Hæstiréttur íslands

Mál nr. 664/2010


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Tímabundið atvinnutjón
  • Þjáningarbætur
  • Miskabætur
  • Örorkubætur
  • Gjafsókn


            

                                                                                              

Fimmtudaginn 6. október 2011.

Nr. 664/2010.

Leonard Czeslaw Cimoszko

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

gegn

Risi ehf.

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Líkamstjón. Skaðabætur. Tímabundið atvinnutjón. Þjáningabætur. Miskabætur. Örorkubætur. Gjafsókn.

L krafði R ehf. um bætur fyrir líkamstjón sem hann varð fyrir í vinnuslysi. Deildu aðilar málsins um bótafjárhæð L til handa en L krafði R ehf. um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáningabætur, bætur fyrir varanlegan miska og bætur vegna varanlegrar örorku. Í Hæstarétti var fallist á dómkröfur L að öllu leyti. Var talið að R hefði fallist á að tímabundið atvinnutjón L hefði varað í þrjá mánuði með því að fallast á örorkumat vegna líkamstjóns L. Þá hefði R ekki leitast við að sanna hver laun L hefðu orðið á nefndu tímabili og þótti því mega miða við útreikning L. Talið var að við útreikning á þjáningabótum og bótum vegna varanlegs miska mætti samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga miða við framreikning samkvæmt vísitölu þann dag sem málið var höfðað svo sem L hafði gert. Loks var fallist á að launatekjur L síðustu þrjú almanaksárin fyrir slysið gætu ekki talist réttur mælikvarði við útreikning á tjóni hans vegna varanlegrar örorku þar sem hann hafði verið atvinnulaus í að minnsta kosti 9 mánuði á tímabilinu. Því bæri að meta árslaun hans sérstaklega. L taldi rétt að miða við launatekjur sínar árið 2004 en R taldi réttara að miða við meðaltekjur í atvinnugrein L. Þar sem R hafði ekki lagt fram nein gögn til að upplýsa hverjar slíkar tekjur hefðu verið þótti rétt að fallast á kröfu L hvað þetta varðar.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. desember 2010. Hann krefst þess aðallega að stefnda, Risi ehf., verði gert að greiða sér 4.562.720 krónur með 4,5% ársvöxtum, af 1.779.835 krónum frá 25. júní 2005 til 2. nóvember sama ár, af 5.419.564 krónum frá þeim degi til 10. september 2008, af 4.562.720 krónum frá þeim degi til 30. júní 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 29. nóvember 2010 að fjárhæð 2.842.987 krónur. Áfrýjandi krefst þess til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en áfrýjandi nýtur gjafsóknar á báðum dómstigum.

Stefndi krefst sýknu af kröfu áfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi unir niðurstöðu héraðsdóms um að vextir fram til 25. júní 2005 séu fyrndir, en stefna til héraðsdóms var birt 25. júní 2009.

Hinn 10. september 2008 greiddi réttargæslustefndi áfrýjanda bætur úr slysatryggingu launþega að fjárhæð 856.844 krónur. Áfrýjandi hefur tekið tillit til greiðslunnar við kröfugerð sína.

Stefndi Ris ehf. unir hinum áfrýjaða dómi um bótaskyldu sína og um fjárhæð bóta. Hinn 29. nóvember 2010 greiddi réttargæslustefndi áfrýjanda skuldina samkvæmt dómsorði hins áfrýjaða dóms, 2.842.987 krónur. Byggir stefndi kröfu sína um sýknu á því að þar með hafi bætur til áfrýjanda verið greiddar að fullu.

Áfrýjandi gerir sömu kröfu um fjárhæð bóta og hann hafði uppi í héraði. Um kröfu sína vísar hann til ákvæða í skaðabótalögum nr. 50/1993 og greinist hún í fjóra bótaliði, svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi; bætur samkvæmt 2. gr. laganna fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningabætur samkvæmt 3. gr., bætur fyrir varanlegan miska samkvæmt 4. gr. og bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt 5. gr. til 7. gr.

I

Áfrýjandi krefst bóta fyrir tímabundið atvinnutjón í þrjá mánuði og byggir kröfuna á niðurstöðu matsgerðar Atla Þórs Ólasonar læknis um þetta. Fjárhæð kröfunnar byggir hann á meðaltali mánaðarlauna sinna tímabilið janúar til og með október 2004 og dregur frá greiðslur sem hann fékk á nefndu þriggja mánaða tímabili. Við fjárhæðina þannig fengna bætir hann síðan 8% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð og 10,17% vegna orlofs og fær þannig fjárhæðina 477.415 krónur í þessum kröfulið svo sem nánari grein er gerð fyrir í hinum áfrýjaða dómi.

Stefndi kvaðst í greinargerð sinni í héraði ekki gera athugasemd við örorkumat Atla Þórs Ólasonar. Allt að einu mótmælti hann kröfu áfrýjanda „um tímabundið atvinnutjón“. Væri um áætlunarfjárhæð að ræða en aðeins bæri að greiða bætur fyrir „sannað raunverulegt tímabundið tekjutap, en ekki áætlað“. Væri ósannað að tekjur áfrýjanda hefðu orðið hærri á „óvinnufærnistímabilinu“ ef hann hefði ekki orðið fyrir slysinu.

Í hinum áfrýjaða dómi var talið að læknisvottorð 10. janúar 2005 sýndi að áfrýjandi hafi verið óvinnufær í 69 daga, frá 23. nóvember 2004 til 31. janúar 2005. Var ekki talið sannað að hann ætti kröfu á frekari greiðslum fyrir þetta tímabil en hann hefði þegar fengið og var stefndi því sýknaður af kröfuliðnum. Niðurstaða dómsins um þetta virðist byggð á misskilningi um efni nefnds læknisvottorðs. Með málflutningsyfirlýsingu sinni um að ekki væri mótmælt örorkumati Atla Þórs Ólasonar telst stefndi hafa fallist á að tímabundið atvinnutjón hafi varað í þrjá mánuði. Stefndi hefur ekki leitast við að sanna staðhæfingu sína um hvers áfrýjandi hefði mátt vænta að fá í laun á nefndu tímabili, svo sem honum hefði verið í lófa lagið að gera, til dæmis með því að upplýsa um launatekjur annarra starfsmanna sinna nefnda þrjá mánuði í samanburði við tekjur þeirra á þeim tíma sem áfrýjandi miðar við. Þykir við þessar aðstæður mega miða tjónið við útreikning áfrýjanda og verður þessi hluti kröfu hans því tekinn til greina.

II

Bótakröfum áfrýjanda vegna þjáninga og varanlegs miska mótmælti stefndi í greinargerð sinni í héraði með því einu að telja þær of háar, án þess að gera aðra grein fyrir rökstuðningi sínum fyrir mótmælunum en að „uppfærslur á bótafjárhæðir skv. vísitölu [væru] of háar.“ Komst héraðsdómur meðal annars að þeirri niðurstöðu að við uppreikning vísitölu bæri að miða við 2. nóvember 2005, „sem samkvæmt mati læknisins var sá tími er stöðugleika væri náð.“ Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að stefndi hafi sérstaklega byggt á því að haga bæri þessum útreikningi á þennan hátt. Áfrýjandi mótmælir niðurstöðu héraðsdóms um þetta og vísar til þess að í 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga sé kveðið á um að bætur skuli ákveða á grundvelli fjárhæða sem gildi þegar bótafjárhæð sé ákveðin. Miðar hann uppreikning á kröfum sínum í þessum bótaliðum við júní 2009, þegar málið var höfðað.

