Hæstiréttur íslands

Mál nr. 169/2009


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Örorkubætur
  • Miskabætur
  • Gjafsókn


       

Fimmtudaginn 18. febrúar 2010.

Nr. 169/2009.

Tryggingamiðstöðin hf.

Íþróttafélagið Þrúður og

dánarbú Pálu Jakobsdóttur

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

Hreggviði Davíðssyni

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

Bifreiðir. Líkamstjón. Skaðabætur. Örorkubætur. Miskabætur. Gjafsókn.

H ók austur yfir Hellisheiði í febrúar 2006 er P ók úr gagnstæðri átt, en fór yfir á rangan vegarhelming, þar sem árekstur varð milli bifreiðanna. P reyndist hafa verið ölvuð við akstur. Báðar bifreiðarnar voru vátryggðar hjá T og var óumdeilt að T bæri fébótaábyrgð á líkamstjóni H vegna slyssins. Aðilar málsins deildu um uppgjör bóta T til H, en að fengnu yfirmati gerði T honum boð um uppgjör í  júlí 2008. H felldi sig ekki við uppgjör á þeim grunni, sem T bauð, en tók við fjárhæðinni með fyrirvara. Til úrlausnar fyrir Hæstarétti var ágreiningur um ákvörðun bóta til H fyrir varanlega örorku, sem laut einungis að viðmiðunarlaunum við útreikning þeirra eftir reglum 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, og fjárhæð miskabóta samkvæmt 26. gr. sömu laga, svo og málskostnað. H bar því við að meðalatvinnutekjur hans þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag, ákveðnar eftir reglum 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, gæfu ekki rétta mynd af þeim tekjum, sem hann hefði haft í framtíðinni ef slysið hefði ekki borið að höndum, þar sem hann hefði lengst af starfað á því tímabili í Noregi, en eftir heimkomu til Íslands á árinu 2005 hefði hann mátt vænta hærri tekna en hann hefði haft af fyrri störfum. Væri því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga til að meta árslaun hans eftir öðrum mælikvarða. Talið var að H hefði ekki sýnt fram á að atvinnutækifæri húsasmiða í Noregi hefðu verið lakari eða laun þeirra almennt lægri en þau voru hér á landi. Þá hefði hann lagt fram mjög ófullkomin gögn um tekjur sínar á árunum 2003 til 2005. Ekki væri því hægt að álykta að meðaltekjur H á tímabilinu hefðu vegna óvenjulegra aðstæðna verið ómarktækar um líklegar tekjur í framtíðinni. Varð því að ákveða fjárhæð skaðabóta til H vegna varanlegrar örorku með tilliti til lágmarkstekna samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Óumdeilt var að þær bætur hefðu verið réttilega ákveðnar í boði T um uppgjör og var því hafnað kröfu H um viðbótargreiðslu. Við ákvörðun miskabóta var litið til þess að tjón H hefði stafað af stórfelldu gáleysi ökumanns, sem var óhæfur til að stjórna bifreið sökum ölvunar. Að teknu tilliti til dómaframkvæmdar Hæstaréttar þótti hæfilegt að dæma T, Í, eiganda bifreiðarinnar sem P ók, og dánarbú P til að greiða H 500.000 krónur.

                                                        

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 15. apríl 2009. Þau krefjast þess að fjárhæðin, sem þeim var gert að greiða stefnda með hinum áfrýjaða dómi, verði lækkuð og málskostnaður felldur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur á þann hátt að áfrýjendum verði gert að greiða sér 4.954.746 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 31. ágúst 2007 til 3. október sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefndi þess að ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verði staðfest og áfrýjendum gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt hér fyrir dómi.

I

Samkvæmt gögnum málsins var stefndi, sem er fæddur 1953 og húsasmiður að mennt, búsettur í Svíþjóð frá 1990 til 2000 og Noregi frá því ári til 2005, þegar hann flutti til Íslands. Hann mun hafa unnið við smíðar á tímabilinu, sem hann var búsettur í Noregi, og síðan hér á landi frá október 2005 sem starfsmaður félags síns og sonar síns, Byggingafélagsins Eldgoðans ehf., sem sinnti á þeim tíma verkum sem undirverktaki fyrir annað félag. Þessu starfi mun stefndi hafa gegnt þegar hann ók til vinnu austur yfir Hellisheiði að morgni 12. febrúar 2006. Eftir sama vegi ók Pála Jakobsdóttir bifreið í eigu áfrýjandans Íþróttafélagsins Þrúðar úr gagnstæðri átt, en fór yfir á rangan vegarhelming, þar sem árekstur varð milli þeirrar bifreiðar og hinnar, sem stefndi ók. Pála reyndist hafa verið ölvuð við akstur og mældist vínandi í blóðsýni 1,80‰. Báðar bifreiðirnar voru vátryggðar hjá áfrýjandanum Tryggingamiðstöðinni hf. Óumdeilt er að áfrýjendur beri fébótaábyrgð á líkamstjóni stefnda af völdum þessa slyss. Af þeim sökum greiddi áfrýjandinn Tryggingamiðstöðin hf. stefnda á tímabilinu frá 14. mars 2006 til 8. febrúar 2007 samtals 5.972.020 krónur, þar af 5.700.000 krónur upp í bætur fyrir örorku, miska og þjáningar, en 272.020 krónur vegna útlagðs kostnaðar.

Stefndi fékk 2. mars 2007 dómkvadda tvo menn til meta líkamstjón sitt, sem rakið yrði til þessa slyss. Í matsgerð þeirra 31. ágúst sama ár var komist að þeirri niðurstöðu að heilsufar stefnda eftir slysið hafi orðið stöðugt 15. júní 2007, hann hafi tímabundið verið óvinnufær frá slysdegi til þess dags og ætti vegna sama tímabils rétt til þjáningabóta, en þar af hafi hann verið rúmliggjandi í sex vikur. Varanlegur miski stefnda var metinn 20 stig, en varanleg örorka 25%. Samkvæmt beiðni stefnda mátu hinir dómkvöddu menn jafnframt fjártjón hans vegna tímabundinnar óvinnufærni og lögðu þeir til grundvallar að laun hans hafi verið samtals 1.370.185 krónur frá október 2005 til janúar 2006 eða að meðaltali um 342.500 krónur á mánuði. Samkvæmt því hafi tjón stefnda af þessum sökum orðið 5.580.000 krónur.

