Hæstiréttur íslands

Mál nr. 316/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti
  • Aðfinnslur


                                     

Fimmtudaginn 15. maí 2014.

Nr. 316/2014.

VBS eignasafn hf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

þrotabúi JB Byggingafélags ehf.

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Kæruheimild. Frávísun frá Hæstarétti. Aðfinnslur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu V hf. um að vísað yrði frá dómi eða hafnað nánar tilgreindum kröfum þrotabús J ehf. Með því að litið var svo á að úrskurður héraðsdóms hefði í raun kveðið á um frávísun málsins brast heimild til kæru. Málinu var því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. apríl 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2014, þar sem „kröfu sóknaraðila ... um að framangreindum kröfum varnaraðila ... verði vísað frá dómi eða hafnað af þeim ástæðum sem að framan eru greindar, er hafnað.“ Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfum varnaraðila hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en að því frágengnu að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Í öllum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins var sóknaraðili, sem áður bar heitið VBS Fjárfestingarbanki hf., tekinn til slita 9. apríl 2010 eftir ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Við slitin lýsti varnaraðili, sem tekinn hafði verið til gjaldþrotaskipta 17. mars 2010, kröfu á hendur sóknaraðila, sem í hinum kærða úrskurði er ranglega nefndur „slitabú“, vegna ráðstafana í tengslum við átta nánar tilgreindar greiðslur, sem JB Byggingafélag ehf. hafi innt af hendi til sóknaraðila á tímabilinu 5. nóvember 2008 til 10. nóvember 2009. Höfuðstóll lýstrar kröfu varnaraðila nam samanlagðri fjárhæð þessara greiðslna, 128.498.834 krónum, en dráttarvextir af henni til 9. apríl 2010 voru sagðir vera 24.810.934 krónur, kostnaður af kröfulýsingu 91.364 krónur og krafan þannig samtals 153.401.132 krónur. Samkvæmt kröfulýsingunni var krafan reist á því að þessar átta greiðslur hafi farið fram á fyrrnefndu tímabili með millifærslum af tveimur tilgreindum bankareikningum JB Byggingafélags ehf., en félagið hafi með öllu verið í eigu sóknaraðila og fénu verið ráðstafað inn á skuldir þess við hann. Í kröfulýsingunni kvaðst varnaraðili telja þessar greiðslur riftanlegar samkvæmt 2. mgr. 134. gr. „sem og“ 141. gr. laga nr. 21/1991 og krefðist hann greiðslu fyrrnefndrar fjárhæðar á þeim grunni. Slitastjórn sóknaraðila hafnaði í byrjun að viðurkenna kröfuna vegna vanreifunar hennar og vísaði í þeim efnum til 117. gr. laga nr. 21/1991 og d., e. og f. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þessu mótmælti varnaraðili, en í framhaldi af því féll slitastjórnin frá upphaflegri afstöðu sinni til kröfunnar, sem hún samþykkti að því er varðar sjö greiðslur að höfuðstól samtals 94.498.834 krónur ásamt dráttarvöxtum. Á hinn bóginn tókst ekki að jafna ágreining um viðurkenningu kröfunnar að því leyti, sem hún sneri að greiðslu að fjárhæð 34.000.000 krónur og dráttarvexti af henni. Þeim ágreiningi var beint til héraðsdóms, þar sem mál þetta var þingfest af því tilefni 29. maí 2013.

Fyrir héraðsdómi krafðist varnaraðili þess að fyrrgreind krafa sín yrði viðurkennd við slit sóknaraðila með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krafðist þess á hinn bóginn að kröfunni yrði hafnað og byggði hann annars vegar á því að kröfugerð varnaraðila væri ábótavant og málið vanreifað af hans hendi og hins vegar að ekki væri hér fullnægt skilyrðum til riftunar eftir reglum laga nr. 21/1991. Þegar málið var tekið fyrir í þinghaldi 13. desember 2013 var fært til bókar að ákveðið hafi verið að það yrði „fyrst flutt munnlega um formhlið þess og aðrir ágreiningsþættir þess látnir bíða á meðan endanleg úrlausn er fengin um það atriði.“ Við málflutning, sem fór fram þessu til samræmis 24. febrúar 2014, var bókað að sóknaraðili krefðist „þess nú aðallega að málinu verði vísað frá dómi“, en til vara að kröfum varnaraðila yrði „hafnað á þeim grundvelli sem rakinn er í greinargerð og varða formhlið málsins.“

