Hæstiréttur íslands
Mál nr. 58/2007
Lykilorð
- Verksamningur
- Dagsektir
|
|
Fimmtudaginn 25. október 2007. |
|
Nr. 58/2007. |
Birgir Reynisson(Othar Örn Petersen hrl.) gegn Jarðfagi ehf. (Erla S. Árnadóttir hrl.) |
Verksamningur. Dagsektir.
Með skriflegum verksamningi 2. mars 2004 tók J ehf. að sér jarð- og lagnavinnu á tveimur lóðum við Klettháls í Reykjavík fyrir B. J ehf. krafði B um greiðslu samtals 8.128.835 króna fyrir verkið með tveimur reikningum síðsumars 2004. B greiddi 2.000.000 krónur inn á verkið en taldi sig eiga gagnkröfu vegna dagsekta sem ættu að koma til frádráttar verklaunum. Höfðaði J ehf. mál til greiðslu mismunarins. Ágreiningur aðila laut að því hvort og þá að hvaða marki J ehf. hefði átt rétt á framlengingu umsamins verktíma vegna tíu nánar tilgreindra atriða auk þess sem þá greindi á um túlkun samnings aðila um fjárhæð dagsekta ef verkkaupi gat látið vinna önnur verk á lóðunum fyrir verklok. Talið var að J ehf. hefði uppfyllt nægilega tilkynningarskyldu sína samkvæmt grein 24.3 í ÍST 30, sem vísað hafði verið til í samningi aðila, varðandi sjö af þessum atriðum. Með vísan til matsgerðar, sem ekki hafði verið hnekkt með yfirmati, og að teknu tilliti til nokkurra breytinga, var fallist á að J ehf. hefði átt rétt á að verktími vegna vinnu við aðra lóðina yrði framlengdur í 17,6 daga og 11,6 daga vegna hinnar lóðarinnar. Ekki var talið unnt að víkja frá ákvæði í sérskilmálum samningsins um fjárhæð dagsekta þó að B kynni að hafa getað látið vinna önnur verk á lóðunum fyrir verklok J ehf., enda þar kveðið á um að upphæðin væri óháð því hvort og hvernig verkkaupi hagnýtti sér verkið. Námu dagsektir samkvæmt samningi aðila samtals 7.490.000 krónum og kom sú fjárhæð til frádráttar reikningsfjárhæðum. Var B því dæmdur til að greiða J ehf. 638.835 krónur með dráttarvöxtum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. janúar 2007. Hann krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Með skriflegum verksamningi 2. mars 2004, að loknu lokuðu útboði, tók stefndi að sér fyrir áfrýjanda jarð- og lagnavinnu á lóðunum nr. 2 og 11 við Klettháls í Reykjavík. Er meðal annars tekið fram í samningnum að verkið skuli unnið í samræmi við útboðsgögn og verkáætlun stefnda, sem áfrýjandi hafi samþykkt. Í útboðs- og verkskilmálum, sem aðilar eru sammála um að verið hafi hluti verksamningsins, er tekið fram að lóðin Klettháls 2 sé um 16.000 fermetrar að flatarmáli en lóðin Klettháls 11 um 6.000 fermetrar. Á lóðunum sé fyrirhugað að skapa aðstöðu fyrir nokkrar bílasölur með því að reisa þar fjögur 240 fermetra hús en að öðru leyti verði lóðirnar malbikaðar og nýttar sem stæði fyrir sölubíla. Þeim verkáfanga, sem boðinn sé út, tilheyri útgröftur úr lóðunum öllum og undirbygging undir malbik, lagning holræsalagna og ídráttarröra fyrir vatnsheimtaugar frá lóðamörkum að einstökum húsum. Skuli allri vinnu við lóð nr. 11 vera lokið fyrir 15. apríl 2004 og verkinu að fullu eigi síðar en 1. maí 2004.
Í útboðs- og verkskilmálunum er tekið fram að meðal útboðsgagna sé ÍST 30, 5. útgáfa dags. 15. júlí 2003, en staðall þessi hefur að geyma almenna útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir. Segir að staðallinn skuli gilda um verkið með þeim viðaukum og breytingum sem sérstaklega eru taldar. Í upptalningunni sem fylgir er sá háttur hafður á að sérskilmálunum eru gefin sömu greinanúmer og gilda um samsvarandi efni í staðlinum. Í 24. kafla staðalsins, sem ber heitið „Frestir - tafabætur (dagsektir)“, er að finna almenn ákvæði um fresti til að skila verki, meðal annars í grein 24.2 um tilefni þess að verktaki geti krafist framlengingar á fresti. Grein 24.3 hljóðar svo: „Ef verktaki telur sig eiga rétt á framlengingu á fresti skal hann tafarlaust senda verkkaupa rökstudda tilkynningu um það. Í tilkynningu skal rökstutt að töfin hafi hlotist af þeim atvikum sem verktaki ber fyrir sig.“ Þá er í grein 24.5 í staðlinum fjallað um tafabætur. Fylgja þeirri grein fjórar undirgreinar með númerum 24.5.1 til 24.5.4. Í fyrrnefndum sérskilmálum í útboðs- og verkskilmálum vegna verksins er að finna grein 24.5 þar sem segir: „Ljúki verktaki ekki verkinu á tilskildum tíma skal hann greiða verkkaupa tafabætur. Upphæð tafabóta fyrir hvorn verkáfanga skal vera kr. 50.000.- fyrir hvern almanaksdag sem verklok þess áfanga dragast fram yfir tilskilinn skiladag, óháð því hvort og hvernig verkkaupi hagnýtir sér verkið.“ Þá er þess að geta að í grein 13.2.2 í ÍST 30 er að finna svofellt ákvæði: „Ef framkvæmdir hafa tafist miðað við gildandi verkáætlun ber verktaka að leggja fram nýja áætlun til samþykkis, óháð orsökum tafar. Þetta samþykki leysir ekki aðila undan skyldum sínum samkvæmt öðrum greinum þessa staðals.“ Loks skal nefnt að í grein staðalsins 24.5.4 kemur fram að gjaldfallnar tafabætur geti verkkaupi dregið af síðari greiðslum til verktaka.
II.
Meðal gagna málsins eru fundargerðir 18 verkfunda sem haldnir voru á tímabilinu 2. mars til 23. september 2004. Áfrýjandi og Sigurður Sigurðsson fyrirsvarsmaður stefnda mættu á alla fundina. Þar voru einnig ávallt mættir eftirlitsmenn áfrýjanda með verkinu og aðrir menn sem því tengdust eftir atvikum hverju sinni. Í fundargerð 3. verkfundar 16. mars 2004 var meðal annars skráð: „Verkkaupi óskar eftir því að framlögð verkáætlun verktaka verði endurskoðuð vegna atriða í henni sem ekki ganga upp. Verktaki mun ganga í það verk.“ Sama bókun var endurtekin orðrétt á 4. verkfundi 23. mars 2004. Á 5. verkfundi 30. mars 2004 var bókað: „Verktaki lagði fram endurskoðaða verkáætlun.“ Þessi endurskoðaða áætlun er meðal gagna málsins. Þar er að finna svohljóðandi texta: „Framlenging: Vatnselgur 7 dagar. Fylling að streng 5 dagar. Uppúrtekt vegna strengs 6 dagar.“ Þetta eru samtals 18 dagar. Ekki er gefin sérstök skýring á þessum atriðum í áætluninni. Í öðrum málsgögnum kemur fram að fyrsti liðurinn sé vegna tafa á verkinu sem orðið hafi vegna mikilla rigninga á tímabilinu 6. - 16. mars 2004, en hinir tveir vegna aukaverka í tengslum við háspennustreng sem legið hafi um lóðina Klettháls 2 en verið fluttur til af starfsmönnum Reykjavíkurborgar.
Af næstu verkfundargerðum verður ráðið að framgangur verksins hafi ekki orðið sá sem samningur gerði ráð fyrir. Í fundargerð 8. verkfundar 27. apríl 2004 er bókað svo um skiladag: „Verkkaupi benti á að komið væri fram yfir fyrirskrifaðan skiladag Klettháls 11 og einsýnt væri að skiladagur Klettháls 2 stæðist ekki heldur útboðskröfu. Verkkaupi áskilur sér rétt til að beita dagsektum og óskaði eftir greinargerð frá verktaka um hugsanlega framlengingu á verktíma sem hann teldi sig eiga rétt á.“ Á 9. verkfundi 4. maí 2004 er bókað að greinargerð sú sem verkkaupi hafi óskað eftir að verktaki skilaði hafi ekki verið lögð fram, að verkkaupi ítrekaði athugasemdir sínar varðandi slaka framvindu verksins og áskildi sér rétt til að grípa inn í verkið teldi hann það verkinu til framdráttar. Næsti verkfundur var haldinn 18. maí 2004. Þá var bókað að lögð væri fram greinargerð stefnda, „um þá framlengingu á verktíma sem verktaki telur sig eiga rétt á.“ Í greinargerðinni eru tekin upp þau þrjú atriði sem nefnd höfðu verið í hinni endurskoðuðu verkáætlun 30. mars 2004 með samtals 18 tafadögum. Síðan eru nefndir fjórir liðir til viðbótar. Í fyrsta lagi hafi orðið töf um 17 daga vegna stækkunar á lóð nr. 11. Í öðru lagi er nefnd „uppúrtekt og fylling í púða undir hús ásamt greftri fyrir undirstöðum“ og talið að við bætist 28 dagar af þessu tilefni. Vegna fyllingar inn í sökkla húsa er nefnd 17 daga framlenging og einn dagur vegna leitar að vatnslögnum sem ekki hafi verið til staðar. Í lok greinargerðarinnar segir að niðurstaðan sé sú „að verktaki á rétt á framlengingu verksins um 81 almanaksdag sem þýðir að verkkaupa ber að framlengja verktíma sem því nemur.“
Þess er næst að geta, að á 12. verkfundi 9. júní 2004 var bókað að áfrýjandi hafi ákveðið að taka við lóð nr. 11 þó að stefndi hafi ekki lokið verki sínu við hana. Á 13. fundi 18. júní 2004 var svo lagt fram álit eftirlitsmanns áfrýjanda á „hugsanlegri framlengingu sem verktaki ætti rétt á.“ Væri ákveðið að aðilar skoðuðu álitið til næsta fundar. Í þessu áliti var tekin afstaða til liðanna sjö, sem stefndi hafði tilgreint í greinargerðinni 18. maí 2004, og þeim dögum sem eftirlitsmaðurinn taldi að „hægt sé að samþykkja - með góðum vilja“ skipt á lóðirnar tvær. Þar er fallist á þrjá tafadaga vegna vatnselgs í lið nr. 1 og þeim skipað á lóðina Klettháls 11. Vegna liða nr. 2 og 3 eru samþykktir sex dagar á lóðina Klettháls 2. Síðan eru vegna liða nr. 4 - 7 í greinargerð stefnda frá 18. maí samþykktir sjö dagar í viðbót vegna lóðar nr. 11 og níu dagar vegna lóðar nr. 2. Þannig vildi eftirlitsmaðurinn samþykkja samtals 10 daga í framlengingu vegna lóðar nr. 11 og 15 daga vegna lóðar nr. 2.
Á 14. verkfundi 14. júlí 2004 var bókað að verkkaupi teldi að verktaki væri farinn að vanrækja verkið og að verktaki viðurkenndi að hann væri kominn í „önnur verk þessu ótengd.“ Þá er bókað: „Verkkaupi gerir þá kröfu að verktaki gangi strax í að ljúka verkinu og ljúki því í næstu viku. Verktaki áætlar að hann geti lokið verkinu fyrir 1. ágúst n.k.“ Þá var skráð að stefndi væri enn með „í skoðun af sinni hálfu“ álit eftirlitsmanns áfrýjanda á „hugsanlegri framlengingu sem verktaki ætti rétt á.“ Næsti verkfundur var haldinn 27. júlí 2004. Þá var bókað að stefndi hefði ekkert unnið við verkið undanfarnar tvær vikur utan lítillega í lögnum. Áfrýjandi ítrekaði „yfirlýsingu sína frá síðasta fundi um að verktaki sé farinn að vanrækja verkið.“ Þá var gerð svofelld bókun um dagsektir: „Lögð var fram áætlun um áfallnar dagsektir til 26. júlí og er niðurstaða hennar 5.8 Mkr. Er í þeirri áætlun miðað við að verktaki eigi rétt á framlengingu samkvæmt áliti (eftirlitsmanns áfrýjanda) sem lagt var fram á verkfundi 18. júní s.l. og verktaki hefur ekki gert athugasemd við. Sigurður sagði að málið væri enn í skoðun, það hefði dregist vegna sumarleyfis tæknimanns síns, sem væri að ljúka, og myndi hann skila greinargerð um dagsektirnar eftir yfirferð þessara gagna.“ Á þessum fundi afhenti áfrýjandi stefnda bréf þar sem honum var gefinn frestur til 10. ágúst 2004 til að ljúka verkinu, en að öðrum kosti myndi áfrýjandi rifta verksamningi. Af hálfu stefnda kom fram að hann hefði átt í erfiðleikum með að fá afgreidda olíu á tæki sín og fyllingarefni í námum vegna skulda. Taldi hann að þau vandamál myndu leysast þennan sama dag og myndi hann þá hefjast handa við verkið samstundis. Kvaðst hann myndu ljúka verkinu fyrir tilskilinn tíma og „aðspurður vildi hann ekki segja sig frá því.“
Í fundargerðum 16. og 17. verkfunda sem haldnir voru 16. og 27. ágúst 2004 kemur fram að stefndi hafði ekki ennþá lokið verkinu. Í framburði Þorgeirs Guðmundssonar eftirlitsmanns áfrýjanda fyrir héraðsdómi kom meðal annars fram að til mánaðarmóta ágúst og september hafi verið unnið við að þjappa og þjöppuprófa á lóðinni Klettháls 2. Í byrjun september hafi lagnir verið myndaðar og fram komið gallar í þeim sem stefndi hafi lagfært. Stefndi hafi lokið þessum viðgerðum 20. september 2004. Í málinu er að finna gögn sem benda til þess að stefndi teldi sig hafa lokið viðgerðunum 16. september 2004. Síðasti verkfundurinn, sá 18. í röðinni, var haldinn 23. september 2004. Var þá bókað að verktaki hefði nú lagfært galla í lögnum og hafi því verki lokið 20. september 2004. Verkinu teldist því lokið. Var bókað að ágreiningur væri með aðilum um „beitingu dagsekta.“ Áfrýjandi, Þorgeir Guðmundsson eftirlitsmaður hans og Sigurður Sigurðsson fyrirsvarsmaður stefnda rituðu nöfn sín undir þessa fundargerð.
III.
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi lét stefndi dómkveðja matsmann til að meta tiltekin atriði, sem hann taldi leiða til framlengingar á verktíma. Verður við það að miða að forsendur fyrir matinu séu þær sem fjallað er um í grein 24.2 í ÍST 30, þar sem kveðið er á um tilefni þess að verktaki geti krafist framlengingar á verktíma. Þau atriði sem mat beindist að eru tilgreind í héraðsdómi í töluliðum 1 - 10 og niðurstöður matsmannsins um hvern og einn þeirra. Liðir nr. 1 - 3 eru þeir sömu og fram höfðu komið í hinni endurskoðuðu verkáætlun sem stefndi lagði fram á verkfundinum 30. mars 2004 og getið var að framan. Liðir nr. 4 - 7 eru þeir sömu og bæst höfðu við í greinargerð stefnda sem lögð var fram á fundinum 18. maí 2004. Liðir nr. 8 - 10 voru nýir og verður ekki séð að þeirra hafi nokkurn tíma verið getið á verkfundum meðan á verkinu stóð. Í héraðsdómi er greint frá niðurstöðu matsmanns um hvern og einn þessara liða og 20% styttingu á tafadögum sem hann taldi eðlilega vegna svonefndra samlegðaráhrifa við mat á framlengingartíma. Auk þess að biðja um mat á framangreindum atriðum tók matsbeiðandi fram í matsbeiðni að hann teldi að endurskoða hafi átt ákvæði verksamnings um tafabætur, þar sem sá hluti verksins er laut að vinnu við grunnana (þar sem húsin fjögur skyldu rísa) hafi verið tekinn út og tekinn í notkun innan skilafrestsins. Hefði matsbeiðandi í bréfi til áfrýjanda talið sig eiga rétt á lækkun dagsekta um helming vegna þessa og væri þess farið á leit að matsmaður legði mat á hversu mikið skyldi lækka dagsektir af þessu tilefni. Í héraðsdómi kemur fram að matsmaður leysti úr þessu verkefni með því að fella alveg niður dagsektir vegna Klettháls 11 og lækka fjárhæð dagsekta vegna Klettháls 2 úr 50.000 krónum í 30.000 krónur fyrir hvern almanaksdag. Í hinum áfrýjaða dómi eru niðurstöður matsmannsins lagðar til grundvallar með breytingum varðandi 6. lið matsgerðarinnar. Stefndi vill una þeirri niðurstöðu en áfrýjandi ekki.
IV.
Aðilar málsins deila ekki um fjárhæð reikninga stefnda vegna verksins. Deila þeirra einskorðast við dagsektirnar, það er að segja hversu háa fjárhæð áfrýjandi megi draga frá fjárhæðum reikninganna vegna dagsekta. Báðir málsaðilar byggja kröfur sínar á túlkun samningsskilmálanna sem í gildi voru í lögskiptum þeirra en ekki á því að víkja beri þeim til hliðar með tilvísan til settra lagaákvæða. Kemur það því ekki til athugunar við úrlausn málsins. Málsástæðum aðila er að öðru leyti nægilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Hér á eftir verður leyst úr þessum ágreiningsefnum.
1. Fallist verður á með stefnda að með breyttri verkáætlun 30. mars 2004 og greinargerð 18. maí sama ár teljist hann hafa uppfyllt nægilega tilkynningarskyldu sína sem kveðið er á um í ÍST 30 grein 24.3 sem tekin var upp að framan. Er þá haft í huga að aðilar héldu reglulega verkfundi, þar sem fjallað var um verkið og framgang þess. Á þessa fundi var ávallt mætt af hálfu beggja auk þess sem eftirlitsmaður áfrýjanda var jafnan mættur. Verður að leggja til grundvallar að áfrýjanda hafi verið kunnugt um þau atriði sem hér um ræðir á svipuðum tíma og þau komu upp. Þetta leiðir ekki til þess að hin formlega tilkynningarskylda stefnda samkvæmt grein 24.3 hafi fallið niður heldur verða ekki gerðar jafnstrangar kröfur til þess hversu fljótt tilkynningar hafi þurft að koma fram.
2. Stefndi hefur ekki leitt sönnur að því að hann hafi á verktímanum tilkynnt um þau atriði sem fjallað var um í liðum nr. 8 - 10 í matsgerð. Hann getur því ekki byggt á því að hann eigi rétt til framlengingar verktíma vegna þeirra.
3. Um matsliði nr. 1 - 3 segir í matsgerð að ekki verði ráðið af gögnum málsins að umsjónarmaður (eftirlitsmaður) hafi gert athugasemdir við mat það sem stefndi lagði á þetta sjálfur og fólst í breyttri verkáætlun hans sem lögð var fram á verkfundi 30. mars 2004. Allt að einu verður ekki betur séð en matsmaður leggi sjálfstætt mat á réttmæti þeirrar framlengingar sem fólst í hinni endurskoðuðu verkáætlun, þar sem hann tekur til athugunar efnisatriði sem henni lágu til grundvallar og lýsir sig sammála henni. Matsgerðinni hefur ekki verið hnekkt. Verður því fallist á með stefnda að hann eigi rétt á þeirri 18 daga framlengingu á verktíma sem þarna er metin. Þessum dögum er í matsgerðinni skipt á verkhlutanna þannig að 15 dagar eru taldir tilheyra lóð nr. 2 og 3 dagar lóð nr. 11. Stefndi hefur lýst því að hann felli sig við þetta. Verður þessi niðurstaða því staðfest.
4. Niðurstaða matsmanns um matsliði nr. 4 - 7 er sú að framlenging vegna lóðar nr. 2 sé 15 dagar en 13,5 dagar vegna lóðar nr. 11. Í forsendum hins áfrýjaða dóms er þessi tími vegna matsliðar nr. 6 styttur í 7 daga vegna lóðar nr. 2 og í 11,5 daga vegna lóðar nr. 11. Svo sem fyrr greinir unir stefndi þeirri niðurstöðu.
5. Samkvæmt því sem nú var greint hefur matsmaður metið réttmæta framlengingu um 30 daga vegna lóðar nr. 2 og 16,5 daga vegna lóðar nr. 11, en þetta verða 22 dagar vegna lóðar nr. 2 og 14,5 dagar vegna lóðar nr. 11 þegar tekið er tillit til breytinga héraðsdóms sem getið er í 4. lið hér að framan. Matsmaður styttir svo tafatímann vegna samlegðaráhrifa um 20% og unir stefndi þeirri aðferð. Þessi stytting tafatíma vegna samlegðaráhrifa er í matsgerðinni ekki látin ná til matsliða 1 3 þar sem matsmaður telur að í samþykki áfrýjanda á nýrri verkáætlun stefnda hafi falist samþykki á framlengingu á skilatíma fyrir verkið. Þetta fær ekki staðist, sbr. grein 13.2.2 í ÍST 30 og verður 20% stytting tafatímans látin ná til allra liðanna sem teknir eru til greina. Samkvæmt þessu verður niðurstaða dómsins sú að stefndi hafi átt rétt á 17,6 dögum í framlengingu vegna lóðar nr. 2 og 11,6 dögum vegna lóðar nr. 11.
6. Í sérskilmálum í útboðs- og verkskilmálum, grein 24.5, er kveðið á um að upphæð tafabóta fyrir hvorn verkáfanga skuli vera 50.000 krónur fyrir hvern almanaksdag sem verklok þess áfanga dragast fram yfir tilskilinn skiladag, óháð því hvort og hvernig verkkaupi hagnýtir sér verkið. Þetta sérákvæði gengur framar þeim almennu ákvæðum í grein 24.5 í ÍST 30 sem ekki samrýmast því efnislega. Af þessu leiðir að það hefur ekki áhrif á útreikning dagsekta þó að áfrýjandi kunni að hafa getað látið vinna önnur verk á lóðunum áður en verklok urðu hjá stefnda. Verður því hafnað þeim niðurstöðum hins áfrýjaða dóms að fella niður dagsektir fyrir Klettháls 11 og lækka fjárhæð dagsekta fyrir Klettháls 2 úr 50.000 krónum í 30.000 krónur.
7. Áfrýjandi tók við verki stefnda á lóð nr. 11 hinn 9. júní 2004 þó að hann telji að því verki hafi þá ekki verið að fullu lokið. Hefur hann byggt á því að dagsektir eigi að reiknast til þessa dags. Af hálfu stefnda er ekki gerður ágreiningur um þetta atriði sérstaklega. Þessum verkhluta átti samkvæmt upphaflegum verksamningi aðila að skila 15. apríl 2004 eða 55 dögum fyrr en áfrýjandi tók við honum. Að framan er komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi átt rétt á framlengingu um 11,6 daga vegna verkhlutans. Samkvæmt þessu ber stefnda að standa áfrýjanda skil á dagsektum fyrir 43,4 daga vegna þessa verkhluta. Nema þær samkvæmt samningi aðila 2.170.000 krónum.
8. Aðilar deila um hvenær miða skuli við að verki við lóðina nr. 2 hafi lokið. Með hliðsjón af því að þessu verki var að langmestu leyti lokið í byrjun september 2004 og að þá voru aðeins eftir fremur smávægilegar lagfæringar á lögnum, þykir mega staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að miða verklokin við 2. september 2004 þegar dagsektir eru reiknaðar. Verkhlutanum átti að skila 1. maí 2004. Skeikar þarna 124 dögum. Frá þeim dregst sá dagafjöldi sem að framan er talið réttmætt að fallast á til framlengingar á verktíma eða 17,6 dagar. Samkvæmt þessu falla dagsektir á í 106,4 daga vegna þessa verkþáttar. Nema þær samkvæmt samningi aðila 5.320.000 krónum.
V.
Reikningar stefnda sem dómkrafa hans byggist á eru annars vegar reikningur 26. júlí 2004 að fjárhæð 4.326.387 krónur, en inn á þann reikning greiddi áfrýjandi 2.000.000 krónur 13. ágúst 2004. Nema eftirstöðvar hans 2.326.387 krónum. Hins vegar byggist krafa stefnda á reikningi 19. september 2004 að fjárhæð 5.802.448 krónur. Samtals nema reikningarnir því 8.128.835 krónum. Fram kemur í málinu að synjun áfrýjanda á að greiða var strax byggð á því að hann ætti kröfu um dagsektir á hendur stefnda sem koma ætti til frádráttar í samræmi við grein 24.5.4 í ÍST 30, þar sem segir að gjaldfallnar tafabætur geti verkkaupi dregið af síðari greiðslum til verktaka. Dagsektafjárhæðirnar samtals 7.490.000 krónur koma því til frádráttar reikningsfjárhæðunum strax á gjalddaga reikninganna. Samkvæmt þessu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 638.835 krónur með dráttarvöxtum frá 19 október 2004, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en þann dag var liðinn mánuður frá dagsetningu síðari reikningsins.
Áfrýjandi verður samkvæmt þessum málsúrslitum dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Birgir Reynisson, greiði stefnda, Jarðfagi ehf., 638.835 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. október 2004 til greiðsludags og samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2006.
I
Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 30. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jarðfagi ehf., kt. 430402-3580, Nýbýlavegi 14, Kópavogi, með stefnu birtri 9. nóvember 2005 á hendur Birgi Reynissyni, kt. 040657-3559, Steinagerði 5, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þessar aðallega:
1. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 2.362.139, ásamt dráttarvöxtum, sem Seðlabanki Íslands auglýsir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 13. ágúst 2004 til greiðsludags. Dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í samræmi við 12. gr. sömu laga, í fyrsta sinn 24. júlí 2005, allt að frádregnum kr. 2.250.000, er stefnandi hefur samþykkt sem innborgun á kröfuna með skuldajöfnuði hinn 20. október 2004.
2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 5.802.448, ásamt dráttarvöxtum, sem Seðlabanki Íslands auglýsir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 19. september 2004 til greiðsludags. Dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í samræmi við 12. gr. sömu laga, í fyrsta sinn 19. september 2005.
3. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Til vara gerir stefnandi þær kröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda sömu fjárhæðir og samkvæmt tölulið 1 og 2 að ofan, allt að frádreginni annarri hærri fjárhæð að mati dómsins hinn 20. október 2004, en fjárhæðin komi fyrst til frádráttar kröfu samkvæmt kröfulið 1 og til frádráttar kröfu samkvæmt kröfulið 2, eftir því sem kann að þurfa. Þá verði stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær, aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun, að skaðlausu að mati dómsins. Til vara er þess krafizt, að dómkröfur stefnanda verði verulega lækkaðar, og málskostnaður verði látinn niður falla.
II
Málavextir
Í febrúar 2004 bauð stefndi út verk við jarðvinnu við lóðirnar Klettháls 2 og 11. Til grundvallar útboðinu lágu ítarlegir útboðsskilmálar og verklýsingar. Byggingarnefndarteikningar voru samþykktar af byggingarfulltrúa 18. nóvember 2003 vegna lóðarinnar nr. 11 og 14. janúar 2004 vegna lóðarinnar nr. 2. Verkið fólst í útgreftri úr báðum lóðunum, undirbyggingu fyrir malbik, lagningu holræsalagna og lagningu ídráttarröra fyrir vatnsheimtaugar frá lóðarmörkum að fjórum húsum, er fyrirhugað var að reisa á lóðunum. Í hússtæðum skyldi fylla með burðarlagsfyllingu 1,5 m undir plötukóta (kafli 2.2.7.) Samkvæmt útboðsskilmálum skyldi vinnu við lóð 11 vera lokið fyrir 15. apríl 2004 og verkinu skyldi að fullu lokið eigi síðar en 1. maí 2004.
Útboðið var lokað, og voru tilboð opnuð 16. febr. 2004. Nokkur tilboð bárust, og var tilboði stefnanda tekið. Samningur aðila var munnlegur og var útboðslýsingin hluti samningsins, og meðal útboðsgagna voru ákvæði ÍST 30:2003. Í samningnum voru dagsektir ákveðnar og umsamdar kr. 50.000 fyrir hvern almanaksdag, sem skil verksins færu fram yfir umsamda skiladaga fyrir hvorn verkáfanga fyrir sig. Samningsfjárhæðin var um 28,2 milljónir og samningurinn byggður á einingarverðum tilboðs. Ekki er í málinu ágreiningur um greiðslur fyrir framvindu verksins. Ágreiningur er hins vegar um fjárhæð tafabóta, en stefndi hefur haldið eftir greiðslum vegna dráttar stefnanda á lokum verksins.
Stefndi réð eftirlitsmann með verkinu, sem bókaði verkfundargerðir.
Á 5. verkfundi 30. marz 2004 lagði stefnandi fram endurskoðuð verkáætlun og skyldi samkvæmt henni afhenda lóð nr. 11 hinn 3. maí og lóð nr. 2 hinn 18. maí. Kveður stefnandi, að í hinni endurskoðuðu verkáætlun hafi framlenging á verktíma verið af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi hafi verið framlengt um sjö daga vegna vatnselgs, en eftir að stefnandi hafði óskað framlengingar verktíma vegna þessa með bréfi 9. marz, hafi verið bókað á 2. verkfundi þann dag, að ákveðið hefði verið að bíða með fyllingu, þar til veður skánaði. Í öðru lagi hafi í verkáætluninni verið gert ráð fyrir framlengingu um 5 daga vegna fyllingar að háspennustreng og í þriðja lagi framlengingu um 6 daga vegna uppúrtektar fyrir strenginn.
Stefndi kveður rangt, að stefnandi hafi fengið samþykkta framlengingu verksins með því að leggja fram nýja og aðra verkáætlun en lögð hafi verið til grundvallar við samningsgerð og bendir á, að ákvæði í 13.2.2 í ÍST 30 sé svohljóðandi: „Ef framkvæmdir hafa tafizt miðað við gildandi verkáætlun ber verktaka að leggja fram nýja áætlun til samþykkis, óháð orsökum tafar. Þetta samþykki leysir ekki aðila undan skyldum sínum samkvæmt öðrum greinum þessa staðals.“ Kveður stefndi framlagningu á nýrri verkáætlun til upplýsingar fyrir verkkaupa ekki veita verktaka sjálfvirkan rétt til framlengingar verktíma, heldur sé hin nýja verkáætlun yfirlýsing verktaka um, hvað hann hyggist geta ráðið við í verkframkvæmdinni, en ekki breyting á verksamningi. Tímamörk verksamnings gildi hér, og breytingar á samningi verði ekki gerðar einhliða.
Á meðan á vinnu við verkið stóð, vann stefnandi nokkur aukaverk, bæði við planið og grunnana, samhliða umsömdu verki. Kveður stefnandi stefnda hafa óskað eftir því, að hann ynni þessi verk. Stefndi kveður stefnanda hins vegar hafa sótzt eftir því að fá að vinna við þessi aukaverk.
Aukaverkin voru vegna uppúrtektar og fyllingar að háspennustreng á lóðinni nr. 2, stækkunar á lóðinni nr. 11, fyllingar inn í alla fjóra sökklana og að þeim utanverðum, graftar fyrir fótamentum og graftar fyrir lögnum í alla fjóra grunnana og drenlögnum meðfram þeim. Þá voru breytingar gerðar á umsömdu verki vegna nauðsynjar á viðbótarfleygun í norðurhluta lóðar nr. 2 og rippunar í suðurhluta þeirrar lóðar. Einnig var gerð sú breyting að hækka fyllingarpúða undir öllum fjórum húsunum, þannig að yfirborð þeirra yrði 95 cm undir plötukóta hvers húss í stað 1,5m samkvæmt verklýsingu. Stefnandi kveður aukaverkin hafa leitt til tafa við framkvæmdir við upphaflega umsamið verk, auk þess sem eftirtalin atriði hafi tafið framkvæmdirnar: Vegna rigninga á tímabilinu 6. - 16. marz hafi ekki verið unnt að vinna við fyllingar, og skyndileg snjókoma 30. marz hafi valdið ófærð í námur Bolöldu og Vatnsskarðs. Einnig hafi vatnslagnir í götu, sem stefnandi átti að tengja við, ekki reynzt vera til staðar, sem hafi valdið vinnu við leit að lögnunum.
Stefndi kveður stefnanda engan áskilnað hafa gert um, að aukaverkin hefðu í för með sér nokkra framlengingu verktíma eða aukagreiðslur til verktaka, aðrar en umsamin einingarverð.
Plötuprófun á púðum undir öll fjögur húsin fór fram á vegum Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins 27. apríl 2004. Kveður stefnandi þann hluti verksins, er fólst í vinnu, er var forsenda byggingarframkvæmda, því hafa verið afhentan á tilskildum tíma.
Á 10. verkfundi 18. maí lagði stefnandi fram bréf til eftirlitsmanns stefnda, þar sem hann fór fram á framlengingu verktíma vegna nokkurra atriða. Stefnandi kveður eftirlitsmanninn ekki hafa svarað bréfinu fyrr en með greinargerð, er lögð var fram á 12. verkfundi 18. júní. Var þá afráðið að skoða málið fram að næsta verkfundi. Á verkfundi 27. júlí er bókað, að stefnandi muni skila greinargerð um áætlun um áfallnar dagsektir, er þá hafði verið lögð fram. Stefnandi lagði ekki fram frekari greinargerð en þegar hafði verið lögð fram, en kveðst aldrei hafa samþykkt útreikning stefnda á dagsektum.
Stefnandi afhenti verkið við lóð nr. 11 hinn 9. júní 2004.
Stefndi lét þjöppuprófa lóð nr. 2 hinn 30. ágúst. Í byrjun september lét hann mynda holræsalagnir á lóðinni. Stefnandi kveður í stefnu, að í ljós hafi komið að lagfæra hafi þurft lagnir, er undirverktaki hafði lagt, og telur stefnandi sig hafa afhent verkið að lokinni lagfæringu hinn 16. september. Því var mótmælt af hálfu stefnda, sem telur, að verkið hafi verið afhent 20. september. Þar sem stefnandi fjallar um málsástæður sínar í stefnu kemur hins vegar fram, að þarna á stefnandi við 16. ágúst.
Stefndi greiddi ekki reikning stefnanda nr. 14, að fjárhæð kr. 4.326.387, útg. 26. júlí 2004, á réttum tíma, en greiddi þó inn á hann kr. 2.000.000 hinn 13. ágúst. Þá hefur stefndi ekki greitt reikning stefnanda nr. 18, að fjárhæð kr. 5.801.448, útg. 19. september 2004.
Á fundi um uppgjörsmál 11. október 2004 taldi stefndi sig í rétti með að halda eftirstöðvum samningsverksins, er nema kr. 8.305.148, vegna dagsekta, er næmu kr. 8.600.000. Aðila greinir hins vegar á um, hvort útreikningur dagsekta hafi þá legið fyrir.
Að kröfu stefnanda var dómkvaddur matsmaður, Pálmi Ragnar Pálmason, til að skoða og meta eftirfarandi atriði og áhrif þeirra á framlengingu verktíma:
1. Vatnselgur efni, sem verktaki átti að fylla með var ekki í nothæfu ástandi vegna bleytu.
2. Fylling að háspennustreng.
3. Uppúrtekt vegna háspennustrengs.
4. Aukaverk við stækkun á lóð nr. 11.
5. Uppúrtekt og fylling í púða undir hús ásamt greftri fyrir undirstöðum.
6. Fylling inn í sökkla húsa og að sökklum, söndun undir plötu.
7. Leit að lögnum, sem ekki reyndust til staðar.
8. Gröftur fyrir lögnum í grunn og drenlögnum meðfram húsum.
9. Fleygun í 2 norður og rippun í 2 suður.
10. Skyndileg ofankoma (snjór)
Niðurstaða matsmanns vegna framangreindra tl. 1-10, sem hann rökstyður í matinu er eftirfarandi:
1. Matsmaður telur réttmætt, að verktíminn sé framlengdur um sjö daga vegna vatnselgs í samræmi við verkáætlun frá 30. marz 2004.
2. Matsmaður telur eðlilegt að áætla fimm daga framlengingu vegna þessa verkþáttar.
3. Matsmaður telur eðlilegt að áætla sex daga framlengingu vegna þessa verkþáttar.
4. Matsmaður telur verktaka bera 9,5 daga framlenging verktíma vegna aukaverks við stækkun lóðar nr. 11.
5. Matsmaður telur sanngjarnt, að framkvæmdatími framlengist um tvo daga vegna viðbótarfyllingar og tvo daga vegna uppúrtektar/graftar fyrir undirstöðum húsanna fjögurra.
6. Matsmaður telur sanngjarnt að framlengja verktíma vegna fyllingar inn í sökkla húsa og að sökklum, ásamt söndun undir plötu um alls 14 daga, sem skiptist þannig: Átta dagar vegna fyllingar inn í sökkla, fjórir dagar vegna fyllingar að sökklum og tveir dagar vegna söndunar undir plötu.
7. Matsmaður telur sanngjarnt að framlengja verktíma um einn dag vegna þessa liðar.
8. Matsmaður telur sanngjarnt að ætla verktaka alls þriggja daga framlengingu verktíma vegna þessarar vinnu, þar af einn dag vegna skurðgraftar, en tvo daga vegna söndunar, fyllingar og þjöppunar.
9. Matsmaður telur sanngjarnt, að verktími framlengist um alls fjóra daga vegna allrar þessarar fleygunar- og rippunarvinnu við norður og suður hús nr. 2.
10. Matsmaður telur, að verktaka beri ekki sérstök framlenging verktíma vegna skyndilegrar ofankomu.
Einnig var óskað eftir því í matsbeiðni, að metinn væri sanngjarn tími við framangreinda verkþætti. Er niðurstaða matsmannsins svofelld:
Hús nr. 2 Hús nr. 11 Samtals___
1. 4 dagar 3 dagar 7 dagar
2. 5 dagar 5 dagar
3. 6 dagar 6 dagar
4. 9,5 dagar 9,5 dagar
5. 3 dagar 1 dagur 4 dagar
6. 11 dagar 3 dagar 14 dagar
7. 1 dagur 1 dagur
8. 2 dagar 1 dagur 3 dagar
9. 4 dagar 4 dagar
10. 0 dagar_
Heildarframlenging framkvæmdatíma 36 dagar 17,5 dagar 53,5 dagar
Matsmaðurinn segir síðan, að ljóst sé af verkáætlun verktaka, að hann geri ráð fyrir umtalsverðum samlegðaráhrifum við framkvæmdirnar, þ.e. að mannskapur og tæki nýtist í hvorum verkhluta um sig eftir aðstæðum hverju sinni og telur hann eðlilegt að taka tillit til slíkra samlegðaráhrifa við mat á framlengingartíma. Telur hann eðlilegt að stytta þann hluta ofantalinnar heildarframlengingar framkvæmdatíma, sem er umfram þrjá fyrstu liðina, um sem nemur u.þ.b. 20%, en þá lítur hann til þess, að þegar verkáætlun, sem hann hafði til hliðsjónar, var samþykkt, höfðu þrír fyrstu liðirnir verið endurskoðaðir og þannig samþykktir. Þá taldi hann ekki rétt að lækka þá liði, þar sem talið væri að slík áhrif hefðu verið þar innifalin. Er niðurstaða hans því sú, að heildarframlengingartími vegna Klettháls nr. 2 sé 32 dagar og Klettháls nr. 11 15 dagar, eða samtals 47 dagar.
Loks var matsmanni falið að meta lækkun dagsekta vegna þess að hluti verks hafði verið tekinn út og tekinn í notkun. Niðurstaða matsmannsins í þessum þætti er á þá leið, að sanngjarnt sé að fella alveg niður dagsektir vegna Klettháls nr. 11. Þá telur matsmaðurinn, að í ljósi aðstæðna sé eðlilegt að lengja framkvæmdatíma við Klettháls 2 um 32 daga. Hæfilegar dagsektir telur matsmaðurinn vera kr. 30.000 á dag.
Þegar matsgerð hins dómkvadda matsmann lá fyrir, reiknaði stefnandi að nýju dagsektir í samræmi við niðurstöðu matsins og ritaði lögmanni stefnda bréf, dags. 20. október sl., þar sem hann krafðist þess að eftirstöðvar yrðu greiddar innan 10 daga. Hinn 7. þ.m. barst lögmanni stefnanda bréf matsmanns ásamt nýrri matsgerð, þar sem gerð er grein fyrir lítillega breyttri niðurstöðu matsins vegna misskilnings matsmanns við samningu fyrri matsgerðar.
Stefndi mótmælir framlagðri matsgerð og niðurstöðu hennar. Lögmaður stefnda lét bóka sérstök mótmæli í þingbók héraðsdóms við dómkvaðninguna vegna B. liðar í matsbeiðni, þar sem matsmanni er falið að meta lækkun umsaminnar dagsektarfjárhæðar vegna meintrar hagnýtingar stefnda á hluta verksins með vísan til kafla 1.2, sérskilmála í útboðsgögnum, þar sem segi í breyttri grein ÍST:30 (gr. 24.5), að dagsektir séu óháðar því hvort eða hvernig verkkaupi hagnýti sér verkið.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi kveðst viðurkenna, að honum beri að greiða dagsektir til stefnda að ákveðnu marki. Við framsetningu dómkrafna í málinu hafi hann tekið tillit til dagsekta, er byggist á niðurstöðu dómkvadds matsmanns á dskj. nr. 53. Við álit um framlengingu vegna breytinga og aukaverka hafi eftirlit miðað afköst í greftri fyrir breikkun lóðar nr. 11 (matsliður 4) og í greftri ofan af háspennustreng (matsliður 3) við hámarksafköst á uppúrtekt plans. Einnig hafi eftirlit miðað afköst við fyllingu að háspennustreng (matsliður 2) og inn í sökkla (matsliður 6) við hámarksafköst á fyllingu í plan. Matsmaður hafi fallizt á sjónarmið stefnanda um, að eðlilegt sé að miða framkvæmdatíma viðbótarverka annars vegar í ljósi áætlaðra afkasta við framkvæmd verksins og hins vegar aðstæðna, þ.e. hvort ætla megi með sanngirni, að erfiðara hafi verið að vinna aukaverkin en aðra verkþætti. Vegna þessa hafi matsmaður metið, að framlenging verktíma skyldi vera verulega lengri en eftirlitsmaður hafði samþykkt, þ.e. fimm dagar vegna matsliðar 2, sex dagar vegna matsliðar 3, 9,5 dagar vegna matsliðar 4 og 14 dagar vegna matsliðar 4. Matsmaður hafi verið sammála mati stefnanda um, að honum bæri sjö daga framlenging vegna vatnselgs (matsliður 1) og eins dags framlenging vegna leitar að vatnslögnum, er ekki hafi reynzt til staðar (matsliður 7). Um matslið 5, uppúrtekt og fyllingu í púða undir hús ásamt greftri fyrir undirstöðum, hafi matsmaður talið, að stefnanda bæri fjögurra daga framlenging verktíma. Um matslið 8, gröft fyrir lögnum í grunn og drenlögnum meðfram húsum, hafi matsmaður talið, að stefnanda bæri þriggja daga framlengdur verktími, og um matslið 9, fleygun í 2 norður og rippun í 2 suður, fjögurra daga framlenging.
Matsmaður hafi verið sammála því sjónarmiði stefnanda, að meta þyrfti rétt hans til framlengingar vegna hvorrar lóðar um sig. Matsmaður hafi talið, að í upphaflegri verkáætlun stefnanda hefði verið gert ráð fyrir umtalsverðum samlegðaráhrifum við framkvæmdirnar og hafi því stytt þann hluta framlengingartímans, sem ekki hafði þegar verið samþykktur í breyttri verkáætlun, um 20%. Hafi niðurstaða matsmanns verið sú, að heildarframlengingartími vegna Klettháls 2 væri 32 dagar og vegna Klettháls 11 15 dagar.
Síðari hluti matsins hafi lotið að þeirri staðreynd, að sá hluti verksins, er fólst í vinnu við húsgrunnana, hafi verið tekinn út og tekinn í notkun innan skilafrests. Hafi þess verið óskað, að matsmaður legði mat á það, hversu mikið skyldi lækka dagsektir vegna þessa. Varðandi Klettháls 11 komist matsmaður að þeirri niðurstöðu, að stefndi hafi mátt nýta húsgrunn að mestu eða öllu leyti í samræmi við verkgögn, og að byggingarframkvæmdir við húsið hafi getað hafizt um 20. apríl. Telji matsmaður því sanngjarnt að fella alveg niður dagsektir vegna Klettháls 11. Varðandi Klettháls 2 komist matsmaður að þeirri niðurstöðu, að í lok 32 daga tímabils, sem sé lenging á framkvæmdatíma þessa verkhluta, hafi stefndi getað hafið byggingarframkvæmdir á lóðinni. Sé því sanngjarnt að lækka dagsektir varðandi þennan verkhluta úr kr. 50.000 í kr. 30.000 fyrir hvern dag.
Þar sem stefndi hafi hvorki svarað bréfi í desember 2004 né í október 2005, þyki ástæðulaust að draga frekar að hefja málssókn til heimtu ógreiddra reikninga.
Að svo stöddu byggi stefnandi uppgjör við stefnda á niðurstöðu matsgerðar um fjölda daga til framlengingar verktíma.
Varðandi dagsektir fyrir Klettháls 2 telji stefnandi, að verki hafi verið skilað 2. september 2004 en ekki 20. september, eins og stefndi hafi haldið fram í gögnum, er lögmanni stefnanda hafi borizt í október 2004. Í fundargerð 16. verkfundar 16. ágúst (dskj. 40) sé bókað, að búið sé að setja burðarlagsefni í lóðina og þjappa það. Verkið hafi því verið tilbúið til þjöppuprófs þennan dag og myndunar í framhaldi af því. Stefndi beri ábyrgð á því að hafa dregið þjöppupróf til 30. ágúst, eða í tvær vikur. Lagfæringu lagna hefði að mestu verið lokið 27. ágúst, hefðu þjöppupróf og myndun farið fram strax 16. ágúst. Af þessum sökum mótmæli stefnandi því, að afhendingardagur lóðar 2 sé 20. september og telji, að réttur til dagsekta sé ekki fyrir hendi lengur en fram til 27. ágúst, eða í lengsta lagi til 2. september, sé gert ráð fyrir jafnmörgum dögum til þjöppuprófs, myndunar og lagfæringar lagna og reyndin hafi verið. Nánar tiltekið dragi stefnandi frá verktíma 14 daga, er samsvari þeim tveimur vikum, er stefndi hafi dregið að láta þjöppuprófa planið.
Varðandi Klettháls 11 byggi stefnandi á niðurstöðu matsmanns um, að ekki beri að reikna dagsektir vegna þessa verkhluta, þar sem verkið hafi nýtzt stefnda frá umsömdum skilum, og húsgrunnurinn að fullu. Varðandi Klettháls 2 byggi stefnandi á því, að dagsektir vegna þessa verkhluta beri að lækka, þar sem hluti verksins, þ.e. húsgrunnarnir, hafi að fullu nýtzt stefnda frá því fyrir umsamin skil. Verðmæti grunnanna hafi verið meginhluti þess verðmætis, er hafi falizt í verkinu, að teknu tilliti til aukaverkanna. Stefndi hafi ekki fengið samþykkta séruppdrætti af húsunum fyrr en í maí 2004, en byggingarframkvæmdir hafi verið í eðlilegum gangi samhliða vinnunni við planið. Stefndi hafi ekki látið malbika plan lóðanna fyrr en seint um haustið. Um dagsektir fyrir síðasta hluta verktímans sé byggt á því, að stefndi hafi ekki haft heimild til að reikna sér dagsektir fyrir tíma, sem af hans völdum hafi ekki nýtzt í þágu verksins. Beri því, með vísun til greinar 24.5.2. í IST 30:2003 að fella niður dagsektirnar vegna Klettháls 11 og lækka þær vegna Klettháls 2.
Yfirlit vegna dagsekta hljóði því þannig:
Klettháls 2 dags. fjöldi daga
Skiladagur skv. verkáætlun 15. maí
Verki við plan skilað 2. september
mismunur dagafjöldi 107
framlenging dagafjöldi (32)
seinkun dagafjöldi 75
dagsektarupphæð 30.000
fjárhæð dagsekta kr. 2.250.000
Stefnufjárhæðin sé fundin þannig:
Höfuðstóll reiknings nr. 14 pr. 26. júlí 2004 kr. 4.326.387
dráttarvextir til 13. ágúst 2004 kr. 35.752
innborgun 13. ágúst 2004 kr. (2.000.000)
kr. 2.362.139
Krafa um greiðslu reiknings sé byggð á reglu samningaréttar um, að samninga skuli halda. Sjónarmið stefnanda um framlengingu verktíma séu byggð á óskráðum reglum verktakaréttar og ákvæðum ÍST 30:2003, m.a. grein 16.5, og varðandi lækkun dagsekta grein 24.5.2. Krafa um dráttarvexti sé byggð á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og krafa um málskostnað sé byggð á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Það athugist, að stefnandi fjallar eingöngu um fyrri kröfulið í stefnu undir yfirskriftinni, hvernig stefnufjárhæð sé fundin.
Málsástæður stefnda
Málsástæður stefnda er að finna í greinargerð hans bæði í kafla, sem fjallar um málsatvik, auk þess sem fram kemur í sérstökum kafla, sem fjallar um málsástæður. Eru málsástæður stefnda þessar:
Matsgerð er mótmælt, m.a. þar sem matsmaður virðist ekki leggja sjálfstætt mat á framlengingu verktíma, heldur virðist hann einungis taka afstöðu til krafna stefnanda á sanngirnisforsendum. Þá sé ekkert tekið á því í matinu, hvernig stefnandi hafi unnið verkið með hliðsjón af mannafla og tækjum og fleiru, sem áhrif hafi á framvindu verksins.
Dráttur á skilum á verkinu sé að verulegu leyti vegna atriða, sem stefnanda verði einum um kennt. Í fundargerðum 14. og 15. verkfunda lýsi stefnandi því yfir, að hann sé kominn í önnur óskyld verk, og hann haldi ekki úti vinnu í verkinu vegna þess að hann fái ekki afgreidda olíu eða efni úr námum vegna skulda. Verkið hafi verið undirmannað, og stefnandi hafi ekki sinnt því á þann hátt, sem hefði komið honum í þá framvindu, sem nægjanleg hefði verið til að skila verkinu á réttum tíma. Hann einn verði að bera hallann af þessu verklagi sínu.
Stefnandi hafi ekki haft uppi kröfur eða áskilnað um framlengingu verksins, þegar tilefni hafi verið til þess í ljósi krafna hans nú. Í grein 24.3 í ÍST:30 sé lögð sú skylda á verktaka, að ef hann telji sig eiga rétt á framlengingu verktíma, skuli hann tafarlaust senda verkkaupa rökstudda tilkynningu um það. Þetta hafi stefnandi ekki gert og verði að bera hallann af því. Það sé meginregla í verktakarétti, að verkkaupa sé tafarlaust gerð grein fyrir áskilnaði um aukagreiðslur og/eða breytingu verktíma til þess að hann geti tekið afstöðu til svo veigamikilla atriða og gert viðeigandi ráðstafanir í verkinu, sem þjóni bezt hans hagsmunum. Þessi réttur hafi verið af honum tekinn með aðgerðarleysi stefnanda.
Eftir að stefnandi hafði lagt fram kröfur um framlengingu verktíma á 10. verkfundi þann 18. maí 2004, hafi stefndi tekið þær kröfur til sanngjarnar skoðunar og veitt stefnanda framlengingu, eins og fram komi á 13. verkfundi 18. júní 2004. Verktíminn í báðum áföngum hafi þá verið framlengdur, þannig að skilatími á lóð nr. 11 hafi verið framlengdur um 10 daga frá 15. apríl og skiladegi á lóð nr. 2 um 15 daga frá 1. maí. Við þetta miðist síðan útreikningur stefnda á dagsektum í uppgjöri verksins. Stefndi hafi talið, og telji enn, að þetta hafi hann gert af mestu sanngirni, og framlengingin hafi verið rífleg, og þetta hafi verið gert umfram skyldu hans samkvæmt samningi.
Stefndi geri verulegar athugasemdir við kröfuliði stefnanda, sem byggðir séu á niðurstöðu einstakra matsliða í matsgerð. Þessum kröfum hafni stefndi og telji að byggja eigi á rökstuddri niðurstöðu hans, sem fram sé sett í fylgiskjali með verkfundargerð 13. verkfundar á dskj. nr. 37 í málinu, en þar sé tekin afstaða til 7 fyrstu kröfuliða stefnanda. Í mati stefnda sé einkum stuðzt við dagskýrslur, dskj. nr. 20, þar sem glöggt megi sjá framvindu og tálmanir á framvindu verksins.
Varðandi kröfuliði 8 til 10 geri stefndi verulegar athugasemdir og hafni framlengingu verktíma vegna þeirra kröfuliða. Um 8. liðinn sé það að segja, að hér sé um sérstakt verk að ræða, sem samið hafi verið sérstaklega um og fyrir það greitt í tímavinnu. Þegar samið hafi verið um þetta verk, hafi hvorki verið gerð krafa né áskilnaður um breyttan skilatíma í útboðsverkinu um lóðarframkvæmdir. Stefnandi hafi sótzt eftir þessu verki og það hafi verið með öllu óháð skilum á útboðsverkinu. Í 9. kröfulið sé krafizt framlengingar vegna fleygunar og rippunar. Í verkfundargerð 5. verkfundar, dskj. nr. 28, sé um þetta fjallað undir liðnum „Annað.“ Þar komi fram, að stefnandi hafi ekki látið vita af því, að komið væri í torgræft efni, eins og honum hafi borið. Hann hafi þá verið búinn að vinna í 2 klst. við verkið. Hann hafi fallið frá kröfum sínum um greiðslu. Í dagskýrslum sé ekkert bókað um rippun í marga daga. Um 10. liðinn, sem sé matsliður, en ekki lengur kröfuliður stefnanda, sé það að segja, að í dagskýrslum sé bókuð vinna allan daginn við uppúrtekt með allan mannskapinn.
Stefndi byggi á því, að verktíminn hafi ekki verið þröngur, og að aukning í verkinu hafi verið óveruleg, eða innan við 10%, sem ekki sé óvanalegt. Það séu því engin rök fyrir frekari framlengingu en þegar sé búið að veita stefnanda.
Stefndi kveðst hafa gætt þess á verktímanum að gera stefnanda grein fyrir því, að hann yrði beittur tafabótum samkvæmt samningi.
Í kafla um málsástæður styður stefndi sýknukröfu sína þeim röksemdum, sem fram hafi verið settar í málavaxtalýsingu um kröfur stefnanda og jafnframt kveðst hann byggja á þeim rökum, að uppgjör hafi þegar farið fram á verksamningi aðila, og stefndi hafi greitt stefnanda að fullu það, sem honum hafi borið samkvæmt þeim samningi. Kröfur stefnanda, sem nú séu fram komnar við meðferð þessa máls, séu vanreifaðar og órökstuddar. Þessum kröfum beri þess vegna að hafna, eða vísa frá dómi.
Stefndi mótmæli kröfugerð stefnanda, bæði hvað varði fjárhæðir krafna og vaxtakröfu. Sérstaklega sé mótmælt kröfugerð stefnanda um dráttarvexti, sem reiknaðir séu inn í stefnufjárhæð málsins. Upphafsdagur vaxta sé reiknaður frá dagsetningu reiknings, sem stefnanda sé óheimilt að gera samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Upphafsdagur vaxta geti ekki orðið fyrr en að liðnum 30 dögum eftir útgáfu reiknings.
Um lagarök vísi stefndi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vísað sé til meginreglna kröfu- og samningaréttar um skyldu til að efna samninga og til greiðslu fjárskuldbindinga, en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum nr. 7/1936. Varðandi málsástæður um dráttarvexti sé vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur. Málskostnaðarkröfu sína styðji stefndi við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í þinghaldi þann 28. apríl 2006 lagði stefndi fram bókun, þar sem gerð er krafa um, komist dómurinn að þeirri niðurstöðu, að lækka beri dagsektir að kröfu stefnanda, og til frádráttar komi með skuldajöfnuði gagnkrafa stefnda, að fjárhæð kr. 591.165, sem ofgreitt sé í verkinu, sbr. dskj. nr. 43.
Af hálfu stefnanda var þessari kröfu mótmælt sem of seint fram kominni.
IV
Forsendur og niðurstaða
Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri stefnanda, stefndi, Birgir Reynisson, matsmaðurinn, Pálmi Ragnar Pálmason verkfræðingur, Þorgeir Guðmundsson verkfræðingur og Guðjón Torfi Guðmundsson verkfræðingur.
Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu í stefnu greiddi stefndi ekki reikning stefnanda, sem lagður er fram á dskj. nr. 17, að fjárhæð kr. 4.326.387, útg. 26. júlí 2004, á réttum tíma, en greiddi inn á hann kr. 2.000.000 hinn 13. ágúst það ár. Þá hefur stefndi ekki greitt reikning stefnanda á dskj. nr. 18, að fjárhæð kr. 5.802.448, útg. 19. september 2004.
Í stefnu er gerð grein fyrir því, hvernig fjárhæð fyrri kröfuliðar í stefnu er fundin, en að öðru leyti er ekkert fjallað um reikningsfjárhæðirnar.
Við aðalmeðferð málsins var bókað eftir lögmönnum aðila, að ekki sé ágreiningur um fjárhæðir reikninganna, ef frá eru taldir dráttarvextir að fjárhæð kr. 35.752, sem reiknaðir eru á kröfulið 1 í stefnu fram til 13. ágúst 2004.
Lýtur ágreiningur aðila, að vöxtunum frátöldum, eingöngu að gagnkröfum stefnda vegna tafabóta, en stefnandi hefur viðurkennt að skulda stefnda dagsektir að fjárhæð kr. 2.250.000, sem skuldajafnist við fyrri kröfulið í stefnu miðað við 20. október 2004, og hefur hann tekið tillit til þess í kröfugerð sinni. Byggir stefnandi útreikning sinn á dagsektum á því, að verkið hafi tafizt vegna atvika, sem stefnandi ber ábyrgð á, í alls 47 daga samkvæmt niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns.
Af hálfu stefnda hefur matsgerðinni verið mótmælt og telur stefndi sig eiga gagnkröfu á hendur stefnanda vegna dagsekta að fjárhæð kr. 8.600.000.
Krafa stefnda, sem fram kom í þinghaldi 28. apríl sl. til skuldajafnaðar kröfu stefnanda, er of seint fram komin gegn andmælum stefnanda, og kemur ekki til álita í máli þessu.
Matsgerð þeirri, sem liggur fyrir dóminum á dskj. nr. 53, hefur ekki verið hnekkt með yfirmati, en stefndi hefur mótmælt henni sem lítt rökstuddri.
Það er álit dómsins, að fallast megi á niðurstöður matsmannsins að því undanskildu, að dómurinn, sem skipaður er sérfróðum meðdómendum, telur, að verkliður, sem um er fjallað undir lið 6 í matsgerð: „Fylling inn í sökkla húsa og að sökklum, söndun undir plötu,“ sé vel skilgreindur og vel til þess fallinn að vera unninn af viðbótarmannskap með eigin tæki, og verður ekki séð, að slík tilhögun hefði truflað aðrar framkvæmdir nema að litlu leyti, og því kjörin til að minnka verktöf. Telur dómurinn, að tafir vegna þessa hefðu ekki átt að vera nema 3 dagar fyrir hús nr. 2 og 1 dagur fyrir hús nr. 11. Þannig hefði framlenging á verktíma átt að vera 26 dagar fyrir Klettháls 2 og 13,2 dagar fyrir Kletthás 11, eða samtals 39,2 dagar.
Samkvæmt verksamningi átti framkvæmdum á lóð nr. 2 að vera lokið hinn 1. maí 2004. Með hliðsjón af gögnum málsins, m.a. fundargerðum og teikningum, teljast verklok hafa verið 2. september 2004, enda þótt minni háttar lagfæringar hafi verið gerðar á verkinu síðar í sama mánuði. Milli þessara tveggja dagsetninga eru 124 dagar. Dagsektir ættu eftir þessu að verða alls 124 26 = 98 dagar.
Stefnandi telur fjárhæð dagsekta of háa og byggir á því, að miðað verði við kr. 30.000 á dag.
Í útboðs- og verkskilmálum á dskj. nr. 3 segir svo í gr. 1.2.1:
Um verk þetta gilda Almennir útboðs- og samningsskilmálar um verkframkvæmdir ÍST 30, 5. útgáfa frá 15. júlí 2003, með þeim viðaukum og/eða breytingum, sem taldar eru hér á eftir:
Með vísan til gr. 24 í staðlinum, sem er í kafla 24, um fresti tafabætur (dagsektir) er síðan svofelld umfjöllun:
Ljúki verktaki ekki verkinu á tilskildum tíma, skal hann greiða verkkaupa tafabætur. Upphæð tafabóta fyrir hvorn verkáfanga skal vera kr. 50.000.- fyrir hvern almanaksdag, sem verklok þess dragast fram yfir tilskilinn skiladag, óháð því hvort og hvernig verkkaupi hagnýtir sér verkið.
Grein 24.5 í staðlinum inniheldur fjórar undirgreinar, þ.e. gr. 24.5.1 til og með gr. 24.5.4, þar sem eru ítarlegri ákvæði um tafabætur. Lögmaður stefnda heldur því fram, að þessar fjórar undirgreinar hafi verið felldar brott með ofangreindri umfjöllun um gr. 24.5. Ekki verður fallizt á þá túlkun lögmannsins, að tilvitnuð umfjöllun feli sjálfkrafa í sér brottfall eða ógildingu undirgreina kaflans.
Í gr. 24.5.2 í staðlinum ÍST 30 segir svo:
Ef ekki hefur verið samið sérstaklega um áfangaskil, og hluti verksins er tekinn út sérstaklega og tekinn í notkun, skal endurskoða ákvæði um tafabætur.
Hluti verksins að Kletthálsi 2 og 11, sem hér er til skoðunar, felst í því að ganga frá jarðvinnu fyrir byggingu fjögurra söluskála. Er þetta þýðingarmikill hluti verksins, enda mega söluskálarnir teljast forsenda fyrir fullnægjandi nýtingu lóðanna. Það liggur fyrir, að þessi áfangi, þ.e. jarðvinna fyrir byggingu söluskálanna, var tilbúinn í tæka tíð fyrir byggingarframkvæmdirnar. Af þeim sökum þykir rétt að lækka upphæð dagsekta vegna annarra lóðaframkvæmda úr kr. 50.000 í kr. 30.000, sbr. B- liður í matsgerð.
Dómurinn telur einnig, að fallast megi á rök hins dómkvadda matsmanns varðandi niðurfellingu dagsekta vegna Klettháls 11, en þar segir svo:
Verkkaupi ákvað skv. fylgiskjali 34, 12. verkfundur, 9. júní 2004, að taka við lóð 11 eins og hún var þá og láta þann aðila, sem ynni planið undirmalbik, ljúka frágangi burðarlagsfyllingar.
Af ofanrituðu má ljóst vera, að verktaki skilaði planinu ekki fullfrágengnu skv. ákvæðum greinar 2.2.7 Fyllingar í fylgiskjali 1. Á hinn bóginn er óljóst, hvað á vantaði, en líkur benda til þess, að það hafi ekki verið mikið, sbr. aðra málsgrein um Klettháls hér fyrir ofan. (Matsmaður vísar hér til svohlj. texta: Skv. fylgiskjali 29, 7. verkfundur, 20. apríl 2004, var lokið að grafa fyrir öllum húsum og fylla undir hús nr. 11. Jafnframt kemur fram í fundargerðinni, að þá hafi lagnavinnu á lóð nr. 11 verið að ljúka. Í fylgiskjali 32, 10. verkfundur, 18. maí 2004, stendur m.a.: Klettháls 11: Lagnavinnu lokið, nema að stilla þarf brunnkeilu betur í hæð. Um 80-90% af burðarlagsfyllingu er komin og búið er að þjappa hana. Verið er að þolla planið. Verktaki áætlar að skila planinu næstkomandi mánudag).
Að teknu tilliti til þess, sem rakið er hér að ofan, álítur matsmaður sanngjarnt, þótt ekki sé í fylgiskjali 1, Útboðs- og verkskilmálar, gert ráð fyrir, að hluti verksins verði afhentur á undan heildarverkinu, að miða dagsektir við að verkkaupi hafi mátt nýta hvort tveggja, grunn og lóð Klettháls 11, líkt og hann hugðist gera við verklok, eigi síðar en frá 15. júní 2004 að telja og reyndar húsgrunn að mestu eða öllu leyti í samræmi við verkgögn. Þannig ber, að áliti matsmanns, að taka tillit til þess við ákvörðun dagsekta, að byggingarframkvæmdir við húsið að Kletthálsi 11 hófust, eða gátu hafizt um 20. apríl, sjá fylgiskjal 29, 7. verkfundur, Verkstaða og áætlun.
Matsmaður telur, að öllu þessu athuguðu, sanngjarnt að fella alveg niður dagsektir vegna Klettháls 11.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að stefnandi skuli greiða dagsektir að fjárhæð kr 30.000 á dag í samtals 98 daga, samtals kr. 2.940.000.
Svo sem áður greinir er ágreiningur með aðilum um vexti, sem innifaldir eru í höfuðstól stefnukröfu, kr. 35.752. Stefnandi greinir ekki frá því í stefnu, frá hvaða tíma vextirnir eru reiknaðir, en dóminum telst svo til, að vextirnir séu reiknaðir frá dagsetningu reikningsins. Á það fellst dómurinn ekki og telur, með vísan til 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga, að krafan beri ekki dráttarvexti fyrr en mánuði eftir gjalddaga reikningsins. Þar sem innborgun fór fram 13. ágúst eða innan þess tíma, er ekki fallizt á þennan kröfulið. Þá reiknast dráttarvextir af reikningi samkvæmt síðari kröfulið í stefnu frá 19. október 2004.
Samkvæmt framansögðu ber stefnda að greiða stefnanda kr. 5.188.835 með dráttarvöxtum af kr. 2.326.387 frá 26. ágúst 2004 til 19. október s.á., en af kr. 8.128.835 frá þeim degi til 20. október s.á., en af kr. 5.188.835 frá þeim degi til greiðsludags.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 1.250.000, og hefur þá verið litið til útlagðs kostnaðar vegna matsgerðar og þingfestingar, en ekki þykir unnt að líta til annars útlagðs kostnaðar, sem stefnandi gerir kröfu til í málskostnaðarreikningi, þar sem sá kostnaður er ekki studdur gögnum.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt Ragnari Ingimarssyni verkfræðingi og Jónasi Frímannssyni verkfræðingi.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Birgir Reynisson, greiði stefnanda, Jarðfagi ehf., kr. 5.188.835 með dráttarvöxtum af kr. 4.326.387 frá 1. ágúst 2004 til 13. sama mánaðar, en af kr. 2.326.387 frá þeim degi til 1. október s.á., en af kr. 8.128.835 frá þeim degi til 20. október s.á., en af kr. 5.188.835 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 1.250.000 í málskostað.