Hæstiréttur íslands
Mál nr. 446/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 2. september 2008. |
|
Nr. 446/2008. |
Guðrún Helga Stefánsdóttir og Svanhildur Eva Stefánsdóttir (Karl Axelsson hrl.) gegn Árna Sigursveinssyni (Benedikt Ólafsson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Máli Á gegn G, S o.fl. var vísað frá héraðsdómi en málskostnaður felldur niður. G og S kærðu úrskurðinn og kröfðust þess að Á yrði gert að greiða þeim málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Í lögum er ekki að finna sjálfstæða heimild til að kæra eingöngu ákvæði um málskostnað í úrskurði héraðsdómara nema svo standi á, sem um ræðir í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Það lagaákvæði átti ekki við í máli þessu og stóð því engin heimild til kæru G og S. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. júní 2008, þar sem máli varnaraðila á hendur sóknaraðilum og fleirum var vísað frá dómi, en málskostnaður felldur niður. Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðila verði gert að greiða þeim málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili höfðaði mál þetta gegn sóknaraðilum og sex öðrum með stefnu 13. júní 2007. Sóknaraðilar ásamt einum þeirra, sem stefnt var þeim við hlið, gerðu þá aðalkröfu í héraði að málinu yrði vísað frá dómi. Með hinum kærða úrskurði vísaði héraðsdómari málinu frá dómi í heild. Samkvæmt j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms um frávísun máls. Eðli máls samkvæmt geta aðrir en sá, sem mál hefur höfðað, ekki haft lögvarða hagsmuni af því að kæra úrskurð þessa efnis, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 186/1998, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 1793. Samkvæmt því hefði sóknaraðila brostið heimild til að kæra úrskurð héraðsdómara að því er varðar þá niðurstöðu að málinu skyldi vísað frá dómi, hvort sem væri til að fá henni hnekkt eða hana staðfesta. Í lögum er ekki að finna sjálfstæða heimild til að kæra eingöngu ákvæði um málskostnað í úrskurði héraðsdómara nema svo standi á, sem um ræðir í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Það lagaákvæði á ekki við í máli þessu og stendur því engin heimild til kæru sóknaraðila, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 26/2001, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 498. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu frá Hæstarétti.
Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. júlí 2008.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 29. maí sl. um framkomnar frávísunarkröfur, hefur Árni Sigursveinsson, kt. 111253-5019, Arnarholti, 601 Akureyri höfðað hér fyrir dómi, með stefnu, birtri 18. til 20. júní 2007, á hendur Axel Grettissyni, kt. 080976-3729, oddvita Arnarneshrepps, kt. 430169-0689, Þrastarhóli 2, 601 Akureyri, fyrir hönd hreppsins, Eygló Jóhannesdóttur, kt. 080658-3119, og Jósavin Heiðmann Arasyni, kt. 050553-4429, Skógarhlíð 27, 601 Akureyri, Hafdísi Árnadóttur, kt. 191138-7919, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Gunnþóru Árnadóttur, kt. 290332-7299, Mýrarvegi 111, 600 Akureyri, Guðrúnu Helgu Stefánsdóttur, kt. 040367-5439, Njálsgötu 10a, 101 Reykjavík og Svanhildi Evu Stefánsdóttur, kt. 161272-4859, Hlunnavogi 5, 104 Reykjavík, og Franz Viðari Árnasyni, kt. 090544-4119, Hamarstíg 1, 600 Akureyri, framkvæmdastjóra Norðurorku, kt. 550978-0169, fyrir hönd Norðurorku hf.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega að viðurkennd verði með dómi riftun hans á ákvæði í samningi Norðurorku annarsvegar og Arnarneshrepps og eigenda jarðanna Arnarness, Arnarholts, og Hvamms í Arnarneshreppi hinsvegar, dags. 04. apríl 2002, sem fram kemur í 2. mgr. tl. 3.3 samningsins, svohljóðandi: „Greiðsla fyrir vatn sem fundist hefur í landi jarðanna og ákvörðun er tekin um að virkja skal skiptast milli landeigenda í samræmi við mat sérfræðinga Orkustofnunar hverju sinni, þ.e. í hvert skipti sem afmörkuð jarðhitasvæði yrðu virkjuð, og skal stofnunin skila rökstuddri greinargerð þar um til samningsaðila. Skuldbinda landeigendur sig til þess að hlíta þessari skiptingu.“
Stefnandi krefst þess jafnframt í aðalkröfu sinni, að niðurstaða mats dómkvaddra matsmanna, Hrefnu Kristmannsdóttur og Björns Gunnarssonar, um skiptingu á hlutfallslegum eignarétti í jarðvarma í landi jarðanna Arnarholts, Arnarness, Eyrarbakka, Grímsstaða og Hvamms í Arnarneshreppi samkvæmt matsgerð þeirra dags. 16. maí 2006 verði lögð til grundvallar við skiptingu á greiðslu Norðurorku til landeigenda samkvæmt nefndum samningi þannig að Arnarneshreppi tilheyri 4,4%, Arnarnesi 27,2%, Arnarholti 59,6%, Grímsstöðum 8,8% en öðrum ekkert.
Loks er í aðalkröfunni gerð krafa um að stefndu greiði stefnanda „in solidum“ kr. 2.390.145 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 668.538 frá 01.01.2005 til 01.01.2006, af kr. 1.458.723 frá þeim degi til 01.01.2007 en af kr. 2.390.145 til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu.
Varakrafa stefnanda er samhljóða aðalkröfunni, þ.e. að viðurkennd verði með dómi riftun hans á lýstu ákvæði í áðurnefndum samningi og um að niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna um skiptingu á hlutfallslegum eignarétti jarðvarma umræddra jarða verði lögð til grundvallar við skiptingu á greiðslum frá Norðurorku hf., en þar er þess og krafist að stefnda Norðurorka hf. greiði ein stefnanda umrædda fjárhæð, kr. 2.390.145 ásamt dráttarvöxtum skv. III. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 668.538 frá 01.01.2005 til 01.01.2006, af kr. 1.458.723 frá þeim degi til 01.01.2007 en af kr. 2.390.145 til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu úr hendi allra stefndu in solidum.
