Hæstiréttur íslands

Mál nr. 533/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                     

Fimmtudaginn 19. september 2013.

Nr. 533/2013.

PricewaterhouseCoopers ehf. og

(Kristín Edwald hrl.)

PricewaterhouseCoopers LLP

(Erlendur Gíslason hrl.)

gegn

LBI hf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni L hf. um dómkvaðningu matsmanna til að svara átta nánar tilteknum spurningum er vörðuðu atriði tengd skaðabótamáli sem félagið hafði höfðað gegn P ehf. og breska félaginu P, til heimtu skaðabóta vegna ætlaðs tjóns sem L hf. taldi að félögin tvö hefðu bakað sér með athöfnum og athafnaleysi við endurskoðun og könnun á árshlutauppgjörum og ráðgjöf varðandi reikningsskil í þágu LÍ hf. á tilteknu tímabili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 29. og 30. júlí 2013 sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júlí 2013, þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um að dómkvaddir yrðu matsmenn til að svara nánar tilgreindum spurningum. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita hér fyrir dómi.

Andmæli sóknaraðila við beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna eru margvísleg eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði. Byggja þau meðal annars á því að í sumum spurningum í matsbeiðni sé leitað álits á lagalegum atriðum sem séu á valdi dómara að leysa úr, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi aðrar spurningar halda sóknaraðilar því fram að matsmönnum séu gefnar forsendur sem ýmist séu rangar eða umdeildar og í enn öðrum spurningum sé allt of opið og óljóst hvað um sé spurt.

Samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 leggur dómari sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Þótt með matsbeiðni í máli þessu sé leitað álits á einhverju sem öðrum þræði snertir lagaleg atriði myndi niðurstaða þar um í matsgerð ekki binda hendur dómara eða þrengja svigrúm hans og skyldu til að meta þau endanlega sjálfur. Þá geta staðhæfingar í matsbeiðni um atriði sem varnaraðili telur hafa áhrif við matið ekki skert frelsi matsmanna til að leggja á þau sjálfstætt mat. Er þess jafnframt að gæta að varnaraðili yrði að bera halla af því ef sönnunargildi matsgerðar verður rýrara en ella vegna þess að lögð hefur verið til grundvallar mati forsenda hans sem reynist ekki eiga við rök að styðjast. Þá verður því ekki slegið föstu að útilokað sé fyrir dómkvadda menn að svara í matsgerð þeim spurningum sem greinir í matsbeiðni þótt fallast megi á með sóknaraðilum að sumar þeirra séu að nokkru leyti óljósar og matskenndar. Verður varnaraðila ekki meinað að afla matsgerðar um þessar spurningar, enda ber hann sjálfur kostnað af matsgerðinni og áhættu af því hvort hún komi honum að notum. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður niðurstaða hans staðfest.

Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP, greiði óskipt varnaraðila, LBI hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júlí 2013.

Á dómþingi þann 3. maí lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Í næsta þinghaldi á eftir, þann 21. júní, létu lögmenn stefndu bóka mótmæli við matsbeiðninni og kröfðust þess að henni yrði hafnað. Munnlegur málflutningur um þann ágreining fór fram þann 25. júní og var málið tekið til úrskurðar að honum loknum. Í þessum hluta málsins er stefnandi sóknaraðili og stefndu varnaraðilar.

Mál þetta, sem er höfðað með stefnu birtri 8. mars 2012, er höfðað á hendur stefndu til greiðslu ríflega 83 milljarða króna skaðabóta vegna tjóns sem stefnandi telur að stefndu hafi bakað sér með athöfnum og athafnaleysi við endurskoðun og könnun á árshlutauppgjörum Landsbanka Íslands og með ráðgjöf sem þeir veittu bankanum um það hvernig tilteknir þættir skyldu færðir í reikningsskilum bankans.

Í matsbeiðni er málavöxtum lýst og gerð grein fyrir ástæðum matsbeiðni. Kemur þar fram að ágreiningur sé á milli aðila um hvort varnaraðilum hafi borið að gera athugasemdir við útreikninga á eigin fé Landsbanka Íslands og tilteknir þeir þættir sem sóknaraðili heldur fram að hafi leitt til þess að eigið fé bankans var of hátt metið í reikningsskilum bankans. Þá sé ágreiningur um það hvort varnaraðilum hafi borið að tilkynna tiltekin brot, sem sóknaraðili gerir nánar grein fyrir í matsbeiðni, til bankaráðs, hluthafafundar og Fjármálaeftirlitsins. Tilgangur matsins sé að leggja mat á það hvort endurskoðun og könnun á reikningum bankans hafi farið fram í samræmi við venjur og meta eigið fé bankans og eiginfjárgrunn og hvort endurskoðendur hafi átt að bregðast við með því að árita ársreikning fyrir árið 2007 og hálfsársuppgjör á árinu 2008 með fyrirvara eða á annan hátt. Er með hliðsjón af þessu óskað mats í eftirfarandi níu liðum:

1.         Fór endurskoðun og áritun ársreiknings Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2007 fram í samræmi við góða endurskoðunarvenju fyrir fjármálafyrirtæki? Nánar tiltekið er óskað eftir áliti á því hvort tilefni var fyrir endurskoðendur að gera athugasemdir í áritun á ársreikning Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2007 um neðangreinda þætti:

(a)       Að eignarhlutir aflandsfélaga í Landsbanka Íslands hf. hafi ekki verið dregnir frá eigin fé bankans.

(b)       Að eignarhlutir á svokölluðum LI-Hedge reikningi hafi ekki með fullnægjandi hætti verið dregnir frá eigin fé bankans.