Stefndi höfðaði mál þetta 18. september 2007. Í héraðsdómsstefnu krafðist hann þess að áfrýjendum yrði gert að greiða sér samtals 23.292.193 krónur, sem hann sundurliðaði þannig að bætur fyrir tímabundið atvinnutjón næmu 5.580.000 krónum, þjáningar 568.987 krónum, varanlegan miska 1.304.326 krónum, varanlega örorku 9.138.880 krónum og annað fjártjón og sjúkrakostnað 1.100.000 krónum, auk 5.600.000 króna í miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum. Að auki krafðist stefndi nánar tiltekinna vaxta ásamt málskostnaði, en til frádráttar þessu öllu taldi hann að koma ættu samtals 5.300.000 krónur vegna innborgana áfrýjandans Tryggingamiðstöðvarinnar hf. Einstakir liðir í þessari kröfu voru studdir við niðurstöður matsgerðarinnar að því er varðar fjárhæð bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, tímabil til grundvallar þjáningabótum og stig varanlegs miska og varanlegrar örorku. Viðmiðunarlaun að baki síðastnefnda kröfuliðnum fann stefndi með því að taka meðaltal launa sinna fyrir störf hér á landi fjóra síðustu almanaksmánuðina fyrir slysdag og framreikna það með launavísitölu til þess tíma, sem heilsufar hans taldist orðið stöðugt samkvæmt matsgerðinni, en um heimild til að beita þessari viðmiðun vísaði stefndi til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi fékk stefndi 29. janúar 2008 dómkvadda tvo menn til að meta annars vegar hver væri sjúkrakostnaður hans og annað fjártjón, sem rakið yrði til fyrrnefnds slyss, og hins vegar hverjar hefðu orðið líklegar framtíðartekjur hans í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga ef ekki hefði komið til slyssins. Sama dag fengu áfrýjendur dómkvadda þrjá yfirmatsmenn til að meta sömu atriði og greindi í matsgerðinni frá 31. ágúst 2007, en þó að frátalinni fjárhæð tjóns stefnda vegna tímabundinnar óvinnufærni. Matsgerðinni samkvæmt beiðni stefnda var lokið 18. apríl 2008. Að því er varðar sjúkrakostnað stefnda og annað fjártjón gerðu matsmennirnir sundurliðaða samantekt á útlögðum kostnaði hans samkvæmt gögnum, sem þegar lágu fyrir í málinu, þar á meðal vegna matsgerðarinnar frá 31. ágúst 2007, og var sá kostnaður samtals 1.080.983 krónur. Við þá fjárhæð bættu matsmenn 194.500 krónum vegna aksturs, sem reikningar voru ekki fyrir, og nam þessi liður því alls 1.275.483 krónum. Um líklegar framtíðartekjur stefnda tóku matsmennirnir mið af reikningum fyrir verktakastörf hans hér á landi frá október 2005 til janúar 2006, en samkvæmt þeim hafi verið greiddar 2.900 krónur fyrir hverja vinnustund. Að teknu tilliti til nánar tilgreindra útgjalda, sem tengist verktakastarfsemi af þessum toga, teldust tímalaun stefnda hafa verið 2.272 krónur. Á þeim grunni var komist að þeirri niðurstöðu að mánaðarlaun stefnda, framreiknuð með launavísitölu til þess dags sem heilsufar hans var talið hafa orðið stöðugt eftir slysið, hefðu numið 424.671 krónu. Yfirmatsgerð samkvæmt beiðni áfrýjenda var lokið 26. maí 2008. Samkvæmt samantekt í niðurlagi þeirrar matsgerðar var komist að sömu niðurstöðum og í undirmati, þó að frátöldu því að heilsufar stefnda þótti hafa orðið stöðugt 31. ágúst 2007, en ekki 15. júní sama ár.

Að fengnu yfirmati gerði áfrýjandinn Tryggingamiðstöðin hf. stefnda boð um uppgjör 17. júlí 2008. Í því var ekki tekið mið af þeirri áætlun tekna stefnda, sem kom annars vegar fram í matsgerð 31. ágúst 2007 í tengslum við fjárhæð tjóns vegna tímabundinnar óvinnufærni og hins vegar í matsgerð 18. apríl 2008 varðandi bætur fyrir varanlega örorku, heldur voru lögð til grundvallar lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þá var ekki byggt á niðurstöðu síðarnefndu matsgerðarinnar um sjúkrakostnað stefnda og annað fjártjón, en þess í stað tekið fram að farið hefði verið yfir fyrirliggjandi gögn og á þeim grunni boðin sú fjárhæð, sem hér á eftir greinir. Að öðru leyti var tekið mið af yfirmatsgerð og stefnda boðnar í bætur 3.119.958 krónur vegna tímabundins atvinnutjóns, 673.400 krónur vegna þjáninga, 1.406.300 krónur vegna varanlegs miska, 3.344.923 krónur vegna varanlegrar örorku og 945.303 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Frá þessum fjárhæðum samanlögðum, 9.489.884 krónum, voru dregnar innborganir áfrýjandans, sem sagðar voru alls 5.700.000 krónur, auk greiðslna til stefnda úr almannatryggingum, 630.000 krónur. Við mismuninn, 3.159.884 krónur, voru síðan lagðir vextir, 146.620 krónur, og innheimtuþóknun til lögmanns stefnda, 650.000 krónur, og hljóðaði því boðið upp á samtals 3.956.504 krónur. Stefndi felldi sig ekki við uppgjör á þessum grunni, en tók við þeirri fjárhæð með fyrirvara 18. júlí 2008.

Við aðalmeðferð málsins í héraði 8. janúar 2009 hafði verið lagt fram skjal með endanlegri kröfugerð stefnda. Samkvæmt því krafðist hann bóta vegna tímabundins atvinnutjóns með sömu fjárhæð og í héraðsdómsstefnu, 5.580.000 krónur, vegna þjáninga með sömu fjárhæð og í fyrrgreindu uppgjörsboði áfrýjandans Tryggingamiðstöðvarinnar hf., 673.400 krónur, vegna varanlegs miska, sem án sérstakra skýringa voru taldar 1.314.320 krónur, vegna varanlegrar örorku, sem á grundvelli viðmiðunarlauna samkvæmt matsgerð 18. apríl 2008 voru taldar 7.929.669 krónur, og vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar samkvæmt sömu matsgerð, 1.275.483 krónur, en við þetta bættust 3.000.000 krónur í miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga og var því heildarfjárhæðin 19.772.872 krónur. Frá þessu voru dregnar 630.000 krónur vegna greiðslna úr almannatryggingum, svo og innborganir frá áfrýjandanum Tryggingamiðstöðinni hf., sem voru sagðar samtals 7.305.509 krónur. Samkvæmt þessu taldi stefndi sig eiga ógreiddar bætur að fjárhæð 11.837.363 krónur auk vaxta og málskostnaðar, en á framlögðu yfirliti um hann voru reiknaðar til frádráttar fyrrnefndar 650.000 krónur, sem áfrýjandinn hafði greitt 18. júlí 2008.

Við munnlegan flutning málsins í héraði var fært í þingbók að stefndi gerði kröfu samkvæmt þeirri sundurliðun, sem hér að framan var lýst, en viðurkenndi að bætur fyrir þjáningar og varanlegan miska væru að fullu greiddar. Áfrýjendur kröfðust sýknu á þeim grunni að stefndi hefði fengið greiddar þær bætur, sem honum bæru, en að því frágengnu kröfðust þau þess að honum yrði dæmd lægri fjárhæð en krafist væri. Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á með stefnda að bætur vegna varanlegrar örorku ættu að nema 7.929.669 krónum og vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar 1.275.483 krónum, en að auki ætti hann tilkall til miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 1.000.000 krónur. Á hinn bóginn var hafnað kröfu hans um hærri bætur vegna tímabundins atvinnutjóns en áfrýjandinn Tryggingamiðstöðin hf. hafði greitt honum 18. júlí 2008. Á þessum forsendum komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að áfrýjendum bæri að greiða stefnda 7.607.321 krónu þegar tekið hafi verið tillit til innborgana áfrýjandans Tryggingamiðstöðvarinnar hf.