Þrautavarakrafa stefnanda er samhljóða aðalkröfunni, þ.e að viðurkennd verði með dómi riftun hans á röktu ákvæði í nefndum samningi svo og að niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna um skiptingu á hlutfallslegum eignarétti á jarðvarma í landi fyrrnefndra jarða verði lögð til grundvallar við skiptingu á greiðslum frá Norðurorku hf. Þá er höfð upp sú krafa ,,að stefndu Eygló og Jósavin, Hafdís og Gunnþóra og loks Guðrún Helga og Svanhildur Eva greiði stefnanda pro rata í hlutföllunum, Eygló og Jósavin að 92,47 hundruðustu, Hafdís og Gunnþóra að 4,78 hundruðustu og Guðrún Helga og Svanhildur Eva að 2,75 hundruðustu kr. 2.390.145 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 668.538 frá 01.01.2005 til 01.01.2006, af kr. 1.458.723 frá þeim degi til 01.01.2007 en af kr. 2.390.145 til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu“.
Aðalkrafa stefnda Norðurorku hf. er að málinu verði vísað frá dómi, að því er félagið varðar, en til vara að það verði sýknað af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Aðalkrafa stefndu Guðrúnar Helgu og Svanhildar Evu Stefánsdætra er að málinu verði vísað frá í heild sinni, en til vara að því verði vísað frá dóm að því er þær varðar. Til þrautavara krefjast þær sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í öllum tilvikum krefjast þær og málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
Af hálfu annarra stefndu í málinu er krafist sýknu auk málskostnaðar.
Við flutning um greindar frávísunarkröfur krafðist stefnandi þess að þeim yrði hafnað.
Í þessum þætti málsins verður fjallað um fyrrnefndar frávísunarkröfur, en málflutningur þar um fór fram þann 29. maí sl.
Málavextir.
Í stefnu er atvikum máls lýst á þann veg að stefnandi sé eigandi jarðarinnar Arnarholts í Arnarneshreppi, þar sem umtalsverður jarðvarmi hafi fundist í jörðu. Greint er frá því að eigendur aðliggjandi jarða, þ.e. að Arnarnesi, séu stefndu Eygló og Jósavin, að eigendur að Hvammi séu stefndu Gunnþóra og Hafdís, að jörðin Eyrarbakki sé þinglýst eign stefndu Guðrúnar Helgu og Svanhildar Evu og að jörðin Grímsstaðir sé í eigu Arnarneshrepps. Staðhæft er að við fasteign stefnanda sé að auki land í eigu Arnarneshrepps, sem ekki teljist til lögbýla í skilningi jarðalaga og ábúðarlaga.
Í stefnu er skýrt frá því að í ársbyrjun 2002 hafi stefnda Norðurorka hf. falast eftir heimild til nýtingar á jarðvarma á umræddu landsvæði í Arnarneshreppi. Hafi stefnandi verið boðaður til fundar í lok mars það ár, hjá Norðurorku hf., ásamt stefndu í málinu. Er staðhæft að á fundinum hafi verið kynnt drög að samningi, sem Norðurorka hf. hafi samið, er hafi hljóðað um einkarétt félagsins til borana eftir heitu vatni og vinnslu þess í landi allra greindra jarða. Er staðhæft að á þessum tíma hafi ekki verið vitað hvert hið nýtanlega vatnsmagn var eða hver hin hlutfallslega skipting tekna vegna jarðvarmans ætti að vera á milli eigenda einstakra jarða.
Fyrir liggur að hinn 4. apríl 2002 var af hálfu stefnanda og stefndu, fyrir utan þinglýsta eigendur jarðarinnar Eyrarbakka, stefndu Guðrúnu Helgu og Svanhildi Evu Stefánsdætur, ritað undir samning sem ber heitið:
„SAMNINGUR um einkarétt til borana eftir heitu vatni og eða jarðhita og nýtingu á því og eða honum, afsal lands o.fl.“
Í 2. gr. samningsins segir m.a. að Norðurorka hf. hafi einkarétt til jarðborana eftir heitu vatni í landi jarðanna, Arnarness, Arnarholts, Hvamms og í landi Arnarneshrepps við Hjalteyri, og til þess að virkja og nýta þann jarðhita sem fæst með borunum meðan slíkt teljist arðbært og hagkvæmt hvort sem vinnsla falli tímabundið niður eða ekki. Þá segir að Norðurorku sé heimilt að bora í landi jarðanna, þar sem sérfræðingar Orkustofnunar telji vænlegt, en að leitast skuli við að haga framkvæmdum þannig að sem minnstri röskun sé valdið á landi jarðeigenda. Kveðið er á um að samráð skuli haft við viðkomandi landeigendur svo haga megi verkinu á sem hagkvæmastan hátt. Þá segir að Norðurorku sé heimil nauðsynleg afnot af landi jarðanna til borunar eftir heitu vatni og virkjunar jarðhitans með þeim aðferðum sem tiltækar séu hverju sinni, að félaginu sé heimilt að reisa hús yfir borholur, dælur og annan búnað auk umferðarréttar um landið vegna borana og til að virkja kalt vatn til borframkvæmda á landi jarðanna. Kveðið er á um að Norðurorka skuli afla sér, eftir atvikum með atbeina landeigenda, nauðsynlegra leyfa til rannsókna og virkjunar í samræmi við ákvæði III. og IV. kafla laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.