(c)       Að ekki hafi verið upplýst með fullnægjandi hætti um skuldbindingar og viðskipti Björgólfs Guðmundssonar og Björgólf Thors Björgólfssonar við Landsbanka Íslands hf.

2.         Ef ársreikningur Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2007 hefði verið endurskoðaður í samræmi við góða endurskoðunarvenju fyrir fjármálafyrirtæki, hefðu endurskoðendurnir átt að fá upplýsingar um brot á reglum á neðangreindum þáttum í starfsemi bankans:

(a)       Að bankinn hafi átt meira en 10% af eigin hlutum.

(b)       Að bankinn hafi brotið gegn reglum um flöggunarskyldu þar sem eigin hlutir hafi farið yfir 10% af hlutafé bankans.

(c)       Að bankinn hafi í starfsemi sinni brotið gegn reglum um stórar áhættuskuldbindingar með því að tengja ekki saman áhættuskuldbindingar Björgólf Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar.

3.         Fór könnun á hálfsársreikningsskilum Landsbanka Íslands hf. miðað við 30. júní 2008 fram í samræmi við góða könnunarvenju fyrir fjármálafyrirtæki? Nánar tiltekið er óskað eftir áliti á því hvort tilefni var fyrir endurskoðendur að gera athugasemdir í áritun sinni á hálfsársuppgjör Landsbanka Íslands hf. miðað við 30. júní 2008 um neðangreinda þætti:

(a)       Að eignarhlutir aflandsfélaga í Landsbanka Íslands hf. hafi ekki verið dregnir frá eigin fé bankans.

(b)       Að eignarhlutir á svokölluðum LI-Hedge reikningi hafi ekki með fullnægjandi hætti verið dregnir frá eigin fé Landsbanka Íslands hf.

(c)       Að ekki hafi verið upplýst með fullnægjandi hætti um skuldbindingar og viðskipti Björgólfs Guðmundssonar og Björgólf Thors Björgólfssonar við Landsbanka Íslands hf. 

(d)       Að ekki hafi verið heimilt að hækka virði TRS samninga í reikningum Landsbanka Íslands hf.

(e)       Að lánasafn Landsbanka Íslands hf. hafi ekki verið virðisrýrt með fullnægjandi hætti.

4.         Ef hálfsársreikningur Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2008 hefði verið kannaður í samræmi við góða könnunarvenju fyrir fjármálafyrirtæki, hefðu endurskoðendurnir átt að fá upplýsingar um möguleg brot á reglum á neðangreindum þáttum í starfsemi bankans:

(a)       Að bankinn hafi átt meira en 10% af eigin hlutum

(b)       Að bankinn hafi brotið gegn reglum um flöggunarskyldu þar sem eigin hlutir hafi farið yfir 10% af hlutafé bankans.

(c)       Að bankinn hafi í starfsemi sinni brotið gegn reglum um stórar áhættuskuldbindingar með því að tengja ekki saman áhættuskuldbindingar Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar.

5.         Var tilefni til þess að virðisrýra lánsafn bankans við gerð reikningsskila Landsbanka Íslands hf. þann 30. júní 2008?

6.         Ef tilefni var til virðisrýrnunar hversu há hefði virðisrýrnunin átt að vera?

7.         Hvert var eiginfjárhlutfall Landsbanka Íslands hf. þann 30. júní 2008 ef neðangreindir þættir eru dregnir frá eiginfé í hálfsársreikningsskilum bankans:

(a)       Eignarhlutir aflandsfélaga í Landsbanka Íslands hf.

(b)       Eigin hlutir á svokölluðum LI-Hedge reikningi.

(c)       Hækkun á virði TRS samninga í reikningum Landsbanka Íslands hf.

(d)       Virðisrýrnun að því marki sem matsmenn hafa metið hana.

8.              Þá er óskað eftir því að matmenn meti og ákvarði nafnverð neðangreindra hluta í bankanum þann 31. desember 2007 og 30. júní 2008 og hlutfall þeirra af heildarhlutafé bankans:

(a)       Eigin hlutir sem bankinn dró frá eiginfé bankans.

(b)       Eignarhlutir aflandsfélaga í Landsbanka Íslands hf.

(c)     Eigin hlutir á LI-Hedge reikningi.

(d)    Eigin hlutir sem settir voru að veði til tryggingar á lánum sem viðskiptamenn fengu hjá bankanum til kaupa á hlutabréfum í bankanum.

9.         Þess er óskað að matsmenn fjalli einnig um önnur atriði sem þeir telja máli skipta í tengslum við framangreind álitaefni.

Sóknaraðili féll frá síðustu spurningunni þegar málið var flutt munnlega um ágreining um matsgerðina.

Málsástæður og lagarök varnaraðila fyrir því að hafna beri beiðni um dómkvaðningu matsmanna

