Hæstiréttur íslands

Mál nr. 232/2008


Lykilorð

  • Lögbann
  • Sameign


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2008.

Nr. 232/2008.

Félagsbúið Miðhrauni II sf.

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Miðhrauni ehf.

(Anton B. Markússon hrl.)

 

Lögbann. Sameign.

M krafðist staðfestingar lögbanns um að F yrði meinað að efna til eða standa fyrir losun og urðun jarðvegs og úrgangs á mel á óskiptu sameignarlandi aðila. Í lögbannsbeiðninni byggði M á því að á greindan mel væri verið að flytja mikið magn af jarðvegi sem í væri úrgangur og plastrusl frá fiskvinnslu F sem raska myndi ásýnd landsins. Framkvæmdaleyfis hefði ekki verið aflað og heilbrigðiseftirlit hefði krafðist þess að látið yrði af dreifingu fiskafurða á svæðinu. Þá hefði ekki verið aflað samþykkis M sem væri eigandi svæðisins. Leyst var úr deilu málsaðila um eignarrétt að landi því sem lögbannið varðaði með dómi Hæstaréttar nr. 89/2008. Meðal gagna málsins voru bréf héraðsfulltrúa Landgræðslu ríkisins og Túns vottunarstofu. Af þeim mátti ráða að þekja með lífrænum efnum hjálpi til við uppgræðslu lands. Einnig lá fyrir í málinu bréf skipulags og byggingarfulltrúa sem taldi framkvæmdina ekki leyfisskylda. Þá var niðurstaða skipulags- og byggingarnefndar á sama veg og framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlitsins á Vesturlandi gerði engar athugasemdir við framkvæmdina. Upplýst var af hálfu F að tilgangurinn hefði verið að freista þess að græða melinn upp með því að hjálpa staðbundnum plöntum að ná sér á strik og var sú yfirlýsing F lögð til grundvallar í málinu. Talið var að M hefði ekki tekist að sanna að hann yrði fyrir tjóni ef framkvæmdunum yrði fram haldið eins og lýst var, enda var tilgangurinn ekki að breyta hefðbundinni notkun hins sameiginlega lands. Samkvæmt þessu var fallist á kröfu F um að fella lögbannið úr gildi.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. apríl 2008. Hann krefst sýknu af staðfestingu lögbanns sem lagt var á 26. júlí 2007 og staðfest var með hinum áfrýjaða dómi þannig að áfrýjanda væri meinað að efna til eða standa fyrir losun og urðun jarðvegs og úrgangs á mel vestan við Sandatún á óskiptu sameignarlandi aðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og honum dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Málsaðilar hafa deilt um eignarrétt að landi því sem lögbannið varðar. Úr þeirri deilu var leyst með dómi Hæstaréttar 16. þessa mánaðar í máli nr. 89/2008 og var niðurstaðan sú að landið væri í óskiptri sameign aðila.

Af hálfu áfrýjanda hefur því verið lýst yfir fyrir Hæstarétti, að framkvæmd sú sem stefndi lét stöðva með lögbanninu sé í því fólgin að flytja á svæðið mold og lífræn efni, svo sem fiskslor, blanda þessu saman á staðnum og láta það brotna niður í tiltekinn tíma. Síðan eigi að dreifa því jarðefni sem þannig verður til í þunnu lagi yfir svæðið, sem mun vera um 8 hektara uppblásinn melur. Tilgangurinn sé að freista þess að græða melinn upp með því að hjálpa staðbundnum plöntum að ná sér á strik. Meðal gagna málsins eru bréf héraðsfulltrúa Landgræðslu ríkisins 1. ágúst 2007 og Túns vottunarstofu 24. ágúst 2007. Af þeim má ráða að þekja með lífrænum efnum, eins og að framan er lýst, hjálpi til við uppgræðslu lands með því að mynda jarðveg fyrir staðbundinn gróður. Einnig eru í málinu bréf skipulags- og byggingarfulltrúans í Eyja- og Miklaholtshreppi og Helgafellssveit 24. júlí 2007 þar sem fram kemur að fulltrúinn hafi farið á staðinn vegna fyrirspurnar stefnda um það hvort framkvæmdin væri ólögleg. Hann hafi fengið skýringar eigenda og sé hún að hans mati ekki leyfisskyld. Niðurstaða skipulags- og byggingarnefndar 12. júlí 2007 hafi verið á sama veg. Stefndi leitaði einnig til Helga Helgasonar framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Vesturlands vegna „dreifingar á fiskúrgangi“ og brást hann við erindinu 14. júní 2007 með því að áminna áfrýjanda í tölvupósti um að dreifing fiskúrgangs á land til áburðar bryti gegn starfsleyfi fiskvinnslufyrirtækis félagsins. Hinn 10. júní 2008, eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms, gaf Helgi Helgason skýrslu fyrir dómi. Þar kom fram að áfrýjandi hefði haft samband við hann og útskýrt að aðgerðirnar fælust í að blandað hefði verið fiskúrgangi í mold og hafi hann í framhaldi af því farið á vettvang 19. júní 2007. Þá hefðu verið á staðnum 11 moldarhrúgur og hvorki hefði sést í þeim fiskúrgangur né plast eins og myndir frá stefnda hefðu gefið til kynna. Þetta hafi verið „hrein áburðargjöf“. Í lok vettvangsgöngunnar hefði hann tjáð áfrýjanda að heilbrigðiseftirlitið gerði engar athugasemdir.

Áfrýjandi heldur því fram að allt efni sem til standi að dreifa sé nú komið á staðinn og ekki sé um urðun að ræða.

Stefndi hélt því fram við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti að tilgangur áfrýjanda með aðgerðunum væri að rækta upp tún vestan svonefnds Sandatúns og breyta þannig ásýnd og nytjum landsins. Í lögbannsbeiðni 20. júlí 2007 byggði stefndi á því að á greindan mel væri verið að flytja mikið magn af jarðvegi sem í væri úrgangur og plastrusl frá fiskvinnslu áfrýjanda, þannig væri verið að raska ásýnd landsins. Framkvæmdaleyfis hefði ekki verið aflað og heilbrigðiseftirlit hefði krafist þess að látið yrði af dreifingu fiskafurða. Þá hefði ekki verið aflað samþykkis stefnda sem væri eigandi svæðisins.

Við úrlausn máls þessa verður að leggja til grundvallar yfirlýsingu áfrýjanda um aðferð, umfang og tilgang hinna umdeildu framkvæmda. Rök stefnda fyrir lögbannsbeiðninni sem lúta að séreignarrétti hans, nauðsyn á framkvæmdaleyfi eða athugasemdum heilbrigðiseftirlits eiga samkvæmt framansögðu ekki lengur við. Verður þá að taka afstöðu til þess hvort umþrætt aðgerð brjóti í bága við rétt stefnda sem sameiganda landsins. Beit hefur verið hefðbundin nýting svonefnds fjalllands, sem umræddur melur er á. Stærð þess er um 1.200 hektarar og melurinn þar af 8 hektarar. Áfrýjandi stundar sauðfjárbúskap á jörðinni og fiskvinnslu. Báðir aðilar hafa reynt að sporna við uppblæstri á melnum án árangurs. Áfrýjandi með því að bera hey í rofabörð, en stefndi með því að dreifa áburði og fræjum á svæðið. Eigi er annað fram komið í málinu en að þær ráðstafanir sem áfrýjandi lýsir teljist eðlilegar í því ljósi að tilgangur þeirra sé að hefta landeyðingu og endurheimta staðbundinn gróður. Stefnda hefur ekki tekist sönnun um að hann verði fyrir tjóni ef framkvæmdunum verður fram haldið eins og lýst er, enda ekki verið að breyta hefðbundinni notkun hins sameiginlega lands.

Með því að stefndi hefur ekki sannað að aðgerðir áfrýjanda séu þess eðlis sem lýst er í lögbanninu, að þær hafi valdið honum tjóni, eða að hann hafi aðra lögmæta hagsmuni af því að þær séu stöðvaðar, eða að þær séu ósamrýmanlegar eðlilegri nýtingu og viðhaldi landsins, þá er fallist á kröfu áfrýjanda um að fella lögbannið úr gildi.

