Hæstiréttur íslands

Mál nr. 116/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Félagsslit
  • Verðbréfafyrirtæki
  • Kröfulýsing
  • Málsástæða
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. apríl 2003.

Nr. 116/2003.

Burnham International á Íslandi hf.

(Aðalsteinn E. Jónsson hrl.)

gegn

Rannsóknarsjóði í slitgigtarsjúkdómum

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

 

Kærumál. Félagsslit. Verðbréfafyrirtæki. Kröfulýsing. Málsástæður. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá héraðsdómi.

 

Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem viðurkennd var við félagsslit B skaðabótakrafa R. R hafði gert samning árið 2000 við forvera B um þjónustu við fjárvörslu, þar sem B var veitt umboð til að kaupa og selja verðbréf fyrir R. B var svipt starfsleyfi til verðbréfaviðskipta í nóvember 2001 og tekið til skipta eftir reglum um slit fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Á kröfulýsingarfresti kom m.a. fram krafa frá R þar sem lýst var sem forgangskröfu samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, kröfu samkvæmt víxli án ábyrgðamanna, sem stafaði frá B sjálfu. Í síðara bréfi F til skiptastjóra reisti F sömu kröfu einnig á þeirri málsástæðu að B væri skaðabótaskylt gagnvart sér. Á skiptafundi í apríl 2002 viðurkenndi skiptastjóri kröfu F sem almenna kröfu, eftir að F hafði fallið frá kröfu sinni um að fjárkröfu hans yrði skipað í réttindaröð samkvæmt fyrrnefndu ákvæði laga nr. 21/1991, en hafnaði bótaábyrgð B vegna viðskiptanna. Var talið að F gæti ekki nú haldið kröfu sinni, sem þegar hafði verið viðurkennd, til streitu með málsókn fyrir dómi til þess eins að fá úr því leyst hvort það skyldi gert á grundvelli einnar málsástæðu sinnar fremur en annarrar, sbr. meginreglu 1. mgr. 98. gr. laga um meðferð einkamála. Hafði F því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, svo sem það hafði verið lagt fyrir dómstóla, og var málinu vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. apríl sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2003, þar sem viðurkennd var við félagsslit sóknaraðila skaðabótakrafa varnaraðila að fjárhæð 7.750.000 krónur með dráttarvöxtum frá 9. janúar 2002 til greiðsludags. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og áðurgildandi 59. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði að viðurkenna fyrrgreinda kröfu varnaraðila og að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð og málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 24. mars 2003. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með þeim breytingum að dráttarvextir verði dæmdir af kröfu hans frá 19. september 2001 til greiðsludags og fjárhæð málskostnaður verði hækkuð. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

I.

Samkvæmt gögnum málsins gerði varnaraðili samning 10. október 2000 við sóknaraðila um þjónustu við fjárvörslu, þar sem sóknaraðila var veitt umboð til að kaupa og selja verðbréf fyrir hann. Var varnaraðili nefndur fjárvörslureikningshafi í samningnum. Tekið var þar fram að umboð sóknaraðila til viðskipta með verðbréf í þágu varnaraðila væri bundið við ríkistryggð skuldabréf og víxla, húsbréf, bankatryggð skuldabréf og víxla, skuldabréf og víxla sveitarfélaga, víxla fyrirtækja með ábyrgðarmanni, hlutabréf skráð hjá Verðbréfaþingi Íslands hf. eða á opna tilboðsmarkaðinum, erlend verðbréf, sem skráð væru á viðurkenndum markaði, og óskráð erlend hlutabréf og fjárfestingarsamlög. Fólst í ákvæðum samningsins að slík viðskipti væru ekki háð samþykki varnaraðila hverju sinni.

Í yfirliti frá sóknaraðila til varnaraðila 11. maí 2001 um verðbréf þess síðarnefnda í vörslum félagsins 30. apríl sama árs kom fram að varnaraðili hafi þá átt þar innlend og erlend verðbréf að andvirði samtals 16.409.307 krónur, þar með talinn víxil, sem þar var tilgreindur með lýsingunni „S004083 Burnham Int.L“, að nafnverði 7.750.000 krónur. Þessa víxils og annarra samsvarandi var eftir þetta getið í yfirlitum um verðbréfaeign varnaraðila í vörslum sóknaraðila 31. júlí, 31. ágúst, 30. september og 31. október 2001, en þó þannig að númer víxla urðu önnur þegar fram liðu stundir. Í síðasta yfirlitinu, sem tók mið af verðbréfaeign varnaraðila 28. nóvember 2001, var getið um víxil af þessum toga, sem bar númerið S004202 og var að nafnverði 7.750.000 krónur.

