Hæstiréttur íslands

Mál nr. 368/2002


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Tilraun
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 21. nóvember 2002.

Nr. 368/2002.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Hafsteini Má Lindquist Sigurðssyni

(Jón Magnússon hrl.)

 

Kynferðisbrot. Tilraun. Miskabætur.

H var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði við X og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Talið var sannað að X hefði ekki getað spornað við ágengni H vegna svefndrunga og að hann hefði ekki getað gengið þess dulinn. Gegn eindreginni neitun hans um að hafa verið byrjaður samfarir þótti það hins vegar ósannað þrátt fyrir framburð hennar þar sem önnur gögn væru því ekki til styrktar. Var verknaður ákærða því metinn sem tilraun til brots sem varðaði við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. laganna. Þrátt fyrir þessa breytingu var talið rétt að refsiákvörðun héraðsdóms stæði óhögguð.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

          Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 17. júlí 2002 að ósk ákærða. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar á sakfellingu en þyngingar á refsingu og greiðslu miskabóta að fjárhæð 1.000.000 krónur, auk dráttarvaxta.

Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins.

Málsatvik eru rakin í héraðsdómi. Dómurinn, sem var fjölskipaður, mat framburð kæranda trúverðugan og staðfastan um að ákærði hafi haft við hana kynmök sem hún hafi verið mótfallin en ekki getað spornað við sökum svefndrunga. Kærandi hafði ásamt vinkonu sinni þegið boð ákærða og tveggja félaga hans um að koma heim til eins þeirra. Vel fór á með kæranda og ákærða í upphafi en þau voru fyrrum vinnufélagar og því kunnug. Þau eru um það sammála að hún hafi sagt honum að hún hefði í bili slitið sambandi við kærasta en hugur hennar væri enn hjá honum. Ákærði sýndi kæranda áhuga en hún bandaði nánari atlotum hans frá sér. Sagðist hann þó alveg hafa mátt „liggja þarna og halda utan um hana og láta vel að henni.”

          Kærandi og vinkona hennar eru um það sammála að kærandi hafi ekki verið mikið undir áhrifum áfengis en þreytt, enda hafði hún byrjað vinnu klukkan átta deginum áður og frá því klukkan fimm síðdegis drukkið fimm eða sex bjóra. Hún kvaðst því hafa sofnað eftir að þau voru orðin ein í stofunni um klukkan þrjú um nóttina og vaknað við að fólk kom inn í íbúðina. Hafi ákærði verið að hafa við hana kynmök, en þetta mun hafa verið um einum og hálfum klukkutíma síðar.

          Ákærði bar að hann hefði talið kæranda vakandi en þó verður framburður hans ekki skilinn öðruvísi en svo að hann hafi flutt hana milli rúma og klætt hana úr án þess hún hafi ljáð til þess atbeina sinn og ekki hafi hún veitt andsvör við atlotum hans. Hann neitaði að hafa verið byrjaður að hafa við hana samfarir en í það hafi stefnt þegar að þeim var komið. Með þessum athugasemdum en annars með vísun til röksemda héraðsdóms verður að telja sannað að kærandi hafi ekki getað spornað við ágengni hans vegna svefndrunga og að hann hafi ekki getað gengið þess dulinn. Gegn eindreginni neitun hans um að hafa verið byrjaður samfarir við kæranda þykir það hins vegar ósannað þrátt fyrir framburð hennar, þar sem önnur sönnunargögn eru því ekki til styrktar. Verður vegna sönnunaraðstöðunnar að meta verknað ákærða sem tilraun til brots, sem varði við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og henni var breytt með 4. gr. laga nr. 40/1992, sbr. 20. gr. fyrrnefndu laganna. Þrátt fyrir þessa breytingu er rétt að refsiákvörðun héraðsdóms standi óhögguð.

          Kærandi á rétt á miskabótum og þykja þær hæfilega ákveðnar 150.000 krónur.

          Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

          Ákærði greiði áfrýjunarkostnað sakarinnar, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

          Ákvæði héraðsdóms um refsingu, sakarkostnað og kostnað við að halda fram bótakröfu skulu vera óröskuð.

           Ákærði, Hafsteinn Már Lindquist Sigurðsson, greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur, og 60.000 krónur vegna þóknunar réttargæslumanns kæranda fyrir Hæstarétti, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns.

           Ákærði greiði X 150.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá uppsögu héraðsdóms 2. júlí 2002 til greiðsludags.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2002.

Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 4. apríl á hendur:

Hafsteini Má Lindquist Sigurðssyni, kennitala[...],

,,fyrir kynferðisbrot með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 7. október 2001, í íbúð að [...], Reykjavík, sett lim sinn inn í leggöng X, fæddrar 1980 og hafið samræði við hana og við þetta notfært sér það að X gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.

Telst þetta varða við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40, 1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu X er gerð sú krafa að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000 auk dráttarvaxta frá 7. október 2001 til greiðsludags og til að greiða kostnað vegna lögmannsaðstoðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á málskostnað.”

Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður, þ. m. t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda, greiðist úr ríkissjóði.  Þess er krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að krafan verði stórlega lækkuð.  Þá er vaxtakröfu sérstaklega mótmælt.

Málavextir.

Sunnudaginn 7. október 2001 kl. 9.23 kom X á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot sem átt hefði sér stað að [...] þá sömu nótt.  Í skýrslunni lýsti kærandi ferðum sínum og vinkonu sinnar, Y, kvöldið áður þar sem þær hefðu setið á bar í Kópavogi.  Þar hittu þær þrjá pilta þar á meðal ákærða sem kærandi kannaðist við sem fyrrum vinnufélaga sinn. Eftir miðnættið fóru piltarnir en um kl. 2 hittust þau aftur í íbúð að [...] sem einn piltanna, Z, leigði ásamt öðrum.  Um kl. 3 fór einn piltanna út og voru þá eftir í íbúðinni kærandi og ákærði auk Y og Z.  Í skýrslunni lýsir kærandi því hvernig hún og ákærði hafi verið orðið ein í stofunni og verið að tala saman.  Hún hafi sofnað en vaknað við að ákærði hafi verið að reyna að káfa á brjóstum hennar og reyna að kyssa hana.  Hafi hún sagt honum að hætta og ýtt höndum hans frá og hafi hann þá hætt.  Hún hafi síðan sofnað aftur en vaknað við ákærði hafi verið að færa kæranda í rúm við hliðina á sófanum.  Þegar þangað kom hafi ákærði aftur reynt að káfa á brjóstum hennar en hún ýtt honum frá og sagt honum að hætta, sem hann hafi gert.  Kærandi kvaðst síðan hafa vaknað í svefnsófanum, sem var búið að breyta í rúm, við að ákærði var að hafa við hana kynmök.  Hafi hún sagt honum af fara af sér og ýtt honum í burtu.  Hafi hann hætt en legið áfram í rúminu við hliðina á henni og sett höndina utan um hana.  Hún hafi ýtt hendinni frá og og spurt hvar fötin hennar væru.  Hún kvaðst hafa orðið vör við, um leið og hún vaknaði, að piltur og stúlka voru komin inn í íbúðina og hafi pilturinn sagt ákærða að koma með sængina. Kærandi kveðst hafa klætt sig og farið inn á salerni þar sem hún hafi sagt Y frá því sem gerst hafi auk þess sem hún hafi sent fyrrverandi kærasta sínum sms-skilaboð um að henni hefði verið nauðgað.

Teknar voru tvær skýrslur af ákærða undir rannsókn málsins.  Hann hefur frá upphafi neitað sök.

