Hæstiréttur íslands

Mál nr. 180/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 23

 

Miðvikudaginn 23. maí 2001.

Nr. 180/2001.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X, sem var undir rökstuddum grun um aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli, var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. maí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. maí nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 22. maí sl. og gerði þær kröfur að gæsluvarðhaldinu yrði markaður tími til mánudagsins 28. maí nk. kl. 16.00 í samræmi við upphaflegar kröfur sínar fyrir héraðsdómi. Í greinargerð fyrir Hæstarétti  krefst sóknaraðili hins vegar staðfestingar úrskurðar héraðsdóms.

Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2001.

                Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 28. maí 2001 kl. 16.00.

                Af hálfu kærða er þess krafist að kröfunni verði hafnað.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í dag vegna gruns um aðild að fíkniefnainnflutningi.

[...]

Lögreglan kveðst vera að rannsaka ætluð brot kærða gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 eða 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem geti varðað fangelsisrefsingu ef sannist.  Rannsókn málsins sé ekki lokið og ef kærði gengi nú laus gæti hann torveldað mjög þá rannsóknarvinnu sem enn sé ólokið.

                Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað í a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

                Verið er að rannsaka ætluð brot kærða gegn lögum um ávana- og fíkniefni  nr. 65/1974 sem eftir atvikum gæti varðað við 173. gr. a almennra hegningarlaga.    Rannsókn málsins er á frumstigi.  Kærði hefur neitað sakargiftum.

                Með vísan til alls ofanritaðs þykir rétt sbr. a-lið 1. mgr. 103. gr. laga 19/1991 að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík. Ljóst er af gögnum málsins að sterkur grunur er um það að kærði eigi aðild að innflutningi á miklu magni hættulegra fíkniefna. Yfirheyra þarf kærða frekar og fara yfir gögn málsins með honum svo og samseka og/eða vitni. Fallist er á það með lögreglu að rannsóknarhagsmunir lúti að því að kærði geti ekki haft samband við meðkærða eða aðra aðila á meðan það er gert. Ljóst er að hann getur torveldað rannsókn málsins gangi hann laus og þannig skaðað rannsóknarhagsmuni.  Er því krafa lögreglunnar um að kærði sæti gæsluvarðhaldi tekin til greina en þó ekki lengur en til föstudagsins 25. maí n.k. kl. 16.00.

Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. maí 2001 kl. 16.00.