Hæstiréttur íslands

Mál nr. 350/1999


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Skaðabætur
  • Bifreiðasali


           

Fimmtudaginn 20. janúar 2000.

Nr. 350/1999.

Stefán Sigurður Stefánsson

(Guðmundur Kristjánsson hrl.)

gegn

þrotabúi Bílasölunnar Borgar ehf.

Hrafni Sturlusyni og

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Óskari Guðna V. Guðnasyni

(Reynir Karlsson hrl.)

                                              

Lausafjárkaup. Skaðabætur. Bifreiðasali.

S keypti bifreið af einkahlutafélaginu SH fyrir milligöngu bílasölunnar B. Annaðist starfsmaðurinn Ó söluna fyrir hönd bílasölunnar, sem H rak sem löggiltur bifreiðasali. Í afsali til S kom fram að kaupverðið væri að fullu greitt, en á bifreiðinni væru veðbönd, sem seljandi lofaði að losa fyrir 1. ágúst 1996. SH stóð ekki við loforð sitt um að aflétta veðinu af bifreiðinni og greiddi S að lokum upp veðskuldina. S krafði bílasöluna B, Ó og H um bætur af þessum sökum. Talið var að Ó og H hefði mátt vera ljóst að mjög væri raskað jafnvægi milli greiðslna áfrýjanda og endurgjalds seljandans eða tryggingar fyrir því, þar sem S hefði ekki verið veitt nokkur trygging fyrir því, að fyrrgreindri veðskuld yrði aflétt síðar. Hefðu Ó og H brugðist þeirri starfsskyldu bifreiðasala samkvæmt lögum nr. 69/1994 um sölu notaðra ökutækja að gæta þess, að réttmætir hagsmunir beggja samningsaðila í slíkum viðskiptum væru tryggðir. Voru Ó, H og B talin skaðabótaskyld gagnvart S. Voru S dæmdar bætur sem námu greiðslu veðskuldarinnar auk vaxta.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. september 1999 og krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt 409.928 krónur með hæstu innlánsvöxtum samkvæmt II. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 286.592 krónum frá 31. október 1997 til 30. nóvember sama árs og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 7. maí 1998, en af 409.928 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu.

 

 

I.

Svo sem greinir í héraðsdómi keypti áfrýjandi hjá Bílasölunni Borg ehf. 9. júlí 1996 bifreiðina VO 767, Suzuki Sidekick árgerð 1995, af Sumarhúsum ehf., en félagið hafði veitt „Bílasölunni Borg ... c/o Óskari Guðnasyni“ umboð til að annast sölu bifreiðarinnar. Í umboðinu, sem dagsett var 1. sama mánaðar, sagði að á bifreiðinni væru veðbönd, sem seljandi lofaði að losa innan 20 daga frá söludegi. Eftir gögnum málsins var þar um að ræða þinglýsta veðskuld við Samvinnusjóð Íslands hf. samkvæmt skuldabréfi útgefnu af seljandanum 7. júní 1996, upphaflega að fjárhæð 1.588.370 krónur. Var fyrsta af 36 afborgunum af skuldinni á gjalddaga 7. júlí sama árs. Í afsali seljanda til áfrýjanda sagði að umsamið kaupverð væri 2.050.000 krónur og að það væri að fullu greitt með bifreiðinni UR 047, sem metin væri á 1.200.000 krónur, og með tékka að fjárhæð 850.000 krónur. Einnig sagði að á bifreiðinni væru veðbönd, sem seljandi lofaði að losa fyrir 1. ágúst 1996. Tékkinn frá áfrýjanda var gefinn út til Samvinnusjóðs Íslands hf. og gekk að tilhlutan stefndu til greiðslu inn á veðkröfu sjóðsins. Ekki er komið fram að stefndu hafi við söluna veitt áfrýjanda upplýsingar um hverjar eftirstöðvar veðkröfunnar væru. Seljandi stóð ekki við loforð sitt um að aflétta veðinu af bifreiðinni, og er deila aðila af því sprottin.

II.