Samkvæmt skýrslu Neyðarmóttöku Landspítala kom kærandi þangað til skoðunar um 5 leytið um morguninn.  Þar segir um ástand við skoðun að hún hafi verið þreytt, niðurbrotin, leið og sagt að sér liði ömurlega.  Hún er sögð samvinnuþýð, róleg en verulega döpur.  Ýmis gögn voru tekin til nánari skoðunar s.s. nærföt, auk þess sem sýni voru tekin úr leggöngum.  Þá var stúlkunni tekið blóð til alkóhólrannsóknar og reyndist magn etanóls í blóði vera 0.89‰.

Í niðurstöðu álitsgerðar Gunnlaugs Geirssonar, prófessors við Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði, dagsettri 13. nóvember 2001, segir: „Samkvæmt framanskráðu er ekki að finna sæðisfrumur, sem bent gætu á kynferðisbrot og þar sem sæðisfrumur er ekki að finna í því, sem hér liggur fyrir er ekki unnt að styðjast við það, sem finnst á bómullarpinnum til DNA-kennslagreiningar.  Ekki verður fullyrt um það hvort hár þau, sem greiddust úr kynhári konunnar kunni að vera af henni sjálfir eða frá öðrum aðila og verða hárin varðveitt uns tekin verður ákvörðun um hvort rannsókn þar að lútandi skuli gerð. “

Samkvæmt skýrslu Guðbjargar Rögnu Ragnarsdóttur, sálfræðings, dagsettri 23. júní 2002, kom fram að stúlkan hafi komið til hennar í samtals 10 viðtöl frá því í október 2001 vegna meints kynferðisbrots. Hafi hún orðið að kljást við tilfinningar og einkenni sem algengt sé að sjá hjá þolendum kynferðisbrota.  Atburðurinn komi endurtekið upp í huga hennar og hún finni fyrir reiði, vanmætti og óöryggi.  Hún eigi í erfiðleikum með svefn, hafi litla matarlyst og sjálfstraust hennar hafi beðið hnekki. Þá hafi hún fundið til óöryggis í samskiptum og hafi verið um megn að sækja skóla á tímabili. Í niðurlagi segir:  „X kemur mér fyrir sjónir sem skynsöm, kraftmikil stúlka, með góð raunveruleikatengsl.  Meint kynferðisbrot hefur valdið henni þjáningum, en hún hefur verið dugleg við að leita leiða til að sigrast á afleiðingum og tekist það með ágætum.  Erfitt er að segja til um hvort áðurnefndar afleiðingar geri vart við sig hjá þolendum kynferðisbrota, þegar þeir lenda í mótlæti seinna á ævinni.“

 

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dóminum.

Ákærði kvaðst hafa verið staddur á bar í Kópavogi ásamt félögum sínum þar sem þeir hafi hitt kæranda, sem var fyrrverandi vinnufélagi hans, ásamt vinkonu hennar.  Eftir að hafa farið saman niður í miðbæ í Reykjavík fóru þeir í íbúð eins þeirra að [...] en þangað komu stúlkurnar að boði þeirra um tvöleytið um nóttina.  Kvaðst ákærði hafa látið vel að stúlkunni og hafi farið vel á með þeim.  Ákærði kvað það rétt að hann hefði verið að strjúka stúlkunni um brjóstin og kyssa hana en hún hafi ekki viljað það, en hún hafi áður verið búin að segja honum að hún væri nýlega hætt í sambandi.  Henni hafi hins vegar verið sama þótt hann léti vel að henni og héldi utan um hana. Þau hafi verið í rúminu þegar Z hafi komið og sagt að þarna gætu þau ekki verið og hafi hann aðstoðað ákærða við að útbúa rúm úr svefnsófanum. 

