Hæstiréttur íslands
Mál nr. 74/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Réttargæslumaður
- Brotaþoli
|
Mánudaginn 10. febrúar 2014. |
|
|
Nr. 74/2014. |
Ákæruvaldið (enginn) gegn X (enginn) |
Kærumál. Réttargæslumaður. Brotaþoli.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem A var synjað um skipun réttargæslumanns. Í dómi Hæstaréttar kom fram að brot það sem X væri gefið að sök að hafa framið gegn A væri samkvæmt ákæru talið varða við 1. mgr. 217. gr. og 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og yrði að öllu virtu talið til þess fallið að valda verulegu tjóni á andlegu heilbrigði A. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að skipa A réttargæslumann.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Brotaþoli, A, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. janúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 24. janúar 2014 þar sem brotaþola var synjað um skipun réttargæslumanns. Kæruheimild er í e. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þess er krafist að lagt verði fyrir héraðsdómara að skipa Bjarna Hauksson hæstaréttarlögmann réttargæslumann brotaþola.
Hvorki sóknaraðili né varnaraðili hafa látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði var mál þetta höfðað með ákæru 12. desember 2013 á hendur varnaraðila fyrir að hafa með ofbeldi veist að brotaþola 10. maí sama ár þar sem hann sat á bekk í [...] með því að taka um höfuð hans, maka og troða saur í andlit hans og munn og því næst slá hann tvisvar til þrisvar í höfuð og líkama. Er þetta talið varða við 1. mgr. 217. gr. og 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við þingfestingu málsins 16. janúar 2014 neitaði varnaraðili sök og hafnaði einkaréttarkröfu sem brotaþoli hefur uppi í málinu. Í þinghaldinu krafðist brotaþoli þess að sér yrði skipaður réttargæslumaður en þeirri kröfu var hafnað með hinum kærða úrskurði.
Samkvæmt 2. mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008 er lögreglu skylt eftir ósk brotaþola að tilnefna honum réttargæslumann ef rannsókn beinist meðal annars að broti gegn XXIII. eða XXIV. kafla almennra hegningarlaga og ætla má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins. Jafnframt er það skilyrði fyrir tilnefningu réttargæslumanns eftir þessari málsgrein að brotaþoli hafi að mati lögreglu þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til að gæta hagsmuna sinna í málinu. Eftir að mál hefur verið höfðað og skilyrði eru til að tilnefna réttargæslumann samkvæmt 2. mgr. 41. gr. laganna skipar dómari brotaþola réttargæslumann, sbr. 1. mgr. 42. gr. þeirra.
Sú háttsemi, sem varnaraðila er gefin að sök og lögð er refsing við í XXIII. og XXIV. kafla almennra hegningarlaga, verður að öllu virtu talin til þess fallin að valda verulegu tjóni á andlegu heilbrigði brotaþola. Krafa hans verður því tekin til greina og lagt fyrir héraðsdómara að skipa honum réttargæslumann.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að skipa brotaþola, A, réttargæslumann.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 24. janúar 2014.
Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 12. desember 2013 á hendur ákærða, X, kt. [...], til heimilis að [...], [...]
„fyrir ólögmæta nauðung og líkamsárás, með því að hafa föstudaginn 10. maí 2013, í [...], veist með ofbeldi að A, kennitala [...], samfanga síns [sic.] þar sem hann sat á bekk, tekið um höfuð hans, makað og troðið saur í andlit hans og munn og því næst slegið hann tvisvar til þrisvar í höfuð og líkama með þeim afleiðingum að A hlaut bólgna vör, eymsli í brjóstkassa og tognun í hægri öxl.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. og 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. maí 2013 til þess dags er mánuður var liðinn frá því bótakrafan er birt ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“
Málið var þingfest 16. janúar 2014 og neitar ákærði sök og hafnar einkaréttarkröfu. Er aðalmeðferð fyrirhuguð 21. febrúar 2014.