Í 3. gr. samningsins er kveðið á um endurgjald fyrir borunar- virkjunar- og nýtingarrétt. Segir þar að við undirskrift samnings greiði Norðurorka í eitt skipti fyrir öll vegna hverrar jarðar tiltekna eingreiðslu, en í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um rétt jarðeiganda til heimilisvatns. Um það atriði segir nánar:
„Fáist það vatnsmagn við boranir í landi jarðanna að Norðurorka telji hagkvæmt að virkja og nýta orkuna og meðan það er gert fái viðkomandi jarðir, hver um sig, 2000m³ af heitu vatni til heimilisnota á ári. Frívatnið er til afhendingar úr stofnæð þeirri er liggur um eða næst við viðkomandi jörð. Hver jörð sem þannig fær frívatn er frjálst að nýta eða ráðstafa vatni á hvern þann hátt sem rétthafa sýnist nema til endursölu.“ Þá er kveðið á um rétt Norðurorku til að kaupa það vatnsmagn sem rétthafi nýti sér ekki fyrir tiltekna fjárhæð fyrir hvern rúmmetra, sem breytist samkvæmt gjaldskrá Norðurorku.
3. mgr. 3. gr. samningsins sem ber heitið: Endurgjald fyrir virkjað vatn, segir og eftirfarandi:
„Fáist það vatnsmagn við boranir á jörðunum að Norðurorka virki og nýti orkuna samkvæmt framansögðu, skal Norðurorka auk þess sem að framan greinir greiða landeigendum sameiginlega kr. 29,795 fyrir hvern lítra á sekúndu sem dælt er úr holu og eða holum að meðaltali á ári, að frívatni fráteknu.
Greiðsla fyrir vatn sem fundist hefur í landi jarðanna og ákvörðun er tekin um að virkja skal skiptast milli landeigenda í samræmi við mat sérfræðinga Orkustofnunar hverju sinni, þ.e. í hvert skipti sem afmörkuð jarðhitasvæði eru virkjuð og skal stofnunin skila rökstuddri greinargerð þar um til samningsaðila. Skuldbinda landeigendur sig til þess að hlíta þessari skiptingu.
Greiðslur þessar skulu breytast til hækkunar eða lækkunar eftir breytingum á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 1. mars 2002, 220,9 stig.
Mæling á vatnsmagni til greiðslu skal fara þannig fram að mæla skal ársmeðalnýtingu hverrar borholu í lítrum á sekúndu. Margfeldi þeirrar tölu, einingarverðs og verðbreytinga myndar uppgjörsgrundvöll hvers árs. Ekki verður greitt fyrir uppdælt vatnsmagn við prufudælingu á holum.“
Í 4. gr. samningsins er kveðið á um afsal jarðeiganda á landi undir mannvirki Norðurorku hf. vegna hitaveituframkvæmdanna. Segir þar m.a. að jarðeigandi afsali Norðurorku fullum afnotum af landi undir lagnir, í jörð, undir dæluhús, yfir borholur og annað sem nauðsynlegt reynist vegna virkjunar og nýtingar jarðhitans, í samræmi við 31. gr. orkulaga nr. 58/1967, gegn því að Norðurorka greiði bætur samkvæmt mati. Í greininni er kveðið á um að Norðurorka hafi heimild til umferðarréttar um land jarðanna vegna framkvæmdanna, en greiði fyrir þann afnotarétt líkt og vegna hitaveitumannvirkjanna og vega. Þá greiði Norðurorka ennfremur bætur fyrir önnur landspjöll og tjón í eða á landi jarðanna er hljótast kunni af umferð og starfrækslu hitaveitumannvirkjanna. Við mat á bótum segir að tekið skuli mið af því er tíðkist við hliðstæðar framkvæmdir, þannig að bætt sé það land, sú aðstaða og þau jarðgæði er rýrni að gildi við framkvæmdirnar. Þá segir að við matið skuli tekið tillit til heildaráhrifa á landnotin miðað við stærð viðkomandi lands. Kveðið er á um að verði ekki samkomulag um greindar bætur eða annað tjón og þá eignarýrnun er verða kunni þá séu aðilar samningsins sammála um að sætta sig við mat tveggja dómkvaddra óvilhallra manna. Kostnað af slíku mati skuli sá bera sem matsins beiðist.
Í 5. gr. samningsins er fjallað um endurskoðun endurgjalds. Segir þar að hvorum samningsaðila, þ.e. Norðurorku eða landeigendum sameiginlega, sé heimilt að óska eftir endurskoðun á gjaldi samkvæmt greinum 3.2, keypt frívatn, og 3.3., virkjað vatn, að liðnum 10 árum frá undirritun samnings að telja og síðan á 10 ára fresti þaðan í frá. Tekið er fram að verði samningsaðilar ekki sammála um endurgjald samkvæmt nefndum greinum skuli skjóta ákvörðun um það til gerðardóms sem skipaður sé í samræmi við ákvæði laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Segir að niðurstaða gerðardóms skuli vera endanleg og skuldbindandi fyrir báða aðila.
Í 6. gr. samningsins segir að rísi ágreiningur vegna hans eða framkvæmdar á einstökum ákvæðum hans skuli aðilar reyna sættir, en reynist nauðsynlegt að reka mál skuli það gert fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra.
Samkvæmt stefnu og öðrum gögnum var borað eftir heitu vatni í landi stefnanda sumarið 2002. Góður árangur náðist og kom upp mikið magn af heitu vatni. Hefur það verið nýtt af stefnda Norðurorku hf. allt frá árinu 2003.
Fyrir liggur að Norðurorka hf. fól Rannsóknarsviði Orkustofnunar (ROS), í samræmi við ákvæði áðurrakins samnings, að gera tillögu um skiptingu jarðhitaréttar milli landeigenda á umræddu landsvæði, á Arnarnesi við Eyjafjörð. Eru drög að greinargerð Rannsóknarsviðsins þar að lútandi dagsett 5. apríl 2002. Í drögum þessum er útskýrð sérstök reikniregla um skiptingu jarðhitaréttar, er grundvallast á hitastigi í jörðu og flatarmáli lands innan áhrifasvæðis jarðhitans. Drögin eru rituð af þremur nafngreindum starfsmönnum Rannsóknarsviðs Orkustofnunar. Í niðurlagi þeirra segir að tillaga að skiptingu jarðhitaréttindanna hafi verið kynnt fyrir landeigendum á fundi sem Norðurorka hf. hafði staðið fyrir hinn 26. mars 2002. Er skráð að sátt hafi verið um tillöguna.
