Hæstiréttur íslands
Mál nr. 122/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Skiptakostnaður
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 12. mars 2007. |
|
Nr. 122/2007. |
Björn Ólafur Hallgrímsson(Hilmar Magnússon hrl.) gegn Gnípu ehf. (enginn) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Skiptakostnaður. Frávísunarúrskurður staðfestur.
B, skiptastjóri þrotabús Ó, krafði skiptabeiðanda, G ehf., um greiðslu nánar tilgreindrar fjárhæðar vegna ógreidds kostnaðar af skiptunum. Ekki var talið að þessi krafa yrði sótt í dómsmáli, sem rekið væri eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sbr. 173. gr. sömu laga, enda hefði G ehf. ekki samþykkt það eins og áskilið væri í 172. gr. laganna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2007, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna ágreinings um greiðslu skiptakostnaðar í þrotabúi Ólafs Þórs Jónssonar var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins var bú Ólafs Þórs Jónssonar tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt kröfu varnaraðila með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2001. Sama dag var sóknaraðili, sem er starfandi hæstaréttarlögmaður, skipaður til að gegna starfi skiptastjóra í þrotabúinu. Óumdeilt er að varnaraðili hafði þá lagt fram tryggingu fyrir greiðslu skiptakostnaðar að fjárhæð 150.000 krónur, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991. Fyrir liggur að sóknaraðili gaf meðal annars út innköllun í þrotabúið, gerði skrá um lýstar kröfur, þar sem afstaða var þó ekki tekin til viðurkenningar þeirra, tók skýrslu af þrotamanninum, gerði leit að eignum í þinglýstum heimildum og hjá viðskiptabönkum og rannsakaði gögn, sem vörðuðu álitaefni um riftanlegar ráðstafanir þrotamannsins, auk þess að halda alls fimm skiptafundi í mars og apríl 2002. Með þessum aðgerðum fundust bankareikningar, sem lokað var með greiðslu til þrotabúsins á samtals 346 krónum, en aðrar eignir komu ekki fram. Í bréfi til varnaraðila 30. ágúst 2002 greindi sóknaraðili frá því að hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru efni til að gera frekari athugun á ráðstöfunum þrotamannsins eða leita riftunar á þeim, en kröfuhafar, sem færu með tæplega 90% lýstra krafna, hefðu lýst þeirri afstöðu við sóknaraðila að þeir vildu ekki bera kostnað af slíkum aðgerðum. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að sóknaraðili hafi aðhafst nokkuð frekar vegna skiptanna fyrr en hann ritaði á ný bréf til varnaraðila 22. desember 2005, þar sem greint var frá því að á skorti að tryggingarfé vegna skiptanna hrykki fyrir útgjöldum þrotabúsins og áföllnum kostnaði af störfum sóknaraðila, sem hafi meðal annars tengst athugunum á ráðstöfunum þrotamannsins, sem varnaraðili hafi óskað eftir. Með bréfi 20. janúar 2006 hafnaði varnaraðili að greiða meiri kostnað af skiptunum en sem næmi tryggingarfé úr hendi hans. Í framhaldi af því urðu frekari bréfaskipti milli aðilanna og hélt sóknaraðili jafnframt fjóra skiptafundi í janúar og febrúar 2006 vegna ágreinings um hvort varnaraðila væri skylt að bera áfallinn skiptakostnað. Sóknaraðili taldi þennan kostnað samtals 600.951 krónu, þar af 585.773 krónur vegna starfa hans, en að frádregnu tryggingarfé og fyrrgreindum innistæðum af bankareikningum næmi ógreiddur kostnaður 450.605 krónum. Ekki tókst að jafna þennan ágreining og leitaði sóknaraðili 24. ágúst 2006 í nafni þrotabúsins úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um hann. Fyrir héraðsdómi krafðist þrotabúið þess að „ákveðin verði með úrskurði sú fjárhæð skiptakostnaðar til 26. janúar 2006 er skiptabeiðandi beri ábyrgð á, - aðallega sem kr. 600.951, en til vara aðra lægri fjárhæð að mati dómsins og kveðið verði á um greiðsluskyldu skiptabeiðanda á þeim kostnaði.“ Mál þetta var þingfest af þessu tilefni 15. september 2006. Samkvæmt ósk sóknaraðila og með samþykki varnaraðila var í þinghaldi 29. sama mánaðar gerð breyting á aðild að málinu, þannig að sóknaraðili kæmi þar í stað þrotabúsins. Við munnlegan flutning málsins 29. janúar 2007 var dómkrafa sóknaraðila orðuð á þann veg að varnaraðila yrði gert að greiða honum aðallega 600.951 krónu, en til vara lægri fjárhæð. Með hinum kærða úrskurði var málinu sem fyrr segir vísað frá dómi.
Eins og ráðið verður af framangreindu leitar sóknaraðili í máli þessu greiðslu á þeirri fjárhæð, sem hann telur skorta á að þrotabú Ólafs Þórs Jónssonar geti staðið skil á kostnaði af gjaldþrotaskiptunum, en kröfu um þá greiðslu beinir sóknaraðili að varnaraðila sem skiptabeiðanda á grundvelli 2. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 173. gr. sömu laga verður krafa þessi, sem þrotabúið á að réttu lagi að fara með, ekki sótt í dómsmáli, sem rekið er eftir ákvæðum XXIV. kafla laganna, enda hefur varnaraðili ekki samþykkt það, sbr. 172. gr. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2007.
I
Málið barst dóminum 28. ágúst sl. og var þingfest 15. september. Það var flutt og tekið til úrskurðar 29. janúar sl.