Með greiðslum sínum við ofangreind kaup innti áfrýjandi af hendi að fullu kaupverð bifreiðarinnar VO 767 án þess að nokkur trygging væri veitt fyrir því, að fyrrgreindri veðskuld á bifreiðinni yrði aflétt síðar, eins og seljandi skuldbatt sig til. Stefndi Óskar annaðist gerð samningsins fyrir hönd bílasölunnnar, sem stefndi Hrafn rak sem löggiltur bifreiðasali, en hann vottaði gerð samningsins. Mátti þeim vera ljóst að með því að svo mjög væri raskað jafnvægi milli greiðslna áfrýjanda og endurgjalds seljandans eða tryggingar fyrir því, varð hætta á að áfrýjandi yrði fyrir tjóni. Bar stefndu að gera áfrýjanda skýra grein fyrir þessari hættu og ráða honum jafnframt frá því að eiga viðskipti með slíkum skilmálum. Er ljóst að stefndu vöruðu áfrýjanda á engan hátt við þessu heldur létu þeir loforð seljanda um efndir nægja. Með háttsemi sinni brugðust stefndu þeirri starfsskyldu bifreiðasala samkvæmt þágildandi lögum nr. 69/1994 um sölu notaðra ökutækja að gæta þess, að réttmætir hagsmunir beggja samningsaðila í slíkum viðskiptum væru tryggðir. Verður fallist á með áfrýjanda að tjón hans verði rakið til vanrækslu þessara stefndu þegar við samningsgerð. Bera stefndu bótaábyrð gagnvart áfrýjanda, stefndi Óskar vegna saknæms gáleysis, sem stefndi Hrafn ber ábyrgð á samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 69/1994 sem bifreiðasali og stefndi þrotabú Bílasölunnar Borgar ehf. á grundvelli húsbóndaábyrgðar.

III.

Áfrýjandi sundurliðar kröfu sína þannig að annars vegar sé um að ræða þá fjárhæð, sem þurfti til greiðslu veðskuldarinnar, 286.592 krónur, og hins vegar kostnað, sem leiddi af viðskiptunum við stefndu, en hann megi rekja til vinnutaps og dagpeninga í fjóra og hálfan dag, flugs frá Húsavík til Reykjavíkur og til baka og aksturs sömu leið, samtals 123.336 krónur.

Ekki er sannað að tjón áfrýjanda sé meira en sem nemur greiðslu veðskuldarinnar, enda ekki sýnt að áfrýjanda hafi verið nauðsynlegt að gæta hagsmuna sinna með ferðum til Reykjavíkur, svo sem felst í síðarnefnda kröfulið hans. Verður krafa áfrýjanda því tekin til greina með 286.592 krónum ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. laga nr. 25/1987, eins og í dómsorði greinir. Áfrýjandi krafði stefndu fyrst um bætur með bréfum 7. apríl 1998. Verður stefndu gert að greiða dráttarvexti frá því mánuður var liðinn frá þeim degi, sbr. 15. gr. vaxtalaga. Verður þeim jafnframt gert að greiða óskipt málskostnað, sem er ákveðinn sameiginlega í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Stefndu, þrotabú Bílasölunnar Borgar ehf., Hrafn Sturluson og Óskar Guðni V. Guðnason, greiði áfrýjanda, Stefáni Sigurði Stefánssyni, óskipt 286.592 krónur með 0,8% ársvöxtum frá 31. október 1997 til 1. janúar 1998, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars sama árs, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 7. maí 1998 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði áfrýjanda óskipt samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var  25. maí sl., var höfðað með stefnu birtri 13. og 15. okt. 1998.

Stefnandi er Stefán Sigurður Stefánsson, kt. 070155-5169, Sólbrekku 4, Húsavík.

Stefndu eru Hrafn Sturluson, kt. 200351-2669, Norðurbrún 30, Reykjavík, persónulega og sem forsvarsmaður Bílasölunnar Borgar ehf., kt. 511094-2089, Skeifunni 6, Reykjavík og Óskar Guðni V. Guðnason, kt. 230644-6839, Garðaflöt 35, Garðabæ.

Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.

 

Endanlegar dómkröfur stefnanda: 

Að stefndu verði in solidum gert að greiða 409.928 krónur með hæstu innlánsvöxtum skv. II. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 286.592 kr. frá 31. október 1997 til 30. nóvember 1997 og með dráttarvöxtum skv. III. kafla s.l. af 286.592 kr. frá þeim degi til 7. maí 1998 en af 409.928 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda skv. framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati réttarins að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.

Ekki eru gerðar neinar kröfur á réttargæslustefnda, en skorað á hann að veita stefnanda styrk í málinu eða gæta réttar síns ella.

 

 

Dómkröfur stefndu, Hrafns Sturlusonar og þb. Bílasölunnar Borgar ehf.:

Þessir stefndu krefjast þess að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að skaðlausu að mati réttarins.

Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar enda verði málskostnaður þá felldur niður. Af hálfu Hrafns Sturlusonar er krafist 24,5% virðisaukaskatts á tildæmdan málskostnað þar sem Hrafn Sturluson sé eigi virðisaukaskattskyldur.