Samkvæmt gögnum lá fyrir greinargerð Íslenskra orkurannsókna um skiptingu umræddra jarðhitaréttinda milli landeigenda á Arnarnesi við Eyjafjörð hinn 16. febrúar 2004. Í upphafsorðum greinargerðarinnar segir að um sé að ræða endurbætta útgáfu af handriti að greinargerð sem tekin hafi verið saman vorið 2002 af starfsmönnum Rannsóknarsviðs Orkustofnunar (ROS), forvera Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR). Segir síðan orðrétt í greinargerðinni:
„Það er tillaga Rannsóknarsviðs Orkustofnunar (nú Íslenskra orkurannsókna, ÍSOR) að skipta jarðhitaréttindum á grundvelli ofangreindrar reiknireglu. Hún var kynnt fyrir landeigendum á fundi sem Norðurorka stóð fyrir þann 26.03. 2002, var þar sátt um hana. ÍSOR hefur nú reiknað út jarðhitarétt einstakra jarðeigna samkvæmt reiknireglunni og eru niðurstöður eftirfarandi: Arnarholt 23,72%, Arnarnes 64,16%, Arnarneshreppur 5,37%, Eyrarbakki 1,10%, Grímsstaðir 3,74%, Hvammur 1,91%.
Í stefnu staðhæfir stefnandi að framangreind greinargerð Íslenskra orkurannsókna, ÍSOR, og sú eignaréttarlega skipting sem þar hafi verið mörkuð og þar með endurgjald fyrir jarðvarmann, hafi komið honum verulega á óvart, enda sé sprunga sú sem boruð hafi verið niður á í hans landi. Hafi hann dregið réttmæti niðurstaðna ÍSOR í efa og því, mótmælt greinargerðinni og þeirri skiptingu sem þar hafi verið gert ráð fyrir við stefndu. Þá hafi hann sent, þann 29. nóvember 2004, eigendum jarðanna Arnarness, Hvamms svo og oddvita Arnarneshrepps bréf, sbr. dskj. nr. 12, þar sem hann hafi lýst yfir riftun á áðurröktu ákvæði í 3. gr. umrædds samnings. Í bréfinu hafi því og verið lýst því yfir að hann hefði í hyggju að fara fram á dómkvaðningu tveggja óvilhallra matsmanna til að segja til um hvað sé sanngjörn og eðlileg skipting jarðanna á umræddum jarðhitaréttindum, líkt og hann sé nýttur, með hliðsjón af legu auðlindarinnar, ólíkum jarðhita og ólíku vatnsmagni í landi hverrar jarðar, landstærð og hvar best sé talið og hagkvæmast að nýta auðlindina. Lýst áform hans hafi öll gengið eftir, en dómkvaddir hafi verið matsmenn til verksins hinn 16. desember 2004, þau prófessor Hrefna Kristmannsdóttir jarðefnafræðingur og dr. Björn Gunnarsson jarðefnafræðingur. Matsgerð þeirra sé dagsett 16. maí 2006, en þar sé rökstudd sú niðurstaða, að eðlilegt sé að skiptingin á milli landeigenda á Arnarnesi í Eyjafirði vegna umrædds jarðvarma sé eftirfarandi: Arnarneshreppur 4,4%, Arnarnes 27,2%, Arnarholt 59,6%, Grímsstaðir 8,8%, Eyrarbakki engin hlutdeild, Hvammur engin hlutdeild.
Samkvæmt gögnum kynnti stefnandi fyrrnefndum jarðeigendum að Hvammi og Arnarnesi, auk oddvita Arnarneshrepps og framkvæmdastjóra stefnda Norðurorku hf., bréflega niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna hinn 19. júlí 2006 og gerði þá kröfu að sú hlutfallslega skipting sem matsgerðin kvað á um yrði viðurkennd og að greitt yrði til eigenda lands í samræmi við hana. Jafnframt gerði hann kröfu um að greiðslur frá upphafi, þ.e. vegna áranna 2004, 2005 og 2006, yrðu endurskoðaðar og honum greiddur sá mismunur sem hann hefði átt að fá með þeirri leiðréttingu sem matsgerðin gerði ráð fyrir.
Með bréfi fyrirsvarsmanns stefnda, Norðurorku hf., til stefnanda, sem dagsett er 1. september 2006, var á það bent að beiðni um greint mat hefði ekki verið beint að félaginu. Hefði fulltrúum félagsins heldur ekki verið boðið að vera á matsfundum. Var því lýst yfir að vegna þessa myndi Norðurorka hf. ekki taka efnislega afstöðu til matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna. Í niðurlagi bréfsins er minnst á hið umþrætta ákvæði í 3. gr. nefnds samnings og tekið fram að komi fram beiðni frá öllum samningsaðilum um endurskoðun myndi félagið eftir atvikum ekki skorast undan því verkefni.
Með bréfi stefndu Eyglóar Jóhannesdóttur og Jósavins H. Arasonar, eignaraðila jarðarinnar Arnarness, til stefnanda, sem dagsett er 26. september 2006, var erindi hans alfarið hafnað.
Á dómþingi hinn 20. desember 2007 var því lýst yfir af hálfu lögmanns stefnanda, að þar sem matsbeiðni hans hefði ekki beinst að stefndu Norðurorku hf. eða eigendum jarðarinnar Eyrarbakka, stefndu Guðrúnu Helgu og Svanhildi Evu Stefánsdætrum, og þeim því ekki gefist kostur á að skýra sjónarmið sín í samræmi við 2. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991, hefði hann í hyggju að kveðja hina dómkvöddu matsmenn til starfa að nýju til endurmats. Var í samræmi við þetta, sbr. og bréf lögmanns stefnanda um sama efni frá 21. desember 2007, kveðið á um það á dómþingi þann 17. janúar 2008, án athugasemda stefndu, að dómkvödd yrðu að nýju þau dr. Björn Gunnarsson jarðefnafræðingur og prófessor Hrefna Kristmannsdóttir jarðefnafræðingur til að endurupptaka mat sitt með sömu forsendum og í hinni upphaflegu matsbeiðni frá 29. nóvember 2004. Samkvæmt framlögðum gögnum var boðað til matsfundar vegna þess hinn 1. febrúar 2008. Mættu þá fulltrúar allra stefndu. Niðurstaða matsmannanna lá fyrir, sbr. bréf þeirra, hinn 8. febrúar 2008. Var hún á þá leið að hið fyrra mat stæði efnislega óbreytt. Tekið var fram að ný gögn um eignarétt jarða hefðu ekki haft áhrif á niðurstöðuna.