Sóknaraðili er Björn Ólafur Hallgrímsson hrl., skiptastjóri þrotabús Ólafs Þórs Jónssonar.
Varnaraðili er Gnípa ehf., Lynghálsi 2, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila 600.951 krónu, en til vara lægri fjárhæð að mati dómsins. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði hafnað, en til vara að hún verði lækkuð. Þá er krafist málskostnaðar.
II
Málavextir eru þeir að 26. nóvember 2001 var bú Ólafs Þórs Jónssonar tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Garra ehf. sem nú heitir Gnípa ehf. og er varnaraðili í málinu. Sóknaraðili var skipaður skiptastjóri og sendi hann ágreiningsefnið til dómsins. Í bréfi sínu kvað hann ágreininginn snúast um þóknun skiptastjóra sem hann kvað nema framangreindri fjárhæð en varnaraðili vilji ekki borga hærri fjárhæð en 150.000 krónur, þ.e. þá upphæð sem lögð hafi verið fram sem trygging fyrir greiðslu kostnaðar þegar búið var tekið til gjaldþrotaskipta. Í þinghaldi 29. september sl. var aðild málsins sóknarmegin breytt. Áður hafði þrotabúið verið sóknaraðili en nú varð skiptastjórinn það. Varnaraðili samþykkti þessa ráðstöfun.
Sóknaraðili gerir þá grein fyrir málavöxtum að hann hafi kannað sjálfstætt og með venjubundnum hætti fjárhag og fjárráðstafanir þrotamanns. Eftir þær athuganir hafi sér virst búið eignalaust að öðru leyti en því að nokkur hundruð krónur hafi verið inni á bankareikningum. Þá hafi ekki komið í ljós riftanlegar ráðstafanir. Við skiptameðferðina hafi skiptabeiðandi hins vegar óskað eftir því að málefni búsins og tilteknar ráðstafanir þrotamanns yrðu rannsökuð frekar og hafi mikill tími farið í þau störf án þess að þau hafi skilað árangri. Sóknaraðili kveðst hafa áskilið sér framangreinda fjárhæð í þóknun samtals, en það sé bæði endurgjald fyrir vinnu sína við skiptin, útlagður kostnaður og virðisaukaskattur.
Varnaraðili kveðst hafa afhent sóknaraðila gögn til athugunar varðandi ráðstafanir þrotamanns á fasteignum. Hann hafi hins vegar ekki krafist tiltekinna aðgerða eða rannsóknar af hálfu sóknaraðila af því tilefni, heldur hafi gögnin verið afhent til að benda á ráðstafanir sem sóknaraðili ætti að athuga. Sóknaraðili hafi látið þess getið að athugun á þessum gögnum yrði að greiða sérstaklega, en honum hafi þá verið tilkynnt að hann fengi ekki meira greitt en sem næmi tryggingarfénu. Varnaraðili kveðst og hafa látið þess getið við sóknaraðila að hann teldi athugun á gögnunum vera eðlilegan hluta af starfi skiptastjóra.
III
Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili, sem hafi beðið um skiptin, beri ábyrgð á þeim hluta skiptakostnaðar sem ekki hafi fengist greiddur af eignum búsins, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Skiptabeiðandi hafi með óskum sínum um vinnu sóknaraðila valdið þeim kostnaði sem hann er krafinn um greiðslu á í málinu.
Varnaraðili byggir á því að hann verði ekki krafinn um greiðslu kostnaðar umfram fjárhæð tryggingarinnar sem hann lagði fram. Vísar hann til 1. mgr. 155. gr. laga nr. 21/1991 en þar komi fram að skiptastjóra beri að ljúka skiptum, komi í ljós eftir lok kröfulýsingarfrests, að búið eigi ekki eignir umfram það sem þurfi til að efna kröfur samkvæmt 109. gr. og 1. og 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Skiptastjóri hafi ekki leitað eftir ábyrgð varnaraðila á kostnaði við athuganir sínar og geti hann því ekki krafið varnaraðila um greiðslu kostnaðar vegna þeirra.
IV
Í 2. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991 segir að skiptastjóri eigi rétt á þóknun fyrir störf sín sem greiðist af fé búsins eða þeim sem ábyrgist greiðslu skiptakostnaðar, sbr. 66. gr. sömu laga. Eins og rakið var úr málatilbúnaði sóknaraðila fundust aðeins óverulegar eignir í þrotabúinu og greiddist því skiptakostnaður ekki af eignum þess. Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. nefndra laga ábyrgist sá sem hefur krafist gjaldþrotaskipta greiðslu kostnaðar af meðferð kröfu sinnar og af gjaldþrotaskiptunum ef krafa hans er tekin til greina og kostnaðurinn greiðist ekki af fé þrotabúsins.
Ágreiningur aðila er ekki ágreiningur sem reis við skiptin á þrotabúinu heldur lýtur hann að kröfu sem sóknaraðili, skiptastjóri búsins, telur sig eiga á hendur skiptabeiðanda, varnaraðila. Kröfu sem þessa verður skiptastjóri að sækja í almennu einkamáli á hendur skiptabeiðanda, á grundvelli framangreindra lagaákvæða, en getur ekki vísað henni til héraðsdóms sem ágreiningsmáli vegna gjaldþrotaskiptanna. Óhjákvæmilegt er því að vísa kröfu sóknaraðila frá dómi og úrskurða hann til að greiða varnaraðila 150.000 krónur í málskostnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð.
Málinu er vísað frá dómi og skal sóknaraðili, Björn Ólafur Hallgrímsson hrl., greiða varnaraðila, Gnípu ehf., 150.000 krónur í málskostnað.