Hæstiréttur íslands

Mál nr. 546/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð


                                     

Miðvikudaginn 22. október 2008.

Nr. 546/2008.

Dagverðarnes ehf.

(Garðar Briem hrl.)

gegn

Bjarna Ásgeiri Jónssyni og

Margréti Atladóttur

(Gestur Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Innsetningargerð.

B og M seldu Ís ferðaþjónustu ehf. alla hluti í D ehf. með kaupsamningi 2. júní 2006. Í ágúst 2007 höfðuðu B og M mál á hendur D ehf. til greiðslu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt fyrrnefndum kaupsamningi. Í máli þessu krefst D ehf. að nánar tilgreind gögn verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum B og M. Telur D ehf. umbeðin gögn tvímælalaust vera sína eign. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, segir að D ehf. styðji kröfu sína um beina aðfararheimild við 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Eins og málatilbúnaði D ehf. var háttað lá ekki fyrir nein óyggjandi sönnun þess að D ehf. ætti skýlausan rétt til umkrafinna gagna og eigna en verulega skorti á að hið umkrafða væri nægjanlega tilgreint. Töldust skilyrði 78. gr. aðfararlaga því ekki uppfyllt og var kröfu D ehf. hafnað.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2008, sem sóknaraðili kveður sér fyrst hafa orðið kunnugt um 17. sama mánaðar, en með úrskurðinum var hafnað kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að fá með beinni aðfarargerð nánar tiltekin gögn tekin úr vörslum varnaraðila og þau fengin honum. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að sér verði veitt heimild til framangreindrar aðfarargerðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Dagverðarnes ehf., greiði varnaraðilum, Bjarna Ásgeiri Jónssyni og Margréti Atladóttur, samtals 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

                            Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2008. 

Með beiðni, móttekinni 22. júlí 2008, hefur Dagverðarnes ehf., Álftalandi 17, Reykjavík, krafist þess að eftirtalin gögn verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola, Bjarna Ásgeirs Jónssonar og Margrétar Atladóttur, Rein, Mosfellsbæ, og fengin gerðarbeiðanda:

1.      Vatnsteikningar af svæði 3 og 4 í jörðinni Dagverðarnes.

2.      Kaupsamningur og afsal um Snorrastaðatún í jörðinni Dagverðarnes.

3.      Afsal til handa arkitektum á hugsanlega samþykktum lóðum í nýju skipulagi

 og samkomulag vegna þessa.

4.      Vatnsveituteikningar af vatnslögn fyrir ofan veg í jörðinni Dagverðarnes.

5.      Vatnsveituteikningar af vatnslögnum á svæði 1,2,5 í jörðinni Dagverðarnes.

6.      Allar teikningar sem varða jörðina Dagverðarnes.

7.      Öll fylgiskjöl með teikningum.

8.      Öll samskiptaskjöl gerðarbeiðanda.

9.      Alla kaupsamninga gerðarbeiðanda vegna lóða og annars.

10.Öll afsöl gerðarbeiðanda vegna lóða og annars.

11.Fylgiskjöl með bókhaldi félagsins (lögbundin sex ár aftur í tímann).

12.Ársreikningar félagsins.

Auk þessa er krafist allra gagna, pappíra, bæklinga, upplýsingarita, bréfa, upptaka, úrdrátta, skissa, dagbóka, teikninga, skriflegrar grunvinnu, sem og allrar skriflegrar vinnu, minnisblaða, verklýsinga allra handa skrifa, allra hugsanlegra gagna, skjala og viðhengja sem innihalda með einhverjum hætti upplýsingar um gerðarbeiðanda og samnefnda jörð í eigu hans í Skorradalshreppi. Ennfremur er krafist afhendingar allra skrifstofuáhalda, svo sem tölva og tölvugagna, og allra eigna félagsins, svo sem véla og tækja. Krafist er allra gagna og eigna sem tilheyra félaginu og jörðinni Dagverðarnesi hverju nafni sem þau kunna að nefnast.

Þá er krafist málskostnaðar.

Gerðarþolar krefjast þess að kröfu gerðarbeiðanda verði hafnað. Þá er krafist máls­kostnaðar.

I.

Málavextir eru þeir að með kaupsamningi dags. 2. júní 2006 seldu gerðarþolar Ís ferðaþjónustu ehf. alla hluti í Dagverðarnesi ehf. Samkvæmt kaupsamningnum voru hlutirnir afhentir og yfirráð félagsins færð í hendur nýrrar stjórnar þann sama dag. Kvað samningurinn á um gerð áreiðanleikakönnunar sem skyldi ljúka 9. júní 2006 og greiðslu eftirstöðva kaupverðs sama dag. Tafðist framkvæmd áreiðanleikakönnunar, að sögn gerðarbeiðanda af ástæðum sem varða gerðarþola. Lýsir gerðarbeiðandi því að dregist hafi af hálfu endurskoðanda fyrirtækisins að setja upp ársreikning vegna ársins 2005 og gera árshlutauppgjör vegna fyrstu 5 mánaða ársins 2006. Auk þess hafi þeim löggilta endurskoðanda sem falið var að framkvæma könnunina, Einari Hafliða Einarssyni, gengið illa að fá upplýsingar og tilskilin gögn frá gerðarþolum.