Í máli þessu hefur stefnandi uppi þær stefnukröfur, í öllum tilvikum, að viðurkennt verði með dómi riftun hans á umræddu ákvæði fyrrnefnda samningsins, um að aðilar séu skuldbundnir til að hlíta mati sérfræðinga Orkustofnunar hverju sinni við skiptingu á greiðslu til landeigenda. Þá gerir hann kröfu um að viðurkennt verði með dómi að hlutfallsleg skipting auðlindarinnar verði í samræmi við niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna og loks gerir hann kröfu um tilgreindar fjárgreiðslur.
Stefnandi byggir greindar kröfur á því, að það jarðhitasvæði sem hér um ræðir sé mjög afmarkað, líkt og almennt sé með jarðhitasvæði í Eyjafirði. Er af hans hálfu staðhæft og áréttað að sú jarðhitasprunga er gefi jarðvarmann sé að mestu leyti í landi hans og að svo sé einnig með vatnið sem fæðir hana, að verulegu leyti. Niðurstaða ÍSOR sé því algjörlega úr samræmi við það sem eðlilegt geti talist. Stefnandi byggir og á því að niðurstaða sérfræðinga Orkustofnunar, þ.e.a.s. starfsmanna ÍSOR (Íslenskra orkurannsókna) sé röng og gefi ekki rétta mynd af framlegð hverrar jarðar og landskika til auðlindarinnar. Segir nánar um þetta í stefnu: „Stefnandi telur að forsendur þær um skiptingu sem gengið var út frá við undirritun samningsins hafi verið réttar, en að síðar fengin niðurstaða ÍSOR manna sé ekki í samræmi við þær forsendur. Það sé því ósanngjarnt að bera þessa niðurstöðu fyrir sig. Stefnandi telur hins vegar að niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna gefi hina réttu mynd af eðlilegri skiptingu miðað við sömu forsendur.“
Stefnandi telur jafnframt að ekki hafi verið staðið rétt að öflun mats á skiptingu jarðvarmans í samræmi við ákvæði samningsins, af hálfu Norðurorku hf. Hafi þannig ekki verið aflað mats frá Orkustofnun eins og samningur aðila hafi gert ráð fyrir, en hún sé óháð stjórnsýslustofnun. ,,Aflað hafi verið mats frá ÍSOR, sem sé fyrirtæki á samkeppnismarkaði, og sé m.a. háð verkefnum frá stefnda Norðurorku. Því hefði stefnda Norðurorka átt að fá endurmat á greiðsluskiptingunni þegar mótmæli hafi komið fram frá stefnanda á mat ÍSOR. Telur stefnandi að óhjákvæmilega hafi stefndi Norðurorka bakað sér bótaábyrgð gagnvart stefnanda með þessu háttalagi“.
Stefnandi byggir á því, að þrátt fyrir að ákvæði margnefnds samnings geri ráð fyrir að samningsaðilar skuldbyndu sig til ,,að hlíta mati sérfræðinga Orkustofnunar, þá hafi það ekki verið meining manna, þegar samningurinn var gerður að þar væri um endanlegt mat að ræða sem ekki mætti krefjast yfirmats á“. Telur stefnandi að stefndu hafi mátt gera sér grein fyrir að um ranga skiptingu var að ræða í niðurstöðu ÍSOR og að ekki hafi verið aflað álits óháðs stjórnvalds, Orkustofnunar, eins og samningurinn hafi gert ráð fyrir. Byggir stefnandi á því að stefndu beri ,,tvímælalaust endurgreiðsluskylda á ofborguðu fé til stefnanda að svo miklu marki sem hann sé vanhaldinn um greiðslur samkvæmt mati hinna dómkvöddu matsmanna.
Varðandi forsendur fjárkrafna samkvæmt aðal-, vara- og þrautavarakröfu, byggir stefnandi á þeim mismun sem honum var greiddur af Norðurorku á árunum 2004, 2005 og 2006 og því sem honum hefði átt að greiða samkvæmt niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna fyrir sama tímabil. Þá segir í stefnu að pro rata skipting í þrautavarakröfunni sé ,,reist á hlutfalli ofborgaðrar fjárhæðar til eiganda hverrar jarðar, Arnarness, Eyrarbakka og Hvamms, í heildarofborgun til þeirra allra árin, 2004, 2005 og 2006“.
Varðandi lagarök vísar stefnandi til almennra reglna íslensks kröfuréttar og ákvæða laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, einkum 36. gr. Kröfuna um málskostnað styður stefnanda við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í greinargerð sinni andmælir stefnda Norðurorka hf. málavaxtalýsingu stefnanda hér að framan að nokkru. Bendir stefnda á að Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR, sé sérstök ríkisstofnun, sem heyri undir yfirstjórn iðnaðarráðherra, sbr. 1. gr. laga nr. 86/2003. Í því efni er og bent á að í ákvæði nefndra laga, til bráðabirgða, sé kveðið á um að bjóða skuli starfsmönnum rannsóknarsviðs Orkustofnunar, sem lagt hafi verið niður með lögunum, sambærilegt starf hjá ÍSOR. Ennfremur bendir stefnda á að áðurrakin greinargerð ÍSOR um skiptingu jarðhitaréttinda milli landeigenda á Arnarnesi, sbr. dskj. nr. 11, hafi verið unnin af sömu starfsmönnum og áður höfðu gert drög að greinargerð um sama efni, sbr. dskj. nr. 9, en þá sem starfsmenn Orkustofnunar.