Hann hafi haldið áfram að reyna við stúlkuna og hafi allt stefnt í þá átt að þau myndu hafa samfarir þegar húsráðandinn, Æ, hafi komið að þeim.  Aðspurður hvort stúlkan hafi verið því samþykk svaraði hann að hún hefði látið hann halda það.  Ákærði hafi þá verið að mestu kominn úr fötunum en þó verið í sokkum og bol en stúlkan nakin að neðan.  Ákærði kvaðst alfarið hafa séð um að færa stúlkuna úr fötunum og taldi að hún hafi ekki hjálpað til við það.  Hann hafi hins vegar ekki sett liminn inn í leggöng hennar.  Ákærði kvað stúlkuna aldrei hafa alveg sofnað og ávallt svarað spurningum hans en hún hafi verið þreytt og þau hafi bæði verið drukkin. Ákærði taldi að stunur þær sem Æ hefði heyrt þegar hann kom inn í íbúðina hafi getað komið úr svefnherberginu en kveður þær ekki hafa komið frá sér eða stúlkunni.  Þau hafi hins vegar legið hreyfingarlaus í rúminu þegar hann kom að og hafi báðum fundist þau vera í hálfvandræðalegri stöðu.   Ákærði kvaðst aldrei hafa orðið var við að stúlkan væri að senda sms-skilaboð.

Vitnið, X, kærandi í málinu, lýsti aðdraganda þess að hún fór ásamt vinkonu sinni, ákærða og öðrum strákum að [...].  Hún hafi orðið vör við að ákærði var að reyna við hana enda hafi hún sent fyrrverandi kærasta sínum sms-skilaboð þess efnis.  Hún kvaðst, þegar í íbúðina kom, hafa verið búin að drekka 5-6 bjóra frá því um kl. 17 umræddan dag en ekkert áfengi drukkið eftir að þangað kom.  Hún hafi fundið til áfengisáhrifa en ekki verið mikið ölvuð.  Hún hafi verið að tala við ákærða í stofunni á meðan vinkona hennar hafi verið í svefnherberginu með Z.  Hún hafi verið orðin þreytt og sofnað í sófanum, en hún kvaðst hafa litið á klukkuna þegar hún var 2.50.  Áður hafi ákærði verið búinn að káfa á henni en hætt þegar hún hafi sagt honum að hætta.  Hafi hún sagt honum að kærasti hennar væri á [...] og væru þau hætt saman en þó væri sambandinu ekki lokið.  Hún hafi vaknað við að ákærði var að færa hana í rúmið í stofunni.  Næst hafi hún vaknað við að hurð var skellt og þá fundið að ákærði, sem hafi legið á hliðinni aftan við hana, hafi verið með liminn inni í henni en hún hafi einnig legið á hliðinni.  Hún hafi þá verið nakin að neðan þar sem hún hafði áður verið í þröngu pilsi, sokkabuxum, nærbuxum og stígvélum, en í öllum fötum að ofan.  Hún kvaðst hafa reynt að hylja sig með teppi þegar Æ kom inn í íbúðina. Vitnið kvaðst hafa leitað sálfræðiaðstoðar eftir atvikið enda hafi hún haft svefntruflanir og átt við lystarleysi að stríða. 

Vitnið, Y, lýsti því sem gerðist eftir að hún og kærandi komu í íbúðina að [...].  Kvaðst hún hafa farið með Z inn í svefnherbergi en ákærði og kærandi hafi verið í sófanum að tala saman.  Hafi ákærði látið vel að kæranda og verið góður og blíður.  Þegar hún kom þaðan út síðar hafi par verið komið inn í íbúðina.  Þá hafi ákærði verið að brjóta saman teppi og kodda af svefnsófanum og ganga frá honum og hafi hann þá verið fullklæddur.  Hafi hann sagt að kærandi væri inni á salerni og hafi vitnið farið þangað.  Þar hafi kærandi verið skjálfandi og grátið.  Aðspurð hvað hefði gerst hafi hún sagt ákærða hafa nauðgað sér og bað hana að ná í skóna sína og símann.  Hún kvað kæranda ekki hafa verið áberandi ölvaða við komu í [...] en mjög þreytta.