Samkvæmt gerðarbeiðanda fengust ýmsar upplýsingar á fundi með aðilum, endurskoðendum og fasteignasölu þann 14. júní 2006 en þær hvergi verið fullnægjandi. Á næstu mánuðum hafi einhverjar frekari upplýsingar fengist. Með bréfi dags. 6. des. 2006 var þess krafist af endurskoðanda þeim sem framkvæma átti könnunina að ákveðin gögn yrðu afhent. Var því bréfi svarað af gerðarþolum með bréfi dags. 19. desember 2006 þar sem beiðni gerðarbeiðanda var neitað, og hann krafinn um greiðslu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt kaupsamningi aðila frá 2. júní 2006. Hafnaði gerðarbeiðandi því og ítrekaði fyrri kröfu sína með bréfi dags. 23. febrúar 2007.

Með stefnu birtri 22. ágúst 2007 höfðuðu gerðarþolar mál á hendur gerðarbeiðanda til greiðslu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt kaupsamningnum frá 2. júní 2006. Gerðarbeiðandi höfðaði gagnsakarmál á hendur gerðarþolum með gagnstefnu birtri 2. október 2007 þar sem krafist var skaðabóta eða afsláttar úr hendi gerðarþola.

Að sögn gerðarbeiðanda hafa gerðarþolar ekki lagt fram umbeðin gögn undir rekstri þess máls.

II.

 Gerðarbeiðandi byggir mál sitt á því að þau gögn sem krafist sé innsetningar í séu tvímælalaust eignir gerðarbeiðanda og hafi átt að afhendast Einari Hafliða Einarssyni, löggiltum endurskoðanda, skv. beiðni hans við framkvæmd áreiðanleikakönnunar. Sé talið að það hafi ekki verið skylt verði að telja, í ljósi eignaréttarins, að gögnin hafi átt að afhendast nýrri stjórn gerðarbeiðanda eftir að kaupin á hlutabréfunum höfðu átt sér stað þann 2. júní 2006.

Gerðarbeiðandi byggir á því að gerðarþolar hafi enga heimild til að halda umbeðnum gögnum í fórum sínum. Gögnin hafi mikla þýðingu fyrir þá um ýmislegt sem varði ráðstöfun eigna á síðustu árum í rekstri félagsins. Þau hafi að geyma upplýsingar um hverjir viðskiptaaðilar fyrirtækisins hafi verið, hvaða viðskiptakjör hafi gilt og hvaða verkefnum hafi verið sinnt. Þá sé unnt að sjá hvernig lóðum félagsins hafi verið ráðstafað o.s.frv. og e.t.v. finna út úr því hvers vegna tilgreindur lóðafjöldi í söluferli standist ekki.

Gerðarbeiðandi bendir á að nauðsynlegt sé að hafa teikningar til þess að vita hvernig lagnir séu lagðar o.s.frv. Þá megi þess geta að kröfur hafi komið fram gagnvart gerðarbeiðanda frá heilbrigðisyfirvöldum eftir kaupin, en um hafi verið að ræða ítrekanir á fyrri kröfum. Hafi þetta komið gerðarbeiðanda verulega á óvart. Erindi frá skattayfirvöldum hafi komið gerðarbeiðanda á óvart og nauðsynlegt sé að hafa bókhaldsgögn til þess að svara fyrirspurnum frá slíkum aðilum.

III.

Gerðarþolar byggja í fyrsta lagi á því að þeir hafi ekki undir höndum þau gögn sem afhendingar sé krafist á. Öll gögn sem gerðarþolar hafi haft undir höndum varðandi félagið Dagverðarnes ehf. og jörðina Dagverðarnes í Skorradal hafi lögnu verið afhent forsvarsmönnum ÍS ferðaþjónustu ehf.

Í öðru lagi byggja gerðarþolar á því að ekkert samningssamband sé á milli gerðarþola og gerðarbeiðanda um þá skyldu sem gerðarbeiðandi telji hvíla á gerðarþolum um afhendingu gagna.

