Hæstiréttur íslands
Mál nr. 379/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Sakarefni
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 2. september 2002. |
|
Nr. 379/2002. |
Höfin sjö ehf. (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Guðfinni Pálssyni og Fasteignafélaginu Rán ehf. (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Sakarefni. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
H ehf. var hæstbjóðandi við nauðungarsölu á fiskverkunarhúsi. Átti H ehf. að greiða sýslumanni fjórðung söluverðsins til að boðið teldist samþykkt. Áður en til þess kom framseldi stjórnarformaður H ehf. boðið til G. Í kjölfarið innti G af hendi greiðsluna til sýslumanns sem samþykkti boðið. Á fundi stjórnar H ehf. var stjórnarformanninum bent á að atbeina tveggja stjórnarmanna væri þörf til að skuldbinda félagið. Leitaði H ehf. af þessu tilefni úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns en málinu var vísað frá þar sem krafan var of seint fram komin. Höfðaði H ehf. þá mál á hendur G og krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi ógildi framsals stjórnarformannsins til G. Brást hinn síðarnefndi við málsókninni með því að framselja boðið til F ehf. sem greiddi sýslumanni eftirstöðvar söluverðs fasteignarinnar og fékk gefið út afsal fyrir henni. H ehf. höfðaði þá sakaukasök á hendur F ehf. og krafðist þess að félaginu yrði gert að gefa sér afsal fyrir fasteigninni gegn nánar tiltekinni greiðslu. Héraðsdómari vísaði málinu frá. Hæstiréttur hafnaði því að ákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála stæði í vegi fyrir sakaukasök H ehf. á hendur F ehf. Þá yrði að telja H ehf. hafa lögvarða hagsmuni um kröfu sína á hendur G, enda þótt félaginu kynni að vera nægilegt að gera efni þessarar dómkröfu að málsástæðu í sakaukasök sinni á hendur F ehf. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 24. júlí 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað.
I.
Samkvæmt gögnum málsins var á fundi stjórnar sóknaraðila 25. nóvember 2001 tekin ákvörðun um að heimila formanni hennar að gera tilboð í nafni félagsins allt að tiltekinni fjárhæð við nauðungarsölu á fasteign, sem auðkennd er í málinu sem „Fiskverkunarhús við Patrekshöfn, nyrðri lóð ehl. II“ á Patreksfirði. Neytti formaðurinn þessarar heimildar við uppboð 27. sama mánaðar, þar sem sóknaraðili varð hæstbjóðandi með boð að fjárhæð 11.000.000 krónur. Mun sóknaraðila hafa borið samkvæmt uppboðsskilmálum að greiða fjórðung söluverðsins 18. desember 2001 til að boðið teldist samþykkt. Í málatilbúnaði hans greinir frá því að hann hafi orðið að leita til sýslumannsins á Patreksfirði um greiðslufrest, sem hafi verið veittur til 19. sama mánaðar.
Stjórnarformaður sóknaraðila gerði í nafni hans skriflegt samkomulag 19. desember 2001 við varnaraðilann Guðfinn Pálsson, þar sem kveðið var á um að sóknaraðili framseldi fyrrgreint boð sitt til varnaraðilans gegn nánar tilgreindri greiðslu, auk þess sem sóknaraðila var áskilin heimild til að taka tiltekna lausafjármuni, sem geymdir væru í hinu selda fiskverkunarhúsi. Samhliða þessu gerðu sömu menn sérstaka yfirlýsingu um framsal sóknaraðila á boðinu til varnaraðilans. Mun varnaraðilinn hafa síðan 20. sama mánaðar innt af hendi greiðslu til sýslumanns í samræmi við uppboðsskilmála og boðið þar með talist samþykkt.
Stjórn sóknaraðila kom saman til fundar 20. desember 2001, þar sem formaður hennar kynnti framangreindar ráðstafanir. Samkvæmt fundargerð var formanninum þá bent á að mælt væri svo fyrir í samþykktum félagsins að atbeina tveggja stjórnarmanna væri þörf til að skuldbinda það. Af því tilefni kvaðst formaðurinn ekki hafa leitað samþykkis neins annars stjórnarmanns fyrir ráðstöfunum sínum. Að þessu fram komnu samþykkti stjórnin að hafna framsali formannsins á boði félagsins við áðurgreinda nauðungarsölu. Í framhaldi af þessu tilkynnti lögmaður sóknaraðila varnaraðilanum Guðfinni um samþykkt stjórnarinnar með bréfi 21. desember 2001. Kveður sóknaraðili þetta jafnframt hafa verið tilkynnt sýslumanni, auk þess sem honum hafi verið send greiðsla á því, sem sóknaraðila bar að inna af hendi samkvæmt boði sínu við nauðungarsöluna.
Með bréfi 23. janúar 2002 leitaði sóknaraðili úrlausnar Héraðsdóms Vestfjarða um þá kröfu að ógilt yrði ákvörðun sýslumannsins á Patreksfirði 20. desember 2001 um að taka gilt framsal á boði sóknaraðila til varnaraðilans Guðfinns, svo og að lagt yrði fyrir sýslumann að samþykkja boð sóknaraðila. Aðilana greinir ekki á um að því máli hafi verið vísað frá héraðsdómi á þeirri forsendu að sóknaraðili hafi ekki borið fram kröfu sína innan frests, sem mælt er fyrir um í ákvæðum laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta 31. janúar 2002 á hendur varnaraðilanum Guðfinni og krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi ógildi framsals stjórnarformanns sóknaraðila á boði hæstbjóðanda við fyrrgreinda nauðungarsölu. Var málið þingfest fyrir Héraðsdómi Vestfjarða 13. febrúar 2002.
Í málinu liggur fyrir yfirlýsing varnaraðilans Guðfinns 28. febrúar 2002, þar sem hann framseldi umrætt boð við nauðungarsölu til varnaraðilans Fasteignafélagsins Ránar ehf. Verður ráðið af gögnum málsins að síðastnefndur varnaraðili hafi sama dag greitt sýslumanni eftirstöðvar söluverðs eignarinnar og honum þá verið gefið út afsal fyrir henni, sem einnig var þinglýst sama dag. Sóknaraðili kveður sýslumann hafa endursent sér áðurnefnda greiðslu samhliða þessu.
Sóknaraðili höfðaði sakaukasök í málinu með stefnu 11. mars 2002, sem þingfest var 10. næsta mánaðar. Með henni beindi sóknaraðili þeirri kröfu að varnaraðilanum Fasteignafélaginu Rán ehf. að félaginu yrði gert að gefa út til sóknaraðila afsal fyrir fasteigninni Fiskverkunarhús við Patrekshöfn, nyðri lóð ehl. II, gegn greiðslu á 11.000.000 krónum „auk innlánsvaxta“.
Fyrir héraðsdómi kröfðust báðir varnaraðilar þess að málinu yrði vísað frá dómi. Héraðsdómari féllst á þá kröfu með hinum kærða úrskurði.
II.
Í málinu gerir sóknaraðili sem fyrr segir þá kröfu á hendur varnaraðilanum Fasteignafélaginu Rán ehf. að félagið verði dæmt til að gefa út afsal til sín fyrir fasteigninni, sem ágreiningur aðilanna stendur um, gegn greiðslu á 11.000.000 krónum. Slíka kröfu gat sóknaraðili ekki gert í máli, sem rekið yrði í tengslum við fyrrgreinda nauðungarsölu samkvæmt reglum 4. þáttar laga nr. 90/1991, og var henni heldur ekki hreyft í því máli, sem hann lagði fyrir Héraðsdóm Vestfjarða 23. janúar 2002 og áður er getið. Þegar af þeirri ástæðu getur ákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 ekki staðið því í vegi að sóknaraðili beini þessari kröfu að varnaraðilanum Fasteignafélaginu Rán ehf. í almennu einkamáli, en engu breytir í því efni að sóknaraðili styðji hana við málsástæðu, sem lýtur að réttmæti gerða sýslumannsins á Patreksfirði við umrædda nauðungarsölu.
