerðarþola, kom í stað staðfestingar Sparisjóðs Hafnar­fjarðar á efndum samningsins.

Vanskil urðu á greiðslu að fjárhæð kr. 80.000.000,- hinn 1. febrúar 2006. Var þá gerð yfirlýsing um viðauka við kaupsamninginn hinn 6. mars 2006, þar sem gerð var breyt­ing á kaupsamningnum. Samkvæmt henni bar gerðarþola að greiða kr. 40.000.000,- eigi síðar en þann 31. júlí 2006, með framsali á greiðslu frá Íbúðar­lána­sjóði samkvæmt lánsloforði. Greiðsla samkvæmt lánsloforðinu skyldi renna til Frjálsa fjár­festingabankans til uppgreiðslu á framkvæmdaláni bankans, sem fjármagnar bygg­ingu húss Rendita ehf., að Garðaholti 7, Fáskrúðsfirði. Frjálsi fjárfestingabankinn hf. muni greiða upp  framkvæmdalán byggingarinnar en ráðstafa öllum eftirstöðvum láns­ins inn á reikning Trésmiðju Snorra Hjaltasonar hf. Þá skyldi greiða kr. 40.000.000,- þann 30. september 2006. Jafnframt bar gerðarþola að greiða 15,15% fasta vexti á eftir­stöðvar kaupverðs auk þess sem uppsafnaðir dráttarvextir frá 1. febrúar 2006, að fjár­hæð kr. 1.587.000,-, voru greiddir við undirritun samkomulagsins. Gefa skyldi út tvo tryggingarvíxla fyrir greiðslum þessum.

Gerðarþoli innti hvorki af hendi greiðslu þann 31. júlí 2006 né heldur þá er honum bar að greiða þann 30. september 2006. Gerðarþoli greiddi hins vegar inn á samn­ingsvexti kr. 996.000,- þann 8. maí 2006, kr. 830.000,- þann 9. maí 2006, kr. 1.032.000,- þann 12. júní 2006, og kr. 1.032.000,- þann 2. ágúst 2006, eða samtals kr. 3.890.000,-.

Gerðarbeiðandi sendi gerðarþola tvö símskeyti þann 15. nóvember 2006, birt hinn 16. sama mánaðar, þar sem skorað var á hann að greiða gjaldfallnar eftirstöðvar kaup­verðs, kr. 80.000.000,- höfuðstól auk vaxta, innheimtuþóknunar og að frádregnum inn­borgunum, samtals kr. 88.508.412,-, fyrir 21. nóvember sama mánaðar en fengist skuldin ekki greidd að þeim tíma liðnum yrði kaupsamningi aðila rift án frekari við­vörunar. Mótmælti gerðarþoli þeirri riftun þar sem aðilar hefðu gert með sér sam­komulag um frestun kaupsamningsgreiðslna auk þess sem einungis væru liðnir 45 dagar frá því lokagreiðsla átti að innast af hendi, auk þess sem gerðarbeiðandi hefði ekki aflétt tryggingabréfi af eigninni. 

II.

 Gerðarbeiðandi byggir málatilbúnað sinn á því að gerðarþoli hafi ekki greitt skuld sína við gerðarbeiðanda né heldur sýnt neina tilburði til að greiða eða semja um greiðslu skuldarinnar. Þvert á móti hafi gerðarþoli andmælt riftun og gefið í skyn að hann gæti dregið ágreiningsmál um riftun á langinn. Gerðarbeiðandi byggir út­burðar­kröfu sína á því að vanefndir gerðarþola á greiðslu kaupverðs séu verulegar og að gerðar­beiðandi hafi því réttmætar ástæður fyrir riftun. Gerðarbeiðandi telur það styrkja réttmæti riftunar að gerðarþoli greiddi ekki á upphaflega ákveðnum gjalddaga þann 1. febrúar 2006, heldur hafi verið veittur frekari greiðslufrestur. Gerðarþoli hafi einnig vanefnt greiðslur samkvæmt því samkomulagi. Þá hafi gerðarþoli ekki lagt fram fullgildar tryggingar fyrir efndum á kaupsamningi. Aðeins hafi verið greitt inn á upp­reiknaða dráttarvexti. Bent var á að áhvílandi lán sem veðleyfi var veitt fyrir hefði hækkað um kr. 32.000.000,- frá því kaupsamningur var gerður.

