Hæstiréttur íslands
Mál nr. 478/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Opinber skipti
- Matsgerð
|
|
Fimmtudaginn 26. ágúst 2010. |
|
Nr. 478/2010. |
M (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) gegn K (Björn Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Opinber skipti. Matsgerð.
Við opinber skipti til fjárslita vegna hjúskaparslita M og K reis ágreiningur um verðmæti tveggja félaga sem koma áttu í hlut M. Ákvað skiptastjóri að fela matsmanni að meta verðmæti eignarhluta M í félögunum og krafðist K staðfestingar þeirrar ákvörðunar. Fyrir Hæstarétti krafðist M frávísunar málsins frá héraðsdómi. Var sú krafa ekki talin studd marktækum rökum og kom ekki til álita fyrir Hæstarétti. Talið var að á meðan skiptum væri enn ólokið væri aðilum heimilt að óska eftir mati eigna samkvæmt 3. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991. Var ákvörðun skiptastjóra því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júlí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 16. júlí 2010, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila og staðfest sú ákvörðun skiptastjóra að fela matsmanni að meta verðmæti eignarhluta málsaðila í félögunum Mávabergi ehf. og Freydísi sf. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði „vísað frá dómi“, en til vara að hafnað verði framangreindri kröfu varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Skilja verður aðalkröfu sóknaraðila svo að hann krefjist þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Um það kveðst hann vilja vísa til þess að kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns hafi áður verið hafnað með úrskurði héraðsdóms 7. apríl 2010. Aðalkrafa sóknaraðila er ekki studd marktækum rökum og kemur ekki til álita fyrir Hæstarétti. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 16. júlí 2010.
Mál þetta barst dóminum 17. maí 2010 með bréfi skiptastjóra, Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl. Málið var þingfest 19. sama mánaðar og tekið til úrskurðar 18. júní sl.
Sóknaraðili er K, [...], [...].
Varnaraðili er M, [...], [...].
Í málinu gerir sóknaraðili þá kröfu að staðfest verði sú ákvörðun skiptastjóra, sem fari með opinber skipti málsaðila, að fela matsmanni að meta verðmæti eignarhluta málsaðila í félögunum C, kt. [...], og D, kt. [...]. Þá krefst sóknaraðili þess jafnframt að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.
Varnaraðili krefst þess að hafnað verði þeirri ákvörðun skiptastjóra, sem fer með opinber skipti málsaðila, að fela matsmanni að meta verðmæti eignarhluta málsaðila í félögunum C, kt. [...], og D, kt. [...], og beiðni sóknaraðila þannig synjað.
I.
Með úrskurði dómsins 6. júní 2008 var kveðið á um að opinber skipti skyldu fara fram til fjárslita milli málsaðila. Var Þorbjörg Inga Jónsdóttir hrl. skipuð skiptastjóri til að fara með skiptin. Á fyrsta skiptafundinum 7. ágúst 2008 var meðal annars farið yfir eignir málsaðila. Á fundinum var bókað eftir lögmanni varnaraðila að umbjóðandi hans krefðist þess að eignarhlutum hans í C og D yrði haldið utan skipta. Um afstöðu sóknaraðila var hins vegar bókað að hann krefðist þess að öllum eignum málsaðila yrði skipt að jöfnu á milli þeirra. Var lögmönnum málsaðila á fundinum gefinn kostur á því að senda skiptastjóra endanlegar kröfur við skiptin sem þeir og gerðu í framhaldinu. Á skiptafundi 12. febrúar 2009 setti skiptastjóri fram tillögu til lausnar á ágreiningi aðila sem miðaðist við helmingaskipti. Ekki náðist samkomulag um tillögu skiptastjóra og var því ákveðið að vísa ágreiningi aðila um hvort miða ætti við helmingaskipti eða skáskipti til héraðsdóms. Hinn 20. febrúar 2009 sendi skiptastjóri héraðsdómi erindi og óskaði úrlausnar dómsins um ágreining málsaðila. Ekki kom til þess að héraðsdómur úrskurðaði í því ágreiningsmáli aðila þar sem á skiptafundi 13. maí 2009 féll varnaraðili frá kröfu sinni um skáskipti og var ágreiningsmálið í kjölfarið fellt niður. Á skiptafundinum var á ný farið yfir helstu eignir aðila og hugsanlegt verðmæti þeirra. Óskaði skiptastjóri eftir því að aðilar sendu honum tillögur um verðmæti eigna og útlagningu þeirra svo skiptastjóri gæti gert drög að frumvarpi til skipta.
