Hæstiréttur íslands
Mál nr. 415/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 13. nóvember 2001. |
|
Nr. 415/2001. |
Gunnar Örn Ólafsson(Jón Egilsson hdl.) gegn Nönnu Báru Maríusdóttur og Torben Welle Hansen (Valgarður Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Málatilbúnaður G þótti ekki fullnægja meginreglum einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Var því staðfestur úrskurður héraðsdóms um frávísun á grundvelli e. liðar 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. október 2001, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hnekkt og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Verði málskostnaður í héraði í þessum þætti málsins felldur niður, en sér dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðilinn Nanna Bára Maríasdóttir hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Varnaraðilinn Torben Welle Hansen krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. október 2001.
Mál þetta, sem þingfest var 25. október 2000, var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu þann 12. september sl. Stefnandi er Gunnar Örn Ólafsson, kt. 161047-3259, Hvaleyrarbraut 24, Hafnarfirði. Stefndu eru Nanna Bára Maríasdóttir, kt. 080363-2499, Búðarstíg 3, 820 Eyrarbakka og Torben Welle Hansen, kt. 090563-1985, Lupinens Kvarter 18, Engbyen, Herning, Danmörku.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 6.680.200 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. júní 1997 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Af hálfu stefndu Nönnu Báru Maríasdóttur er þess krafist að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að henni verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verði fram ef til aðalmeðferðar komi. Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu meðstefnda Torben tók lögmaður stefndu Nönnu undir kröfur um frávísun.
Af hálfu stefnda Torben Welle Hansen er aðallega gerð krafa um frávísun málsins en til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað.
Málavextir eru þeir að árið 1996 seldi stefnandi nokkurt magn af saltfiski til útflutnings. Gaf stefnandi út reikning þann 9. júlí 1997 og var reikningurinn gefinn út á Haukaver ehf. Reikningur þessi er að höfuðstól 11.396.000 krónur en að teknu tilliti til innborgana að upphæð 4.715.000 eru eftirstöðvar hans 6.680.200 krónur sem er stefnukrafa máls þessa. Samkvæmt áritun á reikninginn er útgáfudagur hans jafnframt gjalddagi. Þann 30. september 1997 þingfesti stefnandi mál á grundvelli þessa sama reiknings og þar sem útivist varð af hálfu stefnda var stefna í málinu árituð um aðfararhæfi þann 29. október 1997.
Kveður stefnandi að komið hafi í ljós að Haukaver ehf. hafi verið leppur í áðurnefndum fiskviðskiptum en hinir raunverulegu kaupendur hafi verið stefndu í máli þessu. Haukaver ehf. var á þeim tíma sem viðskipti þessi áttu sér stað í eigu stefnda Torbens og Þorsteins J. Vilmundarsonar. Á sama tíma var stefnda Nanna starfsmaður Haukavers ehf. og jafnframt starfsmaður einkafyrirtækis stefnda Torbens, Riks og Co. Heldur stefnandi því fram að áðurnefndur Þorsteinn, sem hafi á þessum tíma verið framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins hafi ekki kannast við að hafa staðið að þessum fiskkaupum og hafi hann bent á stefndu í máli þessu sem hina raunverulegu kaupendur. Vegna þess að útivistardómur féll á hendur Haukaveri ehf. vegna viðskiptanna hafi Þorsteinn framselt kröfu á hendur stefndu sem raunverulegra kaupenda fisksins til stefnanda. Stefndu kveða það ekki rétt að þeir hafi persónulega staðið í fiskkaupum þessum. Haukaver ehf. hafi verið kaupandinn og að þeirra afskipti hafi aðeins verið vegna starfa þeirra fyrir það félag. Einnig kveða stefndu að fiskur þessi hafi ekki uppfyllt gæðakröfur og hafi verið skorað á stefnanda að koma til Danmerkur á sínum tíma og sannreyna þetta. Stefnandi hafi ekki gert þetta og því hafi fiskurinn loks verið seldur á því verði sem fékkst og allar þær greiðslur hafi runnið til stefnanda og hafi Haukaver ehf. ekki fengið neitt í sinn hlut vegna viðskiptanna.