 

Dómkröfur stefnda, Óskars Guðna V. Guðnasonar:

Þessi stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar verulega.

Þá krefst stefndi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

 

Réttargæslustefndi, Vátryggingafélag Íslands hf.,  hefur ekki látið sækja þing.

 

Málavextir

Þann 9. júlí 1996 keypti stefnandi bifreiðina VO-767, Suzuki sidekick árg. 1995 af Sumarhúsum hf. með milligöngu Bílasölunnar Borgar ehf. Kaupverðið var 2.050.000 kr. Stefnandi greiddi andvirðið með bifreiðinni UR-047, Volkswagen Golf, árg. 1995, sem metin var 1.200.000 kr. og með ávísun að fjárhæð 850.000 kr. Veðkrafa frá Samvinnusjóði Íslands að fjárhæð 1.588.370 kr. hvíldi á bifeiðinni VO-767 og gekk peningagreiðslan upp í þá skuld. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að engar upplýsingar hafi verið lagðar fram af hálfu stefndu um hverjar eftirstöðvar skuldarinnar væru.

Samkvæmt afsali um bifreiðina VO-767 lofaði seljandi að aflétta veðinu fyrir 1. ágúst 1996. Það var ekki gert. Að sögn stefnanda fullyrti stefndi, Óskar, þáverandi starfsmaður Bílasölunnar Borgar ehf., að ef skuldin yrði ekki greidd upp þá myndi hann flytja veðböndin yfir á UR-047 sem var veðbandslaus. Þessu er mótmælt af hálfu stefndu.

Hinn 12. september 1996 var bifreiðin UR-047 seld fyrir milligöngu Bílasölunnar Borgar ehf. Söluverð bifreiðarinnar 1.100.000 kr. var greitt með bifreiðinni Y-18628 að verðmæti 375.000 kr. og með 725.000 kr. í peningum. Stefndi, Óskar, afhenti þá peninga til Samvinnusjóðs Íslands hf. til greiðslu upp í veðskuldina sem hvíldi á VO-767.  Að sögn stefndu tók fyrirsvarsmaður Sumarhúsa ehf. bifreið þessa úr vörslu Bílasölunnar Borgar ehf. Þannig að andvirði hennar nýttist ekki til þess að greiða áhvílandi veðskuld á VO-767.

Í byrjun júní 1997 fékk stefnandi áskorun, dags. 28. maí 1997, frá lögmönnum skuldareiganda, Samvinnusjóðs Íslands hf., um greiðslu eftirstöðvar skuldarinnar að fjárhæð 252.523 kr. að viðlagðri nauðungarsölu á bifreiðinni VO-767. Eftir tilraunir stefnanda og stefnda, Óskars, til þess að fá seljanda VO-767 til þess að standa við skuldbindingar sínar afhenti hann stefnda, Óskari, ávísun að fjárhæð 300.000 kr. til greiðslu á eftirstöðvum skuldarinnar í september 1997. Þeirri ávísun var komið til lögmanna kröfueiganda en ávísunin reyndist innistæðulaus. Þann 31. október 1997 greiddi stefnandi eftirstöðvar skuldarinnar, þá að fjárhæð 286.592 kr.

Stefnandi telur sig  hafa orðið fyrir miklum kostnaði og óþægindum við að reyna að fá leiðréttingu sinna mála hjá seljanda bifreiðarinnar og stefndu, Bílasölunni Borg ehf. Hann hafi m.a. farið 3 ferðir til Reykjavíkur til viðræðna við málsaðila og þar af leiðandi kveðst hann hafa þurft að taka sér frí frá vinnu samtals í 9 daga. við endanlega kröfugerð miðaði stefnandi kröfur sínar vegna vinnutaps og dagpeninga við fjóra og hálfan dag.

Seljandi VO-767, Sumarhús ehf., var úrskurðað gjaldþrota 18. mars 1998. Samkvæmt vottorði skiptastjóra þb. Sumarhúsa ehf., dags. 25. maí sl., var ekki tekin afstaða til almennra eða eftirstæðra krafna þar sem ekki þótti líklegt að nokkuð kæmi upp í þær kröfur.

 

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Stefnandi byggir bótakröfu sína á hendur stefndu á því að tjón megi rekja til faglegra mistaka stefndu sem bifreiðasala við samningsgerðina.  Með því að ekki var tryggt að áhvílandi skuld á bifreiðinni VO-767 yrði flutt yfir á bifreiðina UR-047, eða aðra eign seljanda þá hafi stefndu vanrækt með öllu að gæta hagsmuna stefnanda sem kaupanda og með því hafi þeir brotið gegn lagareglum um bifreiðasölu og starfsvenjum um góða viðskiptahætti á því sviði.

Stefnandi hafi innt af hendi að fullu kaupverð bifreiðarinnar VO-767 án þess að nokkur trygging væri veitt fyrir því að fyrrgreindri veðskuld á bifreiðinni yrði síðar aflétt, svo sem seljandinn hafi skuldbundið sig til. Kaupin hafi verið gerð fyrir milligöngu stefndu sem meðal annars önnuðust skjalagerð. Samkvæmt lögum um sölu notaðra ökutækja nr. 69/1994 beri bifreiðasali ábyrgð á að endanlega sé gengið frá öllum skjölum er varða kaupin og að allar upplýsingar liggi fyrir sem kaupanda eru nauðsynlegar.  Stefndu hafi verið í lófa lagið að flytja veðbönd af bifreiðinni VO-767 yfir á bifreiðina UR-047, enda hafi heimild kröfueigandans legið fyrir að sögn stefndu.  Þá hefði ábyrgð af veðinu haldist hjá seljanda VO-767 og stefnandi ekki orðið fyrir því fjárhagslega tjóni sem raun varð á.  Stefndu hljóti að hafa verið ljóst að með því að ganga ekki endanlega frá veðflutningi, heldur láta loforð seljanda um efndir nægja, væri hagsmunum stefnanda stefnt í stórhættu.  Ef stefndu hefðu rækt skyldur sínar gagnvart kaupanda hefðu þeir að sjálfsögðu annast veðflutninginn fyrir aðilana, enda verði að telja þau vinnubrögð í bestu samræmi við starfsvenjur á þessu sviði.

Með framangreindum athöfnum sínum og athafnaleysi hafi stefndu á saknæman og ólögmætan hátt valdið stefnanda tjóni sem þeim ber að bæta. Stefndi, þb. Bílasölunnar Borgar ehf., beri ábyrgð sem sjálfstæður miðlari í viðskiptum með notuð ökutæki, stefndi, Hrafn Sturluson, beri ábyrgð sem löggiltur bifreiðasali og stefndi, Óskar Guðnason, beri ábyrgð á grundvelli sakar.

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á almennum reglum um skaðabætur utan samninga.  Jafnframt er vísað til laga nr. 69/1994 um sölu notaðra ökutækja, einkum 4., 5. og 6. gr., svo og viðskiptavenja á sviði bifreiðasölu um góð og traust vinnubrögð.

Krafan um að stefndu beri óskipta ábyrgð á greiðslu stefnukröfunnar er byggð á almennum reglum kröfuréttarins um óskipta ábyrgð.  Seljandinn hafi þegar verið úrskurðaður gjaldþrota og fyrir liggi mat skiptastjóra á því að ekkert greiðist upp í almennar kröfur. Stefnu þessari er því einungis beint að bifreiðasölunni og starfsmönnum hennar.

Stefndi, Hrafn Sturluson, hafi keypt ábyrgðartryggingu vegna starfsemi sinnar hjá réttargæslustefnda, Vátryggingarfélagi Íslands hf., og af þeim sökum er félaginu stefnt til að gæta réttar síns í máli þessu.

Til stuðnings vaxtakröfum er skírskotað til vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, einkum 7. og 15. gr., sbr. 10. gr. þeirra laga.

Málskostnaðarkröfu sína styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 með síðari breytingum.

Stefnandi sundurliðar endanlega dómkröfu sína svo:

Greiðsla veðkröfu

kr.286.592

Vinnutap í fjóra og hálfan dag

“  43.200

Flug Hú-Rvk-Hú

“    9.830

Dagpeningar í fjóra  og hálfan dag

“  33.750

Akstur Hú-Rvk-Hú

“  36.556

Samtals stefnufjárhæð

kr. 409.928

 

Stefnukrafan byggist á þeim kostnaði sem stefnandi hafi haft af viðskiptum sínum við stefndu.  Stefnandi búi á Húsavík og hafi hann talið nauðsynlegt að hitta stefndu augliti til auglits þar sem símhringingar hafi engan árangur borið.  Hann hafi farið þrisvar sinnum til Reykjavíkur og dvalið þar samtals í 9 sólarhringa. Við endanlega kröfugerð krafðist stefnandi greiðslu vegna vinnutaps í fjóra og hálfan dag og dagpeninga fyrir sama tíma.

