Hæstiréttur íslands

Mál nr. 422/2002


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Umboð
  • Kröfuréttur


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. apríl 2003.

Nr. 422/2002.

Lína Jia

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

Má Gunnþórssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Lausafjárkaup. Umboð. Heimildarskortur. Kröfuréttur.

M höfðaði mál á hendur L til heimtu á kaupverði bifreiðar, en samkvæmt afsali sem M gaf út til L fyrir bifreiðinni fólst kaupverðið í yfirtöku L á veðskuld. Hélt M því fram að L hafi ekki staðið við að láta skuldaraskipti fara fram og hann því sjálfur annast greiðslu afborgana af veðskuldinni. Málsvörn L var meðal annars reist á því að M hafi ekki verið eigandi umræddrar bifreiðar, sem hann þó gaf út afsal fyrir til hennar, heldur S, fyrrverandi eiginmaður hennar. Lagði L fram ýmis gögn í þessu sambandi. Talið var að M hafi ekki sýnt fram á rétt sinn til þeirra fjármuna, sem hann krafði L um, en hann hafði hvorki gefið fullnægjandi skýringar á þeim gögnum sem L lagði fram né orðið við áskorunum hennar um framlagningu gagna. Var L því sýknuð af kröfu M.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. september 2002 og krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Af hálfu áfrýjanda er komið fram að hún hafi öðlast íslenskt ríkisfang á árinu 2000 og þá tekið upp eiginnafnið Lína. Sé hún skráð Lína Jia í þjóðskrá.

I.

Deila málsaðila er sprottin af bifreiðarkaupum, en hinn 24. nóvember 1998 gaf stefndi út afsal til áfrýjanda fyrir bifreiðinni JH 376 af gerðinni Merzedes Bens, sem þá var tíu ára gömul. Kemur fram í afsalinu að á bifreiðinni hvíldi lán frá Samvinnusjóði Íslands hf., en ekki aðrar veðskuldir. Höfðaði stefndi málið til heimtu kaupverðsins, sem samkvæmt afsalinu fólst í yfirtöku áfrýjanda á nefndri veðskuld. Hafi hún ekki staðið við að láta breyta nafni skuldarans hjá kröfuhafa, svo sem um hafi verið samið, og hann sem skráður skuldari því neyðst til að greiða lánið að undanskilinni síðustu afborgun, sem áfrýjandi hafi greitt. Nemi stefnufjárhæðin samanlögðum greiðslum sínum á afborgunum, vöxtum og kostnaði, sem af þessu hafi hlotist, á tímabilinu frá 28. janúar 1999 til 26. júní 2000. Áfrýjandi lýsir atvikum hins vegar svo að hún hafi ekki keypt bifreiðina af stefnda heldur þáverandi eiginmanni sínum, Sævari Erni Helgasyni, sem jafnframt sé mágur stefnda. Hafi hún greitt Sævari 700.000 krónur fyrir bifreiðina með peningum og eftirgjöf á skuld og engin samskipti átt við stefnda í tengslum við bifreiðarkaupin. Hún hafi heldur ekki gefið Sævari umboð til að skuldbinda hana við yfirtöku á láni og ritun nafns hennar á tilkynningu til Skráningarstofunnar hf. um eigandaskipti á bifreiðinni sé falsað. Hafi Sævar að öllum líkindum verið þar að verki.