Í 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga er kveðið á um að ákveða skuli bætur samkvæmt 1. mgr. á grundvelli fjárhæða sem gilda þegar bótafjárhæð er ákveðin. Það fær ekki nokkra stoð í orðalagi ákvæðisins að miða eigi við vísitölu á þeim degi er heilsufar tjónþola er talið vera orðið stöðugt. Þar sem bótafjárhæð vegna þessara tveggja kröfuliða hafði ekki verið ákveðin þegar málið var höfðað þykir mega miða framreikning samkvæmt vísitölu við þann dag sem áfrýjandi miðar við og verða kröfur hans í þessum liðum því teknar til greina.

III

Svo sem fram kemur í héraðsdómi telur áfrýjandi að byggja beri útreikning bóta fyrir varanlega örorku á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þar sem aðstæður hans hafi verið óvenjulegar á því tímabili sem miða beri við samkvæmt 1. mgr. greinarinnar. Vísar hann til þess að hann hafi verið atvinnulaus hluta þessa tímabils. Hann miðar kröfu sína við heildarlaun sín hjá stefnda 2004 og eru þá meðtalin þau laun sem hann fékk tvo síðustu mánuði ársins þegar hann var óvinnufær. Er gerð grein fyrir útreikningi þessa kröfuliðar í hinum áfrýjaða dómi.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um að áfrýjandi hafi verið atvinnulaus að minnsta kosti í 9 mánuði á árunum 2002 og 2003. Hann hefur hins vegar verið samfellt í fullu starfi, raunar hjá stefnda, frá því hann varð vinnufær eftir slysið. Samkvæmt þessu verður fallist á með honum að launatekjur hans síðustu þrjú almanaksárin fyrir slysið geti ekki talist réttur mælikvarði við útreikning á tjóni hans vegna varanlegrar örorku og að aðstæður hans hafi á þessu tímabili verið óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Beri því að meta árslaunin sérstaklega.

Stefndi hefur við munnlegan flutning málsins sérstaklega mótmælt því að launatekjur áfrýjanda árið 2004 geti talist réttur mælikvarði við þennan útreikning. Réttara væri að miða við meðaltekjur í atvinnugrein áfrýjanda. Hann hefur hins vegar ekki lagt fram nein gögn til að upplýsa hverjar slíkar tekjur hafi verið. Þykja við þessar aðstæður efni standa til að fallast á þá viðmiðun um árslaun áfrýjanda sem hann sjálfur byggir kröfu sína á. Verður krafa hans um bætur vegna varanlegrar örorku því tekin til greina.

IV

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður fallist á dómkröfu áfrýjanda að öllu leyti.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað og málskostnað verða staðfest.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Stefndi verður dæmdur til að greiða ríkissjóði málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Stefndi, Ris ehf., greiði áfrýjanda, Leonard Czeslaw Cimoszko, 4.562.720 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.779.835 krónum frá 25. júní 2005 til 2. nóvember sama ár, af 5.419.564 krónum frá þeim degi til 10. september 2008, af 4.562.720 krónum frá þeim degi til 30. júní 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 29. nóvember 2010 að fjárhæð 2.842.987 krónur.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað og málskostnað í héraði skulu vera óröskuð.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans 750.000 krónur.

Stefndi greiði 750.000 krónur í málskostnað í ríkissjóð.

                                                                           

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2010.

Mál þetta sem dómtekið var 30. ágúst sl. er höfðað með stefnu birtri 25. júní 2009. Mál þetta var flutt og dómtekið 21. apríl sl. en endurupptekið og flutt að nýju 30. ágúst sl. með því að dómur varð ekki lagður á það innan lögmælts frests vegna mikilla anna dómara.

Stefnandi er Leonard Czeslaw Cimoszko, Kaplahrauni 19, Hafnarfirði.

Stefndu eru Ris ehf., Skeiðarási 12, Garðabæ og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæslu.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi Ris ehf. verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 4.562.720 krónur  með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af 1.779.835 krónum  frá 2. nóvember 2004 til 2. nóvember 2005, en af 5.419.564 krónum  frá þeim degi til 10. september 2008, en af  4.562.720 krónum  frá þeim degi til 30. júní 2009, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð, frá þeim degi til greiðsludags. Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda Vátryggingafélagi Íslands hf.

Þá er Burðarvirki ehf., Ásvallagötu 58, Reykjavík, stefnt til vara og þær kröfur gerðar á hendur honum að hann verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 4.562.720 krónur  með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af 1.779.835 krónum frá 2. nóvember 2004 til 2. nóvember 2005, en af 5.419.564 krónum frá þeim degi til 10. september 2008, en af 4.562.720 krónum frá þeim degi til 30. júní 2009, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, stefnt til réttargæslu.

Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál..

Dómkröfur stefnda Riss ehf. eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda Vátryggingafélags Íslands hf. eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur, enda engar kröfur gerðar á hendur honum.

Varastefndi Burðarvirki ehf. krefst þess aðallega að vera sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað.

Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði lækkaður verulega.

Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK.

Stefnandi kveður málavexti þá að hann hafi unnið hjá stefnda Ris ehf., sem verið hafi undirverktaki Fróða ehf. Hafi stefndi Ris ehf. séð um niðurrif á sýningarskála Orkuveitu Reykjavíkur í Smáralind, ásamt varastefnda, Burðarvirki ehf. sem verið hafi undirverktaki Orkuveitunnar og fenginn til aðstoðar við verkið. Hafi stefnandi verið starfsmaður stefnda Ris ehf. og unnið við útburð á efni. Mikil tímapressa hafi verið á mönnum að ljúka niðurrifinu og því mikið gengið á við framkvæmd verksins. Hinn 2. nóvember 2004, hafi menn verið uppi á þaki sýningarskálans og stigið á loftplötur þannig að þær féllu í gólfið. Er stefnandi hafi verið staddur inni í skálanum nálægt anddyrinu hafi spónaplata fallið niður úr lofti úr 2,5 m hæð, á háls hans og herðar vinstra megin. Við það hafi stefnandi fallið fram fyrir sig og vankast. Afleiðingar slyssins hafi m.a. verið þær að stefnandi hafi tognað illa í hálsi og á öxl. Í kjölfar slyssins hafi stefnandi fundið fyrir dofa öðru megin í andliti og svima. Röntgenmyndir hafi sýnt slitbreytingar í hálsi og öxl. Seinni rannsókn hafi leitt í ljós brjósklos í hrygg sem þrengdi að mænu.

Krafðist stefnandi bóta úr ábyrgðartryggingum bæði stefnda Riss ehf. og varastefnda Burðarvirkis ehf. vegna slyssins, en var þeim kröfum hafnað af vátryggjendum fyrirtækjanna, stefndu til réttargæslu, Vátryggingafélagi Íslands hf. og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir hvort fyrirtækið hefði borið ábyrgð á þeim mönnum sem voru uppi á þaki sýningarskálans og stigu niður loftplötur.

Þrátt fyrir slysið, hafi hvorki Vinnueftirlit ríkisins né lögreglan verið kölluð til, og því ekki verið framkvæmd nein rannsókn á aðdraganda eða atvikum slyssins. Slysið hafi síðan verið tilkynnt til Vinnueftirlits og lögreglu löngu seinna og hafi þá að beiðni fyrrum lögmanns stefnanda verið tekin skýrsla af nokkrum samstarfsmönnum hans, en nokkrir þeirra urðu vitni að atburðinum.

Í lögregluskýrslum sem teknar voru af vitnum komi fram að hvorki stefnandi né aðrir starfsmenn hafi haft hjálma við vinnu sína í samræmi við ákvæði gr. 28.5 í B-hluta IV. viðauka reglugerðar nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Samstarfsmenn stefnanda hafi jafnframt borið því við að mikið hafi legið á að klára verkið og hamagangur á verkstað mikill. Kristján Ásberg Reynisson starfsmaður stefnda Riss ehf. hafi lýst ástandinu þannig að einn maður hefði verið uppi á lofti og sparkað í loftaplötur sem hrundu við það niður á gólf. Í skýrslu hans hafi komið fram að hann hafði kvartað yfir þessum vinnuskilyrðum og talið vinnubrögðin óviðunandi.

Að sögn Sigurðar Hermannssonar, eiganda varastefnda Burðarvirkis ehf., við skýrslutöku hjá fyrir lögreglu hinn 26. október 2005, hafi starfsmenn stefnda Riss ehf. verið uppi á lofti sýningarskálans að stíga niður loftaplötur. Kvaðst hann ekki vita nöfn þeirra manna sem voru á loftinu, en fullyrti hann að um starfsmenn stefnda Riss ehf. hefði verið að ræða. Að hans sögn höfðu starfsmenn stefnda Riss ehf. rekið aðra starfsmenn í burtu af gólfinu þar sem verið var að stíga plöturnar niður en tungumálaerfiðleikar gætu hafa verið orsök þess að stefnandi var enn á gólfinu. Einnig hafi verið tekin lögregluskýrsla af Sigurþóri Hafsteinssyni trúnaðarmanni hjá stefnda Risi ehf. Hann hafi ekki verið á vettvangi þegar stefnandi slasaðist en þrátt fyrir það hafi hann talið rangt með farið hjá Sigurði að starfsmenn stefnda Riss ehf. hefðu verið á loftinu að stíga niður plötur. Hafi hann talið að starfsmenn varastefnda Burðarvirkis hefðu verið á loftinu. Að auki var tekin lögregluskýrsla af Páli Róberti Óskarssyni starfsmanni stefnda Riss ehf. Var hann ekki vitni að slysinu en taldi að starfsmenn varastefnda Burðarvirkis ehf. hefðu verið á loftinu að stíga niður plöturnar en gat þó ekki nefnt nein nöfn. Hafði lögreglan samband við Sigurð Hermannsson á ný og fullyrti hann að starfsmenn sínir hefðu ekki verið að stíga niður plötur í tilgreint sinn. Annar starfsmaður varastefnda Burðarvirkis ehf., Sveinn Guðmundsson, gaf einnig lögregluskýrslu en hann varð þó ekki vitni að slysinu. Vissi hann ekki á hvaða vegum starfsmennirnir á loftinu voru, en það hafi þó ekki verið starfsmenn varastefnda Burðarvirkis ehf. því þeir hafi verið með honum í hinum enda hússins.

Af framangreindu hafi verið ljóst að nokkur óvissa ríkti um það hvaða fyrirtæki bar ábyrgð á þeim starfsmönnum sem voru á lofti sýningarskálans og unnu verk sitt með þeim hættulega og óæskilega hætti að stíga niður loftplötur þannig að þær féllu í gólfið. Þó verði að telja að leiða megi sterkar líkur að því að starfsmenn stefnda Riss ehf. hafi verið á loftinu, ef tekið sé mið af lögregluskýrslu Sigurðar Hermannssonar eiganda varastefnda Burðarvirkis ehf. Styðjist sá framburður við framburð Sveins Guðmundssonar starfsmanns varastefnda Burðarvirkis ehf., sem bar að aðrir starfsmenn fyrirtækisins hefðu verið með honum annarsstaðar í húsinu er slysið varð. Önnur vitni sem gáfu lögregluskýrslu voru ekki viss um hvort starfsmenn stefnda Riss ehf. eða varastefnda Burðarvirkis ehf. hefðu verið á loftinu.

Stefnandi telur að fyrirmæli ákvæða reglugerðar nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð hafi verið þverbrotin. Vísar stefnandi í því samhengi meðal annars til 14. gr. í B-hluta IV. viðauka reglugerðarinnar sem kveður á um að starfsmenn skulu varðir fyrir fallandi hlutum og að aðgangur að hættulegum svæðum skuli hindraður. Þá er einkum lögð áhersla á ákvæði 28. gr. um niðurrif bygginga og byggingarhluta.

Ljóst sé að viðhöfð hafi verið afar hættuleg vinnubrögð við niðurrif sýningarskálans sem samrýmast ekki eðlilegum öryggiskröfum sem gerðar séu til vinnuaðferða og ástands á byggingarvinnustöðum, sbr. tilvitnað ákvæði. Hér megi nefna til stuðnings að samstarfsmaður stefnanda hafði kvartað yfir þessari vinnuaðstöðu og farið þess á leit að látið yrði af þeirri iðju að stíga niður loftplötur með áðurnefndum fyrirgangi. Verður því að telja að bæði stefnda Ris ehf. og varastefnda Burðarvirki ehf. hafi borið skylda til að gera starfsmönnum sínum ljósa slysahættu vegna starfs þeirra, sbr. 14. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Atvinnurekandi skuli að auki sjá um að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af. Í 23. gr. sömu laga komi fram að verkstjóri skuli beita sér fyrir því að starfsskilyrði innan þess starfssviðs, sem hann stjórnar, séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Ómögulegt sé því að fallast á þá afstöðu réttargæslustefnda Vátryggingafélags Íslands hf. að stefnandi hafi sýnt gáleysi vegna þess að hann hafi farið út á gólfið, enda virðist stórlega hafa skort á eftirlit með verkinu og öryggisleiðbeiningar til starfsmanna. Hafi slíkt hlotið að vera sérstaklega brýnt vegna þess að stefnandi var ekki íslenskumælandi og hafi yfirmönnum hans borið að gæta þess sérstaklega að leiðbeiningar vegna verksins kæmust örugglega til skila. Ljóst sé því að verkstjórn við verkið hafi verið stórlega áfátt.

Samkvæmt 21. gr. laga nr. 46/1980 sé verkstjóri fulltrúi atvinnurekanda og beri honum að sjá til þess að allur búnaður sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustað, sem hann hefur umsjón með. Í 1. mgr. 23. gr. sé einnig kveðið á um að verkstjóri skuli beita sér fyrir, að starfsskilyrði innan þess starfssviðs, sem hann stjórnar, séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Hann skuli sjá um, að þeim ráðstöfunum, sem gerðar séu til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti sé framfylgt. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skuli verkstjóri jafnframt tryggja að hættu sé afstýrt verði hann var við einhver þau atriði, sem leitt geta til hættu á slysum eða sjúkdómum. Ekki verði betur séð en að verkstjóri á vettvangi hafi með öllu brugðist þeim skyldum sem á honum hafi hvílt samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 46/1980.

Varðandi skaðabótaábyrgð stefnda Riss ehf. á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar verði að telja að fyrirtækinu hafi borið sem atvinnurekanda stefnanda að tilkynna slysið án tafar til Vinnueftirlits ríkisins og lögreglu. Hafi þetta verið mikilvægt til þess að fram gæti farið rannsókn á atvikum slyssins, einkum í ljósi þess að mikil óvissa hafi ríkt um verkaskiptingu við verkið og hver bar ábyrgð á þeim starfsmönnum sem voru á lofti sýningarskálans. Verður að telja þessa vanrækslu á tilkynningarskyldu afar ámælisverða og brjóti hún raunar gegn lögum, sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980 sem kveði á um skyldu atvinnurekanda til að tilkynna án tafar til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður deyi eða verði óvinnufær. Sinnuleysi gagnvart lögbundinni tilkynningarskyldu hafi því komið í veg fyrir að Vinnueftirlit ríkisins eða lögregla könnuðu tildrög slyssins en það hafi með öllu verð ómögulegt þegar tilkynningin barst u.þ.b. tveimur mánuðum eftir slysið. Í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar beri stefndi Ris ehf. (vinnuveitandi) halla af skorti á sönnun um málsatvik sem telja verður að leiða hefði mátt í ljós við rannsókn Vinnueftirlits ríkisins eða lögreglu. Í þessu sambandi beri til þess að líta að Vinnueftirliti ríkisins sé ætlað að rannsaka orsakir slysa, sbr. 81. gr. laga nr. 46/1980, með síðari breytingum. Þar sem engin tilkynning hafi borist stofnuninni, þrátt fyrir lagaskyldu, hafi engin slík rannsókn farið fram.

Viðurkennt hafi verið í skaðabótarétti að sé tjóni valdið af starfsmönnum vinnuveitanda, þó ekki sé unnt að staðreyna með vissu hvaða starfsmaður  vann skaðaverkið, og þ.a.l. ekki unnt að segja til með vissu hvernig slysið atvikaðist, geti það samt fallið undir regluna um vinnuveitandaábyrgð. Hafi þessi regla skaðabótaréttarins verið nefnd reglan um nafnlaus mistök (d. Anonyme fejl). Af þessum sökum losni stjórnendur umrædds verks ekki undan ábyrgð þrátt fyrir að ekki sé unnt að tilgreina hver það var sem olli slysinu.

Sérstaka áherslu beri að leggja á að stefndi Ris ehf. hafi hvorki tilkynnt slysið til lögreglu né Vinnueftirlits ríkisins innan sólarhrings, eins og 79. gr. laga nr. 46/1980 geri ráð fyrir, og var slysið því ekki rannsakað.

Sé það því alfarið á ábyrgð vinnuveitanda að tilkynna viðkomandi yfirvöldum þegar slys ber að höndum á vinnustað og beri stefndi Ris ehf. allan halla af því að slysið var ekki rannsakað.

Verði komist að þeirri niðurstöðu að starfsmenn stefnda Riss ehf. hafi ekki staðið að þeirri hættulegu háttsemi sem lýst var hér að framan, er þess krafist að varastefndi, Burðarvirki ehf. verði dæmt bótaskylt, enda ljóst að stefndi Ris ehf. og varastefndi Burðarvirki ehf. hafi verið einu fyrirtækin sem unnu að niðurrifi sýningarskálans. Það hafi því ótvírætt verið menn á vegum annars hvors þessara fyrirtækja sem staðið hafi að því að stíga niður loftaplötur þannig að þær féllu á gólfið og á stefnanda.

Til stuðnings þessari kröfu stefnanda megi nefna að Sigurþór Hafsteinsson trúnaðarmaður hjá stefnda Risi ehf., hafi talið, að starfsmenn varastefnd, Burðarvirkis ehf., hefðu verið á þaki sýningarskálans að stíga niður plötur. Sama sé að segja um framburð Páls Róberts Óskarssonar samstarfsmanns stefnanda, sem hljóði á sama veg, þ.e. að um starfsmenn varastefnda, Burðarvirkis ehf. hafi verið að ræða.

Stefnandi getur með engu móti fallist á þá niðurstöðu réttargæslustefnda Vátryggingafélags Íslands hf. og réttargæslustefnda til vara Sjóvár-Almennra trygginga að hafna bótaskyldu úr ábyrgðartryggingum stefnda Riss ehf. og varastefnda Burðarvirkis ehf. Af þessum sökum sér hann ekki aðra leið færa en að höfða mál aðallega á hendur Risi ehf., og Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna þess til réttargæslu, og til vara Burðarvirki ehf., og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna þess til réttargæslu, til að ná fram rétti sínum. Verði því ekki fallist á bótaskyldu stefnda Riss ehf. er þess krafist að stefndi til vara Burðarvirki ehf. verði dæmt bótaskylt.

Á grundvelli hinnar ólögfestu meginreglu íslensks skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð, krefst stefnandi þess að viðurkenndur verði að fullu réttur hans til skaðabóta úr hendi stefnda eða varastefnda. Stefnandi telur með öllu ótækt að hafna bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu og krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til greiðslu bóta að fullu úr ábyrgðartryggingu.

Dómkrafa stefnanda sundurliðast þannig:

1.       Bætur skv. 2. gr. skbl...............................................

401.244 x 1,08 x 1,1017 = 477.415

kr.

477.415,-

2.       Bætur skv. 3. gr. skbl...............................................

90 x 1.400

kr.

126.000,-

3.       Bætur skv. 4. gr. skbl...............................................

15% af kr. 7.842.800,-

kr.

1.176.420,-

4.       Bætur skv. 5.-7. gr. skbl. .........................................

kr.

3.639.729,-

Laun stefnanda árið 2004:

(2004) 4.288.107 x 1.08 / 251,4 x 272,3 = 5.016.164

5.016.164 x 7,256 x 10%

Samtals

kr.

5.419.564,-

Að frádregnum bótum úr slysatryggingu launþega

hjá réttargæslustefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf.:

kr.

-856.844,-

SAMTALS

kr.

4.562.720

Kröfugerð stefnanda miðast við matsgerðir Atla Þórs Ólasonar læknis, dags. 20. júní 2008 og 15. júní 2009, um afleiðingar slyssins. Í seinni matsgerðinni, dags. 15. júní 2009 er tekið mið af skaðabótalögum nr. 50/1993 eins og þau voru á slysdeginum.

Krafa stefnanda um tímabundið atvinnutjón byggir á 2. gr. skbl. Miðast kröfugerð stefnanda við áðurnefnda matsgerð Atla Þórs Ólasonar læknis. Samkvæmt matsgerðinni telst stefnandi hafa verið 100% óvinnufær í þrjá mánuði vegna afleiðinga slyssins. Við útreikning bóta vegna tímabundins atvinnutjóns er notast við meðaltekjur fyrstu tíu mánaða ársins 2004. Til frádráttar koma síðan greiðslur til stefnanda fyrir óvinnufærnistímabilið samkvæmt yfirliti úr staðgreiðsluskrá. Við fjárhæðina bætist svo framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð sem var þá 8%, og að auki 10,17% orlof. Stefnandi reiknar tímabundið atvinnutjón sitt þannig:

Laun fyrstu tíu mánaða ársins 2004:

Janúar

253.873 kr.

Febrúar

340.404 kr.

Mars

317.077 kr.

Apríl

348.449 kr.

Maí

382.359 kr.

Júní

475.716 kr.

Júlí

461.115 kr.

Ágúst

447.040 kr.

Septemb.

432.169 kr.

Október

272.774 kr.

Samtals:

3.730.976 kr.

Meðaltal:

373.098 kr.

Tímabundið atvinnutjón í þrjá mánuði (nóvember, desember og janúar):

Nóvember

318.124 kr.

373.098 kr.

54.974 kr.

Desember

239.007 kr.

373.098 kr.

134.091 kr.

Janúar

160.919 kr.

373.098 kr.

212.179 kr.

Samtals:

401.244 kr.

401.244 x 1,08 x 1,1017 = 477.415

Krafa stefnanda um þjáningarbætur byggir á 3. gr. skbl. Eru þjáningarbæturnar reiknaðar með hliðsjón af síðara mati Atla Þórs Ólasonar læknis. Samkvæmt því reiknast þjáningarbætur í 90 daga eða þrjá mánuði. Fyrir hvern dag sem stefnandi var veikur í skilningi ákvæðisins án rúmlegu reiknast kr. 1.415,- eftir að fjárhæðir í 3. gr. skbl. hafa verið uppfærðar miðað við lánskjaravísitölu í júní 2009, sbr. 15. gr. laganna.

Krafa stefnanda um miskabætur byggir á 4. gr. skaðabótalaganna og áðurgreindu mati um 15% varanlegan miska. Fjárhæð bótanna tekur mið af grunnfjárhæðinni kr. 3.880.000,- uppfærðri miðað við lánskjaravísitölu í júní 2009, sbr. 15. gr. skbl.

