Hæstiréttur íslands
Mál nr. 106/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Fimmtudaginn 20. febrúar 2014. |
|
Nr. 106/2014. |
Guðmundur
Kristinsson ehf. (Sveinn Sveinsson hrl.) gegn Hildu
ehf. (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Talið var að
V ehf. hefði brugðist við áskorun L hf. á þann veg að ekki væri fullnægt
skilyrðum til töku búsins til gjaldþrotaskipta samkvæmt 5. tölul.
2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Benedikt Bogason.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. febrúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2014, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt kröfu Dróma hf. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreindri kröfu verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt greinargerð varnaraðila til Hæstaréttar hefur hann með samningi við Dróma hf. eignast kröfuna, sem það félag studdi kröfu sína um gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila við. Er því lýst þar yfir að varnaraðili taki við aðild að máli þessu af Dróma hf., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði skoraði Drómi hf. á sóknaraðila með bréfi 11. apríl 2013 að greiða þá þegar skuld við félagið, sem næmi samtals 1.023.199.301 krónu, eða lýsa því yfir skriflega að sóknaraðili væri fær um að greiða skuldina „þegar hún fellur í gjalddaga, að því leyti sem hún kann að vera ógjaldfallin, eða innan skamms tíma hinar gjaldföllnu greiðslur.“ Jafnframt var þess óskað að tiltekið yrði hvenær og hvernig sóknaraðili yrði fær um að greiða skuldina. Þá var tekið fram í bréfinu að krafist yrði gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila ef slík skrifleg yfirlýsing hefði ekki borist Dróma hf. innan þriggja vikna, sbr. 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Þessi áskorun var birt fyrirsvarsmanni sóknaraðila 16. apríl 2013, sem svaraði henni með bréfi 6. maí sama ár, en þar var meðal annars að finna svofellda yfirlýsingu: „Félagið verður fært innan skamms tíma um að greiða skuldir sínar við Dróma ehf. Verði það gert með eignum félagsins. Frekar um greiðsluformið verður gefið í sérstakri greinargerð ef eftir verður kallað.“ Drómi hf. beindi kröfu til héraðsdóms 3. júní 2013 um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli fyrrnefnds ákvæðis 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 og var sú krafa tekin til greina með hinum kærða úrskurði.
Samkvæmt framansögðu brást sóknaraðili við áskorun Dróma hf. með því að lýsa því skriflega yfir innan þess þriggja vikna frests, sem um ræðir í 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, að hann yrði innan skamms tíma fær um að greiða skuldir sínar við félagið. Af þeim sökum verður krafa um gjaldþrotaskipti ekki reist á þessu lagaákvæði og verður kröfu varnaraðila hafnað.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Hildu
ehf., um að bú sóknaraðila, Guðmundar Kristinssonar ehf., verði tekið til
gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila
samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31.
janúar 2014.
Krafa sóknaraðila, Dróma hf.,
Lágmúla 6, Reykjavík um að bú varnaraðila, Guðmundar Kristinssonar ehf.,
Brekkuseli 31, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta barst dóminum 3.
júní 2013. Hún var tekin fyrir í dómi 4. september 2013. Varnaraðili mótmælti
kröfunni og var þá þingfest þetta ágreiningsmál, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr.
21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Varnaraðili lagði fram greinargerð 18.
september 2013. Sóknaraðili lagði fram greinargerð 9. október 2013. Hinn 10.
desember 2013 var málið flutt munnlega og tekið til úrskurðar.
Sóknaraðili krefst þess að bú
varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar
úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess aðallega að
kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi en til vara að henni verði hafnað. Þá
krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Málavextir
Krafa
sóknaraðila byggir á fjórum lánssamningum sem Sparisjóður Reykjavíkur og
nágrennis (SPRON) og varnaraðili gerðu með sér.
Lánssamningur
nr. 9432 er dagsettur 21. apríl 2004. Á forsíðu lánssamningsins kemur fram að
samningurinn sé ,,í erlendum myntum“. Fram kemur m.a. í 2. gr. lánssamningsins
að varnaraðili taki að láni 267.500 svissneska franka (CHF),
29.741.000 japönsk jen (JPY) og 172.140 evrur (EUR). Lánið skyldi endurgreiða þannig að greiddur væri 1/60
af höfuðstól á þriggja mánaða fresti og ein greiðsla í lokin. Samningurinn
gilti í þrjú ár en varnaraðila væri heimilt að framlengja lánið alls fjórum sinnum
til þriggja ára í senn ef samkomulag næðist um kjör. Varnaraðili heimilaði
lánveitanda að skuldfæra reikning sinn nr. 1158-26-008810 fyrir greiðslu
afborgana og vaxta, en tekið var fram að greiddi varnaraðili í íslenskum krónum
skyldi hann greiða samkvæmt sölugengi lánveitanda. Samkvæmt 3. gr.
lánssamningsins bar lánið breytilega vexti sem voru LIBOR-vextir
eins og þeir ákvörðuðust fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, tveimur
virkum bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu 1,2% vaxtaálagi.
Með LIBOR (London Inter
Bank Offered Rate) vöxtum
væri átt við vexti á millibankamarkaði í London eins og þeir væru auglýstir kl.
11:00 að staðartíma í London á BBA-síðu Reuters. Í 6. gr. kemur fram í a-lið að lánveitandi megi
segja upp láninu einhliða og fyrirvaralaust og án aðvörunar eða sérstakrar
uppsagnar ef vanskil verði á greiðslu afborgana eða vaxta sem hafi varað í 15
daga eða lengur. Tekið er fram í 6. gr. að verði láninu sagt upp eða það falli
í gjalddaga sé lánveitanda heimilt að umreikna allt lánið í íslenskar krónur á
gjalddaga/uppsagnardegi miðað við skráð sölugengi lánveitanda á viðkomandi
myntum. Að sögn sóknaraðila er lánið í vanskilum frá 20. júlí 2007 og hafi hann
gjaldfellt lánið samkvæmt 6. gr. lánssamningsins.
Lánssamningur
nr. 9815 er dagsettur 9. júní 2006. Á forsíðu lánssamningsins kemur fram að
samningurinn sé ,,í erlendum myntum“. Fram kemur m.a. í 5. gr. lánssamningsins
að varnaraðili taki að láni ,,jafnvirði 150.000.000 ISK
í eftirtöldum myntum: CHF 626.671,12 JPY 174.499.767“. Lánið skyldi endurgreiða á fjórum
gjalddögum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 2. ágúst 2006. Varnaraðili
heimilaði lánveitanda að skuldfæra reikning sinn nr. 1158-26-008810 fyrir
greiðslu afborgana og vaxta, en tekið var fram að greiddi varnaraðili í
íslenskum krónum skyldi andvirði greiðslunnar umreiknað samkvæmt sölugengi
lánveitanda á viðkomandi myntum. Tekið er fram að á lokadegi hvers
vaxtatímabils sé varnaraðila heimilt að breyta gjaldmiðli lánsins.
Hámarksfjöldi gjaldmiðla sé sex hverju sinni. Fram kemur í greininni að
varnaraðili staðfesti að hann hafi verið upplýstur um og skilji að hugsanlegar gengissveiflur geti haft þau
áhrif að ,,heildarskuld hans í þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstendur af
hverju sinni [geti] orðið hærri en upphafleg lánsfjárhæð“. Þá segir í sömu
grein að varnaraðila sé ljóst og hann staðfesti að sparisjóðnum beri engin
skylda til þess að upplýsa hann um ,,hækkanir er kunna að verða á
lánsfjárhæðinni vegna óhagstæðra gengissveiflna“. Samkvæmt 6. gr. lánssamningsins
bar lánið breytilega vexti sem voru LIBOR-vextir eins
og þeir ákvörðuðust fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, tveimur virkum
bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu 1,75% vaxtaálagi. Með LIBOR (London Inter Bank Offered Rate) vöxtum væri átt við
vexti á millibankamarkaði í London eins og þeir væru auglýstir kl. 11:00 að
staðartíma í London á BBA-síðu Reuters.
Fram kemur í 3. og 4. gr. að stofnfjárbréf í SPRON séu sett að handveði. Í 9.
gr. kemur fram í a-lið að lánveitandi megi segja upp láninu einhliða og
fyrirvaralaust og án aðvörunar eða sérstakrar uppsagnar ef vanskil á greiðslu
afborgana eða vaxta hafi varað í 15 daga eða lengur. Tekið er fram í 9. gr. að
verði láninu sagt upp eða það falli í gjalddaga sé lánveitanda heimilt að
umreikna allt lánið í íslenskar krónur á gjalddaga/ uppsagnardegi miðað við
skráð sölugengi lánveitanda á viðkomandi myntum.
