Hæstiréttur íslands
Mál nr. 240/2006
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabótalög
|
|
Fimmtudaginn 2. nóvember 2006. |
|
Nr. 240/2006. |
Pétur Jóhann Sævarsson(Karl Axelsson hrl.) gegn B.G. Bílakringlunni ehf. og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabótalög.
P slasaðist í umferðarslysi í nóvember 1998 og hlaut af því varanlega örorku og varanlegan miska. Ágreiningur aðila snerist annars vegar um hvort varanleg örorka P skyldi bætt samkvæmt þágildandi 5. 7. gr. skaðabótalaga eða á grundvelli 8. gr. sömu laga, svo sem V hafði gert. Í annan stað deildu þeir um rétt P til bóta fyrir annað fjártjón í skilningi 1. gr. skaðabótalaga, sem var að rekja til ferða hans milli Keflavíkur og Reykjavíkur vegna slyssins. Með vísan til þess að P hefði verið á vinnumarkaði með hléum í um 20 mánuði þegar slysið varð, þeirrar skoðunar sem fram kom í matsgerð og örorkumati um að miða yrði við að P muni stunda störf fyrir ófaglærða í framtíðinni, til heilsufars P og til árangurs hans í námi fyrir slys var fallist á með honum að leggja bæri til grundvallar að skólagöngu hans hefði verið lokið þegar slysið varð og hann búinn að marka sér starfsvettvang til framtíðar. Bar samkvæmt því að fara eftir 5. 7. gr. skaðabótalaga við uppgjör bóta og var talið rétt að miða við tekjureynslu P eftir að námi lauk við útreikning bóta. Kröfu P um bætur fyrir annað fjártjón var hafnað þar sem engin gögn höfðu verið lögð fram henni til stuðnings.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. maí 2006. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt 6.811.132 krónur með 2% ársvöxtum af 12.265.532 krónum frá 28. nóvember 1998 til 12. janúar 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til 9. maí 2003, af 9.647.132 krónum frá þeim degi til 23. september 2005, en af 6.811.132 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt 2.768.000 krónur með 2% ársvöxtum af 8.222.400 krónum frá 28. nóvember 1998 til 12. janúar 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af sömu fjárhæð frá þeim degi til 9. maí 2003, af 5.604.000 krónum frá þeim degi til 23. september 2005, en af 2.768.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Að því frágengnu krefst hann þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt 1.741.649 krónur með 2% ársvöxtum af 7.166.596 krónum frá 28. nóvember 1998 til 12. janúar 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af sömu fjárhæð frá þeim degi til 9. maí 2003, af 4.548.196 krónum frá þeim degi til 23. september 2005, en af 1.741.649 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem hann nýtur á báðum dómstigum.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
I.
Áfrýjandi slasaðist í umferðarslysi 28. nóvember 1998, eins og nánar greinir í héraðsdómi, og hlaut af því varanlega örorku og varanlegan miska. Var hvort tveggja þrívegis metið, í síðasta sinn 7. júlí 2005. Ekki er ágreiningur um að leggja niðurstöðu þess mats til grundvallar uppgjöri bóta, en samkvæmt því er varanlegur miski áfrýjanda metinn 50%, en varanleg örorka 40%. Hefur stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. greitt honum í samræmi við það og telur tjón hans vera þar með uppgert að fullu. Af hálfu áfrýjanda var tekið við bótum með fyrirvara.
Ágreiningur málsaðila snýst um tvennt. Annars vegar hvort varanleg örorka áfrýjanda skuli bætt samkvæmt þágildandi 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996, eða á grundvelli 8. gr. sömu laga, svo sem stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. gerði. Verði fallist á með áfrýjanda að fyrrnefndu lagaákvæðin eigi við er einnig deilt um viðmiðunarlaun. Í annan stað krefst áfrýjandi bóta fyrir annað fjártjón í skilningi 1. gr. skaðabótalaga, sem sé að rekja til fjölmargra ferða hans vegna slyssins frá Keflavík til Reykjavíkur til lækna, sálfræðings og endurhæfingar. Nemur sá liður 200.000 krónum í öllum kröfum áfrýjanda.
II.