Í samræmi við framangreinda niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Félagsbúið Miðhrauni II sf., er sýknað af kröfu stefnda, Miðhrauns ehf.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 15. apríl 2008.

Mál þetta var höfðað 14. ágúst 2007 og dómtekið 7. apríl 2008. Stefnandi er Miðhraun ehf., Miðhrauni I í Eyja- og Miklaholtshreppi, en stefndi er Félagsbúið Miðhrauni II sf., Miðhrauni II í sama sveitarfélagi.

Stefnandi gerir þá kröfu að staðfest verði lögbann sýslumannsins í Stykkishólmi frá 26. júlí 2007, við háttsemi, sem lýst er þannig í gerðabók sýslumanns: „að gerðarþoli, Félagsbúið Miðhrauni II sf., efni til eða standi fyrir losun og urðun jarðvegs og úrgangs innan þinglýstra landamerkja Miðhrauns I í Eyja- og Miklaholtshreppi“. Jafnframt krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða málskostnað.

Stefndi krefst þess aðallega að synjað verði um staðfestingu lögbannsins, en til vara að lögbannið verði þrengt þannig að það nái aðeins til losunar og urðunar jarðvegs og úrgangs á svæði vestan svokallaðs afgirts Sandatúns innan þinglýstra marka Miðhrauns I. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar með álagi úr hendi stefnanda.

I.

Jörðin Miðhraun er í Eyja- og Miklaholtshreppi á innanverðu Snæfellsnesi. Jörðin var lengst af nýtt til búrekstrar en um miðbik liðinnar aldar var hún í eigu Þórðar Kristjánssonar. Svo sem hér verður rakið hefur jörðinni verið skipt í Miðhraun I og Miðhraun II.

Hinn 28. október 1951 tók hreppstjóri Miklaholtshrepps ásamt úttektarmanni hreppsins fyrir að skipta út landi Miðhrauns að ósk Guðmundar Þórðarsonar, sem hafði ákveðið að stofna nýbýli á jörð föður síns. Samkvæmt landskiptagjörðinni eru landamerki nýbýlisins eftirfarandi:

Að vestan úr vörðu á vestara horni Draugakima, þaðan sjónhending í Stórakrók í Króklæk, svo ræður Króklækur merkjum að landamerkjum Eiðhúsa og Miðhrauns.

Að sunnan samkvæmt landamerkjum Eiðhúsa og Miðhrauns.

Að austan samkvæmt landamerkjum Hörgsholts og Miðhrauns upp að hraunsnoppum.

Að norðan úr Sligalæk meðfram hraunsnoppum í vörðu á vestara horni Draugakima.

Í samræmi við landskiptagjörðina gaf Þórður Kristjánsson út afsal 10. nóvember 1952 til Guðmundar vegna nýbýlisins. Í afsalinu er tekið fram að hluti þessi væri um þriðjungur af jörðinni og þar er landamerkjum lýst á sama veg og í landskiptagjörðinni. Þó er kennileitið Draugakimi nefnt Þjófakimi í afsalinu, auk þess sem afsalið lýsir ekki landamerkjum til suðurs. Að lokinni merkjalýsingu í afsalinu segir síðan að fjallland sé óskipt á móti Miðhrauni I.

Sama dag og Þórður gaf út afsalið til Guðmundar afsalaði hann einnig til sonar síns Kristjáns Þórðarsonar jörðinni Miðhrauni með tilheyrandi gögnum og gæðum eftir að búið var að skipta út úr jörðinni landi nýbýlisins Miðhraun II samkvæmt landskiptagjörðinni frá 28. október 1951. Í afsalinu segir síðan svo:

Merki þessarar jarðar sem framvegis verður sérstök jörð Miðhraun I, eru sem hér segir:

Að vestan samkvæmt landamerkjum Hjarðarfells og Miðhrauns, að sunnan samkvæmt landamerkjum Eiðhúss og Miðhrauns, að Króklæk, þaðan ræður Króklækur að Stórakrók, sjónhending úr Stóra-Krók úr vörðu á vestari horni Þjófakima, þaðan meðfram Hraunsnoppu í Sligalæk. Að austan samkvæmt landamerkjum Hörgsholts og Miðhrauns.