Viðauki
var gerður við lánssamninginn 7. maí 2008. Þar kemur m.a. fram að eftirstöðvar
lánsins 2. maí 2008 séu 571.837,39 svissneskir frankar (CHF)
og 159.231.038 japönsk jen (JPY) auk þar tilgreindra
áfallinna vaxta í hvorum gjaldmiðli fyrir sig. Með viðaukanum var lánið
framlengt þannig að það skyldi greiða með fjórum gjalddögum á þriggja mánaða
fresti, í fyrsta sinn 2. maí 2008. Annar viðauki var gerður við lánssamninginn
13. febrúar 2009. Þar kemur m.a. fram að eftirstöðvar lánsins 2. febrúar 2009
séu 548.010,83 svissneskir frankar (CHF) og
152.596.411 japönsk jen (JPY) auk þar tilgreindra
áfallinna vaxta í hvorum gjaldmiðli fyrir sig. Með viðaukanum var lánið
framlengt þannig að það skyldi greiða með einum gjalddaga 2. maí 2009. Að sögn
sóknaraðila er lánið í vanskilum og hafi hann gjaldfellt lánið samkvæmt 9. gr.
lánssamningsins.
Lánssamningur
nr. 9936 er dagsettur 2. nóvember 2006. Á forsíðu lánssamningsins kemur fram að
samningurinn sé ,,í erlendum myntum“. Fram kemur m.a. í 5. gr. lánssamningsins
að varnaraðili taki að láni ,,jafnvirði 80.000.000 ISK
í eftirtaldri mynt: CHF
1.477.923,52“. Lánið skyldi endurgreiða með einni greiðslu 2. desember 2006.
Varnaraðili heimilaði lánveitanda að skuldfæra reikning sinn nr. 1158-26-008810
fyrir greiðslu afborgunar og vaxta, en tekið var fram að greiddi varnaraðili í
íslenskum krónum skyldi andvirði greiðslunnar umreiknað samkvæmt sölugengi
lánveitanda á viðkomandi myntum. Fram kemur í greininni að varnaraðili
staðfesti að hann hafi verið upplýstur um og skilji að hugsanlegar
gengissveiflur geti haft þau áhrif að ,,heildarskuld hans í þeim gjaldmiðlum
sem lánið samanstendur af hverju sinni [geti] orðið hærri en upphafleg
lánsfjárhæð“. Þá segir í sömu grein að varnaraðila sé ljóst og hann staðfesti
að sparisjóðnum beri engin skylda til þess að upplýsa hann um ,,hækkanir er
kunna að verða á lánsfjárhæðinni vegna óhagstæðra gengissveiflna“. Samkvæmt 6.
gr. lánssamningsins bar lánið breytilega vexti sem voru LIBOR-vextir
eins og þeir ákvörðuðust fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, tveimur
virkum bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu 1,3% vaxtaálagi.
Með LIBOR (London Inter
Bank Offered Rate) vöxtum
væri átt við vexti á millibankamarkaði í London eins og þeir væru auglýstir kl.
11:00 að staðartíma í London á BBA-síðu Reuters. Fram kemur í 3. og 4. gr. að tiltekinn
gjaldeyrisreikningur sé settur að handveði. Í 9. gr. kemur fram í e-lið að
lánveitandi megi segja upp láninu einhliða og fyrirvaralaust og án aðvörunar
eða sérstakrar uppsagnar ef tryggingar/ábyrgðir eru ekki lengur fullnægjandi að
mati lánveitanda. Tekið er fram í 9. gr. að verði láninu sagt upp eða það falli
í gjalddaga sé lánveitanda heimilt að umreikna allt lánið í íslenskar krónur á
gjalddaga/uppsagnardegi miðað við skráð sölugengi lánveitanda á viðkomandi
myntum.
Lánið
var framlengt þrisvar sinnum samkvæmt skriflegum beiðnum varnaraðila, 4.
desember 2006, 16. febrúar 2007 og 23. maí 2007. Í beiðnunum, sem eru samhljóða
að þessu leyti, kemur m.a. fram að lánið hafi í upphafi og þegar beiðnirnar séu
gerðar verið að fjárhæð 1.477.923,52 svissneskir frankar (CHF).
Samkvæmt síðustu beiðninni var gjalddagi lánsins ákveðinn 5. mars 2010.
Sóknaraðili fullyrðir að lánið hafi verið í skilum en hafi verið gjaldfellt
miðað við 22. janúar 2010 með vísan til e-liðar 9. gr. lánssamningsins.
Lánssamningur
nr. 10293 er dagsettur 12. júní 2007. Á forsíðu lánssamningsins kemur fram að
samningurinn sé ,,í erlendum myntum“. Fram kemur m.a. í 5. gr. lánssamningsins
að varnaraðili taki að láni ,,jafnvirði 43.891.587 ISK
í eftirtöldum myntum: JPY (100%) 84.781.895“. Lánið
skyldi endurgreiða á tveimur gjalddögum, þar af einum vaxtagjalddaga. Fyrsti
vaxtagjalddagi væri 15. ágúst 2007 og síðan á mánaðar fresti. Lokagjalddagi
væri 15. febrúar 2008. Varnaraðili heimilaði lánveitanda að skuldfæra reikning
sinn nr. 1158-26-008810 fyrir greiðslu afborgunar og vaxta, en tekið var fram
að greiddi varnaraðili í íslenskum krónum skyldi andvirði greiðslunnar
umreiknað samkvæmt sölugengi lánveitanda á viðkomandi myntum. Samkvæmt 6. gr.
lánssamningsins bar lánið breytilega vexti sem voru LIBOR-vextir
eins og þeir ákvörðuðust fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, tveimur
virkum bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu 1,85%
vaxtaálagi. Með LIBOR (London Inter
Bank Offered Rate) vöxtum
væri átt við vexti á millibankamarkaði í London eins og þeir væru auglýstir kl.
11:00 að staðartíma í London á BBA-síðu Reuters. Í 9. gr. kemur fram í a-lið að lánveitandi megi
segja upp láninu einhliða og fyrirvaralaust og án aðvörunar eða sérstakrar
uppsagnar ef vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta hafi varað í 15 daga eða
lengur. Tekið er fram í 9. gr. að verði láninu sagt upp eða það falli í
gjalddaga sé lánveitanda heimilt að umreikna allt lánið í íslenskar krónur á
gjalddaga/uppsagnardegi miðað við skráð sölugengi lánveitanda á viðkomandi
myntum.
Með
viðauka við lánssamninginn, dags. 22. janúar 2009, var felld niður
sjálfskuldarábyrgð Guðmundar Kristinssonar, kt.
310550-2999, fyrir greiðslu lánsins. Tekið er fram í viðaukanum að
lánssamningurinn sé í erlendri mynt og upphaflega að fjárhæð 84.781.895 japönsk
jen (JPY). SPRON og varnaraðili gerðu annan viðauka
við lánssamninginn 13. febrúar 2009. Þar kemur m.a. fram að eftirstöðvar
lánsins 16. febrúar 2009 séu 77.383.874 japönsk jen (JPY)
auk þar tilgreindra áfallinna vaxta í japönskum jenum. Með viðaukanum var lánið
framlengt þannig að það skyldi greiða í einu lagi 15. maí 2009. Að sögn
sóknaraðila er lánið í vanskilum síðan 15. maí 2009 og hafi hann gjaldfellt
lánið samkvæmt 9. gr. lánssamningsins.
Varnaraðili
hefur gefið út tvö tryggingarbréf, áhvílandi á 1. og 2. veðrétti fasteignar í
hans eigu að Brautarholti 10-14 í Reykjavík, með fastanúmer 224-0488. Fyrra
tryggingarbréfið er gefið út 5. apríl 2004 og tryggir allar skuldir varnaraðila
við SPRON, allt að fjárhæð 50 milljónir króna og er sérstaklega tekið fram að
þar falli m.a. undir ,,erlend endurlán“. Fjárhæð tryggingarbréfsins er bundin
vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 230,7 stig. Síðara
tryggingarbréfið er gefið út 22. janúar 2009 og tryggir sömuleiðis allar
skuldir varnaraðila við SPRON, allt að fjárhæð 280 milljónir króna. Í skilmálum
bréfsins er sömuleiðis tekið fram að þar falli m.a. undir ,,erlend endurlán“.