Á fjórða skiptafundinum, sem haldinn var 15. maí 2009, var bókað að aðilar væru sammála um að eignarhlutir í fyrrgreindum félögum kæmu í hlut varnaraðila en að þá greindi á um verðmæti félaganna. Gerði varnaraðili kröfu um að félögin yrðu metin verðlaus. Sóknaraðili á hinn bóginn óskaði eftir aðgangi að bókhaldsgögnum félaganna. Var ákveðið að endurskoðandi félaganna yrði fenginn til að fara yfir reikninga þeirra með sóknaraðila. Í framhaldinu hitti sóknaraðili endurskoðandann og fékk jafnframt aðgang að bókhaldi félaganna tveggja.
Á skiptafundi 8. september 2009 lagði skiptastjóri fram frumvarp að skiptum milli málsaðila. Ekki náðist samkomulag um frumvarp skiptastjóra og á skiptafundi 20. nóvember 2009 setti sóknaraðili fram kröfu um að matsmanni yrði falið að meta verðmæti eignarhluta í títtnefndum félögum. Í fundargerð er bókað að varnaraðili hafi hafnað því að kostnaður vegna slíks mats yrði lagður á bú (sic) aðila. Tilkynnti skiptastjóri þá að hann myndi ekki óska mats á umræddum eignum nema lögð yrði fram trygging fyrir greiðslu matskostnaðar.
Á skiptafundi 10. desember 2009 gerði varnaraðili eina athugasemd við frumvarp skiptastjóra, sem skiptastjóri féllst á, en lýsti sig að öðru leyti samþykkan frumvarpinu. Sóknaraðili hafnaði því hins vegar að frumvarpið yrði lagt til grundvallar við skiptin. Ákvað skiptastjóri að vísa ágreiningi málsaðila til héraðsdóms á grundvelli 112. gr., sbr. 122. gr., laga nr. 20/1991. Undir rekstri þess máls óskaði sóknaraðili eftir því að dómkvaddur yrði einn hæfur og sérfróður matsmaður til að framkvæma verðmat á hlutafé málsaðila í C og stofnfé þeirra í D. Varnaraðili mótmælti því að fallist yrði á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns og með úrskurði 7. apríl sl. synjaði héraðsdómur beiðni sóknaraðila.
Að fenginni ofangreindri niðurstöðu héraðsdóms fór sóknaraðili þess bréflega á leit við skiptastjóra 20. apríl 2010 að skiptastjóri hlutaðist til um að fram færi mat á fyrrgreindum eignum málsaðila á grundvelli 3. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 17.-23. gr. sömu laga. Á skiptafundi 4. maí sl. ákvað skiptastjóri að verða við ósk sóknaraðila. Mótmælti varnaraðili þeirri ákvörðun skiptastjóra sem í kjölfarið ákvað að vísa umræddum ágreiningi málsaðila til dómsins með bréfi, mótteknu 17. maí sl., með heimild í 112. gr., sbr. 122. gr., laga nr. 20/1991.
II.
Sóknaraðili vísar til þess að í 3. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 17.-23. gr. sömu laga, komi fram með mjög skýrum hætti hvernig með skuli fara verði ekki sammæli með aðilum um verðmat eigna við skiptin. Samkvæmt ákvæðinu geti hvor aðili um sig krafist þess að skiptastjóri æski mats á eignum eftir ákvæðum 17.-23. gr. laganna og njóti báðir aðilarnir þeirrar stöðu sem erfingjum sé veitt í fyrrgreindum lagaákvæðum. Í 18. gr. laga nr. 20/1991 segi meðal annars að sé þess krafist að eignir verði að einhverju eða öllu leyti metnar til verðs skuli orðið við þeirri beiðni og skuli tilnefna sérfróðan mann til verksins ef nauðsyn þyki til sérþekkingar við mat á viðkomandi eign.