Við skýrslugjöf fyrir dómi kvaðst stefndi hafa átt bifreiðina frá því í apríl 1997 þar til hann seldi áfrýjanda hana. Hafi hann og Sævar „gert út um kaupin við eldhúsborðið“ heima hjá stefnda og Sævar undirritað skjöl í tengslum við þau fyrir áfrýjanda. Þegar vanskil urðu hafi stefndi greitt af láninu í stað þess að rifta kaupunum og taka bifreiðina til sín aftur eða leita aðstoðar lögmanns við innheimtu, enda hafi verið um að ræða fólk í fjölskyldu hans. Þær skýringar hafi jafnan verið gefnar að málið væri alveg að leysast og senn yrði greitt, sem ekki hafi orðið. Sævar Örn Helgason gaf einnig skýrslu fyrir dómi og kom fram að á þessum tíma hafi hann og áfrýjandi verið í hjúskap, en þau séu nú skilin og sé eignaskiptum ólokið. Áfrýjandi hafi ekki skilið íslensku og lítið í ensku og hann því undirritað skjöl vegna bifreiðarkaupanna samkvæmt munnlegu umboði frá henni. Hafi áfrýjanda verið kunnugt um veðskuldina. Hann hafi mjög oft undirritað skjöl fyrir hana og hún yfirleitt ekki komið nálægt neinum viðskiptum „nema það væri alveg nauðsynlegt“. Bifreiðin hafi í raun verið keypt í þágu þeirra beggja, en í reynd hafi áfrýjandi jafnan notað hana. Ástæða þess að þau hafi ekki bæði verið skráðir eigendur hafi verið sú að hann hafi skuldað skatta og bifreiðinni verið haldið frá skuldheimtumönnum hans með þessu móti. Hafi áfrýjandi ekki fengist til að ganga frá skuldaraskiptum á áhvílandi láni því hún „vildi aldrei skrifa undir neitt sem hún gæti þurft að borga“, þannig að öll gjöld hafi lent á honum. Gekkst Sævar við því að hafa ritað nafn áfrýjanda á áðurnefnda sölutilkynningu, en afsal fyrir bifreiðinni undirritaði hann eigin nafni „fh Jia Rui“. Í framburði áfrýjanda fyrir dómi kom fram að Sævar hafi ekki skýrt henni frá veðskuldinni og hún ekkert umboð veitt honum til að eiga viðskipti um bifreið við stefnda fyrir sína hönd. Telur hún sig vera eiganda bifreiðarinnar þar eð hún hafi greitt fyrir hana, en engin skrifleg gögn hafi farið milli hennar og Sævars af því tilefni. Ekki kvaðst hún vita hvort bifreiðin væri skráð á hennar nafn, enda hafi hún ekki annast slíkt sjálf. Spurningu um greiðslu tryggingariðgjalda af bifreiðinni svaraði hún á þann veg að hún fái „bara fullt af gluggaumslögum“ og borgi þau þótt hún viti ekki fyrir hvað hún sé að borga.

Í greinargerð sinni til héraðsdóms skoraði áfrýjandi á stefnda að leggja fram gögn um innborganir á umrædda veðskuld og lýsti jafnframt yfir að flest benti til að raunverulegur greiðandi hafi verið Sævar Örn Helgason, sem seldi henni bifreiðina eða „taldi henni trú um að svo væri“. Stefndi varð ekki við áskorun áfrýjanda. Taldi áfrýjandi einnig tortryggilega þá staðhæfingu stefnda að hann hefði sjálfur greitt af láninu í ljósi þess að hann hafi ekki tilkynnt henni um það eða endurkrafið hana fyrr en nær þremur árum eftir að fyrsta greiðslan var innt af hendi og rúmlega einu ári eftir þá síðustu. Hafi sambúð áfrýjanda og Sævars verið lokið þegar stefndi krafði hana fyrst um greiðslu 19. júlí 2001.

II.

