Hæstiréttur íslands

Mál nr. 705/2009


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Skuldskeyting
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Dómur
  • Gjafsókn


                                                        

Mánudaginn 21. júní 2010.

Nr. 705/2009.

Kolfinna Þórarinsdóttir og

Þórunn Sigríður Þorsteinsdóttir

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

gegn

NBI hf.

(Indriði Þorkelsson hrl.)

Skuldabréf. Skuldskeyting. Sjálfskuldarábyrgð. Dómar. Gjafsókn.

N hf. höfðaði mál og krafði Þ og K sameiginlega um greiðslu skuldar samkvæmt skuldabréfi, en þær höfðu með ábyrgðaryfirlýsingu tekið að sér að greiða skuldina. Málið var rekið eftir ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varnir Þ og K byggðu meðal annars á því að umdeildar yfirlýsingar þeirra um sjálfskuldarábyrgð væru ógildar, þar sem búið hafi verið að úrskurða aðalskuldara samkvæmt skuldabréfinu gjaldþrota, þegar yfirlýsingarnar voru gefnar. Þessari málsástæðu, sem N hf. hafði fallist á að kæmust að í málinu, var hafnað. Aðrar varnir Þ og K rúmuðust ekki innan 118. gr. laga nr. 91/1991 og var K og Þ gert að greiða skuldina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.   

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 10. desember 2009. Þær krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi rekur mál þetta á hendur áfrýjendum eftir ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsástæðum aðila er lýst í héraðsdómi. Fyrir Hæstarétti lýsti stefndi yfir því að hann féllist á að áfrýjendur fengju að koma að í málinu vörnum sem lúta að því að umdeildar yfirlýsingar þeirra um sjálfskuldarábyrgð séu ógildar, þar sem búið hafi verið að úrskurða India ehf. gjaldþrota þegar yfirlýsingarnar voru gefnar, en India ehf. var aðalskuldari samkvæmt skuldabréfinu fram að skuldskeytingu til Þórunnar ehf. í október 2006. Þessi málsvörn áfrýjenda var tekin til efnislegrar úrlausnar í héraðsdómi þar sem henni var hafnað. Með vísan til forsendna héraðsdóms að því er þetta varðar verður sú niðurstaða staðfest.

Fallist verður á með stefnda að ekki séu af hálfu áfrýjenda umfram þetta komnar fram varnir, sem leyfðar eru í málum af þessu tagi, sbr. 118. gr. laga nr. 91/1991. Í stefnu til héraðsdóms krafðist stefndi dráttarvaxta frá 5. nóvember 2006. Í hinum áfrýjaða dómi var farið út fyrir dómkröfuna og upphafstími dráttarvaxta ákveðinn 5. október 2006. Þetta er í andstöðu við 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms verður staðfest. Í áfrýjunarstefnu er tekið fram að áfrýjandinn Þórunn Sigríður leiti með áfrýjun sinni einnig endurskoðunar á ákvörðun héraðsdóms á gjafsóknarkostnaði hennar. Þegar litið er til þess að hér var um að ræða annan tveggja hliðsettra stefnenda í héraði þykja ekki efni til að breyta ákvörðun héraðsdóms sem að þessu lýtur. Verður ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjandans Þórunnar því óraskað.

Áfrýjendum verður óskipt gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Kolfinna Þórarinsdóttir og Þórunn Sigríður Þorsteinsdóttir, greiði óskipt stefnda, NBI hf., 5.081.485 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.124.605 krónum frá 5. nóvember 2006 til 12. mars 2007, en af 5.074.605 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru óröskuð.

Áfrýjendur greiði óskipt stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2009.

