Hæstiréttur íslands

Mál nr. 693/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Krafa
  • Lögjöfnun
  • Lánssamningur


                                              

Fimmtudaginn 13. desember 2012.

Nr. 693/2012.

Þrotabú Hlutafjár ehf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Ívar Pálsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Krafa. Lögjöfnun. Lánssamningur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á að krafa Í hf. kæmist að við gjaldþrotaskipti H ehf. Kröfunni var lýst á grundvelli samnings um lán forvera Í hf. til H ehf. en kröfulýsing barst skiptastjóra þrotabús H ehf. eftir að kröfulýsingafresti lauk. Hæstiréttur féllst á að krafan kæmist að við skiptin með lögjöfnun frá 143. gr., sbr. 6. tl. 188. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., enda hafði kröfunni verið lýst í kjölfar dóms Hæstaréttar þar sem Í hf. var gert að greiða þrotabúinu til baka fé sem Í hf. hafði í heimildarleysi leyst til sín vegna vanskila H ehf. Krafa Í hf. var aftur á móti lækkuð. Var lagt til grundvallar að samningur aðila hefði verið um lán í íslenskum krónum en ekki í erlendum myntum eins og miðað hafði verið við í kröfulýsingu Í hf. .

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2012, þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 185.856.123 krónur var viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun skiptastjóra um að hafna kröfu varnaraðila. Til vara er þess krafist að ekki verði viðurkennd hærri krafa en 48.258.281 króna. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur auk kærumálskostnaðar.

I

Hinn 11. apríl 2000 gerði Hlutafé ehf., sem þá hét Garðar Gíslason ehf., lánssamning við forvera varnaraðila „að jafngildi ISK 148.756 þús. krónur“ í nánar tilgreindum erlendum myntum. Hlutafé ehf. skuldbatt sig til að endurgreiða lánið með einni greiðslu 1. apríl 2005. Sá samningur var framlengdur til þriggja ára með nýjum lánssamningi 5. apríl 2005 þar sem félagið tók að láni „að jafnvirði Kr. 120.500.000 ... í íslenskum krónum og erlendum myntum“. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði setti Hlutafé ehf. samkvæmt samningnum að handveði verðbréf í skráðum félögum til tryggingar greiðslu á öllum skuldum og öðrum fjárskuldbindingum við forvera varnaraðila. Með svokölluðum viðauka 31. mars 2008 „við lánssamning dagsettan 05.04.2005 ... um lán til 3 ára að fjárhæð kr. 120.500.000 ... í íslenskum og erlendum myntum“ var gjalddagi færður til 1. apríl 2009, jafnframt því sem gerð var breyting á skilmálum um vexti. Framangreind bréf, sem sett höfðu verið að handveði, voru seld 3. október 2008 og andvirði þeirra fært á sparisjóðsbók á þáverandi nafni Hlutafjár ehf. en fyrirsvarsmaður félagsins neitaði í kjölfarið að undirrita yfirlýsingu þess efnis að innstæðan yrði handveðsett til tryggingar skuldum þess hjá forvera varnaraðila. Varnaraðili yfirtók lánssamninginn 14. október 2008 samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Þann 10. febrúar 2009 tilkynnti varnaraðili Hlutafé ehf. að vegna vanskila hefði lán félagsins verið gjaldfellt. Daginn eftir leysti varnaraðili til sín innstæðuna á umræddri sparisjóðsbók en hún var þá 128.291.753 krónur og mun henni hafa verið ráðstafað til greiðslu á hinu gjaldfellda láni.

Bú Hlutafjár ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 12. maí 2009 og mun kröfulýsingarfresti hafa lokið 25. júlí það ár. Hinn 22. janúar 2010 höfðaði fyrrum fyrirsvarsmaður félagsins, sem lýst hafði kröfu í búið, mál gegn varnaraðila til hagsbóta búinu samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 og gerði kröfu um að sóknaraðila yrði greidd sú fjárhæð sem varnaraðili leysti til sín af sparisjóðsbók Hlutafjár ehf. auk dráttarvaxta. Á kröfu hans var fallist með dómi Hæstaréttar 20. október 2011 í máli nr. 666/2010 og greiddi varnaraðili sóknaraðila dómskuldina 24. nóvember 2011.