Báðir málsaðilar hafa lagt ný gögn fyrir Hæstarétt. Meðal þeirra, sem áfrýjandi lagði fram, er tilkynning stefnda um eigandaskipti ökutækis, en samkvæmt henni seldi stefndi 22. apríl 1998 Bílapartasölu Garðabæjar sf. bifreiðina JH 376 og undirritaði Sævar Örn Helgason tilkynninguna fyrir hönd kaupandans. Einnig lagði áfrýjandi fram símbréf Sjóvá-Almennra trygginga hf. til lögmanns hennar þess efnis að framannefndan dag hafi ábyrgðartrygging verið fengið fyrir bifreiðina vegna kaupandans. Þar eð vanskil urðu á greiðslu iðgjalds hafi tryggingin verið felld úr gildi í nóvember á sama ári. Telur áfrýjandi augljóst að tilkynningin um eigandaskiptin hafi ekki verið send Skráningarstofunni hf., en bæði stefndi og Sævar hafi tengst nefndri bílapartasölu, svo sem fram komi í dómi Hæstaréttar 1. mars 2001 í máli nr. 342/2000. Telur áfrýjandi að þetta með öðru renni stoðum undir þá málsvörn sína að stefndi hafi alls ekki átt bifreiðina í raun og að afsalið til hennar fái ekki samrýmst áðurnefndri sölutilkynningu. Þá hefur hún lagt fram fyrirspurnarbréf sitt til Frjálsa fjárfestingarbankans hf. um það hver hafi innt af hendi greiðslur á tilteknum dögum árið 2000 inn á veðskuldabréfið, sem um ræðir í málinu. Með svarbréfi bankans fylgdi ljósrit fjögurra kvittana vegna greiðslna á árinu 2000. Var tekið fram í svarinu að neðst á elstu kvittuninni kom fram að Sævar Örn Helgason hafi greitt og næstu tvær kvittanir beri með sér að greitt hafi verið af sama reikningi. Megi því leiða líkur að því að Sævar hafi einnig greitt í þeim tilvikum. Fjórða kvittunin, sem sé vegna lokagreiðslu af bréfinu, beri ekki annað með sér en að áfrýjandi hafi þá greitt. Áfrýjandi hefur loks lagt fram útskrift af vefsíðu heimabanka sparisjóða, sem hann telur sanna að Sævar hafi verið eigandi umrædds reiknings 29. janúar 2003.

Í kjölfar framlagningar áfrýjanda á nýjum gögnum hefur stefndi einnig lagt fram gögn. Meðal þeirra er ódagsett og óvottfest bréf Ólafs Sævarssonar, sonar Sævars Arnar Helgasonar, þar sem hann staðfesti að hann hafi fengið lánað fé hjá stefnda þegar Ólafur stofnaði einkahlutafélagið Jákvæðni. Lánið hafi hann greitt til baka „með greiðslu til Samvinnusjóðsins vegna JH 376 með ávísunum af reikningi nr. 3460 sem var reikningur Jákvæðni ehf. í Sparisjóði Hafnarfjarðar.“ Framlögð tilkynning um stofnun Jákvæðni ehf. ber með sér að félagið hafi verið stofnað 3. febrúar 2000 og heldur stefndi fram að Sævar Örn Helgason hafi haft prókúruumboð fyrir það þegar þrjár greiðslur voru inntar af hendi inn á veðskuldabréfið á árinu 2000. Hann hafi því verið að greiða fyrir hönd einkahlutafélagsins en ekki sjálfan sig. Hefur stefndi loks lagt fram útskrift frá Sparisjóði Hafnarfjarðar, sem hann telur sýna að Jákvæðni ehf. hafi átt reikninginn, sem greitt var af, en útskriftin er dagsett 5. febrúar 2003.

III.

Svo sem fram er komið er málsvörn áfrýjanda meðal annars reist á því að stefndi hafi ekki verið eigandi umræddrar bifreiðar, sem hann þó gaf út afsal fyrir til hennar, heldur Sævar Örn Helgason. Einnig er á því byggt að stefndi hafi ekki heldur greitt veðskuldina því það hafi Sævar gert. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti mótmælti stefndi því að hann hefði selt Bílapartasölu Garðabæjar sf. bifreiðina, en gaf þó enga skýringu á tilkynningu þeirri um eigandaskipti á ökutæki og samningi um vátryggingu, sem áður var greint frá. Hann varð heldur ekki við áskorun áfrýjanda um að leggja fram gögn, sem sýndu hver innti af hendi greiðslur afborgana og vaxta af nefndu skuldabréfi. Þegar áfrýjandi hafði fengið og lagt fyrir Hæstarétt gögn um það frá Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., brást stefndi við með því að gefa skýringu um greiðslu frá Jákvæðni ehf., sem hann hafði ekki nefnt áður, hvorki í stefnu né skýrslu sinni fyrir dómi. Þá hefur áfrýjandi neitað að hafa gefið Sævari Erni Helgasyni umboð til að eiga bifreiðaviðskipti við stefnda fyrir sína hönd, svo sem fram er komið. Þegar allt framangreint er virt verður ekki fallist á að stefndi hafi sýnt fram á rétt sinn til þeirra fjármuna, sem hann krefst úr hendi áfrýjanda. Verður niðurstaða málsins samkvæmt því sú að áfrýjandi verður sýknuð af kröfu stefnda. Verður stefndi jafnframt dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Lína Jia, er sýkn af kröfu stefnda, Más Gunnþórssonar.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var 30. maí síðastliðinn, er höfðað 3. desember 2001 af Má Gunnþórssyni, Fagrabergi 10, Hafnarfirði, gegn Rui Jia, Hamraborg 20a, Kópavogi.

Stefnandi krefst þess, að stefnda verði dæmd til að greiða honum 880.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 30.000 krónum frá 28. janúar 1999 til 24. febrúar 1999, af 130.000 krónum frá þeim degi til 1. desember 1999, af 280.000 krónum frá þeim degi til 10. apríl 2000, af 480.000 krónum frá þeim degi til 15. maí 2000, af 680.000 krónum frá þeim degi til 26. júní 2000 og af 880.000 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða henni málskostnað.

I.

Stefnandi höfðar mál þetta til greiðslu skuldar vegna sölu hans á fólksbifreiðinni JH-376 með afsali, dagsettu 25. nóvember 1998, til stefndu. Hafi umsamið kaupverð verið yfirtaka láns hjá Samvinnusjóði Íslands, sem hvílt hafi á bifreiðinni með 1. veðrétti. Hafi stefnda ekki staðið í skilum með að  greiða veðskuldina, sem hafi verið gjaldfelld og höfuðstóll hennar þá numið 728.343 krónum. Hafi stefnandi orðið að greiða skuldina, ásamt vöxtum og kostnaði, samtals 880.000 krónur, með 6 greiðslum á tímabilinu frá 28. janúar 1999 til 26. júní 2000. Stefnda hafi hins vegar innt af hendi síðustu greiðslu vegna skuldabréfsins 1. september 2000, að fjárhæð 167.706 krónur. Stefnda fullyrðir hins vegar, að hún hafi ekki keypt bifreiðina af stefnanda, heldur hafi eiginmaður hennar, Sævar Örn Helgason, selt henni hana. Hafi stefnda greitt honum kaupverðið, 700.000 krónur, en hann aldrei staðið henni skil á pappírum vegna kaupanna. Hafi bifreiðin átt að vera kvaðalaus og stefnda ekki tekið á sig aðrar skuldbindingar en að greiða Sævari Erni kaupverðið. Hafi hann því ritað undir afsal vegna sölu stefnanda á bifreiðinni án vitundar stefndu og í heimildarleysi. Þá hafi hann falsað nafn stefndu á sölutilkynningu, dagsetta 24. nóvember 1998, vegna eigendaskipta á bifreiðinni. Stefnda kærði Sævar Örn til lögreglu vegna ætlaðrar fölsunar nafns hennar á sölutilkynninguna með bréfi, dagsettu 15. desember 2001, en með bréfi lögreglustjórans í Hafnarfirði frá 14. janúar 2002 var kærunni vísað frá. Þeirri ákvörðun var skotið til ríkissaksóknara 5. febrúar 2002, sem framsendi erindið til lögreglustjóra til efnislegs rökstuðnings 19. sama mánaðar, og að fengnum rökstuðningi lögreglustjóra í bréfi 28. febrúar 2002 var beiðni stefndu um opinbera rannsókn hafnað með bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 10. apríl síðastliðinn.