I

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 8. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu birtri 20. og 23. apríl 2007, á hendur Þórunni Sigríði Þorsteinsdóttur, kt. [...], Þórunni ehf., kt. 431006-2000, Garðbraut 15, Garði, Baldri Reyni Haukssyni, [...], og Kolfinnu Þórarinsdóttur, kt. [...].  Undir rekstri málsins var fallið frá kröfum á hendur stefnda Baldri Reyni Haukssyni að svo stöddu og við upphaf aðalmeðferðar var enn fremur fallið frá kröfum á hendur stefndu, Þórunni ehf.  Þá tók Nýi Landsbanki Íslands hf. við sóknaraðild málsins samkvæmt yfirlýsingu lögmanns stefnanda, dags. 29. október 2008, og breyttist nafn stefnanda í samræmi við það í NBI hf.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 5.124.605  með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 05.11. 2006 til greiðsludags, auk bankakostnaðar að fjárhæð kr. 6.880. Þess er krafist að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 05.11. 2007, en síðan árlega þann dag.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, þ.m.t. 24,5% virðisaukaskattur.  Innborgun þann 12.03. 2007, að fjárhæð kr. 50.000 kemur til frádráttar skuldinni miðað við stöðu hennar þann dag.

Dómkröfur stefndu Þórunnar Sigríðar Þorsteinsdóttur og Kolfinnu Þórarinsdóttur eru þær, að þau verði alfarið sýknuð af öllum kröfum stefnanda í málinu og að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnaðar að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts á málskostnað, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

II

Málavextir

Krafa stefnanda er samkvæmt skuldabréfi, útgefnu í Hafnarfirði 06.09. 2005 af India ehf., kt. 6908023760, að fjárhæð kr. 5.400.000.  Samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins skyldi endurgreiða lánið með 144 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn þann 05.10. 2005.  Skuldabréfið er verðtryggt samkvæmt vísitölu neyzluverðs, grunnvísitölu 243,2 stig og skyldi höfuðstóll skuldarinnar breytast í samræmi við breytingar á vísitölunni frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og svo á milli gjalddaga, og skyldi höfuðstóll skuldarinnar þannig reiknaður út, áður en afborgun og vextir reiknist.  Í vexti af skuldinni skyldi greiða kjörvexti Landsbanka Íslands hf., eins og þeir eru hverju sinni, auk vaxtaálags.  Á útgáfudegi skuldabréfsins voru vextir  samtals 7,35% á ári.  Heimild er í skuldabréfinu til að gjaldfella eftirstöðvar skuldarinnar, ef ekki er staðið skil á greiðslum af bréfinu, og reikna hæstu lögleyfðu dráttarvexti af vanskilum skuldarinnar.  Skuldabréfið er gefið út til Landsbanka Íslands hf., Bæjarútibús í Hafnarfirði.  Upphaflega tókust þau Guðrún H. Ólafsdóttir, Kjartan Jónsson, Solveig Björnsdóttir og Grzegorz S. Þorsteinsson á hendur sjálfskuldarábyrgð in solidum á greiðslu skuldabréfsins. 

Þann 12.10. 2006, var gerð sú breyting á skuldabréfinu, að stefndi Þórunn ehf., kom í stað India ehf. sem skuldari þess og stefndu, Þórunn Sigríður Þorsteinsdóttir, Baldur Reynir Hauksson og Kolfinna Þórarinsdóttir, tókust á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldabréfsins, og komu þau í stað þeirra ábyrgðarmanna, sem fyrir voru.

Málið er rekið samkvæmt 17. kafla einkamálalaga nr. 91/1991.

Stefndi gerir athugasemd við málavaxtalýsingu í stefnu, sem hann kveður þeim annmörkum háða, að þar sé einungis með mjög takmörkuðum hætti greint frá þeim lögskiptum, sem búi að baki kröfu stefnanda í máli þessu.  Þó svo að málið sé rekið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991 hljóti að vera athugunarefni, hvort yfir höfuð sé hægt, vegna þessa annmarka, að leggja efnisdóm á málið, enda geti málatilbúnaður stefnanda, hvað þetta varði, vart talizt vera í samræmi við ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um skýran og glöggan málatilbúnað.

Málsatvik séu þau, að í september 2006 hafi Guðrún Halldóra Ólafsdóttir, kt. 160572-3299, boðið stefndu Þórunni Þorsteinsdóttur að kaupa verzlunina og heildsöluna Balís, sem var þá í eigu Balís ehf., félags í eigu Guðrúnar og eiginmanns hennar Kjartans Jónssonar, kt. 260673-3519.  Í verzluninni hafi verið seldir heimilismunir og gjafavörur, einkum innfluttar vörur frá Indónesíu.  Stefndu hafi verið tjáð, að reksturinn gengi vel, en af persónulegum ástæðum eigenda væri verzlunin til sölu.  Þann 12. október 2006 hafi stefndi, Þórunn ehf., nýstofnað félag í eigu Þórunnar Þorsteinsdóttur, keypt verzlunina af Balís ehf.  Kaupverðið hafi verið ákveðið kr. 8.200.000, sem hafi verið greitt með yfirtöku stefnda, Þórunnar ehf., á þremur lánum seljenda hjá stefnanda.  Í fyrsta lagi með yfirtöku á skuldabréfi, upphaflega að fjárhæð kr. 5.400.000 í nafni India ehf., annars félags í eigu seljenda verzlunarinnar, í öðru lagi á skuldabréfaláni Kjartans Jónssonar, upphaflega að fjárhæð kr. 2.500.000,  og í þriðja lagi á yfirdráttarskuld Kjartans Jónssonar, að fjárhæð kr. 1.000.000.  Sé það fyrstgreinda skuldin, sem stefnandi krefji stefndu um greiðslu á í máli þessu.

Af ástæðum, er vörðuðu seljendur verzlunarinnar, hafi þeir ekki séð sér fært á kaupsamningsdegi 12. október 2006 að gera skriflegan kaupsamning við stefndu, Þórunni ehf., eins og til hafi staðið, en ætlunin hafi verið að gera slíkan samning fljótlega þar á eftir.  Svo hafi þó farið, að seljendurnir hafi ávallt komið sér hjá því að gera skriflegan kaupsamning, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir Þórunnar Þorsteinsdóttur.  Ótrúlegar ástæður þessa hafi svo síðar komið í ljós.

Fljótlega eftir kaup Þórunnar ehf. á verzluninni Balís í október 2006, hafi Þórunn Þorsteinsdóttir þó komizt að raun um, að reksturinn hafi ekki gengið vel, og hafi raunar ekki staðið steinn yfir steini í verzluninni.  Vörur hafi margar reynzt gallaðar; lítil not hafi verið í viðskiptamannalistum, og þá hafi hún ekki fengið þá aðstoð frá seljendum við reksturinn, sem lofað hefði verið.  Rekstur Þórunnar ehf. á verzluninni Balís hafi frá upphafi gengið illa, og hafi rekstri verzlunarinnar fljótlega verið hætt.  Öll framangreind lán, sem Þórunn ehf. tók yfir vegna kaupa félagsins á verzluninni, hafi í framhaldinu farið í vanskil og verið sett í innheimtu hjá stefnanda.  Stefnandi hafi fengið dóma (áritaðar stefnur) á hendur Þórunni ehf. og ábyrgðarmönnum fyrir fyrstnefndu tveimur skuldunum (upphaflega að fjárhæð kr. 5.400.000  og kr. 2.500.000).  Í framhaldinu hafi verið gert fjárnám hjá stefndu og hafi stefnandi krafizt nauðungaruppboðs á fasteign stefndu Kolfinnu vegna skuldarinnar, sem deilt sé um í máli þessu.  Hæstiréttur hafi heimilað endurupptöku málanna tveggja, og hafi uppboðsaðgerðum verið frestað.  Stefnandi hafi höfðað mál vegna þriðju skuldarinnar, upphaflega að fjárhæð kr. 1.000.000.  Málið hafi verið dómtekið gagnvart Þórunni ehf. en tekið var til varna f.h. Þórunnar Þorsteinsdóttur, ábyrgðarmanns skuldarinnar.  Hafi málið á hendur henni verið fellt niður af stefnanda vegna meintra mistaka starfsmanna hans við útfyllingu ábyrgðaryfirlýsingarinnar.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar sem fyrr segir á framangreindu skuldabréfi.  Inn á skuldina hafi verið greiddar kr. 50.000 hinn 12. marz 2007, og komi sú greiðsla til frádráttar skuldinni miðað við stöðu hennar þann dag.  Er málið rekið samkvæmt 17. kafla einkamálalaga nr. 91/1991, og hefur stefnandi hafnað því að aðrar varnir, en þær, sem heimilaðar eru samkvæmt 118. gr. laganna, komist að í málinu.

Þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir hafi ekki verið staðin skil á greiðslum af bréfinu frá og með gjalddaga þann 05.11. 2006, og sé málssókn því óhjákvæmileg.

Höfuðstóll stefnukröfu sundurliðist þannig:

Höfuðstóll, gjaldfelldur                                  

kr. 5.089.755

Samningsvextir                                                

   kr.   34.850

Samtals

kr. 5.124.605

Stefnandi vísar til 17. kafla laga nr. 91/1991, kröfum sínum til stuðnings.  Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við lög nr. 38/2001.  Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um bankakostnað er byggð á gjaldskrá stefnanda.  Krafa um virðisaukaskatt er byggð á lögum nr. 50/1988 með síðari breytingum, en stefnandi kveðst ekki verða virðisaukaskattsskyldur.  Mál þetta er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, með vísan til 11. gr. skilmála skuldabréfsins.

Málsástæður stefnda

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því, að við kaup stefndu, Þórunnar ehf., á verzluninni Balís í október 2006 hafi þau, sem og aðrir aðilar, sem að kaupunum komu sem sjálfskuldarábyrgðaraðilar, verið með vísvitandi hætti leyndir mikilsverðum upplýsingum um meiri háttar rekstrar- og fjárhagsvanda verzlunarinnar.  Samkvæmt vanskilaskrá Balís ehf. hafi félagið þá verið í alvarlegum fjárhagsvandræðum, og hafi hinn 28. júní 2006 m.a. verið búið að gera fimm árangurslaus fjárnám hjá félaginu.  Hinn 1. ágúst sama ár hafi Héraðsdómi Reykjavíkur borizt krafa um gjaldþrotaskipti á búi félagsins.  Þann 6. nóvember sama ár hafi loks verið kveðinn upp úrskurður um gjaldþrotaskipti á búi Balís ehf.  Lýstar kröfur í þrotabúið hafi numið kr. 40.008.117.  Í málinu liggi fyrir gögn, sem staðfesti allt framangreint.

Samkvæmt framangreindu sé óumdeilt, að í september 2006, þegar Þórunni Þorsteinsdóttur var boðin til sölu verzlunin Balís, hafi fjárhags- og rekstrarvandi verzlunarinnar verið slíkur, að enginn fjárhagslegur grundvöllur hafi verið fyrir áframhaldandi rekstri hennar.  Þegar kaupin fóru fram 12. október 2006, hafi gjaldþrot Balís ehf. legið fyrir, því krafa tollstjóra um gjaldþrotaskipti á hendur félaginu hafði þá nokkru áður verið lögð í úrskurð hjá héraðsdómi, án athugasemda af hálfu fyrirsvarsmanna félagsins.  Þrátt fyrir þetta hafi þeir látið undir höfuð leggjast að greina stefndu frá þessu við söluna, sem hafi farið fram nokkru síðar.  Seljendurnir hafi þó ekki látið þar við sitja, heldur hafi þeir talið stefndu trú um, að rekstur verzlunarinnar gengi vel, og að fjárhagsstaða hennar væri góð.  Raunar hafi seljendur reynt að selja stefndu, Þórunni Þorsteinsdóttur, Balís ehf., en vegna ráðleggingar vinar hennar, „að kaupa ekki gamlar kennitölur“, hafi orðið úr, að Þórunn ehf. var stofnað, og félagið hafi svo keypt verzlunina Balís af Balís ehf.

Sýknukrafa stefndu í málinu byggi einnig á því, að skuldskeyting lánanna og hinar nýju ábyrgðaryfirlýsingar frá 12. október 2006 hafi verið gerðar fyrir milligöngu stefnanda sem skuldareiganda.  Hafi bankanum því verið kunnugt um, að umræddar breytingar lánanna hafi verið vegna kaupa Þórunnar ehf. á verzluninni Balís, og hafi honum einnig verið kunnugt um, eða mátt vera kunnugt um, fjárhagsvanda Balís ehf. og yfirvofandi gjaldþrot félagsins.  Engu að síður hafi stefnandi þagað þunnu hljóði og ekki greint stefndu frá þessum mikilvægu upplýsingum, þegar framangreind viðskipti fóru fram.

Hefði stefnandi sýnt af sér þá aðgæzlu og þau faglegu vinnubrögð, sem af honum sé krafizt og hann greint stefndu frá vanskilum og yfirvofandi gjaldþroti Balís ehf., þurfi ekki að velkjast í vafa um það, að Þórunn Þorsteinsdóttir hefði aldrei gengið til samninga fyrir hönd félags hennar um kaup á verzluninni Balís.  Með því að láta það undir höfuð leggjast að greina stefndu frá fjárhagsstöðu Balís ehf. hafi stefnandi vanrækt með grófum hætti upplýsingaskyldu sína.  Hafi sérfróðir starfsmenn stefnanda með þessari þögn sinni, af ásetningi eða gáleysi, brotið gegn upplýsingaskyldu sinni með slíkum hætti, að ógilda verði umrædda löggerninga og þ.a.l. sýkna stefndu í málinu.  Önnur niðurstaða væri að mati stefndu óeðlileg, ósanngjörn og í ósamræmi við góða viðskiptavenju, einkum í ljósi yfirburðastöðu stefnanda og góðrar trúar stefndu.  Vísist hér til III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 33. og 36. gr. laganna.

Sýknukrafa stefndu byggi einnig á því, að skuldskeyting lánsins, sem um ræði í máli þessu, hafi verið ólögmæt og því ekki skuldbindandi fyrir þau.  Undir framangreinda skuldskeytingu hafi, f.h. útgefanda lánsins, India ehf., skrifað aðili, sem ekki hafi verið til þess bær að lögum, Guðrún Halldóra Ólafsdóttir.  Fyrir liggi, að þremur vikum áður en skrifað hafi verið undir skuldskeytinguna, þ.e. þann 21. september 2006, hafi skiptum á þrotabúi India ehf. lokið, en félagið hafði verið úrskurðað gjaldþrota 16. júní sama ár.  Hafi félagið því ekki lengur verið til, þegar skrifað hafi verið undir skuldskeytinguna fyrir hönd þess.  Um þetta hafi stefnanda og seljendum verzlunarinnar verið kunnugt, a.m.k. hafi stefnanda mátt vera um þetta kunnugt, en hvorugur þessara aðila hafi séð ástæðu til að greina stefndu frá því.

Telja verði með miklum ólíkindum, að áðurgreind skuldskeyting og hinar nýju ábyrgðaryfirlýsingar hafi verið gerðar þann 12. október 2006 fyrir milligöngu stefnanda, án nokkurra athugasemda hans.  Ljóst sé, að þar sem búið hafi verið að ljúka skiptum á þrotabúi India ehf., hafi félagið ekki lengur verið til og krafan því niður fallin við lok skipta á þrotabúi India ehf. 21. september 2006, sbr. 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og ummæli í greinargerð laganna með þeirri grein.  Hafi Guðrún Halldóra Ólafsdóttir auk þess ekki verið til þess bær þann 12. október 2006 að skrifa undir neinar skuldbindingar vegna félagsins, en það hafi hún engu að síður gert án athugasemda af hálfu stefnanda.