Í greinargerð sinni vísa stefndu Guðrún Helga og Svanhildur Eva, eigendur jarðarinnar Eyrarbakka í Arnarneshreppi, til málavaxtalýsingar í stefnu, en vekja athygli á því að þær hafi aldrei tekið þátt í viðræðufundum eða verið aðilar að margnefndum samningi um nýtingu meðstefnda, Norðurorku hf., á jarðvarma þeim er um ræðir. Aðilar samningsins hafi því aðeins verið stefnda Norðurorka hf. og fyrrnefndir landeigendur, þ.e. stefndi Arnarneshreppur og eigendur jarðanna Arnarholts, Arnarness og Hvamms, en hins vegar ekki eigendur jarðarinnar Grímsstaða, þrátt fyrir að eiga hlutdeild í hinum nýtta jarðvarma. Stefndu vekja einnig athygli á því að þrátt fyrir að í greinargerð Rannsóknarsviðs Orkustofnunar, þ.e. ÍSOR, frá 16. febrúar 2004, sbr. dskj. nr. 11, hafi komið fram að 1,10% hlutdeild í þeim jarðhitaréttindum sem stefndi Norðurorka hf. nýtir tilheyri landi þeirra hafi þær ekki gerst aðilar að samningnum frá 4. apríl 2002 né hafi þær þegið greiðslur vegna hlutdeildar sinnar í auðlindinni. Er bent á að vegna þessa alls hafi stefndu efasemdir og lýsa þær yfir fyrirvara um áðurrakta niðurstöðu ÍSOR, enda hafi þær aldrei skuldbundið sig til að hlíta henni. Stefndu benda á að þær hafi ekki komið að matsgerð þeirri sem stefnandi óskaði eftir að fram færi, sbr. beiðni hans þann 29. nóvember 2004. Þeim hafi því ekki verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við gerð matsins og í raun ekki átt neina aðkomu að málinu fyrr en þeim hafi verið stefnt.
Málsástæður og lagarök stefndu Norðurorku hf.
Stefnda, Norðurorka hf., byggir frávísunarkröfu sína á því, að félagið hafi ekki verið aðili að matsgerð þeirri er liggi til grundvallar dómkröfum stefnanda. Leiði þetta til þess að matsgerðin verði ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Að þessu leyti vísar stefnda til 2. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991, en þar sé matsþolum tryggður réttur til aðkomu að matsferli. Er áréttað að þar sem umrædd matsgerð sé eitt megingagnið í málatilbúnaði stefnanda og úrslit þess hvíli alfarið á gildi hennar beri að vísa málinu frá dómi a.m.k. að því er félagið varðar.
Við flutning málsins voru ofannefndar röksemdir áréttaðar og á það bent að stefnandi hefði ekki bætt úr nefndum réttargalla með endurupptöku matsins. Geti staðfesting hinna dómkvöddu matsmanna á fyrra mati ekki uppfyllt kröfur einkamálalaganna um matsgerðir, þar eð þeir geti ekki talist sjálfstæðir og óvilhallir þegar þeir séu að endurskoða eigið mat.
Varðandi kröfugerð stefnanda um riftun á greindu samningsákvæði og um þá kröfu að niðurstaða dómkvaddra matsmanna verði lögð til grundvallar við skiptingu á greiðslum vísar stefnda Norðurorka hf. á, að félagið sé greiðandi samkvæmt samningnum. Félagið hafi því í raun enga hagsmuni af niðurstöðu um þann ágreining sem stefnandi vísi til. Bendir stefnda á að í nefndum samningi sé tilgreint það endurgjald sem því beri að greiða fyrir borunar-, virkjunar- og nýtingarrétt á heitu vatni á nefndu landsvæði. Á hinn bóginn varði það samningsákvæði, sem stefnandi krefjist riftunar á, aðeins það atriði hvernig greiðslur skiptist hlutfallslega á milli jarðeigendanna og hafi því engin áhrif á samningsskyldur stefnda, Norðurorku hf. Niðurstaða málsins um riftunarkröfu stefnanda svo og álitaefnið um gildi matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna varði Norðurorku því engu samkvæmt framangreindu. Af hálfu stefnda er á það bent að enginn ágreiningur sé um aðra þætti samningsins, þ.á m. um réttindi eða skyldur félagsins. Er áréttað að þrátt fyrir að stefnda Norðurorka hf. sé aðili að umræddum samningi þá lúti samningsákvæðið sem deilt sé um einungis að réttindum annarra aðila samningsins innbyrðis. Í málinu sé deilt um það hvernig eigi að skipta greiðslum frá stefnda Norðurorku hf. á milli landeigendanna og sé augljóst að sá ágreiningur varði félagið engu. Greiðsluskylda Norðurorku hf. haldist eftir sem áður óbreytt, enda komi skýrt fram í nefndri 3. gr. að félagið greiði landeigendum tiltekna upphæð sameiginlega og það hvernig greiðslan síðar skiptist þeirra í milli sé ekki mál félagsins. Dómkrafa stefnanda lúti þannig að riftun á samningsákvæði sem hafi engin áhrif á réttindi eða skyldur stefnda, Norðurorku hf. Vegna þessa alls hljóti að eiga að vísa þessum þætti í kröfu stefnanda frá dómi að því er stefndu Norðurorku hf. varði. Og þar sem greiðslukrafa stefnanda sé svo nátengd kröfum hans um riftun og um að leggja beri matsgerðina til grundvallar er á því byggt af hálfu stefnda Norðurorku hf. að sú skipting varði félagið engu og því beri að vísa málinu frá dómi.
