Hæstiréttur íslands

Mál nr. 277/2003


Lykilorð

  • Hilming


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003.

Nr. 277/2003.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Róberti Guðmundssyni og

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Steinþóri Árna Sigursteinssyni

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

 

Hilming.

R og SÁ voru sakfelldir fyrir hilmingu. Við ákvörðun refsinga beggja ákærðu var litið til 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing R var jafnframt ákvörðuð með hliðsjón af 255. gr. sömu laga. Var R gert að sæta fangelsi í 3 mánuði. SÁ var gert að sæta fangelsi í 45 daga. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. júlí 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu ákærðu.

Ákærðu krefjast sýknu.

I.

Í 2. lið ákæru 26. nóvember 2002 var ákærða Róberti gefin að sök hilming laugardaginn 15. júní 2002 með því að hafa tekið við munum, sem SH hafi stolið í innbroti aðfaranótt sama dags í verkstæði Orkuvirkis ehf. Funahöfða 5 í Reykjavík. Í 1. lið ákærunnar var SH ákærður fyrir innbrotið, en samkvæmt honum voru munir þessir fjórar tölvur og þrír tölvuskjáir „að óvissu verðmæti.“ Í niðurlagi 2. liðar ákæru var ákærða Róberti einnig gefið að sök að hafa selt meðákærða Steinþóri einn tölvuskjá og sá síðarnefndi jafnframt sakaður um að hafa keypt skjáinn af Róberti, þrátt fyrir að báðir hafi vitað að munirnir væru þýfi. Við framhald aðalmeðferðar málsins í héraði 14. maí 2003 féll ákæruvaldið frá þessum sakargiftum á hendur Steinþóri.

Fram kom í frumskýrslu lögreglu 18. júní 2002 að í innbrotinu að Funahöfða 5 hafi verið stolið tölvu og tölvuskjá af gerðinni Dell, tölvu og tölvuskjá af gerðinni Nec, tveimur Laser tölvum og Phillips tölvuskjá. Við rannsókn innbrotsins beindist grunur að SH, en hann dvaldi að [ . . . ]. Samkvæmt skýrslu lögreglu 18. júní 2002 um leit og hald á munum fannst Nec tölvuskjár við húsleit á dvalarstað hans. Játaði hann í skýrslum sínum 19. og 20. júní 2002 við rannsókn málsins og fyrir dómi að hann hafi stolið tölvunum og tölvuskjánum í innbrotinu. Kvaðst hann hafa farið heim með þýfið í kjölfar þess. Morguninn eftir hafi hann hringt í kunningja sinn, ákærða Róbert, og spurt hvort hann gæti selt fyrir sig tölvubúnaðinn, sem hann hafi stolið nóttina áður, og hafi Róbert játað því. Hann hafi afhent Róberti daginn eftir allan búnaðinn, að undanskildum einum tölvuskjá, og hjálpað honum að bera þýfið út í bifreið Róberts, sem hafi komið til baka um hálfri klukkustund síðar og afhent sér 20-30 grömm af amfetamíni fyrir hluta þýfisins. Í skýrslu sinni hjá lögreglu 20. júní skýrði ákærði Róbert svo frá að SH hafi hringt í sig snemma að morgni 15. júní og sagt að hann væri með verðmæti, sem hann þyrfti að selja. Hafi hann komið til SH að [ . . . ] um hádegisbil sama dags og séð þar mikið af tölvubúnaði. SH hafi tjáð honum að hann hafi brotist inn í fyrirtæki í næsta nágrenni og stolið þar búnaðinum. Hafi SH spurt hvort hann gæti selt þýfið og kvaðst Róbert hafa svarað því að hann vissi það ekki. Róbert sagðist hafa farið stuttu seinna til vina sinna í Kópavogi. Hann hafi svo hringt í tvo menn í þeim tilgangi að reyna að selja tölvubúnaðinn, en það hafi ekki gengið. Kannaðist hann ekki við að hafa séð um að selja þýfið og afhent SH amfetamín fyrir það, en sagðist vita hver hefði keypt það og sagðist myndu sjá um að því yrði skilað til lögreglu. Hann gaf þá skýringu á framburði SH að hann væri „hræddur við þann aðila sem hann seldi tölvurnar og vill þess vegna frekar mig við málið.” Í skýrslu sinni hjá lögreglu síðar sama dag er eftir honum haft að hann gæti „endurheimt tölvubúnað þann sem stolið var í innbrotinu í Orkuvirki ehf.” Hann hafi farið á heimili þess manns, sem hann taldi að hefði keypt tölvubúnaðinn, og hafi sá maður sagt að hann gæti ekki afhent þýfið þar sem það væri komið „út um allan bæ.” Kvaðst Róbert því þurfa frest til að endurheimta og skila þýfinu. Fyrir dómi neitaði hann hins vegar sakargiftum. Kvaðst hann þó ráma í að SH hafi hringt í sig og beðið sig að hitta hann, en kvaðst ekki muna í hvaða tilgangi það var. Þeir SH hafi þekkst frá árinu 1996. Hafi SH verið meira og minna á götunni og sagðist Róbert því stundum hafa skotið yfir hann skjólshúsi. Nánar spurður um þann framburð SH að hann hafi fengið Róbert til að taka við tölvubúnaðinum og koma honum í verð kvaðst hann ekki vita „út af hverju hann væri að gera það og mér skilst nú að það hafi verið einhver misskilningur.” Er Róbert var inntur eftir því hvers vegna hann hefði við yfirheyrslu hjá lögreglu boðist til að skila þýfinu kvað hann lögreglumennina, sem yfirheyrðu hann við rannsókn málsins, hafa hótað honum gæsluvarðhaldi „ef hann gerði ekki eitthvað svo ég bjó til þennan texta” og lögreglumaður hafi við annað tækifæri barið hann og hótað honum ofbeldi.

Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði Róbert sakfelldur fyrir að hafa tekið við „munum frá ákærða SH, sem hann vissi eða mátti vita að voru þýfi, og hefur því  gerst sekur um brot það sem honum er gefið að sök í ákæru...“ Fyrir Hæstarétti var því haldið fram af hálfu ákærða Róberts að með þessari niðurstöðu hafi hann verið sakfelldur fyrir alla þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 2. lið ákæru, og þar með einnig fyrir að selja Steinþóri tölvuskjá, þótt fallið hafi verið frá ákæru á hendur þeim síðarnefnda fyrir að kaupa þann skjá af Róberti. Af hálfu ákæruvalds var við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti lýst yfir að litið væri svo á að ákæruvaldið hafi í héraði fallið frá ákæru að því er varðar þá háttsemi Róberts að selja umræddan tölvuskjá. Í ljósi þessa verður því ekki um hana fjallað.

Eins og nánar er rakið hér að framan var framburður SH, bæði við rannsókn málsins og meðferð þess, staðfastur um að hann hafi afhent ákærða Róberti þýfið úr fyrrnefndu innbroti, að undanskildum einum tölvuskjá, í því skyni að koma því í verð. Var framburður SH og Róberts hjá lögreglu á sama veg um aðdraganda afhendingar þýfisins. Við húsleit hjá SH fannst tölvuskjár, en ekki annað af þýfinu, sem fjallað er um í málinu. Ákærði Róbert, sem er kunningi SH, viðurkenndi við rannsókn málsins að SH hafi beðið sig að selja þýfið. Hafi hann í því skyni farið heim til SH og þaðan til vina sinna og síðan hringt í tvo menn til að reyna að selja tölvubúnaðinn. Í báðum lögregluskýrslum sínum, sem teknar voru örfáum dögum eftir innbrotið, kvaðst hann vita hver keypti þýfið og bauðst til að sjá til þess að því yrði skilað til lögreglu. Bendir þessi framburður ákærða Róberts eindregið til þess að þáttur hans hafi verið annar og meiri en hann hefur viljað vera láta í skýrslu sinni fyrir dómi. Afturhvarf hans þar frá fyrri framburði við rannsókn málsins er haldlaus og engum rökum stutt. Þegar allt framangreint er virt þykir ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um að hafa tekið við munum úr umræddu innbroti, sem hann vissi eða hlaut að vita að væri þýfi, þó ekki tölvuskjá af gerðinni Nec, sem fannst við húsleit á dvalarstað SH 18. júní 2002. Hefur hann með því gerst sekur um hilmingu samkvæmt 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að sakfella ákærða Steinþór fyrir þá háttsemi, sem honum er að sök gefin í ákæru 25. mars 2003. 

III.

Ákærði Róbert hefur gengist 17 sinnum undir sáttir, þar af níu sinnum vegna fíkniefnalagabrots. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2001 var hann dæmdur í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir fjársvik og sams konar brot, sbr. 261. gr. almennra hegningarlaga. Að öðru leyti er sakaferill hans réttilega reifaður í hinum áfrýjaða dómi.

Ákærði Steinþór var fyrst dæmdur 11. mars 1992 í varðhald í 30 daga, skilorðsbundið í tvö ár, auk sektar og sviptingar ökuréttar vegna nytjastuldar og umferðarlagabrota. Næst var hann dæmdur 17. maí 1994 í fangelsi í 2 mánuði, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir þjófnaðartilraun. Þá var hann dæmdur 24. september 2001 til greiðslu 160.000 króna sektar fyrir ýmis umferðar- og vopnalagabrot. Á árinu 2002 hlaut hann tvo refsidóma fyrir fíkniefnalagabrot, annars vegar 30.000 króna sekt 22. apríl og hins vegar hegningarauka 6. júní, 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár. Eftir uppsögu hins áfrýjaða dóms var hann dæmdur 25. september síðastliðinn fyrir hilmingu, en ekki dæmd refsing. Auk þess gekkst hann tvívegis, árin 1997 og 2001, undir sátt vegna fíkniefnalagabrots, eignaspjalla og umferðarlagabrota.

Við ákvörðun refsingar beggja ákærðu verður vísað til 77. gr. almennra hegningarlaga og þess sem rakið er í héraðsdómi. Er ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærðu staðfest, enda er ekki krafist þyngingar hennar af hálfu ákæruvalds.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærðu greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Róbert Guðmundsson, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

Ákærði, Steinþór Árni Sigursteinsson, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

Annan áfrýjunarkostnað greiði ákærðu óskipt.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2003.

        Mál þetta var höfðað með þremur ákærum Lögreglustjórans í Reykjavík. Fyrsta ákæran er dagsett 26. nóvember 2002 á hendur Róberti Guðmundssyni, [ . . . ] [...] og Steinþóri Árna Sigursteinssyni, [ . . . ], “fyrir auðgunarbrot framin í Reykjavík í júní 2002:

1.

Ákærða SH fyrir þjófnað með því að hafa, aðfararnótt laugardagsins 15. júní, brotist inn í verkstæði Orkuvirkis, Funahöfða 5, og stolið 4 tölvum og 3 tölvuskjám að óvissu verðmæti.

        Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

2.

Ákærðu Róbert og Steinþóri Árna fyrir hilmingu nefndan dag, ákærða Róbert með því að hafa tekið við framangreindu þýfi hjá [...], sbr. 1. lið, og selt ákærða Steinþóri Árna einn tölvuskjá og ákærði Steinþór Árni með því að hafa keypt tölvuskjáinn af ákærða Róbert, þrátt fyrir að báðir ákærðu vissu að munirnir voru þýfi.

        Telst þetta varða við 254. gr. almennra hegningarlaga.

        Þess er krafist, að ákærðu verði dæmdir til refsingar.”

        Ákærði SH játaði sakargiftir samkvæmt ákærunni. Hann kvaðst hafa verið undir áhrifum lyfja og áfengis þessa nótt og hafi því lítið munað eftir atburðum næturinnar.

        Ákærðu Róbert og Steinþór Árni neituðu sakargiftum en af hálfu ákæruvalds var var því lýst yfir við framhaldsaðalmeðferð málsins 14. maí sl. að fallið væri frá ákæru á hendur ákærða Steinþóri Árna vegna 2. töluliðar ákærunnar.

 

        Önnur ákæran er dagsett 18. mars 2003 á hendur SH, “fyrir þjófnað með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 26. september 2002 brotist inn í verslunina Útilíf, Álfheimum 74 í Reykjavík, með því að spenna upp hurð, og stolið 1 riffli, 3 haglabyssum, 5 sjónaukum, skotum, 14 hnífum og tösku, samtals að verðmæti kr. 794.151.

        Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

        Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

        Í málinu krefst Útilíf hf., kr 580599-3119, þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 794.151, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38, 2001, frá 23. september 2002, en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.”

        Ákærði SH játaði sakargiftir en kvaðst ekki hafa tekið alla þá muni sem lögregla hefur listað yfir hina stolna muni.

 

        Þriðja ákæran er dagsett 25. mars 2003 á hendur Steinþóri Árna Sigursteinssyni “fyrir hilmingu með því að hafa á tímabilinu júlí-ágúst 2002 tekið við fartölvu af gerðinni Dell Latitude C600III á heimili sínu, af ótilgreindum manni, þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að til hennar hafi verið aflað með auðgunarbroti.

        Telst þetta varða við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

        Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

        Ákærði Steinþór Árni neitaði sakargiftum.

 

        Ákærurnar voru sameinaðar undir rekstri málsins. Aðalmeðferð fór fram í þrennu lagi 14. og 25. apríl og 14. maí sl. og var málið dómtekið síðast nefndan dag.

        Af hálfu ákærða SH var krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá var fjárhæð skaðabótakröfunnar mótmælt með vísan til þess að hann hefur neitað því að hafa tekið alla þá muni sem honum er gefið að sök. Einnig var krafist málsvarnarlauna að mati dómsins.

        Af hálfu ákærða Róberts var krafist sýknu og málsvarnarlauna að mati dómsins.

        Af hálfu ákærða Steinþórs Árna var krafist sýknu og málsvarnarlauna að mati dómsins.

 

        Verða nú rakin málsatvik og skýrslur ákærða og vitna samkvæmt hverri ákæru fyrir sig.