Fyrrgreind lagaákvæði eru að áliti sóknaraðila skýr hvað það varði að náist ekki samkomulag um jafn veigamikið atriði við skiptin og verðmæti eigna eigi hvor aðili um sig rétt á því að sérfróður og óvilhallur maður komi að verðmatinu til að tryggja hlutlaust verðmat. Vísar sóknaraðili sérstaklega til þess að í lagagreinunum sé talað um að hlutaðeigandi geti krafist mats og að skiptastjóri skuli verða við þeirri beiðni.
Sóknaraðili segir ekki verða séð að tímamörk séu í umræddum lagaákvæðum varðandi það hvenær aðilar geti óskað eftir mati á eignum. Því verði ekki annað ráðið af lögum nr. 20/1991 en að á meðan skiptum sé ólokið sé aðilum heimilt að óska eftir mati eigna í samræmi við fyrrgreind lagaákvæði. Skiptum til fjárslita milli málsaðila sé ekki lokið þar sem fyrirliggjandi frumvarp að úthlutun hafi hvorki verið samþykkt né ágreiningur um það verið leiddur til lykta fyrir dómi. Engu breyti þó svo frumvarp sé komið fram og ágreiningsmál rekið um efni þess. Ekkert í lögum nr. 20/1991 gefi til kynna að óheimilt sé að æskja mats eftir að frumvarp er komið fram af hálfu skiptastjóra eða ágreiningsmál um frumvarpið komið til héraðsdóms. Túlka verði ákvæði laganna í samræmi við skýr markmið þeirra um að aðilar eigi rétt á því að óska eftir mati á eignunum.
Af hálfu sóknaraðila er ennfremur á það bent að mikilvægt sé fyrir framvindu skiptanna að umbeðið mat fari fram þar sem verulegur ágreiningur sé með málsaðilum um verðmæti umræddra eigna. Hefur sóknaraðili í því sambandi meðal annars vísað til þess að félögin tvö standi bæði í umsvifamiklum atvinnurekstri sem farið hafi vaxandi síðustu ár. Varnaraðili hafi einn höndlað með eignirnar meðan á skiptunum hefur staðið og notið arðs af þeim í rúm tvö ár, eða allt frá því að upp úr hjúskap málsaðila slitnaði. Á þeim tíma hafi sóknaraðili ekki fengið tækifæri til að fylgjast með rekstri félaganna.
Samkvæmt framansögðu telur sóknaraðili lagaskilyrði vera fyrir hendi til að verða við kröfu hans og staðfesta þá ákvörðun skiptastjóra um að matsmanni verði falið að meta eignarhluta málsaðila í félögunum C og D.
Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til ákvæða XIV. kafla laga nr. 20/1991, einkum 105. gr. laganna. Einnig vísar sóknaraðili til 17.-23. gr. sömu laga. Kröfu um málskostnað kveður hann byggja á ákvæðum 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991.
III.
Varnaraðili segir í 105. gr. laga nr. 20/1991 vera kveðið á um þær upphafsaðgerðir sem við eigi þegar um opinber skipti til fjárslita sé að ræða. Samkvæmt ákvæðinu skuli í upphafi skipta kanna eignir og finna verðmat þeirra. Þetta hafi verið gert í tilviki málsaðila. Skiptastjóri hafi farið ítarlega yfir verðmat allra eigna áður en frumvarp hafi fyrst verið lagt fram á skiptafundi. Sóknaraðili hafi strax í upphafi haldið því fram að verðmæti D og C væri allt annað en varnaraðili hafi haldið fram þrátt fyrir að hið fyrrnefnda félag sé með ótakmarkaða ábyrgð og bókhaldsgögn borið með sér að skuldir umfram eignir hafi numið tugum milljóna króna. Hinu sama hafi sóknaraðili haldið fram hvað C varðaði þrátt fyrir að endurskoðandi félagsins hafi staðfest tekjuleysi þess og neikvætt eigið fé.
