Hæstiréttur íslands

Mál nr. 492/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 10

 

Miðvikudaginn 10. september 2008.

Nr. 492/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Oddgeir Einarsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X  skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. september 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 8. september 2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. september nk., kl. 16.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að ofbeldisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vinni nú að rannsókn á alvarlegri líkamsárás sem átti sér stað sunnudaginn 7. september síðastliðinn á [...] í Reykjavík.

Í frumskýrslu lögreglu komi fram að tilkynning hafi borist um að menn væru að reyna að brjóta sér inn í húsið að [...].   Þegar lögregla hafi komið á vettvang sáu þeir hvar kona kom út úr húsinu, í mikilli geðshræringu, en erfitt var að greina orðaskil hjá henni vegna ekka og gráts.

Þegar inn hafi verið komið í íbúðina í [...] á efri hæð hússins sáu lögreglumenn hvar maður lá í blóði sínu á rúmi í þeim hluta stofunnar sem nýtt er sem svefnaðstaða. Yfir manninum stóðu tveir aðilar, karl og kona, og virtust í uppnámi. Þá þegar hafi verið óskað eftir sjúkrabifreið en lögreglumenn hlúðu að brotaþola þar sem hann lá á gólfinu.

Í ljós hafi komið að brotaþolinn sem heiti Y, kt.[...], hafði verið stunginn í hægra læri um 10 cm fyrir ofan hné og blæddi honum mjög. Því sé lýst að sjúkraflutningamenn hafi klippt skálm af gallabuxum mannsins, þá búið um sárið  og flutt hann þá með sjúkrabifreið á Slysa- og bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.

Á vettvangi hafi verið þrír menn, tvær konur og einn karlmaður og sögðust þau öll hafa orðið vitni að árásinni. Sé um nöfn þeirra og persónuupplýsingar vísað til frumskýrslu málsins. Önnur konan hafi verið í miklu uppnámi en hin konan og karlmaðurinn hafi getað gefið lýsingu á árásarmanni og þeim sem með honum voru. Um hafi verið að ræða hóp fjögurra karlmanna. Um lýsingu á þeim sé vísað til frumskýrslu. Þar kemur fram að einn mannanna var sagður búa í bílskúrnum að [...], sá væri með glóðarauga og skrámur í andliti, 40-50 ára, 180-190cm og væri hann pólskur.  Sá er kærði X.

Kærði hafi verið handtekinn í gær. Í skýrslutöku hjá Lögreglu sagðist hann hafa hent pizzukassa fyrir utan hurðina þar sem hann býr að [...]. Skömmu síðar hafi þrír karlmenn komið inn til hans og barið hann. Framburður kærða Z þess efnis að hann hefði verið á vettvangi ásamt kærða X hafi borinn undir hann. Sagðist hann þá ekki þekkja  kærða Z. Vaki það athygli enda heldur kærði Z því fram að þeir séu vinir og að kærði Z hafi kynnst þriðja manninum sem hafi verið með þeim í för, í gegnum kærða X. Í sömu skýrslutöku var jafnframt borið undir hann að vitni bera um að hann hafi ásamt þremur mönnum komið út úr íbúð hans að [...] og veist að íbúum á efri hæð hússins. Þá svaraði hann því til að hann vissi það ekki, hann hefði misst meðvitund. Ekki mundi hann heldur hverjir hefðu heimsótt hann í gær. Að öðru leyti vildi hann ekkert láta hafa eftir sér.

Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði Z aftur á móti viðurkennt að hafa verið á staðnum en um tilefni þess segir hann að félagi hans kærði X hafi verið laminn af fólki sem búi á eftir hússins að [...]. Í bænum hafi hann hitt félaga sinn. Sá hafi sagt sér að X vinur þeirra hefði verið barinn. Félaginn hafi svo sagt við hann að þeir ættu að fara heim til X og komast að því hvað hafi gerst. Það hafi verið maður með í bifreiðinni og talaði sá þannig að hann hafi heyrt að hann væri ekki pólskur. 