Krafa um bætur vegna varanlegrar örorku taki einnig mið af framangreindri matsgerð og 5.-7. gr. skbl. Hafi matsmaður litið til þess að ekkert bendi til annars en að stefnandi hefði haft fulla atvinnuþátttöku út starfsævina og að líklega hefði hann starfað áfram við almenn byggingarstörf og notið svipaðra launa. Matsmaður telji ljóst að afleiðingar slyssins hafa haft áhrif á starfsgetu stefnanda og þrengt starfsval hans. Á hinum almenna vinnumarkaði séu starfsmöguleikar hans skertir, fái hann ekki létt starf við sitt hæfi. Eftir vinnuslysið hafi stefnandi fundið óþægindi á vinstra herðasvæði og hálsi. Hann hafi fyrst verið alveg frá vinnu um þriggja mánaða skeið en gengið svo til sömu vinnu og áður. Hafi hann fundið til óþæginda við ýmis byggingarstörf, eins og að lyfta þungu, vinna upp fyrir sig, klifra og beita ýmsum verkfærum. Hann hafi því ekki verið fær um að vinna við fyrri vinnu. Hafi hann af þeim sökum fengið léttara starf sem felist í að aka lyftara og stjórna krana. Fái stefnandi heldur hærri laun við þessi störf en sem almennur byggingarverkamaður. Miðað við þær vinnuaðstæður sem stefnandi búi við í dag virðist hann hafa haldið launum að miklu leyti. Ef hann missi hins vegar það starf þurfi hann að vinna á almennum vinnumarkaði sem geri auknar kröfur til hans sem matsmaður geri ráð fyrir að hann geti ekki staðist. Af þessum atriðum hafi varanleg örorka verið talin hæfilega metin 10% og miðast kröfugerð stefnanda við þá niðurstöðu.

Við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku sé ekki mögulegt að taka mið af tekjum stefnanda þremur árum fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. skbl., enda hafi orðið breytingar á starfshögum hans árið 2002. Það ár hafi hann verið atvinnulaus að hluta til og einnig nokkuð árið 2003, en seinna það ár hafi hann hafið störf hjá Risi ehf. Verði því að meta árslaun hans sérstaklega með vísan til 2. mgr. 7. gr. skbl. Þyki eðlilegt og sanngjarnt að leggja til grundvallar tekjur stefnanda á því ári er slysið varð, árið 2004. Sé ljóst af skattframtölum að tekjur hans síðan árið 2004 eru stöðugar og jafnar. Þyki tekjur stefnanda árið 2004 því gefa raunhæfa mynd af framtíðartekjum hans. Fái sú niðurstaða stuðning af ummælum áðurnefndrar matsgerðar þar sem segi: „Hann er ekki fær um að vinna við sömu störf og hann gerði er hann lenti í slysinu en hefur fundið sér þrengra starfssvið sem virðist henta honum allvel. Á hinum almenna vinnumarkaði eru starfsmöguleikar slasaða skertir fái hann ekki létt starf við sitt hæfi. Miðað við þær góðu vinnuaðstæður er slasaði býr við í dag virðist hann hafa haldið launum að miklu leyti. Ef slasaði missir það starf eða sambærilegt starf þarf hann að vinna á almennum vinnumarkaði sem gerir auknar kröfur til slasaða sem gera má ráð fyrir að hann geti ekki staðist.“ Af ummælum þessum sé ljóst að stefnandi hafi fundið sér hentugt starf sem hann muni sinna til framtíðar. Árslaun stefnanda árið 2004 að fjárhæð 4.288.107 krónur samkvæmt skattframtali þess árs séu uppreiknuð fram til stöðugleikatímapunkts miðað við launavísitölu í nóvember 2005, að teknu tilliti til 8% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð.

Krafist er 4,5% vaxta skv. 16. gr. skbl. vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáningabóta og varanlegs miska frá slysdegi, hinn 2. nóvember 2004 fram að stöðugleikatímapunkti, hinn 2. nóvember 2005, en frá þeim degi einnig af bótum vegna varanlegrar örorku, skv. 16. gr. skbl., fram til 10. september 2008, en þá dragist frá greiðsla réttargæslustefnda Vátryggingafélags Íslands hf. úr slysatryggingu launþega. Frá þeim degi er krafist vaxta af eftirstöðvunum fram til þingfestingardags stefnu, þann 30. júní 2009, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi og fram til greiðsludags.

Í útreikningi krafna hefur verið tekið tillit til greiðslu sem stefnandi fékk frá réttargæslustefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. hinn 10. september 2008 úr slysatryggingu launþega að fjárhæð kr. 856.844.- Er einnig tekið tillit til þessarar greiðslu við útreikning vaxta.

Kröfur stefnanda styðjist við skaðabótalög nr. 50/1993, með síðari breytingum og almennar ólögfestar reglur íslensks réttar um skaðabætur, þ.á.m. sakarregluna og regluna um vinnuveitendaábyrgð. Einnig vísar stefnandi kröfum sínum til stuðnings til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð.

Um vaxtakröfuna vísar stefnandi sérstaklega til 16. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Þá er vísað til 2. mgr. 19. gr. laganna varðandi aðild. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili skv. lögum nr. 50/1988 og ber því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.

Sýknukrafa stefnda Riss ehf. er byggð á því, að ekki sé sannað að þessi stefndi eða starfsmenn hans eigi sök á slysi stefnanda, sem  jafnframt megi rekja  til gáleysis stefnanda  sjálfs.

Fari um skaðabótaábyrgð á slysinu eftir sakarreglunni. Hvíli sönnunarbyrðin á  stefnanda  um  meinta sök stefnda og orsakatengsl.

Ekki séu lagaskilyrði til þess að leggja skaðabótaábyrgð á stefnda Ris ehf. án sönnunar á því, að þessi stefndi eða einhver starfsmaður hans hafi valdið slysinu og eigi sök á því,  en það sé ósannað.  Geti það eitt að lögregla og vinnueftirlit voru ekki  kvödd  á slysavettvang ekki verið sjálfstæður grundvöllur bótaskyldu.

Enginn vafi leiki á því á hvern hátt stefnandi slasaðist. Eru skýrslur um það samhljóða. Sé það enda ekki deiluefni. Að því leyti skipti ekki máli, þó lögregla og Vinnueftirlit, væru ekki kvödd á vettvang til rannsóknar. Þá hafi verið næsta eðlilegt að stefndi Ris ehf. kallaði ekki lögreglu og Vinnueftirlit samdægurs á vettvang, þar sem ekkert benti til þess á slysdegi, að stefnandi hefði orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni, sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980. Hafi stefnandi haldið áfram vinnu eftir slysið og hafnað því ítrekað að leita læknis. Hafi stefndi tilkynnt slysið til Vinnueftirlitsins eftir að stefnandi varð tímabundið óvinnufær, sem var frá 23. nóv. 2004 til 31. jan. 2005,  svo sem byggt sé á í stefndu. Sé þannig ekki rétt sem haldið sé fram, að stefndi Ris ehf. hafi brotið ákvæði 79. gr. l. 46/1980 um tilkynningarskyldu. Sé því ekki grundvöllur til þess að láta stefnda Ris ehf.  bera  halla af skorti á upplýsingum í málinu.

Hallann af því, að ekki sé upplýst, hvaða maður það hafi verið á lofti sýningarskálans, sem felldi niður spónaplötuna er  lenti á öxl stefnanda, og á hvers vegum hann hafi verið, verður stefnandi sjálfur að bera samkvæmt megin sönnunarreglum skaðabótaréttarins. Sé ekkert sem leiði líkur að því, hvað þá sanni, að þessi maður hafi verið starfsmaður stefnda Riss ehf.  Hafi fullyrðing eiganda varastefnda Burðarvirkis ehf. í þá átt,  sem hefur eigin hagsmuni að verja í málinu,  ekkert gildi í því efni  gegn mótmælum starfsmanna Riss ehf.

Hins vegar bendi líkur til þess, að þessi maður hafi verið starfsmaður  varastefnda Burðarvirkis ehf.

