Hæstiréttur íslands
Mál nr. 208/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
|
|
Mánudaginn 24. mars 2014. |
|
Nr. 208/2014.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. mars 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. apríl 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í 1. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að varnaraðila verði gert að dvelja á viðeigandi stofnun. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. mars 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. apríl 2014 kl. 16.00.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að kærði hafi verið handtekinn að morgni 18. mars sl. ásamt félaga sínum grunaður um líkamsárás en tilkynnt hafi verið til lögreglu að tveir menn væru að elta annan og að annar þeirra, félagi kærða, væri með hafnaboltakylfu. Brotaþoli kvað annan manninn hafa slegið sig í andlitið tvívegis þar sem þeir sátu í bifreið þannig að hann hlaut áverka í andliti og flísaðist upp úr tönn og að báðir mennirnir hafi síðan elt sig eftir að hann flúði. Brotaþoli hafi lýst manninum sem hafi slegið hann og passi sú lýsing við kærða. Kærði og félagi hans hafi verið handteknir á dvalarstað þess síðarnefnda. Brotaþoli hafi leitað sér aðstoðar á slysadeild. Kærði hafi neitað sök en kvaðst hafa verið með brotaþola í bifreið og að hann hafi hlaupið á eftir brotaþola. Mál nr. [...].
Fram kom í greinargerð lögreglustjóra að kærði sé einnig undir sterkum grun um að hafa framið eftirfarandi auðgunarbrot:
Mál nr. [...]:Tilkynnt hafi verið til lögreglu þann 6. mars sl. um innbrot í verslun [...] við Hallarmúla í Reykjavík. Stolið hafi verið fartölvum og spjaldtölvu sem hafi fundist í runna skammt frá. Lögreglumenn hafi skoðað upptökur úr öryggismyndavél verslunarinnar og töldu þeir sig þekkja geranda sem kærða X. Kærði hafi neitað sök.
Mál nr. [...]:Lögreglu hafi borist kæra um þjófnað í verslun [...] í Skeifunni þann 20. febrúar sl. en stolið hafi verið fartölvu að verðmæti 179.995 króna úr skrifstofu verslunarinnar. Kærði hafi játað þjófnaðinn við skýrslutöku lögreglu.
Mál nr. [...]:Tilkynnt hafi verið til lögreglu um þjófnað úr skrifstofuhúsnæði [...] við Dalhrauns í Hafnarfirði þann 19. febrúar sl. Stolið hafi verið lyklum af þremur bifreiðum, húslyklum starfsmanns og tékkheftum í eigu fyrirtækisins. Þann 20. febrúar sl. hafi tjónþola síðan borist upplýsingar frá útibúi Landsbankans um að reynt hafi verið að skipta ávísun upp á 250.000 krónur en ekki tekist. Lögregla hafi fengið upptökur úr öryggismyndavél bankans og þekktu lögreglumenn kærða á myndum þaðan auk þess sem sár á hendi kærða hafi sést á myndum frá upptökunni og við skýrslutöku lögreglu. Kærði neitaði sök.
Mál nr. [...]: Lögregla hafi verið kölluð til á slysadeild þann 10. janúar sl. en þar hafði brotaþoli leitað á deildina þar sem hann hafði verið skotinn með loftbyssu/riffli í andlitið. Samkvæmt lækni hafi skotið farið inn, rétt fyrir neðan augabrún og litlu hafi munað að það hafi farið í augað. Brotaþoli kvað að hringt hafi verið í hann aðfaranótt 10. janúar sl. og pantað fíkniefni og hafi hann mætt að [...] í [...] til að afhenda þau. Þar hafi maður beðið hann um að koma í anddyri húsnæðisins þar sem annar maður hafi verið fyrir og brotaþoli kvað að skyndilega hafi annar maðurinn tekið upp loftbyssu og skotið hann í höfuðið og síðan hafi báðir gengið í skrokk á sér. Hringt hafi verið í símanúmer sem brotaþoli hafi gefið upp að hafi verið hringt í sig úr og þegar lögregla hafi hringt í það númer hafi kærði svarað. Meðkærði hafi einnig við skýrslutöku sagt að kærði hafi skotið brotaþola í höfuðið og gengið í skrokk á honum en hafi sjálfur neitað sök. Vitni hafi við skýrslutöku hjá lögreglu sagt að kærði hafi haft í fórum sínum kvöldið áður svarta skammbyssu með gashylki í og annað vitni kvað kærða hafa talað nokkrum dögum seinna um að maður hafi verið skotinn en kærði kvað manninn hafa skotið sig sjálfan. Kærði hafi neitað sök hjá lögreglu, kvaðst ekki muna mikið eftir kvöldinu vegna ástands síns en neiti fyrir árás. Kærði kvaðst hjá lögreglu hafa verið í partýi með meðkærða heima hjá manni sem býr að [...] í [...] og vitni hafi staðfest veru hans þar þessa nótt. Kærði hafi sætt rannsóknargæslu vegna málsins um vikutíma frá [...] með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, mál nr. [...]/2014.