Fjárhæð tryggingarbréfsins er bundin vísitölu neysluverðs miðað við
grunnvísitölu 327,9 stig.
Hinn 21. mars 2009 tók
Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda SPRON og skipaði
sparisjóðnum skilanefnd. Við gildistöku laga nr. 44/2009, 22. apríl 2009, varð
skilanefndin að bráðabirgðastjórn sparisjóðsins. Sóknaraðili segir að
bráðabirgðastjórnin hafi stofnað sóknaraðila og framselt honum allar eignir
sparisjóðsins í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, auk þess sem
sóknaraðili hafi tekið yfir öll tryggingarréttindi sem tengdust kröfunum.
Sóknaraðili
sendi varnaraðila áskorun samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti
o.fl. Áskorunin er dagsett 11. apríl 2013 og var birt fyrir varnaraðila 16.
apríl 2013. Í áskoruninni eru fyrrnefndir lánssamningar taldir upp og útlistað
hver væri skuld varnaraðila samkvæmt hverjum lánssamningi, með vanskilum. Skuld
varnaraðila samkvæmt lánssamningi nr. 9432 væri 103.717.827 krónur, samkvæmt
lánssamningi nr. 9815 435.096.244 krónur, samkvæmt lánssamningi nr. 9936
310.193.155 krónur og samkvæmt lánssamningi nr. 10293 174.192.075 krónur.
Samtals næmi skuld varnaraðila 1.023.199.301 krónu. Skorað var á varnaraðila að
greiða skuldina nú þegar eða lýsa því skriflega yfir að hann væri fær um að
greiða skuldina þegar hún félli í gjalddaga, að því leyti sem hún kynni að vera
ógjaldfallin, eða innan skamms hinar gjaldföllnu greiðslur. Jafnframt væri þess
óskað að tiltekið væri hvenær og hvernig varnaraðili yrði fær um að greiða
skuldina. Hefði slík skrifleg yfirlýsing ekki borist innan þriggja vikna frá
birtingu áskorunarinnar yrði krafist gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila á
grundvelli fyrrnefnds 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr.
21/1991. Varnaraðili svaraði áskoruninni með bréfi dags. 6. maí 2013. Í bréfinu
kemur fram að varnaraðili verði innan skamms tíma fær um að greiða skuldir
sínar við sóknaraðila. Það verði gert með eignum varnaraðila. Frekar verði
fjallað um greiðsluformið í sérstakri greinargerð, verði eftir því kallað.
Áður hafði sóknaraðili höfðað mál til greiðslu
fjárkröfu á grundvelli sömu lánssamninga gegn varnaraðila með stefnu sem
þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur 29. júní 2010. Í því máli var varnaraðili
krafinn um greiðslu á 674.160.776 krónum ásamt þar tilgreindum dráttarvöxtum.
Það mál felldi sóknaraðili niður í fyrirtöku 24. júní 2011. Sóknaraðili mun
hafa sent varnaraðila áskorun samkvæmt 5.
tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 sem hafi verið
birt honum 8. nóvember 2011 og sem hann hafi svarað með bréfi dags. 17.
nóvember 2011. Í kjölfarið krafðist sóknaraðili gjaldþrotaskipta á búi
varnaraðila með bréfi sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 5. desember 2011. Krafan
var byggð á sömu lánssamningum og þetta mál en sóknaraðili taldi kröfuna nema
samtals 490.967.646 krónum. Sóknaraðili mun hafa fellt málið niður 11. apríl
2012. Sóknaraðili krafðist aftur gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila með bréfi
til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 10. maí 2012, en ekki sést á framlögðu
ljósriti hvenær krafa var móttekin. Krafan var byggð á sömu lánssamningum og
sóknaraðili taldi kröfuna nema sömu fjárhæð og áður, samtals 490.967.646
krónum. Sóknaraðili mun hafa fellt málið niður. Sóknaraðili krafðist enn
gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila með bréfi sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur
5. október 2012. Krafan var byggð á sömu lánssamningum en sóknaraðili taldi
kröfuna nema samtals 560.673.644 krónum. Sóknaraðili mun hafa fellt málið
niður.
Sóknaraðili sundurliðar kröfu sína í
þessu máli á eftirfarandi hátt, miðað við 4. desember 2013:
Lánssamningur
nr. 9432:
Höfuðstóll kr.
71.082.269
Dráttarvextir til 29.5.2013 kr.
43.358.783
Innheimtuþóknun kr.
2.558.132
Virðisaukaskattur kr.
652.324
Innborgun fyrir innheimtu kr.
- 1.239.024
Samtals
kr. 115.412.484
Lánssamningur
nr. 9936:
Höfuðstóll kr. 213.932.079
Dráttarvextir til 29.5.2013 kr. 122.265.132
Innheimtuþóknun kr.
7.038.036
Virðisaukaskattur kr.
1.794.699
Samtals
kr. 345.029.946
Lánssamningur
nr. 9815:
Höfuðstóll kr. 259.716.770
Dráttarvextir til 29.5.2013 kr. 212.151.485
Innheimtuþóknun kr.
9.751.456
Virðisaukaskattur kr.
2.486.621
Samtals
kr. 484.106.332
Lánssamningur
nr. 10293:
Höfuðstóll kr. 104.641.889
Dráttarvextir til 29.5.2013 kr.
84.305.701
Innheimtuþóknun kr.
4.093.043
Virðisaukaskattur kr.
1.043.726
Samtals
kr. 194.084.359
Samtals kr. 1.138.633.121
Krafa um gjaldþrotaskipti kr. 15.000
Skiptakostnaður kr.
350.000
Samtals kr. 1.138.998.121
Málsástæður
og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir á því að hann
eigi gilda kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli fjögurra lánssamninga,
auðkenndra nr. 9432, 9815, 9936 og 10293.
Sóknaraðili telur lánssamningana vera gilda lánssamninga í erlendum
myntum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 524/2011. Lánssamningarnir beri
fyrirsögnina ,,Lánssamningur í erlendum myntum“, lánsfjárhæðir séu tilgreindar
í erlendum myntum, vextir séu í samræmi við að um erlent lán sé að ræða og
allar skilmálabreytingar tilgreini lánsfjárhæðir í erlendum myntum. Þessir
lánssamningar séu í vanskilum og hafi verið gjaldfelldir og umreiknaðir í
íslenskar krónur á gjaldfellingardegi. Fyrir liggi að sú eign sem standi til
tryggingar kröfunni dugi ekki fyrir skuld varnaraðila. Yfirlýsing varnaraðila á
grundvelli áskorunar sóknaraðila beri ekki með sér að varnaraðili sé fær um að
greiða skuldir sínar við sóknaraðila og hann hafi ekki brugðist við áskorun
sóknaraðila með greiðslu skuldarinnar. Rangt sé að varnaraðila hafi verið
meinað að greiða kröfuna á fyrri stigum þessa máls. Það gæti auk þess ekki
leitt til þess að hafna beri kröfu sóknaraðila þegar fyrir liggi að skuldir
varnaraðila séu hærri en verðmæti eigna félagsins. Huglæg afstaða varnaraðila
breyti engu þar um. Varnaraðili geti ekki borið fyrir sig að hann hafi verið í
þeirri trú að honum hafi verið óskylt að greiða af þessum lánum.
Bú varnaraðila eigi að taka til
gjaldþrotaskipta á grundvelli 5. tl. 2. mgr. 65. gr.
laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að fyrri mál milli aðila skipti
engu. Þau mál takmarki ekki skýran rétt sóknaraðila til þess að krefjast
gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila og sá málatilbúnaður sem hafi verið hafður
uppi í fyrri málum sé ekki til úrlausnar í þessu máli.
Er sóknaraðili bað um að bú
varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta 5. október 2012 hafi hann talið að
varnaraðili myndi halda því fram að sóknaraðili hafi gert sér tilboð um að ljúka
skuldaskiptum aðilanna á grundvelli endurútreikninga sem hafi verið sendir
fyrir mistök. Þá hafi verið ákveðið að miða útreikninga við þessi sjónarmið en
áskilja sér rétt til að lýsa ítrustu kröfum við
gjaldþrotaskiptin. Þessu meinta tilboði hafi varnaraðili hafnað í greinargerð
sinni í því máli og því sé hvorugur aðili bundinn af þessum útreikningum.