Eins og áður greinir höfðaði sóknaraðili frumsök í máli þessu á hendur varnaraðilanum Guðfinni 31. janúar 2002. Á þeim tíma hafði sýslumaður ekki gefið út afsal fyrir fasteigninni, sem deilt er um. Verður heldur ekki ráðið af gögnum málsins hvort sýslumaður hafi á því tímamarki verið búinn að láta í ljós afstöðu til þess ágreinings, sem kominn var upp milli sóknaraðila og varnaraðilans Guðfinns um hvor þeirra væri með réttu kaupandi eignarinnar við nauðungarsöluna. Að því virtu hafði sóknaraðili lögvarða hagsmuni af því að leita dóms á hendur þessum varnaraðila um gildi framsalsins á boði sínu. Þótt atvik hafi eftir þetta þróast á þann veg að sóknaraðila kynni nú að vera nægilegt að gera efni þessarar dómkröfu að málsástæðu í sakaukasök sinni á hendur varnaraðilanum Fasteignafélaginu Rán ehf., gefur það í ljósi framangreinds ekki nægilegt tilefni til að vísa frá dómi kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilanum Guðfinni.
Samkvæmt framangreindu eru ekki efni til að vísa máli þessu frá héraðsdómi. Verður því lagt fyrir héraðsdómara að taka það til efnismeðferðar.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður óraskað. Sóknaraðili hefur ekki krafist kærumálskostnaðar og verður hann því ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 24. júlí 2002.
Kröfur stefndu um frávísun þessa máls voru teknar til úrskurðar hinn 26. júní sl. Það höfðaði Höfin sjö ehf., Laugavegi 97, Reykjavík hinn 31. janúar sl., með stefnu á hendur Guðfinni Pálssyni, Aðalstræti 118a, Patreksfirði og hinn 10. apríl sl. með framhalds- og sakaukastefnu á hendur stefnda Guðfinni og Fasteignafélaginu Rán ehf., Aðalstræti 52, Patreksfirði.
Stefndu krefjast þess að málinu verði vísað frá dómi og stefndu úrskurðaður málskostnaður úr hendi stefnanda. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfum stefndu verði hrundið.
I.
Hinn 27. nóvember sl. var Fiskverkunarhús við Patrekshöfn, nyrðri lóð ehl. II, Patreksfirði, seld nauðungarsölu á uppboði. Stefnandi var hæstbjóðandi. Átti að inna hluta söluverðsins af hendi hinn 18. desember, en stefnandi kveðst ekki hafa getað greitt fyrr en hinn 20. og hafa óskað eftir viðbótarfresti í bréfi til sýslumanns, en hann hafi skýrt fyrirsvarsmanni stefnanda frá því að greiðsla yrði að berast á skrifstofutíma hinn 19. desember, en ella yrði boði næstbjóðanda tekið. Hinn 19. desember sl. framseldi stjórnarformaður stefnanda réttindi stefnanda samkvæmt boðinu til stefnda Guðfinns. Var boðið samþykkt hinn 20. desember sl., eftir að stefndi Guðfinnur hafði greitt tilskilinn hluta söluverðsins til sýslumanns þann dag.
Stefnandi telur sig ekki vera bundinn af samningi um framsal boðsins, sem stjórnarformaður hans stóð einn að, þar sem tvo stjórnarmenn þurfi til að skuldbinda stefnanda samkvæmt samþykktum hans. Tilkynnti lögmaður hans stefnda Guðfinni þetta með bréfi hinn 21. desember sl. og sendi sýslumanni afrit þess. Daginn áður hafði stefnandi sent sýslumanni 1. greiðslu söluverðsins, eftir því sem segir í bréfi sýslumanns til lögmanns stefnanda, þar sem einnig kemur fram að sýslumaður hafi skilað greiðslunni jafnharðan.
Stefnandi kærði hinn 24. janúar sl. til héraðsdóms þá athöfn sýslumanns að taka gilt framsal á boði stefnanda til stefnda Guðfinns. Kærunni var vísað frá héraðsdómi. Sýslumaður gaf út afsal fyrir eigninni hinn 28. febrúar sl., til stefnda Fasteignafélagsins Ránar ehf., að undangengnu réttindaframsali til þess aðila frá stefnda Guðfinni.
II.
Efniskröfur stefnanda í þessu máli hljóða um viðurkenningu á ógildi framsals stjórnarformanns stefnanda til stefnda Guðfinns á réttindum stefnanda samkvæmt boði í greinda eign og stefnda Fasteignafélagið Rán ehf. verði dæmt til að gefa út afsal til stefnanda fyrir henni, gegn nánar greindri peningagreiðslu.
Stefndi Guðfinnur styður frávísunarkröfu sína við það að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að viðurkenningarkrafan nái fram að ganga. Þá sé hún svo óskýr að varði frávísun, en eins og hún sé sett fram virðist vera gerð krafa um viðurkenningu á ógildanleika ráðstöfunar fyrirsvarsmanns stefnanda. Þá telur stefndi að eftir útgáfu afsals skipti ógildanleiki, eða ógilding nefnds framsals engu máli að lögum. Geti stefnandi ekki haggað samþykki boðsins með málsókn í almennu einkamáli, þar sem borið hafi að reka slíkt mál sem ágreiningsmál við nauðungarsölu. Ógildi upprunalegs framsals fái því ekki haggað við samþykki sýslumanns á boði stefnda Guðfinns og afsali hans til stefnda Fasteignafélagsins Ránar ehf.
Stefndi Fasteignafélagið Rán ehf. kveðst byggja frávísunarkröfu sína á því að málsástæður stefnanda um ógildi framsals og atvik við nauðungarsölu hefði átt að hafa uppi í ágreiningsmáli við nauðungarsölu samkvæmt reglum laga nr. 90/1991. Krafa stefnanda sé byggð á atvikum við ráðstöfun eignarinnar við nauðungarsölu, þ.e. því að sýslumaður hefði átt að samþykkja boð stefnanda, en ekki stefnda Guðfinns, eða hefði samþykkt boð hins fyrrnefnda ef það hefði ekki verið framselt. Bendir stefndi á að stefnandi hafi greitt eftir samþykkisfrest. Þá tekur stefndi fram að málshöfðunarfrestir og sérstakt réttarfar ágreiningsmála við nauðungarsölu séu til þess ætlaðir að koma í veg fyrir að kaupendum verði haldið í óvissu löngu eftir að sölunni lýkur.
III.
Krafa stefnanda á hendur stefnda Fasteignafélaginu Rán ehf. um útgáfu afsals fyrir ofangreindri eign er efnislega á því reist að stefnandi hafi átt rétt til afsals fyrir henni úr hendi sýslumanns, þar sem framsal stjórnarformanns stefnanda á rétti stefnanda til eignarinnar hafi verið ekki skuldbindandi fyrir stefnanda.
Sýslumaðurinn á Patreksfirði ákvað í verki að byggja á nefndu framsali frá stjórnarformanni stefnanda f.h. hans hönd, með því að taka við greiðslum frá stefnda Guðfinni, en hafna greiðslum frá stefnanda. Ekki verður séð að sýslumaður hafi verið krafinn um breytingu á þessari ákvörðun. Leitað var úrlausnar héraðsdóms um hana með skírskotun til 80 gr. laga nr. 90/1991, en krafa um úrlausn héraðsdóms sætti frávísun, þar sem hún var talin of seint fram komin. Stefndi Fasteignafélagið Rán ehf. fékk síðan afsal fyrir eigninni, á grundvelli réttindaframsals frá stefnda Guðfinni.
Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 19/1991 ber að vísa máli frá dómi ef reka á það eftir reglum um meðferð ágreiningsmála vegna fullnustugerða. Ágreining um það hvort stefnandi fengi afsal úr hendi sýslumanns við nauðungarsöluna bar að leysa í máli sem yrði rekið samkvæmt reglum laga nr. 90/1991. Af þessu leiðir að stefndi Fasteignafélagið Rán ehf. verður ekki krafinn um afsal fyrir eigninni í þessu máli með skírskotun til þess að hann hafi ekki átt rétt til afsals úr hendi sýslumanns vegna betri réttar stefnanda. Samkvæmt þessu ber að vísa frá dómi kröfu stefnanda um skyldu stefnda til að gefa út afsal.
Að svo komnu máli þykir ekki nægilega sýnt að stefnandi hafi af því lögvarða hagsmuni að fá leyst efnislega úr viðurkenningarkröfu sinni á hendur stefnda Guðfinni. Ber því einnig að vísa henni frá dómi. Eftir atvikum þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af rekstri þessa máls.
Úrskurð þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.