Sóknaraðili mun hafa verið sviptur starfsleyfi til verðbréfaviðskipta 27. nóvember 2001. Sama dag mun hafa gengið úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur um að félagið væri tekið til skipta eftir reglum um slit fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, sbr. áðurnefnda 59. gr. laga nr. 13/1996, eins og þeim hafði verið breytt með 7. gr. laga nr. 163/2000. Skiptastjóri, sem skipaður var til að fara með félagsslitin, gaf út innköllun vegna þeirra. Á kröfulýsingarfresti kom meðal annars fram krafa frá varnaraðila í bréfi 9. janúar 2002. Hann vísaði þar til áðurgreinds samnings aðilanna 10. október 2000, sem hafi haft skýr ákvæði um heimildir sóknaraðila til að ráðstafa fé varnaraðila. Hafi sóknaraðili 19. júní 2001 varið hluta af fénu til kaupa á víxli án ábyrgðarmanna, sem stafaði frá honum sjálfum, en til þess hafi hann enga heimild haft. Taldi varnaraðili þetta skýrlega vera brot á samningi aðilanna, enda ráðstöfunin bersýnilega ekki í samræmi við hagsmuni hans. Kröfunni lýsti varnaraðili sem forgangskröfu samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 og nam fjárhæð hennar 8.466.382 krónum að meðtöldum áföllnum dráttarvöxtum og kostnaði. Í málinu liggur einnig fyrir bréf varnaraðila til skiptastjóra 18. janúar 2002, þar sem aftur var lýst kröfu vegna sömu atvika og að framan er getið, en þó tekið fram að krafan væri um skaðabætur og fjárhæð hennar samtals 8.766.992 krónur. Rök voru þar færð fyrir skaðabótaskyldu sóknaraðila og krafan sögð vera reist á „reglum skaðabótaréttar og lögum nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti.“ Í niðurlagi bréfsins vakti varnaraðili athygli á því að hann hafi áður lýst kröfu til skiptastjóra „um greiðslu fyrrgreinds víxils.“

Í skrá um lýstar kröfur á hendur sóknaraðila, sem skiptastjóri gerði 14. mars 2002, greindi hann frá þeirri afstöðu að hafna ætti áðurnefndum kröfum varnaraðila, sem væru „bótakröfur-víxill“ að fjárhæð 8.766.992 krónur. Á skiptafundi, sem skiptastjóri hélt 22. sama mánaðar, komu fram mótmæli varnaraðila gegn þessari afstöðu. Skiptafundur var haldinn á ný 19. apríl 2002 til að leitast við að jafna ágreining um lýstar kröfur, þar á meðal kröfu varnaraðila. Á þeim fundi féll varnaraðili frá kröfu sinni um að fjárkröfu hans yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Að öðru leyti var eftirfarandi tekið fram í fundargerð varðandi umfjöllun um þessa kröfu og tvær aðrar, sem sams konar ágreiningur stóð um: „Skiptastjóri ákveður að breyta afstöðu sinni og samþykkja kröfurnar sem almennar kröfur með þeim fjárhæðum sem koma fram í kröfulýsingum. Skiptastjóri viðurkennir þó ekki að Burnham á Íslandi hf. hafi bakað sér bótaábyrgð vegna þeirra viðskipta sem liggja að baki kröfunum. Lögmenn kröfuhafa mótmæla þessari afstöðu skiptastjóra og telja að um bótaskylt tjón sé að ræða sem falli undir þær tryggingar sem Burnham á Íslandi hf. hafi keypt af Sjóvá-Almennum hf.“ Var enn ákveðið að reyna að jafna þennan ágreining á síðari skiptafundi, sem var haldinn 20. ágúst 2002. Sú viðleitni bar ekki árangur og beindi skiptastjóri ágreiningsefninu til Héraðsdóms Reykjavíkur 27. sama mánaðar. Af þessu tilefni var mál þetta þingfest þar fyrir dómi 20. september 2002.

II.

