Hæstiréttur íslands
Mál nr. 698/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Lögvarðir hagsmunir
- Kröfugerð
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 17. desember 2009. |
|
Nr. 698/2009. |
Norðlenska matborðið ehf. og Matfugl ehf. (Lárus L. Blöndal hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún M. Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
N ehf. og M ehf. höfðuðu mál gegn Í og kröfðust þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda Í vegna tjóns sem þeir hafi orðið fyrir vegna lækkunar Í á tollum af landbúnaðarvörum með breytingu á veftollskrá tollstjórans í Reykjavík 1. mars 2007, sem fól m.a. í sér að lækkaður var tollur af svínakjöti og alifuglum í samræmi við samkomulag Íslands og Evrópusambandsins. Talið var að á það skorti að í stefnu væru leiddar nægar líkur að því að sóknaraðilar hafi orðið fyrir tjóni og að gerð væri grein fyrir því í hverju það tjón hafi falist og hver tengsl þess væru við hina ætluðu skaðabótaskyldu háttsemi. Voru N ehf. og M ehf. ekki taldir hafa sýnt fram á að þeir hefðu lögvarða hagsmuni af því að leita viðurkenningardóms um skaðabótaskyldu Í, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Væri málið vanreifað að þessu leyti, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. sömu laga. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Til vara krefst hann þess að kærumálskostnaður verði felldur niður.
Sóknaraðilar gera í stefnu til héraðsdóms grein fyrir sjónarmiðum sínum, sem meðal annars lúta að því að þeir telja að tollalækkun sú, sem krafa þeirra er risin af, hafi verið óheimil og fari í bága við tilgreind ákvæði stjórnarskrárinnar. Þeir telja hana heldur ekki hafa haft lagastoð, auk þess sem ákvörðun um hana hafi ekki sætt birtingu samkvæmt íslenskum lögum. Þá er talið að ákvörðunin hafi ekki verið tekin af réttu stjórnvaldi. Þeir telja stefnda hafa sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með ákvörðuninni. Séu því skilyrði skaðabótaábyrgðar fyrir hendi. Fallist er á með héraðsdómi, að á það skorti að í stefnu séu leiddar nægar líkur að því að sóknaraðilar hafi orðið fyrir tjóni og að gerð sé grein fyrir því í hverju það tjón hafi falist og hver tengsl þess séu við hina ætluðu skaðabótaskyldu háttsemi. Hafa því sóknaraðilar ekki sýnt fram á að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að leita viðurkenningardóms um skaðabótaskyldu varnaraðila, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Er málið vanreifað að þessu leyti, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. sömu laga. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðilar greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Norðlenska matborðið ehf. og Matfugl ehf., greiði óskipt varnaraðila, íslenska ríkinu, kærumálskostnað 150.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2009.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 16. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Norðlenska matborðinu ehf., Grímseyjargötu, Akureyri og Matfugli ehf., Völuteigi 2, Mosfellsbæ, á hendur fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, með stefnu birtri 30. júní 2009.
Af hálfu stefnenda er þess krafist, að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna tjóns sem stefnendur urðu fyrir vegna lækkunar stefnda á tollum af landbúnaðarvörum með breytingu á veftollskrá Tollstjórans í Reykjavík hinn 1. mars 2007, sem fól meðal annars í sér að lækkaður var tollur af svínakjöti í tollflokki 0203 og alifuglum í tollflokki 0207, í samræmi við samkomulag Íslands og Evrópusambandsins sem auglýst var í stjórnartíðindum Evrópusambandsins hinn 28. febrúar 2007 og bar númerið L 61/29.
Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu eftir mati dómsins.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnenda in solidum að mati réttarins.
Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnenda og málskostnaðar úr hendi stefnenda in solidum að mati réttarins.
Til þrautavara er þess krafist að málskostnaður verði látinn niður falla.
