Hæstiréttur íslands
Mál nr. 572/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Aðfararheimild
- Vextir
- Innheimtukostnaður
|
|
Fimmtudaginn 16. janúar 2003. |
|
Nr. 572/2002. |
Skífan hf. (Hörður F. Harðarson hrl.) gegn Samkeppnisstofnun (Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Aðfararheimild. Vextir. Innheimtukostnaður.
S lagði beiðni um aðför fyrir héraðsdóm til að afla heimildar til fjárnáms fyrir sekt sem S hf. hafði verið gert að greiða með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. S hf. mótmælti því að fjárnám yrði heimilað fyrir innheimtuþóknun lögmanns S og öðrum kostnaðarliðum vegna aðgerða til innheimtu sektarinnar. Talið var að S skorti til þess lagastoð að fella kostnað af innheimtu sektar á gjaldanda. Gæti S því ekki leitað fjárnáms hjá S hf. fyrir öðru en fjárhæð sektarinnar sem slíkrar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2002, þar sem heimilað var að fjárnám yrði gert hjá sóknaraðila til fullnustu sektar að viðbættum nánar tilteknum kostnaði, samtals að fjárhæð 12.529.946 krónur. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnám verði aðeins heimilað fyrir kröfu að fjárhæð 12.000.000 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
I.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði var sóknaraðila gert með ákvörðun samkeppnisráðs 4. desember 2001 að greiða sekt að fjárhæð 25.000.000 krónur vegna samnings hans við Aðföng hf., sem talinn var brjóta í nánar tilgreindum atriðum gegn ákvæðum samkeppnislaga nr. 8/1993 með áorðnum breytingum. Sóknaraðili skaut þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem með úrskurði 13. febrúar 2002 lækkaði fjárhæð sektarinnar í 12.000.000 krónur. Með því að sekt þessi var ekki greidd fól varnaraðili lögmanni innheimtu hennar. Í nafni varnaraðila var beiðni um aðför 23. júlí 2002 lögð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til að afla heimildar til fjárnáms fyrir sektinni, auk áfallinna dráttarvaxta, sem þá voru sagðir nema 495.000 krónum, kostnaðar af birtingu greiðsluáskorunar, sem ásamt þóknun fyrir ritun beiðninnar var samtals 6.517 krónur, og innheimtuþóknunar lögmannsins, 523.429 krónur.
Í samræmi við ákvæði 3. mgr. 58. gr. samkeppnislaga var mál þetta þingfest í héraðsdómi 21. ágúst 2002 til úrlausnar um framangreinda beiðni varnaraðila. Sóknaraðili tók til varna í málinu og andmælti því að fjárnám yrði heimilað fyrir öðru en sektarfjárhæðinni einni. Með hinum kærða úrskurði var hafnað kröfu varnaraðila um fjárnám fyrir dráttarvöxtum, en gerðin heimiluð að öðru leyti í samræmi við beiðni hans. Fyrir Hæstarétti unir varnaraðili við þá niðurstöðu. Sóknaraðili mótmælir því hins vegar sem fyrr að fjárnám verði heimilað fyrir innheimtuþóknun lögmanns og öðrum áðurnefndum kostnaðarliðum vegna aðgerða til innheimtu sektarinnar.
II.
Samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 má gera aðför til fullnustu kröfu samkvæmt úrskurði yfirvalds, sem er aðfararhæfur samkvæmt fyrirmælum annarra laga. Í 2. mgr. 58. gr. samkeppnislaga er kveðið á um að úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála séu aðfararhæfir. Fullnægjandi lagastoð er þannig fyrir kröfu varnaraðila um fjárnám á grundvelli fyrrnefnds úrskurðar áfrýjunarnefndarinnar frá 13. febrúar 2002, en í honum var aðeins kveðið á um áðurgreinda sekt úr hendi sóknaraðila.
Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 eru taldar upp kröfur, sem einnig má fullnægja með fjárnámi samhliða aðfarargerð fyrir meginskyldu gerðarþola samkvæmt aðfararheimild. Segir þar meðal annars að aðför megi gera fyrir kostnaði af kröfu og innheimtukostnaði, en þar undir geta fallið þeir liðir í kröfu varnaraðila, sem deilt er um í málinu. Ákvæði þetta felur ekki í sér sjálfstæða lagaheimild fyrir rétti gerðarbeiðanda til að krefja gerðarþola um slíka kostnaðarliði, heldur aðeins heimild til að leita fjárnáms fyrir þeim ef viðhlítandi stoð verður fundin í annarri réttarheimild fyrir kröfurétti gerðarbeiðanda. Í 1. mgr. 58. gr. samkeppnislaga, þar sem mælt er fyrir um aðfararhæfi ákvarðana og úrskurða samkvæmt lögunum, kemur fram að „sakarkostnaður“ sé jafnframt aðfararhæfur. Í lögunum er hins vegar ekki nánar kveðið á um heimildir stjórnvalda til að fella slíkan kostnað á þá, sem úrlausnir þeirra beinast að öðru leyti að. Kemur því að engu haldi að annars hefði mátt styðjast við ákvæði 164. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum til að afmarka hvað átt gæti undir sakarkostnað í skilningi 1. mgr. 58. gr. samkeppnislaga, svo sem héraðsdómari komst að niðurstöðu um.
Samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar getur varnaraðili, sem er ríkisstofnun, ekki fellt kostnað af innheimtu sektar á gjaldanda með vísan til almennra reglna um rétt sinn til að verða skaðlaus af vanskilum við sig, svo sem um væri að ræða lögskipti á sviði einkaréttar, heldur þarf til þess lagastoð. Í máli þessu verður hún ekki fundin. Getur varnaraðili því ekki leitað fjárnáms hjá sóknaraðila fyrir öðru en fjárhæð sektarinnar sem slíkrar. Verður þannig fallist á kröfu sóknaraðila um að fjárnám verði aðeins heimilað til fullnustu kröfu varnaraðila að fjárhæð 12.000.000 krónur.
Dæma verður varnaraðila til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðila, Samkeppnisstofnun, er heimilt að leita fjárnáms hjá sóknaraðila, Skífunni hf., fyrir sekt að fjárhæð 12.000.000 krónur.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2002.
Með aðfararbeiðni dagsettri 23. júlí sl. hefur Samkeppnisstofnun, kt. 680269-5569, Rauðarárstíg 10, 105 Reykjavík, krafist þess að fjárnám verði gert hjá Skífunni hf., kt. 510177-0969, Lynghálsi 5, 110 Reykjavík, til tryggingar skuld að fjárhæð
kr. 13.036.446, sem sundurliðast svo:
Höfuðstóll: kr. 12.000.000
Dráttarvextir frá 14. maí 2002 til 23. júlí 2002 kr. 495.000
Birtingarkostnaður kr. 1.350
Ritun fjárnámsbeiðni m/vsk. kr. 5.167
Innheimtukostnaður m/vsk. kr. 523.429
kr. 13.024.946
Fjárnámsgjald í ríkissjóð kr. 11.500
Samtals kr. 13.036.446
auk áfallandi dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags og alls kostnaðar af frekari fullnustugerðum, ef til þeirra kemur.
Af hálfu gerðarþola er þess aðallega krafist að synjað verði um framgang gerðarinnar gegn því að gerðarþoli leggi fram bankaábyrgð að fjárhæð kr. 12.000.000 til tryggingar greiðslu á kröfu gerðarbeiðanda. Til vara er þess krafist að synjað verði um framgang gerðarinnar gegn því að gerðarþoli leggi fram bankaábyrgð að fjárhæð kr. 12.000.000 auk dráttarvaxta sem kunna að verða ákvarðaðir, til tryggingar greiðslu á kröfu sóknaraðila.
Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt mati dómsins.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 17. október sl.
Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, áður en úrskurður var kveðinn upp.
Málavextir
Málsatvik eru með þeim hætti að þann 4. desember lýsti samkeppnisráð með ákvörðun sinni samning gerðarþola við Aðföng hf. ógildan með heimild í 1. mgr. 49. gr. samkeppnislaga og gerði honum að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 25.000.000. Gerðarþoli kærði þessa ákvörðun samkeppnisráðs til áfrýjunarnefndar samkeppnismála með stjórnsýslukæru þann 1. janúar 2002. Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála var upp kveðinn þann 13. febrúar 2002 þar sem ákvörðun samkeppnisráðs varðandi gerðarþola var staðfest að öðru leyti en því að sekt varnaraðila var lækkuð í kr. 12.000.000. Gerðarþoli vildi ekki una þessum þessum úrskurði og hefur stefnt samkeppnisráði fyrir héraðsdóm með stefnu sem birt var sóknaraðila 11. júlí s.l., til ógildingar ákvörðunar þess.
Þar sem að gerðarþoli greiddi ekki stjórnvaldssektina óskaði gerðarbeiðandi eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að fjárnám yrði gert til tryggingar ofangreindri skuld samtals að fjárhæð kr. 13.036.446.
Málsástæður og lagarök gerðarbeiðanda
Gerðarbeiðandi kveður gerðarþola ekki hafa lagt fram fullnægjandi tryggingu fyrir þeirri stjórnvaldssekt sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála gerði honum að greiða með úrskurði nefndarinnar frá 13. febrúar 2002 í máli nr. 1/2002.
Ágreiningsefni málsins lúti að tveimur atriðum. Annars vegar hvort lagaskilyrði séu til að gera fjárnám hjá gerðarþola fyrir áföllnum dráttarvöxtum á vangreidda stjórnvaldssekt hans og hins vegar hvort lagaskilyrði séu til að gera fjárnám hjá varnaraðila fyrir innheimtuþóknun lögmanns vegna óhjákvæmilegra innheimtuaðgerða. Ekki sé hins vegar ágreiningur um að lagaskilyrði séu til aðfarar hjá gerðarþola vegna höfuðstóls þeirrar kröfu sem uppi er í málinu.
Um lagagrundvöll þess að krefjast dráttarvaxta á þá gjaldföllnu stjórnvaldssekt, sem gerðarþola var gert að greiða með áðurnefndum úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála, vísar gerðarbeiðandi fyrst og fremst til almennra laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Í III. kafla þeirra sé fjallað um dráttarvexti. Þar segi í 1. mgr. 5. gr.: "Hafi gjalddagi verið fyrirfram ákveðinn er kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga og fram að greiðsludegi." Með úrskurði áfrýjunarefndar samkeppnismála í máli gerðarþola hafi ákvörðun samkeppnisráðs í máli nr. 40/2001 verið staðfest að öðru leyti en því að stjórnvaldssekt gerðarþola hafi verið lækkuð í kr. 12.000.000. Í ákvörðunarorðum samkeppnisráðs nr. 40/2001, dags. 4. desember 2001, segi svo, sbr. 2. og 3. mgr. ákvörðunarorða: "Með heimild í 52. gr. samkeppnislaga skal Skífan hf. greiða stjórnvaldssekt að upphæð kr. tuttugu og fimm milljónir (25.000.000,- kr.). Sektin skal greiðast ríkissjóði eigi síðar en þremur mánuðum eftir dagsetningu þessarar ákvörðunar." Til hagsbóta fyrir gerðarþola hafi úrskurðarorð áfrýjunarnefndar samkeppnismála verið túlkað svo að gjalddagi sektarinnar hafi verið ákveðinn þremur mánuðum eftir að úrskurður áfrýjunarnefndarinnar gekk eða, 13. febrúar 2002. Til samræmis við 5. gr. laga nr. 38/2001 hafi gerðarbeiðandi reiknað dráttarvexti á hina vangreiddu stjórnvaldssekt frá og með 14. maí 2002.
Hefði sóknaraðili ekki sætt sig við úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála, og viljað firra sig skyldu til greiðslu dráttarvaxta, hefði honum borið að greiða álagða stjórnvaldssekt með fyrirvara og freista þess svo að fá úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála ógiltan með dómi, að öllu leyti eða hluta. Þetta hafi gerðarþoli ekki gert. Gerðarþoli hafi heldur ekki til þessa dags sýnt fram á að hann geti lagt fram fullnægjandi tryggingu fyrir greiðslu sektarinnar.
