Hæstiréttur íslands

Mál nr. 546/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ákæra
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Miðvikudaginn 25

 

Miðvikudaginn 25. október 2006.

Nr. 546/2006.

Ákæruvaldið

(Gunnar Örn Jónsson fulltrúi)

gegn

X

(sjálfur)

 

Kærumál. Ákæra. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Héraðsdómur vísaði máli ákæruvaldsins á hendur X frá dómi þar sem talið var að rannsóknargögn væru ekki í samræmi við verknaðarlýsingu ákærunnar. Ekki var fallist á að þetta ætlaða ósamræmi ætti að leiða til frávísunar málsins þar sem um atriði væri að ræða sem kæmi til athugunar við efnislega meðferð málsins, þegar dómari legði mat á hvort ákæruvaldið hefði uppfyllt sönnunarskyldu sína. Var úrskurðurinn því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. september 2006, þar sem máli ákæruvaldsins á hendur varnaraðila var vísað frá dómi án kröfu. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í forsendum hins kærða úrskurðar er talið, að rannsóknargögnin sem málatilbúnaður ákæruvaldsins byggir á, séu ekki í samræmi við verknaðarlýsingu ákærunnar. Er þetta á því byggt, að í upphafi lögreglurannsóknar hafi varnaraðili verið talinn hafa brotið gegn stöðvunarskyldu er hann ók af Grænumörk í Hveragerði inn á Suðurlandsveg til austurs 5. nóvember 2005. Hann hafi hins vegar verið ákærður fyrir að hafa ekið bifreið sinni umrætt sinn inn á Suðurlandsveg „án nægilegrar aðgæslu og tillitssemi og án þess að veita umferð um Suðurlandsveg skilyrðislausan forgang“. Er ætlað brot varnaraðila talið í ákæru varða við 1. mgr. 4. gr. og 5. mgr. 25. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Héraðsdómari telur undirbúning ákærunnar fara í bága við 32. gr. og 67. gr. laga nr. 19/1991 og sé málatilbúnaður ákæruvaldsins „svo illa búinn að ekki er annað fært en að vísa máli þessu frá dómi ex officio með vísan til 4. mgr. 122. gr.“ laganna, enda hafi þetta greinilega haft áhrif á málsvörn ákærða.

Ákæra sú á hendur varnaraðila, sem til umfjöllunar er í málinu, uppfyllir kröfur 116. gr. laga nr. 19/1991, þar sem kveðið er á um hvað greina skuli í ákæruskjali. Ósamræmi af því tagi sem héraðsdómari telur vera til staðar á milli rannsóknargagna lögreglu og efnis ákærunnar kemur til athugunar við efnislega meðferð málsins, þegar dómari leggur mat á hvort ákæruvaldið hafi uppfyllt sönnunarskyldu sína um brotið sem ákært er fyrir, sbr. 45. gr. laganna. Þetta ætlaða ósamræmi verður ekki talið hafa haft nein áhrif á möguleika varnaraðila til að verjast ákærunni. Raunar liggur fyrir að hann hafði þegar 7. nóvember 2005, eða tveimur dögum eftir að hið meinta brot átti sér stað, sent sýslumanninum á Selfossi bréf, þar sem fram kemur að annar lögreglumannanna sem stöðvuðu hann hafi strax á staðnum fullyrt að hann hefði „svínað fyrir lögreglubílinn“. Virðist hann því strax frá upphafi hafa gert sér grein fyrir að sú háttsemi væri til rannsóknar í málinu. Eftir þingfestingu ákærunnar með fyrrgreindri verknaðarlýsingu naut varnaraðili síðan lögbundins réttar til að færa fram málsvarnir sínar gegn henni.

Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Það athugist að héraðsdómara bar samkvæmt 4. mgr. 122. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum að gefa aðilum kost á að tjá sig um þá annmarka sem hann taldi vera á málinu áður en hann vísaði því frá.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og er lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar og dómsálagningar.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. september 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 12. september sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 3. maí  2006 á hendur X, [kt. og heimilisfang],  ,,fyrir umferðarlagabrot með því að hafa síðdegis laugardaginn 5. nóvember 2005, ekið bifreiðinni RX-[...] af Grænumörk í Hveragerði, inná Suðurlandsveg án nægilegrar aðgæslu og tillitssemi og án þess að veita umferð um Suðurlandsveg skilyrðislausan forgang, með þeim afleiðingum að snögghemla þurfti lögreglubifreið er kom aðvífandi austur Suðurlandsveg”.

Ákæruvaldið telur þessa háttsemi varða við 1. mgr. 4. gr. og 5. mgr. 25. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 100. gr. sömu laga og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Ákærði mætti við þingfestingu málsins og óskaði ekki eftir verjanda. Dómari gætti leiðbeiningarskyldu gagnvart ákærða, sem er ólöglærður. Við þingfestingu málsins óskaði ákæruvaldið eftir leiðréttingu á ákæru. Um væri að ræða bifreiðina KX-[...] en ekki RX-[...]. Er þessi misritun ekki talin hafa áhrif á varnir í málinu. Ákærði neitaði sök. Aðalmeðferð málsins fór fram 12. september s.l. en ákærði flutti mál sitt sjálfur.

Málsástæður:

Í vettvangsskýrslu lögreglu kemur fram að meint brot á sér stað kl. 17.03 og er brotið skráð sem stöðvunarskyldubrot. Í skýrslunni kemur fram að ökumaður hafi ekið suður Grænumörk og beygt austur Suðurlandsveg. Ákærði mótmælti strax á vettvangi meintu broti. Í lögregluskýrslu sem gerð var 14.nóvember.2005 segir að kært sé fyrir að,  ,,forgangur, stöðvunarskylda, biðskylda sé eigi virt”.  Segir í þeirri skýrslu að það hafi  verið rökkur, blaut færð, mikil umferð og skýjað. Í lögregluskýrslunni segir að bifreiðinni hafi verið ekið suður Grænumörk og henni beygt austur Suðurlandsveg í veg fyrir lögreglubifreiðina sem var ekið austur Suðurlandsveg. Segir að stöðvunarskylda sé fyrir umferð af Grænumörk inná Suðurlandsveg. Hafi ökumaður lögreglubifreiðarinnar þurft að hemla til að koma í veg fyrir að aka á bifreiðina. Segir í skýrslunni að akstur bifreiðarinnar hafi verið stöðvaður skömmu seinna og ökumanni boðið yfir í lögreglubifreiðina. Ökumaður bifreiðarinnar hafi ekki verið viss um hvort hann hafi stöðvað við stöðvunarmerki og jafnframt að honum hafi fundist það dapurlegt að lenda í lögreglunni. Segir að ákærði hafi farið yfir í bifreið sína og spurt eiginkonu sína hvort hann hefði stöðvað við stöðvunarlínu og þegar hann kom yfir í lögreglubifreiðina aftur þá hafi hann mótmælt því að hafa ekki stöðvað bifreiðina við stöðvunarlínu þar sem eiginkona hans sem var með honum í bifreiðinni gæti fullyrt að hann hefði stöðvað bifreiðina við stöðvunarlínuna.

Í skýrslu sem lögreglan á Selfossi tók af Þorsteini Magnússyni lögreglumanni sem var í eftirliti á  lögreglubifreiðinni í umrætt sinn kvaðst hann ekki hafa séð hvort bifreiðin KX-[...] hafi numið skilyrðislaust staðar við gatnamótin áður en henni var ekið af Grænumörk inná Suðurlandsveg. Hann staðfestir hins vegar í skýrslunni að bifreiðinni hafi verið ekið inná Suðurlandsveg í veg fyrir lögreglubifreiðina sem Jóhanna Eivinsdóttir Christiansen lögreglumaður ók. Kvað Þorsteinn Jóhönnu hafa orðið að hemla og draga úr ferð og því orðið fyrir truflun og óþægindum af akstri KX-[...] er henni var ekið í veg fyrir lögreglubifreiðina. Segir Þorsteinn að þau Jóhanna hafi verið á leið austur Suðurlandsveg og verið nýlega komin út úr hringtorginu á Suðurlandsvegi við Breiðumörk og lögreglubifreiðin verið á að giska 20 metra vestan við umrædd gatnamót þegar KX-[...] var ekið í veg fyrir hana.

Jóhanna Eyvindsdóttir Christiansen lögreglumaður gaf skýrslu 27. desember 2005 hjá lögreglunni á Selfossi um meint brot. Segir hún í skýrslunni að hún ásamt Þorsteini Magnússyni hafi verið í umferðareftirliti á lögreglubifreiðinni 33-209 sem hún ók til austurs eftir Suðurlandsvegi frá hringtorgi á Suðurlandsvegi á mótum Þorlákshafnarvegar og Breiðumarkar. Segir hún í skýrslunni að þegar hún var að nálgast Grænumörk hafi bifreið verið ekið af þeirri götu inná Suðurlandsveg til austurs. Segir hún þetta hafi ekki truflað hana eða skapað óþægindi fyrir hana.  Hins vegar hafi önnur bifreið fylgt þeirri bifreið eftir og henni verið ekið sömu leið til austurs og hafi akstur þeirrar bifreiðar orðið til þess að hún hafi orðið að draga úr hraða lögreglubifreiðarinnar með því að hemla. Hafi það verið bifreið ákærða.  Segir Jóhanna að hún hafi ekki veitt því athygli hvort ákærði hafi stöðvað á stöðvunarlínu á móts við stöðvunarskyldumerkið sem er á Grænumörk enda kvaðst hún ekki hafa verið að kæra ákærða fyrir að hafa ekki stöðvað bifreið sína á stöðvunarlínu heldur fyrir það að veita ekki umferð um Suðurlandsveg skilyrðislausan forgang eins og stöðvunarskyldumerkið á Grænumörk gaf til kynna. Þá kvaðst Jóhanna hafa kært ákærða fyrir að hafa ekki sýnt þá tillitssemi og varúð sem honum bar og með því truflað umferð að óþörfu auk þess að valda óþægindum. Aðspurð um nákvæman ökuhraða  lögreglubifreiðarinnar í þann mund sem KX-[...] var ekið í veg fyrir hana kvaðst hún ekki geta sagt til um en hann hafi verið um það bil 50 til 60 km. á klukkustund. Jóhanna kvaðst ekki treysta sér til að segja til um hve langt frá gatnamótunum hún var í metrum talið þegar bifreiðinni var ekið í veg fyrir hana en það hafi verið mjög stutt og henni hafi þótt brotið það gróft að hún hafi tekið þá ákvörðun að hafa tal af ökumanni KX-[...] og kæra hann.

A [kt.] eiginkona ákærða gaf skýrslu hjá lögreglu 19. janúar 2006. Segir hún í skýrslunni að hún og ákærði hafi verið að koma frá bensínstöðinni gegnt Eden og hafi ekið til austurs. Hafi ákærði verið ökumaður en hún setið í framsæti við hliðina á honum. Þau hafi verið á mjög löngum bíl með kerru. Hafi kerran verið um 3 metrar auk beislis þannig að bíll og kerra hafi verið í heildina 9 metrar.  Segist hún ekki þekkja göturnar í Hveragerði en ákærði hafi ekið til vinstri inná Suðurlandsveginn. Segir hún að ákæri hafi stöðvað akstur bifreiðarinnar á mótum Grænumarkar og Suðurlandsvegar en segist ekki geta metið það hversu lengi hann stöðvaði aksturinn en hann hafi stöðvað. Hún bendir á í skýrslunni að Toyota sé ekki kraftmikill bíll og með svona kerru aftaní sé bíllinn enn þyngri. A er bent á að í lögregluskýrslu ákærða komi fram að hann hafi ekki verið viss um það hvort hann hafi stöðvað við stöðvunarmerkið. Hún segir í skýrslunni það ósannindi að lögreglubifreiðin hafi þurft að hemla til að koma í veg fyrir að aka á bifreiðina KX-[...], hún hafi setið í framsætinu og hafi haft gott úrsýni yfir veginn og fylgst vel með umferð. Hún segir að röð bifreiða hafi verið ekið út úr hringtorginu en hafi ekki tekið eftir því hvort lögreglubifreið hafi verið þar á meðal. Segir hún að það hafi verið langt í þessa bílaumferð, á milli 300 til 400 metrar þegar ákærði hafi ekið inná Suðurlandsveginn. Segir hún að ákærði hafi ekið bifreiðinni töluverðan spotta til austurs þegar þau hafi fengið merki um að stöðva aksturinn, hún heldur að það hafi verið um nokkra tugi metra.  Fullyrðir hún í skýrslunni að hún hafi séð bílaumferð koma út úr hringtorginu en að öðru leyti hafi vegurinn verið auður og hindrunarlaus.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði X gaf skýrslu fyrir dómi en hann flutti mál sitt sjálfur. Krafðist hann sýknu á þeim forsendum að ákært væri fyrir annað brot en hann var upphaflega kærður fyrir.  Sagði hann að laugardaginn 5. nóvember er hann hefði verið að koma úr sumarbústað sínum á Laugarvatni hefði hann ekið inn í Hveragerði við bensínstöðina gegnt Eden.  Þá hefði hann ekið út úr Hveragerði við gatnamót Suðurlandsvegar og Grænumarkar í átt að Selfossi. Kvað ákærði sig hafa verð með kerru aftan í bifreið sinni og samanlagt hefði bifreið og kerra verið um 10 metra löng. Taldi ákærði sig hafa í því skyni sýnt sérstaka varúð gagnvart umferð á Suðurlandsveginum er hann ók bifreið sinni inn á veginn, enda þekki hann aðstæður þarna mjög vel þar sem hann hefði unnið á svæðinu í 6 ár og því hættan vel ljós. Ákærði taldi sig hafa litið til beggja átta, áður en hann ók inn á Suðurlandsveginn, og þá séð, þrátt fyrir rökkur og dimmviðri, hvar bílaröð hefði komið út úr umferðareyjunni við Breiðumörk um það leyti sem hann var að koma að gatnamótum Grænumarkar og Suðurlandsvegar. Taldi ákærði enga hættu hafa verið við það að hann færi inn á þjóðveginn við þessar aðstæður, m.t.t. þess að hann væri á jeppabifreið með langa kerru í eftirdragi og þyrfti því að sýna sérstaka aðgæslu við aksturinn. Kvað ákærði að þegar hann hefði verið kominn inn á þjóðveginn hefði hann ekið einhverja tugi eða eitt- til tvöhundruð metra og þá hefði lögregla gefið honum blá ljósmerki um að stöðva aksturinn. Ákærði tók það sérstaklega fram að þrjár bifreiðar hefðu verið á eftir lögreglubifreiðinni og engin þeirra hefði gefið nokkurt merki um að hætta hefði stafað af akstri hans en ákærði sagði það vera venju við slíkar aðstæður að ökumenn gæfu ýmist hljóð- eða ljósmerki. Þá sagði ákærði að þegar hann hefði stöðvað bifreið sína hefði hann farið yfir í lögreglubifreiðna en taldi það órafjarri sínum hugmyndum að verið væri að stöðva akstur hans vegna þess að hann hefði „svínað“ fyrir lögreglubifreiðna. Kvað ákærði að þegar hann hefði sest inn í lögreglubifreiðna hefði hann sagt „að honum þætti það leitt að hafa lent í lögreglunni“, enda væri hann með hreint sakarvottorð og fátítt að hann lenti í lögreglumálum. Tók ákærði fram að setningin sem slík hefði ekki gefið til kynna neina sekt af hans hálfu. Sagði ákærði sig hafa strax verið sakaðan um að hafa brotið reglur um stöðvunarskyldu við umrædd gatnamót. Við þær ásakanir kvað ákærði sig ekki hafa sagt orð, heldur farið yfir í bíl konu sinnar til að fá upplýsingar um hennar mat á aðstæðum því hann hefði viljað fullyrða hluti sem væru hundraðprósent réttir, ekki að hann væri í efa sjálfur heldur hefði hann viljað fá staðfestingu á því að hann væri að fara með rétt mál. Sagði ákærði sig og eiginkonu sína hafa verið sammála um það að hann hefði stöðvað bifreiðina við stöðvunarskyldumerkið og því næst hefði hann farið aftur yfir í lögreglubifreiðina og tilkynnt það að hann mótmælti ásökunum um að hafa ekki stöðvað við umrætt merki. Aðspurður taldi ákærði sig hafa tekið eftir umræddu umferðarskilti, ásamt því að hafa stöðvað bifreið sína til móts við það. Þá bar ákærði að hann kannaðist ekki við að nokkur bifreið hefði verið á undan sér á umræddum gatnamótum þegar hann kom að þeim og því hefði hann ekki þurft að bíða neitt við gatnamótin, utan þess að hafa stöðvað við stöðvunarskyldumerkið. Þá tók ákærði sérstaklega fram að málið hefði ætíð snúist um stöðvunarskyldubrot en ekki það brot sem honum væri gert að sök í ákæruskjali því er honum hefði verið birt. Vísaði hann meðal annars til heiti brots í sektarboði sem hann fékk sent frá sýslumanninum á Selfossi. Sagðist hann ekki hafa fengið gögn málsins fyrr en við þingfestingu málsins 21. júní 2006 og þá fyrst séð að honum var gert að sök að hafa ekið fyrir lögreglubifreiðina í umrætt sinn en ekki það að hann hafi ekki virt stöðvunarskyldu.

Vitnið Jóhanna Eivinsdóttir Christiansen lögreglumaður kom fyrir dóminn. Vitnið kvað sig hafa ekið lögreglubifreið austur Suðurlandsveg frá hringtorginu við Breiðumörk, þegar hún sá hvar bifreið var stopp við stöðvunarskyldumerkið á gatnamótum Grænumarkar og Suðurlandsvegar. Bifreiðinni var síðan ekið inn á Suðurlandsveg, í austur að Selfossi. Því næst sá vitnið hvar annarri bifreið, sem hún kvað hafa verið bifreið ákærða, var ekið að gatnamótunum eftir Grænumörkinni og inn á Suðurlandsveginn í veg fyrir sig, án þess að virða stöðvunarskyldumerkið, þar sem hún kom akandi á lögreglubifreiðinni þannig að hún þurfti að hemla niður. Taldi hún ákærða, með háttalagi sínu, hafa „svínað fyrir“ lögreglubifreiðina þannig að hún hefði þurfti að hemla niður. Aðspurt taldi vitnið sig ekki gera sér grein fyrir því hversu mikil fjarlægð hefði verið í bifreið ákærða, þegar hann ók í veg fyrir lögreglubifreiðina en ágiskun hennar væri sú að vegalengdin hefði verið um 100 metrar. Aðspurt kvað vitnið lögreglubifreiðina hafa verið á um 50 – 60 km hraða á klukkustund en kveðst ekki muna hvort bifreiðum hefði verið ekið á eftir lögreglubifreiðinni.  Kvað vitnið að ekki hefði verið hætta á árekstri, þrátt fyrir að hún hefði þurft að hemla niður en sagði jafnframt að hefði hún ekki hemlað niður þá hefði hún keyrt aftan á ákærða en þó ekki harkalega. Aðspurt um hvort verið væri að kæra ákærða fyrir að hafa ekki sinnt stöðvunarskyldu eða eitthvert annað brot, kvað vitnið ákærða hvorki hafa sinnt stöðvunarskyldu né hafa virt forgang umferðar á Suðurlandsvegi. Þá bar vitnið, aðspurt um hvort það eða aðrir ökumenn hefðu gefið til kynna, með ljós- eða hljóðmerki, að hætta hefði verið af aksturslagi ákærða að svo hefði ekki verið, að öðru leyti en því að ákærða hefðu verið gefin blá ljósmerki um að stöðva akstur sinn nokkrum sekúndum eftir að hann hefði verið kominn út á Suðurlandsveginn. 

Vitnið Þorsteinn Magnússon fyrrverandi lögreglumaður kom fyrir dóminn. Kvað vitnið sig hafa verið farþega í lögreglubifreið þeirri er ók í austur eftir Suðurlandsvegi. Kvað vitnið að þegar lögreglubifreiðin var að nálgast gatnamót Grænumarkar og Suðurlandsvegar hefði bifreið ákærða verið ekið inn á Suðurlandsveginn í veg fyrir lögreglubifreiðina, þannig að ökumaður lögreglubifreiðarinnar hefði þurft að hægja verulega á ferð lögreglubifreiðarinnar og hafði óþægindi af. Aðspurt kvaðst vitnið ekki geta sagt til um hvort ákærði hefði numið staðar við stöðvunarskyldumerkið, þar sem það hafi verið að horfa á ratsjá lögreglubifreiðarinnar en telur aðspurt að lögreglubifreiðinni hafi verið ekið á um 60 – 70 km hraða á klukkustund á umræddum tíma. Þá kvað vitnið ekki hafa liðið langan tíma frá því að ákærði ók í veg fyrir lögreglubifreiðina og þangað til að honum var gefið til kynna, með bláum forgangsljósum lögreglubifreiðarinnar, að stöðva aksturinn eða innan við ein mínútu. Þá kvaðst vitnið ekki muna hvort önnur bifreið hefði verið á undan ákærða á umræddum gatnamótum eða hvort aðrar bifreiðar hefðu verið á eftir lögreglubifreiðinni í umrætt sinn, þó það telji slíkt ekki óhugsandi þar sem umferð var nokkur á umræddum tíma. Vitnið kvað hættu hafa skapast af akstri ákærða, þó það teldi hættuna ekki hafa verið verulega. Þá bar vitnið að ekki hefðu aðrar bifreiðar en lögreglubifreiðin gefið til kynna, með hljóð- eða ljósmerki, að hætta hefði stafað af akstri ákærða. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hversu langt hefði verið milli lögreglubifreiðarinnar og bifreiðar ákærða þegar ákærði ók í veg fyrir lögreglubifreiðina.

Vitnið A, eiginkona ákærða, kom fyrir dóminn. Kvað hún að þau hefðu ekið út úr Hveragerði um gatnamót Grænumarkar og Suðurlandsvegar. Kvað hún ákærða hafa stöðvað bílinn á umræddum gatnamótum til þess að kanna aðstæður á Suðurlandsveginum. Kvaðst hún hafa séð hvar umferð kom út úr hringtorginu við Breiðumörk en sagði hún enga umferð hafa verið úr austurátt og við þær aðstæður hefði ákærði ekið út á Suðurlandsveginn til austurs. Kvað vitnið að þegar ákærði hefði verið kominn um 50 – 100 metra frá gatnamótunum hefði verið kveikt á bláum forgangsljósum lögreglubifreiðar fyrir aftan þau. Kvað hún ákærða hafa stöðvað bifreiðina og farið yfir í lögreglubifreiðina. Þá kvað hún ákærða hafa komið aftur til baka skömmu síðar og tjáð sér að honum væri gert að sök að hafa ekki virt stöðvunarskyldu á umræddum gatnamótum. Kvað hún ákærða einungis hafa komið til baka til að fá staðfestingu á því að fullyrðing hans, um að hafa virt stöðvunarskyldumerkið á umræddum gatnamótum, hefði verið rétt og þeim hefði ekki farið annað á milli. Aðspurð kvað hún enga bifreið hafa verið á undan bifreið ákærða á umræddum gatnamótum en kvað hinsvegar 3 – 4 bifreiðar hafa verið á eftir lögreglubifreiðinni. 

Niðurstöður:

Í frumskýrslu lögreglu sem gerð er á vettvangi er kynnt fyrir ákærða að hann hafi ekki virt stöðvunarskyldu sem var á gatnamótum Grænumarkar og Suðurlandsvegar við Hveragerði. Mótmælti ákærði því broti strax. Í lögregluskýrslum sem gerðar eru í framhaldi, þ.e. upplýsingaskýrsla lögreglu 14. nóvember 2005, skýrslu sem tekin er af Þorsteini Magnússyni lögreglumanni 14. desember 2005 og skýrslu sem tekin er af Jóhönnu Eivinsdóttur, Christiansen lögreglumanni 27. desember 2005 er heiti brots ákærða skráð, „Vegamót, forgangur, stöðvunarskylda, biðskylda eigi virt”. Einnig þegar réttarfarsákvæða er gætt og vitnum kynnt sakarefnið þá er brotið að hafa ekið af Grænumörk í Hveragerði inná Suðurlandsveg án þess að virða stöðvunarskyldu. Við skýrslutöku af vitninu A er henni kynnt tilefnið sem meint umferðarlagabrot ákærða. Heiti brots er áfram í lögregluskýrslu að stöðvunarskylda hafi eigi verið virt.

Ákvæði um stöðvunarskyldu er í 2. mgr. 25. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 en þar segir að ökumaður, sem ætlar að aka inn á eða yfir veg, skuli veita umferð ökutækja á þeim vegi úr báðum áttum forgang, ef það er gefið til kynna með umferðarmerki um biðskyldu eða stöðvunarskyldu. Í 5. mgr. 25. gr. eru leiðbeinandi reglur um hvernig ökumaður, sem á að veita öðrum forgang, skuli gefa til kynna að hann muni veita forgang. Ökumaður megi því aðeins aka áfram, að það sé unnt án hættu eða óþæginda fyrir önnur ökutæki miðað við, hvar þau eru á vegi, hver fjarlægð þeirra er og hraði þeirra.

Í ákæruskjali í máli þessu er verknaðarlýsingin svo að ákærði hafi ekið bifreiðinni KX af Grænumörk í Hveragerði, inná Suðurlandsveg án nægilegrar aðgæslu og tillitssemi og án þess að veita umferð um Suðurlandsveg skilyrðislausan forgang, með þeim afleiðingum að snögghemla þurfti lögreglubifreið er kom aðvífandi austur Suðurlandsveg.

Eins og kemur fram að ofan segir í vettvangsskýrslu lögreglunnar sem ákærði undirritaði að um stöðvunarskyldubrot væri að ræða. Í frumskýrslu lögreglu gerð 14. nóvember s.á. er brotinu lýst þannig að bifreiðinni hafi verið ekið suður Grænumörk og henni beygt austur Suðurlandsveg í veg fyrir lögreglubifreiðina sem var ekið austur Suðurlandsveg. Er stöðvunarskylda fyrir umferð af Grænumörk inná Suðurlandsveg. Þurfti ég, ökumaður lögreglubifreiðarinnar að hemla til að koma í veg fyrir að aka á bifreiðina. Síðan segir að akstur bifreiðarinnar hafi verið stöðvaður og ökumanni boðið yfir í lögreglubifreiðian og honum kynntur réttur hans. Segir svo í skýrslunni að ökumaður bifreiðarinnar segist ekki vera viss um hvort hann hefði stöðvað við stöðvunarmerki og síðan að hann hafi farið yfir í bifreið sína og spurt eiginkonu sína hvort hann hefði stöðvað við stöðvunarlínu. Síðan er bókað eftir honum að hann mótmæli því að hafa ekki stöðvað við stöðvunarlínu. Er síðan tekið fram að framburð ökumanns, sem hann staðfesti með undirskrift sinni, megi sjá á meðfylgjandi vettvangsskýrslu. Þann 8. desember 2005 er aftur tekin skýrsla af ákærða hjá lögreglunni í Kópavogi. Þar kemur fram að frammi liggi kæruskýrsla lögreglunnar dagsett 14.nóvember 2005 og vettvangsskýrsla dagsett 5.nóvember 2005 ásamt bréfum ákærða til sýslumannsins á Selfossi, dagsett 7. nóvember 2005 og 24. nóvember 2005. Eru ofangreind gögn kynnt ákærða hjá lögreglunni og segir hann efni skýrslunnar í veigamiklum atriðum rangt þar sem hann kveðst hafa svarað því til við lögreglumennina í fyrstu, með vissu, að hann hafi ekki brotið af sér. Auk þess véfengir hann fullyrðingar lögreglunnar á vettvangi um að hann hafi farið svo fljótt inná þjóðveginn að það hafi valdið annarri umferð truflun. Er einnig bókað eftir ákærða að hann haldi því fram að annar lögreglumannanna, er höfðu tal af honum á vettvangi hafi ekki séð tilvikið. Er þar væntanlega átt við meint stöðvunarskyldubrot ákærða.

Í lögregluskýrslu sem Þorsteinn Magnússon lögreglumaður gaf 14. desember 2005 út af meintu broti ákærða segir hann að hann hafi ekki í umrætt sinn séð hvort bifreið ákærða hafi numið skilyrðislaust staðar við gatnamótin áður en henni var ekið af Grænumörk inn á Suðurlandsveg. Hins vegar staðfesti hann að bifreiðinni hafi verið ekið inn á Suðurlandsveg í veg fyrir lögreglubifreiðina sem Jóhanna lögreglumaður ók. Hafi Jóhanna þurft að hemla og draga úr ferð og því orðið fyrir truflun og óþægindum af akstri ákærða.

Í bréfi dagsettu 7. nóvember 2005 sem ákærði sendi sýslumanninum á Selfossi kemur fram að ákærði mótmæli þeirri ásökun að hann hafi ekki virt stöðvunarskyldu við gatnamótin. Auk þess tekur ákærði m.a. eftirfarandi fram:

“ 1. Ég mótmæli því harðlega að ég hafi svínað fyrir lögreglubíl á umræddum gatnamótum. Mat mitt á aðstæðum var þannig að það var nóg rými fyrir bíl minn að komast inn á þjóðveginn. Þær bifreiðar sem voru við umferðareyjuna voru amk 400 metra í burtu og engin hætta á ferðum.

2. Aðeins annar lögreglumaðurinn þ.e. ökumaður lögreglubifreiðarinnar, fullyrti að ég hefði ekki numið staðar. Hinn tók fram að hann hefði ekki séð atvikið.

3. Ég hafði með mér vitni í bílnum sem staðfesti mína frásögn eftir að mér hafði gefist tækifæri til að meta málið. Ekki taldi lögregla ástæðu til að ræða við vitnið til að fá betri sýn á málið.

4. Ég vil taka það fram að ég mun ekki samþykkja efni kæru eða sektar vegna þeirra málsatvika sem hér er lýst að framan. Vona ég að sýslumaður taki tillit til þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið hér að framan.”

Ítrekar hann einnig í bréfinu að hann hafi talið sig stöðva við stöðvunarskyldu.

Í gögnum málsins kemur ítrekað fram í bréfum ákærða til sýslumannsins á Selfossi að hann óski eftir að fá gögn málsins afhent til að geta kynnt sér þau. Þau hafi hann fyrst fengið við þingfestingu málsins 21. júní s.l.

Ákært er í máli þessu fyrir brot á 1. mgr. 4. gr. og 5. mgr. 25. gr.  umferðarlaga rn. 50/1987. Í reglugerð nr. 575/2001 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim segir í viðauka I að sektir vegna brota á 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga verði beitt ef engin sérregla á við. Ekki er gert ráð fyrir sekt í reglugerðinni vegna brota á 5. mgr. 25. gr. umferðarlaga enda er þar um leiðbeinandi reglu að ræða og ekki ætlað að beita sektum sé ekki farið eftir þeim leiðbeiningum enda eiga þá önnur ákvæði við. Dómari hefur þó frjálst mat á því hverri refsingu verði beitt verði ákærði sakfelldur svo framarlega sem refsingin rúmast innan ramma laganna.

Í 1. mgr. 32. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 kemur fram að skylt sé að gefa sakborningi upplýsingar um kæruefni áður en hann er yfirheyrður út af því eða við handtöku ef til hennar kemur. Brot það sem ákærða var gefið að sök var brot á stöðvunarskyldu.  Í 67. gr. sömu laga segir að markmið rannsóknar sé að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar.

Í máli þessu hefur rannsókn málsins aðallega beinst að meintu broti ákærða sem var stöðvunarskyldubrot. Við útgáfu ákæru eru brot ákærða færð undir 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga sem er brot á almennum varúðarreglum í umferðinni svo og 5. mgr. 25. gr. umferðarlaga sem eru leiðbeinandi reglur um aðferð við að sýna að ökumaður muni veita forgang.  Bæði vitnin, Þorsteinn Magnússon lögreglumaður og Jóhanna Eivinsdóttir Chritiansen lögreglumaður segja í skýrslu sinni að þau geti ekki fullyrt hvort ákærði hafi stoppað við stöðvunarskyldu á umræddum gatnamótum eða ekki. Fyrir dómi sagði vitnið Jóhanna að ákærði hefði ekki stöðvað við stöðvunarskyldumerkið en vitnið Þorsteinn sagðist ekki hafa tekið eftir ákærða fyrr en ökumaður lögreglubifreiðarinnar dró verulega úr hraðanum þegar ákærði ók inná Suðurlandsveginn.  Við yfirheyrslur og hér fyrir dómi hefur ákærði fullyrt að hann hafi stöðvað við stöðvunarskyldu og voru varnir hans meira og minna byggðar á því svo og að þrátt fyrir að hafa ekið inná Suðurlandsveginn þá hafi önnur aðvífandi umferð verið svo langt í burtu að hann taldi enga hættu né óþægindi skapast af því.

Í c lið 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 segir að í ákæru skuli greina hvert brotið sé sem ákært er út af, hvar og hvenær það er talið framið, heiti þess að lögum og önnur skilgreining og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta. Í máli þessu sem hér er til úrlausnar liggur fyrir að það umferðarlagabrots sem kært er fyrir í upphafi er ekki það brot sem ákært er útaf. Tilgangurinn með því að verknaðarlýsing í ákæru sé skýr og heimfærsla til refsiákvæða sé í samræmi við sakarefnið er sá að málsvörn kærða sé ekki áfátt af þeim sökum. Sé svo ber að vísa máli frá dómi. Það brot sem rannsókn í máli þessu snýr að er stöðvunarskylda og snúast mótmæli ákærða alla tíð um að hann hafi ekki brotið þá skyldu. Ekki er hins vegar ákært fyrir það brot. Gögn þau sem málatilbúnaður ákæruvaldsins byggir á er því ekki í samræmi við verknaðarlýsingu í ákæru og því  skilyrði 32. gr. og 67. gr. laga um meðferð opinberra mála ekki uppfyllt.

Af öllu ofangreindu virtu er ljóst að ákærði leit á öllum stigum málsins svo á að kæra lögreglunnar hafi snúið að meintu stöðvunarskyldubroti hans enda fær það stuðning í skýrslu Jóhönnu Eivinsdóttur Christiansen lögreglukonu sem tekur það sérstaklega fram í lögregluskýrslu 27. desember 2005 að hún hafi ekki verið að kæra fyrir stöðvunarskyldubrot. Á því stigi málsins virðist hún gera sér grein fyrir því að yfirheyrslur af vitnum virðast snúast um rangt brot. Mótmæli ákærða á meðan að rannsókn málsins fór fram snerist um meint stöðvunarskyldubrot hans. Honum var ekki ljóst að varnir hans ættu að snúast um annað brot en kom fram í kæru lögreglunnar fyrr en  10. maí 2006 þegar honum var birt fyrirkall og ákæran. Auk þess hefur ekki fullyrðing hans um að hann hafi ekki fengið gögn málsins afhent fyrr en við þingfestingu málsins 21. júní s.l. ekki verið véfengd.   Ljóst er að rannsókn málsins frá því að ákærði er kærður snerist um stöðvunarskyldubrot en verknaðarlýsing í ákæru er ekki í samræmi við það. Því er málatilbúnaður ákæruvaldsins svo illa búinn að ekki er annað fært en að vísa máli þessu frá dómi ex officio með vísan til 4. mgr. 122. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, enda hafði hann greinilega áhrif á málsvörn ákærða.  Enginn sakarkostnaður hefur hlotist af máli þessu og ekki gerð krafa um málsvarnarlaun af hálfu ákærða.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari, kveður upp úrskurð  þennan.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.