Hæstiréttur íslands

Mál nr. 617/2015

Drómi hf. (Hlynur Jónsson hrl.)
gegn
Þorleifi Jónssyni (Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.)

Lykilorð

  • Dómur
  • Málsástæða
  • Lánssamningur
  • Skuldabréf
  • Fjármálafyrirtæki
  • Gengistrygging
  • Viðbótarkrafa
  • Fullnaðarkvittun
  • Endurgreiðsla ofgreidds fjár
  • Vanlýsing

Reifun

Þ krafði D hf. um endurgreiðslu þess sem hann taldi sig hafa ofgreitt af skuldabréfi sem hann gaf út til SPRON og D hf. tók síðar yfir. Við skuldskeytingu varð S ehf. síðar skuldari bréfsins. Í fyrra máli milli aðila hafði héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu að lánið væri í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Fyrir lá að Þ hafði að mestu leyti staðið skil á greiðslum samkvæmt skuldabréfinu. Þá hafði skiptastjóri þrotabús A ehf., sem áður hét S ehf., staðfest með yfirlýsingu að búið ætti ekki kröfu á hendur D hf. vegna greiðslna af bréfinu, þar sem Þ hafði staðið straum af þeim. Var því talið að Þ hefði öðlast rétt til að hafa upp að fullu endurkröfu á hendur D hf. vegna þess sem hann taldi sig hafa ofgreitt, sbr. 7. og 8. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Deildu aðilar um hvort greiðslur Þ og síðar S ehf. á umsömdum vöxtum á tilteknu tímabili hefðu falið í sér fullnaðargreiðslu eða hvort D hf. gæti haft uppi viðbótarkröfu miðað við vexti eftir 4. gr. laga nr. 38/2001. Talið var að þótt fjárhæð viðbótarkröfunnar væri nokkur þegar litið væri til þess hverjir greiddir vextir voru af bréfinu væri hún á hinn bóginn óveruleg sem hluti af höfuðstól bréfsins. Þá yrði að virða fjárhagslega röskun Þ vegna viðbótarkröfunnar í því ljósi að hann hafði þegar greitt skuldina. Væru því ekki efni til að víkja frá meginreglu kröfuréttar um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu. Var því talið að D hf. gæti teflt fram viðbótarkröfunni gegn kröfu Þ. Þá var talið að greiðslur sem inntar hefðu verið af hendi inn á reikning sem var handveðsettur D hf. samkvæmt skilmálabreytingu sem gerð var á bréfinu hefðu átt að renna til uppgjörs á skuldabréfinu. Af þeim sökum var talið að skuldin hefði ekki verið öll í gjalddaga fallin þannig að reiknaðir yrðu dráttarvextir af henni. Samkvæmt þessu var D hf. gert að endurgreiða Þ nánar tilgreinda fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. september 2015. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að áfrýjanda verði gert að greiða sér annars vegar 15.305.157 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. nóvember 2013 til greiðsludags og hins vegar 1.690.000 krónur með áföllnum innlánsvöxtum og sömu dráttarvöxtum frá 18. desember 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta lýtur að endurkröfu vegna uppgjörs á skuldabréfi 19. nóvember 2007 sem stefndi gaf út til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Með ákvörðun 21. mars 2009 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar sparisjóðsins, vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd eftir 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Samhliða tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun að áfrýjandi yrði stofnaður meðal annars til að taka við öllum eignum sparisjóðsins, þar með talið öllum veðréttindum sem tengdust kröfum hans. Í samræmi við þetta færðist krafa samkvæmt fyrrgreindu skuldabréfi frá sparisjóðnum til áfrýjanda. Að öðru leyti er málsatvikum nægjanlega lýst í hinum áfrýjaða dómi.

II

Stefndi höfðaði upphaflega mál á hendur áfrýjanda, sem þingfest var í héraði 14. nóvember 2013, og krafðist endurgreiðslu á því sem hann taldi sig hafa ofgreitt við uppgjör skuldabréfsins 19. nóvember 2007. Að ósk áfrýjanda var sakarefni málsins skipt samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og fyrst dæmt um hvort lán samkvæmt skuldabréfinu fæli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum og væri verðtryggt þannig að fjárhæðin væri bundin við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Með dómi 30. apríl 2014 var komist að þeirri niðurstöðu að lánið væri í íslenskum krónum með ólögmætri gengisbindingu. Dóminum var ekki áfrýjað en í kjölfar hans var málið fellt niður og mál þetta höfðað.

Í umræddu máli var á því byggt af hálfu áfrýjanda að Skáholt ehf. hefði við skuldskeytingu lánsins 22. júlí 2008 tekið yfir skuldbindingu stefnda, sem hefði verið í erlendri mynt en ekki íslenskum krónum. Samkvæmt því yrði að líta svo á að í öndverðu hefði verið samið um lán í erlendri mynt. Eins og greinir í héraðsdómi ber stefndi því nú við í þessu máli að með skuldskeytingunni sjálfri hafi Skáholt ehf. gengist undir skuldbindingu í erlendri mynt. Ef áfrýjandi hefði teflt fram þessari málsástæðu í fyrra máli aðila og á hana verið fallist hefði hún að réttu lagi leitt til sýknu hans. Með því að láta undir höfuð leggjast að halda málsástæðunni fram í því máli girðir meginregla 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 fyrir að áfrýjandi geti nú reist málatilbúnað sinn á henni, enda gildir sú regla þótt málsástæðan sé höfð uppi í öðru dómsmáli milli sömu aðila. Samkvæmt þessu kemst hún ekki að í málinu.

III

Eins og áður er rakið færðist krafa samkvæmt skuldabréfinu sem stefndi gaf út til áfrýjanda með stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009. Í samræmi við almennar reglur um aðilaskipti, sem hér eiga við, glataði skuldari bréfsins, sem á þeim tíma var Skáholt ehf., eða stefndi sem veðþoli engum rétti til að hafa uppi við síðari kröfuhafa þær mótbárur sem hann hefði getað beint að þeim fyrri. Jafnframt liggur fyrir að ekki var ofgreitt af láninu áður en áfrýjandi tók við því með aðilaskiptunum. Þvert á móti heldur áfrýjandi því fram að hann eigi viðbótarkröfu vegna vangreiddra vaxta á því tímabili. Samkvæmt þessu er haldlaus sú málsástæða áfrýjanda að stefndi hafi fyrir vanlýsingu við slit Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., glatað rétti vegna greiðslna er hann innti af hendi til sparisjóðsins, sem upphaflegur skuldari bréfsins, fyrir skuldskeytinguna 22. júlí 2008.

Í málinu liggur fyrir að stefndi greiddi áfrýjanda vegna skuldabréfsins samtals 57.298.744 krónur á tímabilinu frá 3. apríl til 2. júlí 2013. Þá hefur skiptastjóri þrotabús Abbalá ehf., sem áður hét Skáholt ehf., staðfest með yfirlýsingu 10. desember 2014 að þrotabúið eigi ekki kröfu á hendur áfrýjanda vegna greiðslna af bréfinu, þar sem stefndi hafi staðið straum af þeim. Á þessum grundvelli hefur stefndi öðlast rétt til að hafa uppi að fullu endurkröfu á hendur áfrýjanda vegna þess sem hann telur sig hafa ofgreitt af bréfinu, sbr. 7. og 8. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001.

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi greiddi stefndi og síðan Skáholt ehf. þrettán vaxtagreiðslur af skuldabréfinu þar til gerð var skilmálabreyting á því 9. janúar 2009. Aðilar deila um hvort greiðslur á umsömdum vöxtum á þessu tímabili hafi falið í sér fullnaðargreiðslu eða hvort áfrýjandi geti haft uppi viðbótarkröfu miðað við vexti reiknaða eftir 4. gr. laga nr. 38/2001. Með aðilum er ágreiningslaust að fjárhæð þeirrar viðbótarkröfu nemi 3.873.780 krónum. Þótt fjárhæðin sé nokkur þegar litið er til þess að greiddir vextir af bréfinu voru 2.019.131 króna fram í janúar 2009 er hún á hinn bóginn óveruleg sem hluti af höfuðstól bréfsins eða um 12,9%. Þá verður að virða fjárhagslega röskun stefnda vegna viðbótarkröfunnar í því ljósi að hann hefur greitt skuldina. Að þessu gættu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 16. janúar 2014 í máli nr. 661/2013 eru ekki efni til að víkja frá þeirri meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en honum ber, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Getur áfrýjandi því teflt fram þessari viðbótarkröfu gegn kröfu stefnda um endurgreiðslu.

Með skilmálabreytingu 9. janúar 2009 var greiðslum frestað af skuldabréfinu til 1. júlí 2009 gegn því að inntar væru af hendi mánaðarlegar greiðslur inn á reikning sem settur var áfrýjanda að handveði til tryggingar skuldinni. Samkvæmt skilmálabreytingunni átti að ráðstafa fjármunum af þeim reikningi inn á bréfið áður en greitt yrði af því. Með skilmálabreytingu 8. september 2009 var aftur frestað greiðslum af bréfinu til 1. febrúar 2010, en þá hafði verið greitt inn á umræddan handveðsreikning 1.690.000 krónur. Í ljósi þess að greiðslum af þeim reikningi átti að ráðstafa inn á skuldabréfið og með hliðsjón af atvikum að öðru leyti verður ekki fallist á það með áfrýjanda að skuldin hafi öll fallið í gjalddaga samkvæmt skilmálum bréfsins við greiðslufall þess 1. febrúar 2010. Af því leiðir að ekki er heimilt að reikna dráttarvexti af skuldinni frá þeim degi. Þá hefur áfrýjandi ekki reiknað út dráttarvexti af bréfinu miðað við annað og síðara tímamark til frádráttar á endurkröfu stefnda vegna þeirra greiðslna sem hann innti af hendi.