Mótmæli og málsástæður varnaraðila gegn fram kominni matsbeiðni er að mestu samhljóða. Þeir telja að synja beri sóknaraðila um að fá dómkvadda matsmenn og færa fyrir því fjölmörg rök. Í almennri umfjöllun um galla matsgerðar, sem varnaraðilar telja að leiða eigi til þess að henni verði hafnað er á því byggt að í henni sé matsmönnum ítrekað gefnar rangar eða í öllu falli ósannaðar forsendur. Til dæmis sé fullyrt í I. kafla matsbeiðninnar að fram komi í gögnum málsins að varnaraðilar hafi sameiginlega annast endurskoðun og könnun reikningsskila sóknaraðila um margra ára skeið. Þetta sé rangt enda öllum ljóst að það hafi verið PricewaterhouseCoopers ehf. sem var kjörinn endurskoðandi sóknaraðila og hafi einn borið ábyrgð á endurskoðun og könnun reikningsskilanna. PricewaterhouseCoopers UK hafi aldrei verið endurskoðandi sóknaraðila og annaðist ekki endurskoðun eða könnun reikningsskila sóknaraðila, hvorki einn né sameiginlega með matsþola PricewaterhouseCoopers ehf. með þeim hætti sem matsbeiðandi staðhæfir. Þá séu í I. kafla matsbeiðninnar staðhæfingar í mörgum liðum um meint brot sóknaraðila sjálfs á lögum og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, sem þó séu ýmist umdeild, beinlínis röng eða í öllu falli ósönnuð. Matsspurningarnar sjálfar í II. kafla séu reistar á þeim hlutdræga grundvelli sem lagður er í I. kafla. Spurningar númer 2 og 4 séu ekki spurningar heldur ósannaðar fullyrðingar þar sem matsmönnum séu gefnar rangar, misvísandi og/eða leiðandi forsendur. Þá er spurning 9 beiðni um að matsmenn leiti sjálfstætt og án sérstakra tilmæla eftir óskilgreindum atriðum sem matsbeiðandi hefur ekki hugað að sjálfur. Matsgerð sem unnin sé á svo hlutdrægum grundvelli sem hér um ræðir sé bersýnilega tilgangslaus til sönnunar og beri því að hafna dómkvaðningu á grundvelli 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Þá er á því byggt að matsbeiðnin sé of seint fram komin. Sóknaraðili hafi haft fullt tilefni til að óska eftir matsgerð dómkvaddra matsmanna ekki síðar en í desember 2010, en þá hafi hann fengið mótmæli frá varnaraðilum þar sem því hafi verið hafnað með rökstuddum hætti að endurskoðandi sóknaraðila hafi bakað honum tjón. Allar forsendur og fullt tilefni hafi því verið til að afla matsgerðar áður en ákvörðun hafi verið tekin um höfðun dómsmáls. Dómkvaðning matsmanna á þessu stigi sé augljóslega til þess fallin að tefja málareksturinn verulega og gangi í berhögg við meginreglu einkamálaréttarfars um hraða málsmeðferð. Matsbeiðni komi einnig fram löngu eftir birtingu stefnu.

Auk þess að vera og seint fram komin og myndi tefja málið um mánuði og jafnvel ár sé augljóst að sóknaraðili sé nú með matsbeiðninni að reyna að bæta úr annmörkum á málatilbúnaði sínum í stefnu. Fyrst með matsbeiðninni séu skilyrði f.- liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 uppfyllt, sem kveða á um að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða má tilvísun til helstu lagaákvæða eða réttarreglna sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á. Sóknaraðili hafi ekki gert þetta í stefnu, enda geymir hún aðeins almennar tilvísanir til „góðrar endurskoðunarvenju“ og alþjóðlegra staðla, án þess að skilgreina það með fullnægjandi og greinarbetri hætti. Byggir varnaraðilinn PricewaterhouseCoopers UK á því að þetta stangist á við meginreglu 95. gr. og 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991.

Enn fremur er á því byggt að í matsbeiðni sé í verulegum atriðum beðist mats á lagaatriðum sem dómari á sjálfur að gæta að, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Af þessum ástæðum ætti að hafna dómkvaðningu. Þá beinist matsbeiðnin í raun fremur að því hvort matsbeiðandi sjálfur hafi fylgt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð eigin reikningsskila heldur en því hvort endurskoðun og könnun reikningsskilanna hafi verið í samræmi við góða endurskoðunarvenju og alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Af þessum ástæðum sé einsýnt að matsgerð á þessum forsendum yrði bersýnilega tilgangslaus til sönnunar.

Loks er á því byggt að matsbeiðni beinist að einstökum þáttum í ársreikningi og árshlutauppgjöri sóknaraðila en ekki að reikningsskilum hans í heild, t.a.m. hugsanlegu vanmati á einstökum eignum. Matsgerð á þessum grundvelli myndi því ekki undir neinum kringumstæðum gefa fullnægjandi vísbendingar um hvort eiginfjárgrunnur matsbeiðanda hafi verið ofmetinn, eða eftir atvikum vanmetinn, enda fengist engin heildarmynd úr matsgerðinni. Af þessum sökum yrði matsgerðin því bersýnilega tilgangslaus til sönnunar í málinu og beri því að hafna dómkvaðningu með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Auk málsástæðna sem raktar hafa verið byggja varnaraðilar á því að hafna beri einstökum matsspurningum með eftirfarandi rökstuðningi.

Spurning 1 varði ársreikning ársins 2007, en ekki hálfsársreikning ársins 2008. Ljóst sé að allar kröfur vegna endurskoðunar á ársreikningi fyrir árið 2007 séu fyrndar og spurningar sem lúta að endurskoðun þess ársreiknings því bersýnilega tilgangslausar til sönnunar. Þá sé spurningin um lögfræðilegt efni sem dómara beri sjálfum að leggja mat á, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, þar sem álitaefni tengd túlkun alþjóðlegra reikningsskila- og endurskoðunarstaðla séu lagaleg úrlausnarefni. Loks sé spurningin of óljós og opin. Óskað sé álits á því „hvort tilefni“ hafi verið til að „gera athugasemdir“, án þess að útskýra nánar hvað felist í því. Uppfyllir matsbeiðnin því ekki skilyrði 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um að skýrlega skuli koma fram í matsbeiðni hvað eigi að meta og hvað skuli sanna með því.

