Hæstiréttur íslands

Mál nr. 217/2017

M (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)
gegn
K (Heimir Örn Herbertsson lögmaður)

Lykilorð

  • Auðgunarkrafa
  • Fasteign
  • Veð

Reifun

M krafði K um greiðslu fjárhæðar sem nam þeim hluta svokallaðrar leiðréttingarfjárhæðar sem honum hafði verið ákvörðuð á grundvelli laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána. Höfðu M og K verið skráð í sambúð á leiðréttingartímabilinu, en M tilkynnti Þjóðskrá Íslands um sambúðarslit í mars 2015. Deildu aðilar um það hvort K hefði verið heimilt að samþykkja útreikning leiðréttingafjárhæðarinnar fyrir beggja hönd í desember 2014, en hlutdeild hvors um sig var í kjölfarið ráðstafað til lækkunar á fasteignaveðlánum sem hvíldu á fasteign K í samræmi við 11. gr. laga nr. 35/2014 og 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014. Bar M því m.a. við að sambúð hans og K hefði í raun verið slitið er K samþykkti útreikninginn. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að skilja yrði málatilbúnað M þannig að dómkrafa hans væri reist á sjónarmiðum um óréttmæta auðgun K á hans kostnað, þar sem hann hefði ekki notið hagræðis af leiðréttingunni svo sem hann hefði átt rétt á með því að allri leiðréttingarfjárhæðinni hefði verið ráðstafað til lækkunar veðlána sem hvíldu á fasteign K. Var ekki talið að M hefði sannað að sambúð hans og K hefði verið slitið fyrir það tímamark er M tilkynnti sambúðarslit til Þjóðskrár Íslands. Hefði framkvæmd leiðréttingarinnar sem M og K var ákvörðuð og ráðstöfun hennar verið í samræmi við ákvæði laga nr. 35/2014 og reglugerða sem settar hefðu verið á grundvelli þeirra. Var ekki talið að K hefði með óréttmætum hætti auðgast á kostnað M og staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu K.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. apríl 2017. Hann krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 1.333.916 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. febrúar 2016 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi voru málsaðilar skráðir í sambúð 1. janúar 2004 en áfrýjandi skráði sig úr henni með tilkynningu til Þjóðskrár Íslands 14. mars 2015. Með kaupsamningi [...] 2005 keypti stefnda fasteign við [...] í [...] og þar bjuggu málsaðilar frá því síðar sama ár. Vegna kaupanna tók stefnda tvö lán hjá Íbúðalánasjóði með veði í fasteigninni. Fyrir liggur að áfrýjandi tók lán hjá Stöfum lífeyrissjóði og heimilaði stefnda veðsetningu fasteignar sinnar til tryggingar láninu.

Stefnda sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána í samræmi við ákvæði laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Fyrir liggur að málsaðilar voru í skráðri sambúð á leiðréttingartímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009 og uppfylltu jafnframt önnur skilyrði leiðréttingar samkvæmt 3. gr. laganna. Samkvæmt ákvörðun um leiðréttingu, sem birt var 8. nóvember 2014, nam útreiknuð leiðréttingarfjárhæð vegna hvors málsaðila um sig 1.333.916 krónum eða samtals 2.667.832 krónum. Stefnda samþykkti útreikninginn 27. desember 2014. Í kjölfarið var allri fjárhæðinni ráðstafað til lækkunar á fasteignaveðlánum sem hvíldu á fasteign stefndu í samræmi við fyrirmæli 11. gr. laga nr. 35/2014 og 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014 um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, svo sem henni var breytt með reglugerð nr. 1160/2014. Samkvæmt fyrirmælum 4. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar skal leiðréttingarfjárhæð hjóna og samskattaðs sambúðarfólks á samþykktardegi ráðstöfunar leiðréttingarfjárhæðar ráðstafað óháð því hvort hjóna eða sambúðarfólks er formlega ábyrgt fyrir lánum og hvort hlutaðeigandi sóttu saman um leiðréttingu. Þá segir í 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar til að lækka höfuðstól fasteignaveðlána umsækjanda samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 skuli fara eftir veðröð þeirra lána sem hvíla á fasteign eða fasteignum umsækjanda.    