Varnaraðili lýsti 10. nóvember 2011 kröfu við gjaldþrotaskipti sóknaraðila vegna vanskila Hlutafjár ehf. á greiðslum samkvæmt lánssamningi aðila en í kröfulýsingu kom fram að eftirstöðvar samningsins með dráttarvöxtum væru 185.849.649 krónur. Var kröfunni lýst „á grundvelli heimildar í 143. gr. laga nr. 21/1991, sbr. dómur Hæstaréttar í máli 666/2010.“

II

Í upphafi 118. gr. laga nr. 21/1991 er mælt svo fyrir að krafa á hendur þrotabúi, sem ekki er lýst fyrir skiptastjóra áður en kröfulýsingarfresti lýkur samkvæmt 2. mgr. 85. gr. sömu laga, falli niður gagnvart því nema svo standi á, sem í einhverjum af sex töluliðum fyrrnefndu lagagreinarinnar segir, enda sé ekki unnt að fylgja kröfunni fram gagnvart þrotabúinu eftir 116. gr. laganna. Óumdeilt er að krafa varnaraðila barst sóknaraðila eftir að fresti til að lýsa kröfum var lokið en varnaraðili krefst þess að krafa hans verði engu að síður tekin til greina við skipti sóknaraðila og vísar í því sambandi til 143. gr. laga nr. 21/1991. Að því leyti sem varðar mál þetta segir í ákvæðinu að þeim sem gert er að sæta riftun og greiða þrotabúi fé samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 eða öðrum ákvæðum þeirra laga skuli skylt að inna sína greiðslu af hendi til þrotabúsins án tillits til þess hvenær úthlutun fari fram úr búinu en viðkomandi skuli síðan heimilt að koma að upphaflegri fjárkröfu sinni á hendur þrotabúinu og njóta jafnrar stöðu við aðra lánardrottna sem hafa jafnréttháar kröfur. Eins og rakið hefur verið var greiðsla varnaraðila til sóknaraðila 24. nóvember 2011 til komin vegna fyrrgreinds dóms Hæstaréttar með þeirri niðurstöðu að varnaraðila hefði ekki verið heimilt að ganga að tiltekinni innstæðu á sparisjóðsbók í eigu Hlutafjár ehf. vegna vanskila á lánssamningi þeim sem krafa varnaraðila í máli þessu er reist á. Þótt greiðslan hafi ekki verið til komin vegna riftunar á grundvelli ákvæða laga nr. 21/1991 verður aðstöðu varnaraðila, að gengnum dómi, öldungis jafnað til þess tilviks sem fjallað er um í 143. gr., sbr. 6. tl. 118. gr. laganna. Verður þeim ákvæðum því beitt með lögjöfnun um kröfu varnaraðila og staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að krafan komist að við skiptin. 

III

Til vara krefst sóknaraðili að krafa varnaraðila verði lækkuð verulega með vísan til þess að grundvöllur hennar sé samningur um lán í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra mynta, með ólögmætum hætti. Í héraðsgreinargerð sinni hélt sóknaraðili því fram að krafa varnaraðila við skipti sóknaraðila væri vanreifuð enda væri hún „vegna ólögmæts gengisláns og ... lýsing kröfunnar í kröfulýsingu verulega áfátt.“ Verður ekki fallist á með varnaraðila að málsástæða sóknaraðila til stuðnings varakröfu sé of seint fram komin.

Á forsíðu lánssamnings aðila 5. apríl 2005 var tilgreint að hann væri „Lánssamningur Lán í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum“. Eins og áður greinir kom fram í upphafi samningsins að um væri að ræða „lánssamning til 3 ára að fjárhæð að jafnvirði Kr. 120.500.000 – krónur ... í íslenskum krónum og erlendum myntum með þeim skilmálum sem greinir í samningi þessum.“ Í 1. gr. samningsins sem bar yfirskriftina „Lánsfjárhæð og útborgun“ sagði að lántaki skyldi senda lánveitanda beiðni um útborgun með að minnsta kosti tveggja virkra „bankadaga fyrirvara“. Þá sagði að í útborgunarbeiðni skyldi tilkynna lánveitanda í hvaða myntum lántaki hygðist taka lánið og í hvaða hlutföllum, þó að lágmarki 5% fyrir einstakan gjaldmiðil, þó að hámarki 50% af lánsfjárhæðinni að undanskildum íslenskum krónum. Fjárhæð hvers erlends gjaldmiðils fyrir sig skyldi þó ekki ákveðin fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins. Á því tímamarki yrðu fjárhæðirnar endanlegar og myndu ekki breytast innbyrðis þaðan í frá, þótt upphafleg hlutföll þeirra kynnu að breytast á lánstímanum. Lánið yrði þá eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum og íslenskum krónum samkvæmt heimildum samningsins.