Vitnið, Z, lýsti því að hann hafi farið á salernið eftir að hafa verið um stund í svefnherberginu og hafi þá kærandi og ákærði bæði verið í rúminu í stofunni og hafi kærandi verið sofandi.  Þau hafi bæði verið í fötum.  Hann hafi sagt að þau mættu ekki vera í rúminu og hafi ákærði þá tekið út svefnsófann.  Staðfesti vitnið framburðinn hjá lögreglu um að hafa boðist til að hjálpa ákærða að flytja kæranda, sem honum hafi virst sofandi, en hann hafi sagst gera það sjálfur.  Hann hafi síðan farið aftur inn í svefnherbergið.  Hann kvaðst ekki geta sagt með fullri vissu hvort kærandi var sofandi þar sem hann hafi ekki séð framan í hana en hún hafi virst sofa og ekki bært á sér á meðan hann var að tala við ákærða.  Nokkru seinna hafi Æ komið heim og hafi hann farið fram.  Eitthvert rifrildi hafi orðið.  Vitnið taldi það rétt sem fram kemur í lögregluskýrslu að Y hafi farið inn á salerni til kæranda en komið til baka í uppnámi og sagt að kærandi hefði sagt sér að hún hefði vaknað með ákærða ofan á sér.

Vitnið, Æ, sem búsettur var að [...] kvaðst hafa verið að skemmta sér umrædda nótt en farið heim.  Þar hafi þá verið ákærði, Z og tvær stúlkur sem hann hafi ekki þekkt og hafi ákærði verið að tala við kæranda.  Hann hafi síðan farið aftur út úr íbúðinni en komið um kl. 5.30 og kveikt ljós þar sem myrkur var.  Hann hafi gengið inn og þá hafi ákærði og kærandi legið á vinstri hlið á svefnsófanum hún með teppi yfir sér en ákærði fyrir aftan hana með sæng.  Hafi hann heyrt más eða stunur og haldið að þau væru að hafa kynmök.  Hafi hann heyrt þetta mjög greinilega og telur að þessi hljóð hafi komið úr rúminu.  Hann hafi tekið af ákærða sængina og séð að hann var nakinn og limur hans reistur.  Þá hafi hann jafnframt séð í rauðleita samfellu sem kærandi hafi verið í.  Hafi hann séð andlit þeirra beggja og telur að kærandi hafi verið vakandi, en hann hafi talað við ákærða.  Kærandi hafi farið inn á baðherbergi en vitnið inn í eldhús.

Vitnið, Þ, kvaðst hafa komið að [...] milli 4 og 5 um morguninn ásamt Æ.  Þegar inn í íbúðina kom hafi Æ tekið eftir því að fólk var í stofunni og spurt harkalega hvað væri að gerast þarna.  Hafi henni virst þau koma inn á vandræðalegu augnabliki.  Vitnið kvaðst hafa farið beint inn í eldhús og ekkert séð þá sem í stofunni voru.  Vitnið kvaðst síðan hafa séð stúlku fara úr stofunni inn á salerni og hafi hún verið klædd.  Minnti hana að hún hafi heyrt stúlkuna segja ákveðið „Komdu ekki nálægt mér“ 

Vitnið, Ö, lýsti því að hann hefði verið í íbúðinni að [...] fyrr um nóttina.  Þá hafði ákærði og kærandi verið að tala saman og hafi honum fundist kærandi og ákærði sýna hvort öðru áhuga án þess þó að hann fylgdist vel með því.  Hafi honum fundist hann vera aukahjól þarna og farið.  Þá hafi kærandi verið vel vakandi.

Vitnið, Q, kvaðst hafa verið staddur á [...] þegar atvik áttu sér stað.  Hafi kærandi sent honum allmörg sms-skilaboð umrætt kvöld en þar kom fram í skilaboðum kl. 1.56 að ákærði væri að reyna við hana.  Í skilaboðum kl. 4.43 hafi síðan staðið „Hann nauðgaði mér“  Þetta hafi hún síðan staðfest þar sem vitnið kvaðst ekki hafa trúað þessu.  Hann hafi hringt í kæranda sem þá hafi verið stödd í leigubifreið hágrátandi og í uppnámi.