 

Málsástæður og rökstuðningur stefnda Hrafns Sturlusonar og þb. Bílasölunnar Borgar ehf.:

Stefnandi byggi á því að um sé að ræða fagleg mistök stefndu við samningsgerð og telji mistökin liggja í því að eigi skuli hafa verið tryggt að áhvílandi skuld á bifreiðinni VO-767 væri flutt yfir á bifreiðina UR-047 eða aðra eign. Af hálfu stefndu, þb. Bílasölunnar Borgar ehf. og Hrafns Sturlusonar, er því eindregið mótmælt að um nokkur mistök sé að ræða sem þeim verði um kennt eða rök sem renni stoðum undir bótaskyldu þeirra. Því sjónarmiði til stuðnings er bent á eftirfarandi:  Í málinu hefur verið lögð fram álitsgerð “siðanefndar Félags löggiltra bifreiðasala.”  Siðanefnd þessi muni nú hafa verið lögð niður. Í álitsgerðinni segi svo:  “Það er samdóma álit siðanefndar að brot bílasölunnar Borgar sé alvarlegt”.  Í framhaldi af þessu gefi að líta svohljóðandi rökstuðning:  “Í söluumboði eiganda VO-767, dags. 1. júlí 1996, til Bílasölunnar Borgar og afsali, dags. 9. júlí 1996, er lofað að losa veðbönd fyrir 1. ágúst 1996.  Talsmaður Bílasölunnar Borgar skýrir kaupanda frá því að fyrir liggi heimild Samvinnusjóðs Íslands um veðbandaflutning af VO-767 á UR-047.  Bílasölunni Borg var því í lófa lagið að sjá til þess að veðbönd flyttust af bifreiðinni VO-767 yfir á bifreiðina UR-047 í stað þess að selja bifreiðina UR-047 þann 12. september 1996 án veðbanda.  Þannig hefði ábyrgð á veðinu haldist hjá seljanda VO-767 og Stefán Sigurður Stefánsson ekki lent í þeim hremmingum sem raun varð á”.

Í rökstuðningi þessum gefi að líta rangar ályktanir og rangfærslur.  Þannig sé það beinlínis rangt að Bílasalan Borg ehf. hafi haft sölu- eða stöðuumboð seljanda með einum eða neinum hætti við umrædda samninga.  Bílasalan Borg ehf. hafi aldrei lofað að losa veðbönd af umræddri bifreið.  Óskari Guðnasyni hafi verið veitt umboð til að annast sölu á bifreiðinni VO-767 fyrir hönd Sumarhúsa ehf., en framkvæmdastjóri þess félags, Ólafur Ólafsson, undirriti umboðið. Í niðurlagi umboðsins komi skýrlega fram eftirfarandi:  “Á bifreiðinni eru veðbönd sem seljandi lofar að losa innan 20 daga frá söludegi”. Það sé seljandi sjálfur sem gefi þá yfirlýsingu að veðböndum verði aflýst en ekki bílasalan Borg ehf.  Vandséð sé því á hvaða forsendum þremenningar þeir sem undirrita álitsgerðina komist að þeirri niðurstöðu að Bílasölunni Borg ehf. hafi verið í lófa lagið að sjá til þess að veðbönd flyttust af bifreiðinni yfir á aðra bifreið.  Til þess hafi engar heimildir eða umboð legið til Bílasölunnar Borgar ehf. og hvað þá Hrafns Sturlusonar.  Hér sé einfaldlega um rangar forsendur og rangfærslur að ræða sem með engum hætti geti stutt rök og sjónarmið stefnanda í máli þessu.  Nauðsynlegt sé að horfa til afsals fyrir bifreiðinni UR-047. Þar gefi að líta undirritun þeirra aðila sem nærri sölu á bifreiðinni UR-047 komu.  Fyrir hönd Sumarhúsa ehf. sem kaupanda undirriti Óskar Guðnason, en fyrir hönd seljanda Stefán Sigurður Stefánsson sjálfur.  Á afsali fyrir bifreiðinni VO-767 verði með sama hætti séð að við sölu á þeirri bifreið undirriti fyrir hönd seljanda, Sumarhúsa ehf., Óskar Guðnason, en sem kaupandi Stefán Sigurður Stefánsson sjálfur. Af þessu megi ljóst vera að Óskar Guðnason hafi haft heimild seljanda í umrætt sinn og umboð til þess að undirrita skjöl fyrir hönd Sumarhúsa ehf.