Byggir gerðarbeiðandi kröfu um útburð gerðarþola úr eigninni, og að gerðar­beiðandi verði settur inn í full eignarráð, á því að riftun hafi verið réttilega framkvæmd af hálfu gerðarbeiðanda og öllum lagaskilyrðum sé fullnægt.

III.

Gerðarþoli byggir á því að aðilar hafi orðið sáttir um að breyta greiðsluskilmálum á kaupverði eignarinnar. Við þá breytingu hafi gerðarþoli greitt uppsafnaða vexti af eftir­stöðvum kaupverðs auk þess sem Rendita ehf. hafi tekist á hendur ábyrgð á efndum kaupsamningsins. Þá sé ekkert sem skýri á hvaða forsendum gerðarbeiðandi hafi haldið inni veði á eigninni skv. tryggingabréfi að fjárhæð kr. 60.000.000,-. Slík veð­setning hafi valdið því að umtalsverð áhætta væri fyrir gerðarþola að greiða eftir­stöðvar kaupverðs, auk þess sem öll fjármögnun yrði mjög erfið.

Þegar að gjalddaga hafi komið hafi gerðarbeiðandi verið meðvitaður um þá vinnu sem gerðarþoli hafði lagt í til að fá breytingu deiliskipulags á svæðinu og þannig aukið bygg­ingarmagn eignarinnar og um leið verðmæti hennar. Sú vinna hafi tekið lengri tíma en áætlað var en gerðarbeiðandi hafi verið meðvitaður um framvindu mála og sam­þykkt fresti á kaupsamningsgreiðslum meðan þetta stæði yfir. Gerðarbeiðandi hafi gefið út reikninga fyrir dráttarvöxtum af kaupsamningsgreiðslum til gerðarþola sem hafi verið greiddir.

Í nóvember hafi gerðarþoli upplýst gerðarbeiðanda um að fyrir lægju verð­hug­myndir fasteignasala á eigninni uppá kr. 500 – 600 milljónir. Fyrir lægi að nokkrir aðilar væru að skoða kaup á eigninni þannig að gera mætti upp eftirstöðvar kaupverðs við gerðarbeiðanda, en forsenda þess hafi einnig verið að gerðarbeiðandi aflétti skuld­um sínum af húsnæðinu, en samkvæmt veðbókarvottorði hafi enn hvílt kr. 60.000.000,- á eigninni sem stöfuðu frá seljanda þann 30. nóvember 2006. Eftir þetta hafi afstaða gerðarbeiðanda breyst og nokkrum dögum síðar hafi borist tilkynning um riftun kaupsamningsins. Riftun hafi þegar verið mótmælt af hálfu gerðarþola á þeim for­sendum að fyrir lægi samkomulag um frestun kaupsamningsgreiðslna með greiðslu vaxta af þeim auk þess sem einungis 45 dagar væru liðnir frá því lokagreiðsla skyldi innt af hendi. Þá hefði gerðarbeiðandi ekki aflétt skuldum sínum af eigninni. Þetta hafi gerðarbeiðandi ekki fallist á og byrjaði hann markvisst að vinna gegn því að gerðar­þoli gæti lokið fjármögnun. Hafi fasteignasölum verið tilkynnt að óheimilt væri að selja eignina og leigutökum tilkynnt að kaupum hefði verið rift og þeim óheimilt að greiða leigu til gerðarþola. Þá hafi gerðarbeiðandi sent erindi til skipulags- og bygg­ing­arsviðs Reykjavíkurborgar þar sem farið hafi verið fram á að skipulagsvinnu vegna lóð­arinnar yrði frestað þar til gerðarbeiðandi hefði fengið eignarráð lóðarinnar form­lega. Jafnframt hafi ábyrgðaraðila, Rendita ehf., verið sent bréf, dags. 6. desember 2006, þar sem félaginu hafi verið tilkynnt að kaupsamningnum hefði verið rift og ábyrgð þess næði ekki eingöngu til efnda á kaupsamningnum heldur einnig til tjóns vegna riftunar á kaupsamningnum. Einnig hafi viðskiptabanka Rendita ehf., Frjálsa fjár­festingarbankanum, verið tilkynnt að Rendita væri bótaskylt fyrir tjóni gerðar­beiðanda.

