Hæstiréttur íslands

Mál nr. 172/1999


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skráning


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 16. september 1999.

Nr. 172/1999.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Eyvindi Jóhannssyni

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

Bifreiðir. Skráning.

E var ákærður fyrir brot gegn 2. mgr. 27. gr. reglugerðar nr. 78/1997 um skráningu ökutækja með því að hafa látið festa spjald fyrir ofan skráningarmerki bifreiðar sem hann hafði umráð yfir. Spjaldið var ekki talið gert úr garði eins og skráningarmerki bifreiðar og nokkurt bil var á milli spjaldsins og merkisins. Ekki var talin slík hætta á að yfirvöld eða almenningur gæti villst á spjaldinu og skráningarmerki bifreiðarinnar að efni væru til að sakfella E. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu E staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. apríl 1999 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að sér verði aðeins gerð vægasta refsing, sem lög leyfa.

Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn 2. mgr. 27. gr. reglugerðar nr. 78/1997 um skráningu ökutækja, sbr. nánar tilgreind ákvæði umferðarlaga nr. 50/1987, með því að hafa látið festa spjald með orðinu „vinnu“ ofan við skráningarmerki með orðinu „lyftur“ á bifreið, sem hann hafði umráð yfir. Samkvæmt tilvitnuðu reglugerðarákvæði er óheimilt að festa á ökutæki merki, áletranir eða önnur auðkenni ef hætta er á að villst verði á þeim og heimiluðum skráningarmerkjum. Hvorki er í ákvæðinu né öðrum fyrirmælum reglugerðarinnar áskilið að merki eða áletranir þurfi að vera í tiltekinni lágmarksfjarlægð frá skráningarmerkjum. Umræddu spjaldi og skráningarmerki bifreiðarinnar er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Af því, sem þar er rakið, og öðrum gögnum málsins er ljóst að spjaldið er ekki gert úr garði eins og skráningarmerki bifreiðar, sbr. 13. gr. og 14. gr. reglugerðar nr. 78/1997, og er nokkurt bil á milli spjaldsins og merkisins. Þegar þess er gætt er varhugavert að telja slíka hættu á að yfirvöld eða almenningur geti villst á spjaldinu og skráningarmerki bifreiðarinnar að efni séu til að sakfella ákærða fyrir brot gegn ákvæði 2. mgr. 27. gr. nefndrar reglugerðar, svo sem inntaki þess er hagað. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður lagður á ríkissjóð, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Friðjóns Arnar Friðjónssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. mars 1999.

Ár 1999, föstudaginn 19. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er í Dómhúsinu að Brekkugötu 2, Hafnarfirði, af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara kveðinn upp dómur í málinu nr. S-149/1999: Ákæruvaldið gegn Eyvindi Jóhannssyni, sem dómtekið var 10. s.m. að loknum munnlegum málflutningi.

Málið höfðaði Lögreglustjórinn í Hafnarfirði með ákæru útgefinni 10. febrúar 1999 á hendur ákærða, Eyvindi Jóhannssyni, kt. 210751-2469, Birkihvammi 17, Kópavogi, til refsingar fyrir ætlað brot á 2. mgr. 27. gr. reglugerðar nr. 78/1997 um skráningu ökutækja, sbr. 1. mgr. 60. gr. og 64. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987,

,,með því að hafa á árinu 1998, fest á bifreiðina „LYFTUR” merki er báru áletrunina „VINNU-“ og sem voru svipuð að gerð og lögun og hin lögboðnu skráningarmerki, en af þessu skapaðist hætta á því að villst yrði á þeim og skráningarmerkjum bifreiðarinnar.”

I.