Skilja verður málatilbúnað áfrýjanda þannig að dómkrafa hans sé reist á sjónarmiðum um óréttmæta auðgun stefndu á sinn kostnað. Þar sem skuldaleiðréttingin hafi byggst á tveimur sjálfstæðum ákvörðunum þar að lútandi, sem hvor sé að fjárhæð 1.333.916 krónur, annarri í nafni áfrýjanda og hinni í nafni stefndu, hafi áfrýjandi átt sjálfstæðan rétt til leiðréttingarinnar sem nemur dómkröfunni. Því hafi ráðstöfun allrar leiðréttingarfjárhæðarinnar, 2.667.832 krónur, til lækkunar veðlána sem hvíldu á fasteign stefndu, leitt til þess að áfrýjandi hafi ekki notið hagræðis af leiðréttingunni, svo sem hann hafi átt rétt á. Áfrýjandi vísar til þess að stefnda hafi ein staðfest útreikning leiðréttingarinnar 27. desember 2014 af hálfu beggja málsaðila, þótt þau hefðu þá þegar slitið samvistir og þeim báðum því borið að taka ákvörðun um samþykki.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 skal umsækjandi um leiðréttingu samþykkja útreikning hennar og framkvæmd innan þriggja mánaða frá birtingardegi, geri hann ekki athugasemdir við ákvörðun um útreikninginn. Þá er mælt fyrir um það í 7. gr. reglugerðar nr. 698/2014, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 990/2014, að hafi hjúskapur eða sambúð samskattaðs sambýlisfólks varað samfellt frá upphafi leiðréttingartíma og fram að samþykkt leiðréttingarinnar sé nægjanlegt að annað hjóna eða sambýlisfólks, sem stóð að sameiginlegri umsókn, samþykki fyrir beggja hönd. Svo sem áður er rakið hófu málsaðilar sambúð í ársbyrjun 2004 og skráði áfrýjandi sig úr henni með tilkynningu 14. mars 2015. Áfrýjanda hefur ekki tekist sönnun þess að þau stefnda hafi slitið samvistir fyrir það tímamark. Verður því að leggja til grundvallar skráningu í Þjóðskrá um að málsaðilar hafi verið í sambúð þegar stefnda staðfesti útreikning leiðréttingarinnar 27. desember 2014, svo sem hún hafði heimild til samkvæmt framangreindum ákvæðum laga nr. 35/2014 og reglugerðar nr. 698/2014.

Samkvæmt framangreindu var framkvæmd leiðréttingar verðtryggðra fasteignaveðlána, sem málsaðilum var ákvörðuð, og ráðstöfun hennar, áður en þau slitu sambúð sinni, í samræmi við ákvæði laga nr. 35/2014 og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli heimildar í 7. mgr. 11. gr. laganna. Að því gættu verður ekki talið að stefnda hafi með óréttmætum hætti auðgast á kostnað áfrýjanda. Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, M, greiði stefndu, K, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. janúar 2017.

Mál þetta, sem dómtekið var 29. nóvember sl., var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri 25. febrúar 2016 af M, [...], á hendur K, [...].

I.

        Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða honum skuld að fjárhæð 1.333.916 kr. ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá og með 24. febrúar 2016 til greiðsludags.

        Jafnframt krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefndu.

        Stefnda krefst þess að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda.

        Til vara að hún verði aðeins dæmd til að greiða stefnanda 139.290 kr. án vaxta.      

        Til þrautavara krefst stefnda skuldajöfnunar vegna gagnkröfu sinnar sem er að fjárhæð 445.688 kr. til frádráttar hinni umstefndu fjárhæð stefnanda.

         Í öllum tilvikum krefst stefnda þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, auk álags.

        Í greinargerð krafðist stefnda aðallega frávísunar málins en með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. [...] júní 2016, var hafnað frávísunarkröfu stefndu.

        Í upphaflegri kröfugerð stefnanda í stefnu krafðist hann þess að stefnda yrði dæmd til að greiða sér 1.333.916 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 5. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. desember 2016 til greiðsludags. Stefnandi lagði síðan í þinghaldi, þann 18. maí 2016, fram bókun um breytta kröfugerð sem fól í sér breytingu á dráttarvaxtakröfu vegna ritvillu í stefnu.

II.

Málsatvik

        Stefnandi og stefnda hófu óvígða sambúð á árinu 2003-2004 og skráðu hana hjá Þjóðskrá Íslands, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1990, um lögheimili, þann 1. janúar 2004. Í upphafi bjuggu þau í fasteign í eigu stefndu að [...] í [...] og töldu saman fram til skatts, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.   

        Stefnda seldi íbúð sína að [...], og keypti með kaupsamningi, dags. [...] 2005, fasteignina [...], [...], fastanr. [...], sbr. kaupsamning dagsettan [...] 2005. Vegna kaupanna tók stefnda tvö lán hjá Íbúðalánasjóði sem hún er ein skráð greiðandi að, með veði í fasteign hennar að [...]. Annars vegar er um að ræða lán nr. [...], útgefið [...] 2005, upphaflega að fjárhæð 10.155.934 kr. og hins vegar lán nr. [...], útgefið [...] 2005, upphaflega að fjárhæð 5.744.066 kr.

        Stefnandi tók lán til 10 ára hjá Stöfum lífeyrissjóði, lán nr. [...], útg. [...] 2007, upphaflega að fjárhæð 1.200.000 kr. og heimilaði stefnda veðsetningu fasteignarinnar að [...], til tryggingar láninu. Eftirstöðvar láns þessa nema samkvæmt gögnum málsins 445.688 kr. miðað við 19. apríl 2016. Stefnandi upplýsti stefndu um að hann væri með láninu að greiða skuld við þriðja aðila.

        Stefnda sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, sbr. lög nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Öll lán einstaklinga, sem voru í óvígðri sambúð og óskað höfðu samsköttunar og uppfyllt höfðu skilyrði til samsköttunar, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, í árslok 2013, féllu undir leiðréttinguna. Þetta voru tvö lán stefndu og tvö lán stefnanda, sem veittu rétt til vaxtabóta á árunum 2008-2009. Heildarsamtala leiðréttingarfjárhæðarinnar nam 2.667.832 kr. Stefnandi og stefnda voru í sambúð á leiðréttingartímabilinu, 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Sambúð aðila var formlega slitið 14. mars 2015, en þá skráði stefnandi sig úr sambúð með tilkynningu til Þjóðskrár Íslands.