I.

 

Um 1. kafla ákæru dags. 26. nóvember 2002:

        Samkvæmt frumskýrslu lögreglu dagsettri 19. júní 2002 var tilkynnt um innbrot og þjófnað í fyrirtækinu Orkuvirki í Funahöfða 5 kl. 7.50 að morgni 18. júní 2002. Annar eigandi fyrirtækisins hafði komið til vinnu á skrifstofur fyrirtækisins milli kl. 7.00 og 7.30 og tekið eftir því að búið var að fara inn og fjarlægja tölvur og tölvuskjái af skrifstofum og hafi hann þá hringt á lögreglu. Einn starfsmaður hefði mætt til vinnu laugardeginum áður og tekið eftir því að búið var að tæma ruslatunnu á gólf verkstæðisins og tunnan horfin en starfsmanninn ekki grunað neitt óeðlilegt þar sem ekki hafi verið nein ummerki um innbrot. Hinn eigandi fyrirtækisins kvað hugsanlegt að lyklar af verkstæðinu hefðu verið teknir úr einni skrifborðsskúffu á skrifstofunni og þannig hefðu innbrotsmenn sennilega komist inn. Hvorki væri öryggiskerfi né myndavélar hjá fyrirtækinu.

        Á útihurð var búið að spenna upp bréfalúgu og hugsanlegt virtist að innbrotsþjófarnir hafi getað teygt sig inn og náði í læsingu hurðarinnar og opnað þannig. Engar tölvur voru inni og aðeins einn tölvuskjár. Á skrifstofunni höfðu verið ein Dell sn:3GCHDOJ+15” multisync flatskjár sn:2100073GB, ein NEC-tölva+19” skjár og 2 Laser-tölvur+einn 19” Phillips skjár. Þá hafi horfið sérmerkt ávísanahefti merkt “Orkuvirki”og tíu skrifanlegir geisladiskar.

        Ruslatunna verkstæðisins fannst tóm við [...] auk annarrar ruslatunnu sem í voru disklingar.

        Ákærði SH hefur játað sakargiftir en ber því við að hann hafi verið búinn að neyta lyfja og áfengis og kveðst hann ekki hafa munað málavexti fyrr en lögreglumenn minntu hann á þá daginn eftir. Hann gerði ekki athugasemdir við lýsingu atvika í ákæru. Í lögregluskýrslu ákærða hjá lögreglu 19. júní 2002 bar hann að hann hefði brotist inn í Orkuvirki að morgni laugardagsins áður um klukkan 4-5 að morgni. Hann hefði verið að skemmta sér með meðleigjendum sínum að [...] og drukkið áfengi og neytt  hass og E-taflna. Hann kveðst þá hafa fengið þá hugmynd að brjótast inn og stela tölvum til að selja en hann hafi verið skuldugur við fíkniefnasala. Hann hafi læðst út úr húsinu og kíkt inn um glugga á timburhúsi sem hafi staðið á bílastæði við húsið við hliðina. Þar hafi hann séð að voru skrifstofur og mikið af tölvum og ýmsum búnaði. Hann hafi ekki séð merki um þjófavarnarkerfi. Síðan kvaðst ákærði hafa séð bílfjöður í rusli fyrir utan og spennt upp hurðina á skrifstofuhúsnæðinu með henni og að því loknu gengið inn í húsnæðið. Hann hafi tekið fjórar tölvur og þrjá tölvuskjái og hafi einn þeirra verið flatskjár.

        Ákærði SH kvaðst hafa fundið fjölda húslykla og annarra lykla í skrifborðsskúffu og ávísanahefti og hefði hann rifið 3-4 blöð úr heftinu og tekið með sér en skilið heftið eftir án þess að vita hvort einhver blöð hefðu verið eftir í því. Þá hafi hann stungið lyklunum í vasa sína ásamt ávísanablöðunum og auk þess tekið með sér eitthvað af smádóti. Kvaðst ákærði SH hafa sett tölvubúnaðinn í ruslatunnuna en búnaðurinn ekki allur komist þar fyrir. Hafi hann því reynt að opna verkstæðishúsið með einhverjum af lyklunum og það hafi tekist. Þar inni hafi hann fundið aðra ruslatunnu, hvolft úr henni ruslinu og sett restina af tölvubúnaðinum í hana. Hafi hann síðan dregið báðar ruslatunnurnar á eftir sér heim til sín að[...]. Ákærði SH kvaðst hafa hreinsað út gögn af Dell turntölvu. Hann hefði opnað tölvukassana á öllum tölvunum til þess að sjá hvaða búnaður væri í þeim en allar hefðu þær verið turntölvur. Aðspurður af lögreglu kvaðst ákærði [...] hafa verið einn við innbrotið.