Að því gættu að leggja verður til grundvallar að greiðslur að fjárhæð 1.690.000 krónur á fyrrgreindum handveðsreikningi áttu að renna til uppgjörs á skuldabréfinu, en innstæða á reikningnum stendur áfrýjanda til reiðu, og með vísan til útreiknings stefnda, sem ekki hefur verið hnekkt, verður áfrýjanda gert að greiða stefnda 12.158.349 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til fyrrgreindrar viðbótarkröfu áfrýjanda vegna greiðslu vaxta af bréfinu fram í janúar 2009. Loks verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um dráttarvexti og málskostnað.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Drómi hf., greiði stefnda, Þorleifi Jónssyni, 12.158.349 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. desember 2013 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. Júní 2015

Mál þetta var þingfest 11. desember 2014 og dómtekið 28. maí sl. að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er Þorleifur Jónsson, Pósthússtræti 12, Reykjavík. Stefndi er Drómi hf., Lágmúla 7, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi greiði stefnanda 17.481.804 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 12.181.804 krónum frá 24. apríl 2013 til 2. júlí 2013, af 17.481.804 krónum frá þeim degi til 14. nóvember 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi greiði stefnanda annars vegar 15.305.157 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001, af 10.005.157 krónum frá 24. apríl 2013 til 2. júlí 2013, af 15.305.157 krónum frá þeim degi til 14. nóvember 2013, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags og hins vegar að stefndi greiði stefnanda 1.690.000 krónur, ásamt áföllnum innlánsvöxtum, með dráttarvöxtum frá 18. desember 2014 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

Málsatvik

                Atvik málsins eru að meginstefnu ágreiningslaus.

Stefnandi tók lán hjá SPRON 19. nóvember 2007 að fjárhæð 30 milljónir með útgáfu skuldabréfs auk þess sem hann undirritaði samtímis tryggingarbréf til sparisjóðsins þar sem fasteignin Naustabryggja 2, Reykjavík, var sett að veði til tryggingar skuldinni. Lánið skyldi upphaflega vera til þriggja ára, með heimild til framlengingar, en með 36 mánaðarlegum vaxtagjalddögum. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2014 í máli nr. E-4630/2013 sem stefnandi höfðaði gegn stefnda var viðurkennt að lánið hefði falið í sér skuldbindingu í íslenskum krónum sem bundin hefði verið gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dóminum var ekki áfrýjað.

Með yfirlýsingu 22. júlí 2008 samþykkti SPRON að Skáholt ehf., síðar nefnt Abbalá ehf., yrði nýr skuldari að láninu, en fyrir liggur að umrætt félag var að fullu í eigu stefnanda. Í skuldskeytingaryfirlýsingunni kemur fram að félagið taki að sér „sem nýr skuldari, greiðslu á skuldabréfi í erlendri mynt“ af stefnanda. Voru eftirstöðvar lánsins einungis tilgreindar í hinum erlendu myntum auk þess sem nánar var kveðið á um mánaðarlegar greiðslur vaxta sem miðuðust við millibankavexti í London (LIBOR) að viðbættu ákveðnu álagi. Segir í stefnu að þar hafi verið um að ræða óbreytt lánakjör frá því sem greindi í skuldabréfinu. Samhliða skuldaraskiptum var gerð sú breyting á fyrrgreindu tryggingarbréfi að það skyldi ná „eingöngu til trygginga hvers kyns skulda Skáholts ehf.“. Í framhaldi af skuldaraskiptum undirritaði stefnandi einnig, að kröfu SPRON, handveðsyfirlýsingu 30. september 2008 vegna bankareiknings í íslenskum krónum hjá SPRON til tryggingar á skuldum Skáholts ehf. Kemur fram í stefnu að innistæða á reikningnum hafi numið 30 milljónum króna.