Vitnið, Guðbjörg Ragna Ragnarsdóttir sálfræðingur, kom fyrir dóminn og staðfesti vottorð sitt.  Hún kvaðst hafa hitt stúlkuna fljótlega eftir atburðinn eða í október sl. og hafi hún sýnt greinileg einkenni þolanda kynferðisbrots.  Henni hafi liðið illa í skólanum og átt erfitt með að stunda skóla vegna óöryggis og kvíða.  Þau einkenni hafi verið mjög greinileg.  Þá hafi hún átt erfitt með svefn og matarlyst hafi verið úr skorðum.  Þá hafi hún sýnt breytt viðbrögð í samskiptum þar sem hún hafi orðið æst og pirruð við atvik sem áður hafi ekki valdið slíkum viðbrögðum.  Þessi einkenni bendi til þess að hún hafi orðið fyrir miklu áfalli.  Vitnið kvaðst hafa hitt stúlkuna í þessum mánuði og sé hún á góðri leið að ná tökum á lífi sínu.

 

 

Niðurstaða.

Svo sem rakið hefur verið hér að framan fór kærandi ásamt vinkonu sinni í íbúð í [...] þar sem þær hittu ákærða og tvo aðra pilta sem þær höfðu hitt fyrr um kvöldið.  Upplýst er með vætti vitna og framburði ákærða, sem var fyrrverandi vinnufélagi kæranda, að hann hafi látið vel að henni um kvöldið.  Virtist hún ekki hafa farið í grafgötur með áhuga hans né gert tilraun til að leyna honum enda sendi hún fyrrverandi kærasta sínum sms-skilaboð þess efnis þá um kvöldið en hann var staddur á [...],.  Í skilaboðunum kemur jafnframt fram að hugur hennar er hjá honum.  Kvaðst hún hafa tjáð ákærða það en jafnframt að upp úr sambandinu hefði slitnað.  Framburður kæranda um samskipti hennar og ákærða eftir að þau voru orðin ein í stofunni um kl. 3 um nóttina er ekki samhljóða.  Þeim ber þó saman um að ákærði hafi verið að reyna að strjúka brjóst hennar og kyssa en hún ekki viljað það.  Kærandi ber að hún hafi eftir það sofnað en ákærði telur hins vegar að hún hafi aldrei alveg sofnað.  Framburður kæranda um þetta atriði fær stuðning í framburði Z sem ber að honum hafi virtist hún sofandi þegar hann kom inn í stofuna og bauð ákærða að aðstoða hann við að færa hana milli rúma.  Hafi ákærði svarað því til að hann ætlaði að gera það sjálfur sem bendir til að hann hafi vitað að kærandi myndi ekki sjálf vera fær um það. 

Kærandi kvaðst hafa vaknað við hurðaskell er komið var inn í íbúðina og hafi ákærði þá verið að hafa við hana samfarir.  Búið hafi verið að færa hana úr pilsi, sokkabuxum, nærbuxum og stígvélum.  Ákærði neitar samförum en segir að í þær hafi stefnt en ekki verið komið svo langt.  Hann viðurkennir að hafa fært kæranda úr fötunum og að hún hafi ekki aðstoðað hann við það.  Þykir það styrkja framburð hennar um að hún hafi verið sofandi þegar það gerðist.  Vitnið, Æ, kvaðst hafa heyrt greinilega más eða stunur úr stofunni er hann kom inn í íbúðina.  Þegar hann tók sængina ofan af ákærða, lá hann nakinn aftan við stúlkna og var limur hans reistur.

