Hæstiréttur íslands
Mál nr. 603/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 19. september 2012. |
|
Nr. 603/2012.
|
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stæði var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. september 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. september 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. sama mánaðar klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Jafnframt krefst varnaraðili þess að honum verði ekki gert að sæta einangrun verði fallist á kröfu sóknaraðila.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. september 2012.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að X, fæddur [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi og einangrun allt til föstudagsins 21. september 2012 kl. 16:00. Kærði hefur verið í gæsluvarðhaldi í eina viku á grundvelli a- og b liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Kærði krefst þess aðallega að kröfu lögreglustjórans verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er og að það verði án takmarkana.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að kærði hafi upphaflega komið hingað til lands 17. október 2011 og hafi við komu sína til landsins verið handtekinn vegna gruns um að hann hefði framvísað við lögreglu, í blekkingarskyni, vegabréfi í eigu annars manns. Hafi ákærði síðar verið fundinn sekur um þá háttsemi í Héraðsdómi Reykjaness, mál S-1198/2011, og dæmdur til 30 daga fangelsisrefsingar vegna brots gegn 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Skömmu eftir að kærði hafi komið til landsins hafi hann óskað eftir hæli hér á landi og sé hælisumsókn hans til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Er kærði hafi verið stöðvaður við komuna til landsins hafi einu fjármunirnir sem hann hafi verið með meðferðis verið 230 kanadískir dollarar.
Í greinargerðinni kemur fram að lögreglan á Suðurnesjum hafi um nokkurn tíma haft til rannsóknar mál nr. [...], sem varði ætlað mansal og vændi á sjö konum frá Nígeríu. Konurnar hafi allar komið til Íslands á 11 mánaða tímabili, sú fyrsta hafi komið til Íslands þann 13.09.2011 og sú síðasta þann 12.08.2012. Allar konurnar séu í umsjá félagsþjónustunnar og hafi annað hvort ýmist gist eða gisti núna í Kristínarhúsi, sem er athvarf fyrir þolendur vændis og mansals. Um sé að ræða eftirfarandi konur: A, [...], B, [...], C, [...], D [...], E, [...], F, [...] og G, [...]. Rannsókn lögreglu hafi beinst að því hvort konurnar kynnu að vera fórnarlömb mansals en athygli hafi vakið að þær komi upphaflega allar frá sama svæði í Nígeríu, hafi allar verið barnshafandi eða með börn með sér og hafi flestar komið til landsins með skömmu millibili. Þá hafi rannsókn leitt í ljós að tvær þeirra hafi verið í tengslum við nektardansstaði / skemmtistaði hér eftir komuna til landsins.
Á grundvelli úrskurða Héraðsdóms Reykjaness hafi verið aflað símaupplýsinga fyrir fjórar kvennanna og við rannsókn þeirra gagna hafi komið í ljós að nígerískur maður og hælisleitandi hér á landi, kærði, hafði verið í allmiklum símasamskiptum við þrjár þeirra, A B og D.
Þá kemur fram í greinargerðinni að vegna frekari upplýsinga sem lögreglu hafi borist um X, svo sem um grunsamleg fjárráð hans, dýran fatnað, tölvu-, síma- og tækjaeign, hafi fengist dómsúrskurður til húsleitar hjá honum. Í húsleitinni hafi lögregla haldlagt pappíra og mikið magn alls kyns varnings, mest fatnaðar, en einnig fjölda farsíma, myndavél, tölvu og reiðhjól en gróflega áætlað hlaupi verðmæti þessara muna á hundruðum þúsunda. Rannsókn á munum þessum sé ekki lokið en fyrir liggi að myndavélin og a.m.k. tveir farsímanna séu þýfi. Ferðataska full af fatnaði og farsími sem hald hafi verið lagt á muni vera eign E og þar komi inn tengsl hans við fjórðu konuna. Fíkniefnahundur hafi greinilega merkt umrædda tösku. Þá hafi lögregla jafnframt fundið kvittanir um 8 peningasendingar, m.a. þar sem G sé sendandi og móttakandi. Við yfirheyrslu á X þann 11.09.2012 hafi hann borið að E væri unnusta hans og að hún væri á Ítalíu. Bornar hafi verið undir hann ljósmyndir af nígerísku konunum hér að framan og hafi hann þekkt sumar þeirra en ekki myndina af E. E hafi einnig verið yfirheyrð þann 11.09.2012 og hafi hún í fyrstu borið að hún þekkti X en breytti síðan framburði sínum og sagðist ekki þekkja X heldur [...]. Á grundvelli þessa megi ætla að G sem hér dvelur sé mögulega að villa á sér heimildir og konan sem réttilega beri nafnið sé á Ítalíu. Kærði hafi samt sem áður einhver tengsl við þessar konur og þá a.m.k. við 5 konur af þeim 7 sem til skoðunar hafa verið. Hlutverk hans í málinu sé hins vegar ennþá óljóst en þó virðist sem hann gegni að minnsta kosti hlutverki í upplýsingamiðlun um greiðslukorta- og símanúmer og eins upplýsingar um vegabréf. Vísast nánar til gagna málsins varðandi þann þátt.
Með hliðsjón af því hversu mikið magn fjármuna hafi fundist á dvalarstað kærða sé rétt að geta þess að hælisleitendur sem eru á framfærslu félagsþjónustunnar í Reykjanesbæ fá sér til framfærslu, vikulega, samtals 2.700 kr. í peningum og kort, með 8.000 kr. inneign, sem einungis er hægt að nota til að kaupa matvörur í verslunum Bónus. Samkvæmt upplýsingum frá félagsþjónustunni hafi kærði notað matarkortið lítið. Með vísan til þessa telji lögregla víst að kærði afli sér fjármuna með öðrum hætti en með framfærslu frá félagsþjónustu Reykjanesbæjar.