Áfrýjandi var 17 ára og tæpra 6 mánaða gamall þegar hann lenti í slysinu. Hann hafði þá lokið grunnskólaprófi og verið á vinnumarkaði eftir það með hléum í um 20 mánuði. Í matsgerð 7. júlí 2005 kemur fram að ekki sé unnt að leggja til grundvallar að áfrýjandi muni leggja stund á bílasprautun, sem hann vann við þegar slysið varð, enda standi hugur hans ekki til þess. Verði nú að miða við að hann muni stunda einhver störf fyrir ófaglærða í framtíðinni. Sömu skoðun er lýst í áliti örorkunefndar 20. janúar 2004. Að þessu virtu, svo og heilsufari áfrýjanda og árangri hans í námi fyrir slysið, verður að fallast á með honum að leggja beri til grundvallar að skólagöngu hans hafi verið lokið þegar slysið varð og hann búinn að marka sér starfsvettvang til framtíðar. Aldur hans á slysdegi getur ekki án tillits til atvika að öðru leyti leitt til þess að fylgja beri reglu þágildandi 8. gr. skaðabótalaga við uppgjör bóta fyrir varanlega örorku. Ber samkvæmt því að fara eftir 5.-7. gr. laganna við uppgjör bótanna.
Áfrýjandi krefst þess aðallega að miðað verði við meðallaun iðnaðarmanna við útreikning bóta, til vara meðallaun verkamanna, en til þrautavara hans eigin tekjureynslu eftir að námi lauk. Stefndu krefjast þess að síðastnefnd viðmiðun verði lögð til grundvallar, en ella meðallaun verkamanna. Áfrýjandi starfaði stopult eftir námslok, en fram er komið að óregla setti þá mark á líf hans. Að öllu virtu er rétt að beita þeirri launaviðmiðun, sem felst í þrautavarakröfu áfrýjanda. Óbætt fjártjón hans fyrir varanlega örorku er samkvæmt því 1.541.649 krónur, sem honum verða dæmdar með vöxtum eins og krafist er, en ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.
Áfrýjandi krefst í annan stað bóta fyrir fjártjón, sem felist í útlögðum kostnaði við ferðir milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður þessum lið kröfu hans hafnað.
Stefndu verða dæmdir til að greiða 400.000 krónur upp í málskostnað áfrýjanda á báðum dómstigum, sem renna í ríkissjóð. Ákvörðun gjafsóknarlauna í héraði verður staðfest. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndu, B.G. Bílakringlan ehf. og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði óskipt áfrýjanda, Pétri Jóhanni Sævarssyni, 1.541.649 krónur með 2% ársvöxtum af 6.966.596 krónum frá 28. nóvember 1998 til 12. janúar 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til 9. maí 2003, af 4.348.196 krónum frá þeim degi til 23. september 2005, en af 1.541.649 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renna í ríkissjóð.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarlaun skal vera óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. þessa mánaðar, er höfðað með stefnu birtri 23. desember 2004.
Stefnandi er Pétur Jóhann Sævarsson, Kirkjuvegi 49, Keflavík.
Stefndi eru B G Bílakringlan ehf., Grófinni 7-8, Keflavík og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu verði dæmd in solidum til greiðslu á fjárhæð 6.811.132 krónum ásamt 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af 12.265.532 krónum frá 28. nóvember 1998 til 12. janúar 2003 en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 12.265.532 krónum frá þeim degi til 9. maí 2003 en af 9.647.132 krónumfrá þeim degi til 23. september 2005, en af 6.811.132 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara að stefndu verði dæmd in solidum til greiðslu á fjárhæð 2.768.000 krónum ásamt 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af 8.222.400 krónum frá 28. nóvember 1998 til 12. janúar 2003 en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 8.222.400 krónum frá þeim degi til 9. maí 2003 en af 5.604.000 krónum frá þeim degi til 23. september 2005, en af 2.768.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Til þrautavara að stefndu verði dæmd in solidum til greiðslu á fjárhæð 1.741.649 krónum ásamt 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af 7.166.596 krónum frá 28. nóvember 1998 til 12. janúar 2003 en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 7.166.596 krónum frá þeim degi til 9. maí 2003 en af 4.548.196 krónum frá þeim degi til 23. september 2005, en af 1.741.649 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefndu, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður.
