Hæstiréttur íslands

Mál nr. 222/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                                         

Miðvikudaginn 9. júní 1999.

Nr. 222/1999.

Sýslumaðurinn á Akranesi

(Ólafur Hauksson sýslumaður)

gegn

X og

(Tryggvi Bjarnason hdl.)

Y

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður l. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X og Y skyldu sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 6. júní 1999, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 6. júní 1999, þar sem varnaraðilum var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 12. júní nk. kl. 12. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Varnaraðilinn Helgi Þór Kristínarson krefst einnig kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

Með vísan til þess, sem greinir í hinum kærða úrskurði um atvik máls og röksemdir sóknaraðila fyrir kröfu hans, verður fallist á með héraðsdómara að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðilum. Er gæsluvarðhaldinu markaður hæfilegur tími með hinum kærða úrskurði, sem verður því staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, svo sem lögunum var breytt með 38. gr. laga nr. 36/1999.

Það athugast að réttara hefði verið að sóknaraðili leitaði gæsluvarðhalds sérstaklega yfir hvorum varnaraðila fyrir sig, svo og að fjallað hefði verið um mál hvors þeirra í sjálfstæðum úrskurði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 6. júní 1999.

                Sýslumaðurinn á Akranesi gerir þá kröfu að X með lögheimili á [...] og Y með lögheimili að [...] verði á grundvelli a-liðar 103 gr.laga nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 12. júní nk. kl. 12:00.

                Af hálfu beggja kærðu er kröfunni um gæsluvarðhald mótmælt. Verjandi kærða, X telur að þau gögn sem lögð hafa verið fram í málinu bendi ekki til þess að rannsóknarnauðsyn sé á gæsluvarðhaldi.

[...]         

Niðurstaða.

                Dómari fellst á að gögn málsins beri með sér að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærðu, X og Y, hafi gerst sekir um þjófnaðarbrot sem varðað geti fangelsisrefsingu. Lagðar hafa verið fram málaskrár lögreglu yfir þau mál sem þeir hafa verið kærðir í og vitnað er til í beiðni sýslumanns, og er sú skrá að mati dómara til styrktar grun um brot kærðu. Ennfremur styrkist grunur þessi af því að kærðu hafa ýmist ekki viljað tjá sig um athafnir sínar eða borið fyrir sig minnisleysi. Er framburður þeirra að mati dómara ekki trúverðugur.

                Dómari fellst einnig á að a-liður 103. gr. laga nr. 19/1991 eigi við í máli þessu.

                Með vísan til þess sem nú hefur verið ritað fellst dómari á kröfu sýslumannsins á Akranesi um að kærðu, X og Y sæti gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldstímanum sem krafist er þykir dómaranum í hóf stillt.

Úrskurðarorð:

                X og Y sæti gæsluvarðhaldi; þó ekki lengur en til laugardagsins 12. júní 1999 kl. 12 á hádegi.