        Vitnið Gísli Breiðfjörð Árnason, rannsóknarlögreglumaður, kom fyrir dóminn og sagði að tölvubúnaðinum úr innbrotinu í Orkuvirki hefði verið skilað til fyrirtækisins.

        Játning ákærða SH fyrir dóminum er í samræmi við ákæru og önnur gögn málsins og telst því sannað að hann hafi gerst sekur um brot það sem honum er gefið að sök í þessum ákærulið og er þar réttilega heimfært til refsiákvæða.

 

Um 2. kafla ákæru dags. 26. nóvember 2002:

        Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands var heimiluð leit á heimili ákærða Róberts þann 19.  júní 2002 á þeim forsendum að þar væri að finna þýfi úr framangreindu innbroti í fyrirtækið Orkuvirki ehf. Fyrir dóminum bar ákærði SH að hann hefði hringt í ákærða Róbert til að fá aðstoð hans við að selja þýfið og hafi hann sagst ætla að hjálpa honum. Hann hafi síðan komið heim til ákærða SH og síðan hafi ákærði Róbert farið með þýfið en ákærði SH vissi ekki hvert. Kvað hann þá félaga hafa fengið um 25-30 g af amfetamíni fyrir þýfið.

        Ákærði Róbert hefur neitað sakargiftum en kvaðst minnast þess að ákærði SH hefði einhvern tíma hringt í hann og beðið hann að hitta sig en man ekki út af hverju það var. Bar hann fyrir sig minnisleysi vegna áverka af völdum umferðarslyss sem hann varð fyrir 22. mars sl. Aðspurður kvaðst ákærði Róbert hafa þekkt ákærða SH frá því 1996 og oft leyft honum að gista heima hjá sér þar sem ákærði SH hefði oft verið húsnæðislaus.

        Í lögregluskýrslu 20. júní 2002 bar ákærði Róbert hins vegar að hann hefði farið heim til ákærða SH [...] laugardaginn 16. júní og hefði SH spurt ákærða Róbert hvort hann gæti selt fyrir sig tölvubúnaðinn en hann ekki sagst vita það. Hann hafi stuttu seinna farið á bifreið sinni til vina sinna í Kópvogi. Hann hafi hringt í tvo menn í þeim tilgangi að reyna að selja tölvubúnaðinn en það hafi ekki gengið. Hann bar hins vegar að hann vissi hver hefði keypt tölvubúnaðinn af ákærða SH og bauð lögreglu að hann myndi sjá til þess að búnaðinum yrði skilað til lögreglu. Aðspurður fyrir dóminum um þessi orð sín kvaðst ákærði Róbert hafa búið til þennan texta þar sem lögreglumennirnir, sem yfirheyrðu hann, hefðu hótað honum gæsluvarðhaldi. Hann væri hræddur við lögreglumenn því hann hefði lent í ýmsu við yfirheyrslur hjá lögreglu. Seinna sama dag gaf ákærði Róbert aðra skýrslu hjá lögreglu þar sem fram kemur að hann hefði farið til mannsins sem hann taldi að hefði keypt hinn stolna tölvubúnað. Hefði maðurinn sagt að hann gæti ekki afhent búnaðinn strax vegna þess að hann væri kominn út um allan bæ. Því hefði ákærði Róbert beðið um frest til að afhenda búnaðinn til kl. 15 daginn eftir.

        Ákærði Steinþór Árni gaf skýrslu hjá lögreglu 27. ágúst 2002 og bar þá að ákærði Róbert hefði komið til sín með flatan tölvuskjá af gerðinni NEC sem er hluti af þýfi úr framangreindu innbroti að [...]. Skjárinn fannst við húsleit hjá ákærða Steinþóri Árna. Sagðist ákærði Steinþór Árni hafa samþykkt að kaupa skjáinn á 25.000 krónur og hefði ákærði Róbert komið með skjáinn heim til sín. Aðspurður fyrir dóminum um það hvort hann hefði keypt þennan tölvuskjá af ákærða Róberti svaraði hann: “Það getur vel verið, já.” Nánar aðspurður svaraði hann að hann væri ekki alveg viss, því hann myndi ekki svona langt aftur í tímann.

        Með framburði ákærða SH fyrir dómi, sem rakinn er hér að framan, sem fær stuðning í skýrslu ákærða Steinþórs Árna fyrir dómi þykir sannað að ákærði Róbert tók við munum frá ákærða SH , sem hann vissi eða mátti vita að voru þýfi, og hefur því gerst sekur um brot það sem honum er gefið að sök í ákæru og er þar réttilega heimfært til lagaákvæða.

II.