MÁLSATVIK, MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Hinn 28. nóvember 1998 var stefnandi ökumaður bifreiðarinnar VV-991 sem var ekið Reykjanesbrautina til vesturs á eftir bílaröð. Stefnandi gerði tilraun til að aka fram úr bílaröðinni en í þann mund kom bifreið úr gagnstæðri átt og sveigði stefnandi út á vegaröxulinn öfugu megin með þeim afleiðingum að bifreiðin fór út af og valt. Eigandi bifreiðarinnar var stefndi, B G Bílakringlan ehf., og var bifreiðin tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. (VÍS). Ágreiningslaust er að stefnandi njóti óskerts bótaréttar vegna afleiðinga slyssins frá stefndu.
Var stefnandi fluttur á sjúkrahús í Keflavík og eftir læknisskoðun þar var hann fluttur á bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur. Stefnandi slasaðist allverulega og fékk töluverða höfuðáverka, m.a. blæðingar í framheila, heilahristing og höfuðkúpubotnsbrot. Dvaldist hann á gjörgæsludeild í tæpa viku og 30. nóvember 1998 fór hann í aðgerð vegna blæðinga í heila.
Að beiðni lögmanns stefnanda og stefnda VÍS framkvæmdu læknarnir Ragnar Jónsson og Jónas Hallgrímsson örorkumat vegna þriggja umferðarslysa sem stefnandi hefur lent í, m.a. vegna slyssins 28. nóvember 1998. Í matsgerðinni, dags. 10. febrúar 2002, komust læknarnir að þeirri niðurstöðu að vegna slyssins 28. nóvember 1998 hefði stefnandi hlotið 30% varanlegan miska og 30% varanlega örorku. Tímabundið atvinnutjón var metið 100% í tvo og hálfan mánuð en 50% í sex mánuði. Enn fremur töldu þeir að stefnandi hefði verið veikur frá 28. nóvember 1998 til 15. júlí 1999, þar af rúmliggjandi frá 28. nóvember 1998 til 14. desember 1998. Í samantekt læknanna kemur fram að í slysinu þann 28. nóvember 1998 hafði stefnandi fengið alvarlegan höfuðáverka með utanbastblæðingu við litla heila og maráverka í vinstra ennisblaði stóra heila, einnig voru marblettir hægra megin. Ennfremur kemur fram að gerð hafði verið aðgerð á stefnanda þar sem blæðing við litla heila hafi verið hreinsuð út og tæmt út mar og skemmdur vefur í framheilablaði vinstra megin. Afleiðingarnar væru m.a. þær að stefnandi hefði skerta starfsemi í fimmtu heilataug með skertu skyni í andliti og á vinstra auga.
Með bréfi, dags. 12. desember 2002, krafði lögmaður stefnanda Vátryggingafélag Íslands hf. um skaðabætur vegna slysanna þriggja og var einkum stuðst við matsgerð læknanna Ragnars Jónssonar og Jónasar Hallgrímssonar. Greiddi stefndi VÍS þjáningabætur og miska í samræmi við matsniðurstöður en taldi að reikna ætti varanlega örorku út frá 8. gr. skaðabótalaga en ekki á grundvelli 5.-7. gr. laganna eins og stefnandi krafðist. Stefndi VÍS hafnaði ennfremur alfarið greiðslu á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón og annað fjártjón. Stefnandi tók við bótunum með fyrirvara um alla þætti uppgjörsins.
Stefnandi aflaði svo álits örorkunefndar eftir uppgjörið og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda væri 30% en varanleg örorka 35%. Stefndi VÍS hefur ekki greitt stefnanda viðbótarbætur á grundvelli álits örorkunefndar.
Hinn 12. maí 2005 voru Stefán Már Stefánsson prófessor og Torfi Magnússon læknir kvaddir af dómara til að meta hver væri varanlegur miski stefnanda og hver væri varanleg örorka hans vegna slyssins 28. nóvember 1998.
Í niðurstöðu þeirra segir að varanlegur miski stefnanda teldist hæfilega metinn 50% (50 stig) og varanleg örorka hans teldist hæfilega metin 40% (40 stig).