Hvað varði lagagrundvöll þess að krefjast aðfarar hjá gerðarþola vegna innheimtuþóknunar lögmanns og útlagðs kostnaðar, sem til falli vegna vanskila gerðarþola sjálfs, sé vísað til almennra reglna kröfuréttar þess efnis að skuldari beri ábyrgð á greiðslu alls þess kostnaðar sem hljótist af innheimtu vangoldinna krafna, eftir að þær eru í gjalddaga fallnar. Minnt er á að það hafi verið á valdi gerðarþola að tryggja réttar efndir þeirrar kröfu, sem gerðarbeiðandi sannanlega eigi gegn honum, með greiðslu innan gjalddaga eða með því að bjóða fram viðunandi tryggingu. Gerðarþoli hafi gert hvorugt og hafi gerðarbeiðanda því verið nauðugur sá kostur að innheimta kröfuna með tilheyrandi kostnaði.
Samkvæmt 56. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 fresti málskot til dómstóla ekki gildistöku úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála né heimild til aðfarar samkvæmt honum. Hafi gerðarþola því mátt vera ljóst að honum hafi borið að tryggja réttar efndir á skyldu sinni til að greiða stjórnvaldssekt, í síðasta lagi á gjalddaga hennar, hvort sem hann hygðist bera gildi úrskurðar áfrýjunarnefndar undir dóm eður ei. Að öðrum kosti yrði hann að sæta innheimtu skuldarinnar með dráttarvöxtum og kostnaði með almennum hætti.
Jafnframt vísar gerðarbeiðandi til stuðnings kröfum sínum einnig til ákvæðis 1. mgr. 58. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 en þar komi fram að ákvarðanir Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs um að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki séu aðfararhæfar, svo og sakarkostnaður. Undir sakarkostnað falli að mati gerðarbeiðanda allur kostnaður sem til falli við innheimtu stjórnvaldssektar, sé hún ekki greidd á gjalddaga. Í 2. mgr. 58. gr. segir svo að málskot til áfrýjunarnefndar samkeppnismála fresti aðför en að úrskurðir nefndarinnar séu aðfararhæfir.
Því sé sérstaklega mótmælt, meðal annars með vísan til þess sem nú hefur verið sagt, að krafa gerðarbeiðanda sé óviss. Hún sé þvert á móti afar skýr.
Vegna málskostnaðarkröfu gerðarþola eru áréttuð mótmæli við þeirri fullyrðingu að það hafi ávallt legið fyrir að gerðarþoli myndi leggja fram tryggingar af sinni hálfu, eins og það sé orðað, enda sé það rangt. Liggi beint við að spyrja hvenær gerðarþoli hafi ætlað sér að gera það, úr því að aðfararbeiðni þessa hafi þurft til að gerðarþoli lýsti yfir vilja sínum til þess. Hvað sem öðru líði hefði gerðarþola verið í lófa lagið að bjóða tryggingu fyrir þeim hluta skuldarinnar sem hann telji sér skylt að tryggja en það hafi hann ekki gert.
Um lagarök vísast til þess sem fram hefur komið og til aðfararbeiðninnar. Málskostnaðarkrafa gerðarbeiðanda er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 84. gr. laga nr. 90/1989.
Málsástæður og lagarök gerðarþola
Samkvæmt aðfararbeiðni gerðarbeiðanda sé þess krafist að fjárnám verði gert hjá gerðarþola til tryggingar skuldar að fjárhæð kr. 13.036.446, en höfuðstóll skuldarinnar, þ.e. stjórnvaldssektin, sé einungis að fjárhæð kr. 12.000.000. Við stjórnvaldssektina hafi gerðarbeiðandi bætt bæði dráttarvöxtum, kr. 495.000, innheimtuþóknun lögmanns, kr. 523.429, og öðrum kostnaði, kr. 6.517.