Í afsalinu fylgir íbúðarhús jarðarinnar og útihús eins og þau eru nú. Lóðir þær sem íbúðarhús og útihús jarðarinnar Miðhraun I standa á í landi jarðarinnar Miðhraun II skulu fylgja Miðhrauni I og hefir Miðhraun I framvegis fullan aðgang og umferðarrétt að þeim húsum. Fjallland er óskipt á móti Miðhraun II. Ennfremur fylgir hinn sameiginlegi vegur á móti Miðhrauni II.

Hinn 21. janúar 1961 var gefið út landamerkjabréf fyrir Miðhraun II og var það undirritað af bræðrunum Guðmundi og Kristjáni og eigendum aðliggjandi jarða og hreppstjóra Miklaholtshrepps. Í landamerkjabréfinu er mörkum lýst þannig:

Að vestan takmarkast landamerki úr vörðu á vestara horni Þjófakima, þaðan sjónhending í Stórakrók í Króklæk, síðan ræður Króklækur merkjum að landamerkjum Eiðhúsa og Miðhrauns I.

Að sunnan takmarkast úr Eiðhúsalæk sjónhending í Stapa við Hraunlæk, eða svonefndan Sligalæk.

Að austan takmarkast af Sligalæk (Hraunlæk) upp að hrauni.

Að norðan úr Sligalæk (Hraunlæk) meðfram hraunsnoppum í vörðu á vestarahorni Þjófakima.

Fjallland er óskipt, eða sameiginlegt til beitar með Miðhrauni I.

Eftir að hafa brugðið búi seldi Kristján Þórðarson syni sínum, Veturliða Rúnari Kristjánssyni, jörðina Miðhraun I. Hann afsalaði síðan jörðinni til stefnanda.

Þegar Guðmundur Þórðarson lét af búskap keypti dóttir hans, Bryndís Guðmundsdóttir, og Sigurður Hreinsson, eiginmaður hennar, jörðina Miðhraun II. Þau reka félagsbúið sem er stefnt í málinu, en búið er þinglýstur eigandi jarðarinnar.

II.

Aðilar hafa um árabil deilt um ýmis málefni sem snerta eignarhald jarðanna án þess að það verði rakið í einstökum atriðum. Sá ágreiningur hefur þó öðru fremur lotið að mörkum Miðhrauns I til norðurs gagnvart fjalllandinu og að því hvort beinn eða óbeinn eignarréttur að fjalllandinu fylgi Miðhrauni II. Hefur stefnandi haldið því fram að stefndi eigi eingöngu beitarrétt að fjalllandinu, en stefndi telur hins vegar að fjalllandið sé óskipt með jörðunum.

Hinn 21. nóvember 2005 höfðaði stefndi mál á hendur stefnanda til að fá skorið úr þessum ágreiningi. Jafnframt krafðist stefndi viðurkenningar á því að Miðhrauni II fylgdi sem úrskipt land svokallað Sandatún sem liggur nokkuð fyrir norðan Þjófakima, sem er hornmark Miðhrauns II til norðvesturs. Máli þessu lauk með dómi réttarins 14. nóvember 2007 en þar var komist að þeirri niðurstöðu að fjalllandið væri að jöfnum hlutum í óskiptri sameign aðila. Einnig var dæmt að mörk fjalllandsins til suðurs væru eftir línu sem markaðist af hraunbrún sem liggur þvert yfir Miðhraun frá landamerkjum gagnvart jörðinni Hörgsholti til austurs og fast að Grímsá, sem landamerki til vesturs gagnvart jörðinni Hjarðarholti eru miðuð við. Þá var hafnað kröfu um að Sandatún væri úrskipt séreignarland stefnda. Dómi þessum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.

III.

Stefnandi heldur því fram að fyrirsvarsmenn félagsins hafi orðið þess áskynja 11. júní 2007 að stefndi stóð fyrir umfangsmiklum flutningum á jarðvegi á mel vestan við Sandatún. Það land sem um ræðir liggur skammt fyrir norðan hraunjaðarinn sem mörk fjalllandsins gagnvart séreignarlandi Miðhrauns eru miðuð við í fyrrgreindum dómi réttarins frá 14. nóvember 2007.