Ágreiningslaust er að stefnandi stóð í skilum með afborganir sem fólust einungis í greiðslu vaxta af skuldabréfinu á þeim tíma sem hann var skuldari þess og nýr skuldari, Skáholt ehf., stóð í skilum með þessar greiðslur fram að skilmálabreytingu sem var gerð á láninu 9. janúar 2009. Þar var meðal annars kveðið á um frestun á afborgunum höfuðstóls og vaxta til 1. ágúst þess árs. Á meðan á frestun afborgana stóð skyldi skuldari hins vegar greiða 140 þúsund krónur mánaðarlega inn á reikning félagsins sem skyldi handveðsettur til tryggingar skuldabréfinu. Í skilmálabreytingunni sagði að áður en fyrsti gjalddagi afborgunar væri reiknaður skyldi innistæðu á ofangreindum reikningi ráðstafað sem greiðslu inn á skuldina án umframgreiðslugjalds. Þá sagði að ef kæmi til gjaldfellingar skuldarinnar vegna vanefnda skuldara skyldi innistæðu á hinum handveðsetta reikningi ráðstafað inn á skuldina án sérstakrar tilkynningar. Skilmálabreyting var gerð að nýju 8. september sama ár þar sem mælt var fyrir um áframhaldandi frestun greiðslna til 1. febrúar 2010, þó þannig að skuldari skyldi greiða 170 þúsund krónur mánaðarlega inn á hinn handveðsetta reikning.

Ágreiningslaust er að Skáholt ehf. greiddi samtals 1.690.000 krónur inn á handveðsettan reikning sinn frá 3. febrúar 2009 til 7. janúar 2010, þ.e. á því tímabili sem samið hafði verið um frestun á greiðslum. Greinir aðila á um hvort hér var um að ræða greiðslur sem ráðstafa bar inn á lánið eða ekki. Af hálfu stefnda er vísað til þess að umræddur háttur hafi verið hafður á þar sem skuldari hafi vonast eftir því að gengisþróun yrði honum hagstæð á tímabilinu. Einnig er á það bent af hálfu stefnda að við síðari skilmálabreytingu aðila hafi ekki verið samið um fastar greiðslur inn á handveðsettan reikning Skáholts ehf. þótt sú hafi orðið raunin.

Í greinargerð stefnda kemur fram að Skáholt ehf. hafi ekki staðið við greiðslu af láninu 1. febrúar 2010 og hafi skuldin þar með öll fallið í gjalddaga. Við munnlegan flutning málsins kom fram af hálfu lögmanns stefnda að engin tilkynning hefði verið send af þessu tilefni, enda hefði gjaldfelling verið heimil án sérstaks fyrirvara eða tilkynningar.

Stefnandi fékk þrívegis, hinn 6. maí, 29. júlí og 7. október 2011, greiddar 5 milljónir króna af handveðsettum reikningi sínum eða alls 15 milljónir króna. Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2011 var Skáholt ehf. úrskurðað gjaldþrota.

                Hinn 10. janúar 2012 gaf stefndi, sem þá hafði tekið við réttindum og skyldum SPRON samkvæmt skuldabréfinu, út endurútreikning á umræddu láni og reiknaði það upp eins og það hefði verið ógengistryggt lán með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Í bréfi sem fylgdi endurútreikningnum kom fram fyrirvari stefnda um réttmæti endurútreikningsins og áskilnaður um að afturkalla hann og eftir atvikum birta nýjan. Stefnandi mótmælti endurútreikningi stefnda og krafðist nýs endurútreiknings, að því er virðist með vísan til sjónarmiða um fullnaðarkvittanir, og urðu nokkur samskipti með aðilum í framhaldi af því, einkum með tölvupósti. Er á því byggt í stefnu að stefndi hafi í þessum samskiptum gefið stefnanda til kynna að unnið væri að nýjum endurútreikningi.

Í stefnu er lýst tildrögum að sölu fasteignarinnar að Naustabryggju 2 frá og með desember 2012 sem stefnandi kveðst hafa neyðst til að selja í því skyni að greiða af láninu. Telur hann ljóst að um hafi verið að ræða veruleg umframverðmæti í fasteigninni miðað við stöðu lánsins, jafnvel þótt miðað væri við upphaflegan endurreikning stefnda, sem augljóslega var þó rangur. Er í stefnu vísað til yfirlits yfir stöðu lánsins sem sent var fasteignasölu sem annaðist sölu eignarinnar. Stefndi gaf út yfirlýsingu 8. mars 2013 þess efnis að þegar kaupverð fasteignarinnar hefði verið greitt, að frádregnum sölulaunum inn á lánið myndi hann aflýsa tryggingarbréfi á 1. veðrétti fasteignarinnar. Stefndi gaf einnig út veðleyfi 12. mars 2013 fyrir lánum frá Landsbankanum hf. að fjárhæð 29.200.000 krónur með sama skilyrði.

Í stefnu er því lýst að í framhaldi af sölu fasteignarinnar hafi stefnandi látið endurreikna lánið að eigin frumkvæði. Endurreikningurinn hafi gefið til kynna, að uppgreiðsluverðmæti lánsins væri verulega lægra en söluverð fasteignarinnar. Í framhaldi af þessu óskaði stefnandi eftir endurútreikningi lánsins við stefnda. Með bréfi 27. mars 2013 hafnaði stefndi öllum kröfum stefnanda. Í bréfinu kom fram sú breytta afstaða stefnda til lánsins að það væri í erlendum myntum og að eftirstöðvar þess væru 107.476.624 krónur.