Samkvæmt 2. gr. samningsins skyldi lántaki endurgreiða lánið með einni greiðslu 1. apríl 2008 í þeim gjaldmiðlum sem það samanstæði af. Í 3. gr. voru ákvæði um vexti, vaxtabreytingar og greiðslu vaxta. Sagði þar meðal annars í a. lið greinarinnar að lánshlutar í erlendum myntum, öðrum en evrum skyldu bera vexti sem væru þriggja mánaða LIBOR vextir eins og þeir væru ákveðnir fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, að viðbættu vaxtaálagi, 1,65%. Með LIBOR (London Inter Bank Offered Rate) vöxtum væri átt við vexti á millibankamarkaði í London eins og þeir væru auglýstir klukkan 11 að staðartíma í London „á BBA-síðu Reuters.“ Þá sagði í b. lið að lánshluti í evrum skyldi bera þriggja mánaða EURIBOR vexti eins og þeir væru ákveðnir hverju sinni, að viðbættu 1,65% vaxtaálagi. Með EURIBOR (European Inter Bank Offer Rate) vöxtum væri átt við vexti á millibankamarkaði í aðildarríkjum Evrópska myntbandalagsins eins og þeir væru auglýstir klukkan 11 að staðartíma í Brüssel „á EURIBOR01-síðu Reuter.“ Einnig sagði í c. lið að lánshluti í íslenskum krónum skyldi bera vexti sem væru þriggja mánaða REIBOR vextir eins og þeir væru skráðir af Seðlabanka Íslands samkvæmt 7. gr. reglna Seðlabankans nr. 177/2000 um viðskipti á millibankamarkaði í íslenskum krónum, að viðbættu vaxtaálagi 1,65%.

Í e. lið 3. gr. samningsins sagði að lánveitanda væri við vanefnd lántaka heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi lánveitanda á gjaldfellingardegi í „þeim myntum sem lánið samanstendur af“. Bæri þá að greiða dráttarvexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttavaxta og vanefndarálag, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags. Kæmi til vanefnda lántaka á greiðslu „samkvæmt samningi þessum í íslenskum krónum“ bæri lántaka að greiða dráttarvexti samkvæmt c. lið 3. gr.

Eins og áður greinir var gerður svokallaður viðauki 31. mars 2008 „við lánssamning dagsettan 05.04.2005 ... um lán til 3 ára að fjárhæð kr. 120.500.000 ... í íslenskum og erlendum myntum.“ Ekki var lengur vísað til jafnvirðis en tekið fram að ákvæði lánssamningsins 5. apríl 2005 skyldu halda sér en ef frá væri talin framangreind breyting á gjalddaga skyldi upphafstími vaxta vera 1. apríl 2008 og jafnframt skyldi vaxtaálag á LIBOR, ERIBOR og REIBOR vexti hækka úr 1,65% í 2,75%.

Lánssamningur aðila er um margt líkur þeim lánssamning sem fjallað var um í dómi réttarins 11. júní 2012 í máli nr. 332/2012 en í því máli var lagt til grundvallar að um hafi verið að ræða gilt lán í erlendri mynt. Auk ofangreindra ákvæða lánssamnings lá fyrir í því máli „kaupnóta lánssamnings“ þar sem fram kom heildarlánsfjárhæð í evrum og skjal sem bar yfirskriftina „gjaldeyrispöntun“ með sömu tilgreiningu lánsfjárhæðarinnar í evrum. Þá var fjárhæð lánsins lögð inn á gjaldeyrisreikning   

Sambærileg skjöl og upplýsingar og að framan greinir liggja ekki fyrir um samning þann sem um ræðir í þessu máli. Þannig kemur hvergi fram í samningnum eða öðrum gögnum málsins að lánið hafi verið tekið eða greitt út í erlendum gjaldmiðlum og hefur varnaraðili með öllu látið hjá líða að leiða þetta í ljós. Verður því að leggja til grundvallar að samningurinn hafi verið um lán að fjárhæð 120.500.000 íslenskar krónur. Hvorki virðist vera ágreiningur um að greiddar hafi verið 75.038.842 krónur vegna lánsins né að lántaki hafi staðið skil á greiðslu samningsvaxta. Nema eftirstöðvar lánssamningsins samkvæmt því 45.461.158 krónum. Dráttarvaxtakrafa varnaraðila í kröfulýsingu hefur ekki verið rökstudd en sóknaraðili hefur fallist á að greiða hluta hennar. Heildarfjárhæð kröfu varnaraðila við skipti sóknaraðila er því 48.258.281 króna og nýtur rétthæðar í skuldaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.     