Kröfur sínar um skaðabætur byggir stefnandi á XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, en af þeim leiði að eigandi vélknúins ökutækis skuli bæta það tjón sem hlýst af notkun þess. Tjón stefnanda, sem rakið verður til slyssins, hlaust af notkun ökutækisins VV-991 og ber því eigandi þess, stefndi B G Bílakringlan ehf., ábyrgð á tjóninu. Stefndi B G Bílakringlan hafði tekið tryggingu á grundvelli umferðarlaga hjá stefnda VÍS og er því kröfum beint að þessum aðilum sameiginlega.
Tölulegar kröfur stefnanda um skaðabætur byggja á skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996. Krafa stefnanda um skaðabætur var gerð með bréfi, dags. 12. desember 2002, og miðast kröfur hans við lánskjaravísitölu þess mánaðar. Stefnandi á rétt á dráttarvöxtum frá og með 12. janúar 2003, þegar mánuður var liðinn frá kröfugerð hans, sbr. lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Stefnandi krefst að öðru leyti 2% vaxta af kröfum sínum frá slysdegi og þar til 12. janúar 2003, sbr. 16. gr skaðabótalaga nr. 50/1993.
Aðalkrafa stefnanda er að fjárhæð 6.811.132 krónur.
Byggist hún á því að bætur vegna varanlegrar örorku séu sem hér segir:
10 x 3.016.383 x 40% = 12.065.532 krónur
Annað fjártjón og sjúkrakostnaður = 200.000 krónur
--------------------------
12.265.532 krónur
Innborgun 9. maí 2003 - 2.618.400 krónur
Innborgun 23. sept. 2005 - 2.836.000 krónur
-----------------------------
Samtals 6.811.132 krónur
Árslaunaviðmið er reist á meðaltekjum iðnaðarmanna á slysdegi, uppfærðum til des. 2002:
2.335.400 x 4417/3625 x 1,06 = 3.016.383.
Varakrafa stefnanda er að fjárhæð 2.768.000 krónur.
Byggist hún á eftirfarandi:
10 x 2.005.600 x 40% = 8.022.400 krónur
Annað fjártjón og sjúkrakostnaður = 200.000 krónur
--------------------------
8.222.400 krónur
Innborgun 9. maí 2003 - 2.618.400 krónur
Innborgun 23. sept. 2005 - 2.836.000 krónur
-----------------------------
Samtals 2.768.000 krónur
Árslaunaviðmið er reist á meðaltekjum verkamanna á slysdegi, uppfærðum til des. 2002:
1.555.812 x 4417/3625 x 1,06 = 2.005.600.
Byggist hún á eftirfarandi:
10 x 1.741.649 x 40% = 6.966.596 krónur
Annað fjártjón og sjúkrakostnaður = 200.000 krónur
--------------------------
7.166.596 krónur
Innborgun 9. maí 2003 - 2.618.400 krónur
Innborgun 23. sept. 2005 - 2.836.000 krónur
-----------------------------
Samtals 1.712.196 krónur
Árslaunaviðmið er reist á tekjum stefnanda fyrir slys. Reiknar stefnandi út að mánuðina nóvember 1997 til júní 1998 hafi tekjur hans verið að meðaltali 112.371 krónur á mánuði. Sé árslaunaviðmiðið 1.348.452 krónur en 1.429.359 krónur að viðbættu 6% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Að teknu tilliti til uppfærslu lánskjaravísitölu frá slysdegi til desember 2002, þegar krafa á grundvelli 5.-7. gr. skaðabótalaga var höfð uppi, sé tekjuviðmiðið 1.741.649 krónur.
1.348.452 x 4417/3625 x 1,06 = 1.741.649 krónur.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um bætur vegna varanlegrar örorku á 5.-7. gr. skaðabótalaga. Af hálfu stefnda VÍS hafi bætur hins vegar einungis verið greiddar út á grundvelli 8. gr. en bætur samkvæmt því ákvæði séu til muna lægri en væntanlegt fjártjón stefnanda vegna vinnutekjutaps í framtíðinni. Er á því byggt af hálfu stefnanda að m.a. af þeim sökum geti ákvæðið ekki átt við um bótagreiðslur til hans vegna tekjutjóns í framtíðinni.
Kröfugerð er byggð á mati dómkvaddra matsmanna sem metið hafi varanlega örorku stefnanda 40%.
Krafa stefnanda á grundvelli 5.-7. gr. miðist við meðaltekjur iðnaðarmanna. Er því til stuðnings vísað til 2. mgr. 7. gr. en einsýnt sé, miðað við aldur, ungan starfsaldur og aðstæður stefnanda að öðru leyti, að ákvæðið eigi við um hann. Tilgreindar tekjur hafi á slysdegi verið 2.335.400 krónur. Að viðbættu mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð verða viðmiðunartekjurnar 2.475.524 krónur. Margföldunarstuðull samkvæmt 6. gr. laga nr. 50/1993 hafi verið 10. Þá séu bætur uppfærðar frá lánskjaravísitölu á slysdegi, 3625 stig, til vísitölu desembermánaðar 2002, 4417 en þá hafi bótakrafa verið höfð uppi á grundvelli 5.-7. gr. skaðabótalaga. Viðmiðunartekjur séu því 3.016.383 krónur.
Krafa stefnanda um annað fjártjón og sjúkrakostnað í rýmri merkingu sé reist á 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennum ólögfestum reglum skaðabótaréttarins um að tjónþolar skuli vera eins settir fjárhagslega eftir uppgjör bóta og ef líkamstjón hefði ekki orðið. Krafan grundvallist á því að vegna slyssins hefur stefnandi þurft að standa straum af ýmsum kostnaði og útgjöldum. Ennfremur sé fyrirsjáanlegt að hann verði fyrir nokkrum útgjöldum í framtíðinni vegna slyssins. Erfitt sé að meta þennan kostnað nákvæmlega en að álitum sé krafist 200.000 króna.
Varakrafa er byggð á því að við mat á varanlegri örorku samkvæmt 5.-7. gr. skaðabótalaga skuli miða við meðaltekjur verkamanna.
Þrautavarakrafa er miðuð við tekjur stefnanda eins og þær voru í tæpt ári fyrir slysið. Stefnandi hafi starfað frá árinu 1997 til sumars 1998 hjá Braga Guðmundssyni eins og sjá megi af launaseðlum og skattframtölum sem lögð eru fram við þingfestingu málsins.
Um lagarök er vísað til ákvæða skaðabótalaga, reglna stjórnarskrárinnar um jafnræði og vernd eignarréttar og almennra reglna skaðabótaréttarins. Ábyrgð stefndu byggi á ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987. Vísað er til skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og þau voru á slysdegi. Þá er vísað til vaxtalaga nr. 38/2001 og loks reglna 129. og 130 gr. laga nr. 91/1991 um málskostnað.
Krafa stefndu um sýknu af öllum kröfum stefnanda er á því byggð að með þegar greiddum skaðabótum sé stefnandi búinn að fá bætt allt það tjón sem hann eigi lögvarinn rétt til að fá bætt úr hendi stefnda.
Því er hafnað að beita eigi 5. - 7. gr. skaðabótalaga við útreikning á örorkubótum til handa stefnanda. Beri að ákvarða bætur fyrir varanlega örorku stefnanda eftir 8. gr. skaðabótalaga, en ekki 5. - 7. gr. laganna. Samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996, skuli ákvarða bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur, á grundvelli miskastigs samkvæmt 4. gr. Atvinnuþátttaka stefnanda hafi verið bæði stutt og stopul. Að loknu grunnskólanámi hafi stefnandi starfað um tíma við fiskvinnslu, en skv. yfirlýsingu á dskj. 28 hafði stefnandi starfað um fjögurra vikna skeið á verkstæði föður síns er slysið varð. Hafði hann þá ekki verið á vinnumarkaði um nokkurra mánaða skeið. Er því ljóst að stefnandi hafði á engan hátt mótað sér starfsvettvang er slysið varð og ber því að reikna honum bætur miðað við 8. gr. skbl. Að því er varðar kröfu stefnanda um að við útreikning varanlegrar örorku beri skv. 2. mgr. 7. gr. skbl. að miða við meðallaun iðnaðarmanna, sé því til að svara að stefnandi starfaði ekki sem iðnaðarmaður né heldur hafi hann verið í iðnnámi er slysið varð og ekkert sem benti til þess að hann hefði í hyggju að hefja slíkt nám.