Þann 9. desember 2006 hafi lögmaður gerðarbeiðanda sent bréf þar sem upplýst hafi verið að víxlar, sem leggja skyldi fram samkvæmt yfirlýsingu um viðauka kaup­samnings, hefðu ekki verið réttilega útfylltir og skorað á Rendita ehf. að gefa út víxl­ana. Að öðrum kosti yrði þess krafist að fyrirsvarsmanni Rendita ehf., Sverri Jóhannessyni, verði gert að gefa út víxlana með dómi að viðlögðum dagsektum. Skyldu víxlarnir afhentir fasteignasölunni Miðborg ehf. sem sá um sölu eignarinnar, ef van­höld yrðu á greiðslum. Ekki verði séð að víxlarnir séu til tryggingar öðru en greiðslu kaupverðs, auk þess sem í þeim felist ekki aukin trygging umfram efni við­auka við kaupsamning sem gerður var 9. júní 2005.

Þá vísar gerðarþoli til þess að hann hafi greitt inná skuldina ákveðnar innborganir samkvæmt reikningum gerðarbeiðanda fyrir vaxtagreiðslum.

Gerðarþoli vísar til þess að rætt hafi verið um greiðslu skuldarinnar á fundi lög­manna þann 30. nóvember 2006 og ítrekað þann 4. desember sama ár að verið væri að ganga frá sölu og greiðslu, en þá þyrfti uppreikning á stöðu kröfunnar. Því hafi ekki verið sinnt heldur sett fram að ekki hafi verið veittur frestur til sölu eignarinnar. Ítrekað hafi verið með tölvupósti til fasteignasala að óheimilt væri að selja eignina. Hafi þetta, ásamt öðrum aðgerðum gerðarbeiðanda, gert gerðarþola nánast ómögulegt að uppfylla kaupsamninginn.

Gerðarþoli hafi fengið kauptilboð í eignina þann 1. desember 2006 að fjárhæð kr. 390.000.000,-, en þegar kaupanda hefði verið ljóst að ágreiningur væri til staðar hafi ekki orðið af kaupum. Það að tafist hafi að bjóða fram fulla greiðslu og efndir sé að miklu leyti á ábyrgð gerðarbeiðanda sem hafi reynt allt til að koma í veg fyrir að gerðar­þoli geti efnt skyldur sínar.

Nú liggi fyrir kauptilboð að fjárhæð kr. 370.000.000,- dags. 18.01.2007. Sé þar gert ráð fyrir greiðslu á kr. 100.000.000,- með peningum sem greiðist þannig að samkvæmt því tilboði afhendi kaupandi bankaábyrgð að sömu fjárhæð til gerðar­beið­anda, þannig að gerðarbeiðandi fái kröfu sína alla greidda gegn útgáfu afsals. Liggi þannig fyrir boð um fullar efndir samkvæmt kaupsamningnum sem leiði til þess að gerðarbeiðandi verði ekki fyrir tjóni. Tjón gerðarbeiðanda geti því ekki verið til staðar. Ábyrgð­aryfirlýsing Landsbankans dags. 26. janúar sl. er á meðal gagna málsins.