Stefnandi styður kröfur sínar á hendur stefndu þeim rökum að um sé að ræða reikningsskuld sem sannanlega hafi ekki fengist greidd. Reikningur hafi verið gefinn út á Haukaver ehf. og hafi útivistardómur fallið vegna hans á hendur því félagi. Síðar hafi komið í ljós að Haukaver ehf. hafi aðeins verið leppur í þeim viðskiptum og að raunverulegir kaupendur hafi verið stefndu í máli þessu. Hafi þáverandi fyrirsvarsmaður Haukavers ehf. Þorsteinn J. Vilmundarson upplýst þetta. Honum hafi verið ókunnugt um þessi viðskipti þrátt fyrir að hann hafi verið framkvæmdastjóri félagsins á þessum tíma. Til stuðnings þeim fullyrðingum sínum að Haukaver ehf. hafi ekki verið raunverulegur kaupandi fisksins heldur stefnandi því fram að félagið hafi aldrei staðið í neinum rekstri, það hafi ekki stofnað til bankaviðskipta og hafi skilað núllskýrslum til skattyfirvalda.
Stefnandi byggir einnig á því að hann sé réttur aðili að málinu á grundvelli þess að hann hafi fengið kröfu þá sem stefnt er um í málinu framselda frá Haukaveri ehf. Ástæðu þessa kveður stefnandi vera þá að dómur hafi gengið vegna kröfunnar á hendur því félagi og því hafi nefnt framsal átt sér stað.
Frávísunarkröfu sína byggir stefndi Torben á því í fyrsta lagi að stefnandi fullyrði í stefnu að raunverulegir kaupendur margnefnds fisks hafi verið stefndu. Kveður stefndi að það megi skilja sem svo að stefnandi byggi á því að raunverulegt samningssamband hafi verið við stefndu en ekki Haukaver ehf. Hins vegar geri stefnandi enga tilraun til að sanna það eða sýna fram á að stefndu hafi eignast fiskinn, að þau hafi síðan selt hann og hafi haft af því söluhagnað, eins og það sé orðað í stefnunni. Telur stefndi að eigi málatilbúnaður stefnanda að byggjast á þessum grunni, sé ljóst að hann sé fullkomlega vanreifaður. Einungis séu settar fram fullyrðingar um atvik og viðskipti aðila, án þess að nokkuð í málinu styðji þær fullyrðingar. Stefndi byggir í öðru lagi á því að síðar í lýsingu málsástæðna sinna segi stefnandi hins vegar að hann hafi fengið kröfu þá sem mál þetta sé höfðað til heimtu á, framselda af Þorsteini Vilmundarsyni fyrir hönd Haukavers ehf. og að það framsal heimili stefnanda að höfða mál þetta í eigin nafni. Telur stefndi að hér sé lýst gjörólíkum málsgrundvelli, þar sem kröfuréttur stefnanda á að hafa stofnast við það að Haukaver ehf. hafi framselt kröfu sem það hafi átt á hendur stefnda, til stefnanda. Ef málatilbúnaður stefnanda eigi að byggja á þessum grunni sé hann einnig fullkomlega vanreifaður og órökstuddur. Þannig sé engin tilraun gerð til að sýna fram á það hvernig Haukaver ehf. hafi eignast kröfu á hendur stefndu. Hvort félagið hafi gert það með því að greiða kröfu stefnanda samkvæmt reikningnum eða hafi hafi það gert það með því að gera sölusamning um fiskinn við stefndu. Telur stefndi að af gögnum málsins verði ekki séð að Haukaver ehf. hafi átt neina kröfu á hendur stefndu sem það hafi getað framselt. Ekki sé heldur gerð nein tilraun til þess af hálfu stefnanda að skýra með hvaða heimild Þorsteinn Vilmundarson hafi getað framselt meinta kröfu félagsins rúmum tveimur árum eftir að hann hafi gengið úr stjórn félagsins og afsalað sér prókúruumboði. Að öllu samanlögðu telur stefndi ljóst að málatilbúnaður stefnanda sé vanreifaður, óskýr og villandi. Nær ómögulegt sé fyrir stefndu að taka til varna þar sem fullkomlega sé óljóst á hvaða grundvelli málsóknin sé byggð og hvernig stefndi hyggist í raun rökstyðja mál sitt. Stefndu telji því að málatilbúnaður stefnanda fullnægi á engan hátt þeim kröfum sem gerðar séu til skýrs og glöggs málatilbúnaðar, sbr. d og e lið 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Kveður stefndi því óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá dómi.