Ljóst megi vera að ábyrgð Bílasölunnar Borgar ehf. sé bundin við þau skjöl, sem lögð voru til grundvallar við kaup á umræddum bifreiðum. Af afsölum beggja bifreiðanna megi sjá að upplýsingar hafi legið fyrir afdráttarlaust um réttindi og skyldur kaupanda og seljanda svo og lýsing á þeim bifreiðum sem seldar voru. Þar sé getið um áhvílandi veðskuldir og upplýst um þær að öllu leyti svo og ógreidd bifreiðagjöld eins og sjá megi af umræddum skjölum.  Vanefnd seljanda á því að aflýsa eða greiða upp áhvílandi veðskuld varði í reynd eigi Bílasöluna Borg ehf. né Hrafn Sturluson heldur sé alfarið á ábyrgð seljanda bifreiðarinnar í umrætt sinn, Sumarhúsa ehf.  Umboð Óskars Guðnasonar til þess að undirrita skjöl eða ganga frá kaupum fyrir hönd seljanda sé Bílasölunni Borg ehf. eða Hrafni  Sturlusyni í sjálfu sér óviðkomandi, en allt að einu leiði vart til þess að á hann verði lögð ábyrgð varðandi greiðsluskyldu. Á framangreindum forsendum er því algerlega mótmælt að um bótaábyrgð þb. Bílasölunnar Borgar ehf. eða Hrafns Sturlusonar sé að ræða.  Þá er því mótmælt að um samaðild Hrafns Sturlusonar og þb. Bílasölunnar Borgar ehf. geti verið að ræða, en í stefnu séu ekki með neinum hætti færð rök fyrir slíkri kröfugerð eins og hún er fram sett.  Í stefnu segir svo:  “Með framangreindum athöfnum sínum og athafnaleysi ollu stefndu á saknæman og ólögmætan hátt stefnanda tjóni sem þeim ber að bæta.  Stefnda, Bílasalan Borg ehf., ber ábyrgð sem sjálfstæður miðlari í viðskiptum með notuð ökutæki, stefndi, Hrafn Sturluson, ber ábyrgð sem löggiltur bifreiðasali og stefndi, Óskar Guðnason, ber ábyrgð á grundvelli sakar.”  Fráleitt sé að hér gefi að líta rökstuðning fyrir þeim kröfum sem beint er að stefndu í máli þessu.  Ósannað sé með öllu að Hrafn Sturluson hafi persónulega valdið stefnanda tjóni með nokkrum hætti.  Hið sama gildi um Bílasöluna Borg ehf., en ábyrgðin geti eigi falist í því að Bílasalan Borg ehf. sé “sjálfstæður miðlari í viðskiptum með notuð ökutæki.”  Engin bílasala verði starfrækt nema fyrir liggi starfsleyfi. Bílasalan beri hins vegar húsbóndaábyrgð gagnvart skaðaverkum starfsmanna sinna.  Eigi hafi verið sýnt fram á með neinum hætti að bílasalan beri ábyrgð á slíkum grundvelli, en ljóst sé að Óskar Guðnason hafi komið fram sem aðstoðarmaður seljanda í umrætt inn, en ekki starfsmaður Bílasölunnar Borgar ehf.  Fráleitt sé að Hrafn Sturluson geti borið ábyrgð á vanefndum og vanskilum seljanda, en rétt sé að benda á að bílasalan hafi beitt sér fyrir því að seljandi stæði við afléttingu veðskuldar svo sem áður greinir og með greiðslu ávísunar þann 2. september 1997 til Lögfræðistofu Reykjavíkur hafi afskiptum bílasölunnar lokið.

Athygli er á því vakin að eigi sé fullreynt, meðan skiptum þb. Sumarhúsa ehf. sé eigi lokið, að stefnandi fái nokkuð upp í þá kröfu sem hann hefur uppi.  Þá sé ljóst að stefnanda hafi borið að beina kröfum að viðsemjanda sínum, Sumarhúsum ehf., og jafnvel Ólafi Ólafssyni persónulega skv. 18. gr. laga nr. 91/1991, enda hafi þrotabú Sumarhúsa ehf. hagsmuna að gæta.

Af hálfu stefndu er sérstaklega mótmælt kröfugerð stefnanda sem rangri og órökstuddri.  Gerð sé krafa um endurgreiðslu þess sem stefnandi greiddi til lúkningar áhvílandi veðskuld, 286.592 krónur.  Að öðru leyti sé höfð uppi krafa um vinnutap í níu daga, flugmiða og dagpeninga og aksturskostnað. Stefndu mótmæla eindregið bótakröfu stefnanda sem órökstuddri og rangri. Þá er vaxtakröfu stefnanda algjörlega mótmælt.  Stefndu verði eigi stefnt in solidum enda séu skilyrði samaðildar eigi til staðar. Engin rök séu fyrir slíku og beri að vísa máli þessu frá dómi ex officio.

Af hálfu stefndu, Hrafns Sturlusonar og þb. Bílasölunnar Borgar ehf., er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 18. gr. 2. mgr. og 1. mgr. 19. gr., varðandi aðild, og 130. gr. 1. mgr., varðandi málskostnað, sbr. 129. gr. 4. tl., varðandi vexti, og 132. gr. 2. mgr.  Stefndi, Hrafn Sturluson, sé eigi virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dæmdan virðisaukaskatt á tildæmdan málskostnað, 24,5%, skv. lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

 

Málsástæður og rökstuðningur stefnda, Óskars Guðna V. Guðnasonar:

Aðalkröfu sína byggir stefndi, Óskar, á því að hann hafi ekki valdið stefnanda neinu tjóni, hafi hann orðið fyrir einhverju tjóni.  Þvert á móti hafi hann gert allt sem í hans valdi stóð til þess að forða því að stefnandi yrði fyrir tjóni.  Hann hafi hagað sér í samræmi við þær kröfur sem gera verði til góðra starfsmanna bílasala við þessar aðstæður.  Um sök sé því ekki að ræða af hans hálfu.  Þegar láninu við Samvinnusjóð Íslands hf. hafi ekki verið aflétt hafi stefndu gengið í að selja bifreiðina UR-047 og ráðstafa andvirði hennar til greiðslu inná lánið.  Þegar í ljós hafi komið að skuldin var ekki greidd, hafi stefndi, Óskar, ítrekað haft samband við seljandann sem leitt hafi til þess að hann hafi fengið frá honum tékka til uppgreiðslu á skuldinni. Stefndi, Óskar, hafi sjálfur farið með tékkann og fengið fullnaðarkvittun frá Samvinnusjóði Íslands hf..  Þegar honum hafi orðið kunnugt um að tékkinn væri innistæðulaus, hafi hann enn leitað ítrekað til seljandans.  Það hafi leitt til þess að bílasala sú sem hann vinni nú hjá, hafi undir höndum bifreið sem seljandinn sé tilbúinn að afsala til stefnanda.  Þetta sýni svo ekki verði um villst að stefndi hafi gert sitt besta og raunar farið langt út fyrir það sem ætlast mátti til af honum við þessar kringumstæður.

Stefndi, Óskar, byggir og á því að í umboði til hans sem starfsmanns bílasölunnar, hafi aðeins falist heimild til þess að undirrita afsal og önnur gögn sem tengdust sölunni beinlínis, en engan veginn heimild til þess að flytja veð á milli bíla.  Hann hafi orðið að halda sig innan ramma umboðsins og ekki verið heimilt að fara út fyrir það.  Umboðið hafi legið frammi við frágang á afsali og stefnandi kynnt sér efni þess.  Í umboðinu sé yfirlýsing frá seljanda um að hann skuldbindi sig til þess að losa veðböndin innan 20 daga frá söludegi. Sama komi fram í afsalinu til stefnanda, seljandi skuldbindi sig þar til þess að losa veðböndin fyrir 1. ágúst 1996. Stefndi, Óskar, hafi því ekki getað ábyrgst gagnvart stefnanda að veðböndin yrðu greidd eða flutt, sinnti seljandinn ekki skuldbindingum sínum þess efnis.  Hann hafi hins vegar beitt sér fyrir því að andvirði bifreiða þeirra sem urðu til í viðskiptunum gengi inná lánið.

Stefndi, Óskar, telur álitsgerð Siðanefndar Félags löggiltra bifreiðasala gersamlega út í hött. Siðanefndin gangi út frá því að bílasalan og/eða stefndi hafi getað flutt lánið án atbeina seljanda.  Slíkt sé fráleitt þegar horft sé til umboðsins og afsalsins.  Stefndi og/eða bílasalan hafi ekki haft heimild til þess að flytja lánið þegar ljóst var að seljandinn stóð ekki við skuldbindingar sínar um að losa það.  Stefndu hafi því gert það eina rétt í stöðunni, þ.e. að sjá til þess að bifreiðin UR-047 yrði seld og andvirðinu ráðstafað til greiðslu inná lánið við Samvinnusjóð Íslands hf. í þeirri viðleitni að forða því að stefnandi yrði fyrir tjóni.  Það að seljandinn hafi tekið bifreiðina Y-18628 og ekki skilað aftur til stefndu og í kjölfar þess tjáð þeim að hann hefði greitt skuldina að fullu, verði stefndu með engu móti kennt um.  Þar sé við seljanda einan að eiga.  Stefndi hafi aldrei getað séð fyrir að atburðarásin yrði með þeim hætti sem raun varð á.  Um sök sé því ekki að ræða.

Varakröfu sína styður stefndi við sömu sjónarmið og fram koma í umfjöllun um aðalkröfuna.  Mótmælir stefndi kröfugerð stefnanda eins og hún liggur fyrir. Sérstaklega er mótmælt kröfum vegna vinnutaps og dagpeninga svo og kostnaði vegna flugs og aksturs. Ekki sé trúverðugt að stefndi hafi þurft að dvelja í Reykjavík í nokkra daga vegna lausnar málsins í október, nóvember og desember þegar ekkert sérstakt hafi verið að gerast í því.  Auðvelt sé að eiga samskipti í gegnum síma, tölvu- og eða faxtæki og því erfitt að sjá hvað stefnandi hafi verið að gera allan þennan tíma.

Þá byggir stefndi, Óskar, á því að ekki liggi enn fyrir hvort krafan fáist greidd að fullu, þar sem enn eigi eftir að selja bifreiðina RS-691 og fyrir liggi yfirlýsing um að Ólafur Ólafsson, fyrrum forsvarsmaður seljanda, f.h. fyrirtækis síns, sé tilbúinn að afsala henni til stefnanda.  Endanlegt tjón stefnanda liggi því ekki fyrir og líklegt sé að hægt sé að ljúka málinu með því að afsala bifreiðinni til stefnanda.  Kröfugerð á hendur stefnda sé því hvorki viðeigandi né tímabær.

Um frekari lagarök vísast til meginreglna kröfu- og samningsréttar um vanefndir og til meginreglna samningaréttar og samningalaga um umboð og umboðsmennsku.  Varðandi málskostnaðarkröfu vísast til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi þeir stefnandi, stefndi, Hrafn Sturluson, stefndi, Óskar Guðni v. Guðnason, og  Ólafur Ólafsson.

 

Niðurstaða

Umboð Sumarhúsa ehf. varðandi sölu á bifreiðinni V-767 er til Bílasölunnar Borgar c/o Óskar Guðnason, sem var starfsmaður stefnda, Bílasölunnar Borgar ehf., á þessum tíma. Umboðið er takmarkað við sölu á bifreiðinni VO-767.

Í umboðinu segir að á bifreiðinni séu veðbönd sem seljandi lofar að losa innan 20 daga frá söludegi. Sama yfirlýsing er í afsalinu til stefnanda. Með undirritun sinni sem kaupandi á afsali fyrir bifreiðinni VO-767 samþykkti stefnandi kaup á bifreiðinni með veðböndum sem seljandi, þ.e. Sumarhús ehf., lofaði að losa fyrir 1. ágúst 1996. Seljandinn stóð ekki við þessa yfirlýsingu.

Gegn andmælum af hálfu stefndu er ósannað að starfsmaður stefnda, Bílasölunnar Borgar ehf., hafi fullyrt að ef skuldin yrði ekki greidd upp þá myndi hann flytja veðböndin yfir á UR-047. Það var í verkahring seljanda en ekki stefnda, Bílasölunnar Borgar ehf., að annast það að veðinu væri aflétt. Bílasalar bera ekki ábyrgð á efndum kaupsamninga. Stefnandi afsalaði bifreið sinni, UR-047, til seljanda VO-767, Sumarhúsa ehf. Verður ekki séð hvernig starfsmenn stefnda, Bílasölunnar Borgar ehf., gátu flutt veð yfir á eign Sumarhúsa ehf.

Það var fyrir vanefndir seljanda bifreiðarinnar VO-767, Sumarhúsa ehf., að stefnandi varð fyrir tjóni sínu. Ekki hefur verið sýnt fram á að starfsmenn stefnda, þb. Bílasölunnar Borgar ehf., hafi ekki farið að lögum við viðskiptin sem málið er af risið. En fram er komið að starfsmaður bílasölunnar, stefndi, Óskar, lagði sig fram um lausn málsins.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verða stefndu sýknaðir af kröfum stefnanda í máli þessu.

Samkvæmt 1.mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað. Stefnandi greiði stefnda, Óskari Guðnasyni, 60.000 kr. í málskostnað. Stefnandi greiði stefnda, Hrafni Sturlusyni, 45.000 kr. í málskostnað og stefnda, þb. Bílasölunnar Borgar ehf., 45.000 kr. í málskostnað.

Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Stefndu, þb. Bílasölunnar Borgar ehf., Hrafn Sturluson og Óskar Guðnason, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Stefáns Sigurðar Stefánssonar, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda, Óskari Guðnasyni, 60.000 kr. í málskostnað. Stefnandi greiði stefnda, Hrafni Sturlusyni, 45.000 kr. í málskostnað og stefnda, þb. Bílasölunnar Borgar ehf., 45.000 kr. í málskostnað.