Af hálfu varnaraðila er til þess vísað að sóknaraðili hafi fengið nokkra mánuði frá skiptafundi í maímánuði 2009 til að mynda sér skoðun á verðmæti félaganna. Á því tímabili hafi hann átt þess kost að fá óvilhalla sérfræðinga til að meta félögin en látið það ógert. Á því tímamarki hafi sóknaraðili ákveðið að aðhafast ekkert til að sanna þá fullyrðingu sína að mat varnaraðila og endurskoðanda félaganna væri rangt.
Í september 2009 kveður varnaraðili skiptastjóra hafa haldið áfram framgangi skipta búsins (sic) og enn á ný hafa óskað eftir athugasemdum. Það hafi því ekki verið fyrr en í desember það ár sem frumvarp skiptastjóra hafi verið afgreitt á skiptafundi. Í því tilviki hafi skiptastjóri farið eftir því ferli skipta sem lög nr. 20/1991 geri ráð fyrir, þ.e. gert frumvarp þegar mat eigna hafi legið fyrir. Ágreiningsmál vegna frumvarpsins segir varnaraðili nú bíða afgreiðslu hjá héraðsdómi.
Varnaraðili segir í lögum nr. 20/1991 ráð fyrir því gert að ákveðinn framgangsmáti sé á ferli opinberra skipta. Í 113. gr. laganna segi að skipti verði ekki tekin upp nema nýjar eignir komi fram. Samkvæmt ákvæðum 106.-111. gr. laga nr. 20/1991 sé ferillinn sá að verðmati sé lokið áður en frumvarp komi til afgreiðslu. Í 113. gr. sé ráð fyrir því gert að þegar verðmati og umfjöllun um útlagningu sé lokið skuli gert frumvarp. Það samrýmist því ekki ákvæðum 105.-113. gr. að heimilt sé að vinna ferli opinberra skipta til fjárslita á mismunandi stigum. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna dómkröfum sóknaraðila um að staðfest verði ákvörðun skiptastjóra. Málsaðilar sem séu með bú sitt (sic) í opinberum skiptum til fjárslita verði að geta treyst því að máli ljúki eftir að ákveðið ferli fer af stað. Annars mættu aðilar í þeirri stöðu gera ráð fyrir því að hafa bú sitt (sic) í opinberum skiptum óendanlega lengi sem ekki samrýmist ákvæðum fjórða þáttar skiptalaganna.
Málskostnaðarkröfu sína byggir varnaraðili á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. laganna.
IV.
Fyrir liggur að á milli aðila er rekið annað ágreiningsmál hér fyrir dómi, mál nr. Q-2/2009, sem varðar framkomið frumvarp skiptastjóra. Snýst ágreiningur aðila í því máli um hvert sé verðmæti eignarhluta málsaðila í félögunum C og D.
Í 3. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. er kveðið á um að verði ekki sammæli um verðmat eigna og liggi ekki þá þegar fyrir að þeim verði komið í verð við skiptin, geti hvor aðilinn sem er krafist að skiptastjóri æski mats á þeim eftir ákvæðum 17.-23. gr. laganna og njóti þá báðir aðilarnir þeirrar stöðu sem erfingjum sé veitt í þeim ákvæðum.
Skiptum til fjárslita milli aðila máls þessa er ekki lokið, en frumvarp skiptastjóra að úthlutun hefur hvorki verið samþykkt né heldur hefur ágreiningur um það verið leiddur til lykta fyrir dómi samkvæmt áðursögðu. Af ákvæðum XIV. kafla laga nr. 20/1991 verður ekki annað ráðið en að á meðan skiptum er ólokið sé aðilum heimilt að óska eftir mati eigna samkvæmt áður tilvitnaðri 3. mgr. 105. gr. laganna og hefur sóknaraðili ekki afsalað sér þeim rétti. Verður því ákvörðun skiptastjóra staðfest.
Eftir úrslitum málsins, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað er hæfilega þykir ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ:
Staðfest er sú ákvörðun skiptastjóra, sem fer með opinber skipti málsaðila, er tekin var á skiptafundi 4. maí 2010, að fela matsmanni að meta verðmæti eignarhluta málsaðila í félögunum C, kt. [...], og D, kt. [...].
Varnaraðili, M, greiði sóknaraðila, K, 250.000 krónur í málskostnað.