Í hinum kærða úrskurði var framangreindum dómkröfum sóknaraðila hafnað, en svo sem úrskurðurinn ber með sér var komist að þeirri niðurstöðu með nánar tilgreindum rökum að hvorki væri málið vanreifað af hendi varnaraðila né teldist það galli á kröfugerð hans að ekki hafi verið krafist riftunar á tiltekinni ráðstöfun samhliða kröfu um greiðslu peninga. Efnislega fól úrskurðurinn þannig í sér að hafnað var kröfu, sem sóknaraðili hafði uppi við málflutning í héraði um að málinu yrði vísað frá dómi, þótt sagt hafi verið í úrskurðarorði að hafnað væri kröfu sóknaraðila um að „kröfum varnaraðila“ yrði „vísað frá dómi eða hafnað af þeim ástæðum sem að framan eru greindar“. Þetta val héraðsdóms á orðfæri getur engu breytt um það að úrskurðurinn getur ekki efni sínu samkvæmt sætt kæru vegna gagnályktunar frá j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. málslið 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Máli þessu verður því vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er litið til þess að samhliða þessu máli hafa verið rekin fyrir Hæstarétti þrjú önnur samkynja mál.

Það athugast að frá þingfestingu máls þessa í héraði var gengið út frá því að aðild að því væri háttað þannig að þrotabú JB Byggingafélags ehf. væri sóknaraðili og VBS eignasafn hf. varnaraðili, sbr. 3. mgr. 171. gr. laga nr. 21/1991. Í hinum kærða úrskurði hefur héraðsdómari á hinn bóginn kosið að nefna VBS eignasafn hf. sóknaraðila „í þessum þætti málsins“ og þrotabú JB Byggingafélags ehf. varnaraðila. Þessi háttur á sér enga stoð í lögum og horfir hann síst til glöggvunar við úrlausn málsins.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, VBS eignasafn hf., greiði varnaraðila, þrotabúi JB Byggingafélags ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2014.

                Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð VBS eignasafns hf., var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar 19. apríl 2013 og var það þingfest 29. maí sama ár. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar fimmtudaginn 24. febrúar sl. um formhlið þess. Sóknaraðili í þessum þætti málsins er  VBS eignasafn hf., Suðurlandsbraut 6, Reykjavík en varnaraðili er þrotabú JB Byggingafélags ehf., Borgartúni 26, Reykjavík.

                Í þessum þætti málsins krefst sóknaraðili þess aðallega að kröfum varnaraðila verði vísað frá dómi en til vara að þeim verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.

                Varnaraðili krefst þess að framangreindum kröfum verði hafnað. Þá krefst hann og málskostnaðar í þessum þætti málsins og einnig að verði fallist á kröfur sóknaraðila verði málskostnaður látinn falla niður.

                Í efnisþætti málsins er þrotabú JB Byggingarfélags sóknaraðili en VBS eignasafn hf. varnaraðili.

I

                Eins og fyrr greinir er mál þetta ágreiningsmál við slitameðferð sóknaraðila. Með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009 skipaði Fjármálaeftirlitið 3.mars 2010 bráðbirgðastjórn yfir sóknaraðila, sem þá hét VBS fjárfestingarbanki hf. Sóknaraðili var tekinn til slitameðferðar 9. apríl 2010 og skipuð slitastjórn skv. heimild í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Samkvæmt lögum nr. 161/2002 gilda að meginstefnu reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um slitameðferðina. Frestdagur við skiptin  er 3. mars 2010. Kröfulýsingarfresti lauk 12. nóvember 2010.

                Varnaraðili er þrotabú og var félagið tekið til gjaldþrotaskipta 17. mars 2010. Frestdagur við skiptin mun vera 22. desember 2009. Lýsti varnaraðili kröfu í slitabú sóknaraðila 11. nóvember 2010. Var kröfunni lýst sem fjárkröfu/skaðabótakröfu að fjárhæð 128.498.834 krónur með dráttarvöxtum frá nánar tilgreindum dagsetningum til 9. apríl 2010 að fjárhæð 24.810.934 krónur. Samtals var krafan því, auk kostnaðar vegna kröfulýsingar, að fjárhæð 153.401.132 krónur og var henni lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

                Í kröfulýsingu kemur fram að um sé að ræða millifærslur frá bankareikningum varnaraðila yfir á bankareikninga sóknaraðila á nánar tilgreindu tímabili og fjármununum hafi verið ráðstafað til að greiða niður skuld varnaraðila við sóknaraðila. Er á því byggt að á umræddum tíma hafi sóknaraðili verið nákominn varnaraðila í skilningi 6. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1991. Þá er vísað til þess að með framangreindri greiðslu skulda hafi kröfuhöfum verið mismunað. Kemur og fram að skiptastjóri varnaraðila telji að niðurgreiðsla skulda með umræddum hætti 18. júlí 2008 sé riftanleg á grundvelli 2. mgr. 134. gr. sem og 141. gr. laga nr. 21/1991.

                Framangreindri kröfu var hafnað vegna vanreifunar með bréfi slitastjórnar sóknaraðila 22. ágúst 2011. Var í bréfinu vísað til þess að á það skorti að fram kæmi í kröfulýsingum hver fjárhagsstaða varnaraðila hefði verið þegar greiðslan fór fram og hvers vegna hún hafi falið í sér mismunun gagnvart öðrum kröfuhöfum. Varnaraðili mótmælti ofangreindri afstöðu slitastjórnar á fundi 30. ágúst 2011. Fundir voru haldnir með aðilum 18. nóvember og 16. desember 2011 sem leiddu ekki til niðurstöðu. Með bréfi sóknaraðila 30. nóvember 2012 var varnaraðila tilkynnt að sóknaraðili hefði tekið kröfu varnaraðila til nánari skoðunar og fallist væri á kröfuna að hluta og var samþykkt krafa að fjárhæð 94.498.834 krónur sem almenn krafa. Fundur var haldinn með aðilum 20. desember 2012 og mótmælti varnaraðili því að krafa hans hefði ekki verið tekin til greina að öllu leyti. Varð ekki frekari breyting á afstöðu til þeirrar kröfu sem hér er til meðferðar og var bókað um að ágreiningi aðila yrði vísað til héraðsdóms. Eins og fyrr segir var það gert með bréfi 19. apríl 2013. Er ágreiningur aðila þar sagður afmarkaður við hvort viðurkenna beri kröfu nr. 194 við slitameðferð sóknaraðila, varðandi riftun á greiðslu varnaraðila til sóknaraðila að fjárhæð 34.000.000 krónur 5. nóvember 2008.

                Greinargerð varnaraðila, sóknaraðila í efnisþætti málsins, var lögð fram 10. september 2013. Krafðist hann þess að krafa nr. 194 við slitameðferð VBS eignasafns hf. að fjárhæð 34.000.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. nóvember 2008 til 9. apríl 2010 yrði viðurkennd sem almenn krafa við slitameðferðina á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefðist hann málskostnaðar.

                Sóknaraðili, varnaraðili í efnisþætti málsins, lagði fram greinargerð 22. nóvember 2013 og krafðist þess þar að kröfum varnaraðila yrði hafnað og honum úrskurðaður málskostnaður. Í greinargerð hans voru hafðar uppi málsástæður um að hafna bæri kröfum varnaraðila þegar af þeim ástæðum að þær væru haldnar formgöllum og væru vanreifaðar.