Í þriðja lagi þá sé fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur rekið dómsmál milli gerðarþola sem seljenda hlutafjár Dagverðarness ehf. og ÍS ferðaþjónustu sem kaupanda. Kaupandi hafi ekki staðið í skilum með hluta kaupverðsins, kr. 40.000.000,-. Að kröfu gerðarþola hafi bú ÍS ferðaþjónustu ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta. Ekki liggi fyrir af hálfu þrotabúsins hvort það haldi uppi vörnum í málinu. Í héraðsdómsmálinu sé því haldið fram af hálfu ÍS ferðaþjónustu ehf. að gerðarþolar hafi ekki skilað til þeirra gögnum um félagið eins og rétt hafi verið. Því hafi gerðarþolar mótmælt. Í greinargerð í gagnsök þess máls sé að finna yfirlýsingar gerðarþola um að þeir hafi ekki undir höndum þau gögn sem krafist sé afhendingar á. Þá megi ráða af tölvupósti forsvarsmanns ÍS ferðaþjónustu ehf., Arngríms Hermannssonar, til annars gerðarþola, Bjarna Ásgeirs Jónssonar, dags. 28. júní 2006, að Arngrímur hafi þegar á tíma haft undir höndum þau gögn sem hann krefjist nú afhendingar á.

Í fjórða lagi líti gerðarþolar svo á að forsvarsmenn ÍS ferðaþjónustu ehf., sem í senn hafi vanrækt að greiða umsamið kaupverð og virðist jafnframt hafa ráðstafað hlutafénu í Dagverðarnesi til þriðja aðila, séu með þessum málatilbúnaði að reyna að setja á svið leikrit í því skyni að komast hjá því að horfa á kjarna málsins. Þeir hafi ekki greitt umsamið kaupverð félagsins en hafi engu að síður leyft sér að ráðstafa eignum þess út úr félaginu þannig að félagið hafi reynst ógjaldfært þegar á reyndi.

Í fimmta lagi byggja gerðarþolar á því að engin lagaskilyrði séu til þess samkvæmt 78. gr. aðfararlaga að verða við kröfu gerðarbeiðanda.

IV.

Við fyrirtöku málsins þann 1. september sl. varð útivist af hálfu gerðarþola. Mál þetta er því úrskurðað samkvæmt 82. gr. laga um aðför nr. 90/1989.

Gerðarbeiðandi krefst í máli þessu afhendingar gagna sem talin eru upp í aðfararbeiðni. Þá er ennfremur krafist afhendingar allra gagna sem innihalda með einhverjum hætti upplýsingar um gerðarbeiðanda og samnefnda jörð í eigu hans. Ennfremur er krafist afhendingar allra skrifstofuáhalda og eigna félagsins. Þá er krafist allra gagna og eigna sem tilheyra félaginu og jörðinni Dagverðarnesi hverju nafni sem þau kunna að nefnast. Vísar gerðarbeiðandi til þess gögnin séu tvímælalaust eign gerðarbeiðanda og hafi átt að afhendast löggiltum endurskoðanda vegna framkvæmdar áreiðanleikakönnunar, eða þá nýrri stjórn gerðarbeiðanda eftir að hlutabréfakaupin áttu sér stað þann 2. júní 2006. Þá hafi gerðarþolar ekki heimild til að halda gögnunum í fórum sínum þar sem þau varði mikilsverða hagsmuni gerðarbeiðanda. Engin grein er gerð fyrir á hverju krafa um afhendingu eigna er byggð.

Gerðarbeiðandi styður kröfu sína um beina aðfararheimild við 78. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Í ákvæðinu eru sett skilyrði fyrir því að dómari heimili að skyldu verði fullnægt með aðfarargerð án þess að aðfararheimild samkvæmt 1. gr. laganna liggi fyrir. Þessi skilyrði eru að manni sé með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda sem hann telst eiga og getur fært sönnur að með þeim gögnum sem aflað verður samkvæmt 83. gr. laganna. Þá er það skilyrði að aðfarargerðin varði skyldu sem um getur í 72. eða 73. gr. laganna.

Fyrir liggur að gerðarþolar seldu Ís ferðaþjónustu ehf. alla hluti í Dagverðanesi ehf. með kaupsamningi dags. 2. júní 2006. Halda gerðarþolar því fram að þeir hafi ekki umrædd gögn undir höndum.

Eins og málatilbúnaði gerðarbeiðanda er háttað liggur ekki fyrir nein óyggjandi sönnun þess að gerðarbeiðandi eigi skýlausan rétt til umkrafinna gagna og eigna en verulega skortir á að hið umkrafða sé nægjanlega tilgreint. Eru skilyrði 78. gr. aðfararlaga til að verða við kröfu gerðarbeiðanda um innsetningu ekki fyrir hendi og ber því að hafna kröfunni.

Gerðarbeiðandi greiði gerðarþola 80.000 krónur í málskostnað.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

                                                                Ú r s k u r ð a r o r ð:

Hafnað er kröfu gerðarbeiðanda, Dagverðarness ehf., um að umkrafin gögn og eignir verði með beinni aðfarargerð tekin úr vörslum gerðarþola, Bjarna Ásgeirs Jónssonar og Margrétar Atladóttur, og fengin gerðarbeiðanda.

Gerðarbeiðandi greiði gerðarþola 80.000 krónur í málskostnað.