        Í niðurstöðum varðandi umsókn um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána fyrir aðila kom fram að útreiknuð leiðrétting væri sem hér segir vegna stefndu:

Heimili frá 1.1.2008 til 31.12.2009

Lán nr. [...], Íbúðalánasjóður 856.611 kr.

Lán nr. [...], Íbúðalánasjóður 483.958 kr.

Lán nr. [...], Stafir lífeyrissjóður 61.713 kr.

Lán nr. [...], Stafir lífeyrissjóður 84.149 kr.

Samtals 1.486.431 kr.

Frádráttur vegna vaxtaniðurfærslu 152.515 kr.

Ákvörðuð leiðrétting 1.333.916 kr.

Ákvörðuð leiðrétting stefnanda var sú sama skv. sundurliðun eða 1.333.916 kr.

        Ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar til hvors um sig var birt 11. nóvember 2014.og fékk hvor aðila í sinn hlut 1.333.916 kr., eftir að tekið hafði verið tillit til frádráttarliða, sbr. 8. gr. laga nr. 35/2014.

          Stefnda samþykkti útreikninginn þann 27. desember 2014 eins og henni bar að gera innan þriggja mánaða frá birtingardegi, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014, ella hefði réttur til leiðréttingarinnar fallið niður. Allri upphæðinni var í kjölfarið ráðstafað til lækkunar á fasteignaveðlánum áhvílandi á fasteign stefndu samkvæmt 4. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014, sbr. 7. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

        Stefnandi byggir á því að á sambúðartíma aðila hafi þau keypt fasteign að [...], fastanr. [...]. Stefnda hafi ein verið skráð fyrir fasteigninni þó að ljóst væri að aðilar keyptu fasteignina saman. Þau hafi gert með sér samkomulag á sama tíma þar sem fram kom að stefnandi væri eigandi að 50% eignarhlut í eigninni, þrátt fyrir að það kæmi ekki fram í opinberum skrám, að frádregnu eigin fé stefndu, sem hún lagði til eignarinnar. Fjárhagsleg samstaða hefði verið með aðilum á sambúðartíma og þau talið sameiginlega fram til skatts. Stefnandi og stefnda hafi bæði séð um að greiða af fasteignaveðlánum en stefnandi séð einn um að greiða af tveimur lífeyrissjóðslánum hjá Stöfum lífeyrissjóði, með lánsnr. [...], sem tryggt er með veði í annarri fasteign og láni nr. [...] en það lán sé tryggt með veði í fasteigninni að [...]. Stefnandi og stefnda hafi sameiginlega greitt inn á útgjaldareikning hjá Arion banka og af honum síðan verið teknar mánaðarlegar afborganir af lánum þeirra hjá Íbúðalánasjóði. Fjárskipti hefðu ekki endanlega verið frágengin milli aðila við sambúðarslitin en legið hafi ljóst fyrir að stefnda myndi halda fasteign aðila að [...].    

       Stefnandi vísar til þess að í 3. gr. laga nr. 35/2014 sé fjallað um afmörkun leiðréttingar samkvæmt lögunum. Þar segi í 2. mgr. að leiðrétting samkvæmt lögunum taki til heimila, þ.e. einstaklinga, hjóna og sambýlisfólks sem uppfyllti skilyrði til samsköttunar innan leiðréttingartímabils samkvæmt 1. mgr. Leiðréttingin taki til áhvílandi lána á sameiginlegu heimili hjóna eða sambýlisfólks, óháð því hvort aðilinn var skráður fyrir lánunum á tímabilinu. Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 segir að leiðrétting einstaklinga og hámark hennar ráðist af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins  og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins.

        Í athugasemdum við 3. gr. frumvarps, er varð að lögum nr. 35/2014, komi fram að afmörkun og þar með tilkall til leiðréttingar byggist á nokkrum þáttum. Síðan segi: „Í fyrsta lagi afmarkast leiðrétting við ákveðið tímabil, í öðru lagi þarf að hafa verið áhvílandi verðtryggt lán á heimili á sama tímabili, í þriðja lagi er það skilyrði að vaxtagjöld af lánunum hafi verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta. Síðastgreinda atriðið feli nánar í sér kröfu um að til lána hafi verið stofnað vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þ.e. til heimilishalds viðkomandi, en hvorki til útleigu né annarra nota eða sem fjárfesting einvörðungu. Réttur til vaxtabóta hafi þannig viðtæka skírskotun í þessu sambandi því annars vegar sé um að ræða staðfestingu á nýtingu láns og hins vegar afmörkun á rétti til að annars vegar vaxtabóta við einstaklinga og hins vegar hjóna og sambúðarfólks óháð því hver skráður er fyrir láni á þeim tíma sem um sameiginlegt heimilishald var að ræða. Á þessum forsendum sé litið svo á að tilkall til leiðréttingar vegna lána til öflunar húsnæðis til sameiginlegs heimilishalds eigi jafnt við um hjón og einstaklinga sem höfðu sambærilega fjárhagslega samstöðu vegna sambúðar óháð því hvort viðkomandi var formlega skráður fyrir lánum á því tímabili sem leiðréttingu er ætlað að taka til. Réttur eða tilkall til leiðréttingarinnar kunni þannig að ráðast af hjúskaparstöðu á tímabilinu eða innan áranna 2008-2009. Skilnaður hjóna eða samvistarslit hafi þannig ekki í för með sér brottfall réttar til leiðréttingar, enda ráðist útreikningur leiðréttingar skv. 7. gr. af stöðu lána sem hvíldu á hverjum tíma á sameiginlegu heimili á tímabilinu.“