Varnaraðili hafi þannig hafnað því sérstaklega að lögum nr. 151/2010 verði
beitt um endurútreikning þessara lána, því þessir endurútreikningar hafi verið byggðir
á þeim lögum. Varnaraðili geti ekki á seinni stigum krafist þess að
endurútreikningur þessara lána fari að þeim lögum. Í bókun sóknaraðila frá 31.
janúar 2013 komi skýrt fram að sóknaraðili hafi áskilið sér þann rétt að reikna
kröfurnar frá grunni miðað við erlend og innlend lán og höfða mál til greiðslu
þeirrar skuldar og krefjast skuldarinnar þannig út reiknaðrar. Þannig liggi
fyrir að fyrri yfirlýsing og endurútreikningar séu ekki bindandi fyrir
sóknaraðila í þessu máli.
Varnaraðili haldi því ranglega fram
að það sé skilyrði fyrir beitingu 5. tl. 2. mgr. 65.
gr. laga nr. 21/1991 að skuldari verði að lýsa því yfir að efnahag hans sé
þannig komið að hann sé ógreiðslufær. Til þess að yfirlýsing teljist
fullnægjandi í skilningi ákvæðisins verði skuldari í raun að lýsa því yfir að
efnahag hans sé ekki þannig komið að hann sé ógreiðslufær. Yfirlýsing
varnaraðila í þessu máli hafi ekki borið það með sér og ekki hafi verið gerð
grein fyrir því með hvaða hætti varnaraðili hygðist standa í skilum. Fullyrðing
varnaraðila um að staðið verði í skilum með eignum félagsins sé röng þar sem
eignir hans standi ekki undir skuldbindingum hans. Tilvísun til eigna hluthafa eða annarra
systurfélaga sé ekki fullnægjandi. Sóknaraðili hafni því jafnframt að bókun
hans í fyrra máli aðila hafi bindandi gildi í þessu máli þar sem hún hafi verið
sett fram í öðru máli og í samhengi við aðrar forsendur. Fyrri gjaldþrotabeiðni
sóknaraðila hafi verið byggð upp með öðrum hætti en beiðni hans í þessu máli.
Hvergi
séu settar takmarkanir fyrir því hversu oft megi krefjast gjaldþrotaskipta á
búi skuldara samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr.
21/1991. Það eigi ekki heldur stoð í lögum eða greinargerð að aðeins megi beita
ákvæðinu þegar enginn ágreiningur sé um skuldina, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu
nr. 673/2012.
Sóknaraðili hafnar því að kröfugerð
hans sé ekki skýr. Auðvelt sé að átta sig á lánssamningum og hvernig
útreikningi á þeim sé háttað. Með beiðninni hafi fylgt ítarlegar skýringar með
hverju láni og útreikningum þess. Varnaraðili hafi aldrei mótmælt þessum
útreikningi á kröfunni.
Sóknaraðili hafnar því alfarið að
umrædd lán séu bundin ólögmætri gengistryggingu. Hæstiréttur hafi nú þegar dæmt
um lögmæti sambærilegra lánssamninga og þau fordæmi séu skýr. Tilgreining á
jafnvirði í íslenskum krónum ásamt fjárhæðum mynta skipti engu. Það sem skipti
máli sé að fjárhæðir hinna erlendu mynta séu tilgreindar. Slík tilgreining sé
aðeins til upplýsinga fyrir lántaka en skipti engu varðandi gildi samningsins.
Ákvæði um gengissveiflur sé aðeins til upplýsinga fyrir lántaka. Með þessu
ákvæði sé lántaki upplýstur um að þótt aðilar megi semja um lán í erlendum
myntum þá hafi hagstjórn mikil áhrif á sveiflu gengis íslensku krónunnar þannig
að það kosti mismikið að kaupa gjaldeyri á gjalddögum lánanna til greiðslu á
afborgunum og vöxtum. Þannig sinni lánveitandi upplýsingaskyldu sinni gagnvart
lántaka. Þetta ákvæði fjalli ekki um gengistryggingu láns og leiði ekki til
þess að lán verði talið íslenskt lán með ólögmætri gengistryggingu. Sóknaraðili
hafnar því að enginn munur sé á því hvort erlenda fjárhæðin sé tilgreind í
prósentum eða fjárhæðum, þegar fyrir liggi að fjárhæðir séu útkomur prósentanna
að teknu tilliti til gengis á útgáfudegi lánssamningsins. Dómur Hæstaréttar í
máli nr. 155/2011 eigi ekki við í þessu tilviki þar sem fjárhæðir hinna erlendu
mynta í lánssamningum skuldara séu sérstaklega tilgreindar en í dóminum hafi
hinar erlendur myntir aðeins verið tilgreindar í prósentum. Ákvæði um breytingu
á myntsamsetningu sé haft inni svo lántaki viti af þeim möguleika að breyta
láninu í aðrar myntir. Slík ákvæði séu ekkert óeðlileg og séu einnig inni í
íslenskum samningum. Umræddir lánssamningar séu um lán í erlendum myntum og
sjónarmið varnaraðila um útreikning varnaraðila eigi ekki við.
Í rökstuðningi sínum virðist
varnaraðili gleyma aðaleinkenni og áhættu lánssamninga í erlendum myntum, sem
sé gengið. Það sé breytilegt milli daga, þannig að skuldari geti fengið greitt
í íslenskum krónum, óski hann þess, á útborgunardegi lánsins aðra jafnvirðisfjárhæð
í íslenskum krónum en sé tiltekin í lánssamningi. Aðilar geti þó samið sín á
milli um að festa gengið á útborgunardegi miðað við ákveðinn dag. Það sé einungis samkomulag milli
samningsaðila að varnaraðili hafi fengið lánsfjárhæðir greiddar út í íslenskum
krónum og ekkert sé óeðlilegt við slíkt samkomulag. Heimild lántaka til að
greiða afborganir og vexti í íslenskum krónum sé aðeins þjónusta við lántaka,
sem að óbreyttu hefði átt að greiða í myntum samningsins.
Skuldir varnaraðila séu langt umfram
eignir hans samkvæmt síðasta ársreikningi varnaraðila, fyrir reikningsárið
2009. Varnaraðili hafi hvorki greitt skuldir sínar, þrátt fyrir áskorun þar um,
né lagt fram nægilegar tryggingar fyrir þeim. Fasteign varnaraðila og
sjálfskuldarábyrgð eiganda hans dugi ekki til þess að tryggja kröfu
sóknaraðila. Varnaraðili hafi heldur ekki hnekkt útreikningi sóknaraðila á
skuldum hans. Ekkert bendi til þess að varnaraðili verði fær um að standa í
skilum með skuldir sínar nú eða innan skamms tíma. Þótt lán varnaraðila verði
talin íslensk lán með ólögmætri gengistryggingu sé skuld varnaraðila umfram
eignir hans. Sóknaraðili hafi reiknað út lánin og innheimtustöður miðað við að
þau væru íslensk lán með ólögmætri gengistryggingu og tekið sé mið af fordæmum
Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 um fullnaðarkvittanir.
Sjálfskuldarábyrgð eiganda varnaraðila tryggi ekki kröfuna nægilega, því það
gæti tekið tvö til fjögur ár að fá dóm um ágreining aðila og nauðungarsölu á
eign varnaraðila. Að teknu tilliti til vaxta sem myndu leggjast við skuldina
dugi sjálfskuldarábyrgðin ekki. Sjálfskuldarábyrgðin sé einnig skilyrt þannig
að hún uppfylli ekki ákvæði 65. gr. laga nr. 21/1991.
Um lagarök vísar sóknaraðili til
laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og almennra reglna kröfu- og
samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga. Þá vísar sóknaraðili til laga nr.
91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr.
Málsástæður
og lagarök varnaraðila
Varnaraðili
vísar til þess að hann hafi svarað áskorun sóknaraðila með yfirlýsingu, dags.
6. maí 2013. Varnaraðili hafi einnig svarað fyrri áskorun sóknaraðila með
sambærilegri yfirlýsingu sem hafi verið lögð fram í fyrri málum sóknaraðila
gegn honum. Í yfirlýsingunni komi
skýrt fram að varnaraðili geti innan skamms tíma greitt skuldir sínar.