Í þessum þætti málsins er aðalkrafa stefnda um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Verði málinu ekki vísað frá dómi krefst stefndi þess að málskostnaður falli niður. Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefndu og krefst þess að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms. Verði málinu vísað frá dómi krefst stefnandi þess að málskostnaður verði látinn falla niður og vísar til 3. mgr. 130. gr. eml.
Ágreiningsefni
Í málinu hafa stefnendur uppi þá dómkröfu að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna tjóns sem stefnendur urðu fyrir vegna lækkunar stefnda á tollum af landbúnaðarvörum með breytingu á veftollskrá Tollstjórans í Reykjavík hinn 1. mars 2007. Hún fól meðal annars í sér að lækkaður var tollur af svínakjöti í tollflokki 0203 og alifuglum í tollflokki 0207, í samræmi við samkomulag Íslands og Evrópusambandsins sem auglýst var í stjórnartíðindum Evrópusambandsins hinn 28. febrúar 2007 og bar númerið L 61/29.
Stefnendur halda því fram að tollalækkunina hafi brostið lagastoð þar sem hún hafi hvorki verið ákveðin með settum lögum með breytingu á tollskrá svo sem áskilið sé samkvæmt 40. og 77. gr. stjórnarskrár né hafi sú breyting er gerð var á veftollskrá verið birt með lögformlegum hætti í samræmi við ákvæði laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Stefnendur byggja á því að ákvörðun stefnda um tollalækkun með framangreindum hætti hafi verið saknæm og ólögmæt og hafi valdið stefnendum tjóni. Lækkun tolla sem í eðli sínu séu verndartollar dragi ótvírætt úr sölu og framleiðni landbúnaðarvara stefnenda og einnig hafi framangreindar breytingar knúið stefnendur til að lækka vöruverð sitt. Kveðast stefnendur eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta og styðjist samlagsaðild þeirra við 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 enda megi tjón þeirra rekja til sama atviks en stefnendur séu báðir framleiðendur búfjárafurða, þ.e. kjúklinga og svínakjöts.
Málsástæður og lagarök stefnda fyrir frávísun
Stefndi heldur því fram að kröfur stefnenda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu séu óljósar og vanreifaðar í stefnu þannig að varði frávísun málsins, sbr. d-e- liðir 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Stefndi telur ekki standast þá nálgun stefnenda að lækkun tolla hafi ein og sér valdið þeim tjóni. Engra þess háttar áhrifa gæti af tollalækkun sem slíkri og ljóst að eingöngu innflutningur á grundvelli hennar gæti haft þess konar áhrif að því marki sem honum væri til að dreifa og hefði í reynd haft einhver áhrif. Öll gögn, rök og umfjöllun skorti til stuðnings þeirri kröfugerð sem stefnendur hafa uppi sameiginlega í máli þessu um að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda „vegna tjóns sem stefnendur urðu fyrir“ vegna lækkunar á tollum af landbúnaðarvörum 1. mars 2007. Enga umfjöllun sé að finna í stefnu um stefnendur sjálfa og starfsemi þeirra svo sem framleiðslu þeirra, verðlagningu, markaðsaðstæður o.s.frv. né ætlað tjón og í hverju það hafi falist. Í engu sé heldur fjallað um hugsanlegan innflutning landbúnaðarvara sem gæti hafa verið í samkeppni á markaði við framleiðsluvörur stefnenda eða takmarkanir á honum af öðrum ástæðum, svo sem vegna sóttvarna, né önnur atriði er máli skipta og sem taka þarf afstöðu til við mat á því hvort uppfyllt séu skilyrði um tjón og um orsakasamband milli tjóns og háttsemi sem stofnað gæti til skaðabótaskyldu að lögum. Af sömu ástæðum hafa stefnendur heldur ekki sýnt fram á að uppfyllt séu skilyrði fyrir því að höfða saman mál á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laganna.
Krafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu með heimild í 2. mgr. 25. gr. og/eða d- lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála leysir stefnanda máls ekki undan þeirri skyldu að gera grein fyrir því að framangreind skilyrði til áfalls skaðabótaskyldu séu uppfyllt og sýna fram á tjón. Engri slíkri umfjöllun er fyrir að fara í stefnu. Ekki er heldur reifað ætlað sameiginlegt fjártjón stefnenda eða hvors um sig og í hverju það hafi nánar falist. Úr slíkum annmörkum verður ekki bætt eftir framlagningu greinargerðar stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun
Stefnendur hafna sjónarmiðum stefnda. Þeir telja að í stefnu sé rakið á hvaða grundvelli tjón stefnenda sé byggt og þau sjónarmið er stefnendur byggja á séu rakin í stefnu. Stefnendur telja að skilyrðum 1. mgr. 80. gr. eml. sé fullnægt hvað varðar skýrleika og málsgrundvöll. Grundvelli bótaskyldunnar sé lýst. Reifað sé í stefnu að stefnendur séu í beinni samkeppni við erlenda framleiðendur og að innflutningur eftir 1. mars 2007 hafi valdið þeim tjóni. Það sé alkunna að kjöt sé flutt inn til landsins og það þurfi ekki að sanna fyrir dómi. Þá sé ljóst að með lækkun tolla lækki verð á matmælum sem leiði til tjóns hjá stefnendum.
Stefnendur telja að tjónið sé margslungið og það sé erfitt að sýna fram á það með tölulegum hætti. Hafi því heimild samkvæmt 2. mgr. 25. gr. eml. verið notuð. Í ákvæðinu er ákveðið réttarfarshagræði sem stefnendur hafi nýtt sér. Sé sú formkrafa gerð, að sýna fram á tjónið, sé verið að biðja um sundurliðaða aðfararhæfa bótakröfu og sé þá réttarfarsúrræði 2. mgr. 25. gr. eml. úr sögunni.
Stefnendur telja að margir þættir geti spilað inn í það að sýna fram á tjónið. Þótt verðið hér á landi hafi ekki lækkað þá hefði matarverðið verið hærra hér, ef ekki hefðu komið til þessarar tollabreytingar.
Að lokum benda stefnendur á að þeir séu á samkeppnismarkaði. Þess vegna hafi verið einfaldara að höfða viðurkenningarmál, því þá þurfi ekki að upplýsa um samkeppnissjónarmið, en stefnendur vilji ekki opna bókhald sitt. Stefnendur telja að umfang tjónsins sé nægjanlega rakið í köflum 3.7 og 2.1 í stefnu.
Niðurstaða
Stefnendur halda því fram að þeir hafi orðið fyrir tjóni vegna lækkunar stefnda á tollum af landbúnaðarvörum með breytingu á veftollskrá Tollstjórans í Reykjavík hinn 1. mars 2007.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls.
Í stefnu málsins er gengið út frá því að lækkun tolla á innfluttum kjötvörum frá löndum Evrópusambandsins hafi haft áhrif á afkomu stefnenda og valdið þeim tjóni. Um þetta er farið almennum orðum í stefnu og skortir alveg að stefnendur hafi gert grein fyrir því hvernig þessi tollalækkun hitti þá fyrir. Í engu er getið þeirra atvika sem leitt hafa af sér kröfu um skaðabætur. Þá er ómarkvisst að segja að lækkun tolla leiði af sér tjón. Stefnendur hafa því í stefnu ekki leitt að því líkur að þeir hafi orðið fyrir tjóni og í hverju tjón þeirra felist og tengsl þess við málsatvik. Eins og málatilbúnaði stefnenda er háttað er nær lagi að verið sé að krefja dóminn um álit á lögmæti tollalækkunarinnar.
Framangreind skilyrði eru þannig ekki uppfyllt og úr þeim ágalla, sem hér um ræðir, verður eigi bætt síðar, sbr. e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá hefur samlagsaðild stefnenda í engu verið rökstudd. Samkvæmt þessu ber að vísa málinu frá dómi.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnendum að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákvarðaður 180.000 kr.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Norðlenska matborðið ehf. og Matfugl ehf., greiði in solidum íslenska ríkinu 180.000 kr. í málskostnað.