Ljóst sé, að svo mögulegt væri að taka upp réttindi eða skyldur þrotabús India ehf. og ráðstafa þeim með einhverjum hætti eftir að búskiptum var lokið, hefði skiptastjóri þrotabúsins þurft að endurupptaka skipti á búinu með formlegum hætti í samræmi við fyrirmæli laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti.  Það hafi ekki verið gert.  Af þessu og framangreindu leiði, að umrædd skuldskeyting og ábyrgðaryfirlýsingar, gerðar á grundvelli hennar, hafi verið ólögmætar og því marklausar og séu þ.a.l. óskuldbindandi að lögum fyrir stefndu.

Ábyrgðaryfirlýsingar stefndu, Þórunnar Þorsteinsdóttur og Kolfinnu Þórarinsdóttur, á því láni, sem hér um ræði, vegna yfirtöku Þórunnar ehf. á umræddu láni, hafi átt að standa til tryggingar á greiðslu skuldar félagsins í stefnanda, en ekki, eðli máls samkvæmt, til tryggingar á greiðslu láns, sem fallið hafi verið niður.  Hefði þeim verið kunnugt um, að aðalskuldin væri fallin niður lögum samkvæmt og að þær stæðu þannig í raun einar til greiðslu umræddrar skuldar, og jafnframt í ljósi yfirvofandi gjaldþrots Balís ehf., sé augljóst, að þær hefðu aldrei tekizt á hendur þessar ábyrgðarskuldbindingar.  Með því að vanrækja að greina stefndu frá framangreindu hafi stefnandi, eins og áður segi, brotið gegn upplýsinga- og aðgæzluskyldu sinni gagnvart þeim.  Vegna þessa verði að telja ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju, sbr. 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936, fyrir stefnanda að bera ábyrgðaryfirlýsingarnar fyrir sig.  Verði stefndu af þessum sökum að teljast óbundnar af yfirlýsingunni, þannig að sýkna verði þær í málinu.

Stefndu, mæðgurnar Kolfinna Þórarinsdóttir og Þórunn Þorsteinsdóttir, telji jafnframt, hvað sem öðru líði, að þó svo að ábyrgðaryfirlýsingar fyrri ábyrgðarmanna kunni að hafa haldið gildi sínu, þrátt fyrir að aðalskuldin hafi fallið niður við gjaldþrot India ehf., geti slíkt hið sama ekki gilt um hinar nýju ábyrgðir þeirra.  Sé á því byggt, að til þess að hægt væri að líta svo á, að þessar ábyrgðarskuldbindingar þeirra gætu staðið sjálfstætt til tryggingar greiðslu skuldar, sem hafi verið niður fallin samkvæmt lögum, hefði stefnandi þurft að greina þeim frá brottfalli aðalskuldarinnar og semja um það sérstaklega við þær, að þær væru að taka á sig nýja, sjálfstæða og í raun algjöra ábyrgð á greiðslu lánsins.  Ljóst sé, að hefði þeim verið kunnugt um þetta, þ.e. brottfall aðalskuldarinnar og rekstrarvanda verslunarinnar Balís, hefðu þær auðvitað ekki undirgengizt ábyrgðarskuldbindingarnar.  Augljóst sé, að það hafi verið meginforsenda stefndu fyrir kaupunum og ábyrgðarskuldbindingum, að verzlunin væri ekki þá þegar kominn í þrot vegna gríðarmikils rekstrarvanda.  Sú hafi þó verið raunin, en þessum mikilvægu upplýsingum hafi seljendur og stefnandi látið undir höfuð leggjast að greina stefndu frá.

Í ljósi alls framangreinds, grófrar vanrækslu stefnanda á upplýsingaskyldu sinni og með hliðsjón af yfirburðastöðu stefnanda við samningsgerðina, geti stefndu ekki talizt bundnar af skuldbindingum sínum, sbr. III. kafli laga nr. 7/1936 og reglur kröfuréttarins um réttaráhrif brostinna forsendna.

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefndu, Þórunn Sigríður og Kolfinna, gáfu skýrslu fyrir dómi.  Kom m.a. fram í framburði stefndu, Þórunnar Sigríðar, að hún hefði aldrei keypt verzlunina Balís, heldur einungis rekstur hennar.