II.

Stefnandi byggir kröfur sínar á skuldbindingargildi kröfu- og samningsréttar og greiðsluskyldu stefndu. Vísar stefnandi í því sambandi til laga um lausafjárkaup nr. 39/1922. Þá er vísað til afsalsins fyrir bifreiðinni, þar sem ótvíræð greiðsluskylda komi fram varðandi veðskuldabréf það, sem stefnda hafi yfirtekið og skuldbundið sig til að greiða með því að nafnbreyta láninu, sem hún hafi aldrei gert.

 

Stefnda byggir sýknukröfu á því, að hún hafi aldrei átt viðskipti við stefnanda í máli þessu. Sé engum lögformlegum samningi til að dreifa milli þeirra og því ekkert réttarsamband þeirra í millum. Hafi afsalið fyrir bifreiðinni verið undirritað án umboðs og vitneskju stefndu og nafn hennar falsað á sölutilkynninguna. Bendi flest til þess, að eiginmaður hennar, Sævar Örn Helgason, hafi verið raunverulegur kaupandi bifreiðarinnar, en hann síðan selt stefndu bifreiðina eða talið henni trú um, að svo væri. Beri stefnandi halla af því, að ekkert umboð lá fyrir við undirritun afsalsins og hafi honum mátt vera fullkunnugt um, hvernig málið var í pottinn búið, enda sé hann kvæntur systur Sævars. Verði að telja í meira lagi tortryggilegt, að stefnandi hafi greitt af hinni umstefndu skuld í fyrsta sinn 28. september 1998 og eftir það með sjö afborgunum, í síðasta sinn 26. júní 2000, án þess að tilkynna stefndu eða krefja hana um greiðslu fyrr en nær þremur árum eftir að hann greiddi fyrstu afborgunina. Um lagarök vísar stefnda til meginreglna kröfuréttar og laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936.

III.

Í máli þessu liggur fyrir afsal stefnanda til stefndu, dagsett 24. nóvember 1998, þar sem fram kemur, að stefnandi selur og afsalar stefndu bifreiðinni JH-376, sem er af gerðinni Mercedes Benz 230e, árgerð 1998. Samkvæmt afsalinu var endurgjald fyrir bifreiðina fólgið í yfirtöku láns frá Samvinnusjóði Íslands, sem hvíldi með 1. veðrétti á bifreiðinni. Sævar Örn Helgason kveðst hafa ritað undir afsalið fyrir hönd stefndu og jafnframt hafi hann ritað nafn hennar á tilkynningu um eigendaskipti ökutækja, dagsetta 25. mars 1999. Hafi hann gert þetta samkvæmt munnlegu umboði stefndu þar sem hún tali ekki eða skilji íslensku. Kvaðst vitnið áður hafa selt bifreið fyrir hana og þá gert það á sama hátt. Hafi stefnda verið ánægð, er hún fékk tilkynningu um, að bifreiðin var komin á hennar nafn. Í raun hafi bifreiðin verið keypt fyrir þau bæði, en stefnda alltaf verið á henni. Hann hafi því alls ekki selt henni bifreiðina, heldur stefnandi.