Með greiðslum vegna sölu fyrrgreindrar fasteignar var 2.146.000 krónum og 27.997.135 krónum ráðstafað inn á lánið 3. og 24. apríl 2013. Síðargreinda daginn voru einnig 21.855.609 krónur greiddar inn á lánið af handveðsettum reikningi stefnanda. Þannig voru 49.852.744 krónur greiddar inn á lánið 24. apríl 2013 og alls 51.998.744 krónur frá 3. sama mánaðar. Hinn 2. júlí 2013 voru 5.300.000 krónur greiddar inn á lánið í samræmi við uppgjör vegna afsals eignarinnar. Samtals voru því 57.298.744 krónurgreiddar inn á lánið frá 3. apríl 2013 til 2. júlí sama ár.

Í málinu liggur fyrir fyrir yfirlýsing skiptastjóra þrotabús Skáholts ehf. (síðar Abbalá ehf.) þar sem því er lýst yfir að þrotabúið falli frá öllum kröfum sem það kunni að eiga á hendur stefnda vegna lánsins en heimili jafnframt stefnanda að höfða mál þetta til innheimtu kröfunnar, enda liggi fyrir að stefnandi hafi sjálfur staðið straum af öllum greiðslum vegna lánasamningsins og því sé ljóst að krafa á hendur stefnda vegna ofgreiðslu tilheyri stefnanda. Er í yfirlýsingunni vísað til 8. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 6. og 7. mgr. greinarinnar.

                Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að skuldbinding samkvæmt hinu umdeilda skuldabréfi varði lánsfé í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, en ekki lánsfé í erlendum myntum og sé því í andstöðu við ákvæði 13., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001. Vísar hann þessu til stuðings til þess að fyrir liggi bindandi dómur héraðsdóms um lánið.

Stefnandi byggir einnig á því að hver einasta afborgun hans af höfuðstól og vöxtum lánsins sem stefndi (áður SPRON) veitti athugasemdalaust viðtöku, hafi falið í sér fullnaðargreiðslu hverrar afborgunar, með tilheyrandi lækkun á höfuðstól og að stefnandi verði ekki krafinn um frekari greiðslur vegna þeirra síðar. Rökstyður stefnandi að öllum skilyrðum fyrir því að hann geti borið fyrir sig fullnaðarkvittanir sé fullnægt. Vísar hann þessu til stuðnings til fordæma Hæstaréttar um gildi fullnaðarkvittana og hvernig beri að haga endurútreikningi lána sem bundin eru ólögmætri gengistryggingu. Þá vísar stefnandi til 5. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010, sbr. 18. gr. laga nr. 38/2001, en í þessu felist að hafi skuldari ofgreitt ólögmætt gengistryggt lán beri lánardrottni að endurgreiða þá fjárhæð sem upp á vantar, sbr. 6. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Stefnandi hafi greitt umtalsverða fjárhæð umfram skyldu í samræmi við hina ólögmætu gengistryggingu lánsins og eigi rétt til endurgreiðslu.

Að því er varðar fjárhæð endurgreiðslukröfunnar miðar stefnandi við að höfuðstóll lánsins hafi ekki tekið breytingum á lánstímanum til samræmis við hina ólögmætu gengistryggingu. Að mati stefnanda ber auk þess að miða við þá vexti sem stefndi lagði við höfuðstól lánsins á lánstímanum og rukkaði stefnanda um, en þeir vextir voru greiddir upp og mótteknir af hálfu stefnda án athugasemda um fjárhæð þeirra, þar til lánið var að fullu uppgert af hálfu stefnanda. Allar greiðslur stefnanda eftir þann tíma teljist hins vegar vera ofgreiðslur stefnanda. Stefnandi telur að með greiðslu samtals að fjárhæð 49.852.744 krónur 24. apríl 2013 hafi lánasamningurinn að fullu verið uppgerður, enda hafi höfuðstóll lánsins þá verið greiddur upp að fullu og allar greiðslur sem stefnandi greiddi umfram það, á þeim tíma og síðar, teljist því ofgreiðslur.

                Stefnandi vísar til þess að 24. apríl 2013 hafi alls 58.988.744 krónur verið greiddar vegna lánsins. Nánar tiltekið hafi stefnandi á árinu 2009 innt af hendi alls sex greiðslur, hverja að fjárhæð 140.000 krónur, inn á handveðsettan reikning og fimm greiðslur, hverja að fjárhæð 170.000 krónur, inn á sama reikning eða samtals 1.690.000 krónur. Þá hafi stefnandi greitt inn á lánið 2.146.000 hinn 3. apríl 2013, 49.852.744 krónur 24. apríl 2013 og 5.300.000 krónur 2. júlí 2013. Miðast kröfugerð stefnanda í aðalkröfu við að í þeim greiðslum sem inntar voru af hendi inn á hinn handveðsetta reikning hafi falist greiðsla inn á lánið.