Matsspurning 2 varði, líkt og spurning 1, ársreikninginn fyrir árið 2007 og sé því tilgangslaus á sömu forsendum og rakið er varðandi fyrstu spurninguna. Þá sé orðalag spurningarinnar þannig að í raun feli hún ekki í sér spurningu heldur ósannaða fullyrðingu byggða á röngum forsendum. Jafnvel þótt litið yrði á efni hennar sem spurningu sé ljóst að hún snúist um lögfræðilegt álitaefni sem ekki sé hægt að beiðast mats á.

Matsspurningu 3 beri að hafna með sömu rökum og spurningu 1 og vísa varnaraðilar til athugasemda sinna varðandi þá spurningu. Þá er áréttað að um sé að ræða óendurskoðaðan, samandreginn árshlutareikning sóknaraðila 30. júní 2008, en ekki endurskoðuð reikningsskil. Þá þurfi fyrst að athuga hvort sóknaraðili hafi sjálfur uppfyllt skyldur sínar við slík reikningsskil, áður en metið yrði hvort endurskoðandi matsbeiðanda hafi við könnun samandregins árshlutareiknings ekki farið að ákvæðum alþjóðlegs staðals. Sú spurning sé auk þess lögfræðileg spurning sem ekki beri að leggja fyrir dómkvadda matsmenn. Loks gera varnaraðilar þá athugasemd við undirlið (e) í matsspurningunni, að þar sé beðist mats á víðtækari efnisþáttum en málatilbúnaður sóknaraðila í stefnu um sama atriði byggir á. Í stefnu sé byggt á því að tiltekin útlán hafi borið að virðisrýra. Ekki sé hægt að fallast á að matsmenn verði dómkvaddir til að gera víðtækara mat en matsþoli byggir málatilbúnað sinn á. Slíkt mat sé tilgangslaust til sönnunar og slík gagnaframlagning gengi gegn meginreglum einkamálaréttarfars, svo sem 95. gr. og 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991.

Matsspurningu 4 beri að hafna þar sem í henni felist fullyrðing en ekki spurning auk þess sem efni hennar sé óljóst. Vísa varnaraðilar til athugasemda sinna við spurningu 2 hvað þetta varðar.

Í matsspurningu 5 er spurt hvort tilefni hafi verið til að virðisrýra lánsafn bankans við gerð reikningsskila Landsbanka Íslands hf. þann 30. júní 2008. Varnaraðilar byggja á því að ekki sé ágreiningur um að tilefni var til að virðisrýra lánasafn sóknaraðila og því sé hér um óumdeilt atriði að ræða sem ekki verði aflað matsgerðar um, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Þá sé orðalag spurningarinnar of opið og óljóst. Ekki komi skýrlega fram í henni hvað eigi að meta, hvar það sé sem meta á né hvað matsbeiðandi hyggist sanna með mati. Ekki verði ráðið af orðalagi hennar hvaða gögn matsmenn ættu að styðjast við til að framkvæma slíkt mat, né hvernig slíkt mat ætti yfir höfuð að vera framkvæmt. Þá byggir PricewaterhouseCoopers UK á því að hafna beri spurningunni á þeim grundvelli að krafist sé lagalegrar túlkunar sem ekki verði borin undir dómkvadda matsmenn, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.

Spurningu 6 beri að hafna þar sem efni hennar sé víðtækara en málatilbúnaður matsbeiðanda í stefnu byggir á. Grundvelli máls megi ekki raska með síðbúinni gagnaframlagningu. Spurningin varði auk þess fjárhagsleg málefni fjölda aðila sem eigi ekki aðild að málinu. Þá sé nánast útilokað nú að leggja mat á virði útlána sem byggi á aðstæðum á þeim tíma þegar matið fór fram. Ekki sé heimilt að meta virði útlána með hliðsjón af því hvers vænta megi síðar óháð því hve líklegt sé að tilteknir atburðir verði. Sé spurningin því einnig bersýnilega tilgangslaus til sönnunar af þessum ástæðum.

Matsspurning 7 sé bersýnilega tilgangslaus þar sem hún myndi ekki gefa heildstæða mynd af eiginfjárhlutfalli og eiginfjárgrunni sóknaraðila þar sem spurningin beinist að afmörkuðum þáttum í ársreikningi sóknaraðila, sbr. það sem áður er komið fram í almennum andmælum varnaraðila gegn matsbeiðninni. Þá er í bókun PricewaterhouseCoopers ehf. á því byggt að spurningunni mætti svara með skýrslutöku fyrir dómi eða framlagningu gagna. Báðir varnaraðilar mótmæla sérstaklega lið d, sem snýr að áhrifum virðisrýrnunar, sem spurt er um í spurningunni að framan, á eiginfjárhlutfall sóknaraðila.

Spurningu 8 er mótmælt að því marki sem hún snýr að ársreikningi ársins 2007 með sömu rökum og koma fram í umfjöllun um spurningu 1. Þá sé undirliður c í spurningunni af lögfræðilegum toga og beri að hafna honum með vísan til 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 auk þess sem PricewaterhouseCoopers ehf. byggir á því að svara við spurningunni ætti fremur að afla með skýrslutöku fyrir dómi eða framlagningu gagna.

Loks mótmæla varnaraðilar að spurning 9 verði lögð fyrir matsmenn. Með henni séu matsmenn ekki beðnir um að svara ákveðinni og skýrri spurningu heldur að leita eftir ótilgreindum atriðum, sem þeir „telji máli skipta“. Spurningin fari augljóslega í bága við 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 og beri því að hafna henni.