Kærði X hafi svo komið út úr bílskúrnum sem hann býr í, en bílskúr þessi sé við [...] . Hann hafi séð að búið var að lemja X, hann hafi verið með sár á höfði, bólgin augu og allir bólginn á höfði. Þeir hafi þá spurt hvað hafi gerst, hver hafi lamið hann og af hvaða ástæðu. Kærði X hafi þá sagt að nágrannarnir fyrir ofan hafi lamið sig og að þeir hafi hringt á liðsauka sér til aðstoðar. X sagði nágrannana hafa verið búna að hafa í hótunum við hann og þeir hafi síðan komið og barið hann.

Þar sem þeir hafi verið að ræða málin hafi hann heyrt í fólki og þá séð tvo drengi við útidyrahurðina að íbúðinni fyrir ofan og tvær stelpur. Á eftir honum hafi komið tveir menn og svo kærði X. Hann hafi viljað ræða við þessa stráka með það fyrir augum að kanna hvers vegna þeir hefðu barið félaga hans kærða X. Átök hafi síðan orðið milli eins mannanna sem var með honum sjálfum í för, og hinna mannanna. Átökin hafi borist inn í íbúðina. Eftir skamma stund hafi tveir mananna sem hann var í félagi með hlaupið út úr íbúðinni út að Snorrabraut.  Hann hafi sjálfur gengið hratt á eftir mönnunum. Um árásina sagði hann að hún hefði gerst innandyra og að hann hefði ekki séð neinn beita hníf.

Fyrir liggi því að kærði Z hafi greint lögreglu frá því að hann hafi verið á vettvangi ásamt kærða X. Jafnframt hafi hann greint lögreglu frá ástæðum þess, en það sé vegna þess að kærði X hafi orðið fyrir líkamsárás fyrr sama dag af hálfu nágranna sinna. Forsaga þeirrar hnífsstungu sem nú sé til rannsóknar virðist því tengjast meintri líkamsárás sem kærði X varð fyrir.

Rannsókn þessa máls sé á algjöru frumstigi og atvik málsins óljós. Samkvæmt framburði kærða Z sem og vitnis á vettvangi var kærði í hópi fjögurra manna sem fóru að [...], en sú heimsókn endaði með því að maður var stunginn með hnífi. Lögreglu þykir af þessum sökum ástæða til að ætla að kærði  þekki mennina tvo sem ganga lausir. Brýnt sé að lögregla fái svigrúm til þess að sinna rannsókn málsins á næstu dögum og er ástæða til að ætla að gangi kærði laus kunni hann að torvelda rannsókn málsins, meðal annars með því að vera í sambandi við aðra sakborninga. Málið þykir alvarlegt og rannsókn málsins eins og áður segir á algjöru frumstigi. Þannig hefur enn ekki reynst unnt að ræða við brotaþola sjálfan og óljóst er um alvarleika áverka hans. Rannsakari kom strax á vettvang, en eftir sé að fá tæknigögn af vettvangi.

Ætlað brot sem nú sé til rannsóknar kann að varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til rannsóknar líkamsárás sem átti sér stað sunnudaginn 7. september sl. Á [...] í Reykjavík. Fram er komið að þar hafi maður nokkur verið stunginn með hníf í hægra læri og að honum hafi blætt mjög mikið. Lögregla hefur m.a. yfirheyrt Z vegna málsins og hefur hann borið að hafa verið á vettvangi ásamt kærða. Þá liggur fyrir að kærði er til heimilis að [...] í Reykjavík. Með vísan til þessa er kærði undir rökstuddum grun um aðild að broti sem getur varðað við 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Þá liggur fyrir að enn er leitað tveggja manna sem einnig voru á vettvangi. Í því ljósi eru skilyrði samkvæmt a lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. september nk., kl. 16.00.