Krefst gerðarþoli því þess að kröfum gerðarbeiðanda verði hafnað og honum gert að gefa út afsal fyrir umræddri eign, gegn móttöku bankaábyrgðar sem tryggi fullar efndir á kaupsamningi. Ef fallist sé á kröfu gerðarbeiðanda sé ljóst að hann hagnist á kostnað gerðarþola, sbr. verðmæti eignarinnar í dag, auk þess sem flókið sé að leysa úr sameiginlegu eignarhaldi, leigutekjum, vaxtakostnaði, eignarhaldskostnaði og öðrum hlutum sem líta þurfi til við uppgjör. Gerðarbeiðandi hafi ekkert slíkt boðið. 

IV.

Gerðarbeiðandi byggir kröfu sína um útburð á því að vegna verulegra vanefnda gerðar­þola á greiðslu eftirstöðva kaupverðs fasteignarinnar Ármúla 1, hafi gerðar­beiðanda verið heimilt að rifta kaupsamningi aðila.  Fyrir liggur að gerðarbeiðandi beindi greiðsluáskorun til gerðarþola að viðlagðri riftun ef ekki kæmi til greiðslu skuld­arinnar. Gerðarþoli heldur því hins vegar fram að gerðarbeiðandi hafi í raun veitt honum greiðslufrest. Hafi greiðsluskilmálum verið breytt og gerðarþoli greitt vexti af kaup­samningsgreiðslum.

Í málavöxtum er rakið hvernig samið var um kaup á fasteigninni. Var gerðarþola veitt skilyrt veðleyfi til Sparisjóðs Hafnarfjarðar til þess að geta fjármagnað kaupin með andvirði veðskuldabréfs. Greiddi gerðarþoli þannig kr. 220.000.000 við undir­ritun kaupsamningsins, sem þinglýst var á eignina, en samhliða því aflétti gerðar­beiðandi 225.000.000 króna tryggingabréfi af eigninni. Þá kemur skýrt fram í kaup­samningi aðila hvernig staðið skyldi að afléttingu tryggingabréfs að fjárhæð kr. 60.000.000 sem enn hvíldi á eigninni við gerð hans.  Verður það ákvæði samningsins skýrt svo samkvæmt orðanna hljóðan, að gerðarbeiðanda hafi ekki verið skylt að af­létta tryggingabréfi fyrr en með lokagreiðslu. Því verður ekki betur séð en að gert hafi verið ráð fyrir að lokagreiðslu mætti nýta til greiðslu skuldar samkvæmt trygg­inga­bréfinu. Getur gerðarþoli því ekki borið fyrir sig að það hafi verið forsenda fyrir loka­greiðsl­unni að aflétta skyldi tryggingabréfinu fyrir þann tíma.

Samkvæmt kaupsamningi aðila skyldi lokagreiðsla upphaflega greidd í einu lagi, þann 1. febrúar 2006. Greiðsluskilmálum var hins vegar breytt með viðauka við samn­inginn þannig að greiðsla skyldi innt af hendi í tvennu lagi, eins og áður er vikið að, og dráttarvextir greiddir. Óumdeilt er að þær greiðslur sem inna skyldi af hendi samkvæmt viðaukanum, aðrar en dráttarvextir, voru ekki greiddar. Ekki er  ágrein­ingur um fjárhæðir hvað þetta varðar. Alls er um að ræða rúmlega fjórðung af heildar­kaup­verðinu. Hefur gerðarþoli ekki sýnt fram á neina þá málsástæðu sem réttlætt getur að gerðarþola hafi verið heimilt að halda þessum greiðslum eftir. Þannig getur greiðsla gerðar­þola á umsömdum vöxtum eftirstöðva kaupverðs aldrei komið í stað skyldu á greiðslu kaupverðsins sjálfs. Þá liggur ekkert fyrir um þá tilhögun að gerðabeiðandi hafi samþykkt greiðslufrest vegna vinnu gerðarþola við að breyta deiliskipulagi á svæðinu.