Stefnda Norðurorka hf. byggir frávísunarkröfu sína jafnframt á því að málatilbúnaður stefnanda sé óljós og vanreifaður. Þannig sé óljóst á hvaða grunni stefnandi reisir fjárkröfur sínar á hendur stefnda Norðurorku hf. Í stefnu sé vísað til bótaábyrgðar, en að hinu leytinu verði ekki annað ráðið en að um sé að ræða endurgreiðslukröfu, og þá þannig að hún sé reist á því að aðrir landeigendur hafi fengið hluta af þeim greiðslum sem stefnandi hafi í raun átt rétt til. Er á því byggt að slík krafa geti ekki átt við gagnvart stefnda Norðurorku hf., enda hafi félagið engar greiðslur móttekið, heldur sé það greiðandi. Þá sé almennt óljóst á hvaða málsástæðum og réttarreglum stefnandi reisir mál sitt og fjárkröfur sínar á hendur félaginu. Í því sambandi er bent á að samkvæmt málatilbúnaði stefnanda sjálfs komi það beinum orðum fram að málið varði samningsákvæði er snúi að innbyrðis lögskiptum landeigenda. Vegna þess sé og erfitt að halda uppi efnislegum vörnum. Af hálfu stefnda er áréttað að málsgrundvöllur stefnanda sé það vanreifaður og óljós og haldinn slíkum annmörkum að vísa verði málinu frá dómi að því er stefnda varðar, sbr. e- og f-liði 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991.
Málsástæður og lagarök stefndu Guðrúnar Helgu og Svanhildar Evu Stefánsdætra.
Aðalkröfu sína um að vísa eigi málinu frá í heild byggja stefndu á því, að þær séu með öllu óbundnar af niðurstöðu áðurgreindrar matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna, en að auki sé þær ekki aðilar að umræddum samningi frá 4. apríl 2002 og því ekki skuldbundnar samkvæmt honum. Benda stefndu á að samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991 sé matsþolum tryggður réttur til aðildar að matsmáli og geti niðurstöður matsgerðar ekki bundið þá sem ekki eiga aðild að henni. Stefnandi reisi dómkröfur sínar á hendur þeim alfarið á niðurstöðum matsgerðarinnar, en í ljósi framangreinds geti hún ekki verið grundvöllur við úrlausn málsins.
Við flutning málsins var ofangreind málsástæða áréttuð og á því byggt að ekki væri fært réttarfarslega að berja í brestina með endurmati. Vísa stefndu í því efni m.a. til þess að hinir dómkvöddu matsmenn hafi einungis hnykkt á fyrri niðurstöðu sinni í endurmatinu án nokkurs viðbótarrökstuðnings. Hið rétta hefði verið að byrja málareksturinn að nýju frá grunni.
Auk ofangreinds vísa stefndu til þess að þær hafi verulega hagsmuni af efnislegri niðurstöðu máls þessa þar sem þær eigi, samkvæmt fyrirliggjandi áliti ÍSOR, eignarrétt að þeim heitavatnsréttindum sem finna megi í landi þeirra, sem og meðstefndi, Norðurorka hf., nýti í dag. Og þrátt fyrir að kröfum á hendur þeim verði vísað frá dómi, líkt og krafist sé, megi ljóst vera að efnisleg niðurstaða varði hagsmuni þeirra með beinum og afdrifaríkum hætti. Benda stefndu á að verði kröfur stefnanda um að umræddu ákvæði í 3. gr. samningsins frá 4. apríl 2002 verði rift gagnvart meðstefndu og að um ókomna tíð verði skipting á hlunnindum jarðanna í samræmi við niðurstöðu matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna liggi það fyrir að stefndu, Guðrún Helga og Svanhildur Eva, verði þar með sviptar eignarréttindum yfir hlunnindum jarðar sinnar á grundvelli matsgerðar, sem þær hafi ekki fengið að koma að athugasemdum og því ekki getað gætt hagsmuna sinna. Verði vegna þessa að vísa málinu frá dómi í heild sinni.
Varakröfu sína reisa stefndu á þeirri málsástæðu ,,að niðurstöður matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna geti ekki orðið grundvöllur kröfugerðar stefnanda á hendur þeim“. Eru fyrri málsástæður áréttaðar, en að auki til þess vísað að stefndu hafi aldrei fengið greiðslur á grundvelli margnefnds samnings. Þrátt fyrir þetta sé fjárkrafa stefnanda á hendur þeim endurgreiðslukrafa samkvæmt málatilbúnaði hans.
Um lagarök vísa stefndu til meginreglna einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. d - og f-lið 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Af hálfu stefnanda er öllum röksemdum og málatilbúnaði stefndu hér að framan um frávísun andmælt.
Stefnandi bendir á að stefnukröfur hans varði það, að stefnda Norðurorka hf., ásamt öðrum stefndu, sæti því að viðurkennt verði að lýstu ákvæði í samningi aðila frá 4. apríl 2002 verði rift og að stefndu greiði honum það tjón sem hann hafi orðið fyrir með því að hann hafi ekki fengið réttilega hlutdeild í greiðslum fyrir jarðvarmann, líkt og matsgerð hinna dómkvöddu matmanna geri ráð fyrir.
Stefnandi vísar til þess að í vara- og þrautavarakröfum sé á sama hátt gerð krafa um riftun á nefndu samningsákvæði, en að auki, líkt og í aðalkröfunni sé þar höfð uppi krafa um fjárgreiðslu, með mismunandi útfærslum.
Um grundvöll kröfugerðarinnar vísar stefnandi til þess, að stefnda Norðurorka hf. hafi haft frumkvæði að gerð margnefnds samnings við landeigendur um hagnýtingu á jarðvarmanum, sbr. dskj. nr. 8. Staðhæfir stefnandi að fyrirsvarsmenn stefnda Norðurorku hf. hafi samið efni samningsins, en í framhaldi af því fengið landeigendur til þess að árita hann, en að auki hafi þeir haft frumkvæði að því að láta fara fram mat á því, frá ÍSOR; hvernig skipting á jarðhitaréttindunum milli landeigendanna skyldi vera og þar með á því hvernig greiðslum þeirra í milli skyldi háttað.