Varnaraðili standi við þá yfirlýsingu sína svo lengi sem skuldin sé sú sem
varnaraðili telur hana eiga að vera.
Í
kröfu sinni um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta, sem hafi
verið móttekin í héraðsdómi 5. október 2012, hafi sóknaraðili talið kröfu sína
vera um 561 milljón króna. Í þeirri beiðni hafi sóknaraðili talið lán samkvæmt
lánssamningum nr. 9815, 9936 og 10293 vera í íslenskum krónum, bundin ólögmætri
gengistryggingu, og hafi sóknaraðili endurreiknað lánin. Varnaraðili hafi í
greinargerð sinni í því máli talið kröfu sóknaraðila geta verið hæsta um 499
milljónir króna. Varnaraðili hafi í því máli lagt fram mat dómkvadds matsmanns.
Matsmaður hafi talið verðmæti hinnar veðsettu eignar að Brautarholti 10-14 í
Reykjavík vera 400 milljónir króna. Einnig hafi verið lögð fram yfirlýsing
aðaleiganda varnaraðila þar sem hann hafi lofað að leggja varnaraðila til allt
að 100 milljónir króna til þess að varnaraðili gæti greitt skuld sína við
sóknaraðila. Í upphafi hafi ágreiningur aðila því snúist um 62 milljónir króna,
miðað við minnsta mun. Í greinargerð sinni hafi varnaraðili bent á að í
útreikningum sínum á fjárhæð kröfunnar hafi sóknaraðili reiknað Seðlabankavexti
frá upphafi lánstímans, en þessi aðferð hafi áður verið dæmd ólögleg af
Hæstarétti Íslands.
Þegar málflutningur hafi átt að fara
fram um kröfuna 31. janúar 2013 hafi sóknaraðili lagt fram bókun þar sem m.a.
segi að varnaraðili hafi ,,tryggt þær fjárhæðir sem fram voru settar í
gjaldþrotaskiptabeiðni og hafnað því að á útsendum endurútreikningunum skuli
byggt“. Síðar í bókuninni segi: ,,Þar sem Guðmundur Kristinsson, kt. 310550-2999, hefur gengist í sjálfsskuldarábyrgð fyrir
þeirri skuld sem út af stendur miðað við fram setta gjaldþrotabeiðni er málið
fellt niður.“ Sóknaraðili vísi hér til þeirra allt að 100 milljóna króna sem
Guðmundur hafi ætlað að ábyrgjast fram yfir þær 400 milljónir króna sem veðið
fyrir skuldinni var metið á. Með bókuninni hafi sóknaraðili viðurkennt að
varnaraðili hafi tryggt þær fjárhæðir sem hafi verið grundvöllur kröfunnar um
gjaldþrotaskipti og því sé málið fellt niður.
Í 5. tl.
2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé skýrt tekið fram
að skuldari þurfi að lýsa því yfir að efnahag hans sé þannig komið að hann sé
ógreiðslufær til þess að krafa um gjaldþrotaskipti verði byggð á ákvæðinu. Sýni varnaraðili hins vegar fram á að
hann geti greitt fram setta kröfu verði ákvæðið ekki notað sem grundvöllur
kröfu um gjaldþrotaskipti. Sóknaraðili
hafi í bókun sinni lýst því yfir að varnaraðili ætti fyrir fram settri kröfu
hans. Þannig hafi málsaðilar báðir
staðfest að varnaraðili ætti fyrir skuldinni.
Sóknaraðili geti ekki síðar fallið
frá yfirlýsingu sinni, farið aftur af stað með nýja útreikninga á kröfum sínum
og ætlað aftur að krefjast gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila með vísan til 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hafi þegar viðurkennt greiðslugetu varnaraðila og það
standi. Beiðni um gjaldþrotaskipti verði því ekki aftur gerð á grundvelli þess
ákvæðis. Varnaraðili vísar einnig
til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýrleika
kröfugerðar, svo og til 3. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991. Í fjórum kröfum
sóknaraðila um gjaldþrotaskipti og einni stefnu hafi sóknaraðili vísað til
margra mismunandi kröfufjárhæða. Af þessari ástæðu fyrst og fremst beri að vísa
þessu máli frá dómi eða hafna kröfu sóknaraðila.
Varnaraðili telur að 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 eigi að túlka mjög
þröngt. Ákvæðið hafi verið sett til þess að flýta fyrir aðgerðum en þá aðeins í
tilfellum þar sem ekki sé ágreiningur milli aðila og síst af öllu er aðila
greini á um útreikningsaðferðir eða fjárhæðir.
Verði ekki fallist á ofangreinda
málsástæðu varnaraðila vísar hann til þess að hann hafi alla tíð mótmælt
útreikningum sóknaraðila á stöðu lánanna og geri enn. Full ástæða hafi verið
til þess með vísan til síbreytilegra útreikninga sóknaraðila. Ekki sé annar
möguleiki fyrir hendi til að niðurstaða fáist um þennan ágreining aðila en að
úr því fáist skorið fyrir dómi hver sé hin rétta fjárhæð sem varnaraðili
skuldar. Þá bendi varnaraðili á að
aðstandendur hans og eigendur séu vel stæðir og geri alls ekki ráð fyrir að
hann verði gjaldþrota.
Varnaraðili byggir enn fremur á því
að lánssamningar aðila hafi verið í íslenskum krónum tengdir verðbreytingum við
gengi erlendra mynta á gjalddögum þeirra. Í því sambandi vísar hann til 13. gr.
og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Lögin heimili ekki að
lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14 gr. laganna séu
ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. og verði því ekki samið um grundvöll
verðtryggingar sem ekki sé stoð fyrir í lögum. Ákvæði lánssamninganna um
gengistryggingu sé því í andstöðu við þessi fyrirmæli laganna og skuldbindi þau
því ekki varnaraðila.
Orðin á forsíðu lánssamninganna,
,,Lánssamningur í erlendum myntum“, verði ekki skilin á annan veg en þann, með
vísan til innihalds samninganna, að um sé að ræða lánssamning verðtryggðan í
erlendum myntum. Þessi yfirskrift og
skilgreining hennar eigi sér stoð í 5. gr. samninganna þar sem fram komi að
SPRON lofi að lána jafnvirði íslenskra króna í erlendum myntum. Setningin verði
aðeins skilin á þann veg að lánsfjárhæðin sé í íslenskum krónum en fjárhæðin sé
verðtryggð miðað við breytingar á gengi myntanna tveggja.
Skilgreiningin fái einnig stoð í gr.
5.7, sem beri fyrirsögnina ,,Áhætta af gengissveiflum“. Í þeirri grein sé beinlínis sagt að upphafleg lánsfjárhæð geti
hækkað vegna áhrifa frá gengissveiflum. Hér sé ekki átt við neitt annað en að
lánið í íslenskum krónum sé bundið breytingum á gengi þessara tveggja nefndra
mynta og það sé fjárhæðin sem geti hækkað við breytingu á gengi þeirra. Það
geti alls ekki verið að erlendu fjárhæðirnar hækki. Heildarskuldin í erlendum
myntum geti aldrei hækkað, heldur standi hún í stað eða lækki við innborgun á
höfuðstól. Hins vegar hækki íslensku krónurnar fyrir áhrif gengissveiflna. Þessi skilningur sé einnig staðfestur í grein 5.8,
sem beri fyrirsögnina ,,Ábyrgð lántakanda“.
Myntirnar í lánssamningunum til
verðtryggingar fjárhæð í íslenskum krónum séu þannig samsettar að í
lánssamningi nr. 9815 sé fjárhæðin 626.671,12 svissneskir frankar 75% af
heildarláninu og fjárhæðin 174.499.767 japönsk jen 25% af heildarláninu, 150
milljónum króna. Í lánssamningi nr. 9936 sé fjárhæðin 1.477.923,52 svissneskir
frankar 100% af 80 milljónum króna. Í lánssamningi nr. 10295 sé fjárhæðin
84.781.895 japönsk jen 100% af 43.891.587 krónum.
Hæstiréttur hafi í dómum sínum, t.d.
í málum nr. 92/2010, 153/2010 og 155/2011, komist að þeirri niðurstöðu að
prósentuhlutfall erlendu myntanna á eftir jafnvirði íslensku krónanna sýni að
um lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða, verðtryggð eftir viðkomandi
prósentuhlutföllum mynta miðað við breytingar á gengi þeirra. Enginn munur sé á
því hvort erlenda fjárhæðin sé tekin fram í prósentum eða fjárhæðum þegar það
liggi fyrir að fjárhæðirnar séu útkomur prósentanna að teknu tilliti til gengis
á útgáfudegi lánssamningsins. Tilgreiningin
í prósentum tiltaki í raun fjárhæðina þar sem allar staðreyndir liggi strax
fyrir til útreiknings á fjárhæðinni.
Í Hæstaréttarmáli nr. 155/2011 hafi
legið fyrir við útborgun lánsins að þær fjárhæðir í erlendri mynt myndu sem
prósenta hverrar myntar skila tilteknum fjárhæðum í íslenskum krónum:
|
Gjaldmiðill |
Prósenta |
Gengi |
Erlend
upphæð |
Lán
í krónum |
|
Svissneskur
franki |
25 |
54,23 |
691.499,17 |
37.500.000 |
|
Japanskt
jen |
15 |
0,5595 |
40.214.477,21 |
22.500.000 |
|
Bandaríkjadalur |
35 |
65,88 |
796.903,46 |
52.500.000 |
|
Evra |
25 |
87,94 |
426.427,11 |
37.500.000 |
|
Samtals |
100 |
|
|
150.000.000 |
Sé þá litið til gengis hverrar
myntar á útborgunardegi þar sem gengi sé tiltekið og íslensku og erlendu
fjárhæðirnar séu þegar til staðar.
SPRON hafi lagt andvirðið inn á
reikninga varnaraðila hjá sparisjóðnum í íslenskum krónum. Sú fjárhæð sé sú sama
og fram komi í íslenskum krónum í lánssamningunum að frádregnum kostnaði.
Sóknaraðili hafi þannig efnt greiðsluskyldu sína vegna útborgunar lánsins með
því að greiða lánið út í íslenskum krónum. Þá hafi varnaraðili innt allar
greiðslur af hendi á gjalddögum lánanna með íslenskum krónum af reikningi
varnaraðila í íslenskum krónum. Allar greiðslur hafi verið inntar af hendi í
samræmi við grein lánssamningsins nr. 5.3 þar sem varnaraðili heimili SPRON að
skuldfæra tiltekinn reikning varnaraðila í sparisjóðnum. Báðir samningsaðilar
hafi þannig efnt meginskyldur sínar samkvæmt lánssamningnum með greiðslum í
íslenskum krónum. Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 603/2010 og 604/2010 hafi
niðurstaðan orðið sú að um væri að ræða lán í íslenskum krónum og talið að þar
skipti mestu að lánsfjárhæðin væri ákveðin í íslenskum krónum og hana bæri að
endurgreiða í sama gjaldmiðli. Þá hafi rétturinn í dómum í málum nr. 30/2011 og
31/2011 tekið þá afstöðu að lánssamningar, sem hefðu að geyma sömu skilmála og
fram komi í lánssamningum í þessu máli, hafi verið um skuldbindingar í
íslenskum krónum.
Í lánssamningi um erlenda mynt
gerist þess engin þörf að taka fram fjárhæð í íslenskum krónum. Erlendi
gjaldmiðillinn standi einn fyrir sínu og lánveiting í erlendri mynt sé
fullkomlega heimil og þurfi engan stuðning frá íslensku krónunni. Sóknaraðili hafi ekki útskýrt af
hverju lánssamningarnir hafi tiltekið viðmið við íslenskar krónur, hafi verið
um lán í erlendum gjaldmiðlum að ræða. Svar
við þessu skipti mjög miklu máli við greiningu á því hvort lán sé í erlendri
eða innlendri mynt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 155/2011.
Í grein 5.6 í lánssamningi nr. 9815
sé heimilað að breyta þeirri myntsamsetningu sem lagt hafi verið af stað með
til verðtryggingar láninu. Það sé
vandséð af hverju erlent lán ætti að miðast við aðrar myntir ef lánið væri í
raun í erlendri mynt. Með þessu ákvæði hafi varnaraðila verið veitt heimild til
að óska þess að breyta vísitölugrundvelli lánsins meðan á lánstíma stæði. Hafi lánið í reynd verið í erlendri
mynt hefði heimildarákvæðið um breytingu á andlagi lánsfjárhæðar ekki kveðið á
um breytingu á viðmiðun heldur beinlínis um sölu þess gjaldmiðils sem lánað var
í og kaup á öðrum gjaldmiðli. Þetta
sýni glöggt að lánið hafi aldrei verið í erlendri mynt heldur í íslenskum
krónum með tengingu við erlenda gjaldmiðla til verðtryggingar, sbr. dóm
Hæstaréttar í máli nr. 155/2011.
Varnaraðili vísar til þess að með
lögum nr. 151/2010 hafi verið settar reglur um hvernig skyldi taka á því að
verðtrygging lána reyndist ekki fyrir hendi vegna ólögmætis þeirra. Við
útreikning á kröfu þessa máls skuli farið að þeim lögum að undanskildu því að
vaxtareikningur frá upphafstíma lánsins með vöxtum birtum af Seðlabanka Íslands
samkvæmt 1. ml. 4. gr. laga nr. 38/2001 hafi verið
dæmdur ólögmætur. Styðjast skuli við þá vexti aðeins miðað við óuppgerða
gjalddaga og vaxtatímabil. Sóknaraðili
hafi endurreiknað lán varnaraðila á þessum forsendum og séu aðilar að öllu
leyti bundnir af þeim endurútreikningi að frágengnum vaxtaútreikningnum. Í fyrri
kröfum sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á varnaraðila hafi verið byggt á
endurútreikningi með vísan til áður nefndra laga. SPRON hafi samið
lánssamningana og hafi aðstöðumunur aðila verið mikill. Því beri sóknaraðili
einn ábyrgð á því að binda lánssamninginn við gengi erlendra gjaldmiðla til
verðtryggingar.
Sóknaraðili haldi því fram að
heildarskuld varnaraðila við hann sé 1.068 þúsund milljónir króna, eða rúmur
milljarður króna. Sé þá gengið út frá því að lánin séu lögleg erlend lán. Séu
a.m.k þrjú lánanna ólögleg telji sóknaraðili skuldina vera samtals um 516
miljónir króna.
Varnaraðili hafi óskað eftir
útreikningi hjá skoðunarmanni félagsins á heildarskuld sinni við sóknaraðila og
hafi sá útreikningur farið þannig fram að fundinn sé höfuðstóll skuldarinnar
með því að lækka upprunalega höfuðstólinn með þeim innborgunum sem inntar hafi
verið af hendi og þær vaxtagreiðslur sem greiddar hafi verið fram að
gjaldfellingardegi látnar standa sem fullnaðargreiðsla vaxta fram að þeim tíma. Þessi aðferð sé í samræmi við dóm
Hæstaréttar í máli nr. 464/2012.
Niðurstöður útreikninga varnaraðila
byggi á því að frá og með gjaldfellingardegi lánanna séu reiknaðir á
höfuðstólinn í fyrsta lagi samningsvextir, í öðru lagi vextir Seðlabanka
Íslands og í þriðja lagi dráttarvextir. Allir útreikningarnir nái til apríl
2013 eins og útreikningur sóknaraðila miðist við. Miðað við stöðu lánanna 31. desember 2012 sé niðurstaða þessara
útreikninga eftirfarandi:
Lán nr. 9432: Heildarskuld í apríl
2013, sé reiknað með samningsvöxtum, 35.704.704 krónur, með vöxtum Seðlabanka
Íslands 39.344.200 krónur og með dráttarvöxtum 46.185.556 krónur. Þvert á skoðun varnaraðila telji
sóknaraðili þetta lán vera erlent lán en reynist svo vera muni staða þess í
apríl 2013 vera með samningsvöxtum frá gjaldfellingu 81.001.710 krónur, með
vöxtum Seðlabanka Íslands 87.271.485 krónur og með dráttarvöxtum 106.840.386
krónur.
Lán nr. 9815: Heildarskuld í apríl
2013, sé reiknað með samningsvöxtum, 150.088.081 króna, með vöxtum Seðlabanka
Íslands 176.402.894 krónur og með dráttarvöxtum 218.574.873 krónur.
Lán nr. 9936: Heildarskuld í apríl
2013, sé reiknað með samningsvöxtum, 90.592.357 krónur, með vöxtum Seðlabanka
Íslands 99.698.253 krónur og með dráttarvöxtum 120.244.205 krónur.
