Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-360
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Almannatryggingar
- Stjórnarskrá
- Reglugerð
- Sveitarfélög
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 13. desember 2019 leitar sveitarfélagið Garðabær leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 22. nóvember sama ár í málinu nr. 899/2018: Garðabær gegn íslenska ríkinu. Íslenska ríkið leggst ekki gegn beiðninni.
Málið höfðaði leyfisbeiðandi og gerði fjárkröfu á hendur gagnaðila sem nam uppsöfnuðu tapi af rekstri hjúkrunarheimilisins Ísafoldar á árunum 2013 til 2015 þar sem daggjöld frá gagnaðila hefðu ekki dugað fyrir rekstrarkostnaði heimilisins. Leyfisbeiðandi og gagnaðili höfðu gert með sér samning 14. maí 2010 um byggingu og þátttöku í leigu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða í Garðabæ. Þar kom fram að málsaðilar myndu gera samning um rekstur hjúkrunarheimilisins en slíkur samningur var aldrei gerður. Gagnaðili var sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda í héraði og Landsrétti. Landsréttur taldi að fyrrgreindur samningur yrði ekki túlkaður með þeim hætti að gagnaðili hefði með honum skuldbundið sig til að greiða rekstrarkostnað hjúkrunarheimilisins. Vísaði Landsréttur til þess að ekki yrði ráðið af lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar og nr. 112/2008 um sjúkratryggingar svo og reglugerðum settum á grundvelli þeirra laga að gagnaðili hefði skuldbundið sig til þess að tryggja rekstraraðilum hjúkrunarheimila algert skaðleysi af þeim rekstri. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að gagnaðili hefði uppfyllt skyldur sínar lögum samkvæmt gagnvart hjúkrunarheimilinu Ísafold með því að tryggja því fjárveitingar á fjárlögum fyrir árin 2013 til 2015 og leggja hjúkrunarheimilinu til daggjöld í samræmi við reglugerðir og gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands.
Leyfisbeiðandi vísar einkum til þess að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem ágreiningur aðila lúti að skyldu gagnaðila til að standa straum að kostnaði við að reka starfsemi sem honum er skylt að sinna lögum samkvæmt. Leyfisbeiðandi byggir á því að gagnaðila sé skylt að standa straum af kostnaði við rekstur hjúkrunarheimilisins, sem var umfram greidd daggjöld. Annars vegar vegna þess að ákvörðun um fjárhæð daggjalda hafi ekki verið tekin á málefnalegan hátt þar sem hún byggðist á reiknilíkani þar sem tiltekinni áætlaðri heildarfjárveitingu var jafnað niður en ekki á raunverulegri fjárþörf, og hins vegar vegna þess að það hafi verið forsenda leyfisbeiðanda við samningsgerðina að gagnaðili myndi á hverjum tíma greiða raunverulegan rekstrarkostnað. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að gagnaðila sé jafnframt skylt að greiða þennan rekstrarkostnað samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 og vegna forræðis hans yfir málaflokknum. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að í málinu reyni á gildissvið 2. gr., 41. gr. og 42. gr. stjórnarskrárinnar en Landsréttur hafi ekki fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að sýkna gagnaðila þegar af þeirri ástæðu að það væri ekki á valdi dómstóla að skera úr ágreiningnum.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Er umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.