Hæstiréttur íslands
Mál nr. 665/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal sakamanns
|
|
Miðvikudaginn 31. október 2012. |
|
Nr. 665/2012. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) |
Kærumál. Framsal sakamanna.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráðherra um framsal X til Póllands var staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. október 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2012, þar sem staðfest er ákvörðun innanríkisráðherra 27. júní sama ár um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 180.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2012.
I
Málið barst dóminum 4. september síðastliðinn og var þingfest 18. sama mánaðar. Það var tekið til úrskurðar 10. október síðastliðinn.
Sóknaraðili er ríkissaksóknari.
Varnaraðili er X, kennitala [...], [...].
Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 27. júní síðastliðinn um að framselja varnaraðila til Póllands.
Varnaraðili krefst þess að því verði hafnað að framselja hann til Póllands og þóknun réttargæslumanns síns verði greidd úr ríkissjóði.
II
Í greinargerð ríkissaksóknara er gerð svofelld grein fyrir málavöxtum og lagarökum fyrir því að orðið skuli við kröfu hans: „Ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 27. júní 2012 varðar beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, sem er pólskur ríkisborgari, til Póllands til fullnustu refsidóms. Beiðnin barst innanríkisráðuneytinu með bréfi pólska dómsmálaráðuneytisins, dags. 12. desember 2011. Samkvæmt beiðninni, dags. 14. nóvember 2011, og gögnum er henni fylgja, er framsals varnaraðila beiðst til fullnustu tveggja ára langrar fangelsisrefsingar.
Málsatvikum er lýst þannig að með dómi héraðsdómstóls í [...] frá 3. janúar 2005 í máli nr. IV K 599/03, hafi varnaraðili verið dæmdur í tveggja ára fangelsi, til greiðslu 50 dagsekta, hverrar að fjárhæð 10 PLN og greiðslu skaðabóta. Hafi hann verið sakfelldur fyrir tilraun til ráns með því að hafa ráðist að konu þann 4. júní 2003 og reynt að hrifsa af henni handtösku hennar, sem hafi ekki tekist vegna mótspyrnu konunnar, og hafi hún hlotið áverka af. Brot hans voru talin varða við 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 208. gr., 1. mgr. 275. gr. og 2. mgr. 157. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr. pólsku hegningarlaganna.
Þá segir að refsingunni hafi verið breytt í skilorðsbundið fangelsi til fimm ára, undir eftirliti skilorðsfulltrúa, með dómi áfrýjunardómstóls í [...] þann 5. maí 2005 í máli nr. IV Ka 271/05.
Með ákvörðun héraðsdómstólsins þann 19. nóvember 2009 í máli nr. VI Ko 940/09 hafi varnaraðila verið gert að afplána refsinguna vegna skilorðsrofa, en hann hafi framið refsiverð brot á skilorðstímanum. Hann hafi ekki mætt sjálfviljugur í afplánun og þann 15. mars 2010 hafi dómstólinn frestað framkvæmd refsingarinnar og gefið út handtökuskipun á hendur varnaraðila með vísan til þess að hann væri í felum.
Varnaraðila var kynnt framsalsbeiðnin hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 19. janúar 2012. Aðspurður kannaðist hann við að framsalsbeiðnin ætti við hann en kvaðst mótmæla henni.
Við meðferð málsins óskaði ríkissaksóknari eftir dómunum tveimur sem voru grundvöllur ákvörðunar héraðsdómsins í [...] um afplánun fangelsisrefsingar varnaraðila og bárust þeir embættinu þann 22. febrúar 2012. Ríkissaksóknari sendi innanríkisráðuneytinu gögn málsins ásamt álitsgerð varðandi lagaskilyrði framsals, dags. 28. mars 2012. Voru skilyrði framsals samkvæmt lögum nr. 13/1984 talin uppfyllt, sbr. einkum 1. og 3. mgr. 3. gr. og 9. gr. laganna.
Sem fyrr greinir tók innanríkisráðuneytið ákvörðun í máli þessu með bréfi dags. 27. júní 2012. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að þegar málsatvik væru virt heildstætt og tillit tekið til fyrri ákvarðana í sambærilegum málum þá þættu ekki nægjanlegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli mannúðarákvæðis 7. gr. framsalslaganna.
Ákvörðun ráðuneytisins var kynnt varnaraðila þann 10. júlí sl. hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Sama dag barst ríkissaksóknara bréf varnaraðila með kröfu hans um úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.