        Nánar sé fjallað um útreikning leiðréttingar og ráðstöfun í 4. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segi í 3. mgr. að fjárhæð leiðréttingar einstaklings og hámark hennar ráðist samkvæmt 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2015 af hjúskapar eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins, 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Hafi breytingar orðið á högum umsækjanda, einu sinni eða oftar, sbr. 1. málsl., á leiðréttingartímabilinu skuli útreikningur leiðréttingar miða við að breytingin taki gildi í sama mánuði. Í 4. mgr. segi að heildarsamtala fjárhæðar útreiknaðrar leiðréttingar hvers heimilis geti að hámarki orðið 4 milljónir kr. Við útreikning á hámarki leiðréttingar hvers heimilis skuli, eftir atvikum, skipta fjárhæð leiðréttingar í samræmi við breytingar á hjúskapar- eða heimilisstöðu hvers einstaklings á hverjum tíma innan leiðréttingatímabilsins.

          Stefnandi og stefnda hafi verið í sambúð á leiðréttingartímabili því er greinir í 1. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, þ.e. frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2009 og við ákvörðun leiðréttingarfjárhæðar hefði ríkisskattstjóri tekið mið af því. Leiðrétting einstaklings ráðist af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á leiðréttingartímabilinu, sbr. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014. Fjárhæð leiðréttingar og hámark hennar taki mið af hjúskapar- og heimilisstöðu leiðréttingartímabilsins, óháð því hvor aðila var skráður fyrir leiðréttum lánum á tímabilinu og óháð því hvor sé ábyrgur fyrir skuldum ef sambýlisfólk uppfyllir skilyrði samsköttunar. Ljóst sé af skattframtölum stefnanda og stefndu að þau uppfylltu skilyrði samsköttunar á tekjuárunum 2008 og 2009. Af þessu leiði að stefnandi hafi átt sjálfstæðan rétt á hluta leiðréttingar lána, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 og 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Tilkall stefnanda til leiðréttingarfjárhæðar sé því réttilega ákvarðað 50% og útreiknuð fjárhæð leiðréttingar kæranda sé því í samræmi við þau lagafyrirmæli sem um hana gilda.

        Í ljósi ofangreinds sé óumdeilt að stefnandi hafi átt sjálfstæðan rétt á 50% hluta í leiðréttingarfjárhæð lánanna. Í ljósi þess að aðilar höfðu slitið sambúð sinni þegar útreikningur lá fyrir og ljóst að í hlut stefndu myndi renna fasteign aðila hafi það ekki verið stefndu að ráðstafa hlut stefnanda inn á fasteignaveðlánin. Stefnandi hafi átt rétt á því að nýta fjárhæðina sem sérstakan persónuafslátt, sbr. 12. gr. laga nr. 35/2014 og með fyrrgreindri ráðstöfun hafi hann orðið af þeim möguleika. Stefnda búi í fasteign aðila og fyrir liggi að við fjárskipti aðila muni hún halda eigninni. Stefnandi hafi því ekkert hagræði fengið af leiðréttingu fasteignaveðlánanna og honum sé því nauðugur sá kostur að sækja kröfu sína í máli þessu.

        Stefnandi vísar til laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána. Þá byggir stefnandi á meginreglum samninga- og kröfuréttar um loforð, skuldbindingagildi samninga og efndir fjárskuldbindinga.

        Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til V. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu

        Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að telji stefnandi sig eiga einhverja kröfu vegna leiðréttingar verðtryggðra fasteignaveðlána, þá hafi honum borið að snúa sér til Ríkisskattstjóra með þær kröfur.

         Stefnda byggir á því að þrátt fyrir samsköttun hafi fjárhagur þeirra allan tímann verið aðskilinn utan samkomulags sem þau hefi gert um greiðslu á sameiginlegum kostnaði við rekstur heimilisins. Þau hafi verið með sameiginlegt greiðslukort til að skipta með sér þessum kostnaði. Þá hafi hún við kaup á fasteigninni að [...] í [...] tekið tvö lán hjá Íbúðalánasjóði til að fjármagna mismun á eiginfé eftir sölu á eign sinni að [...] í [...]. Þessi tvö lán hvíli á fasteign hennar að [...] og hún ein verði greiðandi að þeim lánum.

        Þann 18. mars 2014 hafi tekið gildi lög nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Með lögunum hafi verið kveðið á um skipan og fyrirkomulag leiðréttingar á verðtryggingu fasteignaveðlána heimila á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Leiðréttingin hafi tekið til verðtryggðra fasteignaveðlána heimila sem til staðar voru einhvern tímann á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009 og voru viðurkennd sem grundvöllur fyrir útreikningi vaxta. Útreikningurinn miðaðist við mismun raunverðbóta, þ.e. eins og þær voru við hverja greiðslu af lánunum og leiðréttra verðbóta, sbr. reglugerð nr. 990/2014, sem sett var á grundvelli laga nr. 35/2014.

        Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 hafi sambúðaraðilum, sem uppfylltu skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, verið heimilt að sækja sameiginlega um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, vegna lána sem veittu rétt til vaxtabóta á árunum 2008-2009 og annað eða bæði voru ábyrg fyrir. Stefnda hafi sótt um leiðréttinguna, sbr. lög nr. 35/2014. Leiðréttingin hafi tekið til áhvílandi lána á sameiginlegu heimili hjóna eða sambýlisfólks, óháð því hvor aðilinn var skráður fyrir lánunum, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014. Í greinargerð með 3. gr. frumvarpsins með lögunum komi fram að afmörkun og þar með tilkall til leiðréttingar byggist á nokkrum þáttum. Í málsástæðum stefnanda í stefnu sé nánar fjallað um lög nr. 35/2014, auk þess sem texti úr greinargerð með frumvarpi laganna sé tekinn upp, þar með um 3. gr. laganna, og ekki sé gerð athugasemd við texta þennan né þykir ástæða til að taka hann upp að nýju og vísast til stefnu þar um.

        Ráðstöfun leiðréttingar verðtryggðra fasteignaveðlána var gerð 13. janúar 2015, en þá hafi stefnandi og stefnda enn verið í sambúð. Sambúðarslit samkvæmt Þjóðskrá Íslands hafi verið þann 14. mars 2015.

        Skv. reglugerð nr. 1160/1014, með breytingu á reglugerð nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána komi fram í 4. mgr. 1. gr., um framkvæmd leiðréttingarinnar, að leiðréttingarfjárhæð hjóna og samskattaðra sambúðaraðila á samþykktardegi framkvæmdar/ráðstöfunar leiðréttingarfjárhæðarinnar skyldi ráðstafa óháð því hvort hjóna eða sambúðaraðila væri formlega ábyrgt fyrir lánunum og hvort hlutaðeigandi sóttu saman um leiðréttingu. Jafnframt komi fram í 5. mgr. reglugerðarinnar að samþykki umsækjanda á framkvæmd/ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðarinnar skv. 1.-4. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar, væri bindandi og tæki ekki breytingum þótt hjúskaparstaða breyttist. Ráðstöfunin skipti því öllu máli og falli inn á það heimili sem lánin hvíldu á. Ráðstöfunin sé því bindandi og hafi stefnandi haft eitthvað við hana að athuga hafi honum borið að snúa sér til Ríkisskattstjóra með athugasemd þar um.

        Varakrafa stefndu er sú að að hún verði einungis dæmd til að greiða stefnanda 139.290 kr. án vaxta, sem sé hlutur stefnanda í leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, sbr. lög nr. 35/2014, að frádreginni sérstakri vaxtaniðurgreiðslu, sbr. 8. gr. laga nr. 35/2014. Heildarsamtala vegna lána stefnanda í leiðréttingunni sé 291.724 kr., frádregin sérstök niðurgreiðsla sé 152.515 kr. og mismunur 139.290 kr.       

        Krafan sé byggð á því að lög nr. 35/2014 séu í andstöðu við eignarréttarákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Með lögum þessum hafi verið kveðið á um skipan og fyrirkomulag leiðréttingar á verðtryggingu fasteignaveðlána heimila á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Leiðréttingin hafi tekið til verðtryggðra fasteignaveðlána sem til staðar voru einhvern tímann á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009 og voru viðurkennd sem grundvöllur fyrir útreikningi vaxta. Eins og áður sé rakið taki leiðréttingin til heimila, þ.e. einstaklinga, hjóna og sambúðarfólks sem uppfyllti skilyrði til samsköttunar á skattframtali 2009 og/eða 2010 og tók leiðréttingin mið af fasteignaveðlánum, sem tekin voru til kaupa og/eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Framkvæmd leiðréttingarinnar hafi verið á þann hátt að fasteignaveðlán sem voru til staðar við lok útreiknings voru leiðrétt óháð því hvor aðilinn var skráður skuldari, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, sbr. áður tilvitnaða greinargerð með 3. gr. frumvarpsins, er varð að lögum nr. 35/2014 og nánari upptalningu úr lögunum svo og reglugerð nr. 698/2014.

        Stefnandi krefjist í stefnu greiðslu á 1.333.916 kr. og því sé ljóst að dómkrafa stefnanda miðist við að tilkall hans til leiðréttingar lána hafi verið 50% af heildarleiðréttingu umsækjanda vegna sambúðar aðila. Ákvörðuð leiðrétting stefndu og maka, eins og segir í niðurstöðu umsóknar, nam alls 2.667.832 kr. og þá hafi verið tekin til frádráttar sérstök vaxtaniðurgreiðsla hjá hvorum aðila að fjárhæð 152.515 kr. eða alls 305.030 kr., sbr. 8. gr. laga nr. 35/2014.

        Útreikningur leiðréttingarinnar hafi miðast við fjögur lán og leiðréttingarfjárhæð numið alls 2.667.832 kr. Hlutur vegna lána stefnanda í þeirri tölu sé 291.724 kr. Til frádráttar þeirri fjárhæð komi vaxtagreiðslur, 152.515 kr., sem stefnandi hafi fengið greiddar og dregnar hafi verið frá, sbr. 8. gr. laga nr. 35/2014. Leiðréttingarfjárhæð vegna lána stefnanda sé því 139.290 kr., sem sé sú fjárhæð sem stefnda krefst að hún verði aðeins dæmd til að greiða stefnanda.