Af hálfu brotaþola og lögmanns hans, Bjarna Haukssonar hrl., er þess krafist að lögmaðurinn verði skipaður réttargæslumaður fyrir brotaþola, en af hálfu ákæruvalds og ákærða er ekki tekin afstaða til kröfunnar.
Í rannsóknargögnum málsins eru tvö læknisvottorð þar sem fram kemur að brotaþoli hafi eftir lýst atvik verið með áverka á efri vör sem hafi verið bólgin, verki í brjóstkassa og tognun í hægri öxl. Þá kemur fram í téðum læknisvottorðum að afar litlar líkur séu til að brotaþoli hafi smitast af sjúkdómi úr hægðunum. Í málinu eru engin gögn um að brotaþoli hafi orðið fyrir andlegu tjóni af völdum þeirrar háttsemi sem ákærða er gefin að sök.
Í málinu liggur fyrir einkaréttarkrafa þar sem fram kemur að krafist sé miskabóta vegna ofangreinds. Er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og byggt á því að um hafi verið að ræða alvarlega líkamsárás skv. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en um hafi verið að ræða stórfellda og ólögmæta meingerð gegn persónu og líkama brotaþola sem hafi í för með sér miskatjón. Sé háttsemin til þess fallin að valda hjá brotaþola miklum andlegum þjáningum og óþægindum en brotaþoli hafi fundið fyrir miklu óöryggi og andlegri vanlíðan eftir þetta.
Í 1. mgr. 42. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 segir að þegar „mál hefur verið höfðað og skilyrði eru til þess að tilnefna réttargæslumann skv. 1.3. mgr. 41. gr. skipar dómari brotaþola réttargæslumann“. Í 2. mgr. 41. gr. laganna segir að skylt sé „lögreglu endranær eftir ósk brotaþola að tilnefna honum réttargæslumann ef rannsókn beinist að broti á XXIII. eða XXIV. kafla almennra hegningarlaga eða 251.253. gr. laganna og ætla má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverjum sem er honum nákominn. Það er skilyrði fyrir tilnefningu réttargæslumanns samkvæmt þessari málsgrein að brotaþoli hafi að mati lögreglu þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu.“
Í 1. og 3. mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008 er fjallað um tilnefningu réttargæslumanns þegar rannsókn beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri, eða þegar brotaþoli óskar ekki eftir réttargæslumanni en er þó ekki fær um að gæta hagsmuna sinna sem skyldi, en þessi ákvæði eiga ekki við hér.
Í ákæru er háttsemi ákærða m.a. heimfærð til ákvæða 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er þannig uppfyllt það skilyrði 2. mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008 að rannsókn, eða saksókn eins og hér stendur á, beinist að broti á XXIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það er hins vegar mat dómsins að ekki hafi verið rennt stoðum undir það að uppfyllt séu skilyrði umrædds ákvæðis um að ætla megi „að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverjum sem er honum nákominn“. Ekkert liggur fyrir um að ætla megi að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði, en hvorki kemur þetta fram í læknisvottorðum né heldur er bótakrafan sjálf á þessu byggð. Hefur þetta ekki verið gert líklegt svo að téðu skilyrði sé fullnægt. Þá verður ekki fallist á það að ákærði sé nákominn brotaþola í skilningi ákvæðisins, en í því efni getur engu breytt að ákærði og brotaþoli hafi verið í sama fangelsi, en raunar liggur ekkert fyrir um það hvort svo er enn. Er þá óþarft að taka afstöðu til þess hvort fullnægt sé því skilyrði að brotaþoli hafi sérstaka þörf fyrir aðstoð réttargæslumanns til að gæta hagsmuna sinna í málinu.
Samkvæmt ofansögðu er það mat dómsins að ekki séu uppfyllt skilyrði þess að brotaþola verði skipaður réttargæslumaður í málinu og verður því kröfu um það hafnað.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu um að Bjarni Hauksson hrl., verði skipaður réttargæslumaður fyrir brotaþola, A, í máli þessu.