Hæstiréttur íslands

Mál nr. 18/2001


Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Bókhald
  • Framhaldsbrot
  • Fyrning
  • Fésekt


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. mars 2001.

Nr. 18/2001.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Steen Johansson

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Virðisaukaskattur. Bókhald. Framhaldsbrot. Fyrning. Fésekt.

S var ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á innheimtum virðisaukaskatti  á tímabilinu mars-desember 1993, janúar-júní og nóvember til og með desember 1994 og frá janúar 1995 til og með febrúar 1996. Þá sætti hann ákæru fyrir vanrækslu á að færa bókhald og varðveita bókhaldsgögn. S viðurkenndi brotin. Héraðsdómur sýknaði að hluta vegna fyrningar. Fyrir Hæstarétti voru brotin virt heildstætt sem samfelld brotastarfsemi og samkvæmt því öll talin ófyrnd. Voru brot S talin meiri háttar og hann dæmdur til skilorðsbundinnar refsivistar auk þess sem honum var gerð sektarrefsing.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. desember 2000 og krefst sakfellingar ákærða samkvæmt ákæru og þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.

Svo sem fram kemur í héraðsdómi hefur ákærði játað að hafa framið brot þau, er ákæra málsins tekur til. Samkvæmt því rangfærði hann í sjálfstæðum atvinnurekstri sínum skilaskyldan virðisaukaskatt á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna mars til og með desember 1993 og lét undir höfuð leggjast að skila virðisaukaskattsskýrslum vegna tímabilanna frá janúar til og með júní og nóvember til og með desember 1994 og frá janúar 1995 til og með febrúar 1996. Kom hann sér þannig undan að standa skil á innheimtum virðisaukaskatti vegna sölu á þjónustu á framangreindum tímabilum, sem samtals nam 2.333.223 krónum.

Á sama hátt liggur fyrir að ákærði vanrækti að færa bókhald og varðveita bókhaldsgögn vegna starfsemi sinnar á árunum 1993 til 1996.

Áfrýjun ákæruvalds á héraðsdómi lýtur að því að hnekkja þeirri niðurstöðu hans að hluti ofangreindra brota sé fyrndur þar sem ekki verði litið á atferli ákærða í heild sem framhaldsbrot heldur miðað við að brotin verði virt sem sjálfstæð og afmörkuð og miðist fyrningarfrestur við fullframningu hvers þeirra um sig.

Brot ákærða samkvæmt I. kafla ákæru, sem fólust í því að gera ekki skil til ríkissjóðs á virðisaukaskatti, sem hann hafði innheimt, náðu samfellt yfir tímabilið frá mars 1993 til og með febrúar 1996, að því undanskildu að hinn 7. desember 1994 skilaði hann tveimur virðisaukaskattsskýrslum fyrir greiðslutímabilin júlí-ágúst og september-október 1994. Samkvæmt þeim var ekki um neina skattskylda veltu ákærða að ræða á þessum tímabilum og hefur það ekki verið vefengt. Brot ákærða voru óumdeilanlega samkynja. Líta verður svo á að þau hafi verið framin vísvitandi og með skipulegum hætti umrætt tímabil með því markmiði að halda eftir hinum innheimta skatti, sem skila átti til ríkissjóðs.  Þegar til þessara atriða er litið þykir verða að virða þau heildstætt sem samfellda brotastarfsemi. Skiptir ekki máli í þessu sambandi þótt ákærði hafi skilað tveimur svokölluðum núllskýrslum 7. desember 1994 eins og áður er lýst.

Á sama hátt verður að líta á brot ákærða á bókhaldslögum á ofangreindu tímabili sem óslitna brotastarfsemi.

Samkvæmt þessu telst fyrningarfrestur vegna brota ákærða hefjast þegar umræddri brotastarfsemi lauk í febrúarlok 1996, sbr. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hliðsjón af 5. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 4. mgr. 41. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald og áður 2. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga teljast öll brotin ófyrnd.

Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til þess að lög nr. 42/1995, sem breyttu 40. gr. laga nr. 50/1988, tóku gildi 9. mars 1995, en með þeim var lögfest ákvæði um lágmark fésektar, er næmi tvöfaldri skattfjárhæð, sem undan er dregin. Er í héraðsdómi réttilega greind fjárhæð undandregins virðisaukaskatts eftir það tímamark. Lög nr. 39/1995, sem breyttu 262. gr. almennra hegningarlaga tóku gildi 1. júlí 1995. Þegar litið er til verknaðar ákærða samkvæmt ákærukafla I, sem stóð yfir langan tíma og varðaði verulega fjárhæð, verður að líta svo á að um meiri háttar brot sé að ræða, sbr. áður ákvæði  6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sem gilti til 9. mars 1995, og nú 1. mgr., sbr. 3. mgr., 262. gr. almennra hegningarlaga. Þá teljast brot hans samkvæmt II. kafla ákærunnar meiri háttar samkvæmt 1. og 2. tl. 37. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994, sbr. lög nr. 37/1995 og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar ber að hafa í huga að ákærði hefur hreinskilnislega játað brot sín og að hann hefur ekki áður sætt refsingum, sem hér skipta máli. Jafnframt þykir rétt að líta til þess óhæfilega dráttar, sem varð á rannsókn málsins. Að öllu þessu athuguðu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði, en eftir atvikum þykir rétt að skilorðsbinda refsinguna eins og nánar segir í dómsorði. Jafnframt verður ákærði dæmdur til að greiða sekt í ríkissjóð, 2.000.000 krónur. Komi fangelsi í tvo mánuði í hennar stað verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest, en dæma ber ákærða til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Steen Johansson, sæti fangelsi í fimm mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 2.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í tvo mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. október 2000.

I

Mál þetta, sem var dómtekið 25. september sl., er höfðað með ákæru Ríkis-lögreglustjórans 25. apríl 2000 á hendur Steen Johansson, kt. 121057-3879, Helgerødveien 39, Sandefjord, Noregi.

I.“Fyrir brot gegn lögum um virðisaukskatt.

Ákærða er gefið að sök að hafa, í sjálfstæðum atvinnurekstri sínum, brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa rangfært, á virðisaukaskattssýrslum, skilaskyldan virðisaukaskatt vegna sölu hans á virðisaukaskattskyldri þjónustu, vegna uppgjörstímabilanna mars til og með desember 1993, og að hafa látið undir höfuð leggjast að skila virðisaukaskattsskýrslum vegna tímabilanna frá janúar til og með júní og nóvember til og með desember 1994 og frá janúar 1995 til og með febrúar 1996 og að hafa með þessu komið sér undan að standa Sýslumanninum í Hafnarfirði skil á innheimtum virðisaukaskatti, í samræmi við það sem lög áskilja, vegna sölu hans á þjónustu samkvæmt 38 sölureikningum sem hann gaf út á framangreindum tímabilum samtals að fjárhæð kr. 2.333.223 og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:                          Vantalin skattskyld      Vangoldinn velta:      virðisaukaskattur:

Árið 1993

Mars – apríl                                                        kr.1.433.657                   kr.351.246

Maí – júní                                                             kr. 643.641                   kr. 157.692

Júlí – ágúst                                                           kr. 569.570                   kr. 139.544

September – október                                           kr. 755.224                   kr. 185.030

Nóvember – desember                                        kr. 820.038                   kr.200.909

                                                                             kr.4.222.130                   kr.1.034.421

Árið 1994

Janúar – febrúar                                                   kr. 474.551                   kr.116.265

Mars – apríl                                                          kr. 791.246                   kr.193.855

Maí – júní                                                          kr. 1.138.396                   kr.278.907

Nóvember – desember                                           kr.27.000                   kr. 6.615

                                                                             kr.2.431.193                   kr.595.642

 

Árið 1995

Janúar – febrúar                                                    kr.738.738                   kr. 165.698

Mars – apríl                                                           kr.603.725                   kr.147.912

Maí – júní                                                              kr.330.000                   kr.80.850

Júlí – ágúst                                                           kr. 330.000                   kr.80.850

September – október                                            kr.390.000                   kr.95.550

Nóvember – desember                                        kr. 360.000                   kr.88.200

                                                                             kr.2.752.463                   kr.659.060

Árið 1996

Janúar – febrúar                                                    kr.180.000                   kr.44.100

                                                                                kr.180.000                   kr.44.100

 

Samtals:                                                         kr. 9.585.786                   kr.2.333.223

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988, um virðisaukaskatt, sjá nú 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II. Fyrir bókhaldsbrot.

Með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa bókhald og varðveita bókhaldsgögn vegna starfsemi sinnar á árunum 1993, 1994, 1995 og 1996.

Telst þetta varða við 25. gr. laga nr. 51, 1968, sbr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sjá nú 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145, 1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37, 1995 um breyting á þeim lögum, sbr. 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.”

Ákærði hefur skýlaust játað fyrir dóminum að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru Var því farið með málið sem játningarmál samkvæmt 125. gr. laga nr. 1971991 og málið dómtekið án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og verjandi höfðu tjáð sig um lagaatriði og viðurlög.

Af hálfu ákæruvalds er á því byggt að brotastarfsemi ákærða falli undir þá skilgreiningu að vera framhaldsbrot er virða skuli sem brotaeind og sé sök ákærða því ófyrnd að öllu leyti. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði hljóti vægustu refsingu er lög leyfa og að refsing ákærða verði skilorðsbundin. Verjandinn byggir á því að sýkna beri ákærða af  hluta brotanna vegna fyrningar, en hann mótmælir því að litið verði á brot ákærða sem framhaldsbrot. Hann krefst þess að sektarrefsing ákærða verði skilorðsbundin.

II

Við úrlausn máls þessa verður að taka til sjálfstæðrar athugunar hvort sök ákærða kunni að vera fyrnd að hluta. Í 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er upphaf fyrningarfrests markað á þann veg að frestur telst frá þeim degi er refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk. kemur þá til álita hvort brotastarfsemi ákærða falli undir þá skilgreiningu að vera framhaldsbrot er virða skuli sem brotaeind og upphaf fyrningarfrests teljist frá lokum síðasta brots í brotahrinu ákærða árið 1996.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr.laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er refsinæmi háttsemi ákærða fólgin í því annars vegar að hafa af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skýrt rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um virðisaukaskatt sinn og hins vegar að afhenda ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu eð virðisaukaskatt sem hann hafði innheimt. Í 15. gr sömu laga er mælt fyrir um að virðisaukaskattskyldir aðilar skuli greiða í ríkissjóð mimun útskatts og innskatts hvers uppgjörstímabils, sbr. 24. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 24. gr. laganna er kveðið á um að hvert uppgjörstímabil virðisaukaskatts séu tveir mánuðir: Janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember. Í 2. mgr. 24. gr. laganna segir að virðisaukaskatti ásamt virðisaukaskattskýrslu skuli skila eigi síðar en á fimmta degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna viðskipta á því tímabili.

Samkvæmt þessu ber við það að miða að virðisaukaskattsbrot ákærða hafi verið fullframin á því tímamarki er honum bar að skila skattinum eftir hvert uppgjörstímabil, sbr. 1. mgr. 24. gr. tilvitnaðra laga, og að upphaf fyrningarfrests miðist við sama tímamark. Verða brot ákærða því virt sem sjálfstæð og afmörkuð brot, sem endurtekin voru á ofangreindum uppgjörstímabilum.

Að því er varðar kafla II í ákæru er í 4. gr. bókhaldslaga nr. 51/1968, sem er nánast óbreytt í nýjum bókhaldslögum nr. 145/1994, kveðið á um að bókhaldsskyldir aðilar skuli haga bókhaldi sínu og semja ársreikninga í samræmi við reglur laganna og góða bókhalds- og reikningsskilavenju. Í 18. gr. laga nr. 51/1968 kveðið á um að allirþeir sem bókhaldsskyldir eru skuli gera ársreikning einu sinni á hverju reikningsári og að reikningsárið skuli vera tólf mánuðir. Í 2. mgr. sömu greinar segir að ársreikningur skuli fullgerður og undirritaður eigi síðar en fimm mánuðum eftir lok reikningsársins. Svipuð ákvæði eru í nýjum bókhaldslögum nr. 145/1994 nema þar er kveðið á um að ársreikningur skuli fullgerður eigi síðar en sex mánuðum eftir lok reikningsársins.

Ákærði lét undir höfuð leggjast að halda bókhald vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar á árunum 1993, 1994, 1995 og 1996. ´Samkvæmt framansögðu bar ákærða að skila ársreikningi vegna ársins 1993 í síðasta lagi 31. maí 1994. Verður það tímamark lagt til grundvallar upphafi fyrningarfrests bókhaldsbrota ákærða. Ársreikningum vegna áranna 1994, 1995 og 1996 bar ákærða hins vegar að skila í síðasta lagi þann 30. júní næsta árs í samræmi við ákvæði í nýju bókhaldslögunum sem tóku gildi 1. janúar 1995. Miðast því upphaf fyrningarfrests vegna ársins 1994 við 30. júní 1995, vegna ársins 1995 við 30. júní 1996 og vegna ársins 1996 við 30. júní 1997.

Í 5. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988 er mælt fyrir um sérreglu um fyrningu sakar vegna virðisaukaskattsbrota. Er þar kveðið á um að sök fyrnist á sex árum miðað við upphaf rannsóknar á vegum skattrannsóknarstjóra eða rannsóknarlögreglustjóra ríkisins, nú ríkislögreglustjórans, eða hjá löglærðum fulltrúum þeirra gegn skattaðila sem sökunaut, enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar.

Fyrir gildistöku bókhaldslaga nr. 145/1994 fór um fyrningu bókhaldsbrota eftir 2. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981. Samkvæmt því fyrntust bókhaldsbrot á fimm árum. Með gildistöku nýrra bókhaldslaga nr. 145/1994 þann 1. janúar 1995 var mælt svo fyrir í 4. mgr. 41. gr.laganna, sem hefur að geynma sérreglu um fyrningu bókhaldsbrota, að sakri samkvæmt lögunum fyrntust á sex árum

Ákærði gaf skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins þann 1. desember 1994. Var hann yfirheyrður af viðskiptafræðingi er starfaði við embættið. Þá var ákærði yfirheyrður þann 22. mars 2000 á lögreglustöðinni í Sandefjord í Noregi af rannsóknarlögreglumanni við embætti ríkislögreglustjórans. Var löglærður fulltrúi ríkislögreglustjórans viðstaddur þá yfirheyrslu. ákærði var í báðum tilvikum yfirheyrður sem sökunautur í máli, en í hvorugt skipti af yfirmanni eða löglærðum fulltrúa viðkomandi embætta. Var meðferð málsins því ekki með þeim hætti að fyrning hafi rofnað gagnvart ákærða fyrr en með þingfestingu málsins fyrir dóminum

þann 15. júní 2000.

Samkvæmt þessu telur dómurinn að virðisaukaskattsbrot ákærða vegna ársins 1993 og til og með greiðslutímabilsins mars- apríl 1994 séu fyrnd. Verður ákærði því sýknaður af þeim hluta I. kafla ákærunnar.

