Hæstiréttur íslands

Mál nr. 191/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Miðvikudaginn 11

 

Miðvikudaginn 11. apríl 2007.

Nr. 191/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms, þar sem fallist var á að X yrði bönnuð för frá Íslandi með vísan til b. liðar 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála en hafnað kröfu um að hann skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. eða c. liðar 1. mgr. 103. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Hjördís Hákonardóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. apríl 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2007, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi þar til dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 2. maí 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 2. maí 2007. Til vara krefst hann staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2007.

             Ár 2007, miðvikudaginn 4. apríl,  er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af  Ingveldi Einarsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, litháskur ríkisborgari, fd. [...] 1984, til heimilis í Litháen, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 2. maí 2007, kl. 16.00.

Til vara er þess krafist að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, litháskum ríkisborgara, fd. [...] 1984, til heimilis í Litháen, verði bönnuð för frá Íslandi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 2. maí 2007, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að kærði hafi verið handtekinn 29. f.m. í bifreið á Kjalarnesi á leið frá Akranesi grunaður um að hafa ásamt öðrum manni stolið fartölvu í verslun B.T., Dalbraut 2, Akranesi, skömmu áður.  Í för með kærða hafi verið A, litháskur ríkisborgari, [kt.].  Tölvan hafi fundist við leit í bifreiðinn.  Kærði hafi viðurkennt við yfirheyrslu síðar sama dag að hafa stolið tölvunni en sagðist hafa verið einn að verki.  A kvaðst ekki hafa stolið tölvunni og sagði hana vera í eigu kærða. 

M. 007-2007-21163:

Mánudaginn 26. f.m. hafi verið tilkynnt um þjófnað á tveimur fartölvum úr verslun B.T. í verslunarmiðstöðinni Kringlunni í Reykjavík.  Mun þjófnaðurinn hafa átt sér stað 24. s.m.  Kærandi hafi lagt fram upptöku úr eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar.  Við skoðun á upptökunni sést hvar kærði, nefndur A og óþekktur meintur vitorðsmaður þeirra komu inn í verslunina í umrætt skipti og hvar A tók tölvuna úr hillu í versluninni á meðan kærði og hinn óþekkti vitorðsmaður virtust hafa gætur á starfsfólki verslunarinnar. Saman fóru þeir með þýfið úr versluninni. Kærði hefur neitað sök, hann kveðst hafa verið í versluninni en hann hafi ekki vitað að A hafi tekið tölvuna. Við yfirheyrslu 2. þ.m. játaði A að hafa stolið tölvunni og kvaðst hafa verið einn að verki.

Samkvæmt upplýsingum frá Interpol hafi kærði verið sakfelldur í Litháen árið 2002 fyrir ólöglega för yfir landamæri árið 2002 og fyrir þjófnað árið 2005.

Að kröfu embættisins 30. f.m. hafi kærða og A verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 6. þ.m., sbr. úrskurði í málum nr. R-204/2007 og R-205/2007. 

Embættið hafi í dag gefið út ákæru á hendur kærðu vegna framangreindra þjófnaða sem send hafi verið héraðsdómi til meðferðar.

Kærði hafi dvalið hér á landi frá því fyrir um þremur vikum síðan. Kærði hafi greint svo frá við skýrslutöku hjá lögreglu að hann hafi ekki atvinnu hér á landi. Dvöl kærða hér á landi virðist tengjast afbrotum eins og framangreind mál bera með sér.  Kærði eigi ekki ættingja hér á landi og tengsl hans við landið því mjög lítil. Kærði hafi lýst því yfir við skýrslutöku hjá lögreglu að hann muni ætla af landi brott miðvikudaginn 4. apríl, þ.e. í dag.  Við rannsókn málsins hafi komið í ljós að kærði hafi ekki fastan dvalarstað á Íslandi. Muni hann hafa dvalið til skiptis hjá aðilum sem hann nefnir kunningja sína en kærði hafi ekki gefið lögreglu upplýsingar um heimilisföng þessara aðila. Lögregla telji í ljós aðstæðna kærða hér á landi, lítilla tengsla hans við landið og yfirlýsingar hans að hann muni fara af landi brott, nauðsynlegt að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi svo unnt sé að ljúka máli kærða fyrir dómi.  Telur lögregla að verði kærði látinn laus megi ætla að hann muni halda áfram afbrotum og eða reyna að fara úr landi til að komast hjá málsókn eða fullnustu refsingar.  Verði ekki fallist á aðalkröfu þykir með sömu rökum nauðsynlegt að reyna að tryggja nærveru kærða hér á landi með farbanni á meðan mál hans er til meðferðar fyrir héraðsdómi.

Brot það er kærði hefur játað að hafa framið, varðar við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og getur varðað allt að 6 ára fangelsi.

Í ljósi framangreinds, hjálagðra gagna og þeirra sjónarmið sem fram koma í b- og c-liðum 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, er þess farið á leit að fallist verði á framkomna kröfu.  Til vara er vísað til nefnds b-liðar og 110. gr. sömu laga. 

Niðurstaða

Samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknargögnum, og því sem að framan er rakið, liggur fyrir rökstuddur grunur um að kærði eigi aðild að broti sem getur varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er nú lokið og ákæra hefur verið gefin út á hendur ákærða. Rannsóknarhagsmunir eru því ekki lengur fyrir hendi í máli þessu og ekki fallist á að c-liður 103. gr. laga nr. 19/1991 eigi við um kærða, en hins vegar fallist á að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru kærða meðan mál hans er til meðferðar fyrir héraðsdómi. Því er með vísan til b-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 110. gr. sömu laga fallist á varakröfu sækjanda um að kærði sæti farbanni eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærða, X, er bönnuð för frá Íslandi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 2. maí 2007, kl. 16:00.

 

 

                                                               Ingveldur Einarsdóttir.