Aðalkrafa stefnanda miðast við, að þær greiðslur sem hann innti af hendi til stefnda vegna lánsins beri almenna seðlabankavexti samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001 frá greiðsludegi fram að þeim tíma þegar lánið telst að fullu uppgert þann 24. apríl 2013 og að þær greiðslur komi til frádráttar höfuðstól lánsins sem reiknast að viðbættum almennum seðlabankavöxtum með sama hætti frá 1. janúar 2009 til 24. apríl 2013. Samkvæmt þessu hafi stefnandi 24. apríl 2013 ofgreitt 12.181.804 krónur og alls 17.481.804 krónur eftir greiðslu þann 2. júlí 2013. 

Við þá fjárhæð sem stefnandi teljist hafa ofgreitt leggist vextir samkvæmt 1. mgr. 8. gr., sbr 4. gr., laga nr. 38/2001 fyrst frá þeim degi þegar lánið taldist að fullu uppgert þann 24. apríl 2013 í samræmi við greiðslusögu lánsins, sbr. að framan, þ.e. 12.181.804 krónur til 2. júlí 2013 og af 17.481.804 krónum frá þeim degi. Dráttarvaxtakrafa stefnanda sé sett fram með stoð í 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. málslið 9. gr., laga nr. 38/2001, en krafa um dráttarvexti miðist við þingfestingu fyrra máls stefnanda á hendur stefnda.

Varakrafa stefnanda byggist á því að ekki verði litið á greiðslur stefnanda að fjárhæð 1.690.000 krónur inn á handveðsettan reikning sem greiðslur inn á lánið sem komi þar af leiðandi ekki til frádráttar við endurreikning lánsins. Með greiðslu stefnanda að fjárhæð 49.852.744 krónur 24. apríl 2013 hafi lánasamningurinn engu að síður verið að fullu uppgerður en ofgreiðsla þá numið 10.005.157 krónum og alls 15.305.157 krónum eftir greiðslu 2. júlí 2013. Krafa stefnanda um vexti og dráttarvexti í þessum kröfulið byggist á sambærlegum rökum og aðalkrafa hans. Annar töluliður varakröfu byggist á því að stefnandi hafi greitt umrædda fjármuni inn á hinn handveðsetta reikning sem tilheyri honum enda eigi stefndi engar frekari kröfur gegn stefnanda og sé því óheimilt að ganga að þessu fé.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi eigi enga kröfu gegn stefnda. Í fyrsta lagi fái útreikningur kröfu hans ekki staðist. Haga beri uppgjöri sjálfstætt gagnvart hverjum skuldara samkvæmt 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Við skuldaraskipti 22. júlí 2008 hafi lánið staðið í 41.061.806 krónum og nýr skuldari tekið að sér lán að þeirri fjárhæð. Krafa um leiðréttingu vegna tímabilsins fram að þessum degi tilheyri fyrri skuldara, þ.e. stefnanda. Þar sem SPRON hafi verið tekið til slitameðferðar hafi stefnandi þurft að lýsa kröfu sinni vegna þessa tímabils. Krafa hans sé því fallin niður fyrir vanlýsingu. Eigi hann því ekki frekari kröfu en hann geti leitt af rétti síðari skuldara eða eftir atvikum sem veðþoli. Í hvoru tilvikinu sem er sé ekki um ofgreiðslu að ræða.

                Stefndi telur að skilyrði fullnaðarkvittana séu ekki uppfyllt um kröfu stefnanda. Er því þannig mótmælt að höfuðstóll lánsins 1. janúar 2009 hafi verið 30 milljónir, svo sem stefnandi byggi á. Telur stefndi að bæði skorti á að skilyrði um festu í framkvæmd greiðslna sé fullnægt og skilyrði um fjárhæð viðbótarkröfu. Vísar hann til þess að einungis hafi verið um að ræða 13 greiðslur og nemi viðbótarkrafa miðað við vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 einungis 13,438% af upphaflegum höfustól.

                Hvað sem líður framangreindum vörnum mótmælir stefndi því að stefnandi geti talið mánaðarlegar greiðslur inn á handveðsettan reikning Skáholts ehf. sem innborganir inn á lánið og vaxtareiknað þær samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Þessum fjármunum hafi aldrei verið ráðstafað til greiðslu lánsins og séu þeir ennþá inni á reikningi félagsins. Þá er því mótmælt að stefnda beri skylda til þess að greiða stefnanda þessa fjármuni, svo sem gert sé ráð fyrir í varakröfu, enda sé um að ræða fé Skáholts ehf. sem nú hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og sé á forræði skiptastjóra.