Kærði sé að auki undir sterkum grun um nýleg umferðar- og fíkniefnalagabrot, en akstur kærða hafi verið stöðvaður af lögreglu þann 1. febrúar sl. í máli nr. [...] og reyndist hann undir verulegum áhrifum ávana- og fíkniefna og í máli nr. [...] voru höfð afskipti af kærða þann 8. mars með vörslur rúmlega 2 g af amfetamíni. Kærði hafi játað sök.
Einnig sé til rannsóknar og meðferðar hjá embættinu eftirfarandi mál: mál nr. [...] þar sem kærði sé sterklega grunaður um hlutdeild í þjófnaði eða hylmingu úr bifreið þann 14. desember sl. en kærði kvaðst ekki muna eftir atvikum. Mál nr. [...]þar sem kærði sé sterklega grunaður um líkamsárás þann 13. október sl. er varðað geti við 2. mgr. 218. gr., brotaþoli og vitni bendi á kærða sem árásaraðila en kærði og meðkærði í málinu neiti sök. Mál nr. [...]: þann 10. september sl. hafi verið farið í húsleit á dvalarstað kærða og hafi fundist þar fíkniefni og sterar, kærði hafi játað sök. Mál nr. [...] þar sem brotist hafi verið inn í bifreið og stolið þaðan verkfærum. Þann 10. september sl. hafi verkfærin fundist í bifreið sem kærði hafði umráð yfir. Kærði kvaðst hafa fundið verkfærin á víðavangi.
Kærði eigi langan brotaferil og hafi 6 sinnum verið dæmdur til fangelsisrefsingar og alls 13 dóma frá árinu 2006. Síðast hafi kærði hlotið dóm fyrir fíkniefnalagabrot þann 14. nóvember sl. og þann [...] 2013 hafi kærði hlotið 6 mánaða fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni, þjófnað og annað með dómi Héraðsdóms Reykjaness nr. [...]/2013. Kærði hafi lokið afplánun síðastnefnds dóms í júlí 2013 og brot þau sem hann er m.a. sakaður hér um í dag hófust fljótlega eftir að afplánun hans lauk og séu ítrekun við fyrri dóma. Þyki að mati lögreglu ljóst að kærði hafi einbeittan brotavilja og virðist ekkert lát vera á brotastarfsemi hans með vísan til fjölda tilfella á skömmum tíma, alvarleika brotanna og sakaferils kærða.
Með vísan til framangreinds og ferils kærða telji lögregla yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sæta dómsmeðferð.
Sakarefni málanna séu talin varða við 217. gr., 2. mgr. 218. gr., 244. gr., 248. gr., sbr. 20. gr., 252. gr. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987 og laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Eins og rakið er að framan er kærði undir rökstuddum grun um að framið fjölda afbrota. Hafa verið talin til brot eins og líkamsárásir, fjársvik, vopnað rán, þjófnað, hylmingu auk brota á umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Öll munu brotin hafa átt sér stað eftir að kærði lauk afplánun í júlí 2013 og eru ef sönnuð ítrekun við fyrri dóma. Þá bera gögn málsins með sér að kærði eigi nokkurn sakaferil að baki en kærði hefur þrettán sinnum frá árinu 2006 fengið dóma fyrir margvísleg brot þar á meðal fangelsisdóma fyrir þjófnað og rán. Með vísan til þessa og nánari lýsinga á málsatvikum í greinargerð lögreglustjóra þykir hafa verið sýnt fram á það að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem fangelsisrefsing liggur við. Þá þykir mega ætla að kærði haldi brotastarfsemi sinni áfram meðan framangreindum málum hans er ekki lokið, fari hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt þessu telst fullnægt skilyrðum c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og er krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. apríl 2014 kl. 16.00.