Hæstiréttur íslands

Mál nr. 27/2016

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
X (Grímur Sigurðarson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. janúar 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. sama mánaðar klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og einangrun aflétt. Þá krefst hann í báðum tilfellum kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili er meðal annars undir rökstuddum grun um brot gegn 1. mgr. 109. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en fangelsisrefsing liggur við slíku broti. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2015.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess, með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr. og 1. sbr. 3. mgr. 97. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði x, kt. [...], [...], [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. janúar 2016, kl. 16:00. Þess er einnig krafist að X verði úrskurðaður til að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Í greinargerð sækjanda kemur fram að upphaf máls þessa sé að miðvikudaginn 9. desember sl. hafi A og B, lögreglumaður í fíkniefnadeild (deild R2) embættis Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu snúið sér til ríkissaksóknara. Hafi þeir upplýst ríkissaksóknara um að A hefði upptöku af samtali mágs A, X, og C lögreglumanns í fíkniefnadeild (deild R2). Kváðust þeir þekkja raddirnar á upptökunni sem þessara manna og að upptökuna hafi X afhent A til varðveislu með þeim orðum að upptakan væri trygging hans ef illa færi. Hafi A greint frá því að mágur hans X hafi um ára bil notað ólögleg fíkniefni og tengdist innflutningi og sölu slíkra efna. Samkvæmt skrám lögreglu hafi X hlotið dóma 2011, 2009 og 2001 vegna meðferðar fíkniefna.

             Hafi ríkissaksóknari og vararíkissaksóknari hlustað á upptökuna sem í framhaldinu hafi verið afhent ríkissaksóknara. Komi fram í upptökunni að kærði C upplýsi X um að tiltekin nafngreindur og ætlaður upplýsingagjafi lögreglu, sé enn að gefa lögreglu upplýsingar, ræða þeir starfsemi fíkniefnadeildar (R2) og megi af samtali þeirra greina að X afhendi C peninga líklega 100.000 krónur og símtæki. Verði ráðið af samtali þeirra að X hafi áður afhent kærða C símtæki og því hafi hann tekið við í það minnsta tveimur símtækjum og að þau séu notuð til að eiga samskipti þeirra á milli. Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu falli það ekki undir starfssvið kærða C sem rannsóknarlögreglumanns að vera í upplýsingasambandi við upplýsingagjafa lögreglu. Sérstakir starfsmenn lögreglustjórans hafi þann starfa að vera í sambandi við upplýsingagjafa. Verði samskipti þessara manna því ekki skýrð með því að þar sé um einhver slík samskipti að ræða.

             Samkvæmt framangreindu telji ríkissaksóknari að fyrir liggi rökstuddur grunur um að kærði X hafi greitt kærða C fyrir upplýsingar sem bundnar séu þagnarskyldu um starfsemi fíkniefnadeildar. Teljist sú háttsemi kærða X geta varðað við 109. gr. og 136. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 109. gr. hgl. leggi allt að 4 ára fangelsisrefsingu við að gefa, lofa eða bjóða opinberum starfsmanni gjöf eða ávinning sem hann eigi ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans.

             Kærði C hafi verið handtekinn 28. desember 2015 og hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 29. desember sl. Hafi kærði C staðfest að hafa átt í upplýsingarsambandi við kærða X, að hafa tekið við símtæki frá honum en hafi þrætt fyrir að hafa tekið við greiðslu peninga. Hann kannist við að hafa veitt X upplýsingar sem bundnar séu þagnarskyldu úr kerfum lögreglu og að hafa brotið gegn reglum um upplýsingaöflun lögreglu með sambandi sínu við X. Staðfesti hann að nefnd upptaka sé af samtali þeirra tveggja.