                Í bókun varnaraðila í þinghaldi 21. nóvember 2013 var síðastnefndum röksemdum mótmælt en jafnframt óskað eftir því að málið yrði fyrst flutt um formhlið, jafnvel þótt sóknaraðili krefðist ekki frávísunar. Voru báðir aðila á það sáttir að svo yrði farið með málið.

                Við munnlegan flutning um formhlið gerði sóknaraðili þá breytingu á kröfugerð sinni að krefjast frávísunar, en vísaði einnig til þess að þeir annmarkar sem hann telji vera á málatilbúnaði varnaraðila væru þess eðlis að leiða ætti til frávísunar af sjálfsdáðum.

II

                Í þessum þætti málsins byggir sóknaraðili á því að málatilbúnaður varnaraðila uppfylli ekki skilyrði laga um skýran og ljósan málatilbúnað, sbr. d, e. og f-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Framsetning kröfugerðarinnar geri það enn fremur að verkum að hún torveldi sóknaraðila mjög að verjast kröfunum þar sem það sé með öllu óljóst á hverju hann grundvalli sína kröfugerð, enda sé verulegt ósamræmi á milli kröfugerðar og málsástæðna hans.

                Varnaraðili krefjist þess að krafa nr. 194 á kröfuskrá að fjárhæð 34.000.000 krónur ásamt dráttarvöxtum verði virt sem almenn krafa við slitameðferð sóknaraðila. Af kröfugerðinni leiði eins og hún sé upp byggð, að varnaraðili sé að beina fjárkröfu/skaðabótakröfu að sóknaraðila. Hann geri því ekki kröfu um að tiltekinni ráðstöfun sé rift heldur snúi dómkröfur einvörðungu að tiltekinni peningafjárhæð.

                Byggir sóknaraðili á því að framangreindur háttur á kröfugerð sé í andstöðu við dómaframkvæmd í málum af þessu tagi þar sem ávallt sé annars vegar krafist riftunar á tiltekinni ráðstöfun en á hinn bóginn sett fram fjárkrafa. Byggir sóknaraðili einnig á því að kröfugerð í riftunarmálum verði að gera með ofangreindum hætti og þar sem það hafi ekki verið gert sé krafa varnaraðila vanreifuð og því skuli vísa henni frá dómi eða hafna henni.

                Varnaraðili byggir á því að hann hafi ekki getað höfðað hefðbundið einkamál á hendur sóknaraðila þar sem hann sé undir slitameðferð. Hann hafi því lýsti kröfu við slitameðferðina í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991. Telji hann að kröfulýsing hans fullnægi á allan hátt þeim kröfum sem gerðar séu í 117. gr. laga nr. 21/1991. Með henni hafi verið lýst fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu krafist væri að krafan nyti í skuldaröð. Þá hafi verið gerð grein fyrir helstu málsástæðum sem varnaraðili byggi kröfu sína á. Um sé að ræða ágreiningsmál sem varði hvort kröfur á hendur slitabúi verði viðurkenndar en um slík mál gildi ákvæði XXIII. og XXIV. kafla laga nr. 21/1991. Þá bendir varnaraðili einnig á að sóknaraðili hafi sjálfur afmarkað ágreining aðila í bréfi sínu til héraðsdóms. Sé það einnig í samræmi við fyrri samskipti aðila en sú afstaða sóknaraðila sem um sé deilt í þessum þætti málsins hafi fyrst komið fram í greinargerð hans til dómsins. Ekki hafi komið fram á fyrri stigum annað en að sóknaraðili liti á kröfu varnaraðila sem riftunarkröfu og telji varnaraðili að sóknaraðili hljóti að vera bundinn við þá afstöðu sína. Þá hafi sóknaraðili viðurkennt hluta af þeirri kröfu sem hér er til meðferðar á þeim grundvelli að um riftanlegar ráðstafanir hafi verið að ræða.