Ljóst er af viðbrögðum kæranda þegar hún vaknaði, að eigin sögn,  að henni hafi verið mjög brugðið.  Fór hún þegar inn á salerni.  Þar skýrði hún vinkonu sinni frá því að ákærði hefði nauðgað sér og bað hana að ná í skó sína og síma þar sem hún treysti sér ekki fram.  Þá bera vitnin, Z og Þ, að kærandi hafi verið ósátt við ákærða.  Í framhaldi þessa sendi kærandi Q sms-skilaboð þar sem hún greindi frá atburðum.  Bar Q að hún hefði verið hágrátandi þegar hann stuttu síðar hringdi í hana en hún var þá á leið á neyðarmóttöku.  Í beinu framhaldi af því kærði hún atburðinn til lögreglu. 

Framburður kæranda um það að ákærði hafi haft við hana kynmök sem hún hafi verið mótfallin en ekki getað spornað við þar sem hún var sofandi hefur verið staðfastur og trúverðugur.  Vitnið, Guðbjörg Ragna sálfræðingur, sem kærandi leitaði til fljótlega eftir atburðinn, staðfesti fyrir dóminum að hún hafi sýnt greinileg einkenni þolanda kynferðisbrots.  Lýsti hún þeim einkennum og kvað þau benda til þess að hún hefði orðið fyrir miklu áfalli.

Þegar allt framanritað er virt er það niðurstaða dómsins, þrátt fyrir neitun ákærða, að það teljist sannað að ákærði hafi hafið samræði við kæranda eins og honum er gefið að sök í ákæruskjali.  Er brot hans þar réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru.

Ákærði hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi sem áhrif hefur á mat refsingar í þessu máli.  Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði notfærði sér ástand stúlkunnar, sem var ölvuð og þreytt, til að brjóta gegn kynfrelsi hennar.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.  Rétt þykir að fresta fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og skal hún falla niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

 

Skaðabótakrafa.

Steinunn Guðbjartsdóttir héraðsdómslögmaður gerir skaðabótakröfu fyrir hönd brotaþola.  Krafist er miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000 auk dráttarvaxta og kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.

Krafan er rökstudd með því að brotaþoli hafi orðið fyrir andlegu og líkamlegu áfalli við brotið en hún hafi verið grandalaus um að hún væri í nokkurri hættu stödd.  Árásin hafi verið skipulögð, sök ákærða sé mikil og enginn vafi hafi verið um ásetning hans til verksins.  Við slíkt brot verði brotaþoli alltaf fyrir miskatjóni sem skuli bæta eftir því sem sanngjarnt þykir, sbr. 170. gr. laga nr. 19/1991, svo og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Ákærði hefur verið sakfelldur samkvæmt ákæru og ber því skaðabótaábyrgð á tjóni brotaþola samkvæmt 170. gr. laga nr. 19/1991.  Brotaþoli hefur sannanlega orðið fyrir alvarlegu áfalli við brot ákærða sem hún hefur þurft að vinna sig út úr.  Hefur brotið leitt til röskunar í lífi hennar þótt henni gangi vel að ná sér samkvæmt framburði Guðbjargar Rögnu sálfræðings.  Þykja bætur til hennar hæfilega ákvarðaðar 250.000 krónur með vöxtum frá dómsuppsögudegi eins og greinir í dómsorði.  Þá skal ákærði greiða þóknun réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur héraðsdómslögmanns, sem ákvarðast 150.000 krónur.

Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Guðrúnu Sesselju Arnardóttur fulltrúa ríkissaksóknara.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Valtýr Sigurðsson, sem dómsformaður, Arngrímur Ísberg og Hervör Þorvaldsdóttir.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Hafsteinn Már Lindquist Sigurðsson, sæti fangelsi í 6 mánuði en frestað er fullnustu þriggja mánaða refsingarinnar og fellur hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákæri almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.

Ákærði greiði X 250.000 krónur í skaðabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá dómsuppsögudegi til greiðsludags og 150.000 krónur vegna þóknunar réttargæslumanns hennar, Steinunnar Guðbjartsdóttur héraðsdómslögmanns.