Með bréfi 4. desember 2002 tilkynnti skiptastjóri Héraðsdómi Reykjavíkur að farið yrði með slit á sóknaraðila eftir ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti, þar sem eignir félagsins muni ekki nægja til að efna viðurkenndar kröfur. Samkvæmt þessu og með vísan til 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 gilda almennar reglur laga nr. 21/1991 meðal annars um lýstar kröfur á hendur sóknaraðila, meðferð þeirra og réttaráhrif þeirrar málsmeðferðar.

Samkvæmt þeim meginreglum, sem búa meðal annars að baki ákvæðum 116. gr. og 117. gr. laga nr. 21/1991, hefur lýsing kröfu fyrir skiptastjóra við gjaldþrotaskipti, eftirfarandi meðferð hans á kröfunni og eftir atvikum úrlausn dómstóla um viðurkenningu hennar í máli samkvæmt 5. þætti laganna samsvarandi áhrif og ef einkamál væri höfðað um kröfuna, það hlyti meðferð fyrir dómi og niðurstaða væri þar fengin eftir almennum reglum, eftir atvikum með dómsúrlausn. Í áðurnefndri kröfulýsingu varnaraðila 9. janúar 2002 gerði hann kröfu um að viðurkenndur yrði réttur hans til greiðslu úr hendi sóknaraðila á samtals 8.466.382 krónum. Af þessu bréfi var ekki fyllilega ljóst á hvaða grunni varnaraðili reisti kröfu sína, en af fyrrgreindum ummælum í niðurlagi síðari kröfulýsingar hans verður ekki annað ráðið en að hann hafi sjálfur talið sig í fyrra tilvikinu hafa lýst kröfu á grundvelli víxils. Í síðari kröfulýsingunni 18. janúar 2002 kom á hinn bóginn skýrlega fram að sóknaraðili reisti kröfu sína, sem þar var að fjárhæð 8.766.992 krónur, á þeirri málsástæðu að sóknaraðili væri skaðabótaskyldur gagnvart sér. Á skiptafundi 19. apríl 2002 féll varnaraðili sem áður segir frá kröfu um að hann fengi notið forgangsréttar til greiðslu úr hendi sóknaraðila og lýsti þá skiptastjóri þeirri afstöðu að hann viðurkenndi kröfu varnaraðila sem almenna kröfu með síðastgreindri fjárhæð. Með þessu samþykkti sóknaraðili þá kröfu, sem gerð var á hendur honum. Getur varnaraðili ekki nú haldið kröfu sinni, sem þegar er viðurkennd, til streitu með málsókn fyrir dómi til þess eins að fá úr því leyst hvort það skuli gert á grundvelli einnar málsástæðu sinnar fremur en annarrar, sbr. meginreglu 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hefur varnaraðili því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls, svo sem það hefur verið lagt fyrir dómstóla. Verður málinu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2003.

                Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 20. september 2002 og tekið til úrskurðar 11. febrúar sl.

                Sóknaraðili er Rannsóknarsjóður í slitgigtarsjúkdómum, kt. 620798-3049, Garðsenda 21, Reykjavík, en varnaraðili þrotabú Burnham International á Íslandi hf., kt. 550191-1729, Vegmúla 2, Reykjavík.

                Dómkröfur sóknaraðila eru „að krafa sóknaraðila í bú varnaraðila, nr. 28 á kröfuskrá, að höfuðstól kr. 8.766.992.- verði viðurkennd sem skaðabótakrafa á hendur varnaraðila."  Þá krefst sóknaraðili að varnaraðili verði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

                Dómkröfur varnaraðila eru aðallega að kröfum sóknaraðila verði hafnað og sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.  Til vara er þess krafist að fjárhæð skaðabótakröfu sóknaraðila verði lækkuð en málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.

Helstu málavextir eru að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2001 var bú varnaraðila tekið til opinberra skipta en félagið var svipt starfsleyfi sama dag, sbr. 62. gr. laga nr. 13/1996, sbr. 7. gr. laga nr. 163/2000.  Sigurmar K. Albertsson hrl. var skipaður skiptastjóri.

                Sóknaraðili lýsti kröfu að höfuðstól 7.750.000 kr. í búið 9. janúar 2002. Kröfuna telur sóknaraðili byggða á svonefndum Burnhamsvíxli, sem varnaraðili hafði samþykkt, en varnaraðili hafi ráðstafað fjármunum, er hann hafði í fjárvörslum fyrir sóknaraðila, til kaupa á víxlinum.  Í bréfi til skiptastjóra, dags. 18. janúar 2002, var af hálfu sóknaraðila lýst yfir að kaup víxilsins hafi verið heimildarlaus og var þess krafist að þrotabúið greiddi sóknaraðila skaðabætur  að fjárhæð 8.766.992 kr.