Lán nr. 10293: Heildarskuld í apríl
2013, sé reiknað með samningsvöxtum, 45.812.009 krónur, með vöxtum Seðlabanka
Íslands 52.561.138 krónur og með dráttarvöxtum 65.879.743 krónur.
Samtals skuld vegna þessara fjögurra
lána í apríl 2013 sé því með samningsvöxtum 322.197.151 króna, með vöxtum
Seðlabanka Íslands 368.006.485 krónur, með dráttarvöxtum 451.550.059 krónur. Sé
lán nr. 9432 talið erlent lán sé heildarskuldin í apríl 2013 512.204.889
krónur.
Samkvæmt yfirlýsingu eiganda
varnaraðila taki hann á sig ábyrgð á 70 milljónum til greiðslu skulda
varnaraðila fari þær ekki yfir 517 milljónir króna. Varnaraðili hafi sýnt fram á að hann geti staðið við greiðslu
skuldar sinnar við sóknaraðila. Sé þá reiknað með að hin veðsetta eign að
Brautarholti 10-14 sé að verðmæti um 450 milljónir króna. Varnaraðili byggir
mat sitt á verðmæti eignarinnar á mati dómkvadds matsmanns frá því í október
2012 og til yfirlýsingar matsmanns 17. september 2013 þar sem hann telji að
sambærilegt húsnæði hafi hækkað í verði um a.m.k. 12% frá því í október 2012.
Þessar tryggingar eigi að duga sé tekið tillit til þess að þrjú lánanna séu
ólögleg en eitt löglegt. Sóknaraðili hafi reiknað út að lánin standi í u.þ.b.
517 milljónum króna og varnaraðili að þau standi í 512 milljónum króna miðað
við sama útreikningstíma.
Með þessu hafi varnaraðili fullnægt
áskilnaði 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um
að sýna fram á að geta staðið skil á lánum. Verði því ekki fallist á kröfu
sóknaraðila með vísan til ákvæðisins.
Meginreglan sé áfram sú að ágreining
aðila eigi að leysa með dómsniðurstöðu.
Eins og hér standi á sé ágreiningur um útreikning höfuðstóls og vaxta
sem og útreikning á öllum innborgunum og vöxtum sem á þær eigi að falla.
Um lagarök vísar varnaraðili til
laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og til laga nr. 7/1936 um
samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá vísar hann til laga nr. 38/2001
um vexti og verðtryggingu, einkum 3. og 4. gr., svo og 13. og 14. gr. og laga
nr. 151/2010. Varðandi kröfu um málskostnað vísar varnaraðili til 129. og 130.
gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Varnaraðili
krefst þess aðallega að þessu máli verið vísað frá dómi. Frávísunarkrafa
varnaraðila byggir annars vegar á því að með bókun, framlagðri 31. janúar 2013
í fyrra máli sóknaraðila um töku bús varnaraðila til gjaldþrotaskipta, hafi
sóknaraðili viðurkennt að krafa hans hafi verið nægilega tryggð. Sóknaraðili
geti ekki síðar fallið frá þessari yfirlýsingu sinni, reiknað kröfu sína á
nýjan leik og krafist á ný gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila á grundvelli 5. tl. 2 mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti
o.fl. Þá hafi sóknaraðili í fyrri kröfum sínum um gjaldþrotaskipti á búi
varnaraðila og í stefnu á hendur honum sett fram mismunandi kröfufjárhæðir,
þótt öll málin snúist um sömu lánin, og setji enn fram nýjar kröfufjárhæðir í
þessu máli. Um þetta vísar varnaraðili til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála og 3. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili felldi niður mál sitt
31. janúar 2013, þar sem hann krafðist þess að bú varnaraðila yrði tekið til
gjaldþrotaskipta á grundvelli skuldar hans samkvæmt sömu lánssamningum og krafa
hans í þessu máli byggir á. Samkvæmt 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2.
mgr. 168. gr. og 3. mgr. 166. gr. laganna, gilda almennar reglur um meðferð einkamála
í héraði um meðferð mála samkvæmt XXIV. kafla laga nr. 21/1991, svo fremi sem
annað leiðir ekki af ákvæðum þeirra laga. Af því leiðir að um réttaráhrif
niðurfellingar máls sem rekið er eftir XXIV. kafla laga nr. 21/1991, þ. á m.
ágreiningsmáls um kröfu lánardrottins um að bú skuldara verði tekið til
gjaldþrotaskipta, gilda almennar reglur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála
um niðurfellingu mála. Samkvæmt þeim lögum stendur ekkert því í vegi að
stefnandi máls sem fellir mál sitt niður höfði síðar nýtt mál um sama
sakarefni. Eru engin efni til að draga aðra ályktun um mál sem rekin eru eftir
XXIV. kafla laga nr. 21/1991. Efni fyrrnefndrar bókunar sóknaraðila 31. janúar
2013 þykir ekki hagga þessari niðurstöðu. Verður málinu því ekki vísað frá á þessum
grundvelli.
Einungis verður leyst úr þeim kröfum
og málsástæðum sem sóknaraðili gerir í þessu máli og koma kröfur og
málatilbúnaður í eldri málum sóknaraðila ekki til skoðunar. Getur það því ekki
varðað frávísun málsins þótt sóknaraðili setji fram í þessu máli aðra fjárkröfu
byggða á öðrum málsástæðum en í fyrri málum hans gegn varnaraðila. Í beiðni
sóknaraðila í þessu máli er skýrt tekið fram hvaða kröfur hann telji sig eiga
gegn varnaraðila og gerð er nákvæm grein fyrir því í beiðninni hvernig hann reiknar
út stöðu hvers láns. Verður ekki séð að neinir gallar séu á málatilbúnaði
sóknaraðila í þessu máli sem varði frávísun þess frá dómi. Samkvæmt þessu
verður frávísunarkröfu varnaraðila hafnað.
Það er ekki gert að skilyrði í 2.
mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 að krafa sé óumdeild. Ráð er fyrir því gert í 4.
mgr. 70. gr. og 168. gr., sbr. 3. mgr. 166. gr., laga nr. 21/1991 að skuldari
geti mótmælt kröfu um gjaldþrotaskipti og því eru ekki settar sérstakar skorður
hvaða varnir skuldari getur haft uppi. Skuldari getur þannig í ágreiningsmáli
sett fram varnir er varða réttmæti kröfu þess sem hefur hana uppi. Af þessu
leiðir að ágreiningur aðila um kröfu lánardrottins stendur ekki í vegi fyrir
því að bú skuldara sé tekið til gjaldþrotaskipta.
Sóknaraðili sendi varnaraðila
áskorun samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr.
21/1991 sem varnaraðili svaraði. Þar kemur fram að varnaraðili verði innan skamms tíma fær um að greiða skuldir sínar við
sóknaraðila. Það verði gert með eignum varnaraðila. Frekari upplýsingar um
greiðsluformið verði gefnar í sérstakri greinargerð, verði eftir þeim kallað.
Þótt ekki verði gerðar ríkar kröfur til svars skuldara við áskorun verður
skuldari þó að setja fram einhverjar röksemdir fyrir afstöðu sinni, sbr. dóm
Hæstaréttar Íslands í máli nr. 274/2011, sbr. einnig dóm í máli nr. 744/2013.
Varnaraðili staðhæfir að vísu að hann geti greitt skuld sína en hann setur
engar upplýsingar fram um eignir sínar eða hvernig hann hyggist nota þær til að
greiða skuld sína við sóknaraðila. Þá er þessa að geta að samkvæmt
lánssamningum aðila skal varnaraðili endurgreiða skuld sína með peningum og
verður sóknaraðila ekki gert að taka eignir upp í skuldina. Svar varnaraðila
uppfyllir að mati dómsins því ekki skilyrði 5. tl. 2.
mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt upphafsorðum 2. mgr. 65. gr. verður bú varnaraðila því tekið til
gjaldþrotaskipta nema hann sýni fram á að hann sé allt að einu fær um að standa
full skil á skuldbindingum sínum þegar þær falla í gjalddaga eða verði það
innan skamms tíma.