Um ákæru dags. 18. mars 2003:

        Að morgni 26. september 2002 var tilkynnt um innbrot í verslunina Útilíf í Glæsibæ. Búið var að eiga við afgreiðsluborð og skotvopn og lágu haglabyssa og bogi á gólfinu. Lagerhurð úr stáli í kjallara var lítillega bogin við læsingu og hakið í dyrakarminum, þar sem læsingin skellur í, var beyglað og brotið. Í kjallaranum fannst kúbein.

        Í tækniskýrslu lögreglu dags. 30. september 2002 kemur fram að yfirgnæfandi líkur séu á því að þarna hafi verið fleiri en einn maður að verki og að verkið hafi verið vel undirbúið. Eingöngu hafi verið farið inn í þann hluta verslunarrýmisins þar sem ekki eru hreyfiskynjarar. Rótað hefði verið í skúffum og útstillingakössum og blóð hefði fundist á vettvangi og voru tekin sýni af því. Á umbúðum á vettvangi hafi fundist fingrafarapartar og hafi þeim verið lyft af fleti sínum með fingrafaralyftum. Í skýrslu tæknirannsóknastofu dags. 7. febrúar sl. kom fram að samanburðarrannsókn á fingraförunum hefði leitt í ljós að eitt fingrafarið hefði verið eftir þumalfingur hægri handar ákærða [...] .   

         Ákærði SH játaði sakargiftir fyrir dóminum en gerði þá athugasemd að hann hefði ekki spennt upp lagerhurðina heldur hafi hún verið opin þegar hann kom þar að. Ákærði SH kvaðst hafa tekið þá muni sem eru á lista frá Útilífi yfir það, sem tekið var í innbrotinu, að frátöldum eftirgreindum munum: Talstöð euro að fjárhæð kr. 16.990, GPS Magelan 315 að fjárhæð kr. 34.990, Silva GPS að fjárhæð kr. 39.990, Princeton vasaljós að fjárhæð kr. 3.190, riffilsjónauki tasco silver Antler að fjárhæð kr. 13.791, 2 hnífar sviss tool að fjárhæð kr. 19.960, handsjónauki nætur owl optics að fjárhæð kr. 78.700 og 3 pakkningar af skotum Remington 243 boat tail að fjárhæð 8.670.

        Í lögregluskýrslu dags. 6. febrúar 2003 lýsti ákærði SH því að hann hefði pakkað þýfinu í plast og komið því fyrir í hrauninu rétt hjá Kúagerði við Reykjanesbraut. Þar hefði hann geymt það í tvo daga og síðan náð í það og farið með það út á land en vildi ekki gefa upp hvar það er. Hann kvaðst hafa selt báðar Remington byssurnar og fengið tvær plötur af hassi fyrir en það væru u.þ.b. 250 g.

        Með játningu ákærða SH, sem er í samræmi við gögn málsins, telst sannað að hann hafi gerst sekur um framangreint brot sem er réttilega heimfært til refsiákvæða. Þó telst ósannað gegn neitun ákærða að hann hafi stolið öðrum munum en þeim sem hann hefur játað og er sakfelling við það miðuð.

       

III.

Um ákæru dags. 25. mars 2003:

        Við húsleit hjá ákærða Steinþóri Árna 26. ágúst 2002 fannst m.a. fartölva af gerðinni Dell Latitude C600III en í ljós kom að henni hafði verið stolið frá fyrirtækinu Eskli í byrjun júlí 2002. Við húsleitina fannst einnig þýfi úr öðru innbroti. Fyrir dóminum bar ákærði Steinþór Árni að hann hefði verið með þessa tölvu í viðgerð fyrir félaga sína. Nánar aðspurður vildi hann ekki nafngreina þann vin hans sem hefði komið með tölvuna heim til hans þar sem hann óttaðist um líf fjölskyldu sinnar. Aðspurður um það hvort hann hefði einhverja menntun í tölvuviðgerðum kvað hann svo ekki vera en hann ynni fyrir sér með bíla- og tölvuviðgerðum. Ákærði Steinþór Árni kvaðst aldrei hefði tekið við tölvunni hefði hann vitað að hún væri illa fengin enda ætti hann alltaf von á heimsókn lögreglu. Ákærði Steinþór Árni bar í aðalatriðum á sama veg hjá lögreglu við skýrslutöku 27. ágúst 2002.