Málstæður og lagarök sóknaraðila fyrir beiðni um dómkvaðningu matsmanns

Sóknaraðili byggir á því að það sé óumdeild meginregla sem lögfest sé í 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 að aðili eigi rétt á að afla og leggja fram í einkamáli þau sönnunargögn sem hann telji málstað sínum til framdráttar. Sá réttur verði ekki takmarkaður umfram það sem leiði af 3. mgr. 46. gr. sömu laga. Ekkert sé fram komið sem renni stoðum undir þá fullyrðingu að bersýnilegt sé að matsgerðin skipti ekki máli eða sé tilgangslaus til sönnunar. Því sé hafnað að 3. mgr. 46. gr. eða IX. kafli laga nr. 91/1991 standi í vegi þess að fallist verði á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Matspurningar séu skýrar en það leiði af eðli máls að aðila greini á um ástæður matsbeiðni enda hafni varnaraðilar bótaskyldu.

Þá sé því mótmælt að spurningum beri að hafna þar sem með þeim sé óskað svara við lögfræðilegum spurningum sem dómara beri sjálfum að meta, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Endurskoðunar- og könnunarvenjur séu lykilatriði í sakarmati vegna ábyrgðar endurskoðenda og víða vísað til slíkra venja í lögum og reglum um starfsemi endurskoðenda. Jafnvel þótt í venjum þessum felist lagareglur hafi dómarar almennt ekki þekkingu til að ákvarða hvaða venjur gildi á sérfræðisviðum. Sá sem beri fyrir sig venju, svo sem sóknaraðili geri, beri að sanna tilvist og efni venjunnar.

                Því er enn fremur mótmælt að matsbeiðni sé of seint fram komin en hún hafi verið lögð fram í fyrsta þinghaldi eftir skil greinargerðar og úthlutunar máls til dómara. Þá hafi gagnaöflun í málinu ítrekað verið hindruð af varnaraðilum og mótmæli þeirra við matsgerðinni sé einn liður í því, þar sem matamenn muni eiga rétt á að fá vinnugögn varnaraðila.

                Markmið með öflun matgerðarinnar sé að afla sönnunargagna og því sé mótmælt að það raski málsgrundvelli með nokkrum hætti eða sé sett fram til að bæta úr meintri brotalöm á málatilbúnaði. Vísað sé til stefnu sóknaraðila þar sem sjá megi að málsgrundvöllurinn er lagður þar og matsbeiðnin sé í samræmi við stefnu.

                Varðandi spurningu 1 og 2 sé því sérstaklega mótmælt að endurskoðun ársreikninga fyrir árið 2007 skipti ekki máli fyrir málatilbúnað sóknaraðila. Svo sem fram komi í stefnu er á því byggt að brot varnaraðila nái yfir tímabil aftur til 2005 þótt bóta sé krafist fyrir tjón sem varð eftir mitt ár 2008. Spurningarnar lúti að því að leiða í ljós venjur sem giltu á þeim tíma um endurskoðun ársreikninga. Vísað er til þess sem að framan greinir um mótmæli sem lúta að því að um lögfræðilegt efni sé að ræða. Spurningar 3 og 4 séu sama eðlis en snúi að venjum í tengslum við könnun hálfsársreikninga.

                Spurningar um virðisrýrnun í 5 og 6 snúi annars vegar að því að matsmenn staðfesti það mat aðila máls að virðisrýra bæri lánasafnið og hins vegar að því hve mikið hafi borði að rýra það en slíkt sé háð mati sem dómkvaddir matsmenn geti metið.

                Þá snúi spurningar 7 og 8 að umdeildum útreikningum sem geti haft verulega þýðingu í málinu að fá álit matsmanna á hvernig beri að reikna út.

Loks sé matgerð þessi til þess fallin að létta bæði verk dómara og málsaðila.

Niðurstaða

Það er meginregla að aðilar máls hafa forræði á sönnunarfærslu vegna þeirra staðhæfinga um atvik sem þeir leggja til grundvallar málatilbúnaði sínum. Innan þeirra marka sem lög nr. 91/1991 kveða á um geta þeir aflað þeirra sönnunargagna sem þeir telja þörf á, þar á meðal matsgerða dómkvaddra matsmanna sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna. Af öðrum ákvæðum laganna og dómaframkvæmd má ráða að heimild aðila samkvæmt greininni afmarkast fyrst og fremst af 3. mgr. 46. gr. sem kveður á um að dómari geti meinað aðila að færa sönnur á atriði sem bersýnilega er tilgangslaust að sanna auk þess sem ekki er þörf á matsgerð vegna atriða sem gert er ráð fyrir að dómari meti sjálfur, sbr. 2. mgr. 60. gr. Hvað síðara atriðið varðar verður þó að hafa í huga að tilteknar spurningar geta falið í sér úrlausn lagalegra atriða sem eru samofin úrlausn mats á atvikum eða staðreyndum máls. Leiðir það alla jafna ekki til þess að matsspurningu verði hafnað. Á hinn bóginn er dómari ekki bundinn við afstöðu matsmanna til lagalegra úrlausnarefna og metur auk þess með sjálfstæðum hætti sönnunargildi þeirra gagna sem fyrir dóminn eru lögð.

Varnaraðilar krefjast þess að matsbeiðni verði hafnað í heild, eða að minnsta kosti hluta matsspurninganna. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á umbeðna dómkvaðningu matsmanna en við munnlegan málflutning um þá kröfu felldi hann út síðustu spurninguna í matsbeiðninni. Matsbeiðni í endalegri mynd felur því í sér 8 spurningar.

Hvað varðar matsbeiðnina í heild þá telja varnaraðilar í fyrsta lagi að beiðnin sé of seint fram komin og þegar af þeirri ástæðu beri að hafna henni. Á þá málsástæðu er ekki fallist. Ákvæði IX. kafla laga nr. 91/1991 gera ráð fyrir því að aðilum sé kleift að afla matsgerðar eftir að mál hefur verið höfðað. Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 8. mars 2012. Matsbeiðnin sem hér er deilt um var lögð fram í þinghaldi 3. maí sl., sem var fyrsta þinghald eftir úthlutun málsins til dómara og áður en ljáð hefur verið máls á því að gagnaöflun sé lokið í málinu. Þá kemur fram í stefnu að varnaraðili áskilji sér rétt til að afla matsgerðar með dómkvaðningu matmanns. Matbeiðni kom því fram við fyrsta tækifæri eftir að málarekstur þessi hófst og hefur það ekki þýðingu í þessu sambandi hvort málshöfðun hefði mögulega getað hafist fyrr en raunin varð.

Í öðru lagi telja varnaraðilar matsgerð tilganglausa og því beri að hafna henni með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Sem nánari rökstuðning fyrir þessari fullyrðingu tefla varnaraðilar fram þeim röksemdum að í matsbeiðni séu rangar eða a.m.k. ósannaðar forsendur sem geri matsgerðina að ónýtu sönnunargagni og öflun hennar þar með ónýta. Tilgangsleysi hennar komi einnig fram í því að matsspurningar snúi fremur að ætluðum brotum stefnanda sjálfs á reikningsskilastöðlum heldur en brotum stefndu á endurskoðendastöðlum. Þá sé í matsbeiðni óskað útreikninga á afmörkuðum þáttum í ársreikningi með tilliti til áhrifa á eigin fé en útreikningur á afmörkuðum þáttum geti ekki svarað því hvort eiginfjárgrunnur í heild hafi verið undir lögbundnu lágmarki. Því feli slíkir útreikningar í sér tilgangslausa sönnunarfærslu.

Til þess er að líta að matsgerðar er óskað til að afla sönnunargagna til stuðnings tilteknum fullyrðingum sóknaraðila um staðreyndir máls sem varnaraðilar mótmæla sem ósönnum og eða ósönnuðum. Því er ekki annars að vænta en aðilar máls séu ósammála um forsendur spurninganna sem sóknaraðili vill leggja fyrir matsmenn. Beiðni um dómkvaðningu verður hins vegar ekki hafnað á þeim grundvelli en getur eftir atvikum leitt til þess að sönnunargildi matgerðarinnar verði minna en ella og sóknaraðili ber þá hallann af því. Þá er ekki fallist á það með varnaraðilum að matsbeiðni sé tilgangslaus þar sem spurningarnar snúi fremur að sóknaraðila sjálfum en varnaraðilum. Málatilbúnaður sóknaraðila byggist m.a. á því að brotalamir eða rangfærslur hafi verið í reikningsskilum Landsbanka Íslands sem báðir varnaraðilar, sem endurskoðendur sóknaraðila, hafi átt að að koma auga á og gera athugasemdir við og eftir atvikum vekja athygli annarra á. Eðli málsins samkvæmt tengjast þessi atriði og verður sóknaraðila ekki meinað að leggja fram gögn til sönnunar staðhæfingum sínum þótt þær lúta að reikningsskilum hans sjálfs. Þá fer því nokkuð fjarri að hægt sé að slá því föstu á þessu stigi máls að matsspurningar lúti að atriðum sem bersýnilegt sé að skipti ekki máli eða matsgerðin verði af öðrum ástæðum tilgangslaus. Byggja ber á þeirri meginreglu að aðilar hafi forræði á sönnunarfærslu í málinu og hafi því svigrúm, innan ramma laga nr. 91/1991, til að ákveða sjálfir með hvaða hætti þeir afla sönnunargagna enda beri þeir sjálfir hallann af því ef sönnun tekst ekki, auk þess sem matsgerð er unnin á kostnað sóknaraðila. Með þessum röksemdum er því hafnað að hafna beri matsgerðinni í heild á grundvelli 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Þá verður ekki séð að skortur sé á tilvísun til laga og réttarreglna í stefnu en varnaraðilar halda því fram að hafna beri dómkvaðningu matsmanna þar sem markmið matsgerðar sé að bæta úr slíkum annmarka í stefnugerð, sem þeir halda fram að uppfylli ekki áskilnað f-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991. Sú staðhæfing varnaraðila að í stefnu sé í engu getið hvaða ákvæði endurskoðunar eða könnunarstaðla hafi verið brotnir heldur eingöngu byggt á almennum tilvísunum til góðrar endurskoðunar- og könnunarvenju fær ekki staðist. Í stefnu er gerð grein fyrir forsendum og grundvelli málatilbúnaðar, lagarök rakin á bls. 84-86, auk þess sem víða er gerð ítarlegri grein fyrir því á hvern hátt sóknaraðili telur að varnaraðilar hafi brotið gegn tilteknum ákvæðum laga eða reglna, svo sem í kafla 3 sem lýtur að ætluðum brotum PricewaterhouseCoopers ehf. Lagarök eru því tíunduð í stefnu í samræmi við kröfur skv. f-lið 80. gr. einkamálalaga. Matsbeiðni verður því ekki hafnað á þessum grundvelli, hvorki í heild né hvað varðar einstakar matsspurningar.