                Í bréfi skiptastjóra til lögmanns sóknaraðila 11. mars 2002 hafnaði hann bótaábyrgð varnaraðila og starfsmanna hans.  Skiptastjóri áréttaði þessa afstöðu sína á skiptafundi 22. mars 2002 og var þessu viðhorfi hans mótmælt.  Á skiptafundi 19. apríl 2002 var þess freistað að jafna þennan ágreining.  Ákvað skiptastjóri að samþykkja kröfuna sem almenna kröfu en ítrekaði höfnun bótaábyrgðar.  Fundi var þá frestað í þeim tilgangi að reyna enn frekar að komast að samkomulagi.  Á skiptafundi 20. ágúst 2002 varð að sögn skiptastjóra hins vegar ljóst að ekki tækist að jafna ágreininginn.  Var því í bréfi skiptastjóra til héraðsdóms 27. ágúst 2002 krafist úrlausnar dómsins um bótaskyldu varnaraðila gagnvart sóknaraðila með vísun til 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991, en á skiptafundinum 22. mars 2002 hafði verið ákveðið að með skipti á búi varnaraðila skyldi farið samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991.

Sóknaraðili byggir á því að hafa 10. október 2000 gert fjárvörslusamning við Burnham International á Íslandi hf.  Samkvæmt þessum samningi hafi félagið tekið að sér vörslu og ávöxtun fjármuna sóknaraðila.  Sóknaraðili hafi við undirritun samningsins afhent félaginu 23.000.000 kr. sem félagið skyldi varðveita og ávaxta í samræmi við samning aðila.  Í D-lið samningsins sé fjallað um það hverjar heimildir varnaraðili hafi til að ráðstafa fjármunum sóknaraðila.  Þar sé því nákvæmlega lýst hvaða tegundir verðbréfa varnaraðili mátti kaupa fyrir fjármuni sóknaraðila.  Greint sé frá því að félagið megi einungis kaupa: Ríkistryggð skuldabréf og víxla, húsbréf, bankatryggð skuldabréf og víxla, skuldabréf og víxla sveitarfélaga, víxla fyrirtækja með ábyrgðarmanni eða ábyrgðamönnum, hlutabréf fyrirtækja sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands, hlutabréf á opna tilboðsmarkaðinum, erlend verðbréf sem skráð eru á viðurkenndum markaði og að lokum óskráð erlend hlutabréf og fjárfestingarsamlög.

                Á því er byggt að Burnham International á Íslandi hf. hafi ekki staðið við samning aðila, heldur ráðstafaði stórum hluta fjármuna sóknaraðila með öðrum hætti en heimilt var.  Félagið hafi þannig bakað sér bótaskyldu, enda hafi þessi háttsemi starfsmanna félagsins bæði verið saknæm og ólögmæt.  Sóknaraðili eigi því skaðabótakröfu á hendur varnaraðila.

Af hálfu sóknaraðila er upplýst að sumarið 2001 hafi sóknaraðili fengið vitneskju um að Burnham International á Íslandi hf. hafi ráðstafað fjármunum sóknaraðila í andstöðu við ákvæði samnings aðila.  Fyrirsvarsmönnum sóknaraðila hafi þá verið ljóst að félagið hafði þegar eftir undirritun fjárvörslusamningsins ráðstafað 7.000.000 kr. af fjármunum sóknaraðila til kaupa á eigin víxli Burnham International á Íslandi hf. með gjalddaga þann 16. desember 2000.  Jafnframt hafi þá legið fyrir að sá víxill var ekki greiddur á gjalddaga og að félagið hafði ítrekað framlengt þeim víxli, síðast þann 19. júní 2001, með því að láta sóknaraðila kaupa eigin víxil af varnaraðila með gjalddaga þann 19. september 2001.  Kaupverð þess víxils hafi verið 7.404.682 kr. skv. áritun á víxlinum sjálfum.