Þegar slysið varð hafi verið að losa loftplötur af sýningarskálanum og menn verið þar uppi  að stíga plöturnar niður. Ekkert í gögnum málsins (utan staðhæfing eiganda Burðarvirkis ehf.) bendi til þess, að þar hafi starfsmenn Riss ehf. verið að verki, en hins vegar komi fram í lögregluskýrslunum, að starfsmenn varastefnda Burðarvirkis ehf. hafi verið á loftinu, þegar slysið varð, þó ekki sé ljóst hverjir það hafi verið. Framburður Sigurðar Hermannssonar, eiganda  Burðarvirkis ehf. styðji það, en hann sagðist sjálfur hafa starfað á loftinu, en þó ekki er slysið átti sér stað.  Þá bera bæði verkstjóri Riss ehf., Sigurþór Hafsteinsson, og annar starfsmaður Riss ehf., Páll Róbert Óskarsson, að það hafi verið starfsmenn Burðarvirkis ehf.,  sem voru á loftinu,  þegar slysið varð.

Loks þyki rétt í þessu sambandi að vekja athygli á því,  að einhver starfsmaður  á vegum  Fróða hf. eða starfsmaður á vegum Orkuveitunnar gætu líka hafa  verið uppi á loftinu að spyrna  niður lofplötum og unnið  skaðaverkið.  Hafi Fróða og Orkuveitunni legið mikið á með það að taka niður og fjarlægja skálann úr Smáralind  og hafi þrýst á um það, að verkinu yrði lokið sem fyrst.

Fái ekki staðist eins og hér standi á,  að óvissa  um það frá hvaða fyrirtæki af fleirum sá starfsmaður var, sem skaðaverkið vann, felli sjálfkrafa skaðabótaábyrgð á stefnda Riss ehf. sem vinnuveitanda stefnanda eins og stefnandi byggi á. Gildi reglan um „anonyme feil“, sem stefnandi vísar til, aðeins í því tilviki, að tjóni sé með vissu valdið af einhverjum starfsmanni vinnuveitanda tjónþolans, en ekki sé vitað hvaða starfsmaður vinnuveitanda tjónþola það er.  Svo standi ekki á í tilviki stefnanda.

Renni tilvísun stefnanda í Hrd. frá 14. febrúar 2008, nr. 252/2007 því ekki stoðum undir skaðabótaábyrgð stefnda Riss ehf. Það sama megi segja um Hrd. 1953:617 og Hrd. 2003:231. Í öllum framangreindum málum sé vinnuveitandi látinn bera ábyrgð á starfsmönnum sínum þótt óupplýst væri, hver þeirra hefði verið að verki, en í tilviki stefnanda hér sé algjörlega ósannað, að einhverjir starfsmenn stefnda Riss ehf., vinnuveitanda stefnanda, hafi unnið skaðaverkið. Sé skilyrði þess að reglunni um vinnuveitendaábyrgð verði beitt gagnvart stefnda Risi ehf. á grundvelli reglunnar um anonyme fejl, að einhver starfsmaður stefnda Riss ehf. hafi valdið tjóninu með saknæmum hætti.  Það skilyrði er ekki uppfyllt, þar sem ósannað sé að starfsmenn Riss ehf. hafi valdið slysinu.

Geti  Stefndi Ris ehf. heldur ekki borið ábyrgð á starfsmönnum, sem ekki hafi verið undir hans verkstjórn á vinnusvæðinu og unnið þar á vegum annarra fyrirtækja. Fróði ehf. hafi farið með yfirstjórn verksins og stjórnað tilhögun þess og haft eftirlit með því, en ekki stefndi Ris ehf. Stefndi Ris ehf. hafi ekki ráðið verklaginu uppi á loftinu við að losa loftplöturnar, og að þær voru látnar hrynja niður með því að spyrna í þær. Hafi ekki verið á valdi Ris ehf. að breyta því.  Hins vegar hafi starfsmaður stefnda, Kristján Ásberg Reynisson, athugasemdir við þau vinnubrögð og starfmenn Riss ehf. hefðu áður en slysið varð verið búnir að reka aðra starfsmenn burt af gólfinu. Sé því rangt, sem haldið sé fram, að stefndi Ris ehf. hafi látið hættulegt verklag og vinnuaðstæður viðgangast og að skort hafi á verkstjórn og  eftirlit af hálfu Riss ehf.  Sé rangt og ósannað, að stefndi Ris ehf. hafi  brotið nokkur ákvæði laga eða reglugerða við verkið, sem slys stefnanda sé að rekja til. Sé til að mynda  ekkert orsakasamband milli þess að starfsmenn Riss ehf. báru ekki hjálma og slyssins og hjálmar voru starfsmönnunum tiltækir.

Ekki verður heldur séð, hvernig meintur skortur á öryggisleiðbeiningum af hálfu stefnda Riss ehf. hafi valdið slysinu.  Niðurrif skálans hafi verið einfalt verk og hættur samfara verkinu augljósar hverjum manni. Stefnandi hafi verið 52 ára að aldri og reyndur byggingaverkamaður og hafi ekki þarfnast sérstakra öryggisleiðbeininga í tengslum við verkið.  Einnig  liggi fyrir ,að áður en slysið átti sér stað hafi af hálfu stefnda Riss ehf. verið búið að gefa starfsmönnum fyrirmæli um að rýma gólfið meðan verið væri að stíga niður loftplöturnar. Hafi ekki þurft að gefa stefnanda sérstakar leiðbeiningar um það, að hættulegt gæti verið að vera út  á gólfinu meðan verið var að fella loftplöturnar niður á gólfið, þó stefnandi  talaði ekki íslensku;  Sú augljósa  hætta  hafi blasað við öllum sem voru á svæðinu.

Verði í þessu efni ekki gengið framhjá því, að stefnandi eigi sjálfur sök á slysinu.

Hafi hann sýnt af sér mikið gáleysi og tekið áhættu með því að fara með veggplötu út á gólfið og ætla með hana út úr húsinu á sama tíma og verið var að spyrna niður loftplötunum, en í ljósi aðstæðna og reynslu  hefði hann mátt gera sér grein fyrir hættunni af plötunum, er þær hrundu á gólfið. Hefði Kristján, samstarfmaður stefnanda, sem losaði plöturnar, sem stefnandi bar síðan út, líka kvartað við mennina á loftinu yfir vinnubrögðum þeirra. Hafi stefnanda því ekki getað dulist, að verið var að spyrna niður loftplötum og  hættan  því samfara fyrir þá, sem voru á gólfinu fyrir neðan.  Voru fyrirmælin um að rýma gólfið einföld og gefin til að tryggja  öryggi starfsmanna á gólfi hússins meðan loftplöturnar voru látnar falla á gólfið. Starfsmönnum hafi borið að hlýða því og almennt að viðhafa eðlilega aðgæslu við störf sín. Hvíli almenn skylda á starfsmönnum fyrirtækja að tryggja að sínu leyti starfsöryggi sitt, sbr. 25.-28. gr. l. nr. 46/1980. Á því hafi orðið misbrestur af hálfu stefnanda.  Sé ekkert sem afsaki gáleysi hans og áhættutöku í þessu sambandi.  Verði stefnandi  því að bera tjón sitt sjálfur.

Verði ekki á sýknukröfu fallist er varakrafa stefnda byggð á því,  að lækka beri stefnukröfur tölulega og jafnframt  skipta  sök í málinu.  Beri að leggja meginhluta sakar á slysinu á stefnanda sjálfan. Vísast  um eigin sök stefnanda  til reifunar hér að framan.  Getur því aldrei komið til þess, að stefndi beri bótaábyrgð á slysi stefnanda, nema að litlum hluta, hvað sem öðru líður.