Þá má af málflutningi varnaraðila PricewaterhouseCoopers LLP ráða að hann byggi á því að stefna sóknaraðila sé haldin frekari annmörkum en þeim sem lúta að f-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 án þess að skýrlega verði ráðið hvaða annamarka sé um að ræða. Kveður hann sóknaraðila ekki hafa lagt viðhlítandi grunn að kröfugerð sinni í stefnu, hvorki hvað varði form- né efnisþætti og skoða beri matsbeiðni hans í því ljósi að með henni, ásamt frekari gagnaframlagningu, freisti sóknaraðili þess að bæta úr óljósum málatilbúnaði. Í þessu sambandi er tilefni til að taka fram að dómari kannaði í upphafi máls, í samræmi við 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, hvort einhverjir þeir gallar væru á málatilbúnaði aðila sem varðað gætu frávísun þess án kröfu. Í þeirri könnun fólst m.a. skoðun á því hvort stefna væri í samræmi við ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991. Niðurstaða þeirrar könnunar var sú, að jafnvel þótt í stefnu sé rakið með full ítarlegum hætti málsatvik og áhöld séu um hvort í því henni felist öðrum þræði skriflegur málflutningur, þá sé hún ekki haldin göllum sem valdi frávísun án kröfu. Í stefnu er greint með fullnægjandi hætti frá dómkröfum og málsástæðum auk lagaraka og annarra atriða sem þurfa að koma fram í stefnu. Þá verður ekki séð að matsbeiðni feli í sér neinar breytingar á grundvelli málsins eða beðist séð mats á atriðum sem ekki er byggt á í stefnu. Væri það tilfellið leiddi það til þess að málinu í heild yrði vísað frá dómi en ekki matbeiðninni sem slíkri.

Verður þá vikið að athugsemdum varnaraðila varðandi einstakar matsspurningar.

Varnaraðilar krefjast þess að matsspurningu 1 verði hafnað þar sem frestir til að hafa uppi bótakröfu vegna mögulegra skaðabótaábyrgðar vegna endurskoðunar ársreikninga fyrir árið 2007, sem spurningin lýtur að, hafi verið löngu liðnir þegar mál þetta var höfðað. Vísa þeir til þess að um málshöfðunarfresti gildi tveggja ára regla sem var í 136. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 á þeim tíma þegar endurskoðun fór fram. Málatilbúnaður sóknaraðila byggir hins vegar á því að tjón hans hafi orðið eftir mitt ár 2008 en eigi sér samverkandi orsakir í ítrekuðum brotum varnaraðila allt frá árinu 2005. Byggir varnaraðili á því að ákvæði hlutafélagalaga eigi ekki við um kröfu málsins og gerir grein fyrir því í stefnu hvaða reglur hann telur eiga við um fyrningu.

Leyst verður úr ágreiningi aðila um fyrningartíma og málshöfðunarfresti við efnislega úrlausn málsins en slíkur ágreiningur hefur ekki áhrif á möguleika aðila til að afla sönnunargagna sem lúta að orsökum tjóns og verður beiðni um dómkvaðningu matsmanna ekki synjað á þessum grundvelli.

Þá byggja varnaraðilar á því að spurning 1 feli í sér spurningu um lagaatriði sem hafna beri að aflað verði matsgerðar um með vísan til 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.

Spurningin lýtur að því hvort fylgt hafi verið góðri endurskoðunarvenju við endurskoðun og áritun ársreikninga árið 2007, nánar tiltekið er spurt hvort tilefni hafi verið til að gera athugasemdir í áritun á ársreikninga sóknaraðila vegna tiltekinna þriggja atriða í ársreikningi hans. Á það er fallist að í spurningunni felst að hluta til spurning um lagalegt atriði, þ.e. að svarið byggist á því hvort fylgt hafi verið þágildandi reglum um endurskoðun sem kunna að hafa verið í lögum, stöðlum og eða ólögfestum venjum eða leiðbeiningarreglum stéttarinnar. Úrlausnarefnið er hins vegar svo tæknilegt að það er tæplega á færi dómara að meta það án atbeina sérfróðra matsmanna. Í ljósi þessa, og með hliðsjón af því að dómari er ekki bundinn af áliti sérfróðra aðila um túlkun laga, verður sóknaraðila ekki meinað að leggja þessa spurningu fyrir dómkvadda matsmenn á grundvelli þess að í henni felist spurning um lagaleg atriði. Með sömu röksemd verður sóknaraðila ekki heldur meinað að leggja spurningar 2 - 4 fyrir matsmenn á þessum forsendum.

Þá halda varnaraðilar því fram að hafna beri matsspurningum 1,3,4 og 5 vegna þess að orðalag þeirra sé of opið og óljóst og sumar þeirra feli í sér fullyrðingu fremur en spurningu.

Jafnvel þótt fallast megi á það með varnaraðilum að sumar þessara spurninga séu nokkuð opnar, og afmörkun kunni þar af leiðandi að vera vandasöm, verður því ekki slegið föstu að útilokað sé fyrir dómkvadda matsmenn að taka saman matsgerð um þau atriði sem um er spurt. Þá er engum vandkvæðum bundið að umorða lítillega eða bæta við greinarmerkjum á einstaka stað til að ljóst megi vera að um spurningu sé að ræða.Verður varnaraðila ekki meinað að afla matsgerðar um þessi atriði af þessum sökum enda ber hann sjálfur kostnað af matsgerðinni og áhættu af því hvort hún komi honum að notum.

Í spurningu 5 er spurt hvort tilefni hafi verið til að virðisrýra lánasafn Landsbanka Íslanda við gerð reikningsskila þann 30. júní 2008. Fallist er á það með varnaraðilum að hér sé spurt um óumdeilt atriði þar sem þeir hafa lýst því yfir að slíkt tilefni hafi verið fyrir hendi á umræddum tíma. Verður þessi spurning því ekki lögð fyrir matsmenn. Hins vegar er í spurningu 6 spurt um hve há virðisrýrnunin hefði átt að vera. Varnaraðilar mótmæla því að þessi spurning verði lögð fyrir matsmenn þar sem þeir telja hana víðtækari en efnistök og framsetning í stefnu gefi tilefni til, óljóst hvaða gögn eigi að skoða til að svara henni, hún varði aðra en þá sem koma að þessu máli og sé auk þess útilokað nú að svara því hvernig matið hefði átt að vera þar sem bar að miða það við aðstæður á tilteknum tíma í fortíðinni án tillits til þess sem síðar gerðist.

