Hæstiréttur íslands
Mál nr. 452/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 17. nóvember 1999. |
|
Nr. 452/1999. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Talið var að fram væri kominn rökstuddur grunur um að X hefði brotið gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað gæti hann allt að 10 ára fangelsi, og var brotið talið þess eðlis að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Var X gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. nóvember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um framhald gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 15. mars 2000.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Varnaraðili er grunaður um aðild að mjög umfangsmiklu fíkniefnamáli, sem sóknaraðili hefur haft til rannsóknar síðastliðna mánuði. Hefur varnaraðili játað fyrir dómi aðild að innflutningi á fíkniefnum, með því að hafa tekið sex sinnum sendingar úr vörslum Samskipa hf., þar sem hann var starfsmaður, og komið þeim til skila samkvæmt fyrirmælum bróður síns, sem einnig er grunaður um aðild að málinu. Hafi hann í sumum tilvikum vitað fyrirfram að fíkniefni væru í sendingunum, en í öðrum fengið um það vitneskju eftir á. Þá hefur varnaraðili gengist við því fyrir dómi að hafa tekið í ein tíu skipti við peningum frá mönnum hér á landi og sent til Danmerkur til kaupa á fíkniefnum. Kvaðst hann telja fjárhæðina geta numið allt að 10.000.000 krónum. Fyrir þetta hafi hann fengið greitt á að giska 500.000 krónur.
Samkvæmt framansögðu er fyrir hendi rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi brotið gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sem varðað getur hann allt að tíu ára fangelsi. Brotið er þess eðlis að telja verður gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Verður varnaraðila því gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Fallist verður á kröfu sóknaraðila um lengd gæsluvarðhalds, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 15. mars 2000 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 1999.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 að X, verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans þó eigi lengur en til miðvikudagsins 15. mars nk. kl. 16.00.
[...]
Lögreglustjórinn byggir kröfu sína alfarið á 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt þeirri grein má úrskurða mann í gæsluvarðhald ef sterkur grunur er um að hann hafi framið brot, er geti að lögum varðað allt að 10 ára fangelsi og brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Þrátt fyrir að kærði hafi viðurkennt að hafa átt þátt í innflutningi á nokkru magni af hassi til landsins og annast um að senda peninga til bróður síns eins og rakið var þá er það mat dómsins að þáttur hans í máli þessu sé ekki svo stórfelldur að almannahagsmunir krefjist þess að hann sitji áfram í gæsluvarðhaldi og er kröfu lögreglustjóra þess vegna hafnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
úrskurðarorð
Kröfu lögreglustjóra um að kærði, X, [...], sæti gæsluvarðhaldi er hafnað.