        Niðurstaða útreiknings leiðréttingar hafi verið birt með rafrænum hætti þann 11. nóvember 2014. Umsækjanda bar að samþykkja útreikning og framkvæmd leiðréttingarinnar skv. 11. gr. laga nr. 35/2014, innan þriggja mánaða frá birtingardegi, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014. Að þeim tíma liðnum féll réttur til leiðréttingar niður. Stefnda hafi samþykkt útreikninginn þann 27. desember 2014 svo sem henni bar og með því ráðstöfun leiðréttingarinnar inn á lán sitt við Íbúðalánasjóð sem áhvílandi er á fasteign stefndu, [...], [...].

        Stefnandi telji að með ráðstöfun stefndu hafi hún komið í veg fyrir að hann gæti nýtt sér úrræði 12. gr. laganna um sérstakan persónuafslátt. Hefði stefnandi verið ósáttur við ráðstöfun stefndu gat hann borið þann ágreining undir úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggða fasteignaveðlána, sbr. 14. gr. laga nr. 35/2014.

        Stefnda vill vekja athygli á því að hefði stefnandi fengið það samþykkt að nýta sér úrræðið sem 12. gr. laga nr. 35/2014 veitir, þ.e. að nýta hinn meinta hluta sinn sem persónuafslátt, þá hefði sá persónuafsláttur skipst á fjögur ár og verið nýtanlegur við álagningu opinberra gjalda á árunum 2015 til og með 2018 og er þá miðað við að honum sé bætt við almennan persónuafslátt. Í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 35/2014 komi fram að leiðréttingarfjárhæðinni skuli skipta niður á fjögur ár með jöfnum föstum fjárhæðum sem taki ekki vísitöluhækkun á milli ára. Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að leiðréttingarfjárhæðir bera hvorki verðbætur né vexti.  

        Stefnda mótmælir því sem kemur fram í síðustu málsgrein stefnanda í málavöxtum og lagarökum að stefnandi og stefnda hafi verið búin að slíta samvistum þegar hún ráðstafaði leiðréttingarfjárhæðinni inn á lánin. Hið rétta sé að á þessum tíma hafi aðilar verið að leita sátta hjá sérfræðingi og sambúðarslit séu skráð 14. mars 2015.

        Það sé skilyrði samkvæmt lögum nr. 35/2014 að lánin hafi verið nýtt, í heild eða að hluta, til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Ekkert segi í lögunum um það hvort máli skipti að annar einstaklingur þeirra sem óskað hafi eftir samsköttun á tímabilinu eða báðir, séu eigendur íbúðarhúsnæðisins, aðeins segi að ekki skipti máli hvor aðilinn sé skráður fyrir lánunum á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014.

        Stefnda telur það ekki samrýmast eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að einstaklingur sem enga ábyrgð beri á fasteignaveðlánum þeim sem nýtt voru við útreikning leiðréttingarinnar og hafi ekkert með þær skuldbindingar að gera, geti átt rétt til 50% leiðréttingarfjárhæðarinnar. Stefnda telur að markmið laganna hljóti að hafa verið að fasteignaeigandi og skuldari fasteignaveðlánanna fengi í sinn hlut leiðréttinguna til að leiðrétta fjárhæð skuldanna til lækkunar. Enginn greinarmunur sé gerður á því hvenær þinglýstur eigandi fasteignar tók lán til að fjármagna íbúðarkaup sín hjá þeim aðilum sem tilgreindir eru í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 35/2014. Einungis sé miðað við hvort einstaklingar hafi verið skráðir í sambúð á tímabilinu 1.1.2008 til og með 31.12.2009 og hafi óskað eftir því að verða samskattaðir. Réttur eða tilkall til leiðréttingarinnar ráðist þannig aðeins af hjúskaparstöðu á tímabilinu eða innan áranna 2008-2009. Hér sé um fjárhagsleg réttindi stefndu að ræða. Með þessu sé verið að skerða eignarrétt aðila afturvirkt og færa yfir til annars aðila. Þegar stefnda og stefnandi skráðu sig í sambúð hafi stefndu verið kunnugt um hvaða afleiðingar það hefði en mátti ekki vera ljóst að seinna yrðu sett lög, sem skertu eignarrétt hennar afturvirkt. Leiðrétting fasteignalána hafi verið liður í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun lána sem tekin voru til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Markmið með aðgerð þessari hafi verið að takast á við skuldavanda heimila og átti að vera umsækjanda til hagsbóta. Leiðréttingin snerist um höfuðstólslækkun sem hefði áhrif á lán út allan lánstímann. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 35/2014 segi að markmiðið með aðgerðunum sé að leiðrétta þá forsendubresti sem komið hafi fram í verðtryggingarvísitölum á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Ekki sé ljóst hvernig sá forsendubrestur hafi breyst með sambúðarslitum aðila.

