Hæstiréttur íslands

Mál nr. 257/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                              

Þriðjudaginn 16. apríl 2013.

Nr. 257/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

                                                              Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 10. maí 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að dómfellda X, kt. [...]-[...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan dómur héraðsdóms Reykjaness í máli S[...]-/2012 er til meðferðar fyrir Hæstarétti þó eigi lengur en til föstudagsins 10. maí nk. kl. 16:00.

Kærði hefur mótmælt gæsluvarðahaldskröfunni og krafist þess að henni verði hafnað.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að með úrskurði héraðsdóms Reykjaness 8. febrúar sl. í máli nr. R-83/2013 hafi dómfellda verið gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 7. mars á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Áður hafi dómfellda verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli áðurgreindra lagaákvæða með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar sl. í máli nr. R-22/2013, en sá úrskurður hafi verið staðfestur í Hæstarétti 15. janúar sl. (mál nr. 29/2013). Með úrskurði héraðsdóms Reykjaness 7. mars sl. í máli nr. R-149/2013 hafi dómfellda verið gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram allt til fimmtudagsins 4. apríl 2013 á grundvelli sömu lagaákvæða. Hafi sá úrskurður verið staðfestur í Hæstarétti 12. mars sl. (mál nr. 159/2013). Þá hafi dómfellda verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli áðurgreindra lagaákvæða með úrskurði héraðsdóms Reykjaness 4. apríl sl. í máli nr. R-239/2013 allt til föstudagsins 12. apríl 2013.

                Með dómi héraðsdóms Reykjaness [...] í máli nr. S-[...]/2012 hafi dómfelldi verið dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir valdstjórnarbrot, auðgunarbrot, umferðarlagabrot, vopnalagabrot og fíkniefnalagabrot. Dómfelldi hafi verið sýknaður af ákæru fyrir líkamsárás. Frá hafi dregist gæsluvarðahald sem dómfelldi hafi sætt frá 13. janúar sl. Dómfelldi hafi lýst yfir áfrýjun dómsins til Hæstaréttar eftir uppkvaðningu hans.

Sé nú farið fram á að dómfellda verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi með vísan til þess að hætta sé á að hann haldi áfram brotum á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til framangreinds, áður framlagðra gagna, úrskurða og dóma Hæstaréttar Íslands um að lagaskilyrðum síbrotagæslu sé fullnægt, c.-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að að krafa þessi nái fram að ganga.

Eins og að framan greinir hefur dómfelldi sætt svokallaðri síbrotagæslu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá 13. janúar sl. Hefur Hæstiréttur tvívegis staðfest að skilyrði væru til þess að dómfelldi sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli áðurgreindra lagaákvæða, sbr. dóma réttarins í málum nr. 29/2013 og 159/2013, sem kveðnir voru upp 15. janúar og 12. mars sl. Fyrir liggur að við uppkvaðningu dóms Héraðsdóms Reykjaness [...] í máli ákæruvaldsins gegn dómfellda nr. [...]/2012 lýsti dómfelldi því yfir að hann áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar. Með hliðsjón af framangreindu og sakarferli dómfellda er fallist á með lögreglustjóra að ætla megi að dómfelldi muni halda áfram brotum meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti fari hann frjáls ferða sinna. Þykir því fullnægt skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. og 3. mgr. 97. gr. sömu laga og er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Dómfelldi, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til föstudagsins 10. maí nk. kl. 16:00.