             Kærði X hafi verið handtekinn kl. 14:34 í gær miðvikudaginn 6. janúar sl. og húsleit framkvæmd heima hjá honum. Við húsleitina hafi fundist ætluð fíkniefni og tvö óskráð skotvopn skammbyssa og afsöguð haglabyssa. Seinna skotvopninu hafi verið stolið á árinu 2014 úr húsi í [...]. Þá hafi fundist svokallaður „skaðalisti“, sem talinn sé handritaður af kærða X, þar sem komi fram upplýsingar um líkamsmeiðingar sem ætla megi að hann hafi beitt menn og aðkoma hans að bankaráni í [...]. Mun embætti Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu verða upplýst um framangreint og honum gefin kostur á að taka upp rannsóknir tengdar þessu en framangreind tvö mál tengd þjófnaði á haglabyssunni og rán í [...] á árinu 2003 séu enn óupplýst. Í húsleitinni hafi verið haldlagðir 17 farsímar og tölva sem enn eigi eftir að rannsaka. Varsla skotvopnanna kunni að brjóta gegn vopnalögum eða eftir atvikum 254. gr. almennra hegningarlaga verði skýringar kærða X um að hann hafi tekið við haglabyssunni frá þriðja manni, lagðar til grundvallar.

             Kærði X hafi verið yfirheyrður eftir handtöku í gær. Fátt hafi komið fram í þeirri yfirheyrslu, annað en að hann kannist ekki við neitt umfram það að vita hver kærði C væri, og hafi yfirheyrslunni verið hætt eftir skamma stund. Framkoma kærða benti til þess að hann kynni að vera undir áhrifum fíkniefna, að mati rannsakenda, en það hafi ekki verið staðfest með lyfjaprófun. Fyrirhugað sé að yfirheyra kærða X og bera undir hann framburð vitna, kærða C og upptöku samtala þeirra C en það hafi ekki gefist tími til þess þar sem 24 klst. frestur lögreglu til að leiða kærða fyrir dómara verði brátt að baki. Kærði C hafi verið yfirheyrður í morgun og látinn laus að lokinni þeirri yfirheyrslu enda hafi ekki  þótt tilefni til að yfirheyra hann frekar um sakarefnið og kærði X komin í hald lögreglu. Markaður gæsluvarðhaldstími hans renni út á morgun föstudag kl. 16:00. Ljóst sé að ríkissaksóknari þurfi rýmri tíma til að ljúka þeim rannsóknaraðgerðum og yfirheyrslum sem enn eigi eftir að framkvæma áður en óhætt teljist að láta kærða lausan og gefa þeim kærða C færi á að ræðast við. Sé því gerð krafa um að kærði sæti einangrun. Kærðu hafi ekki gefist færi á að ræða saman frá því kærði C hafi verið handtekinn fyrir áramótin. Þess sé krafist að gæsluvarðhaldið standi út næstu viku fram á föstudaginn 15. janúar sem ríkissaksóknari telji hæfilegt.

             Rannsókn máls þessa sé framkvæmd af ríkissaksóknara með aðstoð lögreglumanna frá embætti Ríkislögreglustjórans, með vísan til 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Meint brot kærða C teljist geta varðað við 1. mgr. 128. gr. og 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.        

Niðurstaða:

Að mati dómsins er fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi átt þátt í því broti sem að ofan er lýst og er ætlað brot talið varða við 109. gr. og 136. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er því uppfyllt skilyrði 1. málsliðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Rannsókn málsins er á frumstigi. Við handtöku reyndist erfitt að yfirheyra kærða svo sem að framan greinir. Fyrirhugað er því að yfirheyra hann og bera undir hann framburði vitna, kærða C og ljúka yfirheyrslum og öðrum rannsóknaraðgerðum. Þykir því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að fyrirbyggja að hann torveldi rannsókn málsins á nokkurn hátt, sbr. a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þá er fallist á að uppfyllt séu skilyrði til að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Er því fallist á kröfu ríkissaksóknara um að kærði sæti gæsluvarðhaldi með þeim hætti sem nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. janúar 2016, kl. 16:00. Kærði X skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.