Af hálfu sóknaraðila er staðhæft að honum hafi ekki verið tilkynnt um greind viðskipti, hvorki áður en þau áttu sér stað né eftir.  Sóknaraðila hafi ekki verið send yfirlit yfir viðskiptin og ekki fengið vitneskju um þau fyrr en hann gekk eftir uppgjöri hjá varnaraðila sumarið 2001.

Á það er bent að samkvæmt fjárvörslusamningi aðila var Burnham International á Íslandi hf. aðeins heimilt að kaupa víxla fyrirtækja með ábyrgðarmanni eða ábyrgðarmönnum.  Ráðstafanir félagsins á fjármunum sóknaraðila til kaupa á eigin víxlum hafi því þegar af þeim sökum verið óheimilar.

Þá telur sóknaraðili að varnaraðili hafi enn frekar brotið gegn skyldum sínum og trúnaði gagnvart sóknaraðila með því að ráðstafa fjármunum sóknaraðila til kaupa á eigin víxlum varnaraðila með því að sú ráðstöfun hafi eingöngu verið í þágu hagsmuna varnaraðila en ekki sóknaraðila. Sóknaraðili telur augljóst að framkvæmdastjóra Burnham International á Íslandi hf., Sigrúnu Eysteinsdóttur, sem bæði undirritaði fjárvörslusamning aðila og víxil, og jafnframt öðrum starfsmönnum varnaraðila, hafi verið eða a.m.k. mátt vera ljós bág fárhagsstaða varnaraðila á þeim tíma, er fjármunum sóknaraðila var ráðstafað í þágu varnaraðila, og hafi mátt vita að litlar líkur væru á því að varnaraðili gæti greitt sóknaraðila víxilinn.  Því hafi framkvæmdastjóri varnaraðila og/eða aðrir starfsmenn varnaraðila sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við ráðstöfun fjármuna sóknaraðila, sem leitt hafi til tjóns sóknaraðila sem varnaraðili beri fébótaábyrgð á.  Samningur sóknaraðila og Burnham International á Íslandi hf. hafi verið brotin af starfsmönnum félagsins og jafnframt hafi þeir farið á snið við reglur laga um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996, einkum 8., 15., 19. og 20. gr. laganna.

Varnaraðili byggir á því að í fjárvörslusamningi Burnham International á Íslandi hf. við sóknaraðila 10. október 2000 hafi félagið tekið að sér að annast vörslu, umsýslu og ávöxtun fjármuna fyrir sóknaraðila.  Samkvæmt 11. gr. og G-lið og samningsins hafi félaginu verið veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að kaupa verðbréf í nafni sóknaraðila fyrir þá fjármuni sem varnaraðili hafði í sínum vörslum frá sóknaraðila.  Burnham International á Íslandi hf. hafi þannig verið heimilt að kaupa eigin víxla á þann hátt sem liggur fyrir í málinu að hafi verið gert.

Þá er á því byggt að Burnham International á Íslandi hf. hafi fengið heimild til að eiga þessi viðskipti frá Hauki Friðrikssyni, starfsmanni sóknaraðila, er komið hefði á fund f.h. sóknaraðila í október 2000 til að semja um fjárvörslu félagsins.  Sigrún Eysteinsdóttir, starfsmaður Burnham International á Íslandi hf., hafi setið þennan fund með Hauki og hafi þau farið yfir það hvernig fjárvörslunni skyldi hagað.  Í samræmi við ákvæði 7. gr. fjárvörslusamnings aðila um upplýsingagjöf félagsins til sóknaraðila, hafi sóknaraðila reglulega verið sent fjárvörsluyfirlit um allar hreyfingar á fjárvörslureikningi hans.  Á þeim yfirlitum hafi skilmerkilega verið greint frá kaupum á eigin víxli fálagsins en auk þess hafi verið gefið yfirlit yfir víxileign sóknaraðila.  Sóknaraðili hafi þannig fengið í hendur fjárvörsluyfirlit þar sem þessar upplýsingar komu skilmerkilega fram um stöðuna þann 31. desember 2000, 30. apríl 2001, 30. júní 2001 og loks þann 30. september 2001.  Er því mótmælt að sóknaraðili hafi fyrst fengið vitneskju um tilvist umrædds víxils um sumarið 2001.

Enda þótt sá víxill sem hér um ræðir, beri með sér að hafa verið gefinn út þann 19. júní 2001, byggir varnaraðili á því að um framlengingarvíxill á eldri víxli sé að ræða, sem hafi verið keyptur af sóknaraðila í október 2000.  Af þessu leiði að skilyrðum bótaskyldu um orsakatengsl og sennilega afleiðingu sé ekki fullnægt.