Fyrir Hæstarétti unir stefndi við niðurstöðu héraðsdóms um einstaka liði í kröfu hans. Áfrýjendur hafa fallið frá mótmælum gegn kröfulið stefnda um bætur fyrir annað fjártjón og sjúkrakostnað og viðurkenna að auki skyldu sína til að greiða honum miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, en þó ekki með þeirri fjárhæð, sem dæmd var í héraði. Aðilarnir eru sammála um hver sé rétt heildarfjárhæð innborgana til stefnda frá áfrýjandanum Tryggingamiðstöðinni hf., sem ranglega var farið með í forsendum hins áfrýjaða dóms, og að með þeirri fjárhæð hafi stefnda verið gerð full skil á bótum vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáninga, varanlegs miska og annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar, svo og þeirri fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku, sem áfrýjendur hafa viðurkennt, 3.344.923 krónur. Þegar sú fjárhæð ásamt greiðslum til stefnda úr almannatryggingum, sem aðilarnir eru sammála um að nemi 630.000 krónum, er dregin frá bótum til stefnda fyrir varanlega örorku samkvæmt hinum áfrýjaða dómi, 7.929.669 krónum, standa eftir 3.954.746 krónur. Í héraði voru stefnda sem áður segir einnig dæmdar miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 1.000.000 krónur og krefst hann þess fyrir Hæstarétti að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um þessi atriði, en með leiðréttingum á ýmsum útreikningsskekkjum þannig að áfrýjendum verði gert að greiða honum samtölu tveggja síðastnefndra fjárhæða, 4.954.746 krónur. Til úrlausnar fyrir Hæstarétti er þannig ágreiningur um ákvörðun bóta til stefnda fyrir varanlega örorku, sem lýtur einungis að viðmiðunarlaunum við útreikning þeirra eftir reglum 7. gr. skaðabótalaga, og fjárhæð miskabóta samkvæmt 26. gr. sömu laga, svo og málskostnað umfram þær 650.000 krónur, sem áfrýjendur greiddu stefnda 18. júlí 2008. Óumdeilt er að áfrýjendur hafi staðið réttilega skil á vöxtum af þeim liðum í skaðabótakröfu stefnda, sem þegar hafa verið greiddir að fullu samkvæmt framansögðu, og af þeim bótum til hans fyrir varanlega örorku, sem áfrýjendur hafa viðurkennt og greitt.

II

Í málinu ber stefndi því við að meðalatvinnutekjur hans þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag, ákveðnar eftir reglum 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, gefi ekki rétta mynd af þeim tekjum, sem hann hefði haft í framtíðinni ef slysið hefði ekki borið að höndum, þar sem hann hafi lengst af starfað á því tímabili erlendis, en eftir heimkomu til Íslands á árinu 2005 hafi hann mátt vænta hærri tekna af vinnu við húsasmíðar en hann hafði af fyrri störfum. Sé því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga til að meta árslaun hans eftir öðrum mælikvarða. Stefndi vísar einnig til þess að dómkvaddir menn hafi lagt rökstutt mat á fjárhæð framtíðartekna, sem hann hefði haft af þessum störfum hér á landi, og tekið þar mið af tekjum hans fjóra síðustu almanaksmánuðina fyrir slysið, en áfrýjendur hafi ekki hnekkt þeirri matsgerð.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga gildir sú meginregla við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku að lagðar verði til grundvallar meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag, sem tjón varð, en þessar tekjur verði framreiknaðar samkvæmt launavísitölu fram til þess dags, sem heilsufar tjónþola telst orðið stöðugt. Með þessum mælikvarða er í senn tekið tillit til þess hvernig tjónþoli hefur í reynd nýtt getu sína til að sinna launuðum störfum um tiltekinn tíma fyrir tjónsatburð og hverra tekna hann hefur aflað á þann hátt. Til þess að vikið verði frá þessu með heimild í 2. mgr. 7. gr. laganna verður tjónþoli að sýna fram á að fyrir hendi séu óvenjulegar aðstæður og að annar mælikvarði sé réttari til að meta hverjar framtíðartekjur hans hefðu orðið. Stefndi varð sem áður segir fyrir slysinu, sem mál þetta varðar, 12. febrúar 2006. Samkvæmt því, sem fram er komið, starfaði hann við þá iðngrein, sem hann hafði menntun til, þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag, þar af í Noregi frá ársbyrjun 2003 og að því er virðist fram yfir mitt ár 2005, en eftir þann tíma hér á landi. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að atvinnutækifæri húsasmiða í Noregi hafi verið lakari eða laun þeirra almennt lægri en þau voru hér á þeim tíma, sem hann var búsettur þar ytra. Hann hefur lagt fram mjög ófullkomin gögn um tekjur sínar á árunum 2003 til 2005, en einu viðhlítandi upplýsingarnar um hluta þeirra fást úr norsku skattframtali fyrir tekjuárið 2004. Samkvæmt framtalinu voru launatekjur stefnda á því ári samtals 168.709 norskar krónur eða sem svarar 1.714.927 íslenskum krónum miðað við skráð sölugengi fyrrnefnda gjaldmiðilsins í árslok 2004. Stefndi hefur ekki lagt fram önnur skattframtöl, hvorki íslensk né erlend. Ekki getur komið til álita að álykta af þessu einu að meðaltekjur stefnda á árunum 2003 til 2005 hafi vegna óvenjulegra aðstæðna verið ómarktækar um líklegar tekjur hans í framtíðinni, enda er ófært að slá slíku föstu nema að gætt væri þess grundvallaratriðis að upplýst væri um raunverulegar heildartekjur á tímabilinu öllu. Stefndi hefur kosið að haga málatilbúnaði sínum þannig að láta hjá líða að leggja þær upplýsingar til og staðhæfa þess í stað án viðhlítandi röksemda að tekjur af störfum hans hér á landi hefðu orðið aðrar og hærri ásamt því að leggja fram matsgerð um áætlun þeirra. Við þeim málatilbúnaði verður gegn andmælum áfrýjenda ekki brugðist á annan veg en með því að ákveða fjárhæð skaðabóta til stefnda vegna varanlegrar örorku með tilliti til lágmarkstekna samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Óumdeilt er að þær bætur hafi verið réttilega ákveðnar á þeim grunni í boði áfrýjandans Tryggingamiðstöðvarinnar hf. um uppgjör, sem lá að baki greiðslu til stefnda 18. júlí 2008. Af þessum sökum verður hafnað kröfu stefnda um að áfrýjendum verði gert að greiða honum 3.954.746 krónur til viðbótar því, sem hann hefur þegar fengið í skaðabætur vegna varanlegrar örorku.

Við ákvörðun miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga verður að líta til þess að tjón stefnda verður rakið til stórfellds gáleysis ökumanns, sem var óhæfur til að stjórna bifreið sökum ölvunar, sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum. Að teknu tilliti til dómaframkvæmdar Hæstaréttar við ákvörðun miskabóta eftir þessari heimild vegna tjóns, sem leitt hefur af refsiverðri háttsemi, er hæfilegt að dæma áfrýjendur til að greiða stefnda á þessum grunni 500.000 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Með hinum áfrýjaða dómi var áfrýjendum gert að greiða í ríkissjóð 800.000 krónur í málskostnað og var gjafsóknarkostnaður stefnda ákveðinn með sömu fjárhæð, en tekið fram að þar af væru 546.000 krónur vegna útlagðs kostnaðar hans. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður í dómi eða eftir atvikum úrskurði aðeins ákveðin fjárhæð málflutningsþóknunar handa lögmanni gjafsóknarhafa, en ekki heildarfjárhæð gjafsóknarkostnaðar. Stefndi nýtur einnig gjafsóknar fyrir Hæstarétti, en sem fyrr segir hefur áfrýjandinn Tryggingamiðstöðin hf. þegar greitt honum 650.000 krónur vegna þóknunar lögmanns hans. Með tilliti til alls þessa verður málflutningsþóknun lögmanns stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti í skjóli gjafsóknar ákveðin í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði. Varðandi málskostnað verður að öðru leyti að gæta að því að mál þetta var höfðað áður en áfrýjendum gafst viðhlítandi ráðrúm til að taka afstöðu til kröfu stefnda, en undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi var hún greidd að nær öllu leyti eins og úrslit þess verða. Að því virtu eru ekki efni til að fella á áfrýjendur frekari málskostnað í héraði eða fyrir Hæstarétti en stefndi hefur þegar fengið greiddan úr hendi þeirra.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Tryggingamiðstöðin hf., Íþróttafélagið Þrúður og dánarbú Pálu Jakobsdóttur, greiði í sameiningu stefnda, Hreggviði Davíðssyni, 500.000 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 31. ágúst 2007 til 3. október sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans á báðum dómstigum, samtals 500.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2009

I

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 8. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hreggviði Davíðssyni, kt. 080253-5409, Fossvegi 4, Selfossi, með stefnu, birtri 18. september 2007, á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík, Pálu Jakobsdóttur, kt. 250448-2059, Espigerði 20, Reykjavík, og Íþróttafélaginu Þrúði, kt. 471099-3259, Hlégerði 7, Kópavogi.

Undir rekstri málsins lézt stefnda, Pála Jakobsdóttir, og tók dánarbú hennar við aðild hennar að málinu.

        Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda kr. 19.142.872, ásamt 4,5% ársvöxtum af kr. 7.567.772 frá 12. febrúar 2006 til 31. ágúst 2007, en af kr. 19.142.872 frá þeim degi til 3. okt. 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum eftirtöldum innborgunum þann 24. apríl 2006, kr. 200.000, þann 12. maí 2006, kr. 200.000, þann 22. júní 2006, kr. 200.000, þann 27. júlí 2006, kr. 300.000, þann 1. ágúst 2006, kr. 1.000.000, þann 22. nóv. 2006, kr. 1.000.000, þann 8. febrúar 2007, kr. 2.800.000, og þann 18. júlí 2008, kr. 2.005.509.  Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en stefnandi fékk gjafsóknarleyfi með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 18. desember 2007.

        Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir að svo stöddu og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað að mati dómsins, en til vara er krafizt lækkunar á dómkröfu stefnanda og niðurfellingar málskostnaðar.

II

Málavextir

Málavextir eru þeir, að þann 12. febrúar 2006 lenti stefnandi í umferðaróhappi á Suðurlandsvegi við Hveradali, þar sem hann var ökumaður bifreiðarinnar MU 599.  Slysið vildi þannig til, að stefnandi, sem var á leið austur Suðurlandsveg, þegar bifreiðin, UN 523, sem kom úr gagnstæðri átt, ók í veg fyrir hann og árekstur varð.  Ökumaður bifreiðarinnar UN 523 var stefnda, Pála Jakobsdóttir, skráður eigandi var stefndi, íþróttafélagið Þrúður, og var bifreiðin tryggð lögbundinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda TM hf.

        Ökuhraði bifreiðar stefnanda er talinn hafa verið 40-50 km á klst.  Mikil þoka var og lágskýjað á Hellisheiði í umrætt sinn og skyggni því lélegt.  Samkvæmt lögregluskýrslu var áreksturinn allharður.  Ökumaður UN 523, stefnda Pála, var föst í bifreiðinni og varð að nota klippur til þess að ná henni út.  Áfengisþef lagði frá henni og við blóðrannsókn kom í ljós, að áfengismagn í blóði mældist 1,80 prómill.

        Stefnandi var fluttur með sjúkrabifreið á LSH í Fossvogi, þar sem gert var að meiðslum hans, sem í upphafi virtust ekki mikil, eða brot á miðhandarbeini og stórutá.  Stefnandi fann þó fljótlega fyrir verkjum í öxl, hálsi og mjóbaki.  Vegna þessa leitaði hann til ýmissa lækna, en bati lét á sér standa, og svo fór að lokum, að lögmaður hans fór þess á leit við þá Björn Daníelsson lögfræðing og Birgi Guðjónsson lækni, að þeir framkvæmdu bráðabirgðamat á afleiðingum slyssins fyrir stefnanda.  Þeir skiluðu matsgerð 19. desember 2006, og voru helstu niðurstöður þær, að varanlegur miski og varanleg örorka voru metin 10–15 % (lágmark).  Í framhaldi af þessu greiddi stefndi TM hf., að beiðni lögmanns stefnanda, inn á tjónið kr. 2.800.000, en áður hafði félagið greitt kr. 3.172.020, og námu heildargreiðslur því kr. 5.972.020. 

        Þann 2. marz 2007 voru þeir Magnús Thoroddsen hrl. og Sigurjón Sigurðsson bæklunarlæknir dómkvaddir í Héraðsdómi Reykjavíkur, að beiðni stefnanda, til að meta afleiðingar slyssins fyrir hann.  Matsgerð þeirra er dagsett 31. ágúst 2007, og voru helztu niðurstöður þær, að varanlegur miski var metinn 20% og varanleg örorka 25%.  Kröfubréf byggt á matsgerðinni er dags. 3. september 2007.  Stefna var síðan birt í málinu þann 18. september 2007, en svar stefndu hafði þá ekki borizt við kröfubréfinu.

        Hinn 29. janúar 2008 voru, að ósk stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., dómkvaddir yfirmatsmennirnir Brynjólfur Jónsson sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, Sigurður Thorlacius, sérfræðingur í taugalækningum, og Viðar Már Matthíasson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.  Var þeim falið að meta hvenær batahvörfum var náð, þjáningabótatímabil stefnanda, varanlegan miska hans, varanlega örorku og loks hvort örorka hans vegna slyssins nái 75%  samkvæmt staðli reglugerðar  nr. 379/1999, sbr. l. nr. 117/1993 og hver örorka hans vegna annarra áfalla eða færnisskerðingar fyrir slys sé.  Til vara var spurt um hvort örorka stefnanda nái 50% samkvæmt framangreindum staðli.

        Er yfirmatsgerðin dags. 26. maí 2008.  Er niðurstaða matsins sú, að batahvörf hafi verið 31. ágúst 2007, tímabil tímabundins atvinnutjóns, sem og tímabil þjáningabóta, sé frá slysdegi 12. febrúar 2006 til 31. ágúst 2007, varanlegur miski nemi 20 stigum og varanleg örorka sé 25%.  Þá telja yfirmatsmenn, að örorka stefnanda samkvæmt staðli TR, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, nái ekki 75%.  Jafnframt taka yfirmatsmenn fram, að tilgreindur örorkumatsstaðall sé einungis notaður til að meta hvort umsækjandi uppfylli læknisfræðileg skilyrði fyrir hæsta örorkustigi, þ.e. 75% örorku, en ekki við mat á því, hvort umsækjandi nái 50% örorku.

        Hinn 29. janúar 2008 voru jafnframt dómkvaddir tveir matsmenn, þeir Magnús hrl. og Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðingur, til að meta sjúkrakostnað og annað fjártjón stefnanda vegna afleiðinga slyssins, annars vegar fram að stöðugleikapunkti og hins vegar frá stöðugleikapunkti fram til þingfestingardags máls þessa.  Þá var þeim einnig falið að meta hverjar hefðu orðið framtíðartekjur stefnanda, hefði hann ekki lent í slysinu hinn 12. febrúar 2006.

        Er matsgerð matsmannanna dagsett 18. apríl 2008.  Er niðurstaða þeirra sú samkvæmt fyrri lið matsins, að heildarkostnaður hafi numið kr. 1.080.983, sem skiptist þannig, að fyrir 15. júní 2007 er kostnaður metinn kr. 587.083, en eftir þann tíma kr. 493.900.  Framtíðartekjur stefnanda, samkvæmt síðari spurningarlið matsins, meta matsmenn að hefðu orðið kr. 424.671 á mánuði á stöðuleikapunkti hinn 15. júní 2007.

        Í júlí 2008 greiddi stefndi enn inn á kröfu stefnanda kr. 2.005.509.  Heildargreiðslur til stefnanda nema því kr. 7.705.509.

        Þegar slysið varð, kveðst stefnandi hafa verið á leið til vinnu sinnar á Selfossi.  Hann hafi verið tiltölulega nýkominn til landsins frá Noregi og hafði unnið hér á landi, frá því í júní 2005 sem húsasmíðameistari hjá félagi í byggingargeiranum, með mönnum sem hann hafði unnið hjá og með, áður en hann fór utan.  Hafi hann haft í hyggju að vinna hjá sömu aðilum áfram næstu ár, og hafi verkefnastaða hjá vinnuveitandanum verið góð.

        Eftir slysið hafi stefnandi reynt að vinna, þar sem hann hafi sjálfur talið áverka þá, sem hann hlaut í slysinu, vera minni háttar og myndu jafna sig fljótlega.  Málin hafi hins vegar þróazt þannig, að stefnandi hafi ekki orðið vinnufær til erfiðisvinnu á ný, og hafi hann af þeim sökum gerzt sífellt örvinglaðri.  Hann hafi til dæmis fitnað heil ósköp, miðað við það sem verið hafði, og linazt allur upp.  Einnig hafi honum liðið mjög illa andlega, sem og líkamlega.

        Stefnandi kveður ágreining aðila í máli þessu lúta að viðmiðunartekjum vegna varanlegrar örorku stefnanda, tjóni stefnanda vegna tímabundinnar örorku, dráttarvöxtum, sjúkrakostnaði og miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga.

        Í málflutningsræðum lögmanna við aðalmeðferð málsins kom fram, að óumdeilt er, að miskabætur (að frátöldum miskabótum skv. 26. gr. skbl.) og þjáningabætur eru að fullu greiddar.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi rökstyður endanlega kröfugerð sína tölulega með neðangreindum hætti:

1.     Miskabætur: 6.571.600 x 20%                                                                                                                  kr.   1.314.320

2.     Bætur fyrir varanlega örorku:

        671.381x79x25%                                                                                                                                         kr.   7.929.669

3.     Þjáningabætur                                                                                                                                           kr.      673.400

4.     Annað fjártjón og sjúkrakostnaður                                                                                                       kr.   1.275.483

5.     Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón                                                                                                       kr.   5.580.000

6.     Bætur skv. 26. grein skaðabótalaga.                                                                                                      kr.   3.000.000

        Samtals er krafan að fjárhæð                                                                                                                   kr. 19.142.872

        Bætur fyrir miska séu grundvallaðar á matsgerð dómkvaddra matsmanna og 4. grein skaðabótalaga. Höfuðstóll miskabóta er miðaður við stöðugleikapunkt í júní 2007, 4000.000 x lánskjaravísitala, þegar krafan er gerð í september 2007, þ.e. 5392/3282=6.571.600.

        Til stuðnings þjáningabótum sé vísað til skaðabótakvittunar hins stefnda félags.

        Bætur fyrir varanlega örorku:  Reiknað sé með stuðlinum 6,79, eins og hið stefnda félag geri, og 25 stiga varanlegri örorku, sbr. bæði yfirmat og undirmat.  Viðmiðunarlaun eru byggð á mati dómkvaddra matsmanna frá 18. apríl 2008, miðað við stöðugleikapunkt (424.671 x 11) 4.671.381.  Byggt er á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Stefnandi byggir á því, að ástæður sínar séu óneitanlega sérstakar og ekki komi til greina að miðað við lágmarkslaun.  Stefnandi byggir einnig á, að hann sé húsasmíðameistari, og sé þetta verulega sanngjörn viðmiðun, ef miðað sé við laun húsasmíðameistara í dag og það, að vinna þeirra sé ætíð mest á sumrin.  Sú viðmiðun, sem stefnandi noti, sé hins vegar yfir lakasta tímann, eða háveturinn, þegar vinna liggi oft niðri að miklu leyti.  Stefnandi byggir á, að örorka hans hafi orðið, þegar hann lenti í slysinu, en þá hafi hann verið 52 ára.

        Annað fjártjón og sjúkrakostnaður:  Byggt sé á mati dómkvaddra matsmanna frá 18. apríl 2008.  Kostnaður samkvæmt framlögðum skjölum, kr. 1.080.983 auk aksturskostnaðar, kr. 194.500, nemi samtals kr. 1.275.483.  Um sé að ræða kostnað við læknisheimsóknir, læknisvottorð, matskostnað, lögfræðikostnað, sjúkraþjálfun, lyfjakaup, akstur, símtöl o.fl. Stefnandi hafi aðeins haldið hluta af þessum kostnaði til haga, sem hér greini:  Matskostnaður við bráðabirgðamat, dskj. nr. 33 og 34, kr. 155.661.  Kostnaður við mat dómkvaddra matsmanna, dskj nr. 62 og 63, kr. 493.900.  Ógreiddur kostnaður v. læknisvottorðs skv. dskj. nr. 35, kr. 13.120.  Ýmsir smáreikningar á dskj. nr. 37, kr. 17.319.  Kostnaður vegna komugjalda til lækna og fl. á dskj. nr. 38, kr. 44.658.  Kostnaður vegna sjúkraþjálfunar skv. dskj. nr. 39, kr. 24.531.  Kostnaður vegna sjúkraþjálfunar á dskj. nr. 40, kr. 11.322.  Kostnaður vegna komugjalda á dskj. nr. 41, kr. 3.028.  Lyfjakaup á dskj. nr. 42, kr. 2.138.  Lyfjakaup á dskj. nr. 4, kr. 925.  Kostnaður skv. dskj. nr. 44, kr. 26.249.  Komugjald skv. dskj. nr. 45, kr. 18.000.  Þjónustugjald skv. dskj. nr. 46, kr. 22.350.  Viðtal hjá Guðjóni Baldurs, kr. 3.028, sbr. dskj. nr. 47.  Komugjald á slysadeild, kr. 8.692, sbr. dskj. nr. 48.  Aksturskostnaður skv. dskj. nr. 49, kr. 2.700.  Reikningur frá Gauta Laxdal, kr. 13.120, sbr. dskj. nr. 54.  Inn í þetta vanti töluverðan kostnað svo sem akstur frá Selfossi til lækna og sjúkraþjálfara, símakostnað ofl.  Alls nemi kostnaður samkvæmt nótum og reikningum vel 700.000 krónum. 

        Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón sé byggt á matsgerðinni dskj. nr. 60, sbr. bls. 9.

        Bætur skv. 26. grein skaðabótalaga séu byggðar á því, að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sínu vegna vítaverðs og stórkostlegs gáleysis stefndu, Pálu Jakobsdóttur, sem hafi valdið slysinu ofurölvi, með því að aka yfir á rangan vegarhelming og beint á bifreið stefnanda á mikilli ferð. Stefnandi vísi til 2. mgr. 26. greinar skbl., sbr. hæstaréttarmál nr. 50/2004, og séu umkrafðar bætur hæfilegar 3.000.000.

        Greiddar hafi verið bætur frá Tryggingamiðstöðinni og lífeyrissjóðum kr. 630.000, sbr. dskj. nr. 80.

        Í kröfugerð sé tekið tillit til innborgana, og sé ekki ágreiningur um fjárhæðir og gjalddaga þeirra.  Stefnandi kveður innborganir hafa verið inn á tímabundið tjón, kr. 2.005.509.  Ekki hafi verið greitt inn á bótakröfu (sic), heldur lögmannskostnað, kr. 650.000, sbr. málskostnaðaryfirlit á dskj. nr. 84.

