Hæstiréttur íslands
Mál nr. 170/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
|
|
Fimmtudaginn 25. mars 2010. |
|
Nr. 170/2010. |
John Snorri Sigurjónsson (Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.) gegn Gólfefnavali ehf. (enginn) |
Kærumál. Fjárnám.
J kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um ógildingu fjárnámsgerðar sýslumannsins í Reykjavík. Talið var að fjárnámsgerðin hafi ekki farið í bága við ákvæði laga nr. 90/1989. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um ógildingu fjárnámsgerðar sýslumannsins í Reykjavík 3. nóvember 2009, nr. 011-2009-13834. Kæruheimild er í 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaður í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Í endurriti úr gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík vegna aðfarargerðar þeirrar, sem krafist er ógildingar á, kemur fram að skilyrðum 24. gr. laga nr. 90/1989 sé fullnægt til að gerðin fari fram. Skilja verður þessa bókun sýslumanns svo að fullreynt hafi þótt að ekki tækist að ná til gerðarþola. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2010.
Mál þetta barst dóminum 18. nóvember 2009 með erindi sóknaraðila dags. 17. nóvember 2009. Málið var þingfest 12. febrúar 2010 og tekið til úrskurðar þann sama dag.
Sóknaraðili er John Snorri Sigurjónsson, Markholti 17, Mosfellsbæ. Hann krefst þess að fjárnámsgerð sýslumannsins í Reykjavík, nr. 011-2009-13834, sem fram fór hjá sóknaraðila 3. nóvember 2009, að kröfu varnaraðila, verði ógilt með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur og jafnframt er krafist að lagt verði fyrir sýslumann að afmá fjárnámið úr veðbandabókum embættisins.
Varnaraðili er Gólfefnaval ehf., Vatnagörðum 14, Reykjavík. Mætt var af hálfu varnaraðila við þingfestingu málsins og bókað eftir lögmanni hans að eftir því sem best væri vitað væri fjárnámsandlagið ekki lengur til þar sem það hefði verið rifið niður í varahluti, varnaraðili hefði því ekki hagsmuni af málinu og myndi ekki láta það til sín taka.
I.
Málavextir eru þeir eftir því sem fram kemur í erindi sóknaraðila og gögnum málsins að þann 23. september 2009 var beiðni varnaraðila máls þessa um fjárnám hjá sóknaraðila móttekin hjá sýslumanninum í Reykjavík, boðunarbréf hans vegna fjárnáms afhent stefnuvotti til birtingar, en birting mun ekki hafa tekist þar sem sóknaraðili var á þeim tíma staddur erlendis ásamt fjölskyldu sinni. Fjárnám hafi verið fyrirhugað 29. október, en ekki tekist að birta boðunarbréf tímanlega.
Í endurriti úr gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík kemur fram að 3. nóvember 2009 hafi aðfarargerð verið tekin fyrir á heimili sóknaraðila, engin hafi hist þar fyrir sem tekið gæti málstað hans og að fjárnám hafi verið gert í tveimur nánar tilgreindum mótorhjólum, enda hafi skilyrðum 24. gr. laga nr. 91/1989 verið fullnægt til að fara mætti þannig að.
II.
Sóknaraðili byggir á því að fjárnám það sem gert var á heimili hans 3. nóvember 2009 fái ekki staðist þar sem skilyrðum 21. gr. laga um aðför nr. 90/1989 hafi ekki verið fullnægt til að ljúka mætti fjárnámi á grundvelli 24. gr. laganna.
III.
Það liggur fyrir í máli þessu að reynt var að birta tilkynningu um fjárnám fyrir sóknaraðila, eins og áskilið er í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989. 3. mgr. 24. gr. laganna heimilar að fjárnámi verði lokið á heimili gerðarþola í samræmi við kröfur gerðarbeiðanda, enda sé unnt að ljúka því án nærveri gerðarþola eða einhvers sem tekið gæti málstað hans, fyrst og fremst skiptir þar máli að gerðarþoli eigi eignir sem skráðar eru opinberri skráningu eða aðrar eignir sem gerðarbeiðandi getur vísað á til fjárnáms. Ekki verður séð að umrædd fjárnámsgerð fari í bága við ákvæði laga nr. 90/1989 og verður því að hafna kröfum sóknaraðila í málinu.
Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfum sóknaraðila í málinu.