Ákærði, sem er framkvæmdastjóri og aðaleigandi einkahlutafélagsins Vinnulyftur, fékk heimild Skráningarstofu til að setja sérstök skráningarmerki (einkamerki) með áletruninni ,,LYFTUR” á Ssangyong Musso jeppabifreið, árgerð 1998, í eigu félagsins í stað almennra skráningarmerkja er bæru fastnúmer bifreiðarinnar, PP 936. Skráningarstofa lét merkin í té í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 78/1997 um skráningu ökutækja. Segir þar um stærð og gerð skráningarmerkja í 21. gr., að grunnur einkamerkis skuli vera með hvítu endurskini, en upplyft rönd á brúnum merkisins blá og upplyftir stafir bláir, af ákveðinni hæð og breidd. Áletrun á einkamerki skuli vera 2-6 bókstafir og/eða tölustafir. Upplyftur flötur fyrir skoðunarmiða skuli vera framan við áletrunina. Skráningarmerkin voru skrúfuð á jeppabifreiðina, á stuðarakápu að framan og á miðjan hurðarhlera að aftan.

Einhvern tíma árs 1998 lét ákærði fyrirtækið Merkjaland í Kópavogi útbúa spjöld úr léttmálmi af sömu stærð og skráningarmerkin, með áletruninni ,,VINNU-“. Spjöldin voru með hvítu endurskini og bláum stöfum af svipaðri gerð og á skráningarmerkjunum, þó með eilítið breiðari stafagerð og minna bili milli stafa, sem ekki voru upplyftir. Þá voru hvorki á spjöldunum upplyftir fletir fyrir skoðunarmiða né bláar upplyftar rendur á brúnum spjaldanna. Spjöldin, sem ákærði segir hafa verið gerð í auglýsingaskyni fyrir Vinnulyftur ehf., lét hann starfsmann sinn Óskar Jóhann Björnsson festa á bifreiðina ofan við skráningarmerki hennar, annað að framan og hitt að aftan, þannig að úr mátti lesa ,,VINNU-“ ,,LYFTUR”.

Lögregla hafði afskipti af ökumanni bifreiðarinnar (Óskari Jóhanni) 5. október 1998 og lét færa bifreiðina til aukaskoðunar, sem fram fór samdægurs í skoðunarstöð Frumherja hf. í Reykjavík. Í niðurstöðum skoðunarmanns voru gerðar athugasemdir við stöðuljós, númersljós og hjöruliði, sem bæri að lagfæra, án þess þó að þörf teldist vera á endurskoðun bifreiðarinnar vegna þeirra atriða. Þá var skráð athugasemdin ,,aukahlutur festur á skráningarmerki” og þess krafist að merkingin ,,VINNU-“ yrði aðskilin frá skráningarmerkjum bifreiðarinnar (LYFTUR) án tafar og hún að því búnu færð til endurskoðunar. Bifreiðin fékk síðan fulla skoðun án athugasemda 7. október sama ár, eftir að búið var að færa ofar spjöldin með áletruninni ,,VINNU-“.

Lögregla hafði afskipti af sama ökumanni bifreiðarinnar 19. desember 1998 og tók þá ljósmyndir af fram- og afturenda bifreiðarinnar, sem sýna glöggt gerð og staðsetningu skráningarmerkjanna ,,LYFTUR” annars vegar og auglýsingaspjaldanna ,,VINNU-“ hins vegar. Af þeim ljósmyndum, framlögðum ljósmyndum frá skipuðum verjanda og skoðun dómara á bifreiðinni er ljóst að nokkurra millimetra bil er á milli nefnds auglýsingaspjalds aftan á bifreiðinni og skráningarmerkis. Hið fyrra er límt á bifreiðina ofan við hið síðara. Á framenda bifreiðarinnar er bilið á milli auglýsingaspjalds og skráningarmerkis öllu meira, þ.e. nokkrir sentimetrar, og skilur þverslá í svartmálaðri grjótgrind á milli. Bæði spjald og merki eru skrúfuð á bifreiðina.

II.

