Hæstiréttur íslands
Mál nr. 21/2009
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Sönnun
- Sönnunarbyrði
- Aðilaskýrsla
|
|
Fimmtudaginn 24. september 2009. |
|
Nr. 21/2009. |
Seldalur ehf. (Óskar Sigurðsson hrl.) gegn Byko hf. (Ásgeir Jónsson hrl.) |
Lausafjárkaup. Sönnun. Sönnunarbyrði. Aðilaskýrsla.
Í málinu krafði B hf., S ehf. um greiðslu reikninga vegna vöruúttekta S ehf. hjá hinu fyrrnefnda félagi á árinu 2006. Af skýrslum starfsmanna B hf. fyrir héraðsdómi mátti ráða að B. hf. hefði ekki samþykkt að S ehf. fengi að eiga hefðbundin reikningsviðskipti við félagið en hefði þess í stað heimilað S ehf. að taka út vörur sem síðan voru skuldfærðar á svonefndan biðreikning. Þegar S ehf. hefði ekki greitt skuld sína vegna vöruúttektanna hafði heimild hans vegna úttektanna verið felld niður og reikningar vegna þeirra prentaðir út og dagsettir 28. febrúar 2007. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki hefði legið fyrir samningur milli aðila um vöruúttektir S ehf. og lánsviðskipti félaganna en S ehf. neitaði því að slíkur samningur hefði verið gerður. Hélt S ehf. því fram að vörur sem það hefði tekið út hjá B hf. hefðu verið staðgreiddar. Vísað var til þess að samkvæmt skýrslum tveggja starfsmanna B hf. fyrir dómi, hefðu ekki verið til neinar kvittanir fyrir vöruúttektunum. Hefði B hf. ekki fært fram haldbærar sannanir fyrir því að S ehf. eða einhver á hans vegum hefði tekið út þær vörur sem um ræddi. Þá hefði B hf. jafnframt ekki upplýst um það hvenær einstakar úttektir hefðu átt sér stað. Var talið að það hefði staðið B hf. næst að tryggja sér sönnun fyrir grundvelli kröfunnar, en slíkar ráðstafanir hefðu átt að vera B hf. léttbærar. Var S ehf. því sýknað af kröfu B hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 19. nóvember 2008, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 7. janúar 2009. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 16. janúar 2009. Áfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Við flutning málsins fyrir Hæstarétti upplýsti áfrýjandi að nafni hans hefði verið breytt í Seldalur ehf.
Eins og fram kemur í héraðsdómi segir stefndi kröfu sína stafa af úttektum áfrýjanda á vörum til nota í pípulagningastarfsemi sem hann stundar. Í skýrslum starfsmanna stefnda fyrir héraðsdómi kom fram að ekki hefði verið samþykkt að áfrýjandi fengi að eiga hefðbundin reikningsviðskipti við stefnda en þess í stað hafi honum verið heimilað að taka út vörur og hann verið skuldfærður vegna þeirra á svonefndan biðreikning. Viðskiptin hafi staðið frá árinu 2005 til hausts 2006 er stefndi hafi bundið enda á þau vegna vanskila áfrýjanda. Áfrýjandi hafi framan af greitt inn á skuld sína vegna vöruúttektanna og jafnframt hafi hann lækkað skuldina með því að skila vörum, sem hefðu verið teknar út, en ekki notaðar. Áfrýjandi hafi notið afsláttarkjara.
Starfsmenn stefnda báru fyrir dómi að um hefði verið að ræða óvenjulega viðskiptahætti. Þegar áfrýjandi hafi ekki greitt skuld sína vegna vöruúttektanna, þótt hann væri ítrekað um það krafinn, hafi heimild hans til vöruúttekta verið felld niður og 28. febrúar 2007 hafi verið prentaðir út reikningar vegna úttekta hans. Sé það skýringin á því að allir reikningarnir séu dagsettir sama dag. Einn reikningur 24. apríl 2007 sé vegna skila á vörum þann dag og komi fjárhæð hans til frádráttar. Vanskilin taki til vöruúttekta, sem fram hafi farið frá því um mitt sumar til hausts 2006. Er samanlögð reikningsfjárhæðin, 2.383.513 krónur, við það miðuð að felldur hafi verið niður afsláttur, sem áfrýjandi hefði átt rétt á, ef hann hefði staðið í skilum.