        Stefnda telur því að það geti ekki hafa verið markmið laganna að eigandi fasteignar, sem skuldar verðtryggt fasteignaveðlán og er í sambúð á árunum 2008 og 2009 og hefur óskað eftir samsköttun, geti við sambúðarslit þurft að endurgreiða hinum aðilanum 50% eingreiðslu skv. heildarleiðréttingarfjárhæð umsækjanda, jafnvel með dráttarvöxtum, og geti vegna þess þurft að leita eftir nýju láni til að geta staðgreitt þessa fjárhæð. Engu skipti að stefnda sem fasteignareigandi haldi áfram ein með hið verðtryggða fasteignaveðlán og beri áfram ein ábyrgð á greiðslu þess, og lánið hafi aldrei verið skuldbindandi gagnvart stefnanda. Óeðlilegt sé  jafnframt að ekki beri að færa fjárhæðina niður til raunvirðis komi til þess að greiða þurfi hana með eingreiðslu, þar sem með lögunum segi að greiðslan komi til á árunum 2015 til og með 2018, verði leiðréttingarfjárhæðinni ekki ráðstafað skv. 11. gr. og myndi þá sérstakan persónuafslátt, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga 35/2014. Samkvæmt lögunum var ekki mögulegt að fá leiðréttinguna greidda út í peningum, heldur aðeins til lækkunar á höfuðstól fasteignaveðlána eða með sérstökum persónuafslætti.

         Hefði stefnandi ekki búið með stefndu á árunum 2008 og 2009 hefði hann ekki getað óskað eftir leiðréttingu á þessum tveimur lífeyrissjóðslánum sínum. Það sé einungis vegna fasteignar í eigu stefndu sem stefnandi gat nýtt sér þetta úrræði.

        Þrautavarakrafa stefndu, verði hvorki fallist á aðalkröfu né varakröfu, er sú að lýsa yfir gagnkröfu til skuldajafnaðar gagnvart hinni umstefndu fjárhæð stefnanda. Gagnkrafa stefndu er, miðað við 19. apríl 2016, að fjárhæð 445.688 kr. og krefst stefnda þess að sú fjárhæð komi til lækkunar dómkröfu stefnanda að fjárhæð 1.333.91 kr. þannig að stefnda verði einungis dæmd til að greiða stefnanda 888.228 kr. án vaxta.

       Gagnkrafa stefndu er byggð á því að áhvílandi sé á fasteign stefndu, [...], [...], veðskuldabréf sem nemur að eftirstöðvum þann 19.4.2016 445.688 kr. Skuldabréfið er nr. [...], útgefið þann [...] 2007 af stefnanda og hann sé einn skuldari. Skuldin sé stefndu óviðkomandi svo sem fram komi í málsatvikum í stefnu. Stefnda hafi samþykkt að veita stefnanda veð í fasteign sinni svo að hann gæti gert upp skuld við þriðja mann. Lánsfjárhæðin hafi verið lögð inn á reikning stefnanda og enginn hluti hennar verið stefndu til hagsbóta. Eins og fram komi í málsatvikum stefnanda var þetta lán algjörlega óviðkomandi stefndu og stefnandi sá einn um að greiða af því.

        Lögmaður stefnanda og lögmaður stefndu hafa verið í samningaviðræðum vegna þessa máls frá því á síðasta ári. Þar sem þetta sé eina deila aðila sem eftir er að leysa úr við sambúðarslit þeirra hafi stefnda ítrekað reynt að ná sáttum og á þeim tímapunkti verið tilbúin þess taka á sig hærri skuld en henni bar, svo að leysa mætti málið. Stefnandi hafi ítrekað hafnað þessum sáttaboðum á þeim forsendum að stefndu beri að greiða meira en hina umstefndu fjárhæð. Með því að höfða mál þetta hafi stefnandi bakað stefndu óþarfa tjón og því sé krafist álags á málskostnað, sbr. 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Með vísan til framangreinds hafi málshöfðun þessi verið með öllu óþörf auk þess sem stefna sé það ruglingsleg að stefnda eigi erfitt með að verja sig. Ekkert innheimtubréf hafi verið sent til stefndu svo sem áskilið sé í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2008, innheimtulögum, sbr. 1. og 2. mgr. 6. gr. sömu laga.

        Stefnda vísar máli sínu til stuðnings til almennra reglna kröfuréttar um greiðslu fjárskuldbindinga og til samningalaga nr. 7/1936. Jafnframt er vísað til innheimtulaga nr. 95/2008, sérstaklega 6. og 7. gr. laganna svo og til 1. mgr. 72. gr. laga nr. 33/1944, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og laga nr. 35/2014, laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. 

        Um heimild til gagnkröfu til skuldajafnaðar vísast til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varðandi heimild til kröfusamlags vísast til 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, lögum um virðisaukaskatt, en stefnda er ekki virðisaukaskattsskyld og því nauðsynlegt að taka tilliti til þess við ákvörðun málskostnaðar. Málskostnaðarkrafa stefndu er byggð á XXI. kafla laga 91/1991, um meðferð einkamála, sérstaklega 131. gr. laganna. 

IV.

Niðurstaða

        Ágreiningur er milli aðila um það hvenær sambúð þeirra var slitið. Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð og kvað ákvörðun um sambúðarslit hafa verið tekna í byrjun desember 2014, en samkomulag hafi verið um að upplýsa ekki fyrr en eftir jól um það með tilliti til aðstandenda. Stefnda gaf skýrslu við aðalmeðferð og kvað stefnanda hafa flutt út úr íbúð hennar í febrúar 2015 eftir að þau höfðu árangurslaust leitað aðstoðar varðandi sættir. Í málinu liggur fyrir vottorð frá Þjóðskrá Íslands þar sem fram kemur að aðilar hafi verið skráð í sambúð 1. janúar 2004 og sambúð hafi verið slitið 14. mars 2015. Í máli þessu verður með hliðsjón af ágreiningi aðila að miða við að sambúðarslit hafi verið á þeim tíma sem kveðið er á um í vottorði Þjóðskrár Íslands. Því verður lagt til grundvallar að aðilar hafi verið í sambúð á samþykktardegi leiðréttingarinnar þann 27. desember 2014 og þegar ráðstöfun leiðréttingarinnar var framkvæmd 13. janúar 2015. Aðilar uppfylltu skilyrði samsköttunar á tekjuárunum 2008 og 2009.