III

                Það er að mati dómsins engum vafa undirorpið að í máli þessu er deilt um réttmæti fjárkröfu/skaðabótakröfu sem varnaraðili lýsti við slitameðferð sóknaraðila og að hann hefur krafist þess að krafan njóti stöðu almennrar kröfu, skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferðina. Þá er engum vafa undirorpið að varnaraðili byggir umrædda fjárkröfu sína á því að nánar tilgreind lögskipti milli aðila málsins feli í sér riftanlegar ráðstafanir á grundvelli tilgreindra lagaákvæða XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Er því engin vafi um það hver krafa varnaraðila er eða á hvaða grundvelli hún er byggð. Er krafan því ekki vanreifuð.

                Sóknaraðili byggir og á því að það sé formskilyrði riftunar á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 að gerð sé sérstök krafa um riftun ráðstöfunar auk fjárkröfu. Þar sem það hafi ekki verið gert beri að vísa málinu frá dómi eða hafna kröfum varnaraðila þegar af þeim sökum.

                Eins og kunnugt er hefur sú réttarframkvæmd verið lengi við lýði að því er varðar kröfugerð í málum sem varða riftun ráðstafana þrotamanns á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 að krafa er höfð uppi um riftun tilgreindra ráðstafana og eftir atvikum er einnig gerð krafa um greiðslu peninga. Veldur ekki vafa að slík kröfugerð er heimil. Á hinn bóginn verður ekki þar með talið að þetta leiði sjálfkrafa til þess að aðilum verði talið skylt að gera kröfur með þessum hætti. Eins og fyrr greinir krefst varnaraðili viðurkenningar á fjárkröfu sem hann lýsti í slitabú sóknaraðila. Meðal málsástæðna sem hann byggir umrædda kröfu á er að nánar tilgreindar ráðstafanir aðila séu riftanlegar á grundvelli 2. mgr. 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 og liggur fyrir að ekki yrði unnt að fallast á fjárkröfurnar nema fallist yrði á umræddar málsástæður. Við aðstæður sem telja verður að mörgu leyti sambærilegar þessum á svið stjórnsýsluréttar og kröfuréttar hefur verið talið í réttarframkvæmd að ekki standi réttarfarsleg nauðsyn til þess að gera sérstaka kröfu um ógilding stjórnarathafnar eða riftun samninga samhliða skaðabótakröfu sem leiðir af þeim gerningi sem ógilding eða riftun snýr að. Hefur ekki verið talið að aðili eigi lögarða hagsmuni af úrlausn slíkrar kröfu og hefur það leitt til frávísunar kröfunnar og hefur skaðabótakrafa þá staðið eftir. Þrátt fyrir að tíðkast hafi á því réttarsviði sem hér um ræðir að setja kröfugerð fram með tvískiptum hætti verður ekki talið að fyrir slíku sé réttarfarsleg nauðsyn fremur en á þeim sviðum sem að framan er vitnað til.

                Er því ekki fallist á að fjárkrafa varnaraðila sé haldin formlegum annmörkum sem leitt gætu til frávísunar hennar eða höfnunar. Má, auk framangreinds, vísa til dóms Hæstaréttar 24. apríl 2013 í máli réttarins nr. 190/2013 en þar var fallist á að tiltekin ráðstöfun fjármálafyrirtækis hefði falið í sér gjafagerning og bæri því að telja kröfu sem lýst hafði verið eftirstæða en ekki almenna. Var ekki í því máli höfð uppi sérstök riftunarkrafa en byggt á því sem málsástæðu að umrædd ráðstöfun væri riftanleg.

                Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar er ekki fallist á að kröfugerð eða málatilbúnaður varnaraðila sé haldinn þeim annmörkum að vísa beri kröfu hans frá dómi eða hafnað henni af þeim sökum.

                Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar bíði efnislegrar úrlausnar málsins.

                Af hálfu sóknaraðila flutti málið Þórhallur Bergmann hdl. vegna Lilju Jónasdóttur hrl.

                Af hálfu varnaraðila flutti málið Jón Þór Ólason hdl.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 en uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómara.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Kröfu sóknaraðila, VBS eignasafns hf., um að framangreindum kröfum varnaraðila, þrotabús JB Byggingarfélags ehf., verði vísað frá dómi eða hafnað af þeim ástæðum sem að framan eru greindar, er hafnað.

                Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.