Við rannsókn á haldlögðum pappírum í fórum kærða og á tölvugögnum hans hafi komið fram upplýsingar um allmörg greiðslukortanúmer en greiðslukortin hafi ekki fundist í fórum hans. Meðal haldlagðra pappíra hjá X hafi jafnframt verið bókunarstaðfesting nr. [...] á farmiða með flugi Iceland Express SW904 frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur þann 16.10.2011 fyrir H. Fyrir farmiðann hafi verið greitt með VISA greiðslukorti með síðustu númeraseríunni [...] en eitt þeirra kortanúmera sem hafi fundist í fórum kærða hafi endað á þessum tölum.
Samkvæmt upplýsingum sem lögreglu hafi borist frá Interpol í Bern í Sviss er H nafn sem X hefur notað og hér sé því um sama aðila að ræða. X hafi notað umræddan farmiða til að komast til Íslands en lögregla hefði haft afskipti af honum við komuna þann 17.10.2011.
Lögregla vinni að því að rannsaka þau símtæki og þær tölvur sem lagt hefur verið hald á. Þá hafi lögregla í þágu rannsóknar málsins aflað dómsúrskurða vegna framangreindra peningasendinga og frá greiðslukortafyrirtækjum um notkun þeirra korta sem bera þau númer sem fundust í fórum kærða en jafnframt vegna þeirra farsíma sem fundust í fórum kærða. Beðið sé þeirra gagna frá fjármála- og símafyrirtækjum.
Er kærði hafi verið spurður um það hvernig hinir haldlögðu munir hefðu komist í hans vörslur, hafi hann greint frá því að hann hefði m.a. fengið þá hjá Rauðakrossinum, keypt vörurnar í ótilgreindum verslunum eða að vinir hans hefðu skilið þá eftir á heimili hans. Lögregla telji að þær skýringar sem kærði hefur greint frá varðandi það hvernig munirnir komust í vörslur hans séu með öllu ótrúverðugar enda sé töluvert misræmi í framburði hans og unnustu hans um tilkomu margra af mununum. Þá sé jafnframt töluvert misræmi í framburðum kærða og framangreindra kvenna sem hann er talin tengjast og teknar hafa verið skýrslur af.
Rannsókn þessa máls sé í fullum gangi. Verið sé að rannsaka aðild kærða að ætluðu mansali/vændi og/eða smygl á fólki, ætlaðan fíkniefnainnflutning en einnig hvernig kærði hafi komist yfir alla þá fjármuni sem haldlagðir voru á heimili hans. Meðal þeirra verkefna er bíða lögreglu sé að fara yfir gögn frá fjármála- og símafyrirtækjum sem aflað hefur verið með dómsúrskurðum. Þá sé rannsókn á þeim farsímum og tölvum sem hald hefur verið lagt á í fullum gangi. Lögregla telji að kærði eigi sér vitorðsmenn hér á landi og/eða erlendis og sé nú unnið að því að upplýsa hver/hverjir þeir séu. Það sé mat lögreglu að útilokað sé að kærði hafi aflað sér þeirra muna sem þegar hefur verið lagt hald á með löglegum hætti. Vísast í þessu skyni einkum til þess að kærði virðist ekki hafa mikla fjármuni sér til umráða líkt og greint hefur verið frá hér að framan. Þá telji lögregla einnig að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus á meðan rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi. Að þessu sögðu telji lögregla að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé fullnægt í málinu og því beri að úrskurða kærða í gæsluvarðhald.
Þá bendi lögregla á að kærði sé erlendur ríkisborgari sem virðist ekki hafa önnur tengsl við landið en þau að hann hefur sótt hér um hæli og bíði afgreiðslu umsóknar sinnar hjá Útlendingastofnun. Af þessum sökum telji lögregla hættu á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast, ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus meðan mál hans sé til rannsóknar hjá lögreglu. Að þessu sögðu telji lögregla að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé einnig fullnægt í málinu og því beri að úrskurða kærða í gæsluvarðhald.
Loks telji lögregla að miða það magn muna er haldlagt hafi verið á heimili kærða bendi allt til þess að munirnir hafi ekki komist í vörslur kærða með einni athöfn heldur hafi kærði þurft að nálgast munina yfir langan tíma í fjölda skipta. Þá virðist ljóst að kærði hafi í mörg skipti verið að skiptast á upplýsingum á greiðslukortanúmerum eins og að framan greinir að því er virðist í því skyni að misnota þau. Það sé því mat lögreglu að kærði sé vanaafbrotamaður og því megi ætla að hann muni halda áfram brotum á meðan máli hans er ekki lokið. Af þessu sögðu telji lögregla að skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé einnig fullnægt í málinu og því beri að úrskurða kærða í gæsluvarðhald.
Þess sé krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-, b- og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála og 173. gr. a, 226. gr., 244. gr., 247. gr. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun allt til föstudagsins 21. september 2012 kl. 16.00.
Með vísan til alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er ekki lokið. Gangi kærði laus má ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Þá má ætla að kærði, sem er nígerískur ríkisborgari, muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér undan málssókn fari hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt þessu telst fullnægt skilyrðum a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og er krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði. Jafnframt er fallist á að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ekki þykir eins og á stendur að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. september 2012 kl. 16:00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.