Stefnandi gerir kröfu um greiðslu bóta á grundvelli matsgerðar í málinu og 1.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Ekki sé gerð athugasemd við örorkumat Atla Þórs en telji héraðsdómur að leggja eigi til grundvallar að stefndi beri að einhverju leyti ábyrgð á óhappi stefnanda þá sé útreikningum stefnufjárhæðinnar mótmælt tölulega með eftirfarandi rökum:

Kröfu um tímabundið atvinnutjón er mótmælt. Sé um áætlunarfjárhæð að ræða. Beri aðeins að greiða bætur fyrir sannað raunverulegt tímabundið tekjutap, en ekki áætlað sbr. dómvenju. Voru stefnanda greidd  laun á óvinnufærnistímabilinu. Sé ósannað að tekjur hans hefðu á þeim tíma orðið hærri, ef hann hefði ekki orðið fyrir slysinu. Ber því að alfarið að hafna þessum kröfulið.

Kröfu vegna þjáningabóta skv. 3. gr. skaðabótalaga er mótmælt sem of hárri.

Kröfu vegna varanlegs miska skv. 4. gr. skaðabótalaga er mótmælt sem of hárri.

Stefndi hafnar útreikningi stefnanda á varanlegri örorku. Er þar byggt  á því að ákveða beri árslaun sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. og miðar stefnandi við atvinnutekjur sínar hjá stefnda á slysárinu 2004. Meginregla 5.-7. gr. skaðabótalaga mælir hins vegar fyrir um að meta skuli hlutlægt stöðu tjónþola á þeim degi sem tjónsatvik á sér stað og leggja til grundvallar  tekjur tjónþola sjálfs næstu 3 ár fyrir slysið  við útreikning örorkubótanna, sbr. 1. mgr. 7. gr.

Undantekningu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga ber að túlka þröngt.  Eru skilyrði þess að ákvæðum 2. mgr. 7. gr. verði beitt, að aðstæður tjónþola á tjónsdegi séu óvenjulegar, og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans. Þurfa bæði þessi skilyrði að vera fyrir hendi.  Ekki hefur verið sýnt fram á að staða stefnanda hafi verið óvenjuleg á tjónsdegi eða tekjur hans næstliðin ár þannig að óréttmætt sé að miða við tekjusögu hans. Skýring stefnanda fyrir þessu viðmiði er sú að árið 2002 hafi orðið breytingar á starfshögum hans og hann auk þess verið atvinnulaus að hluta til. Þessar fullyrðingar eru í engu studdar gögnum heldur látið við það sitja að miða við árið 2004 án þess að aðrar upplýsingar eða gögn séu lögð fram því til stuðnings. Ef fallist væri á kröfu stefnanda að þessu leyti án nokkurra sönnunargagna yrði 2. mgr. 7. gr. fljótt meginreglan um tekjuviðmið en ekki undantekning, sérstaklega í árferði eins og nú ríkir.

Þá telur stefndi uppfærslur á bótafjárhæðir skv. vísitölu of háar.

Vextir, vaxtafótur og upphaf dráttarvaxta: Vaxtakröfum stefnanda er mótmælt. Eru eldri vextir en 4 ára frá birtingu stefnu  fyrndir og  krafa um dráttarvexti á ekki rétt á sér frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi, enda liggur endanlegt tjón stefnanda ekki fyrir fyrr en að dómi gengnum.

Tilvísun til helstu lagaákvæða og réttarreglna:  Stefndi vísar einkum til skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra reglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar, meginreglna íslensks réttar um sönnunarbyrði og eigin sök tjónþola.

Málskostnaður: Krafa stefnda um málskostnað er reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Sýknukröfu sína byggir varastefndi á því að hann beri ekki ábyrgð á tjóni stefnanda þar sem óhappið verði ekki rakið til atvika sem hann beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Í fyrsta lagi sé byggt á því að engir starfsmenn varastefnda hafi unnið á þaki sýningarskála í umrætt sinn og þar af leiðandi sé útilokað að einhver starfsmaður hans hafi fellt niður þá loftplötu sem lenti á stefnanda. Í öðru lagi er byggt á því að varastefndi hafi ekki haft með höndum neina verkstjórn yfir stefnanda. Loks er í þriðja lagi  byggt á því að stefnandi verði að bera meint tjón sitt að fullu vegna eigin sakar.

Samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns. Varastefndi mótmælir því að skilyrði séu til að víkja frá þessari meginreglu og leggja sönnunarbyrðina á varastefndu. Af hálfu varastefnda er byggt á því að engir starfsmenn á vegum þess félags hafi unnið á þaki sýningarskálans í umrætt sinn. Frá varastefnda hafi einungis fjórir starfsmenn þess verið á staðnum og ljóst að engin þeirra hafi verið á þakinu. Hafi lögregla tekið skýrslu af þremur starfsmönnum varastefnda sem staðfest hafi að engin af starfsmönnum félagsins hefðu verið á þakinu þegar slys stefnanda varð.

Varastefndi mótmæltir sérstaklega framburði trúnaðarmanns aðalstefnda, Sigurþórs Hermannssonar, fyrir lögreglu um að það hafi verið starfsmenn varastefnda sem hafi verið þaki sýningarskálans þegar stefnanda slasaðist. Ljóst sé að umræddur starfsmaður hafi ekki verið á vettvangi þegar slysið varð og því vandséð hvaða þýðingu framburður hans hafi. Jafnframt er mótmælt framburði vitnisins, Páls Róberts Óskarssonar , en samkvæmt lögregluskýrslu ,,hélt“ hann það hefðu verið starfsmenn varastefnda sem hefðu verið að stíga niður loftplötur í umrætt sinn. Varastefndi vill að vekja athygli á því að það voru ekki einungis starfsmenn aðalstefnda og varastefnda sem unnu við niðurrifi á sýningarskálanum. Á staðnum voru einnig starfsmenn Fróða hf. en aðalstefndi, Ris ehf. var undirverki hjá því félagi.

Í fyrsta lagi byggir varastefndi varakröfu sína á því að bætur beri að lækka verulega vegna eigin sakar stefnanda. Hafa röksemdir þessu til stuðnings verið raktar hér að framan og vísast til þeirra. Enda þótt komist væri að þeirri niðurstöðu að vafi leiki á því hvernig slys stefnanda atvikaðist þá er ljóst að sá vafi getur ekki undir neinum kringumstæðum leitt til þess að varastefndi teljist bera skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda. Samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar ber stefnandi sönnunarbyrði um orsök tjóns síns og eru ekki lagaskilyrði til að varastefndi bera hallann af sönnunarskorti í málinu. Hafi borið að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins hvíldi sú skylda á vinnuveitanda stefnanda þ.e. Risi ehf. sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980. Að því er varðar varastefnda eru því engin efni til að víkja frá meginreglu skaðabótaréttar um að tjónþoli  beri sönnunarbyrði um tjón sitt.

Óumdeilt er að á slysdegi var stefnandi starfsmaður aðalstefnanda Riss ehf. þegar. Jafnframt liggur fyrir að Fróði ehf. hafði yfirumsjón með verkinu fyrir hönd Orkuveitu Reykjavíkur. Af þessu er ljóst að varastefndi hafði ekkert boðvald yfir stefnanda og bar enga ábyrgð á verktilhögun starfsmanna aðalstefnda. Þannig var það ekki í verkahring varastefnda að sjá til þess að stefnandi ynni ekki við varhugaverðar aðstæður eða notaði viðeigandi öryggisbúnað. Ljóst er að starfsmenn aðalstefndu voru búnir að reka aðra starfsmenn í burtu af gólfinu þegar slysið varð. Af einhverjum ástæðum mun þó stefnandi hafa verið á gólfinu í umrætt sinn. Jafnframt er ljóst að annar starfsmaður aðalstefnda, Kristján Reynisson, var niðri á gólfi að rífa veggplötur og hlaut hann lítilsháttar meiðsl þegar loftplatan féll á gólfið. Varastefndi getur með engu móti borið ábyrgð á því að umræddir starfsmenn annað hvort hlýddu ekki fyrirmælum eða þau bárust þeim ekki.