Með bréfi lögmanns stefnanda 12. júní 2007 til lögmanns stefnda var framkvæmdunum mótmælt og þess krafist að látið yrði af þessum athöfnum. Jafnframt var gerð sú krafa að allur jarðvegur, sem ekið hefði verið á melinn, yrði fjarlægður án tafar. Að öðrum kosti áskildi stefnandi sér rétt til að flytja jarðveginn á kostnað stefnda. Þessu erindi svaraði lögmaður stefnda með bréfi 15. sama mánaðar, en þar sagði að ekki væri ástæða til andsvara eða skýringa þar sem efnisatriði í bréfi lögmanns stefnanda væru byggð á misskilningi.

Samhliða mótmælum gagnvart stefnda beindi lögmaður stefnanda bréfi samdægurs að skipulagsfulltrúa Eyja- og Miklaholtshrepps og tilkynnti um athafnir stefnda. Var því einnig haldið fram að framkvæmdir þessar væru bundnar framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar, enda um að ræða breytingu lands með jarðvegi, sem hefði áhrif á umhverfið og breytti ásýnd þess, sbr. 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingalaga, nr. 73/1997. Þá var þess krafist að skipulagsfulltrúi neytti heimildar í 1. mgr. 56. sömu laga til að stöðva framkvæmdirnar þegar í stað. Þessu erindi svaraði skipulags- og byggingafulltrúi með bréfi 24. júlí sama ár þar sem fram kom að skipulags- og byggingarnefnd og sveitarstjórn ætluðu ekki að láta málið til sín taka, enda væri ekki um að ræða leyfisskylda framkvæmd.

Jarðvegur sá sem stefndi flutti á melinn nærri Sandatúni hefur að geyma úrgang frá fiskvinnslu stefnda. Stefnandi leitaði því til Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og fór þess á leit að embættið léti málið til sín taka. Í tölvubréfi eftirlitsins 14. júní 2007 til fyrirsvarsmanna stefnda var því haldið fram að óheimilt væri að dreifa fiskúrgangi á landi, hvort sem úrgangurinn væri blandaður mold eða öðrum hjálparefnum. Einnig sagði að slík framkvæmd færi í bága við starfsleyfi fyrirtækisins. Var þess krafist að öll dreifing fiskafurða til áburðar yrði stöðvuð þegar í stað. Auk þess var tekið fram að afla yrði leyfis heilbrigðisnefndar til að fiskafurðir yrðu nýttar sem áburður á jörð.

Hinn 27. júní 2007 ritaði lögmaður stefnanda bréf til lögmanns stefnda þar sem þess var krafist að allur jarðvegur á melnum yrði fjarlægður innan viku, en ella myndi stefnandi hlutast til um þá framkvæmd á kostnað stefnda. Með bréfi 5. júlí sama ár var þeirri ráðstöfun mótmælt sem ólögmætri og refsiverðri sjálftöku.

Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi virt að vettugi fyrrgreind andmæli og afskipti yfirvalda og ekki látið af flutningi jarðvegs og úrgangs á melinn. Fullyrðir stefnandi að dagana 17.-19. og 23. og 24. júlí 2007 hafi stefndi ekið um 20 vörubílsförmum á melinn í óþökk stefnanda. Stefnandi taldi sig því knúinn til að hindra athafnir stefnda með því að fá lagt á þær lögbann. Eftir að stefnandi krafðist lögbanns með bréfi 20. júlí 2007 heldur hann því fram að framkvæmdir stefnda hafi færst mjög í aukana. Telur stefnandi að yfir 60 bílförmum af úrgangi og mold hafi verið ekið á melinn 25. sama mánaðar.

Hinn 26. júlí 2007 var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Stykkishólmi krafa stefnanda um lögbann. Við gerðina voru mætti lögmenn aðila sem lögðu fram gögn og ítrekuðu kröfur umbjóðenda sinna en síðan var eftirfarandi fært til bókar:

Með vísan til 3. mgr. 29. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 31/1990, ákveður fulltrúi sýslumanns að hafna mótmælum gerðarþola og halda gerðinni þannig áfram. Hann skorar á lögmann gerðarþola að hlutast til um að umbjóðandi hans láti þegar af losun og urðun jarðvegs innan þinglýstra landamerkja Miðhrauns I í Eyja- og Miklaholtshreppi. Lögmaður gerðarþola neitar að verða við þeirri áskorun. Er hann þá inntur eftir sjónarmiðum sínum um atriði sem varða fjárhæð tryggingar úr hendi gerðarbeiðanda. Fulltrúi sýslumanns greinir frá þeirri ákvörðun sinni að lögbann nái fram að ganga og að hann telji þegar framlagða tryggingu að fjárhæð kr. 1.500.000 fullnægjandi.

Fulltrúi sýslumanns leggur hér með lögbann við því að gerðarþoli, Félagsbúið Miðhrauni II sf., efni til eða standi fyrir losun og urðun jarðvegs og úrgangs innan þinglýstra landamerkja Miðhrauns I í Eyja- og Miklaholtshreppi.

Brýnt er fyrir lögmanni gerðarþola þýðing lögbannsins. Hann kveður gerðarþola hlíta lögbanninu en hann unir ekki við gerðina án málshöfðunar.

IV.

Stefnandi heldur því fram að melurinn þar sem stefndi hefur losað jarðveg og sorp sé í sinni eigu. Vísar stefnandi til þess að á því hafi verið byggt af hans hálfu í máli milli aðila sem lauk með dómi 14. nóvember 2007. Þótt dæmt hafi verið að fjalllandið, þar sem melinn er að finna, sé óskipt sameignarland aðila sé þess að gæta að dóminum hafi verið áfrýjað til að fá þeirri niðurstöðu hnekkt.

Stefnandi telur að ágreiningur málsaðila um eignarhald á fjalllandinu breyti engu fyrir niðurstöðu þessa máls. Í öllu falli sé landsvæðið í óskiptri sameign aðila og því þurfi samþykki stefnanda til að jarðvegur frá stefnda með fiskúrgangi og sorpi verði fluttur á melinn. Í þessu sambandi bendir stefnandi á að framkvæmdin breyti hagnýtingu svæðisins, sem hingað til hafi verið notað til beitar, auk þess sem framkvæmdin hafi í för með sér óafturkræfa breytingu á svipmóti og umhverfi jarðarinnar. Þá bendir stefnandi á að dreifing úrgangs á landinu brjóti í bága við reglugerð um meðferð úrgangs, nr. 737/2003, og skilyrði starfsleyfis fyrir fiskvinnslu stefnda.      

Til að hindra frekari röskun á lögvörðum rétti sínum til eignarinnar telur stefnandi sig hafa verið knúinn til að leita lögbanns við frekari athöfnum stefnda, enda honum ekki önnur úrræði tæk, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990. Stefnandi heldur því fram að hann verði fyrir umtalsverðu tjóni fái stefndi að halda framkvæmdum áfram óáreittur, þar sem áratugalangri skipan og hagnýtingu jarðarinnar verði breytt og verðmæti hennar spillt með ólögmætri losun úrgangs.

Stefnandi vísar til þess að framkvæmdir þær sem lögbann var lagt við hafi verið yfirstandandi og þær brotið gegn lögvörðum rétti hans. Telur stefnandi því að öll skilyrði lögbanns hafi verið fyrir hendi, sbr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Um lagagrundvöll málshöfðunarinnar að öðru leyti vísar stefnandi til IV. kafla sömu laga, óskráðra reglna um hagnýtingu sameignar og 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins.

V.

Stefndi tekur fram að hann hafi ekið jarðvegi og fiskúrgangi á melinn vestan við Sandatún í þeim tilgangi að hefta uppblástur á svæðinu og koma í veg fyrir sandfok. Hér sé því um að ræða uppgræðslu örfoka lands. Nánar lýsir stefndi þessu þannig að fyrirhugað hafi verið að dreifa úr jarðveginum en í kjölfarið muni staðargróður innan fárra ára þekja landið þannig að starfhæft vistkerfi verði endurheimt. Þessi framkvæmd sé því til mikilla bóta og muni auka jarðgæði.  

Stefndi bendir á að stefnandi sjálfur hafi talið ástæðu til að grípa til aðgerða til að hefta uppblástur á landinu og hafi í því skyni borið tilbúinn áburð á svæðið fyrir nokkrum misserum. Því skjóti óneitanlega skökku við að stefnandi sé nú að amast við sambærilegum aðgerðum stefnanda. Einnig bendir stefndi á að ekki hafi verið aflað samþykkis fyrir þessum aðgerðum og því hafi stefndi talið útilokað að stefnandi færi að gera veður út af því að jafn sjálfsagðar framkvæmdir hefðu ekki verið bornar undir hann til samþykkis. Þess utan hafi verið óþarft að afla sérstaks samþykkis fyrir varnaraðgerðum af þessu tagi sem stefnda hafi verið heimilt að grípa til í skjóli eignarréttar síns að landinu.

Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, til að lögbann yrði lagt á athafnir stefnda. Til stuðnings því bendir stefndi á að athafnir hans hafi verið um garð gengnar og því sé ekki fullnægt þeim áskilnaði ákvæðisins að athöfn sé byrjuð eða yfirvofandi. Auk þess hafi landbætur stefnda ekki brotið gegn lögvörðum rétti stefnanda eða valdið því að réttindi hans færu forgörðum eða yrðu fyrir spjöllum, meðan stefnandi biði þess að dómur gengi til að leysa úr ágreiningi aðila. Enn fremur bendir stefnandi á að framkvæmdirnar séu ekki varanlegar og hægur vandi að koma landinu aftur í fyrra horf.

Stefndi heldur því fram að heimild til að leggja á lögbannið hafi ekki verið fyrir hendi þar sem réttarreglur um refsingar eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna stefnanda tryggi þá nægjanlega, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Þá sé þess að gæta að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni af athöfnum stefnda heldur þvert á móti séu þær landinu og málsaðilum til hagsbóta með því að breyta gróðursnauðu landi í grónar grundir.    

Verði skilyrði lögbanns talin vera fyrir hendi telur stefndi að lögbannið sé of víðtækt, enda komi það eftir orðanna hljóðan í veg fyrir allar landbætur og hagnýtingu jarðarinnar sem þekur tæpa 2.000 hektara. Því beri að þrengja lögbannið þannig að það nái aðeins til losunar og urðunar jarðvegs og úrgangs á svæði vestan Sandatúns, enda hafi framkvæmdirnar eingöngu farið fram á þeim mel sem þar er að finna.

Loks bendir stefndi á að stefnandi hafi eingöngu uppi kröfu um staðfestingu lögbannsins en leiti ekki samhliða eftir dómi um þau réttindi sem lögbannið beinist gegn. Telur stefndi að þessi málatilbúnaður fari í bága við afdráttarlaus fyrirmæli 36. gr. laga nr. 31/1990.

VI.

Í kjölfar þess að sýslumaður hefur lagt lögbann við athöfn gerðarþola gildir sú meginregla að höfða ber dómsmál til staðfestingar á lögbanninu eftir ákvæðum VI. kafla laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990. Í slíku máli er dæmt um hvort skilyrði gerðarinnar hafi verið fyrir hendi auk þess sem leyst skal úr því hvort gerðarþoli átti þann lögvarða rétt sem lagt var lögbann við að yrði raskað. Hafi mál um þau réttindi ekki þegar verið höfðað skal í einu máli höfða málið um réttindin og til staðfestingar gerðinni, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna.

Í málinu gerir stefnandi aðeins þá kröfu að staðfest verði lögbann sýslumannsins í Stykkishólmi frá 26. júlí 2007 við athöfnum stefnda. Þannig hefur stefnandi ekki höfðað málið í því skyni að fá staðfest að stefnda sé óheimilt að flytja jarðveg og úrgang á melinn sem liggur vestan við Sandatún. Í máli milli aðila, sem lauk með dómi réttarins 14. nóvember 2007, var ekki leyst úr þessu ágreiningsefni, en þar var eingöngu dæmt um eignarhald svokallaðs fjalllands þar sem melinn er að finna og um mörk þess lands gagnvart séreignarlandi stefnanda. Að þessu leyti fer málatilbúnaður stefnanda í bága við 36. gr. laga nr. 31/1990. Annmarki þessi einn og sér getur þó ekki valdið því að málinu verði í heild vísað frá héraðsdómi, sbr. til að mynda dóma Hæstaréttar í málum nr. 29/2000 og 366/2001. Stefnandi verður þó að sæta því að dómur honum í vil myndi ekki fela í sér heimild til aðfarar eftir 75. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, sem leyst gæti af hólmi bráðabirgðavernd réttinda hans með lögbanni.