Aðilar málsins deila um fjárhæð
skuldar varnaraðila samkvæmt fjórum lánssamningum varnaraðila við forvera
sóknaraðila, Sparisjóð Reykjavikur og nágrennis (SPRON). Sóknaraðili byggir á
því að lánin séu lögmæt lán í erlendum gjaldmiðlum en varnaraðili hafnar því og
telur að lánin séu í íslenskum krónum og gengistryggð miðað við gengi erlendra
gjaldmiðla, í trássi við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar í
málum þar sem málsaðilar hafa deilt um það hvort lán væri í erlendum
gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, verður
við úrlausn slíks ágreinings fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis
þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi
skipti einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin sé tilgreind í þeim gerningum,
sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 3/2013, 337/2013 og 391/2013.
Í
lánssamningi nr. 9432 segir að varnaraðili taki að láni 267.500 svissneska
franka (CHF), 29.741.000 japönsk jen (JPY) og 172.140 evrur (EUR). Í
samningnum er hvergi minnst á að íslenskar krónur séu teknar að láni og engin
lánsfjárhæð í íslenskum krónum er sett fram. Tilgreining á forsíðu
lánssamningsins að hann sé ,,í erlendum myntum“, tilgreining vaxta sem LIBOR-vextir, ákvæði um að greiði varnaraðili greiðslur í
íslenskum krónum skuli hann greiða samkvæmt sölugengi bankans og ákvæði um að
við uppsögn eða gjaldfellingu sé bankanum heimilt að umreikna allt lánið í
íslenskar krónur, benda til þess að lánið sé erlent lán. Í samningnum er mælt
fyrir um að varnaraðili heimili að tiltekinn bankareikningur hans, sem ekki er
deilt um að sé reikningur í íslenskum krónum, verði skuldfærður fyrir greiðslum
samkvæmt lánssamningnum. Ekki er heldur um það deilt að lánið var greitt út í
íslenskum krónum. Hæstiréttur hefur slegið því föstu í dómaframkvæmd sinni að
sé fjárhæð skýrlega tilgreind í hinni erlendu mynt sé lánið löglegt lán í
þeirri mynt. Ekki skiptir máli þótt greiðslur fari fram í íslenskum krónum,
sbr. t.d. dóma réttarins í málum nr. 524/2011, 3/2013 og 446/2013. Í dómum
réttarins í málum nr. 603/2010, 604/2010, 30/2011 og 31/2011 reyndi hins vegar
á lán þar sem lánsfjárhæð var tilgreind í íslenskum krónum og einungis vísað
til prósentuhlutfalls erlendra gjaldmiðla, án þess að fjárhæðar þeirra væri
getið. Geta þeir dómar ekki verið fordæmisgildi við úrlausn þess hvort umræddur
lánssamningur sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum. Er því ekki hægt að
fallast á það með varnaraðila að engu máli skipti hvort lánsfjárhæð sé
tilgreind í erlendum gjaldmiðli eða prósentur hvers gjaldmiðils. Þegar litið er
til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að lán samkvæmt lánssamningi
nr. 9432 sé lögmætt lán í erlendri mynt.
Lánssamningar
nr. 9815, 9936 og 10293 eru að mestu samhljóða. Fram kemur í samningi nr. 9815
að varnaraðili taki að láni ,,jafnvirði 150.000.000 ISK
í eftirtöldum myntum: CHF 626.671,12 JPY 174.499.767“. Í lánssamningi nr. 9936 segir að
varnaraðili taki að láni ,,jafnvirði 80.000.000 ISK í
eftirtaldri mynt: CHF
1.477.923,52“. Loks segir í lánssamningi nr. 10293 að varnaraðili taki að láni
,,jafnvirði 43.891.587 ISK í eftirtöldum myntum: JPY (100%) 84.781.895“. Eins og í lánssamningi nr. 9432 er
tilgreint á forsíðu lánssamninganna að þeir séu ,,í erlendum myntum“, vextir
eru tilgreindir sem LIBOR-vextir, kveðið er á um að
greiði varnaraðili greiðslur í íslenskum krónum skuli hann greiða samkvæmt
sölugengi bankans og mælt er fyrir um að við uppsögn eða gjaldfellingu sé
bankanum heimilt að umreikna allt lánið í íslenskar krónur. Í samningunum er á
sama hátt og í lánssamningi nr. 9432 mælt fyrir um að varnaraðili heimili að
tiltekinn bankareikningur hans, sem ekki er deilt um að sé reikningur í
íslenskum krónum, verði skuldfærður fyrir greiðslum samkvæmt samningunum. Sem
fyrr benda þessi ákvæði til þess að lánin séu erlend lán.
Þótt
taka megi undir það sjónarmið varnaraðila að ónauðsynlegt sé að tilgreina
fjárhæð í íslenskum krónum í samningum um erlend lán getur það ekki leitt til
þess að lán teljist í íslenskum krónum, þegar fjárhæð er skýrt tilgreind í
erlendum gjaldmiðli, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 524/2011 og
446/2013.
Í
lánssamningum nr. 9815 og 9936 eru samhljóða ákvæði þess efnis annars vegar að
varnaraðili staðfesti að hann hafi verið upplýstur um og skilji að hugsanlegar
gengissveiflur geti haft þau áhrif að ,,heildarskuld hans í þeim gjaldmiðlum
sem lánið samanstendur af hverju sinni [geti] orðið hærri en upphafleg
lánsfjárhæð“, hins vegar að varnaraðila sé ljóst og hann staðfesti að
sparisjóðnum beri engin skylda til þess að upplýsa hann um ,,hækkanir er kunna
að verða á lánsfjárhæðinni vegna óhagstæðra gengissveiflna“. Þótt taka megi
undir það með varnaraðila að þessi ákvæði séu óljós og til þess fallin að vekja
vafa um það hvort lánin séu í erlendri mynt geta þau að mati dómsins ekki
hnekkt skýrum ákvæðum samninganna sem fyrr er lýst og sem benda til þess að
lánin séu erlend lán.
Að
auki er í lánssamningi nr. 9815 kveðið á um ,,Gjaldmiðlaskipti“ í grein 5.6.
Þar segir í fyrsta málslið að varnaraðila sé ,,heimilt að breyta gjaldmiðli
lánsins í sérhvern þann gjaldmiðil sem sparisjóðurinn hefur aðgang að og
Seðlabanki Íslands skráir, enda hafi lántakandi tilkynnt sparisjóðnum um val
sitt á gjaldmiðli/gjaldmiðlum eigi síðar en kl. 10 að morgni að íslenskum tíma
þremur bankadögum fyrir lokadag viðkomandi vaxtatímabils“. Þótt í ákvæðinu sé
ekki notað orðalagið að selja og kaupa gjaldmiðla kemur þar skýrt fram að
heimilt sé að breyta gjaldmiðli lánsins í annan gjaldmiðil. Orðalag ákvæðisins
styður ekki þá málsástæðu varnaraðila að lánið sé í íslenskum krónum,
gengistryggt við gengi erlendra gjaldmiðla.
Ekki
getur skipt máli þótt lánsfjárhæðir kunni að hafa verið ákveðnar með hliðsjón
af því að þeim væri hægt að skipta í tilteknar fjárhæðir í íslenskum krónum,
enda skiptir það ekki máli þótt greiðslur fari fram í íslenskum krónum, séu
lánsfjárhæðir á annað borð skýrt tilgreindar í erlendum myntum, eins og áður
sagði.
Samkvæmt
þessu verður að fallast á það með sóknaraðila að lánssamningar nr. 9815, 9936
og 10293 mæli fyrir um lán í erlendri mynt.
Ekki
er tölulegur ágreiningur um útreikning sóknaraðila á kröfu sinni miðað við að
lán varnaraðila séu í erlendri mynt, eða um það að verðmæti fasteignar
varnaraðila er til muna lægra en sem nemur fjárhæð kröfunnar. Ábyrgðarloforð
Guðmundar Kristinssonar er bundið því skilyrði að krafa sóknaraðila sé ekki
hærri en 517 milljónir króna og kemur því ekki til skoðunar. Eru skilyrði 2.
mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 því uppfyllt, enda hefur varnaraðili ekki sýnt
fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum
sínum eða verði það innan skamms tíma. Ber því að
fallast á kröfu sóknaraðila og taka bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta.
Í
ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, skal varnaraðili
greiða sóknaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.
Ásbjörn Jónasson, settur
héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Vegna mikilla anna dómarans hefur
uppkvaðning úrskurðarins dregist fram yfir lögbundinn frest samkvæmt 1. mgr.
115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.
Úrskurðarorð:
Bú
varnaraðila, Guðmundar Kristinssonar ehf., er tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila
500.000 krónur í málskostnað.