Af framburði ákærða fyrir dómi og öðrum málsgögnum verður ekki ályktað á annan veg en að ákærði hafi verið umráðamaður bifreiðarinnar ,,LYFTUR” í skilningi 2. mgr. 59. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, á því tímabili, sem ákæra tekur til. Samkvæmt því bar ákærði ábyrgð á að bifreiðin væri í lögmæltu ástandi í skilningi umferðarlaga. Málið er því réttilega höfðað á hendur honum vegna ætlaðs brots á reglugerð nr. 78/1997 um skráningu ökutækja, sem sett er með stoð í 60., 64., 64. gr. a. og 67. gr. umferðarlaga, með síðari breytingum. Kemur hér einkum til skoðunar ákvæði 1. mgr. 60. gr. laganna, en þar segir að dómsmálaráðherra setji reglur um gerð og búnað ökutækja, svo og ,,hvaða áletranir og merki skuli setja á ökutæki vegna skráningar og eftirlits.” Ákvæðið ber að skýra svo, að tilgangur með setningu reglna um merkingu ökutækja sé fyrst og fremst vegna opinberrar skráningar og í þágu opinbers eftirlits. Fær sá skilningur stoð í ákvæðum téðrar reglugerðar, þar á meðal 26. gr., sem kveður á um að skráningarmerki skuli sett á bifreiðar á þar til gerðum stað, þar sem þau sjáist vel og má ekki hylja þau eða hluta þeirra. Jafnframt er kveðið á um að skráningarmerki skuli ávallt vera sýnileg og vel læsileg.

Í 1. mgr. 27. gr. reglugerðarinnar segir að skráningarmerki og önnur merki, sem ætluð eru á ökutæki, megi ekki nota með öðrum hætti en fyrir er mælt. Hvorki er í reglugerðinni né ákvæðum umferðarlaga lagt bann við því að einkamerki séu notuð í auglýsingaskyni fyrir einstaklinga eða fyrirtæki. Þá er ekki að finna ákvæði er leggja bann við því að festa auglýsingar á bifreiðar. Ákærða var því heimilt að láta útbúa umrædd auglýsingaspjöld með áletruninni ,,VINNU-” og festa þau á bifreiðina á þeim stað er hann kaus, svo framarlega sem ekki væri hætta á að villst yrði á þeim og heimiluðum skráningarmerkjum bifreiðarinnar, sbr. 2. mgr. 27. gr. téðrar reglugerðar. Vafa um slíkt ber að meta ákærða í hag samkvæmt meginreglum opinbers réttarfars.

III.

Eins og málið er lagt fyrir dóminn af hálfu ákæruvalds verður að leggja til grundvallar að bifreiðin ,,LYFTUR” hafi fengið skoðun án athugasemda 7. október 1998 í því ástandi, sem framlagðar ljósmyndir sýna og dómari málsins staðreyndi við athugun á aðalmeðferðardegi. Dómurinn telur að í því ástandi megi hverjum þeim er þekkir til ákvæða reglugerðar nr. 78/1997, einkum fyrrgreindrar 21. gr. hennar, vera ljóst hvor áletrunin er auglýsing og hvor er skráningarmerki. Löggæslumönnum og öðrum opinberum eftirlitsaðilum getur því vart dulist hvort er hvað, svo framarlega sem skráningarmerkin eru sýnileg og vel læsileg, eins og téð reglugerð áskilur.

Ákæruvaldið hefur ekki upplýst við rannsókn eða meðferð málsins hvernig bifreiðin leit út fyrir 7. október 1998, þ.e. áður en ákærði lét aðskilja skráningarmerki hennar og fyrrgreind auglýsingaspjöld. Verður það metið ákærða í hag.

Samkvæmt framanröktu og með skírskotun til 45.-46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber því að sýkna ákærða af nefndu broti.

Fella ber allan sakarkostnað á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun Friðjóns Arnar Friðjónssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, sem þykja hæfilega ákveðin krónur 40.000, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Dómsorð:

Ákærði, Eyvindur Jóhannsson, er sýkn af kröfum ákæruvalds í málinu.

Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 40.000 króna málsvarnarlaun Friðjóns Arnar Friðjónssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða.