Hæstiréttur íslands
Mál nr. 86/2006
Lykilorð
- Skjalafals
- Vegabréf
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 4. maí 2006. |
|
Nr. 86/2006. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn Charles Benedict (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Skjalafals. Vegabréf. Sératkvæði.
C, sem kvaðst vera 25 ára nígerískur ríkisborgari, játaði að hafa við komu til Íslands haft meðferðis falsað breskt vegabréf og að hafa framvísað því við innritun á farfuglaheimili. Var hann dæmdur til 30 daga óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 19. janúar 2006 að ósk ákærða, sem kveðst heita Charles Benedict, og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en þyngingar á refsingu ákærða.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin.
Ákærði, sem kveðst vera 25 ára nígerískur ríkisborgari, hefur játað að hafa við komu til Íslands 19. nóvember 2005 haft meðferðis falsað breskt vegabréf með nafninu Micheal Healy og að hafa framvísað því við innritun á Farfuglaheimilinu í Laugardal 27. sama mánaðar.
Ákærði hefur játað brot sín og hlaut málið meðferð fyrir héraðsdómi samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði. Af hálfu ákæruvalds hefur ekki verið gerð krafa um að hann greiði annan kostnað af áfrýjun málsins.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Charles Benedict, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Ég er sammála meirihluta dómenda um að staðfesta beri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða og 30 daga fangelsi.
Vegna kröfu ákærða um skilorðsbindingu refsingarinnar hefur ákæruvaldið vísað til dóma sem kveðnir voru upp 11. desember 2003 í málum fimm erlendra manna og birtir eru í dómasafni Hæstaréttar það ár á bls. 4492, 4498, 4504, 4510 og 4516. Í þeim málum voru sakborningar sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa framvísað fölsuðum vegabréfum við vegabréfaskoðun vegna landamæraeftirlits á Keflavíkurflugvelli. Í forsendum dómanna var meðal annars tekið fram, þegar fjallað var um refsiákvarðanir, að ekki yrði fram hjá því horft að ákærðu hefðu notað hin fölsuðu skjöl til að komast ólöglega inn í annað land. Þóttu þar ekki efni til að skilorðsbinda refsingar og var um þá niðurstöðu að auki sérstaklega vísað til eðlis brotanna, hversu alvarleg þau væru og litið til almennra varnaðaráhrifa refsinga. Í þessu máli er ákærði ekki sakaður um að hafa notað hið falsaða vegabréf til að komast inn í landið, enda virðist hann þá ekki hafa þurft að framvísa vegabréfi. Er honum í I. kafla ákæru einungis gefið að sök að hafa haft vegabréfið meðferðis við komuna til landsins, þannig að varði við h-lið 2. mgr. 57. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Skjalafalsbrotið í II. kafla ákærunnar, sem talið er varða við 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, felst í því að ákærði framvísaði hinu falsaða vegabréfi við innritun á gistiheimili. Þetta brot er að mínum dómi þess háttar að 3. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga á við. Þegar á allt þetta er litið verður að telja brotin í nefndum dómum frá 2003 sýnu alvarlegri en þau sem ákærði er sakfelldur fyrir í þessu máli. Tel ég því að fallast beri á kröfu ákærða um skilorðsbindingu refsingar hans. Fyrir liggur að ósk ákærða um áfrýjun héraðsdóms hafði einkum það markmið að fá endurskoðun á héraðsdóminum að þessu leyti. Tel ég því að greiða beri áfrýjunarkostnað málsins úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2006.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 29. desember 2005 á hendur:
,,manni sem kveðst heita Charles Benedict,
fæddur 7. júlí 1980, nígerískur ríkisborgari,
fyrir eftirtalin brot framin í nóvember 2005:
I.
Brot á lögum um útlendinga, með því að hafa við komu hingað til lands 19. nóvember undir ranga nafninu Micheal Healy haft meðferðis falsað breskt vegabréf með því nafni, sem ákærði vissi að var falsað.
Telst þetta varða við h-lið 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga nr. 96, 2002, sbr. 16. gr. laga nr. 20, 2004.
II.
Skjalafals, með því að hafa 27. nóvember framvísað ofangreindu vegabréfi við innritun á Farfuglaheimilinu, Sundlaugavegi 34, Reykjavík.
Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem í báðum köflum ákærunnar greinir og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða.
Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður hlotið refsingu.
Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur skýlaust játað brot sín og er það virt honum til refsilækkunar. Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 30 daga. Að teknu tilliti til dómaframkvæmdar í sambærilegum málum þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsivistina.
Ákærði greiði 124.500 krónur í málsvarnarlaun til Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þóknunin er fyrir vinnu verjandans bæði á rannsóknarstigi og undir dómsmeðferð málsins.
Einar E. Laxness, fulltrú lögreglustjórans í Reykjavík, flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Charles Benedict, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákærði greiði 124.500 krónur í málsvarnarlaun til Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns.