Hæstiréttur íslands

Mál nr. 351/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Miðvikudaginn 15. júní 2011.

Nr. 351/2011.

Vilhelm Róbert Wessman

(Hörður Helgi Helgason hdl.)

gegn

Novator Pharma S.à.r.l. og

Novator Pharma Holding Ltd.

(Halldór Jónsson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

V kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans gegn NP og NPH var vísað frá dómi. Aðilar málsins gerðu með sér svokallaðan fjárfestingarsamning í júlí 2007 þar sem m.a. var ákveðið að V myndi kaupa 12% hlutafjár í NP þegar tilteknum ráðstöfunum við yfirtöku á A hf. yrði lokið. Var þar einnig mælt fyrir um að V yrði tryggð árangursþóknun við nánar tilgreindar aðstæður. NP og NPH tilkynntu V 13. ágúst 2009 að vegna fjárhagslegrar stöðu sinnar væri ólíklegt að þeir gætu tryggt að árangursþóknun yrði greidd til V. Í málinu krafði hann NP og NPH um fjárhæð sem hann taldi standa eftir af árangursþóknun samkvæmt samningi þeirra. Í héraði var V ekki talinn hafa í stefnu gert grein fyrir kröfu sinni og sönnunargögnum eins og áskilið væri í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í Hæstarétti var m.a. talið að samhengi málsástæðna V í héraðsdómsstefnu væri ljóst þótt hann hefði hvorki getið samnings frá 6. október 2008 um ráðstöfun greiðslna sem hann kynni að eiga tilkall til vegna svonefndar útgöngu NP úr fjárfestingu sinni í A hf. né veðsetningar frá 16. febrúar 2010. Um bæði þessi atriði hefði NP og NPH verið kunnugt og áttu þeir kost á að byggja á þeim sem raunin hefði orðið á. Þá vörðuðu varnir, sem sneru að veðsetningunni, aðild V að málinu og leiddu því ef réttar væru til sýknu NP og NPH en ekki frávísunar málsins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Þá taldi Hæstiréttur að V hefði ekki átt þess kost að fara aðra leið við útreikning kröfu sinnar en hann fór við höfðun málsins. Við það yrði að una að V rökstyddi frekar við munnlegan flutning málsins útreikning á kröfu sinni og yrði einnig til þess að líta að héraðsdómur gæti neytt heimildar í 2. mgr. 101. gr. laganna til að gefa honum kost á að leggja útreikninginn fram skriflega. Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila starfaði hann sem framkvæmdastjóri Delta hf. frá árinu 1999, en á árinu 2002 hafi það félag sameinast Actavis Group hf. og hann gegnt þar sama starfi áfram til ágúst 2008. Í júní 2007 hafi Novator eignarhaldsfélag ehf., sem nú heiti Actavis eignarhaldsfélag ehf., gert yfirtökutilboð til hluthafa í Actavis Group hf., en fyrrnefnda félagið og önnur því tengd hafi þá átt 1.296.379.823 hluti í því síðarnefnda eða sem svaraði 38,47% af heildarhlutafé. Tilboði þessu, sem hafi hljóðað á 1,075 evru á hlut, hafi verið tekið af nærri öllum öðrum hluthöfum og greiðslur á grundvelli þess inntar af hendi 25. júlí 2007, en félagið hafi í framhaldi af því verið afskráð í kauphöll 13. ágúst sama ár. Actavis eignarhaldsfélag ehf. hafi að öllu leyti verið í eigu félagsins Actavis Pharma Holding 5 ehf., en það hafi heyrt til keðju samnefndra einkahlutafélaga, sem báru þó númer í hlaupandi röð uns komið var að Actavis Pharma Holding 1 ehf. og hafi hvert þeirra verið eigandi félags með næsta hærra númeri. Síðastnefnda félagið mun síðan hafa að 78,1% verið í eigu varnaraðilans Novator Pharma S.à.r.l., sem hafi verið skráð í Luxembourg og upphaflega að fullu í eigu varnaraðilans Novator Pharma Holding Ltd., en það félag sé skráð í Tortola á Bresku Jómfrúareyjunum.

Aðilar málsins gerðu í júlí 2007 ódagsettan samning, sem nefndur er í framlagðri íslenskri þýðingu fjárfestingarsamningur. Þar var meðal annars ákveðið að sóknaraðili myndi kaupa 12% hlutafjár í varnaraðilanum Novator Pharma S.à.r.l. þegar fyrrgreindum ráðstöfunum við yfirtöku á Actavis Group hf. yrði lokið, en fyrir þetta skyldi sóknaraðili greiða 35.000.000 evrur, þar af 25.000.000 evrur í peningum innan tíu daga frá þeim tíma. Þá var einnig mælt þar fyrir um að sóknaraðila yrði „tryggð árangursþóknun frá Actavis allt að 40.000.000 evra og í öllu falli eigi lægri fjárhæð en 10.000.000 evrur“ ef kæmi til „útgöngu“, sem svo var nefnd í samningnum, en það orð var skýrt þannig að átt væri við „árangursríka útgöngu af hálfu Novator Holding út úr fjárfestingu sinni í Actavis, annaðhvort með skráningu í kauphöll, samruna eða sölu.“ Yrði ekki af þessari útgöngu fyrir lok ársins 2009 skyldi sóknaraðila allt að einu „greidd árangursþóknunin á þeim forsendum að við útreikning útgönguverðsins skuli miða við verð á hlut í Actavis sem nemur 1,075 evru.“ Þetta skyldi þó vera háð því að sóknaraðili gegndi enn starfi framkvæmdastjóra Actavis Group hf. „nema honum hafi verið sagt upp störfum af Actavis án tilefnis“. Af þessari árangursþóknun átti að verja 10.000.000 evrum til að gera upp eftirstöðvar kaupverðs hlutabréfanna í Novator Pharma S.à.r.l., en hún skyldi að öðru leyti greidd sóknaraðila. Samkvæmt samningnum átti að ákveða þóknunina „á grundvelli vergs hagnaðar Novator Holding af útgöngu“, sem yrði „reiknaður sem mismunurinn milli kr. 60 á hvern hlut í Actavis og verðs hvers hlutar í Actavis sem Novator Holding fær með útgöngu (raunverulegri eða ætlaðri)“ eða „útgönguverð – grunnverð = vergur hagnaður“. Sagt var að grunnverðið væri 948.950.030 evrur eða sem svaraði 0,732 evrum fyrir hvern af þeim 1.296.379.823 hlutum, sem Actavis eignarhaldsfélag ehf. átti ásamt tengdum félögum fyrir yfirtökuna á Actavis Group hf. Í málatilbúnaði sóknaraðila er því haldið fram að þetta verð fyrir hvern hlut hafi svarað til fyrrnefndra 60 króna eftir gengi þessara gjaldmiðla á þeim tíma, sem samningurinn var gerður. Útgönguverðið átti á hinn bóginn að nema 88% af „virði hlutafjár í Actavis við útgöngu“ margfaldað með „hlutdeild Novators í Actavis“, en hún mun hafa verið 78,1% samkvæmt áðursögðu. Af svokölluðum vergum hagnaði, sem samkvæmt þessu átti að finnast með því að draga grunnverð frá útgönguverði, skyldi síðan reikna árangursþóknun sóknaraðila, sem gat numið frá 1% til 5% af hagnaðinum. Hlutfall þetta átti nánar að ráðast „á grundvelli margfeldis EV/EBITDA“, þannig að ef útkoman yrði lægri en 11 yrði hlutfallið1%, en yrði hún hærra en 14 næmi hlutfallið 5%. Samkvæmt gögnum málsins er „EV“ skammstöfun ensku orðanna „Enterprise Value“, sem sóknaraðili hefur í málatilbúnaði sínum kallað heildarvirði starfseminnar, en það mun svara til samanlagðs markaðsverðs hluta í félagi að viðbættri fjárhæð langtímaskulda þess. Skammstöfunin „EBITDA“ er á hinn bóginn dregin af enskum orðum, sem merkja hagnað fyrir vexti, skatta og afskriftir.

Í framhaldi af framangreindum samningi gerðu annars vegar varnaraðilinn Novator Pharma Holding Ltd. og hins vegar sóknaraðili, Salt Investments ehf. og Salt Generics S.à.r.l. samning 5. september 2007 um kaup á 12% hlut í varnaraðilanum Novator Pharma S.à.r.l., sem framseldur yrði Salt Generics S.à.r.l. gegn greiðslu á samtals 35.000.000 evrum. Í samningnum sagði að 25.000.000 evrur af þeirri fjárhæð væru þegar greiddar, en eftirstöðvar skyldu greiðast ekki síðar en 31. desember 2009.

Sóknaraðili og Actavis Group hf. gerðu 5. ágúst 2008 samning um lok starfa þess fyrrnefnda sem framkvæmdastjóra. Í þeim samningi var tekið fram að hann hefði „ekki áhrif á réttindi og skyldur aðila samkvæmt fjárfestingarsamningi ... dags. í júlí 2007 og kaupsamningi um hlutafé ... dags. 5. september 2007 hvað snertir eignarhald framkvæmdastjórans á hlutum í Novator Pharmarl.“ Þá hafa varnaraðilar lagt fram annan samning frá 6. október 2008 milli sín annars vegar og sóknaraðila, Salt Investments ehf. og Salt Generics S.à.r.l. hins vegar. Samningur þessi, sem er á ensku, ber fyrirsögnina „Proceeds Agreement“ og fjallar um ráðstöfun greiðslna, sem kynnu að falla í hlut sóknaraðila og síðastnefndu félaganna tveggja við svokallaða útgöngu varnaraðilans Novator Pharma S.à.r.l. úr fjárfestingu í Actavis Group hf. Með því að þýðing hefur ekki verið lögð fram á þessum samningi verður efni hans ekki rakið frekar.

Varnaraðilar sendu sóknaraðila bréf 13. ágúst 2009, þar sem þeir tilkynntu að vegna fjárhagslegrar stöðu sinnar væri „ólíklegt að við getum tryggt að „árangursþóknun“ (eins og hún er skilgreind í fjárfestingarsamningnum) verði greidd til yðar af félaginu.“ Fyrir liggur í málinu að sóknaraðili setti 16. febrúar 2010 að veði til Sparisjóðabanka Íslands hf. allar kröfur sínar á hendur varnaraðilum samkvæmt fjárfestingarsamningi þeirra frá júlí 2007. Áður en til þess kom hafði sóknaraðili með bréfum til varnaraðila 21. janúar 2010 krafist greiðslu þóknunarinnar, sem hann með nánari skýringum taldi eiga að nema umsaminni hámarksfjárhæð eða 40.000.000 evrum, en af henni liti sóknaraðili svo á að 10.000.000 evrum hefði þegar verið ráðstafað til greiðslu skuldar vegna kaupa á hlutum í varnaraðilanum Novator Pharma S.à.r.l. og krefðist hann eftirstöðva hennar án tafar. Þessu höfnuðu varnaraðilar hvor fyrir sitt leyti með bréfum 5. mars 2010. Sóknaraðili höfðaði mál þetta með stefnu 13. ágúst 2010 og krafðist þess að varnaraðilum yrði í sameiningu gert að greiða sér 30.000.000 evrur, en þá fjárhæð telur hann standa samkvæmt framansögðu eftir af árangursþóknun samkvæmt samningi þeirra frá júlí 2007. Í hinum kærða úrskurði var orðið við kröfum varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi.

II

Fyrir héraðsdómi reistu varnaraðilar kröfur sínar um frávísun málsins meðal annars á því að í stefnu hafi sóknaraðili hvorki getið um áðurnefndan samning þeirra og félaga tengdum sóknaraðila frá 6. október 2008, þar sem mælt hafi verið fyrir um ráðstöfun greiðslna, sem hann kynni að eiga tilkall til vegna svonefndrar útgöngu varnaraðilans Novator Pharma S.à.r.l. úr fjárfestingu sinni í Actavis Group hf., né um veðsetningu sóknaraðila 16. febrúar 2010 á kröfum á hendur varnaraðilum, sem hann teldi sig geta reist á fjárfestingarsamningi þeirra frá júlí 2007. Um þessar röksemdir varnaraðila er þess að gæta að samkvæmt e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 ber að greina í héraðsdómsstefnu frá málsástæðum, sem stefnandi reisir dómkröfu sína á, svo og öðrum atvikum, sem þarf að geta svo að samhengi málsástæðna verði ljóst. Ekki er á hinn bóginn ætlast til að í stefnu sé fjallað um hugsanlegar málsástæður, sem stefndi kann að bera fyrir sig í greinargerð ef hann tekur til varna í máli, heldur svarar stefnandi slíku við munnlegan flutning máls. Samhengi málsástæðna sóknaraðila í héraðsdómsstefnu var ljóst þótt hann hafi hvorki getið samningsins frá 6. október 2008 né veðsetningarinnar 16. febrúar 2010, en um bæði þessi atriði var varnaraðilum bersýnilega kunnugt og áttu þeir kost á að byggja á þeim, svo sem raun hefur orðið á. Vegna álitaefna, sem varða veðsetninguna, hefur sóknaraðili lagt fram yfirlýsingu formanns skilanefndar Sparisjóðabanka Íslands hf. 15. desember 2010, þar sem fram kemur að sóknaraðila sé heimilt veðhafans vegna að reka mál þetta um kröfu sína, og eru engin efni til að fallast á með varnaraðilum að formaður skilanefndar sé ekki bær um að lýsa þessu yfir. Að auki varða varnir, sem snúa að þessari veðsetningu, aðild sóknaraðila að málinu og leiddu því ef réttar væru til sýknu varnaraðila en ekki frávísunar málsins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Málið er því ekki vanreifað af hendi sóknaraðila af þeim ástæðum, sem hér um ræðir.

Varnaraðilar halda því einnig fram til stuðnings kröfu um frávísun að óljóst sé af héraðsdómsstefnu annars vegar hvort sóknaraðili byggi á því að þeir beri beina greiðsluskyldu gagnvart sér eða ábyrgð á skuldbindingu Actavis Group hf. um árangurstengda þóknun og hins vegar hvort sóknaraðili hafi gert ráðningarsamning við félagið, svo sem ráðgert hafi verið í fjárfestingarsamningi aðilanna frá júlí 2007. Á sama hátt og fyrr greinir verður ekki ætlast til að sóknaraðili svari í stefnu vörnum um efni málsins, sem varnaraðilar kjósa að halda fram. Þessi atriði geta ekki fremur en þau, sem áður var getið, leitt til þess að málinu verði vísað frá dómi.

Að því er varðar útreikning á fjárhæð kröfu sóknaraðila er þess að gæta að í stefnu í héraði var greint frá því að Actavis Group hf. hefði ekki skilað ársreikningi vegna ársins 2009 til fyrirtækjaskrár áður en málið var höfðað. Sóknaraðili hafi því orðið að beita öðrum aðferðum til að reikna út kröfu sína og af nánar tilgreindum ástæðum komist að þeirri niðurstöðu að „verðkennitalan EV/EBITDA“, sem hann kallaði svo í stefnu, hefði að lágmarki numið tölunni 14 í árslok 2009. Hann hafi því öðlast tilkall til hámarksfjárhæðar árangurstengdu þóknunarinnar, sem um ræddi í fjárfestingarsamningi aðilanna frá júlí 2007. Í stefnunni var jafnframt skorað á varnaraðila að leggja fram endurskoðaðan ársreikning fyrir Actavis Group hf. vegna ársins 2009. Ekkert er fram komið um að sóknaraðili hafi haft tök á að fá þennan ársreikning í hendur áður en málið var höfðað. Án hans var hvorki unnt að komast að raun um hver væri samanlögð fjárhæð langtímaskulda Actavis Group hf. í árslok 2009 til að unnt yrði að finna annan þáttinn í útreikningi á heildarvirði félagsins, svokölluðu „EV“, né lágu fyrir upplýsingar um hagnað félagsins fyrir vexti, skatta og afskriftir, þannig að fært yrði að reikna út svokallað „EBITDA“. Verður því ekki séð að sóknaraðili hafi átt kost á að fara aðra leið en hann fór við höfðun málsins. Við framangreindri áskorun hans urðu varnaraðilar á þann hátt að leggja fram ársreikning á ensku, sem engin þýðing fylgir. Þeir hafa að auki í greinargerðum, sem þeir lögðu fram í héraði hvor fyrir sitt leyti, lýst því í einstaka atriðum hvernig þeir teldu rétt að reikna út árangurstengda þóknun handa sóknaraðila ef hann ætti tilkall til hennar. Kjósi varnaraðilar á síðari stigum að leggja þennan ársreikning fram í þýðingu þannig að við hann verði stuðst við úrlausn málsins, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991, verður við það una að sóknaraðili rökstyðji frekar við munnlegan málflutning útreikning á kröfu sinni með tilliti til ársreikningsins, en til þess verður og að líta að héraðsdómur gæti neytt heimildar í 2. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 til að gefa honum kost á að leggja þann útreikning fram skriflega. Þessi háttur á málsókn sóknaraðila á sér enga hliðstæðu í dómi Hæstaréttar 18. mars 2010 í máli nr. 413/2009, sem skírskotað er til í hinum kærða úrskurði, og veldur því ekki að málið sé vanreifað þannig að frávísun þess varði.

Samkvæmt framangreindu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilar, Novator Pharma S.à.r.l. og Novator Pharma Holding Ltd., greiði í sameiningu sóknaraðila, Vilhelm Róbert Wessman, 500.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2011.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda þriðjudaginn 12. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Vilhelm Róberti Wessman, kt. 041069-3769, Lálandi 10, Reykjavík, með stefnu, birtri 23. ágúst 2010, á hendur Novator Pharma S.à r.l., félagi sem stofnað var í Stórhertogadæminu Lúxemborg 6. marz 2006 samkvæmt þarlendum lögum og er skráð til lögheimilis að 16, Rue JeanAveugle, L-1148 Lúxemborg og Novator Pharma Holding Ltd., félagi sem stofnað var á Bresku Jómfrúaeyjum samkvæmt þarlendum lögum og er skráð til lögheimilis að Akara Bldg. 24 De Castro Street Wickhams Cay I, Road Town, Tortola, Bresku Jómfrúaeyjum.

Fyrirsvarsmaður hvorra tveggju stefndu, Novator Pharma S.à r.l. og Novator Pharma Holding Ltd., stjórnarmaður í báðum félögunum, er Sigurgeir Guðlaugsson, kt. 290876-3709, skráður til lögheimilis að Ögurási 10, 210 Garðabæ..

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda, in solidum, 30.000.000 evra með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2010 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar skv. framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefndu, Novator Pharma S.á r.l. og Novator Pharma Holding Ltd., eru þær aðallega, að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi og stefndu verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.  Til vara krefjast stefndu sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar úr hendi hans.  Til þrautavara krefjast stefndu þess, að krafa stefnanda verði lækkuð og máls­kostn­aður felldur niður.

II

Málavextir

Stefnandi kveður málavexti vera þá, að hann hafi starfað sem framkvæmdastjóri lyfjafyrirtækisins Delta hf. frá árinu 1999 og sem framkvæmdastjóri lyfjafyrirtækisins Actavis Group hf. frá sameiningu Delta hf. við það félag á árinu 2002 til ágúst 2008.  Björgólfur Thor Björgólfsson hafi frá upphafi verið ráðandi hluthafi í hinu sameinaða félagi Actavis Group hf. og ráðið, þann 3. apríl 2007, yfir 38,47% hlut í félaginu, þ.e. 1.296.379.823 hlutum.

Í júní 2007 hafi félag Björgólfs Thors, Novator eignarhaldsfélag ehf. (nú Actavis eignarhaldsfélag ehf., gert yfirtökutilboð í Actavis Group hf., en samkvæmt því skyldu greiddar 1,075 evrur fyrir hvern hlut í félaginu.  Því tilboði hafi verið tekið af tilskildum fjölda hluthafa, og hafi yfirtakan farið fram í júlí sama ár.  Actavis Group hf. hafi verið skráð af markaði í kjölfarið.

Af hálfu Björgólfs Thors hafi, í marz og apríl 2007, verið stofnuð nokkur félög í kringum eignarhald á hinu yfirtekna félagi, þar á meðal fimm einkahlutafélög, sem nú nefnist Actavis eignarhaldsfélag ehf. og Actavis Pharma Holding 2 ehf. - Actavis Pharma Holding 5 ehf., auk hlutafélags, sem nú nefnist Actavis Pharma Holding 1 hf.  Að yfirtökunni lokinni hafi eignarhaldinu verið þannig komið fyrir, að Actavis Group hf. sé að fullu í eigu Actavis eignarhaldsfélags ehf., sem sé að fullu í eigu Actavis Pharma Holding 5 ehf., sem sé að fullu í eigu Actavis Pharma Holding 4 ehf., sem sé að fullu í eigu Actavis Pharma Holding 3 ehf., sem sé að fullu í eigu Actavis Pharma Holding 2 ehf., sem sé að fullu í eigu Actavis Pharma Holding 1 hf.  Stefndi, Novator Pharma S.à r.l., eigi 78,1% hlut í síðastnefnda félaginu og fari því með ráðandi hlut í félaginu Actavis Group hf. í gegnum fyrrnefnd félög.  Allt frá stofnun stefnda, Novator Pharma S.à r.l., hafi það verið að fullu í eigu stefnda, Novator Pharma Holding Ltd., sem sé að fullu undir yfirráðum Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Í júlí 2007 hafi aðilar máls þessa gert með sér fjárfestingarsamning.  Með samningnum hafi stefnandi keypt 12% hlut í stefnda, Novator Pharma S.à r.l., af stefnda, Novator Pharma Holding Ltd., sem hafi því haldið 88% hlut í félaginu eftir kaupin.  Samkvæmt samningnum skyldi kaupverðið að hluta til greiðast með útborgun í reiðufé, en að öðru leyti veitt að láni.  Með samningnum sé kveðið á um, að eigi síðar en fyrir árslok 2009 yrði stefnanda greidd nánar tiltekin „árangursþóknun“ („Success Fee“), og skyldi hluta hennar varið til að borga upp fyrrgreint lán, en að öðru leyti greidd stefnanda í reiðufé.

Stefnandi hafi greitt með reiðufé tilskilda útborgun í hlutabréfin og umræddur hlutur í stefnda, Novator Pharma S.à r.l., hafi skipt um hendur í samræmi við samninginn, sbr. hluthafasamkomulag, dags. 5. september 2007.

Frá því að yfirtakan á Actavis Group hf. fór fram hafi gefizt tækifæri til útgöngu, sem, að mati stefnanda, hafi verið rétt að grípa, en hafi hins vegar ekki verið nýtt.

Stefnandi hafi látið af störfum sem framkvæmdastjóri Actavis Group hf. í ágúst 2008.  Af því tilefni hafi félagið gert við hann starfslokasamning, dags. 5. ágúst 2008.  Í grein 1.3 þess samnings sé meðal annars tekið fram, að hann hafi „ekki áhrif á réttindi og skyldur aðila samkvæmt fjárfestingarsamningi (Investment Agreement), dags. í júlí 2007“.

Með bréfi, dags. 13. ágúst 2009, hafi stefndu lýst því yfir við stefnanda, að þeir teldu ólíklegt, að þeir myndu geta staðið við skyldu sína til að tryggja honum þá árangursþóknun, sem honum bæri samkvæmt fjárfestingarsamningnum.

7. september 2009 hafi stefnandi móttekið tölvubréf frá Björgólfi Thor Björgólfssyni, þar sem hann segi meðal annars „mjög ólíklegt að Novator Pharma sarl eða Novator Pharma Holding Limited geti innt af hendi Success Fee til þín samkvæmt Investment Agreement“.

Árið 2009 hafi liðið án þess að stefndu hafi innt af hendi árangursþóknun í samræmi við fjárfestingarsamninginn.  Því hafi stefnandi skorað á stefndu með bréfum, dags. 21. janúar 2010, að inna framangreinda greiðslu af hendi án frekari tafar.

Engin viðbrögð hafi borizt við framangreindum greiðsluáskorunum og hafi stefnandi því höfðað mál þetta til innheimtu skuldarinnar.

Stefndu lýsa málavöxtum svo, að í júlí 2007 hafi stefnandi og stefndu gert með sér fjárfestingarsamning.  Þegar samningur­inn var gerður hafi staðið fyrir dyrum. að félag. sem óbeint hafi verið í meirihlutaeigu stefnda, Novator Pharma S.à r.l., myndi yfirtaka Actavis Group hf. með því að eignast allt, eða nær allt hlutafé þess.  Það hafi gengið eftir og hafi Actavis Group hf. verið afskráð af Aðallista OMX Nordic Exchange Iceland hf. í ágúst sama ár.  Miðað við það, sem fram komi í fjárfestingarsamningnum hafi verið stefnt að því af hálfu eigenda Acta­vis Group hf. að auka verðmæti félagsins með það fyrir augum að selja það síðar.

 Fjárfestingarsamningurinn hafi kveðið á um, að eftir að kaupin á Actavis Group hf. væru gengin í gegn myndi stefndi, Novator Pharma Holding Ltd., selja stefnanda 12% hlutafjár í stefnda, Novator Pharma S.à r.l., fyrir 35.000.000 evrur.  Þann 5. september 2007 hafi síðan verið gerður samningur milli stefnanda, stefnda, Novator Pharma Holding Ltd., og tveggja félaga í eigu stefnanda, þar sem stefndi, Novator Pharma Holding Ltd., hafi framselt 12% hlut í stefnda, Novator Pharma S.à r.l., til annars framangreindra félaga stefnanda.

Á þeim tíma sem fjárfestingarsamningurinn var gerður hafi stefnandi verið forstjóri Actavis Group hf. og gegnt sem slíkur lykilhlutverki við að auka verðmæti þess.  Samkvæmt fjárfestingar­samn­ing­num hafi verið gert ráð fyrir því, að stefnandi gerði sérstakan ráðningarsamning við Actavis Group hf., þar sem kveðið yrði á um ráðningarkjör hans, þar á meðal þau sem fjárfestingarsamningurinn tiltók.  Ekkert liggi þó fyrir um, að stefnandi hafi gert slíkan samning við Actavis Group hf. eða leitazt við að ná slíkum samningi.

Vegna þeirra hagsmuna sem stefndu hafi haft af því að auka verðmæti Actavis Group hf. hafi þeir í fjárfestingarsamningnum ábyrgzt greiðslu frá Actavis Group hf. á nánar tilgreindri árangurs­þóknun.  Þar sem þáttur stefnanda í að auka verðmæti Actavis Group hf. hafi verið háður því, að hann væri forstjóri félagsins, hafi verið kveðið á um, að hann skyldi starfa sem slíkur í tvö ár frá gerð fjár­fest­ingar­samningsins, eða þar til útganga ætti sér stað, hvort heldur gerðist fyrr, nema aðilar fjárfestingar­samningsins samþykktu annað.  Jafnframt hafi greiðsla árangursþóknunar, sem stefndu ábyrgðust, verið háð því, að hann væri starfandi forstjóri Actavis Group hf., þegar til greiðslu kæmi, nema hon­um hefði áður verið sagt upp störfum án tilefnis.

Þrátt fyrir skuldbindingu í fjárfestingarsamningnum um annað, hafi stefnandi látið af störfum fyrir Actavis Group hf. í ágúst 2008.  Í samningi, sem gerður hafi verið um starfslokin, hafi komið fram, að sam­komulag hefði orðið milli stefnanda og Actavis Group hf. um, að stefnandi hætti störfum fyrir félagið.  Í grein 1.3 í samningnum um starfslok komi fram, að hann hafi ekki áhrif á réttindi og skyldur aðila samkvæmt fjárfestingarsamningnum.  Stefndu hafi þó ekki verið aðilar að samningnum um starfslok, og stefnandi hafi verið eini aðilinn, sem var aðili að báðum samningunum.

Þann 6. október 2008 hafi verið gerður samningur milli stefnanda, stefndu og tveggja félaga, sem að verulegu leyti hafi verið í eigu stefnanda um ráðstöfun á afrakstri, sem kæmi í hlut stefnanda, eða félaga honum tengdum, við útgöngu stefnda, Novator Pharma S.à r.l., úr fjárfestingunni í Actavis Group hf., eða hverra þeirra krafna, sem stefnandi, eða félög honum tengd, ættu á hendur aðilum, sem tengdir væru Björgólfi Thor Björgólfssyni, en hann hafi verið, óbeint, stærsti hluthafinn í stefndu.  Í samningnum komi fram, að hann sé m.a. gerður í ljósi þess, að Björgólfur Thor Björgólfsson, dótturfélög stefnda, Novator Pharma S.à r.l., og fleiri tilteknir aðilar eigi kröfur á stefnanda og tengda aðila og jafnframt, að félög, tengd Björgólfi Thor Björgólfssyni, hafi samþykkt að láta tilteknar tryggingaráðstafanir í þeirra þágu víkja til þess að auðvelda stefnanda og tengdum aðilum, fjármögnun hjá Glitni banka hf.

Í samningnum komi fram, að með afrakstri (e. Proceeds) sé átt við brúttó fjárhagslegar eign­ir eða verðmæti, sem komi í hlut stefnanda, eða tveggja tiltekinna félaga í hans eigu, við útgöngu, sem og fjárhagsleg réttindi eða kröfur, sem Salt Investments ehf., stefnandi eða tengdir aðilar kunni að eiga á hendur aðilum, tengdum Björgólfi Thor Björgólfssyni.  Útganga (e. Exit Event) sé síðan skil­greind sem útganga stefnda, Novator Pharma S.à r.l., eða hluthafa þess félags, með beinum eða óbein­um hætti, út úr fjárfestingu í Actavis Group hf., með hvaða hætti, sem hún kunni að verða, þar með talið, en ekki einskorðað við skráningu á markað, samruna eða sölu, þar með talið, en ekki ein­skorð­að við, ef allir, eða nánast allir, hlutir í stefnda, Novator Pharma S.à r.l., eða tilteknum dóttur­félög­um þess, séu seldir (í einum eða fleiri viðskiptum).  Í annarri grein samningsins, sem fjalli um fram­sal afraksturs (e. Assignment of Proceeds) sé síðan tekið fram, að við útgöngu skuli ráðstafa af­rakstri með greiðslu tiltekinna skulda í þeirri röð, sem þar sé tilgreind.

Seinnihluta árs 2009 hafi Actavis Group hf. verið komið í viðræður við helzta lánardrottin sinn um endur­skipu­lagningu skulda þess.  Þar sem stefnandi hafi verið eigandi, í gegnum félag sitt, að hlut í stefnda, Novator Pharma S.à r.l., auk þess að vera aðili að fjárfestingarsamningnum, hafi stefndu þótt rétt að tilkynna stefnanda um þá stöðu, sem upp hafi verið komin, og hafi það verið gert með bréfi, dags. 13. ágúst 2009.

Í janúar 2010 hafi stefnandi sent stefndu bréf, þar sem stefndu hafi verið krafðir um greiðslu árangursþóknunar á grundvelli fjárfestingarsamningsins.  Þann 16. febrúar 2010 hafi stefndu borizt tilkynning frá stefnanda, dags. sama dag,  dskj. nr. 30, um að allar greiðslur og kröfur sam­kvæmt fjárfestingarsamningnum frá júlí 2007 hefðu verið veðsettar Sparisjóðabanka Íslands hf.  Með efnislega samhljóða bréfum til stefnanda, og afriti til veðhafa, Sparisjóðabanka Íslands hf., hafi stefndu staðfest móttöku tilkynningarinnar, en jafnframt mótmælt bæði tilvist og fjárhæð þeirrar kröfu, sem stefnandi hafi talið sig eiga samkvæmt fjárfestingarsamningnum.

Stefndu hafi síðan ekki heyrt meira frá stefnanda fyrr en mál þetta var höfðað með stefnum, birtum þann 23. ágúst 2010.

III

Málsástæður stefnanda

1) Um kröfu til árangursþóknunar

Kröfu sína um greiðslu eftirstöðva árangursþóknunar, að fjárhæð 30.000.000 evrur, byggir stefnandi á ákvæðum samnings aðila, dags. í júlí 2007, dskj. nr. 9, einkum grein 1.

Aðilar málsins hafi gert með sér samning í júlí 2007, dskj. nr. 9.  Hinn 25. þess mánaðar hafi stefndi, Novator Pharma S.à r.l., tekið yfir lyfjafyrirtækið Actavis Group hf. í gegnum dótturfélag sitt, Novator eignarhaldsfélag ehf., (nú Actavis eignarhaldsfélag ehf., sbr. dskj. nr. 3 og 18.  Stefnandi í máli þessu hafi þá verið framkvæmdastjóri Actavis Group hf.  Kveði samningurinn einkum á um skyldu stefndu til að selja stefnanda hlut í stefnda, Novator Pharma S.à r.l., og til að greiða stefnanda sérstaka árangursþóknun („Success Fee“) (1. gr.), auk þess sem aðilar lýsi í samningnum vilja sínum til að stofna sameiginlegt fjárfestingarfélag (2. gr.) og kveðið sé á um tilteknar skyldur stefnanda sem framkvæmdastjóra Actavis Group hf. (3. gr.).

Samkvæmt samningnum, grein 1(i), skyldu stefndu selja stefnanda 12% hlutafjár í stefnda, Novator Pharma S.à r.l., að aflokinni yfirtökunni á Actavis Group hf.  Stefndi, Novator Pharma S.à r.l., hafi fram að þessu verið að fullu í eigu stefnda, Novator Pharma Holding Ltd., sem hafi því haldið 88% hlut eftir kaupin, dskj. nr. 11.  Fyrir sinn hlut skyldi stefnandi greiða 35.000.000 evrur, þar af 25.000.000 evrur í reiðufé í kjölfar yfirtökunnar.  Þá skyldu stefndu tryggja stefnanda sérstaka árangursþóknun, sbr. grein 1(ii), sem skyldi eigi nema lægri fjárhæð en 10.000.000 evrur og eigi hærri en 40.000.000 evrur, en af henni skyldu 10.000.000 evrur teljast lokagreiðsla vegna framangreindra hlutafjárkaupa stefnanda.

Því sé lýst í samningnum, hvernig fjárhæð fyrrnefndrar árangursþóknunar skuli fundin, dskj. nr. 10, s.3.  Hana skuli reikna út á grundvelli vergs hagnaðar stefnda, Novator Pharma Holding Ltd., af „útgöngu“ („Exit“), en í útgöngu felist, að stefnda, Novator Pharma Holding Ltd., takist að leysa sig úr fjárfestingu sinni í Actavis Group hf. „með skráningu í kauphöll, samruna eða sölu“, eins og segi í íslenzkri þýðingu samningsins, dskj. nr. 10, s.3.  Þá sé því lýst svo, hvernig umræddur vergur hagnaður skuli reiknaður út:

Hagnaðurinn skal reiknaður sem mismunurinn milli kr. 60 á hvern hlut í [Actavis Group hf.] og verðs hvers hlutar í [Actavis Group hf.] sem [stefnda Novator Pharma Holding Ltd.] fær með útgöngu (raunverulegri eða ætlaðri) sbr. hér að neðan:

útgönguverð - grunnverð = vergur hagnaður.

Í samningnum séu svo nánari útskýringar á því, hvernig útgönguverð og grunnverð skuli reiknuð til að finna hinn verga hagnað sem árangursþóknunin ráðist af:

Um útreikning „útgönguverðs“ („Exit Price“) segi í samningnum, að það sé margfeldi þriggja stærða:  Virði hlutafjár í Actavis Group hf. við útgöngu, eignarhlutdeild stefnda, Novator Pharma S.à r.l., í félaginu og hlutfallinu 88%.  Það hlutfall sé jafn hátt og það hlutfall hlutafjár í stefnda, Novator Pharma S.à r.l., sem stefnda, Novator Pharma Holding Ltd., hafi haldið eftir, þegar það hafði selt stefnanda 12% hlut í því félagi.  Útgönguverðið myndi því mæla verga stærð þess, sem kæmi í hlut stefnda, Novator Pharma Holding Ltd., við sölu Actavis Group hf.  Í samningnum sé hins vegar sérstaklega fjallað um, hvernig farið skyldi með, ef útganga næðist ekki fyrir árslok 2009.  Sé þá samt sem áður gert ráð fyrir, að greidd verði út árangursþóknun, en að við útreikning á útgönguverðinu skuli miðað við, að verð pr. hlut í Actavis Group hf. sé EUR 1,075.  Stefndi, Novator Pharma Holding Ltd., hafi ekki leyst sig úr fjárfestingu sinni í Actavis Group hf. „með skráningu í kauphöll, samruna eða sölu“ fyrir árslok 2009.  Því hafi árangursþóknunin þá fallið í gjalddaga og við útreikning á útgönguverðinu beri að miða við, að verð pr. hlut í Actavis Group hf. sé 1,075 evrur.  Í árslok 2009 hafi fjöldi hluta í félaginu verið kominn upp í 3.342.431.226, dskj. nr. 19, en hafi verið 3.191.696.545 eftir yfirtökuna, dskj. nr. 3.  Stefndi, Novator Pharma Holding Ltd., hafi þá ráðið yfir sem svari til 78,1% hlutafjár í stefnda, Novator Pharma S.à r.l., dskj. nr. 8, s.10 (merkt sem s.8), og þar með einnig í dótturfélagi þess, Actavis Group hf.  Samkvæmt framansögðu sé fjárhæð útgönguverðsins því þessi, þótt miðað sé við þann fjölda hluta, sem stefndi, Novator Pharma Holding Ltd., hafi ráðið yfir í kjölfar yfirtökunnar, án tillits til síðari fjölgunar:

1,075 evrur/hlut  ×  3.191.696.545 hlutir  ×  78,1%  x  88%  =  2.358.108.392 evrur.

Hvað varði „grunnverð“ („Base Price“) segi í samningnum, að miðað skuli við 1.296.379.823 hluti í Actavis Group hf., sem eins og áður segi hafi verið sá fjöldi hluta, sem Björgólfur Thor hafi ráðið yfir fyrir yfirtökuna, dskj. nr. 3.  Grunnverðið myndi því mæla verðmæti þeirra hluta, sem stefndi, Novator Pharma Holding Ltd., og tengdir aðilar hafi þegar átt í Actavis Group hf., áður en til yfirtökunnar kom, miðað við að virði hvers þeirra sé kr. 60.  Í fyrrnefndum útskýringum sé tekið dæmi af útreikningi, miðað við 0,732 evrur pr. hlut, en á þeim tíma sem samningurinn var gerður hafi fengizt 0,732 evrur fyrir þær kr. 60, sem samningurinn kveði á um að miða skuli við, dskj. nr. 20.  Samkvæmt framansögðu sé fjárhæð útgönguverðsins því þessi:

      1.296.379.823 hlutir   ×   60 kr./ hlut              = 431.216.262 evrur

      180,38 kr./evru, dskj. nr. 21.

Sá vergi hagnaður, sem árangursþóknunin skuli byggjast á, sé því þessi:

2.469.475.093 evrur  -  431.216.262 evrur  =  1.926.892.130 evrur.

Eins og fram komi í samningi aðila sé fjárhæð árangursþóknunarinnar ákveðinn hundraðshluti á bilinu 1,00% til og með 5,00% af hinum verga hagnaði, sem samkvæmt framansögðu sé 1.926.892.130 evrur.  Á s.3 í samningnum sé að finna töflu, sem lýsi því, hvernig þessi hundraðshluti skuli ákveðinn þeim mun hærri sem EV/EBITDA hlutfall Actavis Group hf. verði hærra við útgöngu.  Þannig myndi fjárhæð árangursþóknunarinnar t.d. nema 1,00% af hinum verga hagnaði, ef EV/EBITDA reyndist á þeim tíma ekki vera hærra en 11, en 5,00%, ef hlutfallið væri hærra en 14.  Verðkennitalan EV/EBITDA sé hlutfall milli heildarvirðis starfseminnar (EV, „Enterprise Value“), dskj. nr. 22, og afkomu félagsins, áður en tekið sé tillit til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta (EBITDA, „Earnings Before Interest, Taxes, Depreciation and Amortization“), dskj. nr. 23.  Með heildarvirði (EV) félags sé alla jafna vísað til markaðsvirðis hlutafjár auk langtímaskulda, dskj. nr. 22.  Hærri langtímaskuldir og lægri EBITDA- hagnaður valdi því hækkun á hlutfallinu EV/EBITDA.  Actavis Group hf. hafi ekki skilað ársreikningi fyrir það ár til fyrirtækjaskrár, og stefnandi hafi ekki aðgang að honum, en það hafi stefndu, enda fari þeir með virk ráð yfir Actavis Group hf.  Því hafi stefnandi hvorki tök á að afla upplýsinga um, hve skuldir félagsins hafi aukizt mikið það ár, né hver EBITDA- hagnaður hafi orðið.  Í heildarvirði felist ákveðið mat á markaðsvirði þeirra þátta, sem verðkennitalan samanstandi af, en greiningaraðilar á markaði hafi látið af því að gefa reglulega út slíkt mat á Actavis Group hf., þegar félagið var afskráð úr Kauphöll Íslands.  Á árinu 2006 hafi EBITDA hagnaður Actavis verið 287 milljónir evra.  Samkvæmt greiningaraðilum hafi EV/EBITDA hlutfall félagsins það ár verið á bilinu 13,3-17,5, dskj. nr. 24 og 25, og spá þeirra hafi verið, að EBITDA félagsins myndi hækka í 346,7-359 milljónir evra 2007 og 405,9-415 milljónir evra 2008.  Raunin hafi hins vegar orðið sú, að eftir að EBITDA hækkaði í 338,2 milljónir evra 2007, hafi hún lækkað niður í 267,8 milljónir evra 2008.  Á sama tíma hafi skuldsetning félagsins aukizt mikið, og hafi hreinar skuldir félagsins aukizt úr 101 milljón evra árið 2006 í 2.490 milljónir evra 2007 og í 3.316 milljónir evra 2008.  Stefnandi telji því ljóst, að umrætt EV/EBITDA- hlutfall Actavis Group hf. hafi í árslok 2009 verið mun hærra en 14, og því nemi árangursþóknun hans 5,00% af hinum verga hagnaði.

Samkvæmt samningnum sé árangursþóknun stefnanda reiknuð þannig út:

1.926.892.130 evrur  ×  5%  =  96.344.606 evrur

Þar sem árangursþóknunin, sbr. grein 1(ii), skyldi aldrei nema hærri fjárhæð en 40.000.000 evra, verði árangursþóknun stefnanda hins vegar takmörkuð við þá fjárhæð.

Með samhljóða bréfum stefnanda til stefndu, dags. 21. janúar 2010, dskj. nr. 16, hafi verið minnt á, að umrædd árangursþóknun, að fjárhæð 40.000.000 evra, væri í gjalddaga fallin, án þess að greiðsla hefði borizt, því lýst yfir að 10.000.000 evra af henni teldust nýttar til uppgreiðslu eftirstöðva framangreindra hlutabréfakaupa stefnanda í samræmi við 1. gr. samningsins og þess krafizt, að stefnanda yrðu án frekari tafar staðin full skil á eftirstöðvum árangursþóknunarinnar að fjárhæð 30.000.000 evrur, sem sé stefnufjárhæð máls þessa.

Engin viðbrögð hafi borizt stefnanda við framangreindum bréfum, og sé umrædd fjárkrafa því ógreidd.  Stefnanda sé því nauðsynlegt að höfða mál fyrir þar til bærum dómi til innheimtu skuldarinnar, en samningsvarnarþing sé hér á landi, og um samninginn fari samkvæmt íslenzkum lögum, dskj. nr. 10, 7. gr.

Kröfu sína um dráttarvexti byggir stefnandi á 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.  Krafizt sé dráttarvaxta frá 1. janúar 2010, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna, þar sem kveðið sé á um, að hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn, sé kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti, sem reiknist af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.

Í 1. gr. samnings aðila, dskj. nr. 10, sé kveðið á um, að hafi stefnda Novator Pharma Holding Ltd. ekki losað hlut sinn í Actavis Group hf. fyrir árslok 2009, skuli stefnanda greidd sú árangursþóknun sem krafizt sé efnda á í máli þessu.  Gjalddagi þeirrar kröfu hafi því verið 1. janúar 2010, og sé stefnanda því heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti frá þeim tíma, sbr. framangreint ákvæði vaxtalaga.

Stefnandi vísar til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, varðandi kröfu sína til málskostnaðar.

Stefnandi byggir kröfu sína á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og greiðslu skulda, en stefndu hafi skuldbundið sig, með undirritun umrædds samnings aðila, meðal annars til þess að greiða stefnanda í árslok 2009 þá árangursþóknun, sem kveðið sé á um í 1. gr. samningsins.  Auk þess styðjist krafa stefnanda við ákvæði laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með áorðnum breytingum og meginreglur íslenzks réttar, einkum kröfu- og samningaréttar.

Málsástæður stefndu, Novator Pharma s.à r.l. og Novator Pharma Holding Ltd.

Aðalkrafa stefndu er sú, að málinu verði vísað frá dómi og er sú krafa einungis hér til umfjöllunar.

Frávísunarkröfu sína byggja stefndu á því, að málatilbúnaði stefnanda sé verulega áfátt og þar með sé hann ekki í samræmi við kröfur laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um skýran málatilbúnað.  Þannig sé ekkert getið um samning stefnanda og tveggja félaga í hans eigu við stefndu, dags. 6. október 2008, dskj. nr. 29, þar sem mælt sé fyrir um ráðstöfun verðmæta, sem kynnu að koma í hlut stefnanda, eða félaga honum tengdum, við útgöngu stefnda, Novator Pharma S.à r.l., úr fjárfestingunni í Actavis Group hf., eða hverra þeirra krafna, sem stefnandi, eða fé­lög honum tengd, ættu á hendur aðilum, sem tengdir væru Björgólfi Thor Björgólfssyni.  Þaðan af síður sé fjallað um það, hvort og þá að hversu miklu leyti þær skuldbindingar, sem samningurinn geri ráð fyrir að séu greiddar með fjármunum, sem stefnandi telji eiga að koma í sinn hlut, séu nú þegar greidd­ar. 

Þá minnist stefnandi í stefnu ekki á veðsetningu sína á kröfu sinni á hendur stefndu, dskj. nr. 30.  Stefndu byggja á því, að við veðsetningu almennrar fjárkröfu missi veðsali í raun rétt til að fara með kröfuna, en ekki komi fram í stefnu, á hverju stefnandi byggi heimild sína til þess að krefjast greiðslu á kröfunni, þrátt fyrir að hafa ráðstafað henni með þeim hætti, sem greini í til­kynn­ingu stefnanda.  Þar sem ekki sé gerð nein grein fyrir veðsetningu kröfunnar í stefnu, sé ekki ljós afstaða stefnanda til þess, hvort krafa um greiðslu í stefnu, án tilgreiningar á því, með hvaða hætti skuli greiða kröfuna, feli í sér breytingu á því, sem stefnandi hafði tilkynnt stefnda, Novator Pharma S.à r.l., um það, að aðeins væri heimilt að greiða kröfuna inn á tiltekinn reikning hjá veðhafa, Spari­sjóða­banka Íslands hf. Þá kemur ekkert fram í stefnu um afstöðu veðhafa til þess, hvort hann hafi fallið frá veði sínu eða samþykkt annan greiðslumáta en tilkynnt hafði verið um.

Skuldari sem greiði veðsetta kröfu með þeim hætti, sem í máli þessu greini, losni ekki undan greiðslu­skyldu, nema greitt sé í samræmi við tilkynningu.  Baki hann sér bótaskyldu gagnvart veðhafa að öðrum kosti.  Stefndu líti svo á, að búið sé að framselja efnahagslega þætti kröfunnar til veðhafa, a.m.k. tímabundið, og hafi þeir því ríka hagsmuni af því, að ekki fari milli mála með hvaða hætti skuli greiða kröfu stefnanda, verði hún á annað borð dæmd.

Svo virðist sem stefnandi byggi kröfu sína á því, að um fortakslausa greiðsluskyldu stefndu sé að ræða samkvæmt fjárfestingarsamningnum, dskj. nr. 9 og 10.  Stefndu telji, að þessi skilningur stefnanda eigi sér enga stoð í fjárfestingarsamningnum, sbr. orðalagið „...að í kjölfar Útgöngu, verði [stefnanda] tryggð Árangursþóknun frá Actavis...“.  Stefn­andi geri enga tilraun til þess í stefnu að skýra, á hvaða grundvelli stefndu beri fortakslausa greiðslu­skyldu, líkt og þó væri ástæða til vegna orðalags í fjárfestingarsamningnum.  Í þessu sambandi sé bent á, að orðalag fjárfestingarsamningsins um, að stefnanda skuli tryggð árangursþóknun, geti vísað til trygg­ingar í formi hefðbundinnar kröfuábyrgðar, en geti einnig vísað til þess, að stefndu hefðu, í gegn­um óbeint eignarhald sitt á Actavis Group hf. og að gefnum ákveðnum forsendum, átt að stuðla að því, að Actavis Group hf. gerði samning um árangursþóknun við stefnanda.

Stefndu telji, að málatilbúnaður stefnanda sé að þessu leyti verulega vanreif­að­ur og takmarki verulega möguleika þeirra á því að halda uppi vörnum í málinu.

Í fjárfestingarsamningnum, dskj. nr. 9 og 10, sé gert ráð fyrir, að gerður sé ráðningarsamningur milli stefn­anda og Actavis Group hf., þar sem nánar verði kveðið á um starfskjör stefnanda.  Í stefnu sé ekki vikið að því, hvort þessi ráðningarsamningur hafi verið gerður eða ekki, og þá hvers efnis hann hafi verið eða af hverju hann hafi ekki verið gerður, þrátt fyrir að ljóst megi vera, að í þessum ráðningarsamningi hafi verið gert ráð fyrir, að skuldbinding Actavis Group hf. gagnvart stefnanda varðandi árangursþóknunina kæmi fram.

Þá telji stefndu, að rökstuðningur stefnanda fyrir fjárhæð kröfu sinnar sé afar óljós, einkum að því er varði gildi kennitölunnar EV/EBITDA.  Í því sambandi styðjist stefnandi við gögn, sem hafi afar óljóst sönnunargildi, svo ekki sé meira sagt, og framsetning rökstuðnings fyrir þeirri skoð­un stefnanda, að EV/EBITDA sé hærra en 14 sé þar af leiðandi með þeim hætti, að erfitt sé fyrir stefndu að halda uppi vörnum í málinu.  Nærtækara hefði verið fyrir stefn­anda að byggja á nýjasta ársreikningi Actavis Group hf., sem hafi legið fyrir, þegar mál var höfðað, enda hefði þá í það minnsta verið mögulegt fyrir stefndu að átta sig á þeirri aðferða­fræði sem stefnandi legði til grundvallar.

Með vísan til alls framangreinds telji stefndu, að málatilbúnaður stefnanda sé svo vanreifaður, að það fari gegn kröfu laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um skýran og ljós­an málatilbúnað og komi niður á möguleikum stefndu á því að halda uppi vörn­um í málinu.  Þá mótmæla stefndu því, að stefnandi geti, á síðari stigum, komið að nýjum málsástæðum, eða gert breytingar á málatilbúnaði sínum, til þess að bæta úr óskýr­leika í stefnu, enda mikilvægt að málatilbúnaður stefnanda sé skýrlega lagður strax í stefnu.  Stefndu telji því, að kröfum stefnanda skuli vísað frá dómi.

Málskostnaðarkrafa stefndu í aðalkröfu og fyrstu varakröfu byggi á því, að vinni stefndu málið að öllu leyti, sé eðlilegt, að stefnandi haldi þeim skað­laus­um af kostnaði, sem þeir hafi orðið fyrir vegna þessa.  Verði stefn­anda dæmd lægri fjárhæð en hann krefst, telji stefndu eðlilegt, að máls­kostn­aður falli niður.  Varðandi málskostnað krefjist stefndu þess, að tillit verði tekið til þess, að þeir séu ekki virðisaukaskattskyldir og geti því ekki nýtt virðisaukaskatt af lög­manns­þóknun sem innskatt í rekstri sínum.

Stefndu byggja kröfur sínar á reglum einkamálaréttarfars um skýran málatil­bún­að, sem komi aðallega fram í 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, og reglum sömu laga um aðild og of seint fram komnar málsástæður.  Þá byggi stefndu á regl­um samninga- og kröfuréttar, m.a. um efndir skyldna, sem háðar séu skilyrðum, reglum um brostnar for­sendur og réttaráhrifum þeirra og reglum um túlkun löggerninga, auk reglna um ábyrgðir, lögum um samn­ingsveð nr. 75/1997 og lögum um hlutafélög nr. 2/1995.  Krafa um málskostnað byggi á reglum XXI. kafla laga um meðferð einkamála.

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefndu byggja frávísunarkröfu sína á því í fyrsta lagi, að ekkert sé getið um samning stefnanda og tveggja félaga í hans eigu við stefndu, dags. 6. október 2008, og hefur stefndi lagt fram samning þann á ensku, óþýddan og er það í andstöðu við upphafsákvæði 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991.  Stefndi hefur enga grein gert fyrir því á hvern hátt samningur þessi snertir kröfu stefnanda á hendur stefnda um árangursþóknun samkvæmt fjárfestingarsamningi aðila.

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því, að krafa stefnanda á hendur stefndu hafi verið veðsett.

Samkvæmt dskj. nr. 43, sem er yfirlýsing frá Sparisjóðabanka Íslands hf., dags. 15. desember 2010, var krafan veðsett Sparisjóðabanka Íslands.  Í yfirlýsingunni er staðfest, að af hálfu bankans er litið svo á, að stefnandi hafi fullan og ótakmarkaðan rétt til að stefna og reka fyrir dómi mál til viðurkenningar á tilvist kröfunnar og skyldu stefndu til að greiða hana, og er stefnanda jafnframt veitt full og óskoruð heimild til að höfða og reka mál þetta, sem hér er til meðferðar fyrir dóminum.  Verður málinu því ekki vísað frá af þeim sökum, að stefnandi hefi ekki aðild að málinu.

Stefndu byggja á því, að það valdi frávísun, að stefnandi byggi kröfu sína á því að um fortakslausa greiðsluskyldu stefndu sé að ræða samkvæmt fjárfestingarsamningnum, en sá skilningur eigi sér enga stoð í þeim samningi.  Geri stefnandi enga tilraun til þess í stefnu að skýra á hvaða grundvelli stefndu beri fortakslausa greiðsluskyldu.

Telja verður að málsástæða þessi falli undir efnistök málsins og verður ekki skorið úr því hér, hvort nægilega sé sýnt fram á greiðsluskyldu stefndu.

Stefndu byggja á því, að ekki sé vikið að því í stefnu, hvort ráðningarsamningur hafi verið gerður við stefnanda.

Í skjölum málsins kemur fram, að slíkur ráðningarsamningur var ekki gerður og að stefnanda má vera um það kunnugt.  Veldur það ekki frávísun, að þess sé ekki sérstaklega getið í stefnu.

Stefnandi byggir á því, að rökstuðningur stefnanda fyrir fjárhæð kröfunnar sé afar óljós, einkum hvað varðar gildi kennitölunnar EV/EBITDA.

Fallast verður á þessa málsástæðu stefndu, en fram kemur í málatilbúnaði stefnanda, að krafa hans er reiknuð út frá áætlunum, sem stefnanda mátti vera ljóst, að voru ekki réttur grundvöllur fyrir útreikningi kröfunnar.  Enda þótt gagnaöflun hafi ekki verið lýst lokið í málinu, verður ekki talið að útreikningur á öðrum grunni eða matsgerð dómkvaddra matsmanna verði til þess að bæta úr þessum annmarka, þar sem grundvelli útreiknings kröfunnar yrði raskað.  Hefur stefnandi þannig ekki gert þá grein fyrir kröfu sinni og sönnunargögnum um hana í stefnu, sem áskilið er í 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en lög nr. 91/1991 gera ekki ráð fyrir því að stefnandi fái fresti eftir þingfestingu máls í því skyni að bæta úr annmörkum á málatilbúnaði í stefnu, sbr. og dóm Hæstaréttar í máli nr. 413/2009. 

Samkvæmt framansögðu ber að vísa málinu frá dómi.  Þá ber stefnanda að greiða stefndu hvorum um sig málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 200.000.            

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málinu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Vilhelm Róbert Wessman, greiði hvorum hinna stefndu, Novator Pharma S.à r.l. og Novator Pharma Holding Ltd., kr. 200.000 í málskostnað.