        Komið er fram að á heimili ákærða Steinþórs Árna fannst þýfi úr tveimur innbrotum. Hann hefur borið að tölva sú, sem mál þetta snýst um, hefði verið hjá honum í viðgerð. Aðspurður fyrir dóminum kvaðst hann ekki hafa menntun til að stunda slíkar viðgerðir. Þá hefur hann hvorki hjá lögreglu né fyrir dóminum viljað gefa upp hver kom með tölvuna til hans til viðgerðar og ber því við að hann óttaðist um líf sitt og fjölskyldunnar. Þykir þessi vitnisburður ákærða Steinþórs Árna styrkja þá niðurstöðu að honum hafi verið ljóst, eða mátt vera ljóst, að tölvunnar var aflað með auðgunarbroti. Verður því talið sannað að ákærði Steinþór Árni hafi gerst sekur um hilmingarbrot það sem honum er gefið að sök og er réttilega heimfært til lagaákvæða í ákæru. Í ákæru er ekki getið um verðmæti framangreindrar tölvu en í gögnum málsins kemur fram mat talsmanns Eskils ehf., eiganda tölvunnar, á verðmæti hennar að fjárhæð 319.193.10 krónur.

 

IV.

Ákvörðun viðurlaga, sakarkostnaður og skaðabætur:

        Ákærði Róbert Guðmundsson hefur frá árinu 1984 16 sinnum gengist undir sáttir til greiðslu sekta, einu sinni vegna þjófnaðarbrots, átta sinnum vegna fíkniefnalagabrots, sex sinnum fyrir umferðarlagabrot og einu sinni vegna brots gegn áfengislögum.

        Þann 28. nóvember 1985 var ákærði dæmdur til 5 mánaða fangelsis skilorðsbundið í 3 ár fyrir skjalafals, þjófnað og fjársvik. Þann 8. apríl 1987 hlaut ákærði 6 mánaða fangelsisdóm skilorðsbundinn í 2 ár fyrir þjófnaðarbrot og var fyrrgreindur dómur tekinn upp og dæmdur með. Ákærði fékk þann 6. maí 1988 dóm fyrir þjófnað og fjársvik og hlaut 4 mánaða fangelsi. Þann 3. júní 1988 var ákærði dæmdur í Hæstarétti í 8 mánaða fangelsi fyrir fjársvika- og hilmingarbrot en 12. ágúst sama ár var ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir fjársvik. Ákærði var dæmdur 30 daga fangelsi fyrir hilmingu 23. ágúst 1990. Þann 28. maí 1991 hlaut ákærði 5 mánaða fangelsisdóm fyrir skjalafals og 27. nóvember sama ár hlaut ákærði 2 mánaða fangelsisdóm fyrir hilmingu. Þann 6. mars og 31. mars 1995 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi skilorðsbundið í 3 ár í hvoru máli fyrir fíkniefnabrot. Þann 27. mars 1996 hlaut ákærði 4 mánaða fangelsisdóm fyrir skjalafals og fjársvik og var síðastnefndur dómur tekinn upp og dæmdur með. Með dómi 21. júní sama ár var ákærða ekki gerð sérstök refsing vegna umferðarlagabrota. Þann 26. september sama ár var ákærði dæmdur í 5 mánaða fangelsi fyrir skjalafals og þjófnað. Ákærði var dæmdur í 8.000 króna sekt fyrir brot gegn umferðarlögum 15. desember 1998. Þann 25. janúar 2001 var ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir fjársvikabrot sbr. 261. gr. almennra hegningarlaga og 27. apríl sama ár hlaut ákærði dóm fyrir umferðarlagabrot en var ekki gerð sérstök refsing í málinu.

        Brot það, sem ákærði er nú sakfelldur fyrir, er rof á skilorði dómsins frá 25. janúar 2001 og er því sá dómur tekinn upp og ákærða nú gerð refsing í einu lagi skv. 60. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar er litið til ákvæða 255. gr. almennra hegningarlaga. Þykir því refsing ákærða hæfilega ákveðin 3 mánaða fangelsi. Þá er ákærði Róbert dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 120.000 krónur.

        Sakarferill ákærða SH nær aftur til ársins 1989. Á því tímabili hefur hann sex sinnum gengist undir sáttir til greiðslu sekta, tvisvar vegna brots gegn umferðarlögum og þar af einu sinni sviptur ökurétti í 12 mánuði, einu sinni vegna áfengislagabrots, tvisvar vegna fíkniefnabrots og einu sinni vegna þjófnaðarbrots. Þá hlaut hann ákærufrestun 1991 skilorðsbundna í 2 ár vegna þjófnaðarbrots. Með dómi 14. október 1991 var ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir brot gegn 1. mgr. 155. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga, 1. mgr. 5., 1. sbr. 3. mgr. 45. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Var ákærða þá jafnframt gerð 70.000 króna sekt og sviptur ökurétti í 6 mánuði. Ákærði var 29. nóvember 1996 dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir tilraun til þjófnaðar. Þann 2. janúar 1997 var ákærði dæmdur til 30 daga fangelsisvistar vegna þjófnaðarbrots og tilraunar til þjófnaðar. Fékk  ákærði reynslulausn 8. maí 1997. Þann 30. desember sama ár hlaut ákærði 45 daga fangelsisdóm fyrir tilraun til þjófnaðar og var reynslulausnin frá 8. maí 1997 dæmd með. Enn hlaut ákærði dóm fyrir þjófnaðarbrot þann 17. desember 1999 4 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár. Þann 3. júlí 2000 gekkst ákærði undir greiðslu 90.000 króna sektar fyrir fíkniefnabrot. Ákærði var dæmdur í 45.000 króna sekt vegna ölvunaraksturs 24. september 2001 og var hann jafnframt sviptur ökurétti í 8 mánuði. Þann 1. október 2002 var ákærða með viðurlagaákvörðun gerð 80.000 króna sekt vegna brots gegn 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.

        Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið skilorð dómsins frá 17. desember 1999 og er sá dómur því tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir öll brotin skv. 60. gr. almennra hegningarlaga. Er við ákvörðun refsingar litið til greiðrar játningar ákærða en einnig til ákvæða 77. gr. sömu laga og auk þess höfð hliðsjón af 255. gr. laganna. Að öllu þessu virtu þykir refsing ákærða SH hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi. Þá er ákærði SH dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Sigurgeirssonar hrl., 120.000 krónur.

        Ákærði Steinþór Árni Sigursteinsson var með dómi 11. mars 1992 dæmdur í 30 daga varðhald skilorðsbundið í 2 ár auk greiðslu 30.000 króna sektar og ökuleyfissviptingar í 12 mánuði vegna brots gegn 1. mgr 259. gr. almennra hegningarlaga, 1. mgr. 4., 1. og 3. mgr. 5., 1. mgr. 37., 1. sbr. 3. mgr. 45. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Þann 17. febrúar 1993 var ákæru á hendur honum frestað skilorðsbundið í 2 ár fyrir þjófnaðarbrot. Hann hlaut 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi í 3 ár fyrir þjófnaðarbrot þann 17. mnaí 1994. Ákærði hlaut 160.000 króna sekt fyrir brot gegn umferðarlögum með dómi 24. september 2001. Á árinu 2002 hlaut ákærði tvo dóma vegna fíkniefnabrota, í fyrra skiptið 30.000 króna sekt þann 22. apríl en 30 daga fangelsi skilorðsbundið í 2 ár þann 6. júní. Auk þess gekkst ákærði undir 60.000 króna sekt með sátt 2. maí 1997 fyrir fíkniefnabrot og 50.000 króna sekt með viðurlagaákvörðun 5. febrúar 2001 vegna eignaspjalla og umferðarlagabrota.

        Ákærði hefur með broti sínu nú rofið skilorð dómsins frá 6. júní 2002 og verður því sá dómur tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi skv. 60. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð 45 daga fangelsi.

        Þá ber ákærða Steinþóri Árna að greiða helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Einars Þórs Sverrissonar hdl., 60.000 krónur en 60.000 krónur til viðbótar greiðast verjandanum úr ríkissjóði. Litið er til þess að fallið var frá annarri ákæru af tveimur á hendur ákærða undir rekstri málsins.

        Ákærðu skulu greiða allan sakarkostnað.

        Útilíf hf., kt. 580599-3119, hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða SH að fjárhæð 794.151 með vöxtum og dráttarvöxtum eins og getið er í ákæru. Er fjárhæð skaðabótanna miðuð við framlagðan lista yfir stolna muni. Ákærði SH mótmælti eingöngu fjárhæð skaðabótakröfunnar að því leyti sem hún væri miðuð við þá muni sem hann neitar að hafa tekið eins og rakið er hér að framan. Samkvæmt gögnum málsins hafa hinir stolnu munir ekki komist til skila. Sakfelling ákærða SH er miðuð við þá muni sem hann játar að hafa tekið umrætt sinn og í ljósi afstöðu ákærða til skaðabótakröfunnar þykir rétt að dæma hann til að greiða Útilífi hf. skaðabætur að fjárhæð 577.870 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

        Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð

        Ákærði, Róbert Guðmundsson, sæti fangelsi í 3 mánuði.

        Ákærði, SH, sæti fangelsi í 6 mánuði.

        Ákærði, Steinþór Árni Sigursteinsson, sæti fangelsi í 45 daga.

        Ákærðu greiði allan sakarkostnað.

        Ákærði, Róbert, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 120.000 krónur.

        Ákærði, SH, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Sigurgeirssonar hrl., 120.000 krónur.

        Ákærði, Steinþór Árni, greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Einars Þórs Sverrissonar hdl., 60.000 krónur, en 60.000 króna málsvarnalaun til viðbótar greiðist úr ríkissjóði.

        Ákærði, SH, greiði Útilífi hf. skaðabætur að fjárhæð 577.870 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. september 2002 til dómsuppkvaðningardags en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.