Eftir ákvæðum afsals fyrir bifreiðinni bar kaupanda að sjá um ,,nafnabreytingu á láninu”. Þar sem aldrei varð af því, að svo yrði gert, var stefnandi áfram greiðandi skuldarinnar. Fór svo, að bréfið var gjaldfellt og mun höfuðstóll skuldarinnar þá hafa numið 728.343 krónum. Eftir að afsal var gefið út greiddi stefnandi eftirtaldar afborganir af bréfinu samkvæmt gjaldfellingu þess: 30.000 krónur 28. janúar 1999, 100.000 krónur 24. febrúar 1999, 150.000 krónur 1. desember 1999, 200.000 krónur 10. apríl 2000, 200.000 krónur 15. maí 2000 og 200.000 krónur 26. júní 2000, eða samtals 880.000 krónur, en það er stefnufjárhæð málsins. Hins vegar greiddi stefnda síðustu afborgunina, 167.706 krónur, þann 1. september 2000. Gaf hún þá skýringu á greiðslunni, að bifreiðin hefði verið ,,tekin burtu einn daginn”, en þá fyrst hafi stefnda fengið vitneskju um, að skuld hvíldi á bifreiðinni.

Fram er komið í málinu, að stefnda og áðurnefndur Sævar Örn Helgason gengu í hjúskap í febrúar 1997. Þau eru nú skilin, en skilnaðarmálinu er ekki lokið, þar sem bú þeirra var tekið til opinberra skipta til fjárslita milli þeirra. Af hálfu stefndu er því haldið fram, að þau hjónin hafi verið með aðskilinn fjárhag og að Sævar Örn hafi selt henni bifreiðina fyrir 700.000 krónur. Hafi stefnda greitt honum 400.000 krónur í peningum, en eftirstöðvar kaupverðsins verið greiddar með því að stefnda hafi gefið honum eftir gamla skuld, að fjárhæð um 300.000 krónur. Engir ,,pappírar” séu þó til um þetta. Svo sem áður greinir hefur Sævar Örn eindregið mótmælt að hafa selt stefndu bifreiðina og þá fullyrðir hann, að þau hafi verið með sameiginlegan fjárhag, en að vísu hafi stefnda ,,aldrei borgað neitt”.

Staðhæfing stefndu um, að hún hafi keypt umrædda bifreið af Sævari Erni Helgasyni er engum gögnum studd. Verða slík viðskipti milli hjóna og að teljast afar óvenjuleg, en sönnunarbyrði um, að svo hafi verið, sem stefnda heldur fram, hvílir á henni. Hefur stefndu fráleitt tekist sú sönnun að mati dómsins. Samkvæmt því hefur stefnda ekki sýnt fram á, að hún hafi greitt neitt fyrir bifreiðina að undanskildri áðurefndri lokaafborgun af veðskuldabréfi því, er hvíldi á bifreiðinni.

Stefnda kveðst líta á bifreiðina sem sína eign og hafi hún notað hana sem slíka frá upphafi. Í ljósi þess, sem að framan er rakið, þykir verða að leggja til grundvallar við úrlaus málsins, að stefnda hafi keypt bifreiðina af stefnanda greint sinn fyrir milligöngu fyrrgreinds eiginmanns síns og að kaupverðið hafi verið fólgið í yfirtöku umrædds veðskuldabréfs. Verður ráðið af gögnum málsins, að eftirstöðvar þess á söludegi hafi numið rúmlega 700.000 krónum, en það er sú fjárhæð, sem stefnda hefur viðurkennt, að hún hafi átt að greiða fyrir bifreiðina. Vegna vanskila á bréfinu þurfti stefnandi að greiða 880.000 krónur til kröfuhafa. Ber því að dæma stefndu til greiðslu þeirrar fjárhæðar ásamt vöxtum, sem krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda dæmd til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 125.000 krónur.

Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefnda, Rui Jia, greiði stefnanda, Má Gunnþórssyni, 880.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 30.000 krónum frá 28. janúar 1999 til 24. febrúar 1999, af 130.000 krónum frá þeim degi til 1. desember 1999, af 280.000 krónum frá þeim degi til 10. apríl 2000, af 480.000 krónum frá þeim degi til 15. maí 2000, af 680.000 krónum frá þeim degi til 26. júní 2000 og af 880.000 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnda greiði stefnanda 125.000 krónur í málskostnað.