                Stefndi byggir á því að reikna beri lánið með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá útgáfudegi skuldabréfsins í nóvember 2007 til gjaldfellingar 1. febrúar 2010, en frá þeim degi beri það dráttarvexti. Miðað við þetta nemi staða lánsins 2. febrúar 2015 637.130 krónum. Sé þessu hafnað telur stefndi að reikna beri lánið samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 ótiltekið og hafi uppgreiðsluvirði lánsins því einungis verið 10.130.043 krónur lægra en greitt var. Sú ofgreiðsla eigi ekki að bera vexti. Er kröfu stefnanda um vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 því mótmælt. Þá er dráttarvaxtakröfu stefnanda einnig mótmælt, þar með talið tilvísun hans til fyrra dómsmáls aðila.

Niðurstaða

                Svo sem áður greinir liggur fyrir dómur héraðsdóms 30. apríl 2014 þar sem viðurkennt var að það lán sem hér um ræðir hafi falið í sér skuldbindingu í íslenskum krónum sem bundin var gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Við munnlegan flutning málsins var því hreyft af hálfu stefnda að líta bæri svo á að við skuldaraskiptin 22. júlí 2007 hafi Skáholt ehf. tekið yfir lögmæta skuldbindingu í erlendri mynt. Að mati dómsins er þó ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að nýr skuldari hafi talið sig taka yfir aðrar og ríkari skyldur að þessu leyti en upphaflegur skuldari. Þá liggur fyrir að ekki var um það að ræða að erlendar myntir skiptu um hendur eftir skuldskeytinguna fremur en fyrir hana. Verður því að leggja til grundvallar að umrætt lán hafi frá upphafi til enda verið bundið ólögmætri gengistryggingu.

                Samkvæmt 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, á hver skuldari sjálfstæðan rétt gagnvart lánveitanda við þær aðstæður að skuldaraskipti hafa orðið á láni sem bundið er ólögmætri gengistryggingu. Í málinu er því ekki mótmælt að það var stefnandi sem innti að langmestu leyti sjálfur af hendi þær greiðslur inn á lánið sem áður greinir. Verður því ekki séð að Skáholt ehf. hafi sjálft ofgreitt af láninu þannig að félagið hafi öðlast rétt gagnvart lánveitanda til endurgreiðslu samkvæmt ákvæðum 18. gr. laga nr. 38/2001.

                Þegar stefnandi innti af hendi greiðslur sínar í apríl 2013 höfðu tekið gildi fyrrnefnd lög nr. 151/2010 sem fólu í sér reglur um meðferð og endurútreikning gengistryggðra lána, sbr. einkum áðurnefnda 18. gr. laganna. Af áður tilvitnaðri 7. mgr. 18. gr. laganna varð dregin sú ályktun að fyrri skuldari láns, sem bundið var ólögmætri gengistryggingu, kynni að eiga sjálfstæðan rétt til endurútreiknings og greiðslna á grundvelli hans. Af 8. mgr. greinarinnar leiddi að sá sem hafði í reynd innt af hendi greiðslur af láni gat einnig átt slíkan sjálfstæðan rétt gagnvart lánveitanda, enda sannaði hann rétt sinn. Stefnda, sem þá hafði eignast lánið, mátti vera ljóst að stefnandi var bæði upprunalegur skuldari, veðþoli vegna lánsins og hafði að mestu leyti sjálfur greitt af láninu. Átti stefnandi þannig bæði rétt til endurútreiknings gagnvart stefnda sem skuldari lánsins auk endurgreiðslu þess sem hann hafði ofgreitt samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og rétt sem raunverulegur greiðandi lánsins, sbr. 8. mgr. sömu greinar.

Af fyrrnefndum lögum nr. 151/2010 mátti stefnda vera ljóst að þeim lánum sem hann hafði fengið framseld frá SPRON kynnu að fylgja skyldur til endurútreiknings gagnvart fyrri skuldurum svo og uppgjör við þá. Af hálfu stefnanda hefur þess ekki verið krafist að það tímabil, þegar hann var formlegur skuldari, komi til sérstaks uppgjörs þannig að hann teljist eiga sjálfstæða fjárkröfu á hendur stefnda. Þess í stað krefst hann þess að allar ofgreiðslur séu færðar til lækkunar á höfuðstól lánsins, sbr. lokaorð 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Eins og atvikum málsins og stöðu stefnanda er háttað er það álit dómsins að honum sé þetta heimilt. Bar stefnanda því engin skylda til þess að hafa uppi sjálfstæða kröfu um endurgreiðslu, hvorki gagnvart SPRON né stefnda. Leiðir af þessu að ekki verður heldur litið svo á að stefnanda hafi borið nauðsyn til að beina sjálfstæðri kröfu að SPRON að viðlagðri vanlýsingu.