Fallast má á það með varnaraðilum að spurning 6 sé víðtæk. Hins vegar er ekki á það fallist að spurningin fari út fyrir það sem byggt er á í stefnu þótt þar sé fjallað sérstaklega um virðisrýrnun útlána hjá tilteknum hópi viðskiptamanna sóknaraðila. Fram kemur í stefnu að á því sé byggt að þörf hafi verið á mun víðtækari virðisrýrnun útlána. Þá er heldur ekki fallist á að útilokað sé að svara þessari spurningu nú. Við reikningsskil fjármálafyrirtækja er ávallt þörf á að meta virði útlána við gerð reikningsskila. Hafa varnaraðilar ekki sýnt fram á að það verk sé óframkvæmanlegt þótt það kunni að vera torveldara þegar miðað sé við tiltekinn tíma í fortíðinni svo sem spurningin lýtur að. Þá er ágreiningur um virði útlánasafns sóknaraðila á umræddum tíma, þ.e. um mitt ár 2008, þýðingarmikið atriði varðandi mat á eiginfjárhlutfalli og eiginfjárgrunni sem veigamikill hluti af málssókn sóknaraðila hvílir á. Því verður honum ekki meinað að leggja þessa spurningu fyrir dómkvadda matsmenn enda þótt ljóst sé að öflun slíkrar matsgerðar mun taka tíma og því hafa áhrif á hraða málsins fyrir dómi. Samkvæmt ofangreindu er óþarfi að leggja fyrir matsmenn spurningu númer 5 en mótmæli varnaraðila við 6. spurningu verða ekki tekin til greina.

                Spurningar 7 og 8 lúta að verðmati á tilteknum eignum sóknaraðila. Spurning 7 lýtur að því hve mikið eiginfjárhlutfall sóknaraðila þann 30. júní 2008 lækki ef dregnir eru frá eða lækkaðir fjórir tilgreindir eignaþættir, þ. á m. rýrnun á virði lánasafnsins sem spurt er um í 6. spurningu. Það leiðir af niðurstöðu dómsins um þá spurningu að andmæli varnaraðila við henni verða ekki tekin til greina. Í 8. spurningu er spurt um nafnverð tiltekinna fjögurra eignarhluta í bankanum miðað við tilteknar dagsetningar. Varnaraðilar halda því m.a. fram að þessum spurningum beri að hafna þar sem hægt sé að afla upplýsinga með skýrslutöku fyrir dómi eða gagnaframlagningu. Á það verður ekki fallist. Deilt er um hvernig meta beri tiltekna þætti í reikningsskilum sóknaraðila. Spurningarnar eru þess eðlis að svörin við þeim byggjast á mati sérfræðinga í reikningsskilum. Önnur gögn en matsgerðar hefði annað og minna sönnunargildi í málinu og skýrslutaka fyrir dómi þjónar ekki þeim tilgangi að afla sérfræðilegra útreikninga.

                Þá vísa varnaraðilar einnig til þess hvað varðar 7. spurningu að hún sé tilgangslaus þar sem umbeðið mat beinist að afmörkuðum þáttum í reikningsskilum sóknaraðila og geti af þeirri ástæðu ekki gefið heildarmynd af eigin fé og eiginfjárgrunni sóknaraðila og yrði því gagnslaust til sönnunar á því atriði.

Mat varnaraðila á sönnunargildi matsgerðar hefur ekki áhrif á heimild sóknaraðila til að afla matsgerðar. Það er mat dómara að á þessu stigi máls verði engu slegið föstu um sönnunargildi þessa þáttar matsgerðarinnar og í öllu falli liggi ekki fyrir að hún sé bersýnlega þýðingarlaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Verður matsspurningunni því ekki hafnað á þessum grundvelli.

                Varðandi 8. spurningu hefur þegar verið fjallað um þær málsástæður varnaraðila sem lúta að tilgangsleysi spurningarinnar (liður a og b). Í c-lið athugasemda við þessari matsspurningu er loks á því byggt að henni beri að hafna þar sem í c-lið hennar sé byggt á villandi forsendu, þeirri hvort LI-Hedge reikningar bankans hafi verið eigin hlutir sóknaraðila eða ekki. Ekki verður séð að þetta atriði komi í veg fyrir umbeðið mat geti farið fram og matsmenn í sjálfu sér ekki bundnir af þeim forsendum sem sóknaraðili leggur til grundvallar spurningum sínum. Að auki vísast til þess sem að framan greinir um að sóknaraðili ber áhættuna af því ef fullyrðingar eða forsendur sem hann leggur til grundvallar matsbeiðninni rýri sönnunargildi matsgerðarinnar. Matsspurningu númer 8 verður samkvæmt framansögðu ekki hafnað.

                Samkvæmt öllu því sem að framan greinir er krafa sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna til að svara spurningum I-VIII í matbeiðni á dómskjali nr. 592 tekin til greina að öðru leyti en því að spurningu númer V er hafnað.

Rétt er að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms í málinu.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Fallist er á kröfu sóknaraðila, slitastjórnar LBI hf., um dómkvaðningu matsmanna til að svara spurningum I-VIII á matsbeiðni að öðrum en spurningu númer V.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.