Dómsorð:

Viðurkennd er sem almenn krafa við gjaldþrotaskipti sóknaraðila, þrotabús Hlutafjár ehf., samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., krafa varnaraðila, Íslandsbanka hf., að fjárhæð 48.258.281 króna.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2012 .

I

Mál þetta var þingfest 20. mars sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum mál­flutningi 16. október sl. Sóknaraðili er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, en varnaraðili er þrotabú Hlutafjár ehf., áður til heimilis að Hverfisgötu 6, einnig í Reykjavík.

Sóknaraðili gerir þá kröfu að krafa hans að fjárhæð 185.856.123 krónur verði viður­kennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við skipti á þrota­búi Hlutafjár ehf. Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Varnaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun skiptastjóra um að hafna kröfu sóknaraðila og að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.

II

Bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta 12. maí 2009. Félagið hét áður Garðar Gíslason ehf., en nafni þess var breytt í Hlutafé ehf. í ársbyrjun 2009.

Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 666/2010, sem kveðinn var upp 20. október 2011, var sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila 128.291.753 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 25. mars 2009 til greiðsludags. Atvik þess máls voru þau að Garðar Gíslason ehf. gerði á árinu 2000 lánssamning við sóknaraðila og var sá samningur framlengdur til þriggja ára með nýjum samningi árið 2005. Með samningnum setti Garðar Gíslason ehf. að handveði verðbréf í skráðum félögum, sem varðveitt skyldu í vörslu sóknaraðila. Með sérstakri handveðsyfirlýsingu voru tilgreind hlutabréf í Kaupþingi banka hf. sett að handveði fyrir skuldinni. Bréfin voru seld 3. október 2008 og færði sóknaraðili andvirði þeirra á sparisjóðsbók sem stofnuð hafði verið í nafni Garðars Gíslasonar ehf. Vegna vanskila varnaraðila gjaldfelldi sóknaraðili síðar skuldina samkvæmt lánssamningnum og ráðstafaði til sín þeirri fjárhæð sem var á sparisjóðsbókinni. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að samkvæmt fyrrnefndum veðsamningi hafi veðsala verið óheimilt að veðsetja öðrum eða framselja hin veðsettu hlutabréf án samþykkis veðhafa. Þá kæmi þar fram að veðhafa væri heimilt að ráðstafa arðgreiðslum af hinu veðsetta inn á sérstakan reikning sem settur yrði að handveði fyrir skuld veðsala. Á hinn bóginn væri ekki kveðið á um að veðréttur skyldi færast yfir á andvirði hlutabréfanna ef til sölu þeirra kæmi. Að lögum þyrfti sérstaka yfirlýsingu af hálfu veðsala ef svo ætti að verða. Þar sem slík yfirlýsing lægi ekki fyrir í málinu og ákvæði laga nr. 75/1997, um samningsveð, ættu ekki við, var fallist á kröfu varnaraðila um að andvirði hlutabréfanna skyldi renna til hans.

Í samræmi við dóm Hæstaréttar greiddi sóknaraðili varnaraðila 187.267.063 krónur 24. nóvember 2011. Nokkrum dögum áður, eða 10. nóvember 2011, lýsti sóknaraðili kröfu sinni í þrotabú varnaraðila, alls að fjárhæð 185.856.123 krónur. Í kröfulýsingu er tekið fram að kröfunni sé lýst á grundvelli heimildar í 143. gr. laga nr. 21/1991. Á skiptafundi 16. mars 2012 hafnaði skiptastjóri kröfunni, en sóknaraðili mótmælti þeirri afstöðu. Þar sem ágreiningur aðila varð ekki jafnaður ákvað skiptastjóri að vísa málinu til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt fyrirmælum 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.

