Hæstiréttur íslands
Mál nr. 375/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. maí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. maí 2016 klukkan 16 og einangrun á meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], kærða, til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. maí nk. kl. 16. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð kemur fram að klukkan 08:30 í morgun hafi lögreglu borist tilkynning um hávaða sem kæmi frá íbúð að [...] hér í borg. Í tilkynningunni hafi komið fram að kona hafi verið að öskra á hjálp. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi hún heyrt kvenmannsgrátur berast frá íbúð kærða.
Lögregla hafi knúið dyra og hafi kærði svarað á nærbuxum einum fata. Hann hafi boðið lögreglu inn fyrir og hafi þeir áfram heyrt kvensmannsgrátur og hafi þar fundið brotaþola sitjandi í hjónarúmi sýnilega í miklu uppnámi, grátandi og sagði hún kærða hafa nauðgað sér. Hún hafi lýst því fyrir lögreglumönnum hvernig kærði hafi haldið henni niðri, haldið fyrir munn hennar og háls, slegið í andlit og nauðgað. Brotaþoli sagðist hafa hrópað á hjálp. Á vettvangi hafi mátt sjá blóðbletti á koddaveri og rúmlaki.
Lögregla hafi rætt við tilkynnanda og annað vitni í málinu sem hafi heyrt brotaþola kalla á hjálp og að hún hafi ekki viljað stunda kynlíf og hafi í kjölfarið hringt á lögreglu.
Brotaþoli hafi lýst aðdraganda nauðgunarinnar hjá lögreglu þannig að kærði, sem hún þekki ekki neitt, hafi elt hana á milli skemmtistaða og áreitt hana, m.a. með því að slá í rass hennar og toga í hárið á henni. Í eitt skipti hafi hann lyft upp pilsinu hennar á meðan hún hafi verið á dansgólfi eins skemmtistaðar og í kjölfarið, í afsökunarskyni, boðið henni drykk sem hún hafi þegið. Hann hafi haldið áfram að elta hana og eftir að út af staðnum hafi verið komið hafi hann boðist til að borga fyrir hana leigubíl heim. Brotaþoli sagðist hafa ítrekað reynt að útskýra fyrir honum að hún hafi ekki viljað sofa hjá kærða heldur viljað fara heim til sín en kærði hafi látið leigubifreiðina aka með þau heim til kærða.
Er heim til kærða hafi verið komið segir brotaþoli kærða hafa þvingað sig úr nærbuxunum og sokkaböndum, og þröngvað getnaðarlim sínum inn í leggöng hennar og einnig ítrekað reynt að stinga honum upp í munn hennar en án árangurs. Kærði hafi jafnframt ítrekað slegið sig í andlitið og líkama sem og hótað henni lífláti þá hafi hann einnig tekið af henni farsíma er hún hafi reynt að hringja í 112.
Brotaþoli hafi verið fluttur á slysadeild Landsspítala-Háskólasjúkrahúss í Fossvogi til aðhlynningar og skoðunar. Þar hafi hún gefið lækni samsvarandi lýsingu á atvikum líkt og að framan greinir. Þá komi fram í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun að brotaþoli hafi fundið mikið til víða um skrokkinn og mikið í andliti, hálsi og höfði. Einnig komi fram að brotaþoli sé ekki ölvaður og gefi skýra sögu en sé mikið niðri fyrir. Þá sé áverkum og öðrum verksummerkjum á brotaþola þar lýst. Í niðurstöðum læknis komi meðal annars fram að brotaþoli sé með áverka sem komi vel heim og saman við frásögn hennar.
Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um kynferðisbrot sem varðað geti allt að 16 ára fangelsi. Rannsókn máls þessa sé á frumstigi og sé ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en meðal annars þarf að taka ítarlegar skýrslur af kærða, brotaþola og vitnum, auk þess sem rannsaka þurfi vettvang, hafa upp á frekari vitnum og rannsaka önnur sönnunargögn ítarlega og eftir atvikum bera undir kærða. Hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna.
Ætlað brot teljist varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða
Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð lögreglu og rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað getur fangelsisvist. Rannsókn málsins er enn á frumstigi og eftir er að yfirheyra kærða frekar, brotaþola og vitni sem og rannsaka vettvang og önnur sönnunargögn. Í greinargerð lögreglu kemur fram að í niðurstöðum réttarfræðilegar skoðunar læknis að áverkar sem brotaþoli sé með komi vel heima og saman við frásögn brotaþola. Ætla má að kærði muni geta torveldað rannsókn málsins svo sem með því að reyna að hafa áhrif á framburð vitna. Telja verður að í kröfugerð lögreglu sé gætt meðalhófs. Með hliðsjón af framangreindu eru ekki efni til annars en að fallast á kröfu sóknaraðila enda rannsóknarhagsmunir í húfi og fullnægt öðrum skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með vísan til sömu raka er einnig fallist á kröfu um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Er því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 20. maí 2016 kl. 16:00. Þá skal hann sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.