Um skilyrði framsals samkvæmt I. og II. kafla laga nr. 13/1984 er vísað til áðurnefndar álitsgerðar ríkissaksóknara frá 28. mars 2012 og ákvörðunar innanríkisráðuneytisins frá 27. júní 2012.“
III
Varnaraðili skýrir svo frá málavöxtum að hann hafi komið til Íslands í ársbyrjun 2010 og byrjað að vinna hjá fyrirtæki þar sem hann starfi enn. Hann kveðst vera einhleypur og barnlaus og ekki eiga ættingja hér á landi. Hann kveðst kannast við dóminn, sem er grundvöllur framsalsbeiðninnar og að hann hafi verið bundinn skilorði. „Þegar brotin voru framin var varnaraðili rétt um tvítugt og í slæmum félagsskap, en við flutninginn til Íslands braust hann úr þeim viðjum og hefur tekið sig taki. Þegar varnaraðili yfirgaf Pólland var hann meðvitaður um að hann væri með því að brjóta skilorð þar sem hann hefði þurft að sækja um leyfi til að yfirgefa Pólland. Þegar varnaraðili kom til Íslands var ekki búið að gefa út handtökuskipun á hendur honum, en varnaraðili var í þeirri trú að þar sem um skilorðsdóm væri að ræða myndu pólsk yfirvöld ekki fylgja dóminum frekar eftir. Seinna frétti varnaraðili frá pólskum kunningjum sínum að hann væri eftirlýstur í Póllandi, en af ótta setti varnaraðili sig ekki í samband við yfirvöldin í Póllandi.“
Varnaraðili byggir á því að hagsmunir hans af því að verða ekki framseldur séu ríkari en pólska ríkisins af því að fá hann framseldan. Hér á landi hafi hann stundað vinnu samviskusamlega og ekki komist í kast við lögin. Hann hafi reyndar ekki komist í kast við lögin frá því í janúar 2005, eða í tæp 8 ár. Af þessu leiði að framsal hans myndi raska stöðu hans verulega og hljóti það að vega þyngra en hagsmunir pólskra yfirvalda af því að fá hann framseldan.
Máli sínu til stuðnings vísar varnaraðili til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/ 1993 og til ákvæða laga nr. 13/1984.
IV
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að framselja mann ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Þær upplýsingar og gögn sem kveðið er á um í 12. gr. laganna að fylgja skuli framsalsbeiðni eru öll til staðar í máli þessu.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er framsal á manni því aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Brot varnaraðila, sem hér um ræðir, varða við 252. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing fyrir brot gegn henni getur orðið allt að 16 ára fangelsi. Skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal varnaraðila eru því uppfyllt. Þá liggur fyrir ákvörðun af hálfu dómstóls í Póllandi um að varnaraðili skuli afplána refsinguna og er því einnig uppfyllt skilyrði 2. mgr. 3. gr. laganna. Þá er ekkert það komið fram sem gefur ástæðu til að ætla að einhver þeirra atriða sem um getur í 5. mgr. 3. gr. laganna eigi við. Loks er þess að geta að sök er ófyrnd og því uppfyllt skilyrði 9. gr. laganna.
Varnaraðili byggir á því að það myndi raska stöðu hans verulega ef hann yrði framseldur, eins og rakið var. Hér að framan var komist að því að skilyrði 3. gr. laga nr. 13/1984 væru uppfyllt og verður þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað. Í framangreindri ákvörðun innanríkisráðherra er tekin rökstudd afstaða til þess hvort mannúðarástæður eigi að leiða til þess að kröfu um framsal verði hafnað. Í ákvörðuninni er fjallað um þær ástæður, sem varnaraðili telur að við eigi og hvernig þær horfa við samkvæmt skýringu á 7. gr. Þetta mat ráðherra verður ekki endurskoðað, enda hafa ekki verið leiddar líkur að því að aðstæður varnaraðila hafi ekki verið metnar með réttum og málefnalegum hætti.
Samkvæmt framansögðu er kröfum varnaraðila hafnað og staðfest ákvörðun innanríkisráðherra frá 27. júní 2012 um að framselja hann til Póllands.
Þóknun réttargæslumanns varnaraðila skal greidd úr ríkissjóði eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun innanríkisráðherra frá 27. júní 2012 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands, er staðfest.
Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greidd úr ríkissjóði.