Áfrýjandi hefur neitað að hafa átt þau viðskipti við stefnda, sem krafan í málinu er reist á. Hann heldur því fram að reikningar þeir sem liggi kröfunni til grundvallar tilheyri honum ekki. Hann kveðst hafa átt viðskipti við stefnda með vörur til pípulagningastarfsemi, en þær hafi verið staðgreiddar af hans hálfu.
Ekki liggur fyrir í málinu samningur milli aðila um vöruúttektir og lánsviðskipti þau, sem um ræðir, og áfrýjandi andmælir því að slíkur samningur hafi verið gerður. Leggja verður til grundvallar, eins og fram kemur í skýrslum tveggja starfsmanna stefnda fyrir dómi, að ekki séu til neinar kvittanir áfrýjanda eða annarra fyrir þeim vöruúttektum, sem krafa stefnda er reist á. Stefndi hefur ekki fært fram haldbærar sannanir fyrir því að áfrýjandi eða einhver á hans vegum hafi tekið út þær vörur sem um ræðir. Stefndi hefur heldur ekki upplýst hvenær einstakar úttektir, sem krafa hans í málinu tekur til, hafi átt sér stað. Það stóð stefnda nær að tryggja sér sönnun fyrir því að áfrýjandi hafi tekið út þær vörur, sem um ræðir í málinu. Ráðstafanir til að tryggja slíka sönnun hefðu átt að vera stefnda léttbærar.
Gegn eindregnum andmælum áfrýjanda verður talið að ekki hafi verið færð fram fullnægjandi sönnun fyrir grundvelli kröfu stefnda. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfunni.
Það athugast að stefndi beindi ekki áskorun til áfrýjanda um að fyrirsvarsmaður hans kæmi fyrir dóm til að gefa aðilaskýrslu og dómari kvaddi fyrirsvarsmanninn ekki til skýrslugjafar. Getur því sú staðreynd að fyrirsvarsmaðurinn gaf ekki aðilaskýrslu ekki talist vanræksla sem skýrð verði á þann hátt sem er stefnda hagfelldastur samkvæmt 2. mgr. 50. gr., sbr. 4. mgr. 48. gr. , laga nr. 91/1991.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Seldalur ehf., er sýkn af kröfu stefnda, Byko hf.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. nóvember 2008.
Mál þetta, sem var höfðað 10. desember 2007, var dómtekið 9. september 2008.
Stefnandi er Byko hf., Skemmuvegi 2a, Kópavogi.
Stefndi er VR-lagnir ehf., Pósthólfi 121, Selfossi.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.383.513 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 1. mars 2007 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda í báðum tilvikum.
Aðalkrafa stefnda samkvæmt stefnu var um frávísun málsins frá dómi. Þeirri kröfu hratt dómurinn með úrskurði 23. apríl sl.
I.
Stefnandi lýsir atvikum svo í stefnu að stefndi hafi með samkomulagi við stefnanda tekið út vörur og þjónustu í reikning hjá stefnanda, en stefnandi reki verslun með byggingarvörur og ýmsar heimilisvörur, auk útleigu á vélum og tækjum. Sé krafa stefnanda byggð á framlögðu reikningsyfirliti stefnanda með útgáfudegi 1. mars 2007 og með gjalddaga sama dag. Samanlagt nemi fjárhæðir 2.383.513 krónum, sem sé stefnufjárhæðin. Þá sé gjalddagi í viðskiptum aðila tilgreindur sem útgáfudagur reikninga. Hafi skuld þessi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu kröfunnar.
Stefnandi kveður innheimtu kröfunnar hefa reynst árangurslausa og því sé málssókn nauðsynleg. Styður stefnandi kröfu sína við meginreglur samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til 36. gr. laga nr. 91/1991.
II.
Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóm sem vitni eftirtaldir starfsmenn í verslun stefnanda á Selfossi: Pálmi Jóhannsson, verslunarstjóri, Tinna Rún Ragnarsdóttir gjaldkeri og Davíð Kristjánsson deildarstjóri.
Vitnið Pálmi kvaðst ekki hafa starfað í versluninni er umstefnd viðskipti fóru fram, en honum væri þó kunnugt um þau. Hann kvað viðskiptin við stefnda hafa gengið þannig fyrir sig að stefndi hefði tekið út efni í biðreikninga sem síðan hefði átt að ganga frá og greiða. Aldrei hefði verið gengið frá þessu og því hefðu þessar úttektir verið settar inn á reikning eins og gert var. Reikningarnir hefðu ekki verið gefnir út jafnóðum. Í upphafi viðskipta hefði verið gert ráð fyrir að stefndi nyti afsláttarkjara. Vitnið kvað slíka notkun biðreikninga sjaldgæfa en hún hefði verið nýtt til að bjarga mönnum. Vitnið kvaðst þekkja til stefnda, sem hefði starfað á sviði pípulagna. Vitnið taldi að í viðskiptum aðila hafi bæði verði kvittað fyrir úttektum og þegar vörum var skilað. Hann taldi stefnda ekki hafa fengið kvittanir fyrir hverri úttekt, heldur hefði hann fengið kvittanir er biðreikningar voru gefnir út. Úttektirnar hefðu síðan verið færðar í einu lagi af biðreikningum inn á reikning er greiðslur bárust ekki frá stefnda.
Vitnið Tinna Rún Ragnarsdóttir kvaðst þekkja nokkuð vel til málsins. Hún kvað þetta hafa byrjað að rúlla árið 2005 og að reikningurinn spanni langt tímabil. Um hefði verið að ræða einkennilega viðskiptahætti. Stefndi hefði ekki verið í eiginlegum reikningsviðskiptum. Hann hefði ekki fengið heimild til þess. Viðskiptum stefnda hefði hins vegar verið velt áfram og biðreikningur keyrður. Biðreikningur hefði verið notaður til að bjarga fólki tímabundið. Í slíkum tilvikum hefði þessu verið velt áfram en síðan hefðu menn komið og gert upp. Vitnið kvað færslur vegna úttekta stefnda hafa verið merktar stefnda sérstaklega á biðreikningunum. Fyrst í stað hefði þetta gengið sæmilega og stefndi sett fé inn á reikninginn. Svo hefði þetta farið að dragast og stefndi ekki getað greitt, en hann hefði þó sífellt lofað greiðslum, sem ekki komu. Biðreikningurinn hefði þá að lokum verið tæmdur og uppsafnaðar úttektir stefnda reikningsfærðar á eina nótu. Kvaðst vitnið sjálf hafa sent stefnda reikningana í pósti. Vitnið kvað engar innborganir hafa komið frá stefnda í kjölfarið, en hann hefði hins vegar komið út af reikningunum og verið ósáttur við að fá þá senda, en alltaf sagst ætla að greiða. Þá hefði stefndi kvartað undan því að reikningarnir væru of háir. Honum hefði þá verið sagt að um væri að ræða annað verð en í upphafi hefði verið talað um, en þá hefði hann verið á svonefndum stórpíparataxta og notið afsláttar. Hann hefði misst af afslættinum þar sem hann borgaði ekki. Vitnið kvað þau hafa rætt um hvernig hann gæti borgað þetta. Þá hefði stefndi rætt við aðra deild stefnanda um að láta sumarhúsalóð upp í skuldina. Það hefði ekki gengið eftir. Vitnið kvað viðskiptin á bak við skuld stefnda vera ca eins árs viðskipti. Vitnið kvað venju að kvittað sé fyrir úttektum vöru hjá stefnanda. Í tilviki stefnda hefðu úttektir hans á vörum verið settar inn á tölvukerfið á kennitölu stefnda og ekki kvittað fyrir úttektum. Þetta hefði verið frábrugðið venjulegum viðskiptum. Vitnið kvað engar undirskriftir stefnda vegna viðskiptanna liggja fyrir.
Vitnið Davíð Kristjánsson kvaðst þekkja málið. Hann hefði byrjað störf í verslun stefnanda um áramótin 2005/2006. Stefndi hefði þá verið í viðskiptum í versluninni. Þau viðskipti hefðu mestmegnis farið þannig fram að stefndi tók út efni en geymt hafi verið að gera reikning fyrir úttektinni þar sem þetta hefði átt að gera upp seinna. Fyrirsvarsmaður stefnda, Valgeir, hefði sjálfur tekið vörurnar út. Hann hefði einnig tekið út vörur í nafni annarra. Þetta hefðu verið óvenjuleg viðskipti með biðreikning. Þau hefðu farið þannig fram að settur hafi verið upp biðreikningur í tölvu og svo hefði bæst á þá er efni var aftur tekið út. Þetta hefðu verið margir biðreikningar. Fljótlega hefðu upphæðir í skuld farið að verða það háar að mönnum stóð ekki á sama. Vitnið kvað stefnda ekki hafa verið látinn kvitta fyrir úttektum. Það hefði ekki verið hægt þar sem þetta var í tölvutæku kerfi.
Fyrirsvarsmaður stefnda kom ekki fyrir dóminn til að gefa aðilaskýrslu. Þá voru engin vitni leidd af hálfu stefnda.
III.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann eigi ekki aðild að kröfu stefnanda. Stefndi mótmæli því að hann hafi átt þau viðskipti við stefnanda sem krafist sé greiðslu fyrir. Reyndar sé framsetning kröfugerðar stefnanda þannig að erfitt sé að átta sig á fyrir hverju sé verið að krefjast greiðslu á. Engir reikningar liggi fyrir og ekki sé upplýst hver kvitti fyrir úttektum eða staðfesti móttöku. Þá sé ekkert lagt fram varðandi tilurð skráningar stefnanda á reikningsviðskiptum stefnda. Ljóst sé að til slíkra viðskipta hafi ekki verið til stofnað af hálfu stefnda.
Stefndi byggi á því að umræddir reikningar eða reikningsfærslur tilheyri honum ekki. Stefndi kannist ekki við að hafa átt viðskipti af þeirri gerð sem stefnandi byggi kröfu sína á og því séu reikningarnir jafnframt efnislega rangir og allt of háir, sé litið svo á að þeir kunni að öllu leyti eða einhverju að tilheyra stefnda. Stefnandi beri sönnunarbyrðina um að stefndi hafi keypt þá óskilgreindu vöru sem krafist er greiðslu fyrir. Stefndi mótmæli því að hann sé skuldari þess sem krafist er greiðslu á. Verði því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda sökum aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Varakröfu stefnda um verulega lækkun stefnukrafna styður stefndi sömu rökum og sýknukröfu sína.
Þá er upphafstíma dráttarvaxta samkvæmt kröfugerð mótmælt með þeim rökum að stefndi hafi ekki fengið í hendur neina reikninga frá stefnanda auk þess sem verulegt ósamræmi sé í þeim gögnum sem lögð voru fram við þingfestingu málsins, og þar sé enga skýringu að finna á kröfunni. Það sé því krafa stefnda að vextir verði aldrei dæmdir nema frá uppsögu dóms í máli þessu eða til vara að dráttarvextir reiknist ekki á kröfuna fyrr en einum mánuði eftir þingfestingu, sbr. 3. mgr. 5. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
IV.
Eins og áður getur grundvallast sýknukrafa stefnda á þeirri staðhæfingu hans að þau viðskipti, sem krafist sé greiðslu fyrir hafi ekki átt sér stað á milli málsaðila. Engir reikningar liggi fyrir í tengslum við viðskiptin er upplýsi hver kvitti fyrir úttektum eða staðfesti móttöku. Að auki hafi ekkert verið lagt fram af hálfu stefnanda varðandi tilurð skráningar á reikningsviðskiptum stefnda. Byggir stefndi á því að umræddir reikningar eða reikningsfærslur tilheyri honum ekki enda kannist hann ekki við að hafa átt viðskipti af þeirri gerð sem um ræðir í máli þessu. Reikningarnir séu jafnframt efnislega rangir og allt of háir. Stefnandi beri sönnunarbyrðina um að stefndi hafi keypt þá óskilgreindu vöru sem krafist sé greiðslu fyrir.
Stefnandi hefur auk reikningsyfirlits þess er fylgdi stefnu lagt fram í málinu rafræna sundurliðun hvers reiknings, dskj. 7, sem tilgreindur er á reikningsyfirlitinu á dskj. nr. 3. Kemur þar fram nákvæm sundurliðun á magni og verði úttekinna vara svo og á magni og verði skilaðra vara. Þar koma einnig fram vörunúmer og vöruheiti að baki hverrar úttektar. Þá liggja fyrir afrit tölvubréfssamskipta við lögmann stefnda og má af þeim ráða að stefndi hafi verið búinn að fá þessar sundurliðanir í hendur í desember 2007 áður en greinargerð hans var lögð fram. Má því ætla að stefnda hafi þá verið kunnugt um hvað lá til grundvallar skráningu stefnanda á biðreikningsviðskiptum stefnda.
Þrjú vitni sem hafa starfað hjá stefnanda hafa öll borið um mikil viðskipti stefnda við stefnanda sem hafi verið með þeim hætti að stefndi tók út vörur hjá stefnanda og að úttektirnar hafi verið færðar á biðreikninga undir kennitölu stefnda. Hafi síðan átt að ganga frá þessu með greiðslu síðar. Þetta hafi verið gert til að koma til móts við þarfir stefnda, sem ekki hafi þá átt þess kost að vera í venjulegum reikningsviðskiptum hjá stefnanda. Vitnin bera að skuld stefnda hafi vaxið á biðreikningunum án þess að hann gerði hana upp og hafi hún að lokum verið tekin út af biðreikningum og reikningsfærð í einu lagi. Vitnin Tinna Rún og Davíð, sem voru við störf hjá stefnanda er viðskiptin fóru fram, bera bæði að með þessu biðreikningafyrirkomulagi hafi stefndi hvorki kvittað fyrir móttöku vara né þegar hann skilaði vörum. Kerfið hafi ekki boðið upp á slíkt. Vitnið Tinna ber að fyrirsvarsmaður stefnda hafi komið í verslunina eftir að hún sendi honum reikningana. Hann hefði verið óhress með þá og jafnframt talið þá of háa. Engu að síður hefði hann rætt um greiðslu þeirra. Vitnið kvað fjárhæð reikninganna vera án afsláttarkjara, sem hefðu fallið niður er stefndi gerði viðskiptin ekki upp. Fram kom hjá öllum vitunum að þau þekktu til stefnda og fyrirsvarsmanns hans og báru þau um mikil viðskipti hans.
Með framburði framangreindra vitna svo og með skírskotun til framlagðra gagna telst sannað að stefndi hafi verið í viðskiptum við stefnanda og að úttektir stefnda á vörum hjá stefnanda hafi fyrst um sinn verið færðar á sérstaka biðreikninga og að ekki hafi verið um það að ræða að stefndi kvittaði fyrir hverri úttekt. Er því þeirri málsástæðu stefnda að hann hafi ekki átt viðskipti með þessum hætti við stefnanda vísað á bug. Þrátt fyrir þessa afstöðu stefnda, sem ekki kom fyrir dóminn til að gefa skýrslu um atvik, svo og með hliðsjón af niðurstöðu dómsins um að viðskiptin hafi átt sér stað, verður eins og hér stendur á að byggja á því að stefndi hafi með samkomulagi við stefnanda tekið út þær vörur sem fram koma á hinum rafrænu reikningum sem liggja frammi í málinu og að fjárhæðir þar séu réttar. Samkvæmt því verður hvorki sýknukrafa stefnda né varakrafa hans um lækkun stefnukrafna tekin til greina. Samkvæmt þessu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 2.383.513 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá stefnubirtingardegi 10. desember 2007 til greiðsludags.
Eftir þessum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, VR-lagnir ehf., greiði stefnanda, Byko hf., 2.383.513 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 10. desember 2007 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.