Stefnandi rekur mál þetta samkvæmt 17. kafla einkamálalaga eins og áður greinir, og hefur hafnað því að varnir stefndu komist að í málinu, þar sem þær séu ekki af þeim toga, sem heimilað er að komist að í skuldabréfamáli skv. 118. gr. laganna.

Stefndu byggja m.a. á því, að stefnandi hafi leynt þær upplýsingum um slæma fjárhagsstöðu verzlunarinnar Balís og yfirvofandi gjaldþrot félagsins.  Stefnandi hafi verið í yfirburðastöðu gagnvart stefndu og beri því að ógilda löggerning þann, sem krafa stefnanda byggir á og sýkna stefndu í máli þessu með vísan til 33. og 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936.

Það liggur ekki fyrir, að stefndu hafi gert reka að því að rifta samningi sínum við seljanda verzlunarrekstursins.  Stefnandi máls þessa var ekki aðili að þeim viðskiptum.  Kemur krafa stefndu um ógildingu löggernings, sem var hluti af samningi stefndu við þriðja aðila, ekki til álita hér.  Stefndu hafa ekki gert reka að því að sanna eða sýna fram á, að stefnandi máls þessa hafi leynt þær upplýsingum, sem honum hafi borið að láta stefndu í té, en samkvæmt framburði stefndu, Þórunnar Sigríðar, sinnti hún ekki þeirri sjálfsögðu skyldu sinni að kanna bókhald og birgðir þess reksturs, sem hún var að kaupa, eða afla sér hlutlausra upplýsinga um hann.  Er því ekki fallizt á, að stefndu geti lagt ábyrgðina á vanrækslu sinni, hvað þetta varðar, á stefnanda máls þessa, þannig að sýkna beri þær með vísan til 33. og/eða 36. gr. l. nr. 7/1936.

Stefndu byggja einnig á því, að þar sem India ehf. hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta, áður en kaupin um verzlunarrekstur Balís ehf. fóru fram, hafi lánið verið fallið niður og allar forsendur fyrir ábyrgðaryfirlýsingum þeirra brostnar.

Enda þótt félagið India ehf. hafi ekki lengur verið til sem lögaðili, stóð lánið enn á hendur sjálfskuldarábyrgðaraðilum þess samkvæmt efni skuldabréfsins, en seljandi verzlunarrekstursins var einn sjálfskuldarábyrgðaraðilanna.  Þá ábyrgð tókust stefndu á hendur, sem hluta af kaupverði verzlunarrekstursins og var þannig ljóst, að stefndu tóku að sér, með ábyrgðaryfirlýsingu sinni, að greiða skuldina samkvæmt þessu bréfi, en ekki er fallizt á, að gjaldþrot aðalskuldara bréfsins feli í sér, að bréfið sjálft verði ógilt og allar skuldbindingar samkvæmt því falli niður.

Aðrar varnir stefndu í máli þessu koma ekki til álita með vísan til 118. gr. l. nr. 91/1991 og ber því að taka allar kröfur stefnanda til greina, en ágreiningur er hvorki um fjárhæð kröfunnar né vexti.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefndu in solidum til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 600.000, þ.m.t. virðisaukaskattur.

Gjafsóknarkostnaður stefndu Þórunnar Sigríðar Þorsteinsdóttur greiðist úr ríkissjóði og ákveðst kr. 250.000, en við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Þórunn Sigríður Þorsteinsdóttir og Kolfinna Þórarinsdóttir, greiði in solidum stefnanda NBI hf. kr. 5.081.485 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 5.124.605 frá  05.10. 2006 til 12.03. 2007, en af kr. 5.074.605 frá þeim degi til greiðsludags.  Leggist dráttarvextir við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 05.10. 2007, en síðan árlega þann dag.  Þá greiði stefndu stefnanda in solidum kr. 600.000 í málskostnað.

Gjafsóknarkostnaður stefndu Þórunnar Sigríðar, kr. 250.000 greiðist úr ríkissjóði.