Stefnda Nanna krafðist ekki frávísunar málsins í greinargerð og voru af hennar hálfu ekki færðar fram sjálfstæðar röksemdir fyrir frávísun við munnlegan flutning um þennan þátt málsins að öðru leyti en því að lögmaður hennar tók undir kröfu meðstefnda um frávísun.
Stefnandi krefst þess að kröfu um frávísun verði hrundið.
Málatilbúnaður stefnanda byggir á því annars vegar að stefndu hafi verið raunverulegir kaupendur þess fisks sem reikningsfærður var á Haukaver ehf. með reikningi þeim er þegar hefur verið lýst og lagður hefur verið fram í málinu. Hafi þau notað einkahlutafélagið sem lepp fyrir þessi viðskipti. Í rökstuðningi stefnda Torbens fyrir frávísunarkröfu er það talið eiga að leiða til frávísunar að málsástæður stefnanda byggi að þessu leyti á fullyrðingum einum sem ekki sjái stað í gögnum málsins. Ekki verður fallist á það með stefnda að þetta atriði eitt og sér geti leitt til frávísunar. Enda leiðir skortur á sönnun um atvik máls til sýknu ef svo ber undir. Verður málinu því ekki vísað frá á grundvelli vanreifunar eins og stefndi Torben hefur krafist.
Hins vegar byggir stefnandi á því að hann sé réttur aðili máls þessa þar sem Haukaver ehf. hafi framselt honum kröfu þá sem stefnt er til greiðslu á í málinu. Fallast verður á með stefnda Torben að hér sé lýst allt öðrum og ólíkum málsgrundvelli en stefnandi byggir að öðru leyti á. Er ekki í stefnu eða í öðrum gögnum málsins reynt að renna stoðum undir það hvers eðlis sú krafa sé sem stofnast hafi milli Haukavers ehf. og stefndu í máli þessu. Ekki er heldur gerð grein fyrir því hvernig stofnun kröfunnar á að hafa verið háttað. Fallist er á það með stefnda Torben að verulegum vandkvæðum sé bundið fyrir stefndu að taka til varna þegar málsgrundvöllur stefnanda er svo mótsagnakenndur sem raun ber vitni. Verður ekki séð að úr þessum vankötum á málatilbúnaði verði bætt undir rekstri málsins. Það er því mat dómsins að málatilbúnaður stefnanda fullnægi ekki meginreglum einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Með vísan til þess sem að ofan greinir og e. liðar 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 er því óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá dómi.
Með hliðsjón af þessari niðurstöðu þykir rétt að stefnandi greiði stefnda Torben 100.000 krónur í málskostnað. Að auki greiði stefnandi í ríkissjóð 80.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarlaun lögmanns stefndu Nönnu Báru, Sigurðar Jónssonar hdl., greiðist úr ríkissjóði. Þykir þóknun hæfilega ákveðin 80.000 krónur.
Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi Gunnar Örn Ólafsson greiði stefnda Torben Welle Hansen 100.000 krónur í málskostnað. Að auki greiði stefnandi í ríkissjóð 80.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarlaun talsmanns stefndu Nönnu Báru Maríasdóttur, Sigurðar Jónssonar hdl, 80.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.