        Stefnandi byggir dómkröfur sínar á hið stefnda félag á því, að bæði bifreiðin, sem ók á stefnanda, og bifreið sú, sem stefnandi ók, er hann slasaðist, hafi verið tryggðar hjá hinu stefnda félagi.  Byggi stefnandi því kröfu sína aðallega á 88. grein umferðarlaga, sbr. 90. grein sömu laga, sbr. enn 91. grein sömu laga, sbr. og 95. grein og 1. mgr. 97. greinar umferðarlaga.  Kröfu sína á eiganda bifreiðarinnar, Íþróttafélagið Þrúði, byggi stefnandi á 1. mgr. 90. greinar umfl.  Kröfu sína á bifreiðarstjórann, Pálu Jakobsdóttur (nú dánarbú hennar), byggi stefnandi á 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga og 26.grein skaðabótalaga.  Auk þess byggi stefnandi kröfur sínar á ofangreindum ákvörðun skaðabótalaga.  Þá byggi stefnandi á, að samkvæmt matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna nái stefnandi því ekki að eiga rétt á bótum frá Tryggingastofnun ríkisins, skv. staðli almannatryggingalaga, sem settur hafi verið skv. 12. grein laganna (nú 18. grein).  Ekki komi því til greina að skerða umkrafðar bætur samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.

        Til vara byggi stefnandi á 92. grein umferðarlaga.

        Stefnandi byggi einnig á því, að hin stefndu hafi sönnunarbyrði um allan hugsanlegan frádrátt frá bótakröfu stefnanda skv. grundvallarreglum um sönnun í skaðabótamálum.  Sé þá einnig komið að 2. mgr. 24. gr. vátryggingasamningalaga, sbr. 48. gr. núgildandi laga, frumkvæðis­leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu tryggingafélaga samkvæmt lögum um vátryggingasamninga.  Byggi stefnandi á því, að félaginu hafi ekki verið stætt á því að greiða einungs kr. 2.400.000 inn á tjónið á grundvelli bráðabirgðamatsins.  Þá hafi félaginu verið óheimilt að taka kr. 400.000 inn á skuld stefnanda hjá félaginu.  Komi sú fjárhæð því ekki til frádráttar frá dómkröfu stefnanda.

        Stefnandi byggi á því, að hann eigi ekki rétt á bótum samkvæmt III. kafla laga nr. 100/2007, en hann hafi starfað sem undirverktaki hjá vinnuveitanda sínum, er hann slasaðist.  Hann hafi fengið greidd laun nálægt taxta verkstjóra í húsasmíði, en hafi ekki verið ráðinn sem launþegi og innheimt virðisaukaskatt af umkröfðum launum.  Hann falli því hvorki undir a-lið 1. mgr. 29. greinar almtr.laga né g-lið hennar. 

        Stefnandi kveðst styðja kröfur sínar við meginreglur bótakafla umferðarlaga, eins og lýst hafi verið.

        Bótafjárhæðina byggi stefnandi á 1. - 7. grein skaðabótalaga.

        Stefnandi vísi einnig til reglna vátryggingaréttarins um upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu vátryggingafélaga, og að félögin geti ekki takmarkað ábyrgð sína, nema samkvæmt skýrum lagaheimildum.

Málsástæður stefndu

Stefndu kveða óumdeilt, að á slystíma hafi verið í gildi lögbundin ábyrgðartrygging ökutækja hjá stefnda TM vegna bifreiðarinnar UN 523, og bifreið stefnanda, MU 599, hafi einnig verið tryggð þar.  Sé kröfum því réttilega beint að stefnda, TM hf.  Þá sé bótaskylda viðurkennd, enda hafi stefndi TM greitt kr. 5.972.020 inná tjónið, sbr. greiðsluyfirlit dags. 22. júní 2007, dskj. nr. 57.

        Um heilsufarslegar afleiðingar slyssins vísi stefnandi til matsgerðar þeirra Magnúsar Thoroddsen og Sigurjóns Sigurðssonar frá 31. ágúst 2007, dskj. nr. 60.  Stefndu fallist hins vegar ekki á niðurstöður matsgerðarinnar. 

        Stefndu mótmæli tölulegri útfærslu stefnanda á kröfum sínum, bæði aðal- og varakröfu.

        Stefndu geri athugasemdir við launaviðmiðun stefnanda, bæði varðandi varanlegt tjón og tímabundið.

        Að mati stefndu séu ekki efni til annars en að miða við lágmarkslaun, skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, enda hafi stefnandi ekki aflað launatekna hér á landi nema í stuttan tíma fyrir slysið, og framlögð gögn frá Noregi gefi ekki tilefni til annarrar niðurstöðu að þessu leyti.

        Samkvæmt afriti skattframtals frá Noregi vegna ársins 2004, dskj. nr. 26, 27 og 28, hafi tekjurnar numið n.kr. 168.709 það ár, en ekki hafi verið lögð fram af hálfu stefnanda afrit framtala annarra ára, er hér skipti máli, þ.e. tekjuáranna 2003 og 2005.  Sé því ekki unnt að reikna tekjugrundvöllinn út í samræmi við ákvæði skaðabótalaga þar að lútandi.

        Þá virðist hér einnig vera um verktakalaun að ræða, sem verði ekki jafnað til venjulegra mánaðarlauna, þannig að ekki sé unnt, að mati stefndu, að leggja þau til grundvallar við útreikning bóta vegna atvinnutjóns í máli þessu.

        Enn fremur þyki rétt á þessu stigi að mótmæla sérstaklega töluliðum 4, 5 og 6 í kröfugerð stefnanda, öðru fjártjóni og sjúkrakostnaði, tímabundnu atvinnutjóni og bótum skv. 26. gr. skaðabótalaga.

        Kröfuliðurinn „annað fjártjón og sjúkrakostnaður“ sé ekki studdur fullnægjandi gögnum og því mótmælt.

        Stefndi TM hf. hafi greitt kr. 272.020 vegna þessa þáttar, dskj. nr. 57, og sé engin grein gerð fyrir því af hálfu stefnanda, hvernig sú greiðsla komi inn í þetta dæmi.

        Aðferðarfræði stefnanda við útreikning tímabundins tjóns sé mótmælt, bæði að því er varði tímalengdina og launafjárhæð, sem ekki sé í samræmi við fyrirliggjandi gögn, og sé vísað til þess, sem fyrr sé rakið varðandi tjón vegna varanlegrar örorku.

        Einnig sé, vegna ummæla í stefnu, rétt að benda á, að innágreiðslur stefnda TM hafi ekki verið inn á tímabundið tjón, enda engin krafa gerð um slíkt, eða gögn lögð fram því til stuðnings, fyrr en við þingfestingu máls þessa.

        Umræddar greiðslur séu inn á örorku, þjáningar og miska, sbr. dskj. nr. 57.

        Kröfu um bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga sé mótmælt.

        Í fyrsta lagi sé, að mati stefndu, ekki sýnt fram á stórkostlegt gáleysi af hálfu ökumanns UN 523, og einnig sé fjárhæðinni mótmælt sem víðs fjarri þeim fjárhæðum, sem dæmdar hafi verið í málum, þar sem þessi tiltekna grein skaðabótalaganna hafi verið til skoðunar.

        Þá sé í kröfugerð stefnanda gert ráð fyrir því, að bætur skuli ákvarðast eftir reglum skaðabótalaga.  Þetta þýði að sjálfsögðu, að frádráttarreglur skaðabótalaga, t.d. 4. mgr. 5. gr. laganna, gildi um bótagreiðslurnar og verði því að hafna sjónarmiðum stefnanda í b-lið kröfugerðarinnar, þar sem hann haldi því fram, að svo sé ekki.

        Lögð sé áherzla á, að hér sé ekki við stefndu að sakast.

        Ábyrgðin sé stefnanda, enda verði nauðsynlegra upplýsinga að þessu leyti ekki aflað án atbeina hans.

        Vakin sé athygli á tl. 7 í kröfugerð stefnanda, en þar fallist hann á, að slíkum frádrætti eigi að beita, en ákveði hins vegar sjálfur, að hann geti aldrei numið hærri fjárhæð en kr. 1.000.000, en sleppi því hins vegar að upplýsa, hvernig sú tala sé fundin, og hljóti stefndu að mótmæla þeirri nálgun, sem þar sé lögð til grundvallar.

        Málið sé ekki eins einfalt og lögmaðurinn vilji vera láta.  Um sé að ræða flókna útreikninga, þar sem tekið sé tillit til ýmissa þátta, sem m.a. tengist útreikningi á stuðli skaðabótalaganna.  Útreikningar sem þessir hafi hingað til verið gerðir af trygginga­starfsmönnum og telji stefndu það einnig nauðsynlegt hér, en ítreki, að til þess að svo megi verða, verði stefnandi að afla nauðsynlegra gagna, sem hann einn geti aflað.  Meðan það sé ekki gert, verður ekkert reiknað út og gagnaöflun því áfátt að þessu leyti.  Tilvísun til 2. mgr. 24. gr. þágildandi vátryggingasamningalaga sé því á misskilningi byggð og sé henni mótmælt.

        Mótmælt sé tilvísun stefnanda í lög nr. 100/2007, en lögin hafi tekið gildi 30. maí 2007, eða rúmu ári eftir að tjónsatburður sá, sem hér sé til umfjöllunar, hafi átt sér stað og geti því aldrei átt við hann.

        Vaxtakröfu sé mótmælt, enda eigi hún ekki stoð í lögum.

IV

Forsendur og niðurstaða

Bótaábyrgð stefndu er óumdeild.

        Endanlegur ágreiningur aðila lýtur að viðmiðunartekjum við útreikning örorkubóta vegna varanlegrar og tímabundinnar örorku, öðru fjártjóni og sjúkrakostnaði, miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga og upphafstíma dráttarvaxta.

        Verður fjallað um hvern lið fyrir sig.

Viðmiðunartekjur stefnanda vegna varanlegrar örorku

Stefnandi byggir á því, að miða beri við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, þar sem sérstakar aðstæður hafi verið fyrir hendi, sem heimili slíka viðmiðun. 

        Stefndi mótmælir því, að aðstæður hafi verið óvenjulegar í skilningi 2. mgr. skbl. og telur að beita beri 3. mgr. 7. gr. skbl.

        Það liggur fyrir, að stefnandi hafði verið við störf erlendis um árabil, þar til hann flutti til Íslands árið 2005 og hóf hér störf sem undirverktaki í byggingavinnu.  Hann hafði því einungis starfað á Íslandi í nokkra mánuði, þegar slysið varð.

        Stefnandi hefur hvorki lagt fram gögn, sem sýna tekjur hans þá mánuði, sem hann var við störf á árinu 2005 hér á landi, né gögn sem sýna tekjur hans erlendis síðustu 3 ár fyrir slys, eða gögn, ef frá er talið óstaðfest framtal vegna ársins 2004, þegar hann starfaði í Noregi, sbr. dskj. nr. 26.

        Fallast verður á með stefnanda, að aðstæður hafi verið óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, enda verður ekki séð, að framtalsgögn erlendis frá, við aðstæður og launakjör, sem ekki liggur fyrir að séu sambærileg við það, sem gerist hér á landi, verði lögð til grundvallar mögulegum framtíðartekjum stefnanda hérlendis.  Þá verður heldur ekki séð, að tekjur vegna nokkurra mánaða árið 2005 geti gefið raunsanna mynd af aflahæfi hans, þannig að við það verði stuðzt.  Stefnandi er húsasmíðameistari að mennt og má ætla, að hann hefði átt alla kosti til þess að afla sér tekna í samræmi við þá menntun, ef slysið hefði ekki orðið, enda liggur ekki fyrir, að neinar þær aðstæður hafi verið fyrir hendi í lífi hans, sem gera það ósennilegt. 

        Stefnandi byggir tjón sitt samkvæmt þessum lið á útreikningi hinna dómkvöddu matsmanna, Magnúsar Thoroddsen hrl. og Vigfúsar Ásgeirssonar tryggingastærðfræðings.  Mati þeirra hefur ekki verið hnekkt og hefur stefndi ekki sýnt fram á annan og réttari útreikning.  Þykir því mega leggja til grundvallar þá fjárhæð, sem stefnandi byggir á í endanlegri kröfugerð sinni, þ.e. kr. 7.929.669.  Er því fallizt á kröfu stefnanda hvað þennan lið varðar.

Tímabundið atvinnutjón

Stefnandi vísar til matsgerðar á dskj. nr. 60 til stuðnings þessum kröfulið, en fjallar að öðru leyti ekki um hann í málsástæðum sínum í stefnu.  Af hálfu stefndu er þessum kröfulið mótmælt, bæði hvað varðar tímalengd og fjárhæð, og því haldið fram að hann sé að fullu greiddur.

        Samkvæmt undirmatsgerð á dskj. nr. 60, er tímabil tímabundins atvinnutjóns talið vera frá slysdegi 10. febrúar 2006 til 15. júní 2007, en í yfirmatsgerð er þetta tímabil talið ná frá slysdegi til 31. ágúst 2007.  Þar sem tímabil það, sem stefnandi byggir á, er styttra en það sem greinir í yfirmatsgerð, þykir mega fallast á, að stefnandi eigi rétt á greiðslu fyrir tímabundið atvinnutjón frá slysdegi til 15. júní 2007, eins og hann krefur um.

        Í matsgerðinni á dskj. nr. 60 meta matsmenn tímabundið fjártjón stefnanda kr. 342.500 á mánuði, eða samtals kr. 5.580.000 fyrir allt tímabilið.  Hvernig sú fjárhæð er fundin er ekki skýrt eða rökstutt í matsgerðinni.  Þar er hins vegar að finna kafla, sem ber yfirskriftina „tekjusaga“, þar sem tilgreindar eru tekjur stefnanda eftir að hann flutti heim til Íslands, sem mun hafa verið í júní 2005, kr. 206.710, tímabilið janúar til ágúst, og kr. 1.370.185 tímabilið október 2005 til janúar 2006.  Sýnast matsmenn hafa tekið síðasta launatímabilið og deilt í það með mánaðafjöldanum og fengið þannig út mánaðarlaun þau, sem þeir byggja tímabundið fjártjón stefnanda á.  Engin gögn liggja fyrir í málinu um ofangreindar tekjur stefnanda og kemur ekki fram í matsgerðinni, hvernig matmenn hafa fengið þær upplýsingar eða hvort matsmenn hafi staðreynt þær.  Þá eru engar upplýsingar um tekjur stefnanda í septembermánuði.  Stefnandi hefur ekki lagt fram staðfest gögn, sem sýna tekjur hans á þeim tíma, sem slysið varð, eða mánuðina fyrir slysið, svo sem skattframtal, launamiða eða önnur gögn. Stefnandi gaf ekki skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð og reyndist því ekki unnt að fá skýringar hans á tekjum hans fyrir slysið.   Verður því ekki, gegn andmælum stefndu, byggt á þessum útreikningum.  Má því að fallast á með stefndu, að miða beri við lágmarkslaun þetta tímabil, og telst sú krafa að fullu greidd með kr. 3.119.958, sbr. greiðsluyfirlit stefnda á dskj. nr. 86.