III

Krafa sóknaraðila byggist á því að við endurgreiðslu sóknaraðila samkvæmt fyrrnefndum dómi Hæstaréttar hafi skuld varnaraðila við sóknaraðila samkvæmt lánssamningi aðila frá 5. apríl 2005 raknað við. Með vísan til 2. málsliðar 143. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sé honum því heimilt að lýsa eftirstöðvum skuldarinnar í bú varnaraðila sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þótt fyrrnefnt mál varnaraðila gegn sóknaraðila hafi ekki verið rekið sem riftunarmál, telur sóknaraðili að það atriði getið ekki ráðið úrslitum um heimild hans til að lýsa kröfunni og fá hana viðurkennda, enda eigi hér við öll sömu sjónarmið og ef um riftunarmál hefði verið að ræða. Með sömu rökum hafnar hann þeirri málsástæðu varnaraðila að krafan sé of seint fram komin, en leggur þess í stað áherslu á að hann hafi ekki getað lýst kröfunni fyrr en að fenginni endanlegri dómsniðurstöðu. Þá mótmælir hann málsástæðu varnaraðila um að krafan sé vanreifuð. Varnaraðili hafi ekki fyrr dregið í efa lögmæti lánssamningsins frá 5. apríl 2005. Fyrir liggi hins vegar úrlausnir dómstóla um að sambærilegir lánssamningar séu að öllu leyti lögmætir.

IV

Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að kröfulýsing sóknaraðila sé allt of seint fram komin. Kröfulýsingarfresti í þrotabúið hafi lokið 25. júlí 2009, en krafa sóknaraðila hafi fyrst verið móttekin af skiptastjóra 15. nóvember 2011. Sóknaraðili hafi hins vegar innan tilskilins frests lýst þremur öðrum kröfum sínum, og hafi ekkert verið því til fyrirstöðu að hann lýsti einnig þeirri kröfu sem hér sé deilt um, ekki síst í ljósi þess að hann hafi þá vitað að ágreiningur stæði um hana.

Í öðru lagi byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila sé ekki þess eðlis að hún eigi undir 143. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafan sé ekki til komin vegna riftunar í skilningi lagaákvæðisins, en það eigi einungis við um kröfur sem stofnast hafi vegna riftunar samkvæmt XX. kafla laganna. Ágreiningur aðila, sem lyktað hafi með áðurnefndum dómi Hæstaréttar hafi ekki varðað riftun, heldur hafi þar aðeins verið tekist á um sölu hlutabréfa í eigu varnaraðila og ráðstöfun söluandvirðisins.  

Í þriðja lagi byggist krafa varnaraðila á því að krafa sóknaraðila sé verulega vanreifuð. Krafan sé vegna ólögmæts gengisláns og sé lýsingu hennar mjög áfátt.

Að endingu kveðst varnaraðili mótmæla kröfu sóknaraðila um vexti af kröfunni eftir úrskurðardag, enda fari slík krafa í bága við 114. gr. laga nr. 21/1991.

V

Eins og fram er komið var sóknaraðili með dómi Hæstaréttar 20. október 2011, í málinu nr. 666/2010, dæmdur til að greiða varnaraðila 128.291.753 krónur, auk dráttarvaxta. Í því máli krafðist varnaraðili endurgreiðslu á andvirði hlutabréfa, sem sóknaraðili hafði tekið að sér að selja í október 2008, en ráðstafað þeim fjármunum 11. febrúar 2009 til greiðslu inn á skuld varnaraðila við sóknaraðila samkvæmt lánssamningi aðila frá 5. apríl 2005. Af endurriti dóms í málinu, sem lagt hefur verið fram, má sjá að málið hafi verið höfðað 22. janúar 2010 af Halldóri Þór Halldórssyni, fyrrverandi stjórnarmanni og framkvæmdastjóra varnaraðila, samkvæmt heimild þrotabús varnaraðila og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991. Málið var ekki rekið sem riftunarmál samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Í kjölfar dóms Hæstaréttar greiddi sóknaraðili varnaraðila hina dæmdu fjárhæð, auk dráttarvaxta, samtals 187.267.063 krónur, en lýsti um sama leyti kröfu sinni á hendur varnaraðila, alls að fjárhæð 185.856.123 krónur. Tekið var fram að kröfunni væri lýst á grundvelli 143. gr. laga nr. 21/1991, en um rétthæð hennar var vísað til 113. gr. sömu laga. Í máli þessu byggir sóknaraðili á því að við endurgreiðslu kröfunnar samkvæmt margnefndum dómi hafi raknað við skuld varnaraðila við sóknaraðila samkvæmt áðurnefndum lánssamningi.

Samkvæmt 143. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., skal þeim sem gert er að sæta riftun og greiða þrotabúinu fé samkvæmt 142. gr. eða öðrum ákvæðum laganna, eða afhenda því verðmæti samkvæmt 144. gr. sömu laga, að inna sína greiðslu af hendi til þrotabúsins án tillits til þess hvenær úthlutun fari fram. Í 2. málslið sama ákvæðis segir síðan: „Honum skal heimilt að koma að upphaflegri fjárkröfu sinni á hendur þrotabúinu og njóta jafnrar stöðu við aðra lánardrottna sem hafa jafnréttháar kröfur.“

Að áliti dómsins verður ofannefnt ákvæði laga nr. 21/1991 ekki skýrt svo að það eigi aðeins við í þeim tilvikum þegar þrotabúið endurheimtir fé eða önnur verðmæti á grundvelli riftunarreglna XX. kafla gjaldþrotaskiptalaga, enda er þar tekið fram að hið sama eigi við þegar aðila er gert að greiða þrotabúinu fé samkvæmt „öðrum ákvæðum laganna“. Þótt umrætt mál varnaraðila gegn sóknaraðili hafi á sínum tíma verið höfðað til endurheimtu fjármuna sem sóknaraðili hafði ráðstafað til sín án heimildar varnaraðila, telur dómurinn að það eitt eigi ekki að girða fyrir að sóknaraðila verði heimilað að koma að upphaflegri fjárkröfu sinni á hendur varnaraðila og njóta við skiptin jafnrar stöðu við aðra lánardrottna sem hafa jafnréttháar kröfur. Er þá einkum til þess horft að í því máli var tiltekinni ráðstöfun hnekkt og fjármunir endurheimtir til hagsmuna fyrir þrotabúið og kröfuhafa þess. Fær dómurinn ekki séð að nein rök standi til þess að önnur sjónarmið eigi við í slíkum tilvikum en þegar rift er ráðstöfun þrotamanns og verðmæti endurheimt á grundvelli riftunarreglna XX. kafla laga nr. 21/1991. Að áliti dómsins færi slík niðurstaða einnig í bága við meginreglu laganna um jafnræði lánardrottna við gjaldþrotaskipti. Í þessu ljósi verður hafnað þeirri málsástæðu varnaraðila að sóknaraðili geti ekki komið kröfu sinni að við skiptin, þar sem 143. gr. laganna eigi eingöngu við um þær kröfur sem stofnast hafi vegna riftunar samkvæmt XX. kafla þeirra.

Ekki er um það deilt að sóknaraðili lýsti kröfu sinni án ástæðulausra tafa í kjölfar áðurnefnds dóms Hæstaréttar. Því telst krafan ekki niður fallin gagnvart varnaraðila þótt henni hafi fyrst verið lýst með kröfulýsingu sóknaraðila 10. nóvember 2011, sbr. 6. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991.

Þótt taka megi undir það sjónarmið varnaraðila að krafa sóknaraðila samkvæmt kröfulýsingu hans sé lítt reifuð, er fullyrðing varnaraðila um að krafan sé „vegna ólögmæts gengisláns“ með öllu órökstudd. Þrátt fyrir það lýsti varnaraðili því yfir við munnlegan flutning málsins að enginn ágreiningur væri um fjárhæð kröfunnar. Þegar af þeirri ástæðu eru engin efni til að hafna kröfunni vegna vanreifunar. Ekki er heldur hald í mótmælum varnaraðila við vöxtum eftir úrskurðardag, þar sem ekki verður séð að slíkra vaxta sé krafist af hálfu sóknaraðila.

Samkvæmt framanrituðu verður fallist á að sóknaraðila sé heimilt að koma að kröfu sinni á hendur varnaraðila, alls að fjárhæð 185.856.123 krónur. Nýtur krafan rétthæðar sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Þrátt fyrir niðurstöðu málsins þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Krafa sóknaraðila, Íslandsbanka hf., alls að fjárhæð 185.856.123 krónur, er viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila, Hlutafjár ehf.

Málskostnaður fellur niður.