Þegar slys stefnanda átti sér stað var hann 52 ára en frá árinu 1996 hafði hann að mestu unnið við byggingarvinnu. Í ljósi aldurs stefnanda, þekkingar hans og reynslu mátti honum vera fullkunnugt að óvarlegt var að ganga eftir gólfi sýningarskálans á sama tíma og spónaplötum var spyrnt niður úr loftinu. Skiptir þá engu hvort stefnandi hafi heyrt þau fyrirmæli starfsmanna aðalstefnda að rýma ætti gólfið meðan það væri verið að stíga niður plötur. Hættan var augljós og því tók stefnandi mikla áhættu að fara út á gólfið í umrætt sinn. Vegna framangreindrar áhættutöku og gáleysis verður stefnandi að bera tjón sitt að fullu sjálfur.

Í öðru lagi er kröfu um tímabundið atvinnutjón mótmælt sem ósannaðri. Liggur fyrir að stefnandi fékk greidd laun á því tímabili sem hann var metin óvinnufær. Ósannað er að tekjur stefnanda hefðu orðið hærri enda þótt hann hefði ekki lent í slysinu.

Í þriðja lagi er mótmælt útreikning stefnanda á varanlegri örorku. Ekki hefur verið sýnt fram á að skilyrði séu til að beita undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og einungis eigi að miða við tekju stefnanda árið 2004. Varastefndi byggir á því að beita eigi meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabóta og leggja til grundvallar tekjur stefnanda þremur árum fyrir slysið.

Í fjórða lagi byggir varastefndi á því að vextir sem féllu fjórum árum fyrir birtingu stefnu í málinu, þ.e. fyrir 25. júní 2005 eða fyrr séu fyrndir, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

Í fimmta lagi mótmælir varastefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda frá fyrra tímamarki en dómsuppsögudegi.

Um lagarök vísa stefndu til skaðabótalaga nr. 50/1993 og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Þá vísa stefndu til 2. tölul. 3. gr. laga nr. 1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

Málskostnaðarkrafa stefndu er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

NIÐURSTAÐA

Slys stefnanda hlaust af því að starfsmaður eða starfsmenn voru á þaki sýningarskála sem verið var að rífa og var þakplötum spyrnt niður og féllu þær á gólf skálans þar af ein á stefnanda sem hlaut við það meiðsl. Fram kemur í málinu að verkið var unnið í miklum flýti og óðagot var ríkjandi við framkvæmd verks þessa. Sú aðferð sem notuð var við niðurrif þaks skálans var hættuleg og framkvæmd verksins stangaðist á við ákvæði 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og ákvæði reglugerðar nr. 547/1996. Með hliðsjón af þessari framkvæmd þykja engin efni til þess að leggja hluta sakar á stefnanda vegna slyss hans.

Fram kemur í bréfi Orkuveitu Reykjavíkur frá 11. júlí 2005 að stefndi Ris ehf. hafi séð um uppsetningu og niðurrif sýningarskála sem var á vegum Orkuveitunnar. Hafi Ris ehf. verið verktaki á vegum Fróða ehf. sem verið hafi verkkaupi. Hafi stefndi Burðarvirki ehf. verið fengið til aðstoðar.

Stefnandi var starfsmaður stefnda Riss ehf. og samkvæmt því sem fram kemur í fyrrnefndu bréfi Orkuveitunnar svo og framburði vitnisins Sigurþórs Hafsteinssonar hafði þessi stefndi reist skálann og hafði tekið að sér að rífa hann. Verður á því að byggja að stefndi Ris ehf. hafi borið ábyrgð á framkvæmd verks þess sem þarna var unnið. Þá er til þess að líta að stefndi Ris ehf. tilkynnti ekki um slys það sem starfsmaður þess varð fyrir fyrr en 5. janúar 2005 eða rúmum tveimur mánuðum eftir slysið. Leiðir það til þess að þessi stefndi ber hallann af því að óljóst er hver var á þakinu í umrætt sinn og þegar litið er til þáttar stefnda í framkvæmdum á vettvangi svo og þess að hann var vinnuveitandi stefnanda telur dómari að leggja beri til grundvallar að þessi stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda vegna slyss hans 2. nóvember 2004.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að stefndi Ris ehf. beri ábyrgð á slysi stefnanda og þar sem ekki er sýnt fram á að stefndi Burðarvirki ehf. eigi hér sök verður sá stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda en málskostnaður í þessum þætti fellur niður.

Stefnandi hefur lagt fram örorkumat dr. Atla Þórs Ólasonar læknis frá 15. júní 2009 og er ekki ágreiningur um mat þetta. Hins vegar er útreikningi stefnanda mótmælt. Er þar fyrst að nefna að af hálfu stefndu er kröfu um tímabundið atvinnutjón mótmælt. Samkvæmt sundurliðun úr staðgreiðsluskrá fékk stefnandi  greidd laun fyrir mánuðina nóvember til og með desember 2004. Þá er Þess að gæta að samkvæmt læknisvottorði frá 10. janúar 2005 var stefnandi óvinnufær í samtals 69 daga og hefur ekki sýnt fram á að hann hefði fengið hærri laun en hann fékk hefði ekki komið til slyss hans. Er þessum kröfulið því hafnað.

Þá er á það bent af stefndu að við útreikning þjáningabóta sé til þess að líta að stefnandi var óvinnufær í 69 daga eins og að framan greinir og enn fremur að við uppreikning vísitölu beri að miða við 2. nóvember 2005 sem samkvæmt mati læknisins var sá tími er stöðugleika var náð. Fallist er á þessa málsástæðu stefnda og verður þessi liður tekinn til greina með 72.450 krónum.

Bætur vegna varanlegs miska miðast einnig við vístölu 2. nóvember 2005 eða 4905 stig og eru bætur til stefnanda vegna þessa liðar því 869.860 krónur. (3.880.000 x 4905/3282 = 5.799.000 x 15%)

Stefnanda hefur ekki tekist að sýna fram á það að aðstæður hans hafi verið það óvenjulegar að leiði til þess að ákvæði 2. mgr. 7. gr. taki til hans. Verður því að miða við meðaltekjur síðustu 3 ár fyrir slysið  sem hér reiknast 2.231.256 krónur og bætur því 1.742.026 krónur vegna varanlegrar örorku.

Samkvæmt framansögðu verða bætur til stefnanda dæmdar 2.684.336 krónur að frádregnum 856.844 krónum sem stefnandi hefur fengið greiddar úr slysatryggingu launþega eða 1.827.492 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði en vextir sem eru eldri en fjögurra ára frá birtingu stefnu hinn 25. júní 2009 eru fyrndir skv. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.

Stefnandi hefur fengið gjafsóknarleyfi í máli þessu og greiðist málskostnaður hans, sem er þóknun lögmanns hans 500.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti að fjárhæð 127.500 krónur, úr ríkissjóði.

Stefndi Ris ehf. greiði krónur 627.500 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndi Ris ehf. greiði stefnanda Leonard Czeslaw Cimoszko 1.827.492 krónur með 4,5% ársvöxtum af  942.310 krónum frá 25. júní 2005 til 2. nóvember þess árs en með 4,5% ársvöxtum af  2.684.336 krónum frá þeim degi til 10. september 2008 en með 4,5% ársvöxtum af  1.827.492 krónum frá þeim degi til 30. júní 2009 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda 627.500 krónur greiðist úr ríkissjóði.

Stefndi Ris. ehf. greiði 627.500 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.

Stefndi Burðarvirki ehf. skal sýkn af kröfum stefnanda.

Málskostnaður á milli stefnanda og Burðarvirkis ehf. fellur niður.