Þá vilja stefndu jafnframt benda á, að stefnandi var barn í skilningi 8. gr. skbl., þegar hann slasaðist, en einstaklingar yngri en 18 ára teljast nú almennt til barna í lagalegum skilningi. Samkvæmt 1. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 20. nóvember 1989 um réttindi barnsins teljast einstaklingar yngri en 18 ára til barna og í barnaverndarlögum gildir hið sama, sbr. 3. gr. laga nr. 80/2002. Í lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 er með börnum átt við einstaklinga allt að 18 ára aldri, sbr. 1. gr. laganna, og sama gildir í barnalögum nr. 20/1992, sbr. 13. gr., en þar segir, að framfærsluskyldu ljúki, þegar barn verður 18 ára. Samkvæmt 29. gr. sömu laga lýkur forsjárrétti og forsjárskyldu, þegar barn verður sjálfráða, en það er við 18 ára aldur skv. lögræðislögum nr. 71/1997. Þá ber að líta til þess að einstaklingar á þessum aldri hafa ekki markað sér varanlegan starfsvettvang, en eru langoftast í námi eða tímabundið á vinnumarkaði og hafa enga marktæka tekjureynslu. Því er eðlilegt að telja einstaklinga allt að 18 ára aldri til barna í skilningi skaðabótalaga nr. 50/1993.
Með vísan til þess er að framan hafi verið rakið hafi verið rétt og skylt að gera upp tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku á grundvelli miskastigs, sbr. 4. gr. laganna, eins og stefndi hagaði uppgjöri sínu, en ekki með hliðsjón af 5.-7. gr. skbl., eins og stefnandi geri kröfu til. Í athugasemdum með 8. gr. í frumvarpinu til skaðabótalaga sé skýrt tekið fram, að bætur til barna beri að ákveða eftir 8. gr., hvort sem þau hafi vinnutekjur eða ekki.
Kröfu stefnanda um annað fjártjón og sjúkrakostnað í rýmri merkingu er mótmælt sem bæði ósannaðri og órökstuddri. Séu af hálfu stefnanda engin gögn lögð fram þessum kröfulið til stuðnings.
Vaxtakröfu stefnanda er mótmælt. Eldri vextir en fjögurra ára frá birtingu stefnu séu fyrndir skv. 2. tl. 3. gr. 1. nr. 14/1905.
Kröfur um málskostnað styðja stefndu við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
NIÐURSTAÐA
Stefnandi var á átjanda aldursári er hann varð fyrir slysi 28. nóvember 1998. Í málatilbúnaði hans kemur fram að hann hafði haft 898.968 krónur í tekjur mánuðina nóvember 1997 til júní 1998. Tekjusaga hans er því stutt og eru aðstæður hans um flest líkar því sem við á í Hæstaréttarmálinu nr. 393/2003 auk þess að stefnandi hafði ekki náð átján ára aldri er hann slasaðist. Verður því fallist á það með stefndu að stefnanda beri að ákvarða bætur í samræmi við 8. gr. skaðabótalaga eins og hún var á slysdegi og að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi greitt stefnanda bætur í samræmi við það.
Gögn skortir til stuðnings kröfu stefnanda um greiðslu vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar og er þessum lið því hafnað.
Samkvæmt framansögðu verða stefndu sýknaðir af öllum kröfum stefnanda en málskostnaður á milli aðila verður felldur niður.
Stefnandi fékk gjafsókn í máli þessu og greiðist gjafsóknarkostnaður hans, 681.000 krónur í þóknun til lögmanns hans að viðbættum 166.845 krónum í virðisaukaskatt og 369.785 krónur vegna útlagðs kostnaðar, samtals 1.217.630 krónur úr ríkissjóði.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndu, B G Bílakringlan ehf. og Vátryggingafélag Íslands hf., skulu sýknir af öllum kröfum stefnanda Péturs Jóhanns Sævarssonar.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 1.217.630 krónur, greiðist úr ríkissjóði.