Með vísan til ofangreinds er því andmælt af hálfu stefnanda að málatilbúnaður hans sé óskýr. Komi enda skýrt fram í stefnu að hann telji að stefnda Norðurorka hafi bakað sér bótaábyrgð gagnvart stefnanda með lýstu háttalagi. Stefnda Norðurorka hf. hafi samkvæmt framangreindu ekki staðið að öflun mats, líkt og átt hafi að gera, en einnig hafi félagið haldið að sér höndum og ekkert aðhafst er stefnandi hafi kvartað, þ. á m. um að haga hefði átti málum með öðrum hætti og því væri nauðsynlegt að láta fara fram nýtt mat.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefnda Norðurorka hf. hafi samkvæmt framangreindu fyllilega átt að geta gert sér grein fyrir því við lestur stefnunnar á hvaða grundvelli dómkröfur á hendur félaginu séu gerðar. Í því efni er til þess vísað að skilyrðið til þess að fjárkrafa hans geti orðið virk sé riftun á umræddu samningsákvæði. Af hálfu stefnanda sé og klárlega verið að krefjast endurgreiðslu á þeim fjármunum sem hann hafi verið vanhaldinn um miðað við mat hinna dómkvöddu matsmanna. Í varakröfu hans sé á því byggt, varðandi greiðslukröfuna, að stefnda Norðurorka hf. beri bótaábyrgð gagnvart stefnanda með lýstu háttalagi sínu.
Við flutning var til þess vísað af hálfu stefnanda, að í upphafi hafi ekki þótt nauðsynlegt að stefnda Norðurorka hf. yrði tilkvatt vegna umræddrar matsbeiðni eða starfa hinna dómkvöddu matsmanna, enda hafi matið varðað skiptingu á greiðslum millum landeigendanna innbyrðis. Í ljósi athugasemda félagsins, en ekki síður vegna eignarréttarlegrar stöðu stefndu Guðrúnar Helgu og Svanhildar Evu hafi undir rekstri málsins verið óskað eftir því, að hinir dómkvöddu matsmenn yrðu kvaddir til starfa að nýju, til endurtaka matið, og gefa þannig öllum aðilum færi á að koma sjónarmiðum sínum að. Við endurgerð matsgerðarinnar hafi því öllum réttarfarsskilyrðum verið fylgt.
Niðurstaða.
Samkvæmt málatilbúnaði stefnanda lýtur meginkrafa hans að því að viðurkennd verði riftun á tilgreindu ákvæði í samningi frá 4. apríl 2002. Liggur fyrir að stefnandi ásamt stefndu, fyrir utan stefndu Guðrúnu Helgu og Svanhildi Evu Stefánsdætur eru aðilar að þessum samningi, en eins og áður er fram komið varðar efni hans borun og nýtingu á heitu vatni í Arnarnesi í Arnarneshreppi í Eyjafirði. Umþrætt samningsákvæði varðar skuldbindingu samningsaðila til að hlíta mati Orkustofnunar um tiltekna skiptingu millum landeigenda, og er sú skipting einnig grundvöllur fyrir greiðslum frá stefnda Norðurorku hf. Kröfugerð stefnanda snýr samhliða að því að skipting þessara greiðslna fari eftir mati, sbr. og endurmati, dómkvaddra matsmanna. Að auki gerir stefnandi kröfu um endurgreiðslu á fjármunum, sem hann kveðst vera vanhaldinn um miðað við niðurstöðu matsmannanna.
Að því er varðar kröfugerð stefnanda í þeim þætti málsins, sem byggð er á matsgerðinni, ásamt síðari endurgerð hinna dómkvöddu matsmanna, er ágreiningslaust að stefndu gafst um síðir kostur á að tjá sig á matsfundi þannig að gætt var ákvæða 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála. Að þessu virtu fellst dómurinn á þær röksemdir stefnanda að honum sé fært að byggja á matsgerðinni, sem slíkri, með þeirri endurgerð sem síðar kom til. Verður málinu því ekki vísað frá dómi á þeim grunni sem stefndu vísa hér til, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 2/1999.
Samkvæmt e-lið 1. mgr. 80. gr. nefndra laga nr. 91, 1991 skal greina í stefnu svo glöggt sem verða má málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Skal þessi lýsing vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er.
Í máli þessu verður helst ráðið að stefnandi byggi málatilbúnað sinn á því að stefndu, ekki síst Norðurorka hf., hafi bakað sér bótaskyldu gagnvart honum og ennfremur að allir stefndu séu endurgreiðsluskyldir vegna fjármuna sem þeir hafi fengið ofborgað vegna sölu á heitu vatni, allt að teknu tilliti til niðurstöðu matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna. Og nánar um grundvöll kröfugerðarinnar vísar stefnandi til þess að með tilteknu háttalagi við það mat og matsvinnu, sem stefnda Norðurorka hf. byggir greiðsluskiptingu sína á til landeigenda, hafi félagið bakað sé bótaskyldu, en að auki sé matið rangt og ósanngjarnt.
Að mati dómsins verður fallist á það með stefndu að í þessum þætti málsins hafi stefnandi ekki skýrt málatilbúnað sinn, þ.á m. varðandi riftunarrétt, þannig að fullnægi kröfum áðurnefnds stafliðs 80 gr. einkamálalaganna. Að mati dómsins eru forsendur krafna stefnanda einnig á reiki, þ. á m. tilvísun hans til 36. gr. samningalaga nr. 7, 1936.
Að ofangreindu virtu, ásamt röksemdum stefndu, þykir rétt að vísa kröfu stefnanda um riftun á greindu samningsákvæði, samkvæmt aðal-, vara- og þrautavarakröfu, frá dómi.
Þá lítur dómurinn svo á varðandi kröfur stefnanda um tilteknar fjárgreiðslur, að rétt sé að vísa þeim frá dómi á grundvelli þess að þær verði að skoðast og metast í samhengi við riftunarkröfu hans í málinu sem þegar hefur verið vísað frá dómi.
Og að öllu þessu athuguðu verður ekki hjá því komist að vísa kröfum stefnanda í heild frá dómi.
Með hliðsjón af þessum lyktum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Fyrir uppkvaðningu úrskurðar var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991.
Úrskurðinn kveður upp Ólafur Ólafsson dómstjóri.
Á L Y K T U N A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.