Gerðarþoli telur að ekki séu lagaskilyrði til að gera honum að greiða meira eða leggja fram tryggingu fyrir meiru en sem nemi höfuðstól skuldarinnar, þ.e. sem nemi fjárhæð úrskurðaðrar stjórnvaldssektar, kr. 12.000.000. Að sama skapi hafni gerðarþoli því að greiða eða leggja fram tryggingu fyrir dráttarvöxtum, innheimtuþóknun lögmanns og öðrum kostnaði.
Gerðarþoli byggir á því að það séu aðeins úrskurðarorð sem verði fullnægt með aðför og að í úrskurðarorði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 1/2002 sé einungis kveðið á um greiðslu stjórnvaldssektar að fjárhæð kr. 12.000.000 en ekki sé að finna stafkrók um það að varnaraðila beri að greiða dráttarvexti, lögmannsþóknun eða annan kostnað. Er á því byggt að gerðarbeiðandi hafi ekki aðfararheimild til að krefjast fjárnáms fyrir dráttarvöxtum, lögmannsþóknun eða öðrum kostnaði. Lagaskilyrði bresti til innheimtu slíkra gjalda enda hafi ekkert stjórnvald eða dómstóll kveðið á um greiðsluskyldu gerðarþola á slíkum kostnaði.
Gerðarþoli vísar til þess að gerðarbeiðandi beri sönnunarbyrði um að gerðarþola beri að greiða eða setja tryggingu fyrir greiðslu á dráttarvöxtum, lögmannsþóknun og öðrum kostnaði. Byggt er á því að gerðarbeiðandi þurfi að sýna fram á að slíkur réttur hans sé ótvíræður. Gerðarþoli byggir á því að slík sönnun liggi ekki fyrir í málinu.
Þegar fyrir liggi ákvörðun dómara um það hvaða fjárhæð skuli lögð til grundvallar aðfararbeiðni muni gerðarþoli leggja fram tryggingu fyrir réttum efndum. Þann 3. september 2002 hafi verið þingfest mál gerðarþola gegn gerðarbeiðanda þar sem gerðarþoli óskar endurskoðunar dómstóla á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 1/2002. Það sé því ljóst að krafa sú sem gerðarbeiðandi hyggst innheimta með aðfararmáli þessu sé óviss með öllu. Sérkennileg sé sú harka sem einkenni innheimtuaðgerðir ríkisins í máli þessu á slíkri óvissri kröfu. Framkvæmdin hafi verið sú að þegar um slíkar óvissar kröfur hafi verið að ræða sé talið nægjanlegt að lögð sé fram trygging fyrir réttum efndum en ekki að krafa samkvæmt fjárnámsbeiðni sé greidd. Í ljósi þessarar framkvæmdar muni gerðarþoli bjóða fram tryggingu um leið og fyrir liggi við hvaða fjárhæð skuli miðað.
Gerðarþoli krefst málskostnaðar úr hendi gerðarbeiðanda enda hafi ávallt legið fyrir að gerðarþoli hygðist leggja fram tryggingar af sinni hálfu. Gerðarbeiðandi hafi hins vegar krafist hærri greiðslna úr hendi gerðarþola en heimild sé til og þannig knúið hann til að grípa til varna í máli þessu. Af þeim sökum beri gerðarbeiðanda að greiða gerðarþola málskostnað.
Byggir gerðarþoli jafnframt á því að allir óvissuþættir í málinu skuli túlkaðir honum í hag og vísar til dóms Hæstaréttar Íslands 1991, bls. 1334: Þýsk íslenska hf. gegn Gjaldheimtunni í Reykjavík.
Gerðarþoli vísar til 58. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og XIII. kafla aðfararlaga nr. 90/1989. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Samkvæmt 3. mgr. 58. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 fer um meðferð máls þessa skv. 13. kafla aðfararlaga nr. 90/1989.
Ágreiningur í máli þessu lítur að því hvort lagaskilyrði séu fyrir því að krefjast fjárnáms fyrir dráttarvöxtum, innheimtuþóknun lögmanns og öðrum kostnaði til viðbótar við stjórnvaldssekt þá sem ákvörðuð var kr. 12.000.000 af áfrýjunarnefnd samkeppnismála, eins og nánar er rakið í málavöxtum.
Samkvæmt 5. tl. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, má gera aðför til fullnustu kröfum samkvæmt úrskurðum yfirvalda, sem eru aðfararhæfir samkvæmt fyrirmælum laga. Í 2. mgr. 1. gr. laganna eru taldar upp þær fjárkröfur sem fullnusta má með aðför samhliða meginskyldu gerðarþola samkvæmt aðfararheimild. Skilyrði þess að hægt sé að krefjast þeirra er að lagheimild sé fyrir að fara.
Í 1. mgr. 58 gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 er kveðið á um aðfararhæfi úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þar segir að ákvarðanir Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs um að leggja á stjórnvaldssektir séu aðfararhæfar, svo og sakarkostnaður. Málskot til áfrýjunarnefndar samkeppnismála fresti aðför en úrskurðir nefndarinnar séu aðfararhæfir. Eðli máls samkvæmt verður að túlka greinina svo að heimild til þess að krefjast aðfarar vegna sakarkostnaðar sé enn til staðar að gengnum úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
Við mat á því hvað teljist til sakarkostnaðar þykir rétt að hafa hliðsjón af 1. mgr. 164. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en þar segir að óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar máls og meðferðar þess teljist til sakarkostnaðar. Í d-lið 1. mgr. greinarinnar segir að þar á meðal teljist kostnaður af fullnustu refsingar og annarra viðurlaga með aðfarargerð og eftir atvikum nauðungarsölu.
Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála gekk þann 13. febrúar 2002. Gjalddagi sektarinnar, sem gerðarþola var gert að greiða samkvæmt úrskurðarorði, var ákveðinn þremur mánuðum eftir ofangreinda dagsetningu. Gerðarþoli greiddi ekki sektina eftir að hún var fallin í gjalddaga þann 13. maí sl. Þann 11. júlí sl. höfðaði gerðarþoli mál til ógildingar ákvörðunar samkeppnisráðs en greiddi þó ekki sektina þrátt fyrir skýr ákvæði samkeppnislaga um það að málshöfðun fresti ekki gildistöku úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála né heimild til aðfarar samkvæmt honum, sbr. 56. gr. l. nr. 8/1993. Verður því að líta svo á að gerðarbeiðandi hafi, vegna tregðu gerðarþola að verða við skyldu sinni samkvæmt úrskurðinum, verið knúinn til þess að beita innheimtuaðgerðum gagnvart honum. Líta ber svo á að kostnaður við þær innheimtuaðgerðir teljist til sakarkostnaðar í máli þessu og er því fallist á aðför til fullnustu þess kostnaðar, sem ekki hefur verið andmælt tölulega, til viðbótar við fjárhæð sektarinnar.
Þar sem sekt sú sem um ræðir í máli þessu er í eðli sínu refsing, sem gerðarþola var gert að greiða í ríkissjóð vegna brota á samkeppnislöggjöfinni, ber hún ekki dráttarvexti. Brestur lagastoð til að reikna dráttarvexti á sektina, sbr. dóm Hæstaréttar 1994, bls. 245. Jafnframt er fellt niður fjárnámsgjald í ríkissjóð, kr. 11.500, sbr. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs.
Með vísan til framanritaðs er aðför heimil til fullnustu kröfu gerðarbeiðanda að fjárhæð 12.529.946 krónur, sem sundurliðast svo:
Stjórnvaldssekt kr. 12.000.000
Birtingarkostnaður kr. 1.350
Ritun fjárnámsbeiðni m/vsk. kr. 5.167
Innheimtukostnaður kr. 523.429
Samtals kr. 12.529.946
Gerðarþoli greiði gerðarbeiðanda kr. 60.000 í málskostnað.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Aðför er heimil til fullnustu kröfu gerðarbeiðanda að fjárhæð 12.529.946 krónur.
Gerðarþoli, Skífan hf., greiði gerðarbeiðanda, Samkeppnisstofnun, kr. 60.000 í málskostnað.