Annað fjártjón og sjúkrakostnaður

Stefnandi byggir kröfu sína um bætur vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar á útreikningi matsmannanna, Magnúsar Thoroddsen og Vigfúsar Ásgeirssonar.  Stefndi hefur mótmælt öllum kröfum þar að lútandi, sem ekki styðjast við skrifleg gögn.

        Samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal sá, sem bótaábyrgð ber á líkamstjóni m.a. greiða skaðabætur fyrir sjúkrakostnað og fjártjón, sem af hlýzt.  Í greinargerð með skaðabótalögunum segir svo um þessa þætti:

Með orðunum „annað fjártjón“ í 1. mgr. er átt við útgjöld sem falla á tjónþola strax eða fljótlega eftir að tjónsatvik bar að höndum en erfitt er að færa sönnur á, t.d. með því að leggja fram reikninga. ... Ákvæðið um bætur fyrir „annað fjártjón“ er einnig sett til þess að veita svigrúm til þess að ákvarða bætur fyrir tjón sem ekki telst til sjúkrakostnaðar í þröngri merkingu þess orðs.

        Stefnandi hefur lagt fram fjölmarga reikninga vegna kostnaðar, sem hann hefur haft vegna slyssins og fellur undir þennan lið.  Hafa matsmenn stuðzt við þá reikninga, en jafnframt tekið inn í útreikninga sína annað fjártjón, sem þeir telja stefnanda hafa sýnt fram á með vissu, að hann hafi borið vegna slyssins, en hefur ekki getað sýnt fram á með kvittunum.  Þar sem beinlínis er gert ráð fyrir því í skaðabótalögunum, að tjónþoli geti átt rétt á bótum vegna annars fjártjóns, þó hann geti ekki lagt fram skrifleg sönnunargögn vegna þess, er fallizt á kröfu stefnanda, eins og hún er endanlega fram sett vegna þessa þáttar, en matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna sýnist unnin af samvizkusemi og nákvæmni og hefur ekki verið hnekkt tölulega hvað þennan þátt varðar.

Miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga

Miskabótakrafa stefnanda, sem hann byggir á 26. gr. skaðabótalaga, er studd þeim rökum, að tjónvaldur, Pála heitin Jakobsdóttir, hafi verið ölvuð undir stýri, þegar hún ók bifreiðinni UN 523 á röngum vegarhelmingi í veg fyrir bifreið stefnanda, þannig að árekstri varð ekki afstýrt.

        Umrætt ákvæði 26. gr. skaðabótalaganna, eins og því var breytt með 13. gr. l. nr. 37/1999, heimilar að láta þann, sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni, greiða miskabætur til þess, sem misgert var við.

        Samkvæmt gögnum málsins telst upplýst, að Pála heitin var ölvuð, þegar slysið varð, en áfengismagn í blóði hennar eftir slysið mældist 1,80 prómill.

        Í 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. l nr. 48/1997, segir svo um hæfi ökumanns til þess að stjórna bifreið, þegar hann er undir áhrifum áfengis: 

Ef vínandamagn í blóði ökumanns nemur 1,20‰ eða meira eða vínandamagn í lofti, sem hann andar frá sér, nemur 0,60 milligrömmum í lítra lofts eða meira telst hann óhæfur til að stjórna ökutæki.

        Samkvæmt þessu var vínandamagn í blóði ökumanns bifreiðarinnar UN 523 langt yfir þeim mörkum, sem þarna greinir svo ökumaður teljist óhæfur til að stjórna ökutæki.  Verður það því metið ökumanninum til stórfellds gáleysis að aka bifreiðinni við þessar aðstæður.  Má því fallast á með stefnda, að honum verði dæmdar miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga.  Þykja bætur honum til handa samkvæmt þessu lagaákvæði hæfilega ákveðnar kr. 1.000.000.

        Samkvæmt framansögðu nemur heildartjón stefnanda kr. 15.312.830, þegar með eru taldir tjónliðir, sem ágreiningslaust er að hafa verið að fullu bættir.  Heildargreiðslur stefndu inn á tjónið nema kr. 7.705.509.  Eftirstöðvarnar nema kr.  7.607.321.  Eins og mál þetta er úr garði gert af hálfu stefnanda, og þegar litið er til þess, að af hans hálfu skortir allar upplýsingar um tekjur hans, svo unnt hafi verið að reikna út fjártjón hans, verða dráttarvextir ekki reiknaðir af dæmdri fjárhæð fyrr en frá dómsuppsögudegi. 

        Vaxtakrafa stefnanda er endanlega fram sett á dskj. nr. 83.  Krefur hann þar um vexti af bótum vegna þjáninga, varanlegs miska og tímabundins atvinnutjóns frá slysdegi, en af eftirstöðvunum frá þeim degi, þegar stöðugleikapunkti var náð.  Það athugist, að sú fjárhæð sem hann krefur vaxta af frá slysdegi er ekki í samræmi við samanlagða bótakröfu hans vegna framangreindra liða, og er þar væntanlega um reikniskekkju að ræða. 

        Vextir reiknast eins og greinir í dómsorði.  Tekið er tillit til innborgana frá gjalddögum þeirra.  Miðað við gjalddaga hinna einstöku kröfuliða í kröfugerð stefnanda og frádráttarliði er gjaldfallin krafa að fullu greidd og 592.722 kr. betur hinn 8. febrúar 2007.  Samanlagðar kröfur á gjalddaga 31. ágúst 2007 nema kr. 10.205.152, að frádregnum áður greiddum kr. 592.322, eða kr. 9.612.830.

        Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 800.000 og rennur í ríkissjóð.  Er þar með talinn útlagður kostnaður, kr. 546.000.  Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið litið til þess, að stefndi hefur þegar greitt beint til stefnanda kr. 650.000 í málskostnað, en ekki hefur verið litið til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

        Við ákvörðun á gjafsóknarkostnaði stefnanda er litið til þess, að stefnandi hefur þegar fengið greiddar kr. 650.000 í málskostnað frá stefnda.  Ákveðst gjafsóknarkostnaður kr. 800.000 og greiðist úr ríkissjóði.  Er þar með talinn útlagður kostnaður, kr. 546.000. 

        Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Tryggingamiðstöðin hf., dánarbú stefndu Pálu Jakobsdóttur og Íþróttafélagið Þrúður, greiði in solidum stefnanda, Hreggviði Davíðssyni, kr. 7.607.321, ásamt 4,5% ársvöxtum af kr. 5.107.678 frá 12. febrúar 2006 til 24. apríl s.á., en af kr. 4.907.678 frá þeim degi til 12. maí s.á., en af kr. 4.707.678 frá þeim degi til 22. júní s.á., en af kr. 4.507.678 frá þeim degi til 27. júlí s.á., en af kr. 4.207.678 frá þeim degi til 1. ágúst s.á., en af kr. 3.207.678 frá þeim degi til 22. nóvember s.á., en af kr. 2.207.678 frá þeim degi til 8. febrúar 2007.  Þá greiði stefndu in solidum stefnanda 4,5% ársvexti af kr. 9.612.830 frá 31. ágúst 2007 til 18. júlí 2008, en af kr. 7.607.321 frá þeim degi til dómsuppsögudags, 4. febrúar 2009, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.  Þá greiði stefndu in solidum kr. 800.000 í málskostnað, sem rennur í ríkissjóð.

        Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 800.000, greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. útlagður kostnaður, kr. 546.000.