Fari svo að dómur telji ósannað að sóknaraðili hafi samþykkt sérstaklega að umrædd viðskipti færu fram, byggir varnaraðili á því að í ljósi athugasemdalausrar framkvæmdar þessara viðskipta verði að leggja til grundvallar að slíkt samþykki hafi engu að síður legið fyrir eða varnaraðili hafi í öllu falli mátt ganga útfrá því.  Verði því að leggja til grundvallar í málinu að sóknaraðili hafi verið grandsamur í lagalegum skilningi um þessi viðskipti og hafi samþykkt þau, ef ekki berum orðum þá í öllu falli með athugasemdalausri framkvæmd.

Þá er því sérstaklega mótmælt að Burnham International á Íslandi hf. hafi með umræddum viðskiptum brotið gegn ákvæðum verðbréfaviðskiptalaga nr. 13/1996 eða að starfsmenn félagsins hafi á nokkurn hátt hagað sér með saknæmum hætti.  Sérstaklega er því mótmælt að sóknaraðili hafi orðið fyrir nokkru tjóni sem rekja megi til saknæmrar hegðunar starfsmanna félagsins eða annarra aðila á þess vegum. Starfsmenn félagsins hafi ávallt gætt fyllstu óhlutdrægni í samskiptum sínum við sóknaraðila og hagað störfum sínum þannig að sóknaraðili, eins og aðrir viðskiptamenn félagsins, nyti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör í verðbréfaviðskiptum, sbr. 15. gr. laga nr. 13/1996.  Sóknaraðila hafi ávallt, eins og gögn málsins bera með sér, verið veittar greinargóðar upplýsingar um þau viðskipti sem fram fóru fyrir hans hönd, sbr. 15. gr. sömu laga og 7. gr. fjárvörslusamnings aðila.  Áréttað sé að gætt hefði verið af hálfu félagsins að halda fjármunum sóknaraðila á sérstökum aðgreindum reikningi sem var skráður á nafn sóknaraðila, sbr. áskilnað 1. mgr. 19. gr. laga nr. 13/1996.  Því er mótmælt að brotið hafi verið gegn ákvæðum 8. gr. og 20. gr. verðbréfaviðskiptalaga nr. 13/1996, eins og byggt sé á af hálfu sóknaraðila.  Óumdeilanlegt sé að viðskipti þessi féllu innan þeirra heimilda sem félagið hafði samkvæmt 8. gr. laganna og að fyllsta trúnaðar var gætt af starfsmönnum þess svo sem með því að fá samþykki sóknaraðila fyrir þessum viðskiptum, en að auki hafi skilmerkilega verið greint frá viðskiptunum á fjárvörsluyfirlitum sem voru send til sóknaraðila.  Af þeim sökum hafi ekki verið brotið gegn 20. gr. síðastnefndra laga.

Af hálfu varnaraðili er mótmælt að starfsmenn Burnham International á Íslandi hf. hafi keypt eigin víxil félagsins fyrir fjármuni sóknaraðila þegar fjárhagsleg staða félagsins var slæm eða fyrirsjáanlegt var að víxillinn myndi ekki greiðast.  Á þeim tíma sem upphafleg víxilkaup áttu sér stað hafi fjárhagsleg staða Burnham International á Íslandi hf. verið þannig að engin ástæða hafi verið til að ætla að fyrirtækið myndi lenda í greiðsluerfiðleikum eða gjaldþrotaskiptum.

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi með eigin aðgerðarleysi og gáleysi stuðlað að meintu tjóni.  Væri fullyrðing hans um að ekki hafi verið heimilt að eiga viðskipti með umrædda eigin víxla Burnham International á Íslandi hf. rétt, hefði hann átt að bregðast við strax og láta starfsmenn félagsins vita um þá afstöðu sína að hann teldi það stangast á við ákvæði fjárvörslusamnings að umræddir víxlar væru keyptir, enda hafi starfsmenn félagsins mátti treysta því að sóknaraðili gerði engar athugasemdir við þessi viðskipti sem höfðu viðgengist athugasemdalaust í lengri tíma.  Hér gildi regla skaðabótaréttar um eigin sök sem og regla um skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt.  Verði ekki fallist á að sóknaraðili hafi með öllu glatað kröfurétti á hendur varnaraðila er þess til vara krafist að kröfufjárhæð verði lækkuð vegna eigin sakar og vanrækslu hans á að takmarka meint tjón sitt.