       Stefnda byggir á því að hún hafi ein verið greiðandi afborgana af lánum við Íbúðalánasjóð sem hún tók þegar fasteignin að [...] var keypt. Þá hafi aðilar verið með aðskilinn fjárhag utan hvað þau hafi verið með sameiginlegt greiðslukort til að skipta með sér sameiginlegum kostnaði við rekstur heimilisins. Í aðilaskýrslu skýrði stefnda svo frá að hún hefði sótt um leiðréttinguna sem eigandi fasteignar og að hún hafi aðeins haft í huga sinn rétt, en ekkert hugsað um mál stefnanda. Hún hafi síðar komist að því að tvö smálán á nafni stefnanda hafi komið inn í leiðréttinguna, sér hafi ekki komið það við.

        Stefnandi byggir hins vegar á því að þau hafi bæði séð um afborganir af umræddum lánum en hann einn greitt af tveimur lánum sem hann var með hjá Stöfum lífeyrissjóði. Þá hafi þau verið með sameignlegan útgjaldareikning í Arion banka og af þeim reikningi hafi verið teknar mánaðarlegar afborganir af lánum hjá Íbúðalánasjóði. Við aðalmeðferð bar stefnandi að hægt væri að leggja fram bankafærslur til að staðfesta þetta. Engin slík gögn liggja hins vegar fyrir í málinu og hefur stefnanda því ekki tekist að færa sönnur á að hann hafi greitt umræddar afborganir af lánunum. Óumdeilt er aftur að stefnandi hafi sjálfur greitt afborganir lána hjá Stöfum lífeyrissjóði.       

        Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, sem sett var samkvæmt heimild í 7. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, skal leiðréttingarfjárhæð hjóna og samskattaðra sambúðaraðila á samþykktardegi framkvæmdar/ráðstöfunar leiðréttingarfjárhæðar ráðstafað óháð því hvort hjóna eða sambúðaraðila er formlega ábyrgt fyrir lánum og hvort hlutaðeigandi sóttu saman um leiðréttinguna.

        Í 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar kemur fram að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar til að lækka höfuðstól fasteignaveðlána umsækjanda samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2013 skulu fara eftir veðröð þeirra lána sem hvíla á fasteign eða fasteignum umsækjanda. Ef tvö eða fleiri lán hvíla á sama veðrétti fasteignar eða fasteignum umsækjanda skal leiðréttingarfjárhæðinni fyrst ráðstafað til að lækka lán sem er með hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi leiðréttingarfjárhæðarinnar, því næst til að lækka lán sem er með næsthæstu eftirstöðvar á samþykktardegi og síðan koll af kolli.

        Stefnandi og stefnda voru samkvæmt ofansögðu í skráðri sambúð á samþykktardegi þann 27. desember 2014. Stefnda er skuldari að láni Íbúðalánasjóðs sem tryggt er með fyrsta veðrétti í fasteign stefndu að [...] og leiðréttingunni var ráðstafað inn á þetta lán, sem var upphaflega að fjárhæð 10.155.034 kr., útg. [...] 2005 og verðtryggt miðað við vísitölu 242.       

          Með vísan til þess sem rakið hefur verið liggur fyrir að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðarinnar inn á framangreint lán áhvílandi á 1. veðrétti fasteignar stefndu var í samræmi við framangreind laga- og reglugerðarfyrirmæli sem um hana gilda. Í 9. gr. reglugerðar nr. 698/2014, sbr. 1. gr. breytingar á reglugerðinni þann 19. desember 2014, segir að samþykki umsækjanda á framkvæmd/ráðstöfun leigufjárhæðar skv. 1.-4. mgr. reglugerðarinnar sé bindandi og taki ekki breytingum þótt hjúskaparstaða breytist.

        Markmiðið með leiðréttingu fasteignalána, sem tekin voru til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, átti að vera umsækjanda til hagsbóta og hún snerist um höfuðstólslækkun sem hefði áhrif á lán út lánstímann.Þá átti hún að leiðrétta þá forsendubresti sem komið hefðu fram í verðtryggingarvísitölum á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Eins og áður segir hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi greitt á móti stefndu af umræddu láni Íbúðalánasjóðs á sambúðartíma aðila og því er ósanngjarnt að stefndu verði gert að greiða stefnanda fjárhæð vegna leiðréttingar á umræddu láni. Þá kærði stefnandi ekki framkvæmd leiðréttingarinnar eins og hann átti kost á, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014.

       Með vísan til þess sem rakið hefur verið ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

       Þá verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sem þykir hæfilega ákveðinn eins og nánar greinir í dómsorði.

        Uppkvaðning dóms hefur, vegna embættisanna dómara, dregist fram yfir frest samkvæmt 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Aðilar og dómari eru sammála um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins.

        Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

        Stefnda, K, er sýkn af kröfum stefnanda, M.

        Stefnandi greiði stefndu 800.000 kr. kr. í málskostnað.