Bókhaldsbrot ákærða vegna ársins 1993 var fullframið samkvæmt framansögðu þann 31. maí 1994. Með vísan til ofanritaðs um rof fyrningar á sök ákærða við þingfestingu máls þessa þann 15. júní 2000, telur dómurinn bókhaldsbrot ákærða vegna ársins 1993 fyrnt og verður hann því sýknaður af þeim hluta II. kafla ákærunnar.

Samkvæmt framansögðu verður ákærði því sakfelldur fyrir að hafa andstætt því sem lög áskilja látið undir höfuð leggjast að skila virðisaukaskattskýurslum og að hafa með því komið sér undan að standa innheimtumanni ríkissjóð skil á innheimtum virðisaukaskatti vegna eftirtalinna tímabila: Maí- júní  og nóvember- desember 1994, 285.522 krónur, janúar- desember 1995, 659.060 krónur og janúar- febrúar 1996, 44.100 krónur. samtals nema þessar fjárhæðir 988.682 krónum.

Þá verður ákærði samkvæmt því er áður greinir sakfelldur fyrir að færa ekki bókhald og varðveita bókhaldsgögn vegna starfsemi sinnar á árunum 1994, 1995 og 1996.

III

Ákærði hefur eigi áður sætt refsingum er hér skipta máli.

Við ákvörðun refsingar ber til þess að líta að þann 1. júlí 1995 tóku gildi lög nr. 39/1995, en með þeim var 262. gr. almennra hegningarlagaa nr. 19/1940 breytt. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins varða meiri háttar brot, meðal annars á lögum um virðisaukaskatt fangelsi allt að 6 árum. Fjárhæð virðisaukaskatts sem ákærði vanrækti að skila eftir nefnt tímamark, var 389.550 krónur. Að virtri þeirri fjárhæð og hreinskilnislegri játningu ákærða verður ekki talið að brot hans á lögum um virðisaukaskatt séu meiri háttar. Verður honum því ekki gert að sæta fangelsisrefsingu fyrir þau.

Brot ákærða á lögum um bókhald, sem hann er sakfelldur fyrir, teljast meiri háttar í skilningi 1. og 2. tl. 37. gr. laga nr. 145/1994, sbr. 36. gr. þeira laga, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 37/1995, sbr. 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995. Refsing ákærða fyrir bókhaldsbrot þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði, en eftir atvikum þykir rétt að ákveða að fullnustu refsingarinnar skuli frestað og að refsing falli niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlag nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.

Af fjárhæð þeirri, 988.682 krónum, sem ákærði er sakfelldur fyrir að hafa vanrækt að skila innheimtumanni ríkissjóðs, stafa 703.160 krónur vegna brota ákærða sem framin voru eftir gildistöku laga nr. 42/1995. Samkvæmt 3. gr þeirra laga varða brot á lögum um virðisaukaskatt fésekt, sem nemur að lágmarki tvöfaldri skattfjárhæðinni sem um ræðir. Að því virtu og að teknu tilliti til 2. gr. almennra hegningarlaga, verður ákæða gert að greiða sekt í ríkissjóð, sem telst hæfilega ákveðin 1.500.000 krónur. Eins og atvikum  máls þessa er háttað og með vísan til dóms Hæstaréttar 26. þessa mánaðar í málinu nr. 149/2000, þykja eigi næg efni til að binda sektina skilorði, eins og krafist er af hálfu ákærða.

Kemur 48 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Eftir þessum úrslitum verður ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með telinnar þóknunar skipaðs verjanda síns, Páls Arnórs Pálssonar, hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin, 60.000 krónur.

Dómsuppsaga hefur dregist vegna þess að ákveðið var að bíða niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 149/2000 varðandi skilorðsbindingu sektarrefsingar. Gekk dómur um það .þann 26. þessa mánaðar eins og áður greinir.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Steen Johansson, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði allmennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr.laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 1.500.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 48 daga.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Páls Arnórs Pálssonar, hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.