Að lokum er á því byggt að leggja verði til grundvallar að forsvarsmenn sóknaraðila hafi verið sérfróðir um verðbréfaviðskipti, enda sé starf þeirra fólgið í því að varðveita verulega fjárhagslega hagsmuni sóknaraðila.  Þeir hafi sérþekkingu á þessu sviði, ýmist í skjóli menntunar eða reynslu, og hafi ríkar eftirlitsskyldur gagnvart eignum sjóðsins.  Starfsmenn Burnham International á Íslandi hf. hafi því mátt reikna með að gaumgæfilega væri fylgst með öllum hreyfingum á fjárvörslu-reikningi sóknaraðila og að athugasemdir kæmu strax fram ef forsvarsmenn sóknaraðila teldu eitthvað vera athugavert.

Niðurstaða:          Umræddur víxill er gefinn út 19. júní 2001 til greiðslu 19. september 2001.  Víxillinn er að fjárhæð 7.750.000 kr.  Burnham International á Íslandi hf. var svipt starfsleyfi 27. nóvember 2001, en þá var eiginfjárhlutfall félagins komið langt niður fyrir þau mörk sem lög gerðu ráð fyrir að mati Fjármálaeftirlitsins.  Þá kemur fram í bréfi skiptastjóra í þrotabúi félagsins 22. mars 2002 að eignir félagsins, er skiptastjóri hafi náð höndum yfir á þeim tíma, séu samtals að verðmæti 8.500.000 kr. en lýstar kröfur samkvæmt skrá skiptastjóra 14. mars 2002, sem eru samþykktar af honum, nema 464.289.822 kr.

                Haukur Friðriksson, framkvæmdastjóri sóknaraðila, bar fyrir réttinum að Burnham International á Íslandi hf. hafi aldrei fengið heimild til taka fjármuni sóknaraðila, sem félagið hafði í sínum vörslum, að láni með þeim hætti sem hér um ræðir.  Af skriflegum gögnum málsins verður heldur ekki ráðið að félagið hafi haft heimild til þess.  Af hálfu varnaraðila er því hins vegar haldið fram að Haukur hafi munnlega samþykkt að varnaraðili fengi að ráðstafa fé sóknaraðila með því að selja sóknaraðila víxil fyrir eigin reikning.

                Af hálfu varnaraðila hefur ekki verið sýnt fram á að fjárhagsstaða Burnham International á Íslandi hf. hafi verið þannig 19. júní 2001 að tryggt væri að félagið gæti greitt víxilinn þann 19. september 2001.  Sigrún Eysteinsdóttir, er var framkvæmdastjóri félgsins á þeim tíma, bar fyrir rétti að fjárhagsstaða félagsins hafi ekki verið góð 19. júní 2001 „en það var ekkert svartnætti þannig séð."  Telja verður að forsvarsmönnum félagsins hafi mátt vera ljóst að eiginfjárstaða félagsins var ekki traust á þessum tíma, svo sem haldið er fram af hálfu sóknaraðila.  Félaginu var því ekki heimilt að ráðstafa fjármunum sóknaraðila til kaupa á umræddum víxli fyrir eigin reikning.  Með því var skyldur trúnaður við viðskiptamann brotinn.  Engu máli skiptir þó að um framlengingu á víxilskuld hafi verið að ræða.  Og ósannað er gegn neitun Hauks Friðrikssonar, framkvæmdastjóra, að sóknaraðili hafi samþykkt kaup á þessum víxli sem gefinn var út 19. júní 2001.

                Samkvæmt framansögðu verður viðurkennd skaðabótakrafa á hendur varnaraðila eins og í úrskurðarorði greinir.

                Rétt er að varnaraðili greiði sóknaraðila 320.000 kr. í málskostnað.

                Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Viðurkennd er skaðabótakrafa sóknaraðila, Rannsóknarsjóðs í slitgigtar-sjúkdómum, á hendur varnaraðila, þrotabúi Burnham International á Íslandi hf., að höfuðstól 7.750.000 kr. með dráttarvöxtum frá 9. janúar 2002 til greiðsludags.

                Varnaraðili greiði sóknaraðila 320.000 kr. í málskostnað.