Gerðarþoli hefur einnig haldið því fram að gerðarbeiðandi hafi unnið gegn því að gerðarþoli gæti lokið fjármögnun með lánsfé eða sölu eignarinnar, m.a. með tilkynn­ingum til aðila um riftun. Verða slíkar tilkynningar í sjálfu sér ekki taldar óeðlileg ráð­stöfun þegar litið er til hagsmuna gerðarbeiðanda af því að hindra að eignin flyttist yfir til þriðja manns á þessu stigi. Verður ekki annað séð af gögnum málsins en að sölu­til­raunir gerðarþola hafi ekki hafist fyrr en í desember 2007, eða eftir að gerðarbeiðandi til­kynnti gerðarþola um riftun kaupsamningsins þann 15. nóvember 2007. Fram að þeim tíma sýndi hann enga tilburði til þess að greiða skuld sína við gerðarbeiðanda. Liggur ljóst fyrir að gerðarþoli taldi sig ekki geta staðið við kaupsamninginn með öðrum hætti.

Samkvæmt 78. gr. laga um aðför nr. 90/1989 er það skilyrði sett fyrir beinni að­farar­gerð að sá réttur sem gerðarbeiðandi leitar fullnustu á sé svo ljós að sönnur verði færðar fyrir honum með þeim gögnum sem aflað verður skv. 83. gr. laganna. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, og þegar litið er heildstætt á fasteignaviðskipti þessi, kaupsamning þann sem liggur til grundvallar þeim og þær viðbætur sem gerðar voru við hann, er það niðurstaða dómsins að gerðarþoli hafi vanefnt verulega kaup­samning þann sem gerður var við gerðarbeiðanda um kaup gerðarþola á fasteigninni Ármúla 1, með því að standa ekki skil á lokagreiðslum samkvæmt kaupsamningnum á um­sömdum gjalddögum. Verður því að fallast á það með gerðarbeiðanda að réttur hans til að rifta leigusamningnum sé það skýr að fullnægt sé þeim skilyrðum sem sett eru fyrir beinni aðfargerð samkvæmt tilvitnaðri lagagrein. Þá ber að líta til þess að megin­reglan er sú að þegar um vanefnd á peningagreiðslum er að ræða er riftunar­réttur seljanda rýmri. Ekki verður á það fallist með gerðarþola að heimild gerð­ar­beiðanda til riftunar og til að krefjast umráða yfir eigninni sé háð því að uppgjör fari fram milli aðila. Verður ekki séð að uppgjör á milli þeirra sé það flókið eða um­fangs­mikið að draga megi í efa rétt gerðarbeiðanda til riftunar. Þá er það ekki skilyrði rift­unar að gerðarbeiðandi hafi boðið fram greiðslu af sinni hálfu.

 Að þessu virtu ber að fallast á kröfu gerðarbeiðanda um að gerðarþoli verði bor­inn, ásamt öllu sem félaginu tilheyrir, út úr fasteigninni nr. 1 við Ármúla í Reykjavík og gerðarbeiðanda veitt full umráð fasteignarinnar, eins og nánar er greint í úr­skurð­ar­orði.

Ekki er ástæða til þess að mæla fyrir um kostnað af væntanlegri gerð vegna ákvæða 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.

Með vísan til þessara úrslita málsins skal gerðarþoli greiða gerðarbeiðanda kr. 150.000,- í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Sigríður Hjaltested, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Krafa gerðarbeiðanda, trésmiðju Snorra Hjaltasonar hf., Kirkjustétt 4, Reykjavík, um að gerðarþoli, Immobilia ehf., Ármúla 1, Reykjavík, verði með beinni að­farargerð borinn, ásamt öllu sem félaginu tilheyrir, út úr fasteigninni nr. 1 við Ármúla í Reykjavík, landnúmer 103510, matsnúmer FMR 201-2653, 201-2654 og 201-2655, er tekin til greina.

Gerðarþoli skal jafnframt veita gerðarbeiðanda full eignarumráð allra eignar­hluta fasteignarinnar nr. 1 við Ármúla í Reykjavík.

Gerðarþoli greiði gerðarbeiðanda kr. 150.000,- í málskostnað, að meðtöldum virðis­aukaskatti.