Með fyrrgreindum dómi réttarins 14. nóvember 2007 var dæmt að fjalllandið, sem upphaflega tilheyrði jörðinni Miðhrauni áður en henni var skipt í Miðhraun I og Miðhraun II, fylgdi jörðunum að jöfnum hlutum í óskiptri sameign. Verður sú niðurstaða réttarins lögð til grundvallar dómi í þessu máli.

Sú framkvæmd stefnda sem lögbann var lagt við fólst í því að flytja mikið magn af jarðvegi blandaðan úrgangi frá fiskvinnslu stefnda á sameignarland málsaðila. Þessi framkvæmd hafði ekki með nokkru móti verið borin undir stefnanda áður en hún hófst. Auk þess liggur ekki fyrir í málinu viðhlítandi lýsing á framkvæmdinni, svo sem því magni af jarðvegi sem átti að flytja á melinn og hvaða úrgang frá vinnslu stefnda jarðvegurinn hafði að geyma, en fram hefur komið og er ómótmælt að í honum var í einhverjum mæli plastsorp. Þá er þess að gæta að Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hefur lagst gegn framkvæmdinni og bent stefnda á að leyfi heilbrigðisnefndar sé áskilið til að fiskúrgangur verði nýttur til áburðar á jörð. Slíkt leyfi liggur ekki fyrir og ekkert hefur komið fram um að heilbrigðisyfirvöld hafi fallið frá andmælum sínum. Að þessu virtu er vafalaust að stefnda var upp á sitt eindæmi óheimilt að grípa til þessara ráðstafana. Með athöfnum sínum hefur stefndi því brotið gegn lögvörðum rétti stefnanda sem sameiganda landsins.

Þegar krafa stefnanda um lögbann var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Stykkishólmi var, í samræmi við fyrirmæli 27. gr. laga nr. 31/1990, skorað á stefnda að láta af þeirri athöfn, sem lögbanns var krafist við. Af hálfu stefnda var því lýst yfir að hann neitaði að verða við þeirri áskorun. Að því gættu og með hliðsjón af því að stefndi flutti jarðveg og úrgang á melinn allt þar til lögbannið var lagt á stoðar ekki fyrir hann nú að bera því við að framkvæmdin sé um garð gengin.

Þótt ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar um það magn af efni sem stefndi flutti á melinn leikur ekki vafi á því að það var umtalsvert. Jafnframt hefur komið fram að nokkurt jarðrask fylgir slíkum flutningum þar sem notast er við þungavinnuvélar. Samsvarandi rask myndi fylgja því að flytja jarðveg brott af melnum. Þegar þetta er virt verður ekki talið að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna stefnanda tryggi þá nægjanlega, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið verður staðfest lögbann það sem sýslumaðurinn í Stykkishólmi lagði við athöfnum stefnda 26. júlí 2007. Þó þykja ekki efni til að marka lögbanninu víðtækara gildi en athafnir stefnda gefa tilefni til og verður það því bundið við losun og urðun úrgangs á melnum vestan við Sandatún, svo sem miðað er við í varakröfu stefnda.       

Eftir þessum málsúrslitum verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í dómsorði.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Staðfest er lögbann sýslumannsins í Stykkishólmi frá 26. júlí 2007 þannig að stefnda, Félagsbúinu Miðhrauni II sf., er meinað að efna til eða standa fyrir losun og urðun jarðvegs og úrgangs á mel vestan við Sandatún á óskiptu sameignarlandi málsaðila.

Stefndi greiði stefnanda, Miðhrauni ehf., 400.000 krónur í málskostnað.