                Í málinu liggur fyrir að stefnandi og síðar Skáholt ehf. greiddu skilvíslega vexti af láninu til gjalddaga 1. febrúar 2009. Um var að ræða alls 13 greiðslur og telur stefndi að viðbótarkrafa hans um vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 nemi rúmlega 13% af höfuðstól lánsins. Þegar höfð eru til hliðsjónar þau viðmið sem lögð hafa verið til grundvallar í dómaframkvæmd um mat á fullnaðarkvittunum vegna greiðslu vaxta af gengistryggðum lánum telur dómurinn ljóst að stefndi eigi ekki kröfu um frekari vexti vegna þessa tímabils. Verður því að leggja til grundvallar að höfuðstóll lánsins 1. febrúar 2009 hafi numið 30 milljónum svo sem málatilbúnaður stefnanda byggist á.

                Svo sem áður greinir var greiðslum af láninu frestað með skilmálabreytingu 9. janúar 2009 og enn á ný með skilmálabreytingu 8. september þess árs sem rann sitt skeið 1. febrúar 2010. Er því haldið fram af stefnda að á þeim degi hafi ekki verið greitt af láninu og lánið þar með fallið í gjalddaga. Dómurinn lítur til þess að á þessum tíma hafði skuldari lánsins, Skáholt ehf., greitt þær mánaðarlegar greiðslur inn á handveðsettan reikning félagsins sem áður er lýst. Auk þess hafði stefnandi málsins sett að handveði fjármuni sem augljóslega nægðu til afborgana af láninu. Fór ekki á milli mála að stefnda var heimilt, hvenær sem er, að taka sér greiðslu af þessum handveðsettu fjármunum til greiðslu afborgana lánsins. Braut það því berlega gegn skyldum stefnda sem lánveitanda í gagnkvæmu skuldasambandi að tilkynna ekki skuldara og veðþola sérstaklega að litið væri svo á að lánið væri allt gjaldfellt þrátt fyrir að lánveitanda væru þessir fjármunir til reiðu. Er af þessum sökum ekki unnt að leggja til grundvallar að lánið hafi gjaldfallið á umræddum degi eða að stefndi geti reiknað sér dráttarvexti frá og með þessu tímamarki við uppgjör lánsins. Þá verður ekki séð að stefndi hafi við síðara tímamark gert reka að því að reikna út stöðu lánsins eða krafið um uppgjör þess þannig að hann eigi rétt á dráttarvöxtum vegna einhvers tímabils fram að því að það var greitt upp.

Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að við þær aðstæður sem voru uppi hafi borið að ráðstafa því fé sem var að finna á handveðsettum reikningi skuldara lánsins, Skáholts ehf., til greiðslu þeirra afborgana. Er því hafnað málsástæðu stefnda að líta beri svo á að þær 1.690.000 krónur, sem Skáholt ehf. greiddi meðan á frestun greiðslna stóð, eigi ekki að renna til uppgjörs lánsins.

Samkvæmt þessu er ljóst að með greiðslum sínum 24. apríl 2013 greiddi stefnandi téð lán upp og innti um leið af hendi umtalsverða ofgreiðslu sem hann á rétt á að fá endurgreidda samkvæmt ákvæðum 5. og 8. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Að fenginni þessari niðurstöðu hafa ekki komið fram, af hálfu stefnda, rökstudd andmæli við tölulegri framsetningu stefnanda eða verið rökstutt að ofgreiðsla stefnanda hafi numið lægri fjárhæð. Eins og málið liggur fyrir verður töluleg greinargerð stefnanda því að fullu lögð til grundvallar.

Líta verður svo á að krafa stefnanda byggist á reglum um endurgreiðslu ofgreidds fjár og er því hvorki skaðabótakrafa né verður grundvelli hennar að öllu leyti jafnað til þeirra aðstæðna sem uppi eru þegar bótaskylt atvik á sér stað og afleiðingar þess liggja ekki að öllu leyti fyrir. Að þessu virtu, svo og með vísan til dóms Hæstaréttar 30. janúar 2014 í máli nr. 544/2013, verður kröfu stefnanda um vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 hafnað. Hins vegar verður á það fallist að með höfðun þess dómsmáls, sem áður greinir, hafi stefnandi sannanlega krafið stefnda með réttu um greiðslu. Ekki er fram komið hvenær umrætt mál var höfðað og verður því fallist á kröfu um dráttarvexti mánuði eftir þingfestingardag, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn, að teknu tilliti til umfangs og aðdraganda málsins, 1.500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Þórhallur H. Þorvaldsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Hlynur Jónsson hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Drómi hf., greiði